Jólavefur Júlla 2012

 

 Copyright  Jólavefur Júlla ©

Jólasveinasaga 

Eftir Jónínu Hjaltadóttur

Stúfur velti sér í fletinu, klóraði sér ólundarlega í skegginu og tautaði fyrir munni sér.

  • Dæmalaus þverhaus er hann Stekkjastaur. Heldur hann virkilega að þetta uppistand hafi einhverja þýðingu ? - Örugglega búinn að gleyma hvernig þetta var í fyrra. Tóm leiðindi og niðurrif á sjálfsímyndinni. Það er bókstaflega allt jóla- hitt og þetta, farið að verða okkur allt of erfitt. Nú höfum við barist á þessum markaði síðustu árin, við kjánalega, innflutta velmegunardasa, feita og pattaralega, í hárauðum, straufríum druslum með næloneftirlíkingu af hvítabjarnarskinni á jöðrum og köntum. Dæmalasir pjattsperðlar með aflitað hár og skegg, ef það er þá ekta. - Huhhh! Og þykjast svo vera JÓLASVEINAR.

Í þessum svifum birtist nefið á Gáttaþef í dyrunum.

  • Ætlarðu ekki að klifra út úr fletinu stubburinn þinn og koma þér á fundinn?
  • Ég er svo svangur að ég hef varla afl til að standa í fæturna. Stundi Stúfur.
  • Þú ert nú hvort sem er með rassinn niður undir gólfi, svo að það er ekki úr háloftunum að detta þó þú veltir um. Tuldraði Gáttaþefur út um nefið.
  • Svona, drífðu þig nú! Það eru allir mættir nema Skyrgámur. Hann verður víst að missa af þessum fundi.
  • Nú, hvar er hann?
  • Hann!! - Liggur í rúminu eftir að hann át úr sparsltúbbunni sem var kastað í hann í fyrra.
  • Er hann tómur í hausnum eða hvað?
  • Nei, hann var tómur í maganum eins og þú, greyið.

Stúfur skreiddist fram úr, dró buxurnar upp um sig og staulaðist á eftir Gáttaþef. Frammi í hellinum gaf á að líta. Jólakötturinn, úfinn og þvengmjór, hékk um hálsinn á Grýlu gömlu sem sat, grindhoruð, á hækjum sínum við hlóðirnar og horfði ofan í tóman pottinn. Hún hafði hvorki séð tangur né tetur af krakkakjöti í mörg ár. Ekki svo að skilja að börnin væru orðin svo góð, heldur heitir óþekktin einhverjum öðrum nöfnum, svo sem ofvirkni eða misþroski og Grýla étur ekki veik börn. Kattarskarnið var alveg í dauðateygjunum. Það var enn lengra síðan hann hafði fengið æti. Það var ekki smuga að einhver færi í Jólaköttinn, eins og fólk bruðlaði með fötin. Leppalúði, sem alltaf hafði verið hafður útundan við matarborðið (enda ekki vitað til að hann hafi gert handtak, sá ræfill) var löngu orðinn að dufti í gröf sinni. Stekkjastaur stóð upp við dyrastaf, tekinn og fölur og horfði á fjölskyldu sína, hryggur í bragði. Hann var elstur þeirra bræðra og rann vítamínsnautt blóðið til skyldunnar að taka af skarið, svo að þetta þjóðarbrot yrði ekki minningin ein.

  • Strákar mínir! Það dugar ekki að liggja hér í eymd og volæði. Við verðum ekkert nema prentsverta á blöðum þjóðsagna, ef við tökum okkur ekki á og reynum að gera eitthvað í málunum. – Hérna, - borðiði þetta!

Hann rétti þeim hverjum sína pilluna.

  • Ég hitti lækni hérna á dögunum og ráðfærði mig við hann.- Sagðist bara vera útgerðarmaður að vestan og þá sagðist hann strax þekkja vandamálið. Lét mig hafa þessa dollu og sagði að innihaldið væri til að lækna þunglyndið. Ég gæti fengið meira ef fiskveiðilöggjöfin breyttist ekki á næstunni.

