Jólavefur Júlla 2012

Copyright Jólavefur Júlla ©

Jól í Konsó

Boðberinn 6. tbl. 13. árg. 1999  -  Birna G Jónsdóttir Hjúkrunarfræðingur.

Ég stend við gluggann í stofunni í gamla húsinu í Konsó. Hér höfum við búið í hálft ár og komið okkur bara vel fyrir. Húsið var illa farið og við höfum lagfært það töluvert. Dætur okkar, Guðrún og Katrín, eru á leið heim í bíl ásamt gestum. Það er loksins komið jólafrí og allt er tilbúið til að taka á móti þeim.

Dálítið af jólaskrauti er komið upp og jóladagatalið með litlum gjöfum fyrir hvern dag sem eftir er til jóla. Þetta er ekki eins og heima á Íslandi þar sem dagatalið var fullt fyrir alla dagana af litlum pökkum. Nú hafa stelpurnar verið í burtu frá okkur mestallan desembermánuð og einungis örfáir pakkar hanga og bíða þess að verða opnaðir. Ég skima út á veginn til að reyna að sjá bílinn en ekkert bólar á honum. Ég lýk við litla jólaskreytingu og labba með hana upp í litla gestahúsið þar sem gestirnir munu sofa.

Þetta eru fyrstu jólin okkar í Eþíópíu og mér finnst þetta hálfótrúlegt og ekkert „jólalegt" að ganga með jólaskreytingu milli húsa í steikjandi hitanum. Það er allt grátt enda búið að vera langvarandi þurrkur. Rauð slaufan á jólaskreytingunni stingur í stúf við umhverfið. Enginn í kringum okkur hugsar um jól eða undirbúning jólanna. Fólkið heldur áfram sínu daglega amstri eins og ekkert sé. Eþíópísk jól koma ekki fyrr en í byrjun janúar en þeim fylgir ekki jólatónlist eða jólaskraut. Eþíópar fagna páskum mun meir en jólum.

Ég hef þurft að hafa fyrir því að reyna að komast í hina réttu „jólastemmningu" með því að spila jólalög af diskum og kassettum, með því að sýsla við smájólaskraut og smákökubakstur. Húshjálpin mín, hún Oshje, sem hefur unnið hjá mörgum kristniboðum áður, tekur þátt í þessu með mér. Stundum hristir hún höfuðið og hlær að mér og fer heim til sín að loknum vinnudegi þar sem ekkert slíkt stúss er í gangi. Hún hugsar eflaust sitt um uppátæki þessara útlendinga!

Það er kominn talstöðvartími. Tvisvar á dag tala allar kristniboðsstöðvarnar saman og ég fæ að heyra að bíllinn er nýkominn til Arba Minch og því um tveir tímar eftir enn til Konsó. Það verður skollið á myrkur þegar þau koma. Ég fer upp á sjúkraskýli til að líta þar yfir en danska hjúkrunarkonan er farin í stutt jólafrí. Þegar tveir tímar eru liðnir stend ég aftur við gluggann og reyni að sjá hvort ekki eru bílljós einhvers staðar á leiðinni. Gulli (Guðlaugur Gíslason, eiginmaður Birnu. Hann bjó í Konsó í tíu ár sem barn ásamt fjölslyldu sinni) rifjar upp að þannig hafi mamma hans alltaf staðið og beðið eftir að þau krakkarnir kæmu þegar þau voru að koma í frí. Þá voru ekki eins margir bílar og nú og einu bílljósin voru þeirra bíll. Nú er meiri umferð og við verðum að geta upp á hvað ljós bera okkar dýrmæta farm.

Loks heyrum við í bíl gefa í upp litlu brekkuna á kristniboðsstöðinni. Brekkan er ekki brött en mjög gróf af steinum. Hundurinn byrjar að gelta. Þau eru komin!! Það verða fagnaðarfundir. Ég finn að það léttir á spennunni hjá mér að vita af stelpunum loksins heima og langri ferð þeirra frá höfuðborginni er lokið. Nú eru jólin komin, hugsa ég!!

Þessir fáu dagar fram að jólum líða allt of fljótt. Það var lítið af jólaskrauti tekið með frá Íslandi og hafði alveg gleymst að taka með eitthvað á jóltréð. Öll hjálpuðumst við að, við að búa til skraut úr því efni sem til var. Þegar upp var staðið var þetta eitt fallegasta tréð sem við höfum haft. Sjálft tréð þurftum við að höggva úr nágrenninu.

