Jólasögur Júlla

grein

Efnisyfirlit

Jólin koma í Kærleikslandi - Fyrir yngstubörnin

1. Hæ ég heiti Blíð ég á heima í kærleikslandi þar sem allt er gott, við hér þekkjum ekki neitt vont, allir eru blíðir, hjálpsamir og góðir, þannig á það að vera, sérstaklega núna fyrir jólin.

2. Ég er að fara að undirbúa jólin hjá mér og dýrunum mínum. Það er svo kalt ég var að koma undan hlýrri sænginni minni, þá er nú gott að hafa kerti hjá sér og nú ætla ég að hlýja mér örlítið áður en ég byrja, það eru nefnilega nóg verkefni framundan hjá mér.

3.Jæja Bangsi , þetta er nú meiri flækjan í jólaseríunni sem við höfum í stofunni hjá okkur, en það er til bóta að allar perurnar eru í lagi, mikið getur maður orðið þreytt á þessu öllu saman.

 4.Gott er að hafa einhvern traustan og hlýjan ef maður vill fá sér smá lúr það er nauðsynlegt  að hvíla sig inn á milli, það liggur ekki svo mikið á jólin koma þó svo að serían sé ekki komin upp, mér þykir svo vænt um þig bangsi, þú ert svo mjúkur.

5. Heldur þú að ég sé að verða gömul og gleyminn Bangsi ?..ég man bara alls ekki hvar við höfðum stjörnuna og jólasveininn á síðustu jólum ..hmmm.

6. Það má ekki gleyma dýrunum á stundum sem þessari, gefa þeim eitthvað gott, leyfa þeim að vera inni í hlýjunni, Lambi minn þú mátt sofa undir sænginni minni á jólanóttina það er sko hlýtt þar, við getum líka talað saman.

7. Bíbbi litli er mín hjálparhella þegar þarf að hengja upp greinar, hann flýgur með þær upp þar sem ég næ ekki, því ég er svo stutt í annan endan, hann nartar stundum í rauð og falleg berin, þau eru svo góð, það er í lagi ef hann klárar þau ekki

 

8. Þessar jólakúlur nú til dags eru orðnar svo stórar, ég ræð varla við þær svona lítil eins og ég nú er. Kúlurnar eru samt svo fallegar að það verður að hafa þær með.

9. Greinarnar í ár eru mjög fallegar, ég ætla skreyta með þeim út um allt hús hjá mér, og ég ætla líka að láta greinar hjá öllum dýrunum.

10. Hvar á þetta nú að vera ?, þetta hefur sennilega dottið af þessu sem ég setti upp áðan, jæja ég læt þetta bara fyrir ofan myndina af honum Bangsa, ummm það er svo góð lyktin af þessu, hún er líka svo jólaleg

11. Þessi dagur er nú búinn að vera erilsamur, en nú er ég að verða búin, enda orðin þreytt, svona, nú á ég bara eftir að hjálpa kisa litla upp í jólasokkinn, hann vill alltaf sofa þar innan um góðgætið, honum líkar svo vel ilmurinn, en hann er samt stilltur greyið hann snertir ekki á neinu, enda vel upp alinn , hann er líka svo sætur. 

12. Þetta var nú erfiður dagur nú kemst ég varla inn í rúmið mitt, ég ætla að leggja mig hérna hjá honum Bangsa mínum hann er svo góður. Nú eru jólin alveg að koma og allt er tilbúið hjá mér, ég óska öllum gleðilegra jóla og verið góð við hvort annað og…..ZZZZZ

2012 – J.J

Jólatréið

Jólatré á jólavef Júlla

Það var einu sinni jólatré sem var búið að þjóna eigendum sínum vel og lengi, svo lengi að öll börn fjölskyldunnar sem voru 7 talsins mundu ekki eftir neinu öðru tré.

Tilhlökkunin var alltaf mikil hjá krökkunum þegar tréð var tekið niður af háaloftinu og pabbinn dustaði rykið af gömlu pappaöskjunum sem skrautið var geymt í.Í þessum öskjum var fallegt skraut,marglitar glitrandi kúlur,litlar bjöllur,pokar með gömlum jólasveina og helgimyndum á. Þetta skraut var búið að vera til jafnlengi og tréð,öll börnin áttu svo fallegar minningar í sambandi við skrautið og gamla góða jólatréð.

Það var kominn desember og jólaundirbúningurinn í fullum gangi,laufabrauðið hafði verið steikt og búið að koma því á sinn stað í búrinu,kortagerð og jólaföndur voru á lokastigi,ilmurinn af piparkökunum og öllum hinum smákökunum var dásamlegur.

Uppi á háaloftinu beið jólatréð,það vissi alltaf að þegar jólastjarnan var komin á Kaupfélagið,nálgaðistsá tími sem tréð fengi að njóta sín.Uppi á háaloftinu var lítill gluggi sem sneri að Kaupfélaginu,inn um þann glugga skein alltaf yndisleg jólabirta í desember, það var sú birta og ómurinn af söng jólasveinanna sem sungu fyrir börnin á svölum Kaupfélagsins sem kom jólatrénu í gott hátíðar og jólaskap. Dagarnir liðu hratt í jólaundirbúningnum,heimilið var að verða tilbúið fyrir jólin, krakkarnir voru komnir í frí úr skólanum fyrir nokkrum dögum, þau höfðu verið dugleg að laga til hjá sér og hjálpa mömmu sinni við ýmislegt sem þurfti að gera fyrir þessa miklu hátíð ljóss og friðar.

Þorláksmessudagur rann upp, veðrið var virkilega fallegt,um nóttina hