Jólavefur Júlla 2012
Hjörleifur
Hjartarson - Þrjár sögur af
hrakföllum jólasveina Við höfum iðulega brugðið á það ráð við efnisöflun í jólablað
Norðurslóðar að fá menn og konur úr byggðinni til að rekja fyrir
okkur jólaminningar, segja frá jólum bernsku sinnar eða
einhverjar sögur sem tengjast jólunum. Mig langar að segja hér þrjár
hrakfallasögur sem eiga það sameiginlegt að tengjast Tjarnarbræðrum
og jólum. Þá kemur Björn Þórleifsson fyrrverandi skólastjóri á
Húsabakka einnig við sögu en hann hefur jafnan verið iðinn við að
gera sér þorramat úr hrakföllum Svarfdælinga jafnt á jólum sem
öðrum árstímum. Jólakortið sem hvarf. Fyrsta sagan gerist þegar ég var enn mjög ungur og flokkast vart
sem hrakfallasaga. Það var til siðs heima á Tjörn að um hádegisbil
á aðfangadag vorum við börnin á bænum jafnan send af stað
á skíðum með jólakort á næstu bæi; Grund, Brekku, Jarðbrú,
Laugahlíð, Húsabakka og Ingvarir. Þetta voru miklir leiðangrar og tóku
oftast lungan úr aðfangadeginum. Auðvitað voru þetta, svona eftir
á að hyggja, einskær klækindi af hálfu foreldra okkar til að skapa
frið fyrir húsmóðurina að undirbúa kvöldið og draga úr
spennumyndun á heimilinu. Ég hef sjálfur beitt þessu bragði á mín
börn með góðum árangri. Það þurfti nú reyndar síst að hvetja
okkur til fararinnar því þetta var alltaf sannkölluð lystireisa, fólk
í jólaskapi á öllum bæjum að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn
áður en hátíðin gengi í garð og hvarvetna vorum við nestuð með
sælgæti og smákökum og einu sinni man ég eftir því að Sigga
gamla á Jarðbrú gaf mér nýprjónaða lopavettlinga því henni þóttu
mínir heldur litlir. Það var sem sagt í einni af þessum póstferðum á aðfangadag
sem saga þessi gerist. Við bræður höfðum kjagað á milli bæjanna
í skafrenningi og vorum búnir að skila af okkur öllum kortum suður
á bæina. Það er orðið rokkið þegar við komum í hlað á Ingvörum
en þá uppgötvum við okkur til skelfingar að jólakortið til
Ingvarabónda er horfið. Líklega hafði það skoppað upp úr vasa á
leiðinni og fokið út í buskann. Hefur ekkert til þess spurst síðan.
Nú voru góð ráð dýr. Ekki þótti okkur sæmandi að laumast burt
eins og þjófar að nóttu án þess að bera einhverja jólakveðju í
bæinn. Eldri bræðurnir telja því Kristján á að banka upp á og
bera Steingrími bónda jólakveðjuna munnlega. Kristján lætur til
leiðast eftir dálitla eftirgangsmuni og loforð um vænan skerf af
nestinu, fer upp tröppurnar og gengur beina leið inn í eldhús án þess
að banka. Þar stillir hann sér upp í skíðaskónum á miðju eldhúsgólfinu
og þylur: “Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár, þakka liðið,
til fjölskyldunnar á Ingvörum frá fjölskyldunni á Tjörn” Án þess
að hafa um það fleiri orð eða bíða eftir andsvörum heimamanna
hraðar hann sér svo aftur út til okkar sem biðum og renndum við hið
snarasta úr hlaði í hátíðarskapi og ánægðir með vel unnið
verk. Jólatrésskemmtanir kvenfélagsins Tilraunar að Þinghúsinu á
Grund voru um árabil eitt helsta tilhlökkunarefni barna hér í
sveitinni. Hápunktur slíkra dansleikja er og var að sjálfsögðu
koma jólasveinanna sem aldrei hefur brugðist – eða því sem næst
aldrei. Það gerðist þó fyrir nokkrum árum á einni af síðustu jólatrésskemmtuninni
sem haldin var á gömlu Grundinni að jólasveinarnir brugðust.
