Í pápisku var prestur einn í
Hólabiskupsdæmi; var hann vel metinn af öllum. Hann átti eina
dóttur með konu sinni; var hún fríð sýnum og vel að sér.
Einu sinni þegar hún var orðin fullorðin átti presturinn
faðir hennar að embætta á jólum; fór þá kona hans með honum og
margt fólk af bænum, en prestsdóttir átti að vera heima og
nokkrir fleiri til að gæta skepna og annars sem þurfti með.
Þegar fór að kvölda tók prestsdóttirin bók og fór að lesa í.
Heyrðist henni þá riðið í hlaðið og hélt að foreldrar sínir væru
komnir, og þókti henni þó ekki nógu áliðið til þess það gætu
verið þau.
Gekk hún nú fram í dyrnar og sá hún þá mann mjög tígulegan
úti; hann var á rauðum klæðum. Hest sá hún einnig söðlaðan með
gylltum reiðtygjum og var allt hið skrautlegasta. Þetta sá hún
allt út um glugga á hurðinni.
Maðurinn klappaði á dyr, en hún þorði ekki að ljúka upp, því
ótti var kominn yfir hana. En loksins lauk hún þó upp; gekk hann
þá til hennar og heilsaði henni blíðlega. Spurði hún hann hvað
hann héti og hvaðan hann væri, en hann sagði að hana skipti það
engu, hún skyldi fá að vita það seinna.
Bað hann hana þá að ganga með sér nokkuð frá bænum því hann
hefði áríðandi erindi við hana, en hún var mjög ófús til þess;
sagði hún að foreldrum sínum mundi verða það óbærilegt ef
eitthvað yrði að henni. En hann sagði að það skyldi ekki verða.
Lét hún loksins undan þrábeiðni hans, en gekk áður í herbergi
sitt og tók þaðan gullhring, og hafði hún þá trú á honum að
þegar hún hefði hann á hendinni mundi sig ekkert saka; gekk hún
síðan með honum.
Þegar þau komu nokkuð frá bænum var þar söðlaður hestur
fyrir. Maðurinn tók þá prestsdóttur og lét hana á bak og batt
hana mjög lempilega í söðulinn svo hún skyldi ekki detta af baki
hvað hart sem farið væri, og fór síðan á stað með hana. Fór hún
þá að verða hrædd og biðja fyrir sér.
Riðu þau nú alla nóttina og fram á dag. Loksins komu þau í
dal einn mjög fagran. Þar sá hún ákaflega stóran hól; þangað
reið hann og tók hana af baki. Sýndist henni þá dyr opnast á
hólnum og leiddi hann hana inn og í mjög ásjálegt herbergi; var
þar allt ljósum ljómað.
Þar var matur borinn á borð og tvö uppbúin rúm í stofunni;
bað hann hana að borða og hvíla sig svo, en hún vildi lítils
neyta. Fór hún síðan að hátta, en áður en hún sofnaði fór hann
að hreyfa bónorði við hana. Hún neitaði því, en hann herti því
meir á henni; varð hún þá mjög hrædd því henni datt í hug að
hann mundi ef til vildi ósæma sig eða drepa; gaf hún honum þá
loksins vilyrði og sofnaði síðan rótt og svaf þangað til sól var
komin upp.
Gekk þá aldraður maður inn í herbergið; henni virtist hann
vera klæddur prestlegum skrúða. Kona gekk með honum; hún var
bæði blíð og ásjáleg og leist henni mikið vel á hana. Þau biðu
þangað til hún var klædd í dýrðlegan skrúða sem konan kom með.
Tók konan hana síðan og leiddi hana í dýrðlega stofu; voru þá
farin að fara af henni leiðindin.
