Sitt lítið af hverju....

....frá gestum jólavefsins.

Sumt hafa margir sent mér, annað hefur verið ómerkt. Ég vil þakka öllum fyrir sendingarnar og óska áfram eftir öllu jólaefni.

  

Jólavefur Júlla 2012

Copyright Jólavefur Júlla ©

Maður segir:

Ég hlakka til jólanna  -  Þú hlakkar til jólanna
Hann/hún/það hlakkar til jólanna.

Við hlökkum til jólanna  - Þið hlakkið til jólanna
Þeir/þær/þau hlakka til jólanna.

Fyrir jólin  2005.  fékk ég þetta bréf - Takk.

Ég hef reyndar ekki verið erlendis um jólin en akkúrat núna bý ég á breskri eyju sem heitir Jersey og hérna er búið að skreyta allt og búinn að vera jólafílingur í fólki í örugglega 2 eða 3 vikur.....jólalög í útvarpinu og svona.....!! Pakkarnir eru meira að segja allir komnir undir jólatré og bíða bara eftir 25. des......Ástæðan fyrir því að allt hérna byrjar svona snemma er skilst mér sú að hér búa svo margir sem koma annars staðar frá og flestir fara til heimalands síns um jólin og vilja þess vegna hafa smá "jól" hérna áður en þeir fara svo heim yfir sjálf jólin.
Það er mjög gaman að upplifa svona öðruvísi jólaundirbúning en sjálf gæti ég nú held ég ekki hugsað mér annað en að fara heim til mömmu og pabba um jólin þannig að ég fer nú til Íslands rétt fyrir jólin!
 
Hér er líka mjög vinsælt að fara í ferðalög yfir jólin, fara í skíðaferðir eða bara sólarlandaferðir....mér finnst allavega miiiiikið meira um það hérna heldur en nokkurn tíman heima!  Hér er líka enginn snjór svo þetta er svolítið skrítið.....að labba um í bænum, hlusta á jólalög, versla jólagjafir en bara enginn snjór.....svolítið eins og það vanti eitthvað.....
 
En allavega.....smá um jólaundirbúning erlendis..........:)
 
Gleðileg jól! :) SI

11. desember 2005  fékk Jólavefurinn senda þessa afar skemmtilegu frásögn frá vini Jólavefsins. Takk fyrir sendinguna :)

Á jólaföstu 2005

Það var allt á rúi og stúi í búningsklefanum. Klukkan var orðin átta og skólasundið að hefjast. Í klefanum var fjöldi stelpna á aldrinum sjö til níu ára og körfur, fatnaður og sundföt þvældust milli fóta þeirra um gólfið. Tilvalið ástand til að láta fara í taugarnar á sér ef maður vildi eyðileggja fyrir sér daginn. Ég tók fljótlega eftir þremur vinkonum sem fóru sér að engu óðslega enda þótt ,,sturtukerlingin“ eins og hún var kölluð í mínu ungdæmi, ýtti látlaust á eftir þeim og skipaði fyrir um hegðun í búningsklefa og sturtum. Líka tilvalið ástand til að láta fara í taugarnar á sér, enn í dag. Þær voru að sýsla og rísla með sápur og sundboli þegar ég hljóp út í laug. Fljótlega hafði unglingahópur einnig bæst í hóp sundgesta; strákar og stelpur á aldrinum fimmtán til sautján ára. Dásamlegt að synda í desembermyrkrinu með einstaka stjörnu á himni; allt þetta fólk í kring en samt svona alein. Þegar ég kom uppúr voru vinkonurnar þrjár enn komnar í sturturnar og skiptust nú á sjampóum og góðum ráðum. Skyndilega fóru þær að syngja fullum hálsi ,,Klukkurnar dinga linga ling“. Þær gerðu nokkrar atrennur að dinga linga ling með yfirrödd og það ómaði eins og í kirkju þarna í sturtunum. Hversdagurinn var að breytast í hátíð. Skömmu síðar vorum við saman á þurrksvæðinu og stóru stelpurnar voru farnar að tínast í sturturnar. Við stóðum þarna, ég og vinkonurnar þrjár, hver með sitt handklæði að stússast, þegar þær brustu enn í söng. Ég spurði hvort þær hefði verið að æfa sig að radda jólalögin í skólanum. Þær játtu því um leið og þær hófu enn upp raust sína og nú með ,,Er lækkar á lofti sólin, þá koma bráðum jólin. Við fögnum í friði og ró. Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó." Þá gerðist hið óvænta. Stóru stelpurnar í sturtunum tóku undir og úr varð stelpukór, eldri og yngri, sem allar sungu af gleði og innlifun um ,,Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó“. Þetta var engu líkt, nema bíómyndasenu, úr amerískri bíómynd. Og þarna stóð ég með handklæðið mitt og hamingjan seytlaði um mig á föstudagsmorgni á jólaföstu 2005.

Svanfríður Inga Jónasdóttir.
 


Hér lítil saga sem allir ættu að lesa. (14. des 2005)

Jólafriður
Ljósin, jólaljósin, lýsa upp skammdegið. Ég geng í gegnum götuna, allflest húsin vel upplýst og falleg, dásamleg sjón. Hvað er betra en að taka sér frí eitt kvöld frá jólastússi, fara út að ganga einn með sjálfum sér, skoða hvernig ljósin sindra í myrkrinu og vera með kveikt á rólegum og fallegum jólalögum í iPodinum? Og svo, þegar maður kemur aftur heim, að setjast fyrir framan gluggann, með kveikt á útvarpinu á jólarásinni, snæða smákökur og drekka ilmandi heitt súkkulaði? Fátt held ég...Auðveldara er að finna hinn sanna anda jólanna streyma um æðar sér þegar maður er í rólegheitum, heldur en að vera í Kringlunni langt fram á kvöld að hlaupa búð úr búð í jólastressi, leitandi að jólagjöfum, skrauti og ýmsu fleira, bara tímasóun.Eitt sinn var ég þessi týpa sem slakaði ekki á í eina mínútu í desember, var hlaupandi, stressaður, vann úr mér allt vit til að eiga fyrir öllum þessum gjöfum. En ekki lengur, ekki eftir það sem eitt sinn gerðist einn fagran dag í desember, að rifja þá sögu upp iljar mér um hjartarætur, því ég minnist þess hvað ég varð mun meira jólabarn eftir það.Einn daginn, það hefur verið um 20. desember, kannski fyrr, var ég kominn í jólafrí. Ég slugsaðist af stað til að kaupa þessar gjafir sem ég átti eftir, bölvaði bíldruslunni í sand og ösku fyrir að komast ekki af stað fyrr en eftir nokkrar tilraunir, bölvaði helvítis snjónum sem heftir för mína, krakkafíflunum sem köstuðu í bílinn minn, jafnvel jólatónlistinni, þessu gargi sem hljómaði úr útvarpinu og ég var að verða vitlaus á, eftir mánaðar hlustun á sömu lögin aftur og aftur.Þegar ég var loksins kominn út á Hringbraut, vá hvað ég varð feginn! Loksins gat ég keyrt áfram án þess að eiga það á hættu að fá snjóbolta í bílinn, og gat spyrnt almennilega í, því enginn var snjórinn. Þetta átti eftir að draga dilk á eftir sér...Vá, þessi takki á útvarpinu sem slekkur á því, þvílíkt æði! Jólaauglýsingar og -lög trufla, fíflalegt hvað allar útvarpsstöðvarnar geta ekki hætt að spila það! Á 110 km hraða er erfitt að stöðva bíl snögglega, sérstaklega í hálku eins og var þennan dag. Ég vissi ekki af mér fyrr en á sjálfan aðfangadag, vaknaði á Landspítalanum við Hringbraut, og vá, það var skrýtin tilfinning. Ég fékk að vita tildrög málsins, ég lenti í hörðum árekstri, sem meðal annars kom farþega hins bílsins í lífshættu. Það eru ekki beint fréttirnar sem maður vill heyra svona þegar jólin eru að koma, sannleikurinn er sár.Ég eyddi jólunum á spítalanum, því þó að ég hafði náð meðvitund var ég ennþá ekki fær um að fara heim, því ég var í stöðugri hættu, áhrif slyssins höfðu lítið dvínað. Þetta voru leiðinlegustu jól sem ég hef upplifað, og allt stressinu mínu að kenna. Ég trúi því að verndarengillinn minn hafi látið mig klessa á hinn bílinn, að hann hafi látið mig missa af jólunum, að hann hafi bjargað mér. Farþegi hins bílsins, sem var í lífshættu, dó daginn fyrir gamlársdag, hún hafði aldrei náð meðvitund. Enn þann dag í dag sendi ég fjölskyldu hennar gjafir og jólakort á jólunum, og mun gera áfram, því sektarkennd mín er mikil. Ég læt einnig gott af mér leiða núna, gef t.d. nokkrar gjafir undir jólatréð í Kringlunni á hverju ári, styrki Hjálparstarf kirkjunnar, og margt annað sem er gott og göfugt. Ég geri þetta vegna þess að ég er ánægður með lífið, ánægður að hafa lifað af, fagna hverjum jólum eins og þau væru mín síðustu, og gleymi ekki jólaboðskapnum. Ég gef ekki eins margar gjafir og áður, eflaust eru einhverjir fúlir þess vegna. En þá segi ég á móti, hvað hafið þið gert til að verðskulda þetta, og hvað munar ykkur um þessa einu gjöf? Jólin snúast ekki um gjafir, heldur frið og kærleik, ást og umhyggju. Jólin eru að verða heilsufarsvandamál, fólk þarf að sækja sálfræðinga vegna jólastresss. Ekki ég, ég klára þetta allt fyrir desember, og nota svo jólamánuðinn sjálfan í afslöppun og náungakærleik, hvað með þig?

Þessi afdrifaríku jól, sem mér fundust vera ömurlegustu jól í heimi, hafa breytt um álit í huga mér, þau lifa í minningunni sem bestu jólin mín, þó að ég hafi hlotið varanleg meiðsl, það að ég er nú betri manneskja í kringum jólin en ég var tekur yfir það.

Gleðileg jól! - Saga eftir Atla Kristinsson - Takk Atli

 



Þessi góða sending kom 14. desember 2004.

Hæ hæ,
 
Ég og unnusti minn höfum verið búsett í Danmörku í fjögur og hálft ár, öll jól höfum við flogið heim til að vera með fjölskyldu og vinum yfir hátíðarnar heima á Íslandi.  Í ár ætlum við að vera í Danmörku, bara við tvö.  Við ætlum þó að halda jólin að íslenskum sið.  Við erum búin að fá sent hangikjöt, laufabrauð, grænar baunir, nóa konfekt og margt fleira.  Á aðfangadag munum við borða klukkan sex að íslenskum tíma, sjö að dönskum.  Það er svo frábært að geta hlustað á Rás 1, og fleiri íslenskar útvarpsstöðvar, á netinu svo klukkurnar munu hringja inn jólin hjá okkur á sama tíma og heima á Íslandi :o)
 
Það er allt orðið rosalega jólalegt hér, mikið búið að skreyta í Kaupmannahöfn, Strikið og Nyhavn er mjög gaman að labba, að ég tali nú ekki um jólatívolíið, það er rosalega gaman að fara þangað fyrir jólin og hvet ég alla sem eiga leið um Köben að skreppa í tívolíið.  Ef maður er ekki kominn í jólaskap þá kemst maður pottþétt í jólaskap við það að fara í jólatívolíið.
 
Einnig er gaman að fara í danskan Julefrokost.  Þar er meðal annars borið á borð: önd, fasani, flæskesteg, allskonar síld og rúgbrauð (Danir borða mikið af rúgbrauði) og að sjálfsögðu ris a la mande.
 
Hafið það gott yfir hátíðarnar :o) Kveðja frá Danmörku E&S

Í fyÞessi sendingÞessi góða sending kom 8. desember 2004.

Hef  verið að skoða síðuna þína því mig vantar hugmyndir fyrir verkefni í skólanum. Er ad læra spænsku í Universidad de Léon og þarf ad skrifa um jólin heima á Íslandi. Kennurunum finnst það sérstaklega merkilegt að við séum með 13 jólasveina og má segja að ég sé ákveðinn frumkvöðull því ég er fyrsti íslenski nemandinn í skólanum ( í spænskunámi alla vega). Því vil ég vanda mig sérstaklega. Hér í León búa álíka margir og í Reykjavík og jólin eru í fullum undirbúningi. Búið er að setja upp jólaljós í allar aðalgötur og víða annars staðar. Thað er líka frekar kalt, en þó enginn snjór. það kom smá slydda um daginn og allir Spánverjarnir voru voða stoltir af ´snjónum´ sínum og urðu móðgaðir þegar ég minntist á að þetta væri nú varla snjór. Það sem er sér sérstakt við jólainnkaupin, ekki síður en innkaup allmennt, á Spáni er ad búðirnar hérna eru alltaf opnar á kvöldin og því hefur mér fundist eins og það sé Þorláksmessustemmning hér á hverju kvöldi. Það er mjög skemmtilegt, enda hef ég aldrei verið jafn fljót að versla jólagjafirnar og er nú búin að öllu og það þremur vikum fyrir jól.  Í dag (6. desember) er dagur stjórnarskrár Spánverja og af því tilefni ákvað ETA (adskilnadarsamtök Baska) að sprengja 7 sprengjur í 7 borgum og þar á medal á kaffihúsi þar sem ég var á fyrir nokkrum vikum.
Þótt undarlegt megi virðast setti þetta hvorki strik í reikninginn hjá mér, né öðrum í León. Borgin er pakkfull af fólki á röltinu, fólki sem vill njóta jólaskreytinganna og kulda desembermánaðar.  Ég á enn eftir að læra þónokkuð um jólin á Spáni, en madur er samt alltaf stoltur af ´sínum eigin´ og á eftir að sjá til þess að aðrir viti hvernig jólin eru heima. Það sem manni finnst sjálfsagt er kannski ekki svo sjálfsagt eftir allt saman. Alla vega á maður ekki von á sprengju rétt fyrir jólin á Íslandi.

