Jólasögur - Kristnisögur
Jólavefur Júlla 2012
HVERNIG JÓLASÁLMURINN VARÐ TIL."Af himnum ofan boðskap
ber Þannig byrjar einn jólasálmur vor, sem er eftir Martein Lúther. Séra Stefán Thorarensen (l831-l892),prestur á Kálfatjörn hefur þýtt hann eins og hann er í sálmabókinni. Sögukorn um tilurð sálmsins fer hér á eftir. Það var að morgni aðfangadags: Marteinn Lúther sat í bókastofunni sinni og var að búa sig undir jólaræðuna. Þá var komið í dyrnar og inn kom Katrín húsfreyja og var heldur fasmikil: "Góði Marteinn minn", sagði hún."Ég kemst ekki yfir helminginn af því sem þarf að gera fyrir hátíðina. Nú gætir þú gert mér þann greiða að fara yfir í hina stofuna og sitja við vögguna hjá honum Hans litla. Ég þarf þá ekki að tefja mig á því að sinna honum." Marteinn Lúther tók Biblíuna sína með sér og settist við barnsvögguna. Hans litli svaf vært, og Lúther hvarf nú frá ræðugerðinni,laut niður að vöggunni og var með allan hugann hjá syni sínum. Hver hugsunin tók við af annarri, og hann fór að hugsa um það, hve furðulegt það væri, að sonur Guðs hefði legið í jötu rétt eins og hvert annað barn af fátækum foreldrum. Og honum varð það þá fyrir sem oftar að hann sótti hörpuna sína og lék undir ljóðin, sem brutust fram úr hjarta hans. Þá orti hann við vöggu Hans litla jólasálminn: "Af himnum ofan boðskap ber". Lagið kom um leið af sjálfu sér hjá honum, og hann söng erindin hvert af öðru við hörpuslátt. Nú árið l995 eru liðin síðan hátt upp í 5oo ár. Og æ síðan hefur sálmurinn verið sunginn á öllum jólum um víðan heim á mörgum tungumálum. Þegar Katrín húsfreyja kom inn seinna um daginn, þakkaði Lúther henni sem bezt fyrir að hafa sett sig í það hlutverk að gæta vöggunnar. Hann átti einmitt því að þakka að hann hafði ort jólasálminn, honum fannst eins og hann hefði miklu síður getað ort hann í bókastofunni sinni en við barnsvögguna. Nýtt Kirkjublað l906 (texti lagfærður). ( Gamli Noi ) |
JÓLAKLUKKUR Gömul frásögn, sem geymst hefur meðal íbúa lands nokkurs greinir frá því, að þar í landi sé mjög merkileg kirkja. Hún stendur svo hátt, að hún gnæfir yfir alla byggðina. Kirkjan var úr grásteini, miklar hvelfingar og mjög þykkir veggir. Inn í þennan fagra helgidóm var gengið um stórt hlið. Í kórnum var mjög skrautlegt altari úr hvítum marmara. Í kirkjunni var einnig orgelið, en tónar þess voru svo voldugir, að borgarbúar flýttu sér að loka bæði hurðum og gluggum, þegar leikið var á það. Það sem þó var merkilegast við þessa kirkju var hinn frábæri hljómur kirkjuklukknanna. Turninn, sem teygði sig eins langt og augað eygði var vaxinn villivínviði og í honum var klukknaspil. Það voru jólaklukkurnar. Þar höfðu þær verið frá því að turninn var reistur og sagt var, að þær væru hljómmestu og hljómfegurstu kirkjuklukkur í heimi. Talið var, að mikill tónsnillingur hefði látið steypa kirkjuklukkurnar, stillt hljóm þeirra og séð um að setja þær á sinn stað. Aðrir töldu hljóm þeirra svo fagran, sem raun bar vitni af því að þær væru svo hátt uppi og loftið þar þess vegna hreinna en á jörðu niðri. Eitt voru allir sammála um, að mannlegt eyra hefði aldrei numið fegurri hljóma. Helst var þeim líkt við söng englaskara á himni, eða englanna, sem sungu svo fallega á Betlehemsvöllum forðum daga. En nú um langan tíma hafði enginn heyrt í kirkjuklukkunum. Gamall maður, sem átti heima nálægt kirkjunni, greindi frá því, að móðir hans hefði heyrt í þeim, þegar hún var barn. Þetta var allt sem vitað var. Í borginni var sá gamli góði siður, að allir, sem vettlingi gátu