Stundvíslega klukkan tvö hafði safnast saman fjöldi prúðbúinna
barna og foreldra og myndað fimmfaldan hring um jólatréð eins og
segir í kvæðinu. Hófu börnin þegar að syngja jólatréssöngva
undir öruggri stjórn Elínborgar á Syðra-Hvarfi við undirleik Jóhanns
Daníelssonar en samkvæmt hefðinni áttu svo jólasveinar að
banka upp á þegar liði á dansinn og færa börnunum epli. Höfðu
kvenfélagskonur gert viðeigandi ráðstafanir og ráðið tvo bræður
frá Tjörn til að gegna hlutverki jólasveina. Þegar líður á
dansinn og ekkert bólar á jólasveinum byrja kvenfélagskonur að ókyrrast
enda, söngskráin tæmd, börnin tekin að lýjast í dansinum og
byrjuð að flosna frá jólatrénu. Eru þá þrjár þeirra sendar út
af örkinni í bíl til að grennslast fyrir um hvað orðið hefði um
bræðurna því ekki var viðlit að ná á þeim í síma þó reynt væri.
Þegar konurnar renna í hlað á Tjörn sjá þær hvar bræðurnir
koma í hægðum sínum á gönguskíðunum upp túnið neðan af engjum
og er ekki á þeim neinn asi. Voru þeir sælir og rjóðir að koma úr
fuglatalningarleiðangri búnir að steingleyma jólaballinu en eins og
lesendur Norðurslóðar vita manna best fer fram fuglatalning um allt
land árlega milli jóla og nýárs og hafa Tjarnarbræður jafnan látið
mjög til sín taka á þeim vettvangi Mikill var fögnuður
barnanna eftir hátt í tveggja tíma bið, þegar jólasveinarnir mættu
loks með eplin en heldur fengu þeir kaldar kveðjur og illt auga frá
kvenfélagskonum. Um þetta atvik orti Björn Þórleifsson og söng á
næsta þorrablóti undir alkunnu ensku jólalagi: Á fjórða degi jóla sáust sveinar út við Tjörn, Skyrjarmur mætir ekki. Jólasveinninn Skyrjarmur ber fulla ábyrgð á þeim hrakföllum
mínum sem lýst er í þriðju og síðustu frásögninni. Hefði hann
ekki svikist um að gera skyldu sína aðfararnótt 19. desember árið
1993 hefðu þeir hörmungaratburðir sem nú skal greint frá ekki orðið. Forsaga málsins er sú að umræddan desembermorgun vakna ég
eldsnemma við háreysti úr herbergi sona minna eins og ekki var
óalgengt á þessum tíma. Ég verð þess þó fljótt áskynja að eitthvað
meira en lítið veldur drengjunum angri og þegar ég legg við hlustir
heyri ég hvers kyns er. Jólasveinninn hefur svikist um að gefa þeim
glaðning í skóinn þrátt fyrir óaðfinnanlega hegðun þeirra
alla jólaföstuna. Mér þótti þetta eins og þeim í hæsta máta ósanngjarnt
og ákvað þarna undir heitri sænginni að freista þess að bæta
fyrir brot Skyrjarms. Án þess að velta því frekar fyrir mér
“strokka ég mig berlæraður fram úr” eins og Björn nágranni
minn Daníelsson hefði orðað það, þess albúinn að bjarga nú málunum
og heiðri jólasveinastéttarinnar. Þannig háttaði til í Laugahlíð þar sem ég bjó að
svefnherbergi voru á neðri hæð en eldhús og stofur á þeirri efri.
Ég hraða mér upp á efri hæðina til að verða á undan drengjunum,
gríp skó þeirra upp af forstofugólfinu og kem þeim fyrir úti í
bakherbergisglugga ásamt þrem mandarínum sem lágu þar nærhendis.
