Jólin á Símstöðinni á Dalvík.

Jólaprýði póstsins

Jólaskraut á mínu heimili á sér flest sögu, vekur minningar og gefur hlýju í hjartað. Eitt jólaskrautið í kassanum á þó alveg sérstakan stað í mínu hjarta sökum minninganna sem það dregur fram og það er jólaprýði póstsins, gyllt skraut sem Pósturinn gaf út nokkur ár í röð í mismunandi útgáfum og við hengjum í gluggana okkar ár hvert.

Þó skrautið sjálft sé fallegt út af fyrir sig, eru það minningar mínar frá „Símstöðinni“ á Dalvík sem gera það sérstakt í mínum huga. Ég ólst að miklu leiti upp þar og mér hafa m.a.s. verið sagðar sögur af því að ég hafi verið sett í bréfakörfuna sem kornabarn meðan verið var að flokka bréfin fyrir mín fyrstu jól.  Mínar fyrstu jólaminningar eru af Stöðinni, þar sem pakkahrúga okkar krakkanna var á stærð við fjall í minningunni og tengdasynirnir á Stöðinni vöskuðu upp og voru lengur að því en okkur krökkunum hugnaðist. Afi minn, Dúddi á Stöðinni, var þá stöðvarstjóri og amma Ragna vann á símanum. Í uppvextinum varð Stöðin fastur punktur í tilverunni, gott að koma til ömmu í kaffi eftir skóla og um helgar var gjarnan gist. Afi var einn af þeim fyrstu til að fá sér vídeótæki í bænum og  mér er það mjög minnisstætt þegar við Elvar frændi máttum fara í vídeóleiguna til Sigga og velja myndir fyrir gistikvöldin. James Bond hitti alltaf í mark hjá afa og dekrað var við okkur krakkana á allan hátt. Allt fólkið sem vann á Stöðinni varð að nokkurs konar fjölskyldu og velunnurum okkar barnabarnanna; Friðjón, Stína, Raggi póstur og seinna Gerður, Dísa og fleira gott fólk.

Síðar átti mamma eftir að taka við stöðvarstjórastöðunni af afa og þá sköpuðust hefðir á mínu æskuheimili sem lituðust af starfi mömmu hjá Póstinum. Á Þorláksmessu hafði pabbi það verkefni að fara með okkur systur til Akureyrar, kaupa á okkur jólafötin og í leiðinni völdum við gjöf handa mömmu. Þessar stundir með pabba urðu mér dýrmætar og eitthvert árið reyndi ég að komast hjá því að hafa Mæju systur með, bara svo ég hefði pabba út af fyrir mig 😊. Pabbi tók nú einhverra hluta vegna ekki vel í þetta hjá mér og ég er enn minnt á þetta innan fjölskyldunnar af og til. Þegar heim var komið gerðum við síðustu jólainnkaupin í Kaupfélaginu og biðum svo eftir mömmu  með að skreyta. Oft var hún ekki komin heim á Þorláksmessu fyrr en langt var liðið á kvöld því ekki gat hún hugsað sér að nokkur pakki yrði innlyksa yfir jólin. Ósóttir pakkar voru því keyrðir út eftir lokun af stöðvarstjóranum. Á meðan við biðum eftir mömmu sauð pabbi hangikjöt, setti upp seríurnar og Jói Dan kíkti í heimsókn og fékk flís af kjötinu. Allt fastir liðir í tilverunni.  Í seinni tíð hef ég áttað mig á því að álagið á mömmu hefur verið mikið á þessum tíma og lokaumferðin yfir gólfin var tekin undir morgun en ekki fundum við systur fyrir því. Í minningunni var stemmingin góð, eftirvæntingin mikil og enn þann dag í dag er Þorláksmessa minn uppáhaldsdagur á árinu, tengdur við síðustu handtökin fyrir jólin í ljúfum félagsskap, pakka og kveðjur sem fólk sendir ástvinum víðs vegar um land.

Megið þið njóta Þorláksmessu og hátíðanna fram undan.

Ragnheiður Valdimarsdóttir

Þessi færsla ásamt fleirum munu safnast saman undir uppáhaldsjólaskrautið

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir,…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024/

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir, snyrtistofur,…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is