valdið, smáir sem stórir, ungir sem aldnir fóru í kirkjuna á aðfangadagskvöld jóla og færðu Jesúbarninu gjafir sínar. Sá orðrómur var ætíð á kreiki, að jólaklukkurnar tækju að hringja, þegar stærsta og dýrmætasta gjöfin væri lögð á altarið. Smám saman hafði heimshyggjan náð tökum á borgarbúum og engin slík gjöf verið lögð á altarið, að jólaklukkurnar tækju að leika sína fögru tóna. Það voru aðallega þeir auðugu og voldugu, sem ruddust að altarinu með gjafir sínar og reyndu að taka öðrum fram hvað snerti verðmæti þeirra, fegurð o.fl. Eina hugsunin, sem komst að hjá þeim var þessi. Ef til vill fara kirkjuklukkurnar að hringja, þegar ég legg gjöf mína á altarið. Hér var eigingirnin á ferðinni. En frá turninum há barst aðeins ýlfrið frá vindinum og það þrátt fyrir glæsileik gjafanna og íburðarmikla guðsþjónustu. Í litlu þorpi í nágrenni borgarinnar áttu m.a. heima tveir drengir, Pétur og litli bróðir hans. Þeir höfðu lítið heyrt um hið merkilega klukknaspil kirkjunnar. Þeir höfðu frekar heyrt um íburðarmikla guðsþjónustu í kirkjunni á aðfangadagskvöld. Og nú höfðu þeir með mestu leynd ákveðið að fara þangað um næstu jól "Þú getur ekki ímyndað þér, hve þar er allt fagurt og fínt," sagði Pétur við litla bróður. "Ég hef heyrt, að Jesúbarnið sjálft komi þangað stundum og blessi guðsþjónustuna. Hugsaðu þér, ef við fengjum að sjá Jesúm." Úti var snjór og kuldi, snjóflygsurnar dönsuðu í loftinu rétt eins og þær væru að bregða á léttan leik. Síðla aðfangadagsins fóru þeir Pétur og litli bróðir af stað og leiddust. Er rökkva tók gátu þeir greint ljósin í gluggum íbúðarhúsa borgarinnar. Þegar þeir komu að einu borgarhliðinu sáu þeir e.ð. sem líktist svartri þústu við vegkantinn. Þeir gengu hægt og varlega nær og sáu, að þetta var gömul kona, sem greinilega hafði hnigið niður af þreytu. Mjúkur snjórinn var svæfillinn hennar og hún virtist sofa vært. Pétur var nógu stór og vitur til þess að skynja, að konan mátti ekki liggja lengur þarna ef hún ætti framar að vakna. Hann ýtti örlítið við henni svo að hún rétt rumskaði. Síðan tók hann undir handlegg hennar og ætlaði að reyna að reisa hana upp. En hann gat það ekki. Hann leit eitt augnablik á konuna og var mjög hugsi. Hann stóð upp og sagði við litla bróður." Nei þetta gengur ekki Litlibróðir. Þú verður að fara einn. Ég verð að reyna að vekja hana betur og halda henni vakandi og láta höfuð hennar hvíla í kjöltu minni, svo að hún fái hita frá mér." " Einn hrópaði Litlibróðir, ætlar þú ekki að sjá hina íburðaramiklu jólahátíð í kirkjunni." " Nei þú ferð einn og hér er lítill silfurpeningur, sem þú skalt leggja á altarið " . Allir sátu spenntir og djúp kyrrð ríkti í kirkjunni, þegar fólkið horfði á konunginn taka af sér hina dýrmætu kórónu og leggja á altarið. Og hér og hvar heyrðist hvíslað. Nú hljótum við að heyra hljóm kirkjuklukknanna því að enginn hefur áður gefið svo dýrmæta gjöf. En frá turninum barst aðeins ýlfur vindsins. Fólk hristi höfuðið mjög efablandið. Ekki einu sinni núna.. Nokkrir sögðu, að þeir hefðu aldrei trúað þessari gömlu sögusögn og ætíð efast um, að jólaklukkurnar hefðu yfirleitt verið til eða nokkurn tíman hefði heyrst í þeim. Tíminn til að leggja gjafirnar á altarið var á enda. Kórinn hóf að syngja af mikilli fegurð og snilli. Allt í einu hætti orgelleikarinn að spila. Augu allra beindust að gamla prestinum, sem stóð fyrir framan altarið. Hann lyfti hendinni sem tákni þess, að nú skyldu allir vera hljóðir. Frá mannfjöldanum heyrðist hvorki stuna eða hósti svo algjör var kyrrðin. Allt í einu var þögnin rofin og kirkjan stóra fylltist dásamlegum tónum, mjúkum, björtum, hreinum. Það var eins og tónarnir bærust langt að, samt heyrðust þeir mjög vel, og hljómurinn var svo dásamlegur, að orð fá ekki lýst og annað eins hafði aldrei heyrst áður. Það var hljómur jólaklukknanna. Hin langa þögn þeirra var rofin. Dauðakyrrð ríkti í kirkjunni. Enginn þorði að rjúfa hina hátíðlegu stund. Loks stóð einn og einn upp til þess að gá hvort hægt væri að sjá, hver væri þessi dýrmæta gjöf, sem hafði verið lögð á altarið og komið jólaklukkunum til þess að hljóma að nýju. Aðeins þeir sem næstir voru sáu litla veru, sem læddist hljóðlega frá altarinu. það var Litlibróðir, sem hafði fært Jesúbarninu litla silfurpeninginn hans Péturs að gjöf, og lagt hann á altarið meðan hann hjúkraði gömlu konunni. Sagan er ekki lengri, en margt væri hægt að læra af henni, á morgun förum við yfir þætti tengda sögunni... Jólaklukkur - Hugleiðing. Hver og einn, sem hugsar um hana og boðskap þann er hún flytur finnur, að rauði þráðurinn er einmitt þessi: " Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta og náunga þinn eins og sjálfan þig." Þegar þetta fær að gerast í lífi hvers og eins eru heilög jól, hvað sem dagatalið og birtan úti fyrir kann að segja. Við erum fædd til þess að fækka tárum manna, vera ljósberar í heimi hér. Háleitara hlutskipti er ekki til. Guð gefi öllum þetta hugarfar við undirbúning jólanna, svo að þau mættu fyrst og fremst verða birtugjafi og tákn þess að: Ljósið sanna, lífið manna er komið í heiminn.
(Lára Á. Ólafsdóttir Kolbeins) Það dimmir snemma á Þorláksmessu þegar loftið er þungt af snjó svo að hvergi sér í bláa rönd af himni,og svo var þennan dag. Sveinn í Bjarnarey var léttur í spori þegar hann var að smala saman mönnum sínum, en ekki eftir því léttur á brúnina. Það var ekki fljótlegt að finna þá í þorpinu, en nú vildi hann fara að komast af stað og það undireins. Það var að byrja að skyggja, útlitið ófagurt, sjórinn úfinn og löng leið fyrir höndum. En heim vildi hann komast í kvöld. Konan var ein heima með lasið barnið og lítinn glaðning til jólanna. Hann hafði lofað litlu stúlkunni að gefa henni kerti og það vildi hann efna. Ekki var víst að eftir betri tíma væri að bíða. Loks voru mennirnir fundnir, allt tilbúið. Bátnum var ýtt frá landi og undin upp segl. Sveinn settist undir stýri og nú var lagt á flóann. Það var ágætt leiði og báturinn skreið drjúgum. Eftir því sem utar kom í flóann þyngdi sjóinn og lá við ágjöfum, en bæði stjórnandi og bátur voru góðir. Nú komu nokkur snjókorn, og svo fleiri. Það hvessti líka í élið og bráðum sást ekkert nema hríðarmökkurinn og æðandi snjóhvítar öldurnar, sem steyptust yfir bátinn, reiðubúnar að keyra hann niður í djúpið dökka. Sveinn kreppti hendina fastar utanum stýrissveifina. Nú varð hann að duga, úr þessum bardaga varð ekki flúið, og undir kröftum hans og ratvísi var líf allra þeirra komið. Hann treysti sér til að finna eyjuna og hann treysti Guði og bátnum sínum. Það var aðeins að finna lendinguna. Þar mátti svo litlu muna, því að skerin voru beggja megin við innsiglinguna og hún aðeins ein, beint framundan bænum hans. Og þegar inn á voginn var komið var hlé fyrir öllum vindum. Heima í litla bænum beið konan með litlu stúlkunni sinni. Hún hafði nóg að gjöra. Hún var að hreinsa til í bænum og svo þurfti hún að sinna kúnum. Nú var komið langt fram á kvöld og hún settist inn á rúmið sitt með prjónana sína. Litla stúlkan var sofnuð og hún kveikti ekki til