Jólavefur Júlla 2012
Besta Jólagjöfin. Jólin voru að ganga í garð.Halli litli var kominn í sparifötin og beið nú jólagleðinnar. Hann gekk inn til ömmu sinnar. Þar ætlaði hann að stytta sér stundir, meðan jólamaturinn var borinn á borð. Mamma og pabbi voru búin að raða jólagjöfum umhverfis jólatréð í betri stofunni. Jólabögglarnir voru marglitir og skrautlegir. Halli var óþreyjufullur. Hann var vanur að fá margar jólagjafir, en nú var eftir að vita hvað hann hlyti að þessu sinni. Það var best að dveljast hjá ömmu um stund. Hún var vís til að segja honum sögu, en þær kunni hún margar og sagði þannig frá að unun var á að hlýða. Hún kunni vel þá list að segja sögu. Amma Halla sat í stólnum sínum og prjónaði. Hún réri fram í gráðið. Hún var blind, eldur augnanna horfinn, en það var eins og hún ætti innri augu sem greindu þá hluti, er öðrum voru huldir. Æviárin höfðu rist rúnir í svip hennar. Löng og hörð lífsbarátta hafði gefið henni minningar , sumar daprar, en einnig aðrar , sem voru henni ljós í myrkrinu og vermdu hana á ævikvöldi. Halli brosti til ömmu sinnar. Hún faðmaði hann að sér og faldi smáar hendur hans milli lófa sinna. Varmi og atlot þreyttra og hrukkóttra handa veittu drengnum ró og innri hlýju. " Ertu nú kominn blessaður stúfurinn minn?" "Já amma mín viltu segja mér sögu ? Mér finnst tíminn svo lengi að líða. Ég hlakka svo til að fá jólagjafirnar og ganga í kringum jólatréð". "Jú litli vinur ég skal gjarnan gera það " En eitt verður þú að muna. Þótt jólagjafirnar þínar séu góðar, þá mega þær ekki verða til þess, að þú gleymir öðrum, en munir aðeins eftir þér sjálfum.Þær mega aldrei verða svo margar, að þú kunnir að hætta að meta þær. Gleymdu því aldrei að besta jólagjöfin sem mennirnir hafa eignast, er lítið barn, sem lagt var í jötu, af því ekki var rúm fyrir það í gistihúsinu:" Svo hóf gamla konan söguna. " Þegar ég var lítil stúlka, átti ég heima í sveit.Ég hlakkaði til jólanna eins og þú.Sérstaklega eru mér minnistæð jólin, sem ég nú ætla að segja frá: Frost og snjókoma hafði verið um langan tíma. Þá voru ekki miðstöðvar eða rafmagn til þess að hita upp húsin. Ylurinn frá eldavélinni, sem kynt var með sverði , hrísi eða moði frá gripunum var ekki nægur til að sigrast á kuldanum. Svo þurfti líka að spara eldiviðinn. Það logaði ekki eldur nema nokkurn hluta dagsins. Oft var því kalt og ónotalegt. Ég man líka, að hendur mínar voru bólgnar og rauðar. Kuldabólgan sagði til sín Nokkrum dögum fyrir jól veiktist Nonni litli, bróðir minn. Honum versnaði með hverjum degi , sem leið.Pabbi varð að brjótast í næstu sveit eftir lækni hvað sem það kostaði . Við vorum aðeins fjögur á heimilinu, mamma og pabbi, ég og litli bróðir á öðru ári. Pabbi átti því illa heimangengt á þessum tíma árs , þegar allar skepnur voru á gjöf. Langt var til næstu bæja og enga hjálp þar að fá, því karlmenn voru margir í kaupstaðarferð fyrir jólin. En nú var ekki um annað að ræða en að pabbi færi að sækja lækninn. Litli bróðir varð að fá hjálp ef mögulegt var Í bernsku minni þekktust ekki aðrar jólagjafir en einhver þörf flík. Ég fékk oftast nýja ullarsokka og brydda skó og þótti mikið til koma, var glöð og ánægð. Nú vissi ég, að mamma gat ekki lokið þessum kærkomnu jólagjöfum vegna veikinda Nonna litla. Ég forðaðist að hugsa um þau vonbrigði, en bað þess heitt og innilega, að litli bróðir fengi að lifa. í þeirri bæn gelymdi ég öllum erfiðleikum mínum. Ég