Hægum hreyfingum stungu þeir töflunum upp í sig, bruddu og kyngdu. Smá saman lifnaði yfir hópnum. Gamli hrekkjaglampinn kom í augu Hurðaskellis og Þvörusleikir rétti úr kútnum. Þvílíkt töfralyf. Giljagaur, sem húkt hafði úti í horni, staulaðist á fætur, ræskti sig og tók til máls.

  • Ég hef svolítið verið að laumast í byggð upp á síðkastið. Það er alveg agalegt ástandið hjá fólki. Allir hlaupa og hlaupa, kaupa og kaupa, aka og aka, sitja og sitja, borða og borða og horfa og horfa. Það er bókstaflega ekki nokkur leið fyrir okkur að vera með í þessum hamagangi lengur. Okkar markaður er algerlega hruninn. Það er aðeins smuga fyrir Hurðaskelli og Gáttaþef, en við hinir eigum ekki möguleika, nema að fara í endurmenntun. Við getum bara farið yfir röðina. - Stekkjastaur á orðið í stökustu vandræðum með að finna fjárhús og í þeim fáu sem hann finnur eru örfáar, steingeldar rollur. Og þó hann hafi eitthvað verið að reyna orkudrykkina, er hann orðinn skíthræddur við eftirlitsmyndavélarnar í búðunum. – Ég þoli ekki gerilsneydda mjólk. Gjörónýt afurð! Og í þetta eina skipti sem mér tókst að láta hana freyða, varð hún römm af furunálabragði. Ekki komandi í fjósin lengur fyrir sótthreinsunarfílu og flúorljósum. Svo er búið að framlengja spenana á kúnum með gegnsæju æðakerfi, sem liggur ofan í ískaldan járnpott í öðru herbergi. Í þetta eina skipti sem ég vogaði mér að reyna, náði ég æðinni, en þá varð allt vitlaust með það sama. Mjólkin frussaðist af svo miklu afli, að ég missti takið og fór flatur. Það var ekki notaleg gusa. Ég var nærri frosinn í hel á leiðinni heim og hét því að ef ég lifði, skyldi ég aldrei aftur stíga fæti mínum inn í svona fjós. – Stúfur hefur ekki séð skán á pönnu svo árum skipti. Þær standa allar skínandi hreinar inni í skápum. Fólkið stingur matnum inn í litla kassa. Ör- eitthvað og þar er aldrei neinar skánir að finna. – Þvörusleikir fann eina sleif í fyrra. Var rétt að ná henni, þegar húsbóndinn hrifsaði hana og stakk henni inn í skáp, ýtti á takka og þá fór að sulla í skápnum. Þegar Sleikir stökk til og opnaði skápinn, fékk hann vatnsgusu framan í sig.
  • Hvergi sést hanga kjöttuttla eða bjúga, svo að þeir Ketkrókur og Bjúgnakrækir eiga ekki sjö dagana sæla. Allt innpakkað, frosið og ómögulegt að krækja í nokkurn hlut. – Askasleikir: Tekinn fyrir innbrot í minnjagripaverslun. Fengurinn, þrír fallegir askar, höfðu aldrei verið óhreinkaðir með mat. – Kertasníkir hefur verið magasjúklingur síðan tólgarkertin hurfu og farið var að nota vax og ilmefni. Svo pissar hann í öllum regnbogans litum. – Skyrgámur er alltaf að villast á skyri og allslags óþverra. Hann á í mesta basli með hægðirnar, eftir síðustu mistök. Sannkallað harðlífi hjá honum, garminum.
  • Það alvarlegasta var þó slysið á Gluggagægi, eftir að hann klifraði upp þakrennuna þarna á Akureyri. Ekki nóg með að hann hafi bæði legið á spítala og setið í steininum, heldur er hann stimplaður öfuguggi, bara af því að hann var aðeins að kíkja. Hann sæti örugglega ennþá í steininum, ef frændi okkar hefði ekki komið honum til hjálpar. Og eins og þið sjáið, er ólíklegt að mamma og kötturinn hafi þessi jól af, ef við gerum ekkert í málunum.

