Vögguljóð
Sofðu unga ástin mín.
Úti regnið grætur.
Mamma geymir gullin þín,
gamla leggi og völuskrín.
Við skulum ekki vaka um dimmar nætur.
Það er margt sem myrkrið veit
minn er hugur þungur.
Oft ég svarta sandinn leit,
svíða grænan engireit.
Í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur.
Sofðu lengi, sofðu rótt,
seint mun best að vakna.
Mæðan kenna mun þér fljótt,
meðan hallar degi skjótt
að mennirnir elska, missa, gráta og sakna.
Ísl. þjóðlag / Jóhann
Sigurjónsson
Dóttir
gestgjafans
Það var mikið að gera í litla
gistihúsinu í útjaðri borgarinnar. Þar var hvert herbergi
skipað. Rakel hafði verið í stöðugum sendiferðum og
snúningum allan daginn. Nú var ofurlítið hlé. Hún gekk upp í
herbergið sitt og horfði út um gluggann. Dimmblá rökkurmóða
lá yfir landinu umhverfis Betlehem, og veðrið var hlýtt og
kyrrt. Rökkrið læddist yfir landið, og tindarnir á Líbanon
voru að hverfa. Ávaxtatrén í garðinum drupu höfði og biðu í
hljóðri ró eftir hækkandi sól og nýju sumri. Jafnvel þótt
veturinn hér í Landinu helga væri mildur, var hann þó
biðtími jarðargróðans eftir nýju vori.
Rakel var tíu ára. Hún var
einkabarn foreldra sinna og hvers manns hugljúfi. Aðeins
eitt skyggði á gleði foreldranna yfir þessu barni sínu. Hún
hafði illkynjaðan hörundskvilla á höndum, sem engum hafði
tekist að lækna. Mattheus faðir Rakelar, var heiðarlegur og
vel metinn veitingamaður. Hann ásamt Söru konu sinni, hafði
rekið þetta veitingahús lengi og hafði það gott orð á sér.
Ekki voru hjónin auðug en sjálfbjarga. Bæði voru guðrækin og
héldu vel lögmálið.
Í rökkurbyrjun þetta umgetna kvöld,
komu ung hjón heim að dyrum gistihússins. Konan reið á asna
en maðurinn var gangandi. Þau báðu um gistingu, en Mattheus
sagði að hvert herbergi væri fullskipað. “Þetta er síðasta
gistihúsið, María”, sagði maðurinn og leit á hana
vandræðalegur. “Þá er að taka því, vinur minn, okkur leggst
eitthvað til”, sagði hún og sneri asnanum við, án þess þó að
vita, hvert halda skyldi. Maðurinn fylgdi henni eftir frá
húsinu. Rakel hafði fylgst með þessari gestakomu úr
herbergisglugganum sínum. Andlit ungu konunnar blasti við
henni. Aldrei hafði hún séð fegurri eða göfugmannlegri konu.
En um leið og ókunna konan heyrði svar Mattheusar, var eins
og vonarneisti slokknaði í svip hennar. Rakel vissi ekki,
hvernig stóð á því. Hana tók svo sárt, að pabbi hennar
skyldi vísa þessari konu burt. Og leiftursnöggt kom henni
ráð í hug. Hún hljóp til pabba síns og bað hann með miklum
ákafa að bjóða hjónunum að vera í fjárhúsunum þeirra, sem
stóðu þar skammt frá. Annar endi þeirra var auður. Mattheus
kallaði á eftir hjónunum, og þau námu staðar. Hann gekk til
þeirra og Rakel með honum. “En ykkur er velkomið að vera í
nótt í fjárhúsunum mínum”, sagði hann. “Annar endi þeirra er
auður, og það verður hlýrra fyrir ykkur að vera þar en úti.”
Konan leit hlýlega til þeirra og sagði: “Við þökkum kærlega
fyrir. Þetta skulum við þiggja, Jósef.” Svo sneri hún sér að
Rakel og spurði: “Eru þetta þín ráð, blessað barn?” Rakel
leit niður fyrir sig og sagði svo lágt, að varla heyrðist:
“Já, mér þótti svo leitt að sjá ykkur fara.” “Við þökkum
velvildina. Góða nótt”, sagði Jósef. Og svo héldu þau í
áttina til fjárhúsanna, en Mattheus hélt aftur inn í húsið
að sinna gestum sínum og Rakel með honum. Og nóttin kom og
leið. Mikill mannfjöldi var í borginni og fullt í öllum
gistihúsum. En það, sem gerðist þessa nótt, og vakti umtal
daginn eftir , var þó ekki það sem gerðist í gistihúsunum,
heldur hitt, sem gerðist í fjárhúsinu hans Mattheusar.