Kveðja, Ásta Sól Kristjánsdóttir
León, España
Jólavefurin Þakkar  Ástu Sól kærlega fyrir að færa okkur stöðu jólamála á Spáni.

Þessi góða sending kom 10. desember 2004.

Mig langar ad koma med frettir af minum jolum en eg er uti Hollandi sem au-pair.

13 november kom Sinterklas og swarte Piets fra Spani. Swarte Piets eru svona fylgisveinarnir og eru med svoldid laeti en Sinterklas er mjog rolegur og talar vid krakkana og tekur i hendina a theim. Svo 5 desember fer hann aftur til Spanar og a thessum tima fa krakkarni einstaka sinnum i skoinn. og 5 desember er haldin sma hatid. i minni fjolskyldu (sem er oll islensk) forum vid i hjolatur oll saman og thegar vid komum til baka var Sinterklas buin ad koma med pakka til krakkanna og eg fekk tvo og minnir ad krakkarnir hafi fengid fjora. Svo vorum vid med surprise en thad er hollensk hefd tha drogum vid mida med nafni a (erum 7 i fjolskyldunni nuna en einn er 1 ars svo hann var ekki med) og attum ad semja ljod um thann sem ad var a midanum og gefa sma gjof, thad var mjog gaman og mikid hlegid thegar var verid ad lesa upp ljodin. Thad er enignn serstakur matur sem ad Hollendingar borda tha en thad er mikid um sukkuladi staf, pipar hnetur (litlar piparkokur) og allskonar sukkuladi sem er lika bordad a thessum tima a medan Sinterklas er her.

En svo verda thad islensku jolin sem ad vid munum halda en thau verda samt ekki eins og venjuleg jol. A thorlaksmessu munum vid opna jolagjafirnar og erum ekkert buin ad akveda hvad vid munum borda tha en a adfangadag kemur herna islensk fjolskylda sem er einnig busett i Hollandi og vid munum borda saman annad hvort kalkun eda hamborgarahrygg og sidan verdur setid og spjallad en um klukkan 23 munum vid oll setjast upp i bil og keyra til Austurrikis i ca 8 klst og keyra um nottina og allir skella ser a skidi thar en eg verd eitthvad ad passa litla strakinn i minni fjolskyldu sem er 1 ars en skelli mer eflaust eitthvad a skidi.
Aramotin er ekkert buid ad plana en thad a allavega ad kaupa flugelda og skjota upp i Austurriki svo keyrum vid til baka 2 januar sael og glod eftir
(vonandi) skemmtilega ferd =)

bestu kvedjur a klakan   -  Sigurlaug au-pair i Hollandi


 

Jólabarn sendi eftirfarandi fyrir jólin 2003....

Kæru íslendingar erlendis !
Ég er nú ekki um þessi jól erlendis en fyrir tveimur árum þá var ég um jólin á Kanarí. Það var alveg stórkostleg upplifun sem ég myndi gjarnan vilja gera aftur. Við fjölskyldan erum mjög hrifin af jólunum og fannst okkur því erfitt að ákveða hvort við ættum að prófa þetta einu sinni. Á endanum ákváðum við þó að fara. Við vorum nú samt alveg viss um að við vildum ekki borða hamborgara eða eitthvað þess háttar á aðfangadagskvöld, því tókum við með okkur allan jólamatinn og mikið af jólaskrauti. Þegar við komum á hótelið okkar nokkrum dögum fyrir aðfangadag byrjuðum við að setja upp jólaseríur um allt hús. Einnig vorum við með tvö lítil jólatré með jólaseríum sem einnig skreyttu húsið. Auðvitað tókum við einnig með okkur jóladúka, jólakerti og margt annað jólaskraut sem var vant að skreyta húsið heima.
Þegar við vöknuðum á aðfangadagsmorgun var lagt af stað á ströndina. Það var sól og blíða og við öll tilbúinn að fá smá meiri brúnku fyrir kvöldið. Ég og systir mín vorum lengur úti í sólinni en mamma og pabbi því þau þurftu að fara inn að gera jólamatinn tilbúinn. Nokkru síðar fórum við systurnar inn til að taka okkur til og fórum í okkar fínustu jólaföt. Þegar klukkan var sex settumst við til borðs sem var úti á svölum. Þegar við litum út var ennþá skínandi sól og hellingur að pálmatrjám í kring skreytt með jólaseríum. Þetta var mjög gaman að sjá. Heimalagaða aspassúpan var sett á mitt borðið sem var skreytt alveg gífurlega. Við borðuðum súpuna með bestu lyst í þessu framandi umhverfi. Í aðalrétt voru síðan ljúffengar rjúpur frá Íslandi, sem eru nú miður orðnar bannaðar hér á landi, þær voru nú engu síðri en súpan. Í eftirrétt átti að vera heimalagaður ís, en við vorum öll orðin svo södd að hann var geymdur til morgundagsins. Þegar búið var að ganga frá öllu eftir matinn var farið inn í stofu þar sem allir pakkarnir okkar sem við tókum með okkur frá Íslandi voru liggjandi kringum eitt af okkar litlu jólatré sem við tókum með okkur.  Þeir voru opnaðir með gleði í hjarta og var það frábær endir á þessum yndislega degi sem mun alltaf vera hluti í hjarta mér.

Jólabarn




(7. des 2002)  Fékk vefurinn sent skemmtilegt bréf frá Þýskalandi......

 Héðan úr Karlsruhe er sko allt gott að frétta og allir að komast í jólastuð!! Hér er siður að setja upp jólamarkaði þar sem hægt er að kaupa allt sem tilheyrir jólunum !! Þetta eru svona litlir kofar og hver og einn með eitthvað sérstakt! Þar eru líka seldar grillaðar pylsur og svokallað Gluewein ( jólaglögg ) Þessi jólamarkaður stendur yfir í mánuð og það er endalaust hægt að fara og kíkja, svo stór er hann!  Í dag er Nikulaustag ( eða Nikulásardagur ) en jólasveinninn hérna úti heitir einmitt Nikulaus!! Hann færði flestum krökkum eitthvað gott í skóinn eða sokkinn í dag og vorum við systur engin undantekning!! Skórinn er þó aðeins settur einu sinni fyrir framan dyrnar hér í Þýskalandi en ekki 13 sinnum út í glugga eins og heima!! Þó jólin séu nú alltaf best heima þá er líka rosalega gaman að fá að kynnast öðrum siðum og annarri menningu!! Óskum ykkur á Fróni, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári!!

Jólakveðja, Birgitta Íris, Júlía Karen og mamma!!

Ein á jólanótt?

Heiða Sigrún hét ein kona í Skagafirði. Það var þorláksmessa og hún sat ein á rúminu sínu og las í bók. Hún var oftast ein, fjölskyldan hennar var dáinn og hún átti næstum enga vini. Hún fór svo sjaldan út, greyið. Hún var komin að 4. kafla í bókinni, hann hét "Jólin eru aldrei ein." Henni Heiðu fannst það vera rangt, vegna þess að hún var alltaf ein á jólunum. Þá leit hún á kertið sem stóð á náttborðinu hennar. Það ljómaði yfir andlitið á henni. Ljós, Jesú, guð! Hún fattaði það að hún var ekki ein á jólunum, allir andar voru inni í hjartanu hennar. Guð og Jesú hugsuðu um hana eins og alla aðra. Hún hefur aldrei verið ein á jólunum. Hún fattaði það, eftir öll þessi ár, Guð og Jesú voru alltaf hjá henni og fara aldrei frá henni.  Og munið það, þó þið séuð án fjölskyldu ykkar, þá megi Guð og Jesú fylgja ykkur alla daga og allar nætur.   Endir.   Bryndís.

Jólavefurinn fékk afar skemmtilegt bréf ..takk fyrir Bryndís.  ( 3.des 2002 )

Hér í Tallinn - borginni við Baltneska hafið dalar jólasnjórinn niður og er hér alhvít jörð og mikil jólastemming. Á ráðhúsinu er búið að koma fyrir litlum tréhúsum þar sem Eistar selja varning sinn, en Eistar eru mikil handverksþjóð og mikið um fallegan og vel unnin varning úr ull, tré, smíðajárni, gleri, postulíni, líni og fleira mætti upp telja.Eins er í litlu húsunum selt heitt jólaglögg og piparkökur og ýmis Eistneskur matur. Jólalögin hljóma um torgið og um alla gömlu borgina, sem er afskaplega falleg og hefur staðist tímans tönn þrátt fyrir allar þær hremmingar sem yfir borgina hafa dunið gegnum árin.Unga - aldna þjóðin hér hefur lyft Grettistaki á þessum aðeins 11árum síðan landið varð sjálfstætt og þakka Eistar jú Íslendingum og þá sérstaklega Jóni Hannibal sérstaklega fyrir þeirra þátt fyrir að vera fyrsta þjóðin til að skrifa undir sjálfstæðisyfirlýsingu Eistlands.
Gleðilega hátíð og farsælt komandi 2003 - - - Kauneid Jooulupuuhasid ja Haaaad Uut Aastat!

Bryndis Torfadottir -  General Manager Estonia & Iceland

Hvernig eru jólin haldin í Bretlandi?

Á Bretlandi er það árlegur viðburður, svona þegar nokkuð er liðið á aðventuna, að frægur læknir er kallaður á sal morgunsjónvarps BBC og fenginn til þess að svara þar spurningum áhorfenda um jól og heilsufar. Flestar snúast þær um það hvernig hægt sé að njóta alls þess sem jólunum fylgir í mat og drykk, án þess að líða um of fyrir það í meltingartruflunum og timburmönnum dagana á eftir. Þessum spurningum svarar læknirinn mjög greiðlega og leggur glaður sitt af mörkum til þess að fólk geti nú skemmt sér sem best.

Í huga undirritaðs lýsir þetta best jólunum á Bretlandi. Á Bretlandi eru jólin ekki hátíð ljóss eða friðar, barnanna eða fjölskyldunnar. Þau eru samkvæmi - partí - og á breskum jólum er ekkert sem líkist íslensku aðfangadagskvöldi. Víða á Englandi er áramótum hins vegar lítið fagnað en það á hins vegar alls ekki við um Skotland. Að þessu sögðu er rétt að slá tvo varnagla. Á Bretlandi kennir margra grasa, mun fleiri en undirritaður hefði gert sér grein fyrir að óreyndu. Þar er margt mjög breytilegt frá einu héraði til annars. Bretland er einnig mjög stéttskipt þjóðfélag. Stéttaskiptingin felst ekki nema að hluta til í ólíkum fjárhag. Miklu skipta ólík viðhorf, ólíkt verðmætamat og ólíkir lifnaðarhættir stéttanna. Það gefur að skilja af ofangreindu að jólahald á Bretlandi er margbreytilegra en svo að gera megi því full skil í stuttu máli. Hér er því brugðið á það ráð að byggja á reynslu íslensks mannfræðings sem átt hefur nokkur jól í landi Breta - og notið þeirra í ríkum mæli.

Arnar Árnason mannfræðingur.


Lesið meira um jólahald í Bretlandi á Vísindavefunum.
 

 

Spænsk jól
 

Hér á Spáni eru jólin haldin dálítið öðruvísi en á Íslandi. Fjölskyldur koma saman á jóladag og borða mikið og drekka góð vín m.a. marispan og kampavín. Gjafir eru hins vegar ekki gefnar fyrr en 6. janúar en þá halda Spánverjar hina eiginlegu jólahátið. Það er dagur konunganna og fara 3 fagurlega búinr konumgar/vitringar á vögnum um borgir og bæi og strá sælgæti til mannfjöldans. Rökstyðja Spánverjar þessi hátíðarhöld með því að vitringarnir sem þeir kalla hina vitru konunga, hafi ekki komið að jötu Jesúbarnsins fyrr en 6.jan. eða á 13.degi jóla og þá færandi gjafir, svo sem gull, reykelsi og myrru. Á degi konunganna er borðað sérstakt brauð, kallað Roscon de Rayes eða Kóngakrans. Áður fyrr var það bakað á öllum heimilum en nú fæst það keypt í verslunum og þá með "gull"kórónu í miðju kransins sem síðan fer á höfuð þess sem verður konungur/drottning dagsins. Í brauðdegið er settur hringur og stór baun sem heitir HABA og er græn að lit. Sá sem hreppir hringinn verður konungur/drottning en sá sem fær baunina á að borga brauðið.

Eftirfarandi eru 2 uppskriftir af Kóngakransi. -  Roscon de Reyes.

1 kg. ristaðar og hakkaðar möndlur,
125 gr sykur
6 egg
Smá sletta af Visky eða Koniaki ef vill.


Þeyta eggin og blanda sykri og hökkuðum möndlum saman við, hræra stöðugt þar til massinn þykknar næginlega til að hægt sé að forma hring á bökunarplötu úr deiginu. Munið að setja einhverja gjöf í deigið. (plasthring eða annað) Kransinn skreyttur með kokteilberjum og möndlum , eða hverju því sem fólki dettur í hug. Bakað í 150C heitum ofni í 30 mínútur eða þar til kransinn er þurr.

