Bæjarkorn á bakka heitir,
- blátær á þar framhjá
streymir,
síli smá í hyljum hýsir,
hvíta steina á botni geymir.
Alla daga áin rennur
alúðlega fram hjá Bakka,
þylur þar um allar aldir
ævintýri fyrir krakka.
Þar ég heyrði þessar
sögur,
þegar ég hlýddi á
niðinn blíðan.
- Einu sinni bjó á Bakka
bóndi fyrir löngu síðan.
Sonu þrjá hann samtals átti,
- sjálfsagt mestu órabelgi,
en þó gæðagrey, - sem
hétu
Gísli Eiríkur og Helgi.
Ei þeir voru öðrum líkir,
eftir því sem greinir frá
þeim.
- Ýmsum virtist vanta sjálfa
vitglóruna í kollinn á
þeim.
Sumar þeirra svaðilfarir
samt eru mjög við barnahæfi.
Margt var það, sem skrýtið
skeði
og skemmtilegt á þeirra ævi.
Hnittin fannst mér heimska þeirra,
- hún var sjálfsagt oft til
baga,
en hefði vitið verið meira
væri kannski engin saga.
Betur en viskan djúp og döpur
dæmi flónsins oft er þegið.
Gott er að eiga Bakkabræður
bara til að geta hlegið.
Þeim , sem þykjast vitrir vera,
væri hollast minna að láta;
- stundum getur kænskan kalda
komið öðrum til að gráta.