( KNÚSVIKAN MIKLA 13. - 20. október 2008 )

Knúsumst áfram þó að knúsvikan sé búin...knús á hverjumdegi

Hefur þú knúsað í dag ?

 

Þegar á bjátar er afar mikilvægt að við stöndum öll saman, sýnum nærgætni, og látum ekki svartsýni og pirring ná tökum á okkur. Það þurfa allir að hugsa vel um sig, gæta þess að fá nægan svefn og velta sér ekki of mikið uppúr því neikvæða. Að mínu mati er eitt það mikilvægasta sem við getum gert er að knúsast, gott faðmlag er það sem að allir þurfa á að halda og sanniði til að þeir sem fá nóg af knúsi eru ríkir og eru tilbúnari fyrir lífið og verkefni dagsins.Látum knús ganga.

Bros og knús í hvert hús


Knús er hollt

Almennilegt faðmlag getur dregið úr hættu á hjartasjúkdómum, að því er ný bandarísk rannsókn sýnir. Berlingske tidende greinir frá því að vísindamenn við Háskólann í Norður-Karólínu hafi skipt 38 pörum upp í tvo hópa. Helmingur paranna fékk þau fyrirmæli að setjast niður og rifja upp góðar stundir sem þau hefðu upplifað saman, horfa í fimm mínútur á rómantíska kvikmynd og að lokum faðma hvort annað í 20 sekúndur. Í hinum hópnum sat fólkið eitt síns liðs og hugsaði um hvað það myndi gera ef það hefði daginn alveg fyrir sig sjálft. Eftir það stóð það á fætur og var þannig í tuttugu sekúndur án þess að fá knús.

Að því loknu átti fólkið í báðum hópunum að greina frá upplifun sem leiddi til þess að það varð stressað eða reitt. Meðan á því stóð var blóðþrýstingur og púls fólksins mældur. Í ljós kom að þau pör sem höfðu faðmast mældust með miklu lægri tölur en hinir. Að auki var minna magn af streituhormóninu cortisól hjá þeim sem höfðu knúsast.

Hár blóðþrýstingur og hraður púls eru dæmigerð einkenni streitu. Vísindamennirnir líta því á niðurstöðurnar sem vísbendingu um að pör sem faðmast mikið séu minna móttækileg fyrir streitu og séu þar með í minni hættu á að fá hjartasjúkdóma.

 


Knús á dag kemur skapinu í lag

Ný grein 22.10 2008 - Greinin fengin af  deiglan.com - Höfundur Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir

Við þurfum fjögur faðmlög á dag til að lifa af. Við þurfum 8 faðmlög á dag til að halda okkur við. Við þurfum 12 faðmlög á dag til að vaxa.
- Virginia Satir, fjölskylduráðgjafi


Það er alveg ótrúlegt hversu miklu eitt faðmlag getur breytt. Hver hefur ekki upplifað það um ævina að finna særindi, illindi, ótta eða depurð fjara út við innilegt faðmlag eða snertingu yfirleitt? Jafnvel þegar deilandi aðilar snertast, eða faðmast, getur það orðið til þess að deilurnar eru úr sögunni og hið jákvæða á milli aðilanna brýst fram og tekur yfirhöndina í aðstæðum sem augnabliki áður virtust óleysanlegar og ósættanlegar.

Áhrifin ótvíræð
Ef einhver hefur misst af því að hafa upplifað það sem hér að ofan er lýst þá er það skoðun pistlahöfundar að sá hinn sami sé að fara á mis við mikið. Pistlahöfundur er einn af þeim sem hefur fundið hjarta og sálu mýkjast við ástrík faðmlög vina og fjölskyldu, m.a.s. á stundum þar sem hún bjóst ekki við því að slíkra áhrifa væri að vænta. En hverju sætir? Þar sem pistlahöfundur hefur fyrir víst fundið hversu miklu máli snerting getur skipt í amstri dagsins, ákvað hún að leita sér upplýsinga um það hvort raunveruleg áhrif snertingar hafa verið könnuð, og jafnvel nýtt þar sem þeirra er þörf. Við þá leit kom ýmislegt fram sem gert verður skil í þessum pistli.

Faðmlög notuð í lækningalegum tilgangi
Sérstaklega er í pistlinum byggt á grein byggði að miklu leyti á viðtölum við indverska geðlækna, sálfræðinga, félagsfræðinga og fjölskylduráðgjafa sem höfðu reynt snertingu og faðmlög sem meðferðaraðferð á sjúklinga sína með góðum árangri. Þar er bent á að í dag er verið að nota meðferðaraðferðir á sjúklinga með andlega kvilla sem byggja að mestu á gjörðum sem hafa verið sjálfsagðar í samfélaginu frá örófi alda. Aðferðir sem jafnvel má segja að byggi eingöngu á heilbrigðri skynsemi. Sem dæmi má nefna göngu-meðferð og dans-meðferð. Ein af þessum meðferðum er það sem pistlahöfundur kýs að kalla “faðmlags-meðferð”.