gekk inn í svefnherbergið til mömmu. Það logaði á stóra lampanum í einu horninu. Mamma kraup við rúmstokkinn og hlúði að Nonna litla . Það var þung raun að sjá kvaladrættina í andlitinu og hlusta á kvein hans. Mamma sagði ekki neitt , en það blikuðu tár í augum hennar . Við vonuðum, að pabbi kæmi sem fyrst með lækninn þrátt fyrir veðurofsann. Ég kraup við hlið mömmu. Við grétum báðar við hvílu litla bróður. Tár okkar vættu heitar hendur hans. Bænin í saklausum augum barnsins gekk okkur til hjarta. Stormurinn hvein úti . Nóttin var myrk.-----Loksins loksins hrikti í bæjarhurðinni. Ég hentist fram og opnaði dyrnar. Inn úr dyrunum reikuðu tvær klökugar og fannbarðar verur, líkari ófreskjum en mennskum mönnum Það var pabbi og læknirinn.--- Aðfangadagur jóla var kominn Læknirinn og pabbi höfðu vakað alla nóttina. Þau höfðu sameiginlega gert allt, sem í þeirra valdi stóð til þess að hjálpa litla bróður. Þessa nótt áttu þau aðeins eina ósk,óskina, sem fólst í bæninni um sigur lífsins. Ég hafði oltið útaf í rúmi mínu í öllum fötum og vaknaði ekki fyrr en með birtu. Jólahátíðin var komin. Pabbi og læknirinn röbbuðu saman. Mamma tendraði jólaljósin með bros á vör. Ég sat við rúm Nonna litla. Hann hreyfði sig ofurlítið og opnaði augun. Hann starði á mig um stund. Fagurt bros breiddist yfir andlitið.Þetta bros er fegursta og besta jólagjöfin, sem ég hef eignast um ævina. |
Jólagesturinn "Amma kemur ! Amma kemur!" Þannig hrópuðu börnin hvert í kapp við annað."Komið þið sæl blessuð börnin mín!". Velkomin , amma svöruðu börnin einum rómi. Þegar amma var kominn inn og sest í hægindastólinn, báðu börnin hana að segja sér ævintýri. Amma setti minnsta drenginn á hné sér og hóf mál sitt: "Já nú eru jólin komin aftur, litlu vinir. Og það undraverða við jólin er það að þau fylgja okkur alla ævi, eins og gyllt ævintýrabók, sem engan endi hefur, því að á hverjum jólum bæta jólaenglarnir nýjum blöðum við, svo að ævintýrabókin verður að síðustu þykkri en bíblían á altari kirkjunnar . Hérna þagnaði amma andartak, eins og hún væri að hugsa sig um. "Hvaða ævintýri viljið þið svo heyra í kvöld, kæru börn ? Um álfinn sem drukknaði í hrísgrjónagrautnum ? Eða prinsessuna, sem varð drottning í Hamingjulandi ?" "Eitthvað um pabba, þegar hann var lítill", sagði Stína. "Já um pabba", sögðu börnin einum rómi. Amma brosti. "Já í kvöld skuluð þið fá að heyra um það, þegar pabbi ykkar villtist í snjóhríðinni og var nærri orðinn úti". Á þeim árum snjóaði oft miklu meira en nú. Ekki aðeins nokkra daga, heldur vikur og mánuði samfleytt. Þá voru skaflarnir orðnir svo stórir, að húsin voru komin á kaf. Þannig var það þetta aðfangadagskvöld. Klukkan var farin að ganga sex, og úti var snjóhríðin svo dimm, að óratandi var milli bæja. En okkur leið vel inni og vorum önnum kafin við undirbúning hátíðarinnar. Afi ykkar var að enda við að skreyta jólatréð í stofunni og undir neðstu greinunum voru gjafirnar geymdar eins og þá var venja". "Já en þú ætlaðir að segja okkur frá pabba" , sagði Stína. Og amma sagði ...........Þessarar bókar skuluð þið gæta vel, börn, því að hún er eitt af því dýrmætasta, sem við flytjum með okkur á okkar löngu ferð gegnum lífið. Hvert aðfangadagskvöld þegar kirkjuklukkurnar hringja og ljósin loga á jólatrénu, þá fá jólaenglarnir nóg að gera.