Jólavefur Júlla 2012
Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður Úr bók Tryggva Emilssonar „Baráttan um brauðið“ Strax á imbrudögum hófst jólatiltektin með því að rokkar, laupar og lárar voru bornir úr baðstofu og geymdir á stofulofti fram yfir þrettándan, síðan var sópað niður og voru þá fram dregin rúm og kommóða ok kulkka tekin af vegg. Í þeirri sópun týndu margir húskrabbar og dordinglar lífi sínu og sáust þeir á hraða undanhaldi um öll gólf en voru eltir uppi og fjarlægðir skrokkarnir, og var þannig gengið um allan bæ og út í fjós og rangala og var öllu krabbasamfélagi sundrað í svip. Að því loknu var baðstofan þvegin hátt og lágt og eins rúmin, og allt hafurtask, sem þar var geymt borið út á hlað og hengt á snúrur og kenndi þar margra grasa. Þá voru gerðir þvottar miklir, öll brekán voru sett í potta og soðin í sápuvatni lútsterku og var á þeim degi allt til tínt fatakyns sem fylgdi í þá suðu og var keyta úr tunnu notuð til að spara sápu. Þvottasnúrur og stólpar voru urðuð í fataflækjum sem eins gátu verið af einhverjum óþekktum þjóðflokki sem væri að flytja búferlum. Í bænum voru bækur teknar fram go bronar úr einum stað í annan, rykslegnar og þurrkað yfir kjölinn, komu sumar þeirra upp úr koffortum og kistum til að taka þátt í jólahreingerningu og sýna á sér torkennilegt letur og lesmál. Það var mikið sungið og glaðst við vinnuna á þessum dögum og á kvöldin, þegar konurnar bættu föt og brutu í stellingar, sat ég hnarreistur á kofforti og las upphátt úr Nújum kvöldvökum söguna „Jólabakstur í Engidal". Þessi kvöld var gott að sofna út frá glöðum hugsunum í miðju myrkrinu sem grúfði yfir heiminum. Jólaundirbúningnum var að mestu lokið á Þorláksmessu, þá var laufabrauðið skorið og steikt, kleinur og ástapungar, áður var lokið bökun á smákökum og tertum með sultutaui sem voru á stærð við Steinsbiblíu, en auk þess voru bakaðar margar jólakökur í litlum formum auk hveitibrauðs, pottbrauðin voru bökuð í hlóðaeldhúsi. Á aðfangadag var hangiketið soðið, og saltket í matinn þann dag soðið með, það þótti lostæti. Þegar við húskarlar komum frá útiverkum þessa daga drukkum við ilminn af réttunum í bæjardyrunum. Hvert handtak við það sem vinna þurfti átti sér stað og stund og því féll ekkert í gleymsku. Kertin voru steypt úr tólg í þrískiptum formi sem var til og flest til fatnaðar var heimagert... Á aðfangadag jóla varð eftirvæntingin í blóðinu svo sterk að maður gekk hljóðlega um bæinn, það var rétt eins og von væri á sjálfum frelsaranum um kvöldið eða þá að María mey kæmi þarni í sinni fátækt og bæðist gistingar og ætti enn eftir að fæða guðsoninn. Í baðstofunni var ylur og ilmur, rúmin biðu uppbúin og nýþvegin, brekánin voru líkust blómabeði sem átti eftir að springa út en ofan á þeim lágu nærfötin og skyrturnar og sparifötin, en við rúmstokkinn voru svartir sauðskinnsskór með hvítum bryddingum og rósaleppum í og ofan á þeim flunkunýir sokkar brotnir á hæl.... Svo varð heilagt klukkan sex og settist þá hver á sitt rúm og gleðiblandin alvara fyllti baðstofuna því andrúmslofti sem samboðið er fæðingu mannkynsfræðarans inn í heim lifandi manna, og nú kom Gróa inn í baðstofuna með tvær bækur og gleraugun sín í hendinni, nóttin helga var gengin í garð. Ég hafði oft heyrt föður minn lesa húslestur og hélt að enginn læsi betur en hann, en hún Gróa í Árnesi las með svo einstæðum hreim í rödd og svo sannfærandi að barnið í jötunni var hjá okkur í baðstofunni og ég var viss um að það væru englar fram um öll göng. Við sátum og hlustuðum af hug og hjarta á þennan undraverða hljóm orðanna sem settist að í huganum og hreinsaði mann af allri synd og gerði hjartaræturnar svo hlýjar og é sá það birti í baðstofunni. Löngu seinna þegar ég fletti blöðum þessarar jólahugvekju í leit að þessu undraverða í lesmálinu þá fann ég að það var trúarvissa lesarans, hennar eigin kærleikur sem gerði hugvekjuna að guðsorði í Árnesbaðstofunni þetta aðfangadagskvöld. Að loknum lestri söng Gróa jólasálm og við tókum undir, „Heims um ból, helg eru jól", og nú voru jólin komin og bauð hver öðrum gleðileg jól, en Gróu var þakkaður lesturinn af miklum innileik og ég sá að hún klökknaði smávegis og þá varð ég að snúa mér undan, ég var enn svo viðkvæmur í lund. Vinnan 6. tbl. 1999 |
Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð |