Birt með leyfi Norðuslóðar.
Jólaminningar frá Völlum. Gunnlaugur V Snævarr. Jólin byrjuðu alltaf á sama stað.Ekki þar fyrir að fólk tæki ekki eftir einhverri breytingu á mannlífinu þegar jólin nálguðust. Lífið hafði gjarnan verið tilbreytingarlítið frá sláturtíð. Daginn stytti meir og meir, myrkrið óx og fótatak gamla fólksins varð enn hægara en fyrr Í svartasta myrkrinu og mesta kuldanum þegar snjóaði enn á norðurherbergið greip óskiljanlegt þrifnaðaræði allt í einu um sig. Dregnir voru fram penslar. Strokið var af skápum og marglitur pappír límdur á hillur og jafnvel kolastían var sópuð. Ýmislegt var málað og annað þrifið hegðun okkar systkinanna var sett undir enn strangara mæliker. Því var janfnvel gaukað að okkur að jólin kæmu alls ekki ef við létum svona eins og við áttum að láta. Þau myndi fara ofan garð ef ekki yrði breyting á. Þrátt fyrir allt þetta tengdist koma sjálfra jólanna þessu alls ekki, frekar en margt annað óskiljanlegt brambolt eldri kynslóðanna á heimilinu. Jólin komu aldrei fyrr en eftir messuna á aðfangadagskvöld.Þótt hún væri ungum manni löng og guðfræðin torskilin minnist ég þess aldrei að mér leiddist sú messa eins og margar aðrar. Tvennt var það sem gerði þessa messu frábrugna öðrum. Í fyrsta lagi það sem beið inni svo auðveldara var að þreyja þorrann og góuna. Hitt var það að söngurinn var alltaf svo sérstakur. Réði þar mestu um að þá komu fleiri raddmenn en venjulega og minnist ég sérstaklega Þórarins á Tjörn og Daníels í Garðshorni . Aðra mat ég léttvægari þótt vafalaust hafi þeir átt sinn þátt í að gera sönginn og messuna af því ævintýri sem hún var mér barnungum. Söngurinn fékk allt annan blæ þegar þessir höfðingjar voru mættir Það er þó ekki hægt að sleppa því að minnast á Imbu á Jarðbrú . Hún gat breytt ótrúlega miklu . Hún breytti jafnmiklu fyrir kórsönginn í Svarfaðardal og Jói Dan og Helgi Indriða fyrir Karlakór Dalvíkur. Ég minnist margra sálmalaga sem sungin voru á jólum sem misstu allan ljóma voru þau sungin á öðrum tímum af því að þá var skarð fyrir skildi. Sérstaklega er mér minnisstæður sálmurinn Í dag er glatt í döprum hjörtum,sem mig minnir að hafi verið sunginn á jóladag og svo kirkjan ómar öll. Þar nutu þessir frábæru bassar sín. Þeir ásamt Helga frá Þverá, eru mér eftirmnnilegastir sveitunga minna frá bernsku minni á Völlum . Mér er til efs að ég hafi borið aðra eins virðingu fyrir nokkrum eins og Þórarni án þess að þekkja hann nokkurn skapaðan hlut eða vita af hverju ég bar svona mikla virðingu fyrir honum. Auðvitað hafði ég Tjörn fyrir augunum á hverjum degi og nafn Þórarins var oft nefnt, en fasi hans og framkomu hef ég aldrei gleymt. Helgi hafði ákveðið virðingarsæti í mínum huga sem tengdist skólanum en bassin hans Daníels og hollingin á honum hverfur mér ekki úr minni. Jólamessan var ævintýri, tónlistin var svo sérstök. Einstaka tóna og einstakar raddir man ég betur an margt af því sem ég þurfti að muna. Mér er ekki grunlaust um að í Svarfaðardal hafi verið betur sungið en víðast annarstaðar á landinu á þessum tíma. Sinn stóra þátt í því átti Óli á Hvarfi sem þjónaði kirkjunni nánast allan þann tíma er ég átti heima á Völlum og reyndar lengur.Mér er það óskiljanlegt hvernig hann áorkaði því sem hann og jafnvel og hann leysti það af hendi. Erfiðisvinnumaður, oft hrjáður af gigt, og lék á orgelið í misheitri eða kaldri kirkjunni. Stundum náðist upp bærilegur hiti meðan að messan stóð yfir en í annan tíma stóð orgelið í óupphitaðri kirkjunni. Oft var reynt að koma tauti við það með því að láta rafnagnsofn blása á það í nokkra klukkutíma svo mætti ná mætti sæmilega kristilegum hljóðum úr því. |
Jólamessan var líka ævintýri á annan hátt. Þar sem guðfræðin þvældist þá enn minna fyrir mér þafði ég góðan tíma til rannsókna. Niðurstöður þessara rannsókna verða aldrei birtar í miðlægum gagnagrunni en mörg rannsóknarefnin fann ég og ýmsar samanburðarkannanir voru gerðar . Þannig komst ég til dæmis að þeirri niðustöðu að Brautarhólsættin opnaði mest munninn af öllum þegar hún söng. Að sjálfsögðu skildi ég það síðar að það er nánast skilyrði við söng að opna munninn, eigi eitthvað að heyrast. Ég komst að þeirri niðustöðu að meiri líkur væu á því en hitt að Hjörtur á Tjörn sofnaði einhvern tímann í messunni og u.þ.b 30% líkur væru á því að Bjössi á Ölduhrygg myndi tóna með föður mínum einhvern hluta af hátíðartóninu. Hann sat hinsvegar svo aftarlega í kirkjunni að ég átti erfitt með að fá næði til þeirra rannsókna . Aldrei heyrði ég föður minn finna að ef einhver dottaði í messu , hann vissi að vinnan var hörð og ylurinn í kirkjunni slakaði á spenntum og lúnum vöðvum. Mér er fremur nær að halda að honum hafi þótt vænt um það. Eftir að rannsóknir höfðu átt sér stað í jólamessunni og henni lauk, hófust jólin loks endanlega. Þau voru komin þegar gengið var úr kirkjunni. Þá skyndilega var margt breytt. Ég er ekki frá því að göngulag fólk hafi breyst. Það gekk hægar, minna lá á þótt allir vildu auðvitað komast sem fyrst til sín heima og við lá að ég sjálfur gæti, a.m.k stundum talist þokkalega prúður og stilltur eftir að hafa heyrt af jesúbarninu sem fæddist í jötu. Þó hann væri svo umræddur , og vitringarnir færðu honum gjafir jól eftir jól minnist ég þess ekki að ég hafi nokkurn tíma öfundað hann. Til þess þekkti ég fjárhúsjötuna of vel. Ljóst var að annríki undanfarinna daga var að baki og kærkomin hvíld var framundan að vera bóndi þýddi ekki frí en allt fimbulfambið , baksturinn,hreingerningin og málningin var að baki þótt úti í húsum biðu skepnur sem þurfti að sinna og gerðu enga undantekningu Þótt það væru jól. Nú skyldi þess notið í nokkra jóladaga sem sáð hafði verið til á jólaföstu. Ég minnist þess að jólin voru að nokkru leyti, formföst á Völlum. Auðvitað snerust þau meira og minna í kringum starf föður míns sem prests og bónda.Hann messaði í öllum kirkjunum ef fært var, og hann var aldrei í rónni fyrr en því var lokið. Fyrir kom nokkrum sinnum að hann þurfti að messa á 10 kirkjum þessa daga. Mér er það ljóst að hann taldi sig ekki hafa gegnt skyldu sinni fyrr en allar messur væru sungnar . Ég tel að honum hafi beinlínis liðið illa þar til að ljóst væri að honum tækist að messa á öllum