Roscon de Reyes. (Gerbrauð)
250 gr hveiti
80 gr sykur
1 egg
1/2 glas volg mjólk
20 gr pressuger eða samsvarandi þurrger
rifin börkur af sítrónu og appelsínu eftir smekk.
 -  Ekki gleyma að setja gjöfina í kransinn.

Gerið leyst upp í mjólkinni og blandað saman við þurrefnin og eggin. Hnoðað vel, kransinn formaður á bökunarplötu og látin hefa sig. Á að ná tvöfaldri stærð. Penslaður með þeyttu eggi og skreyttur með t.d. sykruðum appelsínusneiðum, kokteil berjum og möndlum. Bakaður við 170C í 15 mínútur.

Þess má geta að báðar uppskriftirnar eru ætlaðar fyrir 4 persónur, og inniheldur gerkransinn 278 kaloríur, en hinn er heldur kaloríuríkari. Gaman er líka að hafa kórónu í miðju hringsins eftir bökun, t.d. svona bréf kórónu eins og notaðar eru á gamlárskvöld, Báðir þessir kransar eru mjög góðir.  Turron, eða möndlusælgæti er borðað á Spáni eins og smákökur á Íslandi. Það er steypt og pakkað eins og súkkulaði plötur og fæst ýmist sem hreinn möndlumassi eða með ýmisskonar ávöxtum eða líkjörum. Ómissandi tegund af Turron er í köku formi, og kennd við borgina Alicante. Í því eru heilar möndlur pressaðar saman með karamellu og er bæði botn og toppur kökunnar obláta. 

Af hverju er snjólausum jólum lýst sem "rauðum jólum" en ekki svörtum?

Lýsingarorðið rauður hefur fleiri en eina merkingu, meðal annars merkir það 'snjólaus, auður', til dæmis rauð jörð. Með rauð jól er því átt við snjólausa auða jörð um jól. Orðatiltækið rauð jól, hvítir páskar, hvít jól, rauðir páskar felur í sér þá trú manna að væri jörð auð um jól yrði snjór um páska og öfugt. Orðabók Háskólans á elst dæmi úr þjóðsögum Jóns Árnasonar (II:564) en vísast er orðatiltækið eldra í munni manna. Svipað orðasamband er til í dönsku: grøn jul bringer snehvid påske. Þar er þó talað um græn jól en ekki rauð og grænn merkir þarna 'snjólaus, auður' eins og rauður í íslensku.

Guðrún Kvaran  -   Vísindavefur Háskólans.


Hvers vegna eru jólin ekki haldin á sama tíma alls staðar?


Talið er að vetrarsólstöðuhátíðir af ýmsu tagi hafi verið haldnar víða á norðurhveli jarðar löngu áður en kristnin kom til sögunnar. Til dæmis var orðið jól til í norrænum málum löngu fyrir kristnitöku og sama gildir um orðið yule í ensku. Ætla má að skammdegið hafi verið erfiður tími fyrir fólk til forna og því hafi þótt full ástæða til fagnaðar þegar sól fór að hækka aftur á lofti eftir 21. eða 22. desember. Með tímanum var öðrum þáttum sem tengdust trúarbrögðum á viðkomandi stað svo fléttað inn í þessar sólstöðuhátíðir.

Um árið 200 varð sá siður til hjá gnostíkerum í Egyptalandi að minnast skírnar Jesú 6. janúar og náði hann töluverðri útbreiðslu áður en 25. desember varð síðar ofan á. Margir litu svo á að halda ætti upp á fæðingardag Jesú um leið og skírnina og litu því jafnframt á 6. janúar sem fæðingardag hans. Smám saman vék þessi dagur fyrir 25. desember nema hjá armensku kirkjunni sem enn þann dag í dag lítur á 6. janúar sem fæðingarhátíð Jesú. Þar sem armenska kirkjan notast við dagatal sem er einum degi á undan júlíanska dagatalinu fer þessi hátíð fram 19. janúar samkvæmt okkar dagatali.Hér er komið að helstu ástæðunni fyrir mismunandi dagsetningum jólahalds, en það er einmitt mismunandi tímatal.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, doktorsnemi í heimspeki við Cornell-háskóla.

Lesið meira um það af hverju jólin eru ekki haldin á sama tíma alls staðar á Vísindavefnum.
 

 

Hversu mikið má skreyta hús sín fyrir jólin?
- deilumál vegna jólaskreytinga æ algengari

Það fer ekki á milli mála að jólaskreytingar utanhúss eru nýjasta dellan og hún magnast sífellt á milli ára. Það sem í fyrra þótti yfirgengilegt þykir nú venjulegt og aumingjalegt. Það virðast einkum vera miðaldra karlmenn sem eru illa haldnir af þessu æði. Þessi bilun þróast stundum í harðvítuga keppni milli nágranna og er þá yfirleitt skammt í öfgarnar. Er þá ekkert til sparað og þá er frekar stílað upp á magn en smekkvísi. Í sumum fjölbýlishúsum og raðhúsum hafa menn deilt um hvað sé hæfilegt og eðlilegt í ljósaskreytingum og sýnist sitt hverjum. En hver er réttur nágranna þegar einhver fer svo yfir strikið í skreytingum að það er farið að trufla eðlilegt heimilislíf nágranna og jafnvel varna þeim svefns? Við fengum Sigurð Helga Guðjónsson, formann Húseigendafélagsins, til að segja okkur frá því hver réttur fólks er við slíkar aðstæður.

,,Meginreglan er sú að meirihluti eigenda ræður því hvernig og hversu mikið húsið skuli lýst og skreytt," segir Sigurður Helgi. ,,Eru allir eigendur bundnir við slíka ákvörðun og skyldugir að taka þátt í kostnaðinum. Þótt einhver eigandi haldi jólin ekki hátíðleg af trúarástæðum og telji allt bramboltið í kringum þau af hinu illa, þá verður hann allt að einu að lúta meirihlutaákvörðun og una við ljósaskrautið og borga meira að segja líka sinn hlut í ósköpunum. Deilumál og álitaefni vegna þessa hafa orðið æ algengari eftir því sem litróf mannlífsins hefur orðið meira og fjölbreyttara. Þetta er þó háð því að lýsingin og skreytingarnar séu í hófi og ekki flottari og dýrari en gengur og gerist í sambærilegum húsum. Þetta þýðir að ef meirihlutinn vill vera flottur á því og hafa skreytingarnar meiri og dýrari en venjulegt getur talist, þá er minnihlutinn ekki skyldur að taka þátt í slíkum lúxus. Í þessu efni eru mörg gráu svæðin enda er það afstætt og breytilegt frá einum tíma til annars hvað telst eðlilegt og hvað óhóf. Sem betur fer ná íbúðareigendur yfirleitt lendingu í þessu sem allir una við. Það eru líka til dæmi um hið gagnstæða að húsfélag ákveði að hafa engar sameiginlegar ljósakreytingar og leggi blátt bann við því að eigendur setji upp eigin skrautljós á sínar svalir. Það þekkist líka að arkitektar húsa hafi bannað jólaljósaskreytingar svo að fegurð og tign sköpunarverks þeirra verði ekki spillt með svona smekklausu prjáli. Það eru öfgar í hina áttina og litlu skárri. Ég tel að slíkt almennt bann við ljósaskrauti með húsfélagssamþykkt fái ekki staðist og húsfélagið hafi ekki vald til að grípa svona víðtækt inn í rétt eigenda nema þeir vilji það sjálfir. Hins vegar getur húsfélagið sett vissar nánari reglur um slíkar prívat ljósaskreytingar og umfang þeirra."