Í greininni kemur jafnframt fram að indverjar hafi á síðustu árum tapað miklu af þeim hæfileikum sem þeir höfðu til að deila gleði sínum og sorgum með snertingu. Faðmlögin og klappið á kinnina sem sést í samfélaginu í dag sé mjög yfirboðslegt og einn viðmælanda blaðamannsins vildi jafnvel ganga svo langt að kalla þetta “félagsleg faðmlög”.

 Hvers vegna eru áhrifin svona mikil?
Það er alveg ljóst, hverjum þeim sem hefur upplifað gott faðmlag, að áhrif þess koma þegar í ljós. Snerting er mikilvægur hluti af nánd þar sem hún skapar sterk bönd á milli tveggja einstaklinga. Segja má að í gegnum tíðina hafi snerting og faðmlag verið náttúruleg og eðlileg leið til að sýna fram á það í verki að manni standi ekki á sama um einhvern. Hins vegar er hættan sú, í hraða nútíma þjóðfélags, að það sem áður var eðlilegt sé í nokkurs konar útrýmingjarhættu, rétt eins og göngur og dans og fleira sem maður einfaldlega gefur sér ekki tíma í lengur í því fjarlægða- og lífsgæðakapphlaupslífi sem við lifum í í dag.

Til að undirstrika mikilvægi snertingar fyrir manninn þá má benda á að húðin er eitt af skynfærum okkar. Hver sentímeter húðarinnar, frá höfði að tám og fram í fingurgóma, er næmur fyrir snertingu. Í móðurkviði er hver einasti hluti fóstursins snertur af legvatni móðurinnar. Allt frá getnaði erum við því vanin á það að vera snert. Margir hafa freistast til að líta á þetta sem útskýringu þess, hvers vegna í hinu mannlega eðli býr slík þrá til snertingar sem raun ber vitni.

Í greininni er svo vel fjallað um það hversu miklu snerti- og faðmlagsmeðferð hefur breytt gagnvart sjúklingum sem áður var erfitt að nálgast og sýndu litla svörun við þeim meðferðum sem reyndar voru. Eru til sögunar nefndir þunglyndissjúklingar, geðklofar, einhverfir einstaklingar o.fl. Má lesa úr orðum sérfræðinganna að þeir líti á snertingu sem eina af frumþörfum mannsins sem nauðsynlegt sé að uppfylla eigi maðurinn að geta komist af.

 Meðferð sem beita verður af umhyggju og varfærni
En hver sá sem ætlar sér að nota snertingu til að nálgast og uppörva samferðamenn sína verður að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir að faðmlög eru verkfæri sem verður að nota af sömu umhyggju og varfærni og öll önnur meðferðarleg inngrip, enda mikilvægt að ganga þiggjandanum ekki of nærri. Séu þau hins vegar notuð rétt, og án þess að skapa ógn eða óþægindi fyrir þann sem þiggur, geta þau gefið viðkomandi heilmikið og jafnvel mikinn andlegan bata.

Snerting til lækningar líkamlegra kvilla
Faðmlög verða þó ekki einungis notuð til að lækna líkamlega kvilla. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að snerting leiði til jákvæðra sáfræðilegra breytinga í hugum fólks, sem í kjölfarið hafi mjög jákvæð áhrif á heilsu þeirra. Snerting örvar taugaenda líkamans og linar því sársauka. Ekki er því óalgengt í Indlandi að sjúklingur með mikla verki fái uppáskrifaða snertingarmeðferð, þer sem hendur eru settar á eða yfir sársaukasvæði sjúklingsins í um hálftíma. Þetta eykur hemoglobinmagn í blóðinu og eykur blóðflæðið í vefina. Hefur verið sýnt fram á þetta með rannsókn hjúkrunarfræðideildar New York
University. Eftir að þessi niðurstaða fékkst eru mörg félög hjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum sem ýta undir og hvetja til meðferðar sem þessarar. Hvers konar heilsuvandamál fá sjúklinga til að finnast þeir vera viðkvæmir, hræddir, reiðir, örvæntingarfullir og hjálparlausir, eða a.m.k. eitt af þessu. Sjúklingurinn þarf oft að læra að lifa upp á nýtt og gera nauðsynlegar breytingar í sínu lífi. Faðmlög geta sett hann í slíkt jákvætt tilfinningalegt ástand sem er nauðsynlegt fyrir hann til að geta gert þessar breytingar.