kirkjunum. Á sama tíma þurfti hann að sinna fé, mjólka kýr og gera annað það er laut að starfi bóndans. Snjórinn gerði honum sem öðrum oft erfitt fyrir og gramt í geði. Í endurminningunni finnst mér að allt hafi verið á kafi í snjó frá október og fram í maí og þótt vissulega hafi verið gaman á skíðum eða skautum, þá áttum við ekki skap saman ég og veturinn frekar en í dag.undirbúningur jólanna var einnig svipaður frá ári til árs . Ekki minnist ég þess að mér þætti hann skemmtilegur utan sá dagur sem notaður var í laufabrauðsgerðina.Þá komu séra Pétur og frú Sólveig , prestshjón á Akureyri og síðar biskupshjón með börn sín og gerðu laufabrauðið með okkur .Ég varð snemma mjög afkastamikill skurðarmaður og skar að jafnaði á annað hundrað í hvert sinn . Ég held að það hafi verið um það bil fjórðungur þess sem skorið var. Um listrænt gildi skurðarins læt ég ósagt en einhvern veginn þóttu mínar kökur þó lystugri en kökur annara . Þessi dagur var alltaf skemmtilegur. Ég tel mig fara rétt með að fjölskyldurnar hafi aðeins misst niður laufabrauðsskurð fyrir ein jól frá árinu 1954 til dagsins í dag. Kökunum hefur að vísu fækkað en ég held mig samt alltaf nálægt hundraðinu og enn bragðast mínar kökur betur en annarra. Það skilja þeir einir sem sjá. |
Annað sem setti svip á jólin, voru jólaboðin. Við fórum ævinlega út í Sökku og suður í Hof. Þessar heimsóknir voru síðan endurgoldnar . Fyrir utan óhóf í mat og drykk voru þessar heimsóknir eftirminnilegar. Mikið var spilað og helst bridge og stundum brús með tilheyrandi gauragangi. Það var toppurinn á tilverunni. Að sjálfsögðu hafði ég ekkert vit á spilamennskunni en það gerði ekkert til. Þarna nutum við samvista við eldra fólkið sem hafði nú meiri tíma til að sinna okkur og veita meiri athygli en í dagsins önn.Mikill samgangur var milli þessara bæja og mikil vinátta . Ég minnist þess ekki að farið væri í slík heimboð á fleiri bæi. Hitt var algengara að fólk kæmi inn eftir messuna á gamlárskvöld og sæti yfir góðgerðum fram á nótt. Þá fengum við að vaka þar til fæturnir báru ekki búkinn lengur, uns örendið þraut eins og algengt er víða á nýársnótt en e.t.v af annari ástæðu. Ekki verður svo skilist við þetta stutta minningarbrot, frá jólum að ekki sé minnst á heimilisfólkið sem náði yfir þrjár kynslóðir. Auðvitað var það ekki síst það sem gerði allan þennan skemmtilega jólasvip. Stefanía, amma mín, var afskaplega róleg og yfirveguð kona og uppfyllti allar kröfur sem gerðar eru til ömmuhlutverksins. Hæg og róleg sinnti hún sínum störfum og veitti okkur það skjól sem ömmur jafnan gera. Árnína systir hennar , var í sama mótið steypt, rólegheitin einkenndu hana ásamt sífelldum fyrirbænum og guðsorðalestri. Held ég að henni hafi ekki veitt af eftir að ég komst á legg. Þær ávörpuðu hvor aðra systir mín. Ég heyrði þær aldrei nefna hvor aðra með nafni. Valdimar afi var nokkuð annarar gerðar, Hann sat jafnan og skrifaði þegar hann var heima en mikil útþrá var ævinlega í honum. Hann þurfti að atast í ýmsu þó æskulýðs og barnastarf væri hans aðaláhugamál, a.m.k á síðari árum. Hann var ákafamaður með mikið skap sem hann kunni þó að stilla en hann var aldrei sami félagi okkar og þær systur. |