Ónæðistíminn lengist
Hvað með einbýlishúsaeigendur? ,,Það eru aðallega þeir sem ganga af göflunum í þessu efni enda leiðir það af hlutarins eðli. Sum hús og lóðir standa bókstaflega í ljósum logum í desember. Það er ekki nóg með ljós, heldur planta menn á hús og úti um allt alls kyns misljótum líkneskjum af jólasveinum, hreindýrum, vitringum, guðsmæðrum og heilu og hálfu fjárhúsunum. Sumir hafa komið upp öflugum hljóðkerfum í þessu öllu saman; jólasveinar öskra HO, HO, HO! og hreindýrin baula eins og ryðgaður þokulúður, vitringarnir segja fátt og María mey og jólabarnið þegja þunnu hljóði. Svo hefur maður séð mekanisma í þessu þannig að fígúrurnar hreyfast líka. Ég hef haft spurnir af Stúf sem fer í sífellu til skiptist ofan í og upp úr reykháfnum með skerandi skrækjum og góli. Maðurinn í næsta húsi spurði mig örvinglaður hvort hann mætti ekki skjóta á þetta óhræsi með haglabyssu. Það er vitaskuld augljóst að svona lagað getur plagað þá sem í nágrenninu búa og vilja hafa frið og næði. Fólk hefur þó yfirleitt mikið umburðarlyndi gagnvart svona áreiti í þeirri von og vissu að þetta taki fljótt af. Að vísu brestur þetta á fyrr og fyrr með hverju árinu þannig að ónæðistíminn er alltaf að lengjast í annan endann og svo stigmagnast þetta líka. Um svona jólabrambolt í sérbýli gilda engar sérstakar skráðar réttarreglur. Þetta ónæði er í fyrsta lagi sérstakt vegna þess að þetta áreiti eða ónæði er ekki varanlegt heldur tímabundið. Hér koma til álita óskráðar reglur grenndarréttar sem gilda um hagnýtingu fasteigna og setja eigendum þeirra skorður af tilliti til nágranna. Eigandi fasteignar má gera það á sinni eign sem er venjulegt og eðlilegt og nágranninn verður að sætta sig við það. Hvað er svo venjulegt og eðlilegt og hvenær er út fyrir þau mörk komið er svo matsatriði."

Hefur áhrif á ástarlífið
Sigurður Helgi segir það einkum vera ljósin sem fólk kvartar yfir. ,,Þegar blikkandi diskóljós í öllum regnbogans litum lýsa upp svefnherbergin og úti bíður María mey með óskilgetið Jesúsbarnið og vitringarnir gónandi upp í loftið, þá vilja verða jafnvel hörðustu menn linir til ásta og skal engan undra. Fólk sér sig og sína í afskræmandi ljósi sem magnar alla keppi og hrukkur og gerir fólk gamalt, hrukkótt, feitt og afkáralegt. Menn hafa nú látið deigan síga og bugast og runnið á rassinn af minna tilefni. En þótt ónæðið geti verið umtalsvert og í sumum tilvikum óþolandi þá er yfirleitt ekki tími eða efni til að grípa til lagalegra úrræða. Yfirleitt er látið sitja við kvörtunarbréf en eins er hægt að leita til lögreglu ef svefnfriði er raskað með hljóðum eða ljósum."

Að lokum kvaðst Sigurður Helgi aðspurður trúa heitt, fast og innilega á jólasveininn.  DV 2001



Eru jólasveinar til í alvörunni?

Hvað er það að vera til "í alvörunni"? Það er auðvitað ekkert vafamál að jólasveinar eru til í hugum okkar og í sögum og frásögnum af þeim. Í einhverjum skilningi hljóta þeir því að vera til en það er líklega ekki sá skilningur sem átt er við með "í alvörunni". Líklega er átt við það hvort þeir séu til sem lifandi, áþreifanlegar verur, svona eins og ég og þú. Þá má auðvitað benda á að til eru lifandi, áþreifanlegir menn í jólasveinafötum sem segjast vera jólasveinar. Er spurningunni þar með svarað? Nei, því stundum heyrist sagt að þessir menn séu bara "venjulegir" menn með hvítt gerviskegg að leika jólasveina og að þeir eigi alls ekkert heima í helli í fjöllunum og séu þaðan af síður synir Grýlu og Leppalúða. Þetta er talið til marks um að jólasveinar séu ekki til í alvörunni.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir doktorsnemi í heimspeki við Cornell-háskóla og Sólrún Halla Einarsdóttir grunnskólanemi í Bandaríkjunum.

Lesið meira um það hvort jólasveinar séu til í alvörunni á Vísindavefnum.

 



Hvers vegna er latneski texti jólaguðspjallsins stundum sem hann hefur velþóknun á" en annars "sem hafa góðan vilja"?

Í latnesku biblíuþýðingunni Vulgata, sem er meðal elstu og frægustu biblíuþýðinga, er síðari hluti englasöngsins á jólanóttina samkvæmt Lúkasarguðspjalli (2.14) svona: et in terra pax hominibus bonae voluntatis, sem þýðir orðrétt "og friður á jörðu til handa mönnum góðs vilja." Latneska textann hafa menn gjarna skilið þannig að hann ætti við góðan vilja meðal manna. Það kemur til dæmis fram í prédikun Hómilíubókar á boðunardag Maríu þar sem vísað er í englasönginn á jólanótt og sagt: "Nú er sem yður sé sagt í orðum engla Guðs almáttugs, að friður er boðinn öllum þeim mönnum, er með góðum vilja eru." (Íslensk hómilíubók. Fornar stólræður 1994, s. 194). Þeim góða vilja er síðan lýst sem trú á Guð, elsku til Guðs og góðum verkum gagnvart mönnum.

Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræði við HÍ.

Lesið meira um latneska texta jólaguðspjallsins á Vísindavefnum.