að spara olíuna, hún var nærri búin. Sveinn ætlaði að koma með olíu, en hún bjóst ekki við honum fyrr en á morgun. Hún vissi að í mörgu var að snúast hjá sumum þeim, sem með honum höfðu farið, og dagurinn var svo stuttur. Allt í einu vaknaði litla stúlkan og reis upp í rúminu. "Mamma, mamma," hrópaði hún." Kveiktu fljótt ljós, það er engill að koma til mín, kveiktu, kveiktu", og litla stúlkan fór að gráta, af því að henni fannst mamma ekki vera nógu fljót að ná í týruna og kveikja. Og þegar mamma setti týruna á borðið sagði hún: " Nei settu það út í glugga svo engillinn sjái það og rati til mín, en mamma hefurðu ekki meira ljós? Kveiktu heldur á lampanum. Það get ég ekki elskan mín, lampinn er þurr og ég á enga olíu, nema þá sem er á týrunni", sagði mamma. Litla stúlkan fór að gráta. " Mamma,mamma, hjálpaðu mér, kveiktu meira ljós. Engillinn sér ekki svona lítið ljós. Mamma, góða mamma áttu ekkert sem þú getur kveikt á? ".Mamma var orðin hrædd við ákafann í litlu telpunni. Hún hélt að henni væri að versna. Hún stóð upp og fór ofan í kistuna sína. Eftir dálitla leit tók hún upp stórt og fallegt kerti. " Sjáðu elskan mín", sagði hún, " ég ætla að kveikja á þessu kerti og setja það út í gluggann. Þá hlýtur engillinn að sjá ljósið og koma til þín. Svo skal ég líka segja þér sögu, einmitt um þetta kerti, ef þú verður góð stúlka og leggst niður". Mamma leit út um gluggann um leið og hún setti kertið þar. Allt kvöldið hafði verið stormur og kafald og kominn nokkur snjór, en nú var að stytta upp. Hún settist á rúmstokkinn og horfði á kertaljósið. " Ætlarðu að segja mér söguna mamma mín ? " sagði litla stúlkan. Hún var nú orðin rólegri. " Já, hún er ekki löng. Ég var lítið eldri en þú ert núna, aðeins 9 ára, og varð að fara að heiman frá henni mömmu minni. Við vorum mörg systkinin og pabbi og mamma fátæk. Ég var lánuð til snúninga hjónum sem bjuggu skammt frá. Þau voru ekki slæm við mig og enginn á bænum.Eiginlega skipti enginn sér neitt af mér, nema til þess að senda mig eitthvað eða segja mér fyrir verkum. Æ, hvað mér leiddist og hvað mig langaði heim til pabba, mömmu og systkina minna. Ég held ég hafi aldrei farið að sofa ógrátandi. Svona leið nú samt sumarið og haustið og jólin voru að nálgast. Mig langaði svo mikið til að fara heim um jólin, en þorði ekki að biðja um það. Á Þorláksmessu kom maður af næsta bæ og var með böggul til mín. Ég vissi, að hann var frá mömmu, enginn annar sendi mér böggul, og ég ætlaði ekki að opna hann fyrr en á aðfangadagskvöld. Um kvöldið sofnaði ég ekki grátandi, því að ég var með böggulinn í fanginu. Kvöldið eftir, þegar ég opnaði hann voru í honum bryddir sauðskinnsskór og sokkar og einmitt þetta kerti. Svo var bréf frá mömmu. Ég gat stafað mig fram úr því, og ég man að hún sagði: Þú mátt muna það elskan mín, að mamma og pabbi elska þig, en svo er líka einn, sem elskar þig og hann er alltaf vakandi og verndar þig, það er góður Guð. Skömmu seinna heyrðist gengið um bæjardyrnar. Það var Sveinn. Hann var kaldur og votur af ágjöfum, en það var gleðiglampi í augum hans og bros á vörum hans, þegar hann heilsaði konu sinni og dóttur. "Þakka þér fyrir ljósið", sagði hann." Það hefur bjargað lífi okkar. Þegar hríðinni var að létta vorum við komnir að eyjunni. Ég heyrði það á brimhljóðinu, en þá var eftir að finna vörina í myrkrinu. Þá kom blessað ljósið, og þá var ég viss, því að þetta er eini glugginn sem snýr í þessa átt. Það er litlu stúlkunni þinni að þakka, og svo kertinu hennar mömmu", sagði kona hans.