Efir að ég fór að vinna
að útgáfu ljóða afa , upp úr áramótum
1982, og fara gegnum ýmis gögn frá honum varð mér fyrst
ljóst hvílíkur afkastamaður hann hafði verið.Hann
var m.a í bréfasambandi við marga þekkta
rithöfunda og þekkt skáld í Evrópu. Þeir
sendu honum bækur og ljóð. Sum þessara
ljóða þýddi hann síðar og eru þau
sum sunginn enn í dag. Ég hef undir höndum rúmlega
700 ljóð og sálma sem hann hefur annaðhvort þýtt
eða frumsamið. Þá hef ég
ekki minnst á að á fyrri árum skrifaði hann
ýmsar kennslu bækur, m.a í eðlisfræði. Þetta
lét hann sig hafa þrátt fyrir að hann lyki aðeins
tveggja vetra námi frá Möðruvallaskóla, Sums staðar
hefur hann sett þanka sína á blað og kemur þar
fram að saknaði þess að hafa
ekki meiri menntun, “vita ekki meira, lélegur! Lítill karl.” Þetta skrifaði hann á
eitt blað eftir harða glímu við að fella tilfinningar
sínar í fjötra bragfræðinnar. Ég er þess fullviss að hverju
ungu barni er mikill akkur í því að eiga þriðju kynslóðina á
heimilinu. Fyrir utan það að taka ýmiskonar ómak
af miðkynslóðinni veitti hún yngstu kynslóðinni
ómetanlegan hluta af lífsreynslu og hyggni og veitti henni öryggi ásamt gleði. Að
sjálfsögðu voru foreldrar mínir þeir aðilar
sem bjuggu mest til jólin, a.m.k hin ytri. Á þeim
hvíldi amstrið og stússið að mestu leyti. Faðir
minn erfði rólegheit og yfirvegun móður
sinnar, þó hann hafi verið launhrekkjóttur og ágætur húmoristi. Mér var oft kennt
um ýmis skammarstrik sem hann átti svikalaust og blekkti hann m.a móður mína oftsinnis
og hélt því fram að ég hefði hlotið
galgopaskapinn úr föðurætt hennar, Á
síðustu árum létti hann stundum á samvisku
sinni og viðurkenndi hrekkjarbrögð sem voru sett á
mitt þéttskrifaða syndaregistur. Rósa amma mín
á Sökku var ekki síður góð,
róleg og grandvör kona en Stefanía amma . Einu sinni
lét hún svo ummælt, þegar um einhver prakkarastrik
mín var rætt, að ekki væri von á góðu
þegar drengurinn ætti þennan afa og
átti þá við Gunnlaug afa minn, og bætti svo
við og þennan föður . Hún
hafði komið auga á að hann átti sitthvað
til. Gunnlaugur afi var mikill verkmaður, vel að sér
og fróður. Kunni ógrynnin öll af vísum, þótt
ekki verði þær allar fluttar við messu.
Hann var einnig góður hagyrðingur og kastaði fram lausavísum en sálmakveðskap
sinnti hann ekki eins og Valdimar afi. Sennilega er hann mér minnisstæðastur
fyrir sagnaþáttinn. Hann sagði vel frá, ýkti
hæfilega og stundum dálítið djarflega
til að krydda annars daufa frásögn og var óþreytandi að koma auga á hið spaugilega
í tilverunni. Honum tókst að gera mikið úr
litlu á margan hátt. Þetta
fólk sem ég hef rætt um hér í undanfarandi
línum setti rammann utan um jólamyndina sem ég
geymi enn í kollinum. Þar mætti að vísu telja
marga fleiri en e.t.v verður það gert síðar. Gunnlaugur V Snævarr Heimildir Jólablað Norðurslóðar 1998 - Birt með leyfi Norðurslóðar. |
Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð Jólafrásagnir frá ykkur - Sendu þína ! Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður
|