Hvers vegna er hátíðlegast hjá okkur á aðfangadag þegar við opnum pakkana, en á jóladag víða annars staðar?

Fæðingarhátíð Jesú Krists, jólin, er haldin 25. desember. Undirbúningur hátíðahaldsins er aðventan eða jólafastan og lokadagur hennar, 24. desember, nefnist hjá okkur aðfangadagur jóla. Nafnið er gagnsætt. Þá skal undirbúningi lokið og aðföng öll komin til hátíðahaldsins. Helgin hefst síðan um miðjan aftan eða kl. 18. Þá er orðið heilagt og í hönd fer jólanóttin. Í þessu fylgjum við Íslendingar fornum sið. Helgidaga- og hátíðahald kristinna manna studdist upprunalega við gyðinglegt tímatal, en hjá þeim hefst dagurinn við sólsetur.

Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræði við HÍ.  -  Lesið meira um þetta á Vísindavefnum.
 

Er ekki sagt að Jesú hafi fæðst í júlí, af hverju höldum við þá jólin í desember?

Það er einfaldlega ekki vitað hvenær Jesús fæddist. Ljóst er að hann fæddist ekki 25. desember. Jól voru haldin hátíðleg í Róm til forna (Saturnalia hátíðin) og tengd heiðnum sólarguði, það er að segja að menn héldu upp á að daginn fór að lengja á ný. Dagana 17.—23. desember gáfu Rómverjar hver öðrum gjafir. Heiðnir, norrænir menn héldu sömu hátíð á svipuðum árstíma tíma og hét hún, líkt og nú, jól. Þegar kristni verður að ríkistrú hjá Rómverjum með Konstantínusi mikla (324) þá yfirtekur kirkjan smám saman forna helgidaga og með tímanum festist 25. desember sem fæðingardagur Jesú. Sá siður skýtur rótum undir aldamótin 400. Dagurinn var einnig tengdur fæðingardegi keisarans og þar sem Jesús var hinn eini sanni keisari fékk hann sína fæðingarhátið. Jesús tók því bæði sæti sólarguðsins, keisarans og hátíðargleðinnar. Á 5. öld er jólahátíðin orðin miðlæg um alla kristnina sem fæðingarhátíð Jesú. Í vesturkirkjunni hafa jól fengið jafnmikið vægi og páskarnir sem eru mesta hátíð kristninnar. Guðsþjónustur eru enn þann dag í dag haldnar á sunnudegi því að á þeim degi reis Jesú upp.
 

Sigurður Árni Eyjólfsson  - Vísindavefur Háskólans

 

 


Vertu þakklát/ur fyrir það sem þú hefur.

Síðasta dag fyrir jól flýtti ég mér í stórmarkaðinn til að kaupa gjafirnar sem ég komst ekki yfir að kaupa fyrr. Þegar ég sá allt fólkið þar, byrjaði ég að kvarta í hljóði "Þetta á eftir að taka heila eilífð og ég á enn eftir að fara á svo marga staði". Jólin eru alltaf að verða meira og meira pirrandi með hverju árinu. Ég vildi að ég gæti bara lagst niður og farið að sofa og vaknað svo eftir jólin. Allavegana, ég kom mér í leikfangadeildina og þar fór ég að skoða verðin, hugsandi hvort að börn leiki sér eitthvað með svona dýr leikföng. Eftir smá tíma af leikfangaskoði þá tók ég eftir litlum strák um 5 ára, sem hélt á dúkku upp við brjóstið sitt. Hann strauk hárið á dúkkuni og virtist svo sorgmæddur. Svo snéri litli strákurinn sér að eldri konu sem var við hliðina á honum "amma, ertu viss um að ég hafi ekki nógu mikla peninga?" Gamla konan svaraði "þú veist að þú átt ekki nóg til að kaupa dúkkuna elskan mín" Svo bað hún hann um að bíða í 5 mínútur eftir sér á meðan hún skoðaði sig um. Hún fór fljótlega. Litli strákurinn hélt ennþá á dúkkunni í hendinni. Ég labbaði til hans og spurði hann hverjum hann ætlaði að gefa dúkkuna. "Þetta er dúkkan sem systir mín elskaði mest og langaði svo mikið í fyrir jólin. Hún var svo viss um að jólasveinninn myndi gefa sér hana. Ég sagði honum að kannski eigi jólasveinninn eftir að koma með dúkkuna til hennar, og að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur. En hann sagði við mig sorgmæddur "Nei jólasveinninn getur ekki gefið henni dúkkuna þar sem hún er núna. Ég verð að gefa mömmu dúkkuna svo að hún geti gefið henni hana þegar hún fer þangað". Augun hans voru svo sorgmædd meðan hann sagði þetta. Systir mín er farin til þess að vera með Guð. Pabbi segir að mamma sé líka að fara til Guðs mjög fljótlega, og ég hélt að hún gæti farið með dúkkuna fyri mig og gefið systur minni hana". Hjartað mitt stoppaði næstum því. Litli strákurinn leit upp til mín og sagði Ég sagði pabba að segja mömmu að fara ekki alveg strax. Ég bað hann um að bíða þangað til að ég kæmi heim úr búðinni" Svo sýndi hann mér fallega mynd af honum þar sem hann var hlægjandi. Ég vil líka að mamma taki þessa mynd með sér svo að hún gleymi mér aldrei" "Ég elska mömmu mína og ég vildi óska að hún þyrfti ekki að fara, en pabbi segir að hún verði að fara til að vera hjá litlu systur minni". Svo leit hann aftur á dúkkuna með sorgmæddum augum, mjög hljóðlátur. Ég teigði mig hljóðlega í veskið mitt og tók smá pening upp og sagði við strákinn "en ef við athugum aftur í vasan til að tékka hvort að þú eigir nógan pening?" Allt í lagi sagði strákurinn "ég vona að ég eigi nóg" Ég bætti smá af mínum peningum við án þess að hann tæki eftir því og við byrjuðum að telja. Það var nógur peningur fyrir dúkkunni, og meira að segja smá afgangur. Litli strákurinn sagði Takk Guð fyrir að gefa mér nógan pening. Svo leit hann á mig og sagði " Í gær áður en ég fór að sofa þá bað ég Guð um að vera viss um að ég hafi nógan pening til þess að geta keypt dúkkuna handa systur minni. Hann heyrði til mín" Mig langaði líka að eiga nógan pening til að kaupa hvíta rós handa mömmu, en ég þorði ekki að biðja Guð um of mikið, en hann gaf mér nóg til að kaupa rósina líka". Sko mamma elskar hvíta rós". Nokkrum mínútum seinna kom gamla konan og sótti strákinn. Ég kláraði að versla með allt öðru hugarfari, ég gat ekki hætt að hugsa um litla strákinn. Svo mundi ég eftir frétt í blaðinu fyrir 2 dögum síðan "maður keyrði drukkinn og klessti á bíl þar sem ung kona og lítil stelpa voru í. Litla stelpan dó samstundis en mamman var í dái" Fjölskyldan varð að ákveða hvort að það ætti að setja hana í öndunarvél eða ekki, af því að hún, unga konan myndi ekki vakna úr dáinu. Var þetta fjölskylda litla stráksins? Tveim dögum eftir að ég hitti litla strákinn, las ég í blaðinu að unga konan hafi dáið. Ég gat ekki hamið mig og fór út í blómabúð og keypti búnt af hvítum rósum og fór upp í líkhús þar sem fólk gat séð konuna og og óskað sér í seinasta skipti áður en hún væri jörðuð. Hún var þarna í kjól, haldandi á fallegri hvítri rós með myndini af litla stráknum og dúkkuna á brjóstinu. Ég fór grátandi og fannst líf mitt hafa breyst til eilífðar. Ástin sem þessi litli strákur hafði til mömmu sinnar og systur, er enn þann dag í dag, erfitt að ímynda sér. Og í einni svipan tekur drukkinn maður þetta allt frá honum.