Það er sögð merkileg saga frá hinni fögru og sólríku Ítalíu. Appelsínutrén stóðu í blóma og vínviðurinn vafði sig upp eftir fjallshlíðunum. Kona nokkur var á gangi í útjaðri lítils bæjar, sem að miklu leyti var hulinn olívutrjám. Rétt fyrir utan bæinn hitti hún múrara, sem var að hlaða múrvegg. Konan heilsaði honum vingjarnlega, og hann tók undir kveðju hennar. Þau spjölluðu saman nokkra hríð um alla heima og geima. Loks tók konan ítalska Biblíu upp úr tösku sinni og ætlaði að gefa unga múraranum hana. Þá kom annar svipur á múrarann. Hann snéri sér með fyrirlitningu frá konunni. Hann kærði sig ekkert um þessa bók. Honum fannst hann ekki hafa neina þörf fyrir hana. Konan var samt ekki af baki dottin. Hún vann að því að dreifa út Biblíum. Hún lagði svo fast að manninum að þiggja bókina, að hann lét loks til leiðast. Hún skrifaði nafn hans í bókina og fékk honum hana. En konan tók ekki eftir einkennilegu glotti í augum mannsins, er hann kvaddi hana. Hún var ekki fyrr komin úr augsýn en múrarinn losaði um nokkra steina í veggnum, stakk Biblíunni þar inn og múraði yfir. Nú fannst honum bókin vera vel geymd - og nú væri hann laus við konuna. Þessi ótætis bók ætti ekki betra skilið. Nokkrum árum síðar varð ægilegur jarðskjálfti í þessum bæ. Mörg hús hrundu,börn æptu af skelfingu og stunur særðra manna heyrðust úr öllum áttum. Á nokkrum mínútum gereyðilagðist meira en helmimgur bæjarins. Fólk flýði bæinn og leitaði óhultra staða. Að nokkrum tíma liðnum hurfu þó allmargir af íbúunum heim aftur og tóku að leita í rústunum. Dag einn stóð maður nokkur við hálfhruninn vegg og þreifaði fyrir sér hve traustur hann væri. Þá tók hann allt i einu eftir því, að tómahljóð heyrðist í veggnum á einum stað. Honum kom fyrst í hug, að þarna kynni einhver fjársjóður að vera fólginn og tók að brjóta upp vegginn. Það reyndist rétt vera! Þarna var hol í veggnum, og sjá, þarna lá lítil bók. Maðurinn tók bókina heim með sér og fór að lesa hana. Honum varð ljóst, að þarna hafði mikill fjársjóður verið fólginn. Hann lærði að meta þessa bók, og í gegnum hana lærði hann að þekkja Jesúm. Afleiðingin varð sú, að maðurinn fór að vinna að útbreiðslu Biblíunnar. Hann hafði fundið frelsara sinn við að lesa bókina, og nú vildi hann vinna að því að dreifa þessum fjársjóði út til landa sinna. En það voru ekki margir,sem vildu kaupa Biblíur. Dag nokkurn kom hann þar að, er hópur verkamanna var að vinna. Hann tók upp bækur sínar og gaf sig á tal við þá. - Það þýðir ekkert að bjóða mér þessa bók sagði ungur múrari, ég kæri mig ekki neitt um hana. Einu sinni var einni slíkri bók troðið upp á mig, en ég hefi komið henni svo vel fyrir, að ekki einu sinni sá vondi sjálfur getur fundið hana! Manninum með Biblíuna brá við þessi orð. Honum kom allt í einu í hug hvernig hann hafði fundið hana. Hann opnaði Biblíuna, sem hann hélt á í hendinni, sýndi múraranum og spurði hvort