VON

 

 

Von og líf

Alla liðlanga nóttina reikaði ég um dimman skóginn. Valdi mér stíga sem skiluðu mér ekkert.
Skrámuð og marin, skreiddist ég áfram uns ég féll sigruð í hrúgur ofaná rotnandi leifar fortíðar minnar. Þá sá ég ljósglætu, heyrði veikt hljóð, rödd sem sagði: "Komdu" Ég var stödd í skógarjaðrinum, blinduð af ljósinu, skærri vetrarsól. Framundan víðáttan, grundir kringdar fjarlægum hæðum. Stakt tré fyrir miðju. Stígur bugðaðist út úr sjónmáli þaðan sem ég stóð og enn sagði röddin: "Komdu" Hrasandi, skrikandi dróst ég, mörðum fótum eftir stígnum, þar til ég leit upp og sá: Ekki tré, heldur kross. "Komdu til mín", sagði hann. "Gefðu mér byrðar þínar, gefðu mér líf þitt". "Hvað getur þú viljað með mig hafa Drottinn?", mótmælti ég. "Ég elska þig. Ég vil þig eins og þú ert". Svo lagðist ég niður við fótstall krossins og leit upp. Krossinn var horfinn, þar stóð maður eða fremur blindandi geisladýrð, sem fyllti grundirnar, himininn og hæðirnar í fjarska. Ég fann hlýju umlykja mig, samt skalf ég, það snjóaði. Hann vafði einhverju utan um mig, hvítu loðskinni, grófgerðu, en þykku, mjúku og svo hlýju. Hann hélt fast utan um mig og saman héldum við af stað, mörkuðum engin spor í ósnortna mjöllina. "Nú ertu örugg", sagði hann.
"Hagl og snjór munu bylja á þér og vindur og regn. Þú munt ekki alltaf sjá stíg. Það mun dimma af nóttu, klífa þarf fjöll og villidýr munu sitja um þig. Ef þú ert við hlið mér verður þú hluti af mér. Fótspor þín verða mín fótspor, hugsanir þínar mínar hugsanir. Og ég verð skjöldur þinn gegn slyddunni og vindinum. Armleggur minn mun hefja þig upp úr leðjunni.Ég mun leiða þig gegnum fjallaskörðin. Ég verð vernd gegn ráfandi villidýrunum. Ég verð skjól þitt og stoð. Þú þarfnast aðeins mín, því aðeins í mér er Von og Líf".
   

 

Vonin

 

Sú sæla, ó sú sæla
sem fullnægju líkamans veitir
í ætlaðri ást snertingar,
þó skynjunar leitir
í einhverju sem var
en er ei lengur.

Sú kvöl, ó sú kvöl
er sopinn úr flöskunni veldur
hvar um drýpur, rauðar varir
hvers nafni heldur
er í myrkrinu skjálfandi starir
í einhverju er leitar.

Sú von, ó sú von
er í huga okkar lifandi vaknar
hvar vekur ljós trúar
á hið góða, er sál okkar saknar
hvar kærleikann brúar
á vegum Drottins
í ferðum bænarinnar.
    

 

Vonin

Í baráttu lífsins er vinningur vís
sé vonin í fylgd þessi bjartsýna dís.
Hún huganum lyftir á hækkandi braut
um háfjöll er rísa yfir jarðneska þraut.
Vonin er brauð þess fátæka .

( GEORGE HERBERT  )

Þegar að þér er þrengt og allt hefur snúist gegn þér, þar til þér um síðir finnst að þú munir ekki þola við mínútu lengur...þá máttu ekki gefast upp, því einmitt þá er komið að þeim stað og stund þegar breyting mun verða á.

( HARRIET BEECHER STOWE  )

Mannslíkaminn virðist dragast að voninni eins og  öflug áhrif einhvers þyngdarlögmáls verki á hann. Sú er ástæða þess að vonir sjúklingsins eru leynivopn læknisins. Þær eru hið leynda verkefni í sérhverju lyfi.

( NORMAN COUSINS )

Nú er gagnslaust að velta vöngum yfir því sem þú ekki hefur. Hugsaðu heldur um hvað gera má úr því sem fyrir hendi er.

( ERNEST HEMINGWAY  )

Snúðu andlitinu mót sólinni og þú munt ekki geta séð skuggana.

( HELEN KELLER  )

Mér hefur alltaf þótt sú stund þegar ég vakna á morgnana dásamlegasta stund sólarhringsins. Því hversu þreyttur eða leiður sem þú ert, þá áttu þér þá fullvissu...að bókstaflega allt geti gerst. Og sú staðreynd að það fer nánast aldrei svo, skiptir engu máli. Möguleikinn er alltaf fyrir hendi.

( MONICA BALDWIN )

Vonin er sá vængjaði hnoðri sem hreiðrar um sig í sál minni og  syngur þar söngva án orða og þagnar aldrei. En fegurst syngur hann þó þegar á móti blæs.

( EMILY DICKINSON )

Mörgum er of gjarnt að mæna á það neikvæða  og það sem úrskeiðis fer, en því skyldu menn ekki leitast við að sjá hið góða, fara um það varfærnum höndum og fá það til að vaxa og dafna?

( THICH NHAT HANH )

Að elska er að taka þá áhættu að hljóta ekki ást á móti. Að vona er að hætta á að verða fyrir vonbrigðum.

TIL BAKA