Þar var fyrir gamli maðurinn og biðill hennar. Hóf hann þá
bónorðið að nýju og tók hún því þá vel. Síðan gaf gamli maðurinn
þau saman með vanalegum reglum. Síðan voru þau leidd inn í nýtt
herbergi. Var það fagurlega uppljómað; sjö borð voru þar og öll
með skrautlegum dúkum og var allur borðbúnaður úr silfri og
gulli. Ekki sá hún fleira fólk nema þjónustusvein og
þjónustustúlku sem bæði voru vel siðuð.
Varð nú prestsdóttirin fullkomlega kát, einkum eftir það að
gamla konan var búin að segja henni ævisögu sína sem hér segir:
"Ég er dóttir biskups á Hólum" - sem hún nafngreindi. "Var ég
vel uppalin og kenndar allar listir bæði til munns og handa og
höfðu foreldrar mínir mikla ást á mér. Þegar ég var komin á
fullorðins aldur komu margir heldri menn og beiddu mín, en faðir
minn var svo vandlátur að hann vildi engum gifta mig, og leið
svo ár frá ári.
Einu sinni gekk ég með línþvotta mína að læk þeim sem var
rétt hjá biskupssetrinu og var ég einsömul. En á meðan ég var að
þvo kom ókunnur maður einn; var hann bæði vel klæddur,
útlitsgóður og ásjálegur. Fór hann síðan að tala við mig og var
blíður í máli, en nokkuð átti ég örðugt með að skilja hann.
Spurði hann mig að, því faðir minn léti mig vera einsamla, en ég
sagði að engin hætta mundi búin, því stutt væri heim.
Bað hann mig nú að setjast niður hjá sér; ég var að sönnu
treg til þess, en gerði það þó. Fórum við þá að tala meira saman
og leist mér betur og betur á hann; mun sameign okkar og
viðskipti hafa orðið meiri en skyldi. Skildum við síðan og
sagðist hann skyldi vitja mín seinna ef mér lægi nokkuð á og
gekk ég síðan heim.
Eftir nokkurn tíma varð ég þess vör að ég var ekki einsömul
og þorði ég alls ekki að láta föður minn vita af því; fór ég þá
oft einförum og var jafnan í þungu skapi. Einu sinni sem oftar
var ég að ganga hjá sama læknum og var ég mjög angurvær.
Kom þá sami maðurinn til mín sem áður hafði komið til mín og
var mjög blíður og huggaði mig svo vel sem hann gat. Bað hann
mig þá að fara með sér, en ég var treg til þess og lét þó
loksins til leiðast af ótta fyrir föður mínum. Fór ég síðan með
honum þangað sem við erum nú; vissi ég að hann var prestur
huldufólksins í þessu byggðarlagi.
Síðan gekk hann að eiga mig og skömmu eftir fæddi ég
sveinbarn sem nú er maðurinn þinn. Hann var vel uppalinn og
komið í skóla til frægra kennara og er hann nú sýslumaður í
þessu héraði."
Við þessa sögu gladdist prestsdóttir mjög; sagði hún að sig
angraði aðeins að foreldrar sínir vissu ekki hvernig sér liði.
Tengdamóðir hennar sagði að bráðum mundi rætast úr því.
Um þessar mundir hvarf allt fé prestsins, föður nýgiftu
konunnar, og leitaði smali hans vel og dyggilega þangað til þoka
mikil og villa kom yfir hann. Vissi hann nú ekkert hvað hann fór
þangað til hann kom í þenna sama dal og var honum fagnað vel.
Hann var þar um nóttina í góðu yfirlæti.
En um morguninn þegar hann ætlaði á stað fékk
þjónustusveinninn honum bréf til prestsins. Prestur fékk alla
sauði sína aftur og tíu að auk sem báru af öllum hinum. Smalinn
komst síðan heim heill á hófi og fékk presti bréfið.
Í bréfinu sagði dóttir hans föður sínum allt um hagi sína og
var hringur hennar innan í til sanninda. Einnig bauð hún
foreldrum sínum til sín, en þau vildu ekki þiggja það, en urðu
ánægðari eftir það þau fréttu að henni leið vel.