TRÚ

 

 

TRÚIN
 
Ef guðleg frækornin geyma vilt þú
þá glæddu í sál þinni heilbrigða trú
hún veitir þér ljós þegar leiðin er myrk
Hún léttir þér göngu með andlegum styrk

FAÐIR VORIÐ

Faðir vor, þú, sem ert á himnum. 
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, 
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. 
Gef oss í dag vort daglegt brauð. 
Og fyrirgef oss vorar skuldir, 
svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. 
Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. 
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin 
að eilífu. Amen. 
 

SIGNINGIN

Í nafni Föðurins og Sonarins og hins Heilaga Anda. Amen.

 

POSTULLEGA TRÚARJÁTNINGIN
 
Ég trúi á Guð, föður almáttugan,
skapara himins og jarðar.
Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason,
Drottin vorn, sem getinn er af
heilögum anda, fæddur af Maríu mey,
píndur á dögum Pontíusar Pílatusar,
krossfestur, dáinn og grafinn,
steig niður til heljar,
reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum,
steig upp til himna, situr við hægri hönd
Guðs, föður almáttugs, og mun þaðan koma
að dæma lifendur og dauða.
Ég trúi á heilagan anda,
heilaga, almenna kirkju, samfélag
heilagra, fyrirgefningu syndanna,
upprisu holdsins og eilíft líf.
Amen.
BOÐORÐ GUÐS
 
1. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
4. Heiðra föður þinn og móður þína.
5. Þú skalt ekki morð fremja.
6. Þú skalt ekki drýgja hór.
7. Þú skalt ekki stela.
8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna né nokkuð það sem náungi þinn á.

 

 
BORÐBÆN
 
Gef oss í dag vort daglegt brauð,
vor Drottinn Guð, af þínum auð.
Vort líf og eign og bústað blessa
og blessa þú oss máltíð þessa.
En gef vér aldrei gleymum þér
er gjafa þinna njótum vér.
(Valdimar Briem.)

KÆRLEIKSBOÐORÐIÐ

Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum huga þínum og af öllum mætti þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig. (Mark 12, 30-31)

 

SKÍRNARSKIPUNIN

Allt vald er mér gefið á himni og jörðu, Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föðurins og sonarins og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldarinnar. 

(Matt. 28, 18-20).

 

INNSETNINGARORÐ KVÖLDMÁLTÍÐARINNAR

Vor Drottinn Jesús Kristur tók brauðið nóttina, sem hann svikinn var, gjörði þakkir og braut það og gaf sínum lærisveinum og sagði: Takið og etið, þetta er minn líkami, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu. Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: Drekkið allir hér af, þetta er kaleikur hins nýja testamentis í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna, gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið í mína minningu.


 

DROTTINN ER MINN HIRÐIR

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi. 

 

SÆLUBOÐIN

Sælir eru fátækir í anda, því þeirra er himnaríki.
Sælir eru sorgbitnir, því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.
(Matt. 5. 3-10)

Ljóð


Jesús er Guð þinn,
því aldrei skalt gleyma.
Hann gengur við hlið þér
og leiða þig vill.
Þú eilífa lífið,
átt honum að þakka,
hann sigraði dauðann
og lífið gaf þér.
Guðs son á himni
nú vakir þér yfir.
Hann gleymir ei bæn þinni
hver sem hún er.

Líf mitt sé falið þér,
eilífi faðir.
Faðminum þínum ég hvíla vil í.


     Sigurbjörn Þorkelsson


 

 

 

TIL BAKA