Þúsundir af fagnandi og vonglöðum mönnum rétta þeim hvít óskrifuð blöð og biðja þá um að mála á þau fögur jólaævintýri. Og jólaenglarnir mála.......... Hérna þagnaði amma andartak. Og amma sagði frá, hvernig þau mitt í önnunum fengu nýtt umhugsunarefni. Helgi litli var horfinn. Strax var leitað um allt í kjallaranum, á loftinu, í hlöðunni en hvergi fannst drengurinn. Þá var kveikt á fjósluktunum og menn af næstu bæjum fengnir til að leita. Þeir dreifðu sér í smáhópum yfir snævi þakta jörðina, þar sem jólastormurinn þyrlaði upp snjónum. Þeir leituðu klukkustundum saman, og sneru þreyttir og vonlausir heim aftur. " Já en hvar var pabbi þá?" "Já hvar var hann ? meðan leitarmennirnir lýstu með ljóskerjum yfir snjóþaktar breiðurnar en þeir, sem inni voru, töldu mínúturnar og biðu fullir örvæntingar, þá braust lítill drengur móti hinum kalda austanstormi, svo hann sveið í eyrun. hann hafði gleymt að kaupa jólagjöf handa pabba sínum . Og jólagleðin, góðu börn, er nú ekki bundin við það, að fá gjafir, heldur einnig að gefa.Og þegar hann allt í einu áttaði sig á því, að hann einn hafði ekki hugsað fyrir neinni jólagjöf handa pabba sínum, þá fékkst hann ekkert um veðrið heldur fór út í snjóbylinn, með tveggja króna pening í annari hendinni og stefndi á búð kaupmannsins En kaupmaðurinn var búinn að loka búðinni. Svo litli anginn með peninginn í hendinni sneri heim aftur í þungu skapi. En litli drengurinn villtist, og vissi ekkert hvert hann fór og sat við og við fastur í sköflunum. En hann var ekki einn úti í vetrarnóttinni. Lítill spörfugl var í fylgd með honum. Einn af boðberum drottins, sem alltaf koma, þegar einhver mannssál ráfar ein í myrkri. Hann heyrði tísta við vegbrúnina og tók hann upp með skjálfandi höndunum.Fuglinn var lítill villtur, heimilislaus aumingji, eins og hann sjálfur sem þráði að komast í skjól. Þannig fylgdust drengurinn og fuglinn að í hinni köldu vetranótt og urðu vinir. Hann fann litla hjartað fuglsins slá af hræðslu undir hinu fiðurklædda brjósti. Og samstundis gleymdi hann, að hann sjálfur var að villast í snjóhríðinni og myrkrinu.Honum fannst syngja í kringum sig ósýnilegir herskarar af englum. Snjókornin urðu að álfum og gæfudísum, sem hjálpuðu honum móti veðrinu. Annað hjarta sló í takt við hans eigið og gaf honum kjark til að berjast áfram. !Og hvað svo amma ?" "Já hvað svo. Það fór hér, kæru börn, eins og svo oft í lífinu, þegar við gleymum okkar eigin þjáningum vegna annara, þá kveikir drottinn á stjörnum sínum hinni myrku nótt, og leiðir okkur heim, þó að við höfum villst". "Funduð þið hann svo, amma ?" Já hann fannst. Ajax fann hann. Góði trygglyndi hundurinn okkar, sem pabbi ykkar hafði oft leikið sér við. Hann vildi ekki hætta að leita, hvernig sem kallað var á hann, fyrr en hann fann litla drenginn, sem var lagstur fyrir dauðuppgefinn í einn skaflinn, en hélt fuglinum uppi við brjóstið. Svo héldum við jólin . Gæsasteikin var brunnin og hrísgrjónagrauturinn sangur, en það gerði ekkert til? Jólin eru þó ekki bara matur. "En litli fuglinn ?" Litli fuglinn var besta jólagjöfin, sem pabbi ykkar fékk það ár. Hann svaf í búri við rúm hans á nóttunni og vakti hann á morgnana með sínu unaðslega kvaki. Og þegar vorið kom og sólin sendi ylríka geisla sína yfir jörðina, þá flaug hann frjáls út í sólskinið, upp á móti hinum blá himni og þakkaði fyrir lífið og ljósið með unaðslegu kvaki. Og nú er víst búið að kveikja á jólatrénu, enda er sögunni lokið. Þýtt. |
