Útförin

Um líkið af Bakkabóndanum
þeir bræðurnir sér annt um láta.
-Þeir nostra við það með nefin rauð
og nærri farnir að gráta.

Og afbragð þeim líst að láta það
í ljómandi góðan poka,
og sækja svo Brúnku saman þrír,
-nú sæmir þeim ekki að doka.

Og á hana reyra þeir reiðinginn
og rembast við gjörð og linda.
Og elsku föður sinn eins og tros
þeir ofan á reiðinginn binda.

Svo auðvelt og sjálfsagt allt er nú
og út úr túninu gata.
Og merinni strax þeir banda á brott,
-hún Brúnka gamla mun rata.

Og Brúnka stertinum blakar létt
við bardúsi sinna vina,
og heldur af stað með húsbóndann
út í heilaga eilífðina.

Og þegar hún hefur þrammað í hvarf,
-ja,þá er sigurinn unninn,
og blessað grasið svo guðdómlegt,
að hún grípur sér tuggu í munninn.

Svo veltir hún sér með velþóknun,
-hún veit það, aumingja merin,
að líkinu er best að liggja hér
í lynginu innan um berin.

Og Brúnku gömlu við bunulæk
þeir bræðurnir seinna finna.
Hún kemur með snoppuna og kumrar hýrt
til kæru drengjanna sinna.

Auðvitað er með bert sitt bak
og beislið er alveg glatað.
-Það er auðséð á friðsömu fasinu
að fallega hefur hún ratað.

Jóhannes úr Kötlum.Ljóðasafn IX,Barnaljóð,Mál og Menning 1984.


Til baka