Ég hugsaði að drengirnir myndu sjálfsagt velta vöngum yfir því
af hverju Skyrjarmur veldi þessa skó og þennan glugga en ekki
barnaherbergisgluggann og skóna sem þar voru fyrir. Ég opnaði
því gluggann til að gera þessa sviðsetningu á jólasveinaheimsókn
raunverulegri. Utan við gluggann sá ég að kominn var kafdjúpur nýfallinn
snjór og þá fékk ég þá örlagaríku hugmynd að áhrifaríkast
væri náttúrulega að gera spor í snjóinn að glugganum svo ekki færi
á milli mála að Skyrjarmur hefði verið þar á ferðinni. Ég mátti
hins vegar engan tíma missa því strákarnir voru væntanlegir upp á
efri byggðir á hverri stundu. Enn var ég á stuttbrók minni
einni klæða og þar sem tími var naumur hafði ég ekki fyrir því að
tína á mig aðrar spjarir en hólkvíðar bomsur og stuttan regnfrakka
sem hékk í forstofuhenginu. Þannig klæddur storma ég nú út í
skammdegismyrkrið. Það fyrsta sem ég skynja þegar út er komið er að kuldinn er
meiri en ég hafði gert mér grein fyrir en þess má geta að það
var 16 stiga frost þennan dag. Annað vandamál mætti mér þarna á
stéttinni. Til að komast að umræddum bakglugga yrði ég að
fara lengri leiðina norður fyrir fjós sem sambyggt var íbúðarhúsinu
því að öðrum kosti gengi ég fyrir barnaherbergisgluggann auk þess
sem auðvelt yrði að rekja spor mín í þá áttina. Ég setti því
undir mig hausinn og stikaði norður fyrir fjós lítt klæddur í bítandi
morgunfrostinu. Norðan við fjósið var allmikill skafl, illur yfirferðar
sökum þess hve snjórinn var laus í sér svo fljótlega var ég
farinn að vaða snjóinn upp í nára berlæraður eins og áður segir
og hálfpartinn farinn að skríða á fjórum fótum. Bomsurnar voru
sem áður segir hólkvíðar og gleyptu allan þann snjó sem á vegi
þeirra varð. Ekki hvarflaði þó að mér að hætta við áform mín
og ekki einu sinni þó ég lenti ofan í bæjarlækjargilinu þar sem
snjórinn náði mér í geirvörtur og bomsurnar fylltust af krapa. Við
illan leik komst ég upp úr lækjargilinu og tók nú stefnuna að
girðingunni umhverfis húsið mjög orðinn móður af krafsinu og svo
blautur og kaldur að ekki þóttist ég áður hafa komist í slíkar
raunir. Bót í máli þótti mér þó að skaflinn og lækjargilið
voru að baki og snjórinn ekki nema hnédjúpur sem eftir var leiðarinnar
yfir girðinguna og að glugganum. Ég hélt því ótrauður áfram för
minni enda orðinn svo kaldur á höndum og fótum að ég taldi hámarkinu
náð í mannlegum þjáningum. Þar skjátlaðist mér þó
illilega því það versta var eftir. Þar sem ég hyggst vippa mér síðasta spölinn yfir girðinguna
inn í garðinn og upp að húsinu gríp ég þéttingsfast um efsta girðingarstrenginn.
Skiptir þá engum togum að um mig fer slíkt ólýsanlegt raflost að
líktist helst sem væri ég sleginn bylmingshöggi af ólmum hesti svo
ég tókst bókstaflega á loft og flaug láréttur inn í garðinn en
fyrir augum mér sá ég stjörnur og sólir og síðan myrkur. Ekki
veit ég hvernig ég komst inn í bæ né hversu lengi ég hafði þá
legið í skaflinum en það næsta sem ég man eftir mér er að ég
ligg skjálfandi undir þunnri ábreiðu í stofusófanum í Laugahlíð
og má ekki mæla sökum mæði en drengirnir allir yfir mér grátandi
undan sviksemi jólasveinsins og veita því ekki hina minnstu athygli
í hvers konar ástandi faðir þeirra er. Það tók mig það sem eftir var dagsins að ná aftur eðlilegum
hjartslætti og andardrætti og það sem eftir var jólaföstunnar að
ná úr mér hrollinum eftir hrakningarnar og þó ég hafi með semingi
tekið jólasveininn Skyrjarm í sátt þá hef ég enn ekki að fullu
fyrirgefið þeim grönnum mínum sem leiddu rafmagn í garðstrenginn
til að hemja hross á Laugarhlíðartúninu. Um þessa hrakför mína
orti svo náttúrulega Björn Þórleifsson og söng á næsta þorrablóti
undir þekktu jólalagi: Um hrakfarir jólasveins sem kom að glugga í Laugahlíð
jólin 1993 Það er einhver úti í skurðinum með skanka upp í loft, |
Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð Jólafrásagnir frá ykkur - Sendu þína ! Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður
|