BÆNIR - LJÓÐ

 

LÍTIL KVEÐJA.

Þeir segja mig látna, ég lifi samt
og í ljósinu fæ ég að dafna.
Því ljósi var úthlutað öllum jafnt
og engum bar þar að hafna.

Frá litlu hjarta berst lítil rós,
því lífið ég þurfti að kveðja.
Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,
sem að mun ykkur gleðja.

        G.Ingi. Takk Ágústa

Þessa fallega kveðja var send foreldrum sem misstu nýfætt barn sitt.

 

Bæn um hina sönnu trú

Almáttugi Guð, ég bið þig auðmjúklega að upplýsa hugskot mitt og hræra hjarta mitt með gæsku þinni, svo að með sannri trú og kærleika megi ég lifa og deyja í hinni sönnu trú Jesú Krists. Það er þessi trú, Guð minn, sem ég þrái af heilum hug að fylgja, til þess að bjarga sálu minni. Þessvegna lýsi ég því yfir að ég skal lifa í þeirri trú, sem þú sýnir mér að sé rétt, hverju sem til þarf að kosta. Það, sem ég verðskulda ekki, vænti ég að öðlast fyrir óendanlega miskunn þína. Heilög María, öndvegi viskunnar, bið þú fyrir oss. 

Amen.

AÐ VEKJA ÁST

Guð minn, ég elska þig af öllu hjarta, af því að þú ert fjarska góður, og fyrir sakir þín elska ég náunga minn eins og sjálfan mig. Amen.


 

Bæn um fyrirgefningu

Góði Drottinn Guð, ég ætla að gera eins og þú vilt og fyrirgefa öllum eins og þú fyrirgefur mér. Góði Guð, fyrirgefðu líka öllum, hvar sem þeir eru og hvað, sem þeir hafa gert. Láttu alla elska þig. Amen.

Friðarbæn

(Heilagur Frans frá Assisi)

Drottinn, ger þú mig að farvegi friðar þíns,svo að ég færi kærleika þangað sem hatur er, fyrirgefningu þangað sem móðgun er, einingu þangað sem sundrung er,trú þangað sem efi er, von þangað sem örvænting er, gleði þangað sem harmur er, ljós þangað sem skuggi er. Veit þú, Drottinn, að ég sækist fremur eftir að hugga en láta huggast, skilja en njóta skilnings, elska en vera elskaður,   því að okkur gefst ef við gefum, við finnum sjálf okkur ef við gleymum okkur sjálfum, okkur fyrirgefst ef við fyrirgefum og fyrir dauðann fæðumst við til eilífs lífs. Amen.

 

 

Bænaljóð


Að biðja sem mér bæri
mig brestur stórum á.
Minn Herra, Kristur kæri,
æ, kenn mér íþrótt þá.
Gef yndi mitt og iðja
það alla daga sé
með bljúgum hug að biðja
sem barn við föður kné.
     Björn Halldórsson


Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmislig.
Þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að Drottins náð.
     


Bæn er máttur í magnþrota höndum
sem ei megna af sjálfsvaldi neitt.
Er vér skjálfandi og styrkvana stöndum
fær Guðs styrkur þó vandanum breytt.

Að hann gleymir þér ei
muntu senn fá að sjá.
Brátt mun svarið hans berast til þín.
Því hans tállausu loforð þú treyst getur á
og hans trúfesti er aldregi dvín.

Oft þú biður að Kristur þá kalli
sem þér kærastir eru á jörð,
að í trú þeir að fótum hans falli
þiggi fórn hans með þakklætisgjörð.

Bæn er máttur af Guði þér gefinn,
hann mun grátinn þinn þerra af brá.
Burtu hrakinn sé óttinn og efinn.
Treystu orðum hans. Svar muntu fá.

Kenn mér Drottinn, með þolgæði ég þreyi,
vísa þreytu og efa á bug,
að þitt náðarsvar eitt sinn ég eygi.
Trú mér auk þú og djörfungarhug.

Að þú gleymir mér ei mun ég senn fá að sjá.
Brátt mun svarið þitt berast til mín.
Já, þín tállausu loforð ég treysta vil á
og þá trúfesti er aldregi dvín.
     Benedikt Jasonarson þýddi



Góði Guð, er ég bið,
viltu gefa rósemd og frið.
Tak burt óró, sem kringum mig er,
allan efa og kvíða frá mér.
Láttu kærleik þinn vinna sitt verk,
svo að vonin og trúin sé sterk.
Gerðu börn þín að biðjandi hjörð
og að blessun alls mannkyns á jörð.

Herra, hjálpa þú mér,
svo ég helgi lífið mitt þér.
Bæði tíminn og allt sem ég á
eru auðæfi komin þér frá.
Veit mér kærleik, svo af þessum auð
gefi ég allslausum, hungruðum brauð.
Send mér, himneski faðir, þinn frið,
er við fætur þér krýp ég og bið.

Guð, ég þakka vil þér,
að í þinni hendi ég er.
Þökk, að ætíð þú leggur mér lið,
er í lausnarans nafni ég bið.
Gef mér fúsleik, svo fagnandi ég
dag hvern feti þinn hjálpræðisveg,
uns þú opnar mér himinsins hlið
og mitt hjarta á um eilífð þinn frið.
   Þýðing  Lilja S. Kristjánsdóttir.

 

 

Guð komi til mín
og varðveiti mig frá öllu illu,
til lífs og sálar
þennan dag
og alla tíma,
í Jesú nafni.
Amen.

Ó, ljóssins faðir, lof sé þér,
að líf og heilsu gafstu mér
og föður minn og móður.
Nú sest ég upp, því sólin skín,
þú sendir ljós þitt inn til mín.
Ó, hvað þú, Guð, ert góður!
Matthías Jochumsson


Ljúfi Jesús, láttu mig
lífs míns alla daga
lifa þér og lofa þig
ljúft í kærleiks aga.
Þorkell G. Sigurbjörnsson


Frelsarinn góði, ljós mitt og líf,
lífsins í stormum vertu mér hlíf,
láttu þitt auglit lýsa yfir mig,
láttu mig aldrei skiljast við þig.

Gjörðu mig fúsan, frelsari minn,
fúsari að ganga krossferil þinn,
fúsari að vinna verk fyrir þig.
Vinurinn eini, bænheyrðu mig.
 
Bjarni Jónsson
 
 
TIL BAKA