Frá árinu 1959 hefur hálf sænska þjóðin sest niður fyrir framan sjónvarpið klukkan þrjú á aðfangadag og það brestur á þögn. Öll fjölskyldan safnast saman fyrir framan sjónvarpið til að horfa á Kalle Anka, eða Andrés Önd. Walt Disney kynnir jólaþátt sinn „From All of Us to All of You“, eða „Kalle Anka och hans vänner önskar God Jul“ sem á íslensku gæti útlagst „Andrés Önd og vinir hans óska öllum gleðilegra jóla.“ Enginn vill missa af þessum dagskrárlið. Ungir sem aldnir kunna textann í þættinum utan bókar, en samt er hlegið dátt að öllum bröndurum sem fram koma. Kalle Anka er stöðugt meðal fimm vinsælustu dagskrárliðanna sem sýndir eru á hverju ári, venjulega í næsta sæti á eftir Melodifestivalen (undankeppni Eurovision). Sænska sjónvarpið hefur nokkrum sinnum íhugað að hætta að sýna Kalle Anka á aðfangadag, en alltaf hætt við það vegna mótmæla áhorfenda. Teiknimyndirnar hafa verið óbreyttar síðan 1959.
Aðfangadagsmorgun, fjórði sunnudagur í aðventu 2023