Aðfangadagur var runnin upp. Allt var að verða tilbúið. Kússe næturvörður var fenginn til að hita vatn í stórum potti svo allir gátu farið í jólabað. Sturtan í Konsó er úti í litlum klefa. Vatnið er sett í fötu með krana neðan á. Sturtutíminn er því takmarkaður við það vatn sem er í fötunni! Ég er síðust í sturtuna. Þegar ég labba til baka finn ég langþráða regndropa á andlitinu á mér. Ég þakka Guði fyrir regnið, fyrir fjölskylduna og góða vini sem eru að klæða sig fyrir jólahaldið. Ég þakka honum fyrir að hafa sent sinn eingetinn son til þess að frelsa mig. Ég bið um styrk og visku til að starfa á meðal Konsófólksins. Þeir hafa margir heyrt frelsisboðskapinn og tekið við honum en enn eru mörg héruð sem ekki hafa heyrt og víða vantar leiðtoga til að halda starfinu áfram. Katrín kemur hlaupandi á móti mér. Hana vantar hjálp við að greiða sér. Guðrún er komin í eþíópskan kjól og er að sýna mér hvað hún er fín. Ó, ef ég gæti bara alltaf haft þær hjá mér. Ég finn kvíðann hellast yfir mig. Það fer að styttast í að skólinn byrji á ný.

Kvöldið er yndislegt. Hápunkturinn hjá stelpunum er þegar þær fylgjast með okkur Gulla opna pakkana sem þær hafa sjálfar búið til á jólaverkstæðinu á skólanum. Þær gjafir þykir okkur líka vænst um. Fyrr en varir er kvöldið liðið. Klukkan sex næsta morgun vakna ég við að hundurinn geltir einhver ósköp. Ég sé út um gluggann glitta í vasaljós á hreyfingu. Næturvörðurinn á sjúkraskýlinu bankar varlega á gluggann: „Sister Birna, það er kona í fæðingu sem þarf hjálp." Ég fer strax á fætur og labba þessi skref sem eru upp á sjúkraskýlið.

Fyrir utan fæðingarstofuna situr hópur manna. Það eru burðarmennirnir sem hafa borið konuna langa leið. Á fæðingarstofunni er ung stúlka mikið kvalin. Hún er að eiga sitt fyrsta barn. Á gólfinu situr eldri kona sem rær fram og tilbaka og tautar eða sönglar í sífellu. Það er tengdamóðirinn sem samkvæmt sið Konsómanna er viðstödd fæðinguna. Ég skil eitt og eitt orð. Hún er að biðja.... Ég geri allt sem ég get til að hjálpa stúlkunni og með hjálp sogklukku fæðist lítil stúlka. Hún er mjög dösuð í fyrstu en jafnar sig fljótt. Það er ólýsanleg gleðin og léttirinn á andliti stúlkunnar þegar hún loks heyrir barnsgrátinn. Tengdamóðirin fellur til fóta mér til að þakka fyrir aðstoðina! Ég verð hálfhvumsa og reisi hana upp og segi henni að þakka þeim sem ber og þeim sem hún bað til, Guði almáttugum.

Ég geng aftur heim og þakka Guði fyrir að Hann skuli geta notað mig í þjónustunni og bið um fyrirgefningu að mér finnist stundum það kosta of mikið. Það er bara rúm vika þar til ég þarf að kveðja stelpurnar mínar á ný. Þegar heim er komið eru allir komnir á fætur. Ég segi þeim frá litla jólabarninu sem fæddist í nótt. Stelpurnar fóru með gestina til að sjá litlu nýfæddu stúlkuna. Hún lá vafin í lítið lak í fangi móður sinnar. Einhverjum varð að orði: „Þetta eru sko alvörujól hérna í Konsó, með alvöru jólabarn og allt!!"

Takk fyrir Birna.

Jólaminningar eða frásagnir af Jólavef Júlla

Englahár

Jól í Konsó

Jól hjá Gunnþóri

Jólin í fyrri  daga

Jólaminningar frá Tjörn

Jólaminningar frá Völlum

Rotaður í  fjósi á jólanótt.

Epli og snjór í öllum bænum

Jólaminningar frá Gullbringu

Jólaminningar úr Dalvíkurbyggð

Jólafrásagnir frá ykkur - Sendu þína !

 Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður

 

 

TIL BAKA

 

 Júlíus Júlíusson. Jólavefur Júlla  - 2002 - 2003 - 2004 - 2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 - 2010 - 2011 - 2012