Verið dugleg að snertast!
Það er alveg ljóst að það getur skipt fólk miklu máli að finna fyrir innilegri og umhyggjuríkri snertingu. En við lestur þessa megum við ekki gleyma því að meðferðaraðilarnir eru í raun einungis að beita skjólstæðinga sína aðferðum sem beitt hefur verið í ríkum mæli allt frá upphafi alda, en fólk í nútíma þjóðfélagi virðist fara á mis við vegna annarra atriða sem hertekið hafa hug manna. Þó hér að ofan sé e.t.v. verið að fjalla um alvarlegri kvilla en venjulegt fólk á við að etja í daglegu lífi sínu breytir það því ekki að öll finnum við fyrir nauðsyn þess að vera snert, hvort sem er til að aðstoða okkur í baráttunni við neikvæðar tilfinningar eða jafnvel til að fyrirbyggja þær.

Að knúsast—Faðmlög

Að faðmast er afar heilsusamlegt:
það hjálpar ónæmiskerfi líkamans,
gerir þig hraustari, bætir þunglyndi, dregur úr stressi,
framkallar þörf fyrir að fá sér blund,
það er endurlífgefandi,
það er yngjandi að faðmast, og það hefur engar ógeðfelldar hliðarverkanir,
þess vegna er faðmlag ekkert minna en kraftaverkalyf, -aðferð –útkoma. 

Það að faðmast er mjög eðlilegt fyrirbrigði og sjálfsögð athöfn:
það er lífrænt, eðlilega ánægjulegt, inniheldur engin aukaefni,
er 100% heilsusamlegt og inniheldur hvorki skordýraeitur né geymsluefni.
Faðmlög færa manni gleði, bros, velvilja, jákvæðni, sjálfvirka slökun á spennu,
innileika, vináttu og gott hjarta.

Að faðmast er allt að því fullkomin athöfn:
það er ekki fitandi, krefst ekki mánaðarlegra afborgana,
engar tryggingar eru nauðsynlegar, ekki skattlagt né mengandi
og eyðir ekki mikilli orku, er endurnýjanlegt og skilar arði,
ennfremur er það endurgreiðanlegt.

Leiðbeiningar um faðmlög sem lyf:
takist inn minnst tvisvar á dag eða eins oft og það er í boði,
allavega alltaf þegar vinir og kunningjar hittast.
Gagnvart maka er inntaka nauðsynleg minnst tvisvar á dag,
sérstaklega fyrir og eftir svefn og fyrir og eftir mat.
Þetta er útgjaldalaust lyf sem virkar mjög vel og hefur engar aukaverkanir.
Afleiðingar af inntökunnni verður hollara og betra mannlíf. 

Faðmlög eru bestu lögin í landinu og þau einu sem eru heiðarleg,

því þau eru hvergi skráð og krefjast ekki lögfræðilegrar útfærslu né aðstoðar. 

Þetta eru því bestu lögin sem við getum notað og tileinkað okkur, án útgjalda.

 
Knús skiptir máli -  knúsumst.

 
Júl.Júl     -  www.julli.is

 

 

Fjölskylduhópknús á hverjum morgni
 

Knúsaðu börnin kvölds og morgna...


Knús fyrir svefninn og allir sofa betur


Ekki vera feyminn að knúsa...knús skiptir máli

Hefjum daginn í öllum fyrirtækjum með knúsi
 

Knús í alla skóla stóra sem smáa:
Nemendaknús - bekkjarknús - kennaraknús - knús í nesti -
knús sem heimaverkefni - húsvarðaknús - bókasafnsknús - viðurkenningaknús.

 

Knúsaðu maka þinn....oft....oft...og aftur.

Eldra fólk þarfnast oft meiri snertingar en aðrir í dag skaltu fara og heimsækja ömmu, afa, frænda , frænku eða einhvern eldri borgara sem þú þekkir og gefa honum knús. Eldri fólk á nóg af súkkulaði, það þarf bara hlýtt og gott faðmlag og eitthvað af tímanum ykkar.

Sendu knús til þeirra sem eru lengra í burtu......
SMS knús.....
Email knús......
Bloggknús.......
Hringdu og gefðu knús.....

Ef þú gefur af þér, þá færðu það til baka - gefðu knús



Ánægja með það sem menn hafa er mesti og varanlegasti auðurinn

Ef þú ert ekki ánægður með það  sem þú hefur, hví skyldir þú vera sælli með meira?
 
Myndir m.a fengnar að láni á síðu Ann Geddes.

 
Kærleiksvefur