Ungliðadeildirnar Það ríkti mikil tilhlökkun meðal barnanna í Ungliðadeildunum. Fyrsta desmber átti að fara fram fánhylling á leikvelli skólans í tilefni dagsins. Þá ætluðu ungliðadeildirnar einnig að halda sameiginlegan fund til þess að ræða um jólagjafir frá deildunum til sjúklinga á sjúkrahúsum og aldursforseta kauptúnsins. Fyrir hádegi fyrsta desember komu börnin saman við skólann. Flest þeirra voru með lítinn, íslenskan fána á stöng. Piltur og stúlka drógu íslenska fánann að hún á flaggstöng skólans. Fjallkonan, lítil stúlka í þjóðbúningi , flutti kvæðið, Til fánans, sem Einar Benediktsson orti um bláhvíta fánann. Eftir hádegi héldu börnin fund í samkomusal skólans. Í öðrum enda salarins var var stórt borð skreytt blómum með merki rauða krossins og íslenska fánanum á stöng. Öll börnin höfðu hvíta húfu og hvítan borða með rauðum krossi um arm..Stjórn deildanna tók sér sæti við borðið. Formaður var fundarstjóri Hann setti fundinn með stuttri ræðu og stjórnaði almennum söng á eftir. Því næst var lesin upp fundargerð síðasta fundar. Þar hafði margt verið til fróðleiks og skemmtunar:frásögn skólastjóra um stofnun og starf Rauðakrossins, þá var tekið fyrir aðalmálefni fundarins jólagjafir til sjúklinga og aldursforseta kauptúnsins. Eftir nokkrar umræður var samþykkt tillaga þess efnis að kjósa fimm manna nefnd til þess að sjá um jólagjafir í samræmi vil vilja fundarins.Féhirðir deildarinnar gaf þær upplýsingar að fjárhagur deildarinnar væri óvenju góður. Sumardag fyrsta síðastliðinn höfðu deildirnar fagnað sumri að vanda með því að fara í skrúðgöngu um kauptúnið og halda skemmtun fyrir almenning í samkomuhúsi kauptúnsins til ágóða fyrir deildina. Næstu daga var nefndin sem átti að sjá um jólagjafirnar í miklum önnum. Hún þurfti að ákveða gjafirnar, pakka þeim inn og koma þeim í póst. Einnig þurfti hún að skrifa á jólakort, sem börnin teiknuðu, með hverjum pakka. Nefndin fór margar ferðir í verslanir kauptúnsins Það var mikill vandi að velja og hafna. Margs þurfti að gæta. Það varð að taka tillit til verðs og gæða. Gjafirnar urðu að vera smekklegar og sem best við hæfi hvers og eins. Nefndin lét börnin í deildunum fylgjast með kaupum og ákvörðunum.Samstarf nemenda um þetta verkefni hafði áhrif á andrúmsloftið í skólanum. Börnin voru venju fremur vinsamleg í umgengni hvert við annað, tillitsöm og hjálpfús. Þau reyndu auðsjáanlega að setja sig í spor þeirra, sem ekki gátu haldið jól heima, en urðu að dveljast sjúkir og fjarri vinum og vandamönnum. Jólin nálguðust. dagarnir liðu hver af öðrum, og loksins kom aðfangadagur, en þá ætlaði nefndin að færa aldursforseta kauptúnsins jólagjöfina Aldursforsetinn að þessu sinni var var kona á níræðisaldri . Hún var ekkja og bjó hjá syni sínum í litlu húsi í útjaðri kauptúnsins. heimili hennar var fátæklegt, en hreinlegt. Hún var orðlögð fyrir hógværð og háttprýði. Hjálpsöm var hún við menn og málleysingja. Þegar snjór var yfir öllu á vetrum, mátti oft sjá mergð snjótittlinga í garðinum fyrir utan húsið hennar. Það var henni unun í ellinni að gefa þeim korn daglega. Nærvera þessara litlu vina gaf henni hlutdeild í þeirri gleði, er sá einn þekkir, sem veitir öðrum hjálp í neyð. Nefndin frá ungliðadeildinni drap á dyr. Gamla konan opnaði hurðina. Hún var broshýr og hlý í viðmóti. Kannski grunaði hana eitthvað ? Börnin afhentu henni jólagjöfina með viðeigandi formála , sem var fyrir fram hugsaður og ákveðinn. þau báðu hana að opna ekki pakkann fyrr en um kvöldið. Gamla konan klökknaði og þakkaði þeim innilega hugulsemina. Hún bauð þeim inn í herbergið sitt, og þar ræddi hún við þau um stund.Hún sagði þeim frá jólunum, þegar hún var barn. margt hafði breyst, en alltaf veittu jólin birtu og yl og snertu viðkvæma strengi í brjóstum mannanna. Börnin kvöddu og héldu heim. Þeim bjó sönn jólagleði í hjarta. Gamla konan opnaði jólapakkann um kvöldið. Hún sat með hann í kjöltu sinni og lét hugann reika. Tár blikuðu á augum. Þrátt fyrir nær öld að baki var hún enn barn á jólunum. |