Giljagaur hafði aldrei haldið aðra eins ræðu. Hann seig til baka í skotið sitt og strauk svitann af enninu. Gáttaþefur, sem fann lykt af flestu, nasaði í áttina að Gluggagægi.

  • Heyrðu Gluggagægir? Þú hlýtur að hafa komist að einhverju meðan þú dvaldir þarna fyrir norðan?

Gluggagægir lyftist í sæti sínu, sveiflaði hækjunni og þótti mikið til sín koma að vera kallaður til ráðgjafar.

  • Ssskkkoooo ---. Þegar ég lenti á spítalanum, var komið með vatn í poka sem hékk á priki. Mér var sagt að þetta væri næring. Ég fann nú ekkert bragð af því, enda var það tengt í hendina á mér. En ég hætti að vera svangur. Mér datt í hug, hvort við ættum ekki að reyna að tengja hellislækinn við mömmu og köttinn og vita hvort þeim finnst það ekki betra. Já, ég var settur í steininn sem er nú enginn steinn, heldur fínn staður með flottu bæli og nægum mat. Þar var ég látinn hafa inn til mín, svakalega magnaðan glugga. Ég sá alla skapaða hluti í honum. Mér fannst svolítið skrítið þegar fólkið í honum fór að tala um jólasveina. Reyndar óttalegajólasveina. Það var ekki verið að tala um okkur, - og ekki um rauðu dasana, heldur bæði karla og kerlingar, sem töluðu, töluðu og töluðu, aðallega um peninga, peninga og peninga. Þessir óttalegujólasveinar ráða víst yfir öllu landinu. Ein kerlingin, - örugglega ekkert skyld okkur, talaði mikið um að sökkva öllu í vatn. Heimilinu okkar líka. Hún vildi meiri orku, en mér fannst hún nú ekkert orkulaus. Hún hefði átt að sjá mömmu. Svo var hún líka alltaf að tala um banka- þetta og banka- hitt. Bankar eru okkar verstu óvinir. Þangað streymir fólkið og kemur út með peninga og einhverskonar spil, sem það notar til að kaupa, kaupa og kaupa í búðunum. Ég held að við ættum að athuga hvort Hurðaskellir getur ekki stoppað þetta. Fólk tekur ennþá svolítið mark á þeim sem skella hurðum. Ef hann næði að skella þessum bankahurðum aftur, kæmist fólkið ekki inn – og peningarnir ekki út. Þá gæti þetta allt breyst aftur.
  • Ég komst líka að því að járnadraslið hérna á fjöllunum stjórnar miklu. Það brotnuðu einu sinni tveir eða þrír staurar og þá hætti allt að virka.

Það kom skrítinn svipur á hina. Þetta hefur líklega verið þegar þeir náðu sér í efnið í brúna í hlákunni.

  • Ég fann, meira að segja steikarlykt, en það skrítna var að fólkið var með eldamaskínurnar úti. En lyktin var góð, Stúfur. Því máttu trúa. Svo logaði allsstaðar á kertum og einhver talaði um "aumingja bændurna" sem þyrftu að mjólka í fötur í myrkrinu, eins og í gamla daga.
  • Ja, mikill happadagur hefur það verið, þegar þú hrapaðir, sagði Stekkjastaur.
  • Það var vont!! Gluggagægir var sár yfir þessari athugasemd.
  • Það er líka vont að svelta, sagði Þvörusleikir. - Segðu okkur meira!
  • Svindl og svínarí. Ég komst, til dæmis, að því að rauðu dasarnir eru svindlarar. Þeir kaupa sér rauð föt í einhverjum Rúmfatalager, eru með svikið hár og skegg og þykjast svo vera við. Rétt eins og við séum vanir að þvælast um í náttfötunum með hárkollur og það á þessum mótormottum, sem ekki er nokkur svefnfriður fyrir hér í fjöllunum. Allt þetta jólasveinahyski ætti að draga fyrir dóm, fyrir stuld á vörumerkinu okkar.
  • Svo eru það verkföllin! Þau eru stórkostlegt fyrirbæri!