Bentu vinum og öllum sem þú þekkir á þessa frásögn, þú gætir hindrað einhvern í að -----keyra drukkinn ----

Mamma

Ég fór í partýið mamma, ég mundi hvað þú sagðir, ekki drekka og keyra, svo að ég fékk mér bara gos. Ég var stolt mamma eins og þú sagðir að ég mundi verða, ekki drekka og keyra þó að vinir mínir vilji það, ég tók heilbrigða ákvörðun mamma og þínar ráðleggingar voru réttar.Þegar veislan var loks búin, settist ég í bílinn minn, örugg um að komast heil heim. En það sem gerðist mamma var það sem ég reiknaði síst með, nú  
ligg ég hér í götunni mamma og heyri lögguna segja: strákurinn í hinum  bílnum var fullur undir stýri. Mamma rödd hans er svo fjarlægð, ég er öll út ötuð í blóði mamma, en ég reyni að gráta ekki, ég heyri sjúkraliðana segja: stelpan á ekki mikið eftir. Ég er viss um að strákurinn pældi ekkert í þessu á meðan hann var undir áhrifum, því hann valdi að drekka og keyra. Mamma er ég að deyja? Af hverju gerir fólk þetta mamma? Vitandi að það getur eyðilagt líf. Ég finn svo til mamma, það er eins og að ég hafi verið stunginn með  
óteljandi hnífum. Segðu systur minni að vera ekki hrædd mamma, segðu pabba að vera hugrakkur og þegar ég fer til himna mamma viltu þá skrifa á legsteininn: Stelpan hans pabba. Bara ef hann hafði ekki keyrt fullur mamma, þá væri ég enn á lífi. Ég á erfitt með að draga andann mamma, ég er svo hrædd, þetta er mín hinsta stund, en ég er ekki tilbúin mamma.  Ef ég gæti bara haldið utan um þig elsku mamma mín. Ef ég gæti haldið í hönd þína mamma á meðan ég dey.

Mamma mín ég elska þig. Bless.   - Skilaboðin eru skýr, ekki keyra undir áhrifum  
 
Bentu vinum og öllum sem þú þekkir á þessa frásögn, þú gætir hindrað einhvern í að keyra fullur!!!  
 
Af hverju eru jólatré betri en karlmenn?

Við erum því marki brennd að vera alltaf að bera eitt og annað saman. Núverandi makinn lifir við stöðugan þrýsting vegna samanburðs við þann fyrrverandi, nýju eldhústækin eru borin saman við þau eldri og nú standa karlmennirnir frammi fyrir nýjustu ógninni, jólatrénu, sem stendur alltaf upprétt!!!

Af hverju eru jólatré betri en karlmenn ?

  • 1. Jólatré standa alltaf upprétt
  • 2. Stærð jólatrésins skiptir ekki öllu!
  • 3. Jólatréð stendur í 12 daga og 12 nætur!
  • 4. Jólatréð lítur alltaf vel út, meira að segja í dagsbirtu...
  • 5. Jólatréið er alltaf ánægð með stærðina sína!
  • 6. Jólatré eru með sætar kúlur...
  • 7. Jólaténu stendur á sama þótt þú brjótir eina kúluna af því
  • 8. Þú mátt henda því út þegar það hefur gert sitt gagn!
  • 9. Þú þarft ekki að þola það allt árið um kring!
  • 10. Þú þarft bara að gefa því að borða einu sinni á viku
  • 11. Það er alltaf til staðar til þess eins að gleðja þig...
  • 12. Það kviknar á því bara þegar þér hentar!
  • 13. Það lyktar alltaf vel og gefur ekki frá sér óæskilega lykt!
  • 14. Ef það stingur þig er auðvelt að fjarlægja meinið
  • 15. Það fer ekki fram á að fá lítið jólatré

 

Það er gott að hafa jólin sem áhugamál en  það er hægt að ganga of langt.

 Þú ert komin yfir strikið ef:
 


1. Þú ert með mynd af jólasveininum fyrir screensaver allt árið.

2. Þú bakar piparkökur 1 x í mánuði.

3. Þú lest jólasögur á miðju ári.

4. Þú situr við strompinn á kvöldin og bíður.

5. þú setur skóinn út í glugga 13 sinnum í mánuði þér til skemmtunar.

6. Þú situr út í glugga og bíður eftir snjónum.

7. Þú skoðar jólasíður á netinu á sumrin.

8. Þú stenst ekki að glápa á jólamyndir allt árið um kring.

9. Þú stofnar jólaaðdáendaklúbb.

10. Þú drekkur jólaöl án afláts hvenær sem er.

11. Þú geymir jólatréð í stofunni með skrautinu á þar til næstu jól.

12. Þú ferð að spá í hvort það verða rauð eða hvít jól 7. janúar.

13. Þú safnar jólasælgæti.

14. Þú hengir dagatal upp á vegg og strikar út alveg til næstu jóla.

15. Þú klifrar upp á Esju í leit að jólasveinunum.

16. Þú sendir nafnlausan póst til Coca-Cola og biður um ársbirgðir af Jóla-Cola.

17. Þú setur jólasvein á páskaeggið þitt.

18. Þú sturtar gervisnjó yfir þakið hjá þér einu sinni í viku.

19. Þú ferð á Suðurpólinn og heldur þig þar til næstu jóla.

20. Þú færð þér tattú af sveinka.

21. Þú syngur jólalög í sturtu.

22. Þú hefur jólaseríur í glugganum allt árið um kring.

23. Þú drekkur ekki kók nema það sé merkt jólasveininum.

24. Þú hugsar sem að sólin sé versti óvinur þinn.
.

 
 

  

 
 TIL BAKA
 Júlíus Júlíusson -    Jólavefur Júlla    2003 -  2004 - 2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 -2010 - 2011 - 2012
Póstur