hann kannaðist nokkuð við nafnið, sem skrifað var í hana. Múrarinn varð skelfingu lostinn. - Þetta er mitt nafn, hrópaði hann. Hvernig í ósköpunum hefur þú komist yfir þessa bók? Maðurinn skýrði frá með hvaða hætti það hafði orðið, og múrarinn fékk aftur Biblíuna sína. Nú bað hann meira að segja um að mega halda henni. Hann fór að lesa hana og nú skildi hann, að það var Guð,sem talaði til hans og hafði séð um það, að Biblían, sem hann hafði fyrirlitið, barst aftur í hendur hans á þennan undarlega hátt. Upp frá þessu varð Biblían kærasti vinur hans. ( Ljósberinn l954 )
Klukkan var hálf sjö að kvöldi. Á litla sjúkrahúsinu í San Cataldo á Síkiley var allt í hinu ytra með sínu hversdagslega sniði. Eins og ávallt voru öll sjúkrarúmin upptekin. Hvar sem komið var lágu sjúklingar í sjúkrarúmunum og jafnvel á bekkjum í móttökuherberginu og á göngunum. Hjúkrunarkona gekk milli sjúklinganna og talaði uppörvandi til þeirra. En þótt allt virtist í hinu ytra með hversdagslegu sniði, þá var samt nokkuð óvenjulegt í aðsigi. Í sjúkrastofu númer l2 biðu fimm bræður þeirrar afgerandi stundar, sem skera mundi úr um, hvernig líf þeirra og framtíð yrði. Þeir voru allir blindir frá fæðingu. Orsökin var starblinda. Paolo var l5 ára, Carmelo l3 ára,Gioacchino ll ára,Giuseppe 9 ára og Calogero litli var 5 ára. MUN ÞAÐ HEPPNAST ? Læknirinn, Luigi Picardo var nýkominn. Hann hafði ákveðið að framkvæma augnaaðgerðina á drengjunum þetta kvöld. Á skrifstofu sjúkrahússins hitti hann lækninn Maira, sem ætlaði að aðstoða hann við aðgerðin. Picardo var fremur lágvaxinn, ljós yfirlitum og í eðli sínu nokkuð taugaóstyrkur. En þetta kvöld virtist hann taka hlutina með mikilli ró. Læknarnir ræddu saman meðan þeir skiptu um föt og þvoðu sér. Nú kom svæfingarlæknirinn. Deyfilyfið hafði þegar verið reynt og valið. Læknarnir lögðu mikla áherzlu á að vera í góðu jafnvægi. Hér,í þessu litla sjúkrahúsi í litlum bæ á Sikiley, ætluðu þeir þetta kvöld að reyna að gefa fimm drengjum sjónina. Móðir drengjanna sat hjá þeim. Við og við kallaði yngsti bróðirinn: " Mamma..." Og móðirin tók í hönd litla drengsins og hélt þétt um hana. Hinir drengirnir töluðu öðru hvoru saman í hálfum hljóðum. Hjúkrunarkonan inn .Nú förum við Paolo". sagði hún og tók í hönd hans. Og Paolo, sem var elstur bræðranna fór með henni inn til læknanna. Þeir stóðu hljóðir í skurðstofunni. En þegar Paolo kom inn, gekk Picardo til hans og sagði: "Paolino, ertu hræddur?" Nei, ég er ekki hræddur". " Heldurðu að þetta muni heppnast?" " Já læknir, ég trúi því, að það heppnist ef læknirinn trúir því," sagði drengurinn trúaröruggur. FIMM BLIND BÖRN Nú hófst skurðaðgerðin. Picardo fjarlægði með varfærni hin mjólkurlitu korn, sem hindruðu drenginn í því að geta séð umheiminn. Síðan saumaði hann saman sárið með hárfínum þráðum. Paolo var síðan aftur færður til stofu númer l2. " Við skulum strax byrja á þeim