Jólanóttin Nóttin helga fór í hönd. Áliðið var aðfangadagsins: kirkjukertin horfin og komin út í Sólheimakirkju. Búið að senda kerti og ýmsar jólagjafir víðsvegar til fátæklinga. Aðeins einn jólagestur sat eftir af öllum þeim gestum, sem komið höfðu í dag.Stúlkurnar höfðu raðað öskunum nýþvegnum á búrbekkinn, sópað undan öllum rúmum og þvegið rúmstokkana. Öll gólf voru tárhrein, og helst máttu börnin ekki koma inn allan daginn. Fátækraþerririnn brást ekki, og engin flík var óhrein innan bæjar. Í kýrkláfunum var besta taða, og öll verkfæri hrein. Rokkarnir allir, kembukassar og hesputré var sett út á miðloft og raðað þar, og blöðin, sem alltaf voru geymd uppundir í sperruverk, horfin.Þegar dimma tók, var borinn þvottabali inn í norðurhús, þar sem vefstaðurinn var. Og þar var allagt gólfið með boldangi. Sjóðandi heitu vatni var hellt í balann, og þegar það var mátulega heitt, vorum við börnin kölluð þangað og þvegin frá hvirfli til ylja. Þarna var nokkuð heitt af vatnsgufu, en kaldara mátti það samt ekki vera. En áður fórum við í eldhúsið, þar beið Inga systir og beygði okkur ofan yfir keytustamp, sem hún svo vatt hárið á okkur upp úr. Þetta var það versta fyrir jólin. Ég kreisti aftur augun og beit saman munninum, þorði varla að anda á meðan þessu stóð. Síðan þerraði hún höfuðið og hárið með strigadúk og lét okkur hlaupa inn að kerlauginni í vefjarhúsinu . Það var mikil svölun þar að baða sig eftir höfuðþvottinn í eldhúsinu. Þetta gekk eftir röð, og alltaf varð að bæta í balan nýju heitu vatni. Svo stóð stór skál á borðinu með hreinu köldu vatni og sápu sem hver notaði síðast eftir vild.Þegar búið var að skola okkur börnin, kom fullorðna fólkið og lét líka lauga sig, það var bara einstaka manneskja, sem ekki tók nema keytuþvottinn. Þegar stúlkurnar voru búnar lokuðu karlmennirnir sig inni og báru áður að margar fötur af volgu og köldu vatni, það var mikill gauragangur í þeim, og oft tók dágoða stund að laga til eftir þá. Að öllu þessu loknu var borinn inn rjúkandi kjötsúpa, þykk eins og grautur Það verkaði vel á mann baðið og fólkinu létti í skapi. Vænir spaðbitar, feitur og magur voru í hvers manns aski. Allir höfðu skipt um nærföt, er þeir komu úr baðinu, og nú klæddu þeir sig í sparifötin. Svo var kvöldverkum öllum lokið klukkan 6-7 um kvöldið. Kertalykkjurnar lágu á baðstofuborðinu, og byrjaði mamma að kveikja á þeirri fyrstu og lét brenna sundur rakið á milli þeirra, logaði þá á tveim kertum undir eins. Þau voru gefin elstu mönnum í baðstofunni. Þessi athöfn stóð talsverðan tíma, og biðum við börnin, meðan allt eldra fólk tók á móti sínum kertum. Loksins tók mamma kertalykkjuna okkar og kveikti á henni. Svo rétti hún mér og Ólu systur sitt kertið hvoru með ljósi "Takið þið við, börnin mín góð,"sagði hún og tárin runnu niður kinnar hennar. Ég tók við mínu kerti og kyssti mömmu og strauk með litlu lófunum tárin hennar, hún brosti og sagði: þykir þér falleg jólaljósin, Eyfi minn. Þrír bræður þínir og systur njóta þó fegurri jólaljósa hjá jólabarninu Jesú. Svo kveikti hún á tveim hákertum, sem stóðu í stjökum á borðinu, það voru hjónaljósin. Gesturinn sem var aldraður bóndi, sat við annan borðsendann og fékk líka sitt kerti. Af háhillunni yfir baðstofuglugganum voru nú teknar lestrarbækurnar. Það var Péturspostilla, bænakver og tvær sálmabækur. Pabbi flutti sig inn til mömmu sinnar í norðurbaðstofuna, en söngfólkið var kyrrt í frambað- stofunni. Gesturinn var góður raddmaður og byrjaði jólasálminn. Tveir sálmar voru sungnir á undan og tveir á eftir. Hjá pabba sat ég allan lesturinn og mændi á opna postilluna. Hvenær ætlaði þessi lestur að enda ? Og svo átti ég að muna eitthvað úr honum. Þetta mundi ég: "Guð-Drottinn-allt-Amen!" og pabbi brosti. Þetta var allt og sumt, en söngnum tók ég betur eftir og braut heilann um það, hvað Guð mundi eiga margt í "hornum" sínum. Seinna um kvöldið spurði ég ömmu, hvort hún vissi það. Hún var byrst og sagði, að hjá guði væru engin horn. "Svona máttu ekki spyrja, dengi minn" sagði hún. "En það var sungið í jólasálminum," sagði ég. Það mundi ég glöggt. Forsöngvarinn sagði svo skýrt: "...minn Guð gaf af hornum sér". Amma leiðrétti mig eftir andartak, og bágt átti ég að skilja, að hennar meining væri réttari en mín. Eftir húslesturinn byrjaði sálmasöngur á víxl og góðlátlegt samtal. Og brátt rauk upp af stórri leirskál, barmafullri af "púnsi". Pabbi kveikti á henni, og var það fallegur rauðblár logi. Svo fengu allir púns í bolla, og sló þá nokkuð í glaðværð. Svo kom fullt af lummum og kaffi.Hin ánægjulegasta stund þetta kvöld var meðan á jólagjöfum stóð. Mamma gaf öllum einhverja nýja flík, þegar að afloknum jólalestri Karlmennirnir fengu nýjar milliskyrtur eða nýjan jakka, jólaskó bryddaða og nýja háleista. Stúlkurnar fengumillipils eða svuntu og sjalhyrnu, stundum allt þetta hver, sauðskinnsjólaskó og sortulitaða sokka. Börnin fengu ný föt, rauða eða bláa sokka eða jólaskó. Enginn mátti fara í jólaköttinn. Jólagestur var í þetta sinn Ólafur bóndi frá Brekkum. Hann var ókátur og einmana, en glaðanaði við púnsdrykkjuna og jólagjafirnar. Konu sína hafði hann misst á þriðja hjónabands- ári þeirra. Hún dó af barnsförum. Eftir lát hennar eirði hann hvergi, en sat helst í smiðju sinni og klambraði eitthvað smávegis, sem engu var nýtt. Fann hann þá eitt sinn í smiðjunni blað sem skrifaðar voru á þrjár vísur. Huggaðist hann við að lesa þær og vissi, að guðs engill hafði flutt honum þær til styrkingar, þær voru frá konunni hans. Þessar vísur söng hann tárfellandi, þó jólanótt væri. Mamma byrjaði sjálf jólasálmana, en engin rödd var svo fögur eins og hennar. Síðast var sungið þetta vers úr Passíusálmunum, "Gef þú að móðurmálið mitt," o.s.frv. Ljósið á baðstofulampanum var ekki slökkt, þegar háttað var, og logaði alla nóttina á honum. Reyndi ég að vaka sem lengst til þess að njóta birtunnar. Síðast streymdu ljósstafir frá lampanum til mín, og ljósbrotin mynduðu geislakrans um baðstofuna. Og ég þoldi ekki að horfa á móti allri þeirri dýrð, sem myndaðist um jólabarnið. "Góða nótt, mamma mín," sagði ég , og tungan drafaði. Draumur tók við. Eyjólfur Guðmundsson Vökunætur II (1947) Vetrarnætur. |
Jólasögur og frásagnir af Jólavef Júlla
Jólin koma í kærleikslandi ( J.J ) Ég veit að mamma grætur á jólunum Jólatöfrar " Eða var þetta raunverulegt " ( J.J )
|