Þegar Rakel kom á fætur um
morguninn, heyrði hún ákafar samræður milli gestanna í
stofunni. Hún hlustaði á þær um stund. Svo fór hún inn í
eldhús til mömmu sinnar. “Hvað hefur komið fyrir í nótt?”
spurði hún. “Það er sagt, að einhverjir hjarðmenn hér úti á
völlunum hafi fengið vitrun í nótt um að Messías sé fæddur”,
svaraði móðir hennar. “Hvernig þá mamma?” “Þeir sáu skínandi
birtu og heyrðu englaraddir, sem sögðu þeim þetta”, svaraði
Sara. “Og hvar fæddist þetta barn?” “Það er sagt að
hjarðmennirnir hafi fundið það eftir tilvísun englanna í
fjárhúsunum okkar. Það gistu þar einhver húsnæðislaus hjón í
nótt. En nú er pabbi þinn að líta eftir, hvort þetta sé ekki
einhver vitleysa”, svaraði Sara.
Skömmu síðar kom Mattheus heim.
Hann sagði þær fréttir að fætt væri lítið barn í fjárhúsunum
þeirra. Um nóttina hefðu fáeinir hjarðmenn komið þangað,
fagnað yfir fæðingu barnsins og veitt því lotningu. Sjálfur
sagðist hann hvorki skilja upp né niður í þessu. “En heldur
þú þá að þetta litla barn sé Messías, sem spámennirnir segja
frá?” spurði Rakel. “Ég veit ekkert um það góða mín, En allt
er þetta eitthvað dularfullt”, svaraði hann.
En nú varð þeim litið út um
gluggann og sáu að þrír gráskeggjaðir öldunar komu ríðandi á
úlföldum og stefndu að fjárhúsunum. Þeir horfðu við og við
upp í himininn, eins og þeir væru að líta eftir einhverju
leiðamerki. Þeir fóru af baki við fjárhúsið og gengu inn.
Þegar Rakel sá þetta, héldu henni engin bönd. Hún hljóp út
að fjárhúsunum. Hún staðnæmdist þar í dyrunum. Þar sá hún
gráskeggjuðu öldungana falla á kné fyrir barninu og færa því
gjafir. Hún horfði á þetta undrandi og hljóp svo heim aftur.
Þar sagði hún frá því, sem hún hafði heyrt og séð. Hún
heyrði öldungana tala um einhvern nýfæddan konung, og
einhverja stjörnu sem þeir hafi séð. Nú var hún sannfærð um
það að hjarðmennirnir hefðu rétt fyrir sér. Mattheus sagði
að spámennirnir hefðu spáð því að Messías ætti að taka
konungdóm með þjóð sinni. Rakel fór upp í herbergi sitt og
hugsaði um alla þessa undarlegu atburði. Hún hafði ekki
getað séð barnið úr dyrum hússins. En hún fékk mikla löngun
til að sjá það. Hvernig skyldi það líta út? En þá yrði hún
líka að gefa því eitthvað eins og öldungarnir. En hvað átti
það að vera?
Nú heyrði Rakel, að nábúar þeirra
komu til að spyrja eftir atburðum næturinnar. Foreldrar
hennar leystu úr þessu eftir getu, en flestum þótti saga
þeirra ótrúleg. Sara bjó sig til að færa hinum ungu hjónum
einhverja næringu. Og þegar Rakel frétti það, bað hún um að
fá að vera með. En meðan Sara bjó sig að heiman braut Rakel
heilan um, hvað hún ætti að gefa barninu. Loks ákvað hún,
hvað það skyldi vera. Hún ætlaði að gefa því perlufestina
sína. Það var það fallegasta sem hún átti. Hún tók festina
úr kassanum sínum, virti hana fyrir sér og fól hana svo í
lófa sínum. Hún vildi ekki láta aðra vita að hún ætlaði að
gefa litla barninu hana.
Þær Sara og Rakel fóru nú út í
fjárhúsin. Þar voru ungu hjónin með litla barnið sitt. Þau
ljómuðu af ánægju og barnið hvíldi við brjóst móður sinnar.
Sara færði þeim mat og drykk, sem þau tóku við með þökkum.
Rakel færði sig smátt og smátt nær. Hún starði á litla
barnið. En hvað það var yndislegt. Hún tók festina og lét
hana yfir höfuð barnsins. María horfði brosandi á litlu
stúlkuna. “Ætlar þú að gefa honum þessa fallegu festi. En
hvað þú ert góð.” “Hann má eiga hana. Hann er svo
yndislegur”, svaraði Rakel. “Langar þig að taka hann?” “Já,
má ég það?” “Það er ekki of mikið fyrir gjöfina og hvað þú
lést þér annt um okkur í gær.” Svo tók Rakel litla barnið í
fangið. En hvað augun hans voru fögur. Hún fann gleðistraum
fara um sig alla. Eftir dálitla stund rétti hún móðurinni
drenginn aftur. Svo kvöddu þær mæðgur ungu hjónin og héldu
aftur heim að gistihúsinu. En þegar Rakel kom heim, tók hún
eftir nokkru einkennilegu. “Sjáðu, mamma. Mér er batnað í
höndunum.” Sara horfði undrandi á dóttur sína og sá að
hrúðrin voru horfin af höndunum, en falleg, heilbrigð húð
komin í staðinn. “Sannarlega er þetta barn Guðs sonur, fyrst
að þessi snerting hefur læknað jafn illkynjaðan sjúkdóm.
Farðu nú til föður þíns og sýndu honum þetta. En gleymdu
ekki að þakka Guði þessa dásamlegu lækningu.”
Úr bókinni: Jólasögur frá ýmsum
löndum.