næsta",sagði Picardo. En svæfingarlæknirinn sannfærði hann um, að honum væri nauðsynlegt að hvílast stutta stund. Þá kom Carmelo í skurðstofuna og næsta aðgerð hófst. Þannig gekk það koll af kolli og eftir hverja aðgerð tók læknirinn sér stutta hvíld og byrjaði síðan á ný með einbeitni og ákveðni. Hann fann til geysilegrar eftirvæntingar.Ennþá gat hann ekki séð, hver árangurinn yrði. Þó var hann sannfærður um að aðgerðirnar myndu heppnast. En hann hafði miklar áhyggjur af því, ef fjórir fengju sjónina en einn yrði áfram blindur. Bræðurnir fimm voru fæddir í smábænum Campobello di Licata. Faðir þeirra vann við búskap. Fjölskyldan var fátæk. Börnin urðu l2. Fjögur voru dáin og fimm fæddust blind. Bæjarbúar kenndu mjög í brjósti um fjölskylduna,sem oft hafði varla nóg að borða. Þegar blindu drengirnir stækkuðu var gerð skurðaðgerð á þrem þeirra, og á tveim þeirra þrisvar sinnum, en aðgerðirnar misheppnuðust. Þá var hafin fjársöfnun í bænum, svo drengirnir kæmust til sérfræðings. Peningar streymdu inn og brátt hafði safnast álitleg fjárupphæð. En þegar læknarnir Picardo og Maria heyrðu sögu bræðranna fimm,buðu þeir fram hjálp sína og sjúkrahúsvist að kostnaðarlausu. UMBÚÐIR FJARLÆGÐAR Klukkan var orðin ellefu um kvöldið er síðustu aðgerðinni var lokið. Um árangur var ekki hægt að vita fyrr en umbúðirnar yrðu teknar frá augunum. Nóttin var erfið hjá Picardo lækni. Hann gat ekki sofið. Á tuttugu ára læknisferli sínum hafði hann gert aðgerðir af þessu tagi svo hundruðum skipti og flestar höfðu heppnast. Nú bar hann þær saman við aðgerðirnar á bræðrunum. Hve miklir möguleikar voru á því að þeir fengju sjónina? Næsta morgun kæmi það í ljós. Í sjúkrastofu bræðranna var byrgt fyrir gluggann til að draga úr birtunni. Byrjað var að fjarlægja umbúðirnar. Eftirvæntingin var geysileg. Drengirnir opnuðu augun. Einn hvíslaði" Ljós, ég sé ljós". Á næsta augnabliki kváðu við gleðihróp, þegar drengirnir einn eftir annan tókuu eftir birtu,litum,hlutum og að sjálfögðu fólkinu, sem þeir aldrei áður höfðu augum litið.Bræðurnir fimm höfðu allir fengið sjónina. Þeir föðmuðu hvor annan og hina óumræðilega hamingjusömu móður sína. Og læknirinn Luigi Picardo faðmaði starfsbróður sinn, flýtti sér síðan út úr sjúkrastofunni og grét. Aftur var bundið um augu drengjanna. Þeir þurftu smátt og smátt að venjast birtunni. Þær stundir,sem þeir fengu að vera án umbúðanna lengdust, þeir litu í kringum sig, spurðu athuguðu og undruðust. Starfsfólkið lét þá allt annað víkja og sýndi þeim þann heim, sem þeir loks fengu litið með eigin augum. Endir - Gleðileg Jól ( Gamli Noi ) |
Jólasögur af Jólavef Júlla Jólin koma í kærleikslandi ( J.J ) Ég veit að mamma grætur á jólunum Jólatöfrar " Eða var þetta raunverulegt " ( J.J )
|
Jólavefur Júlla 2002 - 2003 - 2004 - 2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 - 2010 - 2011 - 2012. Copyright Jólavefur Júlla ©