Þarna þagnaði Gluggagægir, til að leggja áherslu á orð sín.

  • Hvaðan falla þau eiginlega? Skaut Askasleikir inn í.
  • Þú ert heimskur! Verkfall er þegar fólkið hættir verkum sínum. Það voru til dæmis spúsur sem þvoðu gólfin á spítalanum og meðan þær voru í verkfalli mátti enginn skúra. Þegar ég heyrði þetta, datt mér snjallræði í hug. Kjötkrókur og Bjúgnakrækir gætu farið til byggða og krækt í nokkra af þessum rauðu náttgöllum. Svo förum við í þá, förum til byggða og skellum á verkfalli hjá ÖLLUM jólasveinum. Landið lamast með það sama, því enginn jólasveinn má vinna neitt. Svo setjum við fram kröfur.
  • Hvernig eru kröfur? Stamaði Stúfur.

Hans hugrekki var í sama hlutfalli og hæðin.

  • Við getum til dæmis krafist þess að fá yfirráð yfir Norðurlandi. Frændi okkar sagði að þar tryði fólkið ennþá á okkur bræður, enda væri fólkið þar nokkuð "norðmal". Þar er líka einhverskonar alheims-jólasvæði, með jólahúsi og öllu. Þar má jafnvel ennþá finna eitthvað af ekta hangikjöti, sperðlum og laufabrauði. Við semjum líka um að fá eins og eitt ekta torffjós og hlóðaeldhús, með pottum og þvörum, skyrsá og tólgarkertagerð. Allt svona gamaldags og gott, er nú til dags kallað "ferðamannaiðnaður" og þá er komið að dæmalausa-orku-jólasveinakerlingarráðherranum. Hún er að norðan. Við gefum henni kerti og spil, og fáum hana í lið með okkur, enda á að nota tilraunasveitarfélög, eins og Akureyri, til að gera tilraunir. Þeim veitir ekki af að koma einhverju púðri í starfsemina þar.

Bræðurnir standa alveg gapandi af undrun, yfir þessum fróðleiksfossi.

Gluggagægir (ánægður með sig) lítur af einum á annan.

  • Hvað finnst ykkur um þessa hugmynd, bræður. Eigum við að prufa þetta?

Einn af öðrum réttu þeir upp höndina til samþykkis. Þá stakk Gluggagægir hendinni í buxnahaldið og dró fram lítinn pakka, fitlaði við hann og lagði hann að eyranu. Eftir svolitla stund ljómaði hann í framan.

  • Kristján Þór! Blessaður, þetta er frændi þinn, Gluggi Grýlu. Já – og þakka þér fyrir síðast og NMT síman. Hann virkar flott!
  • Heyrðu mig. Þetta heppnaðist alveg. Þeir eru búnir að samþykkja þetta, strákarnir. Já, já. Hvað ertu að segja? Ertu búinn að redda mömmu plássi á Hlíð? Frábært vinur. Heyrðu? - Ég gleymdi að biðja þig að spyrja hvort hún mætti taka kattarræfilinn með sér.

Jónína Hjaltadóttir frá Ytra Garðshorni Svarfaðardal - Jólavefurinn færir henni bestu þakkir

 

Jólasögur af Jólavef Júlla

4 Jólasögur

Jólaþjóðsögur

Lítil hjartnæm saga

Saga um Jólatré (J.J)

Jólasveinasaga Jónínu

Jólasögur -  Kristnisögur

50 sögur á Jólasögusíðu barna

Jólin koma í kærleikslandi ( J.J )

Ég veit að mamma grætur á jólunum

Jólatöfrar " Eða var þetta raunverulegt " ( J.J )

 

 

Póstur

Jólavefur Júlla 2002 - 2003 - 2004 - 2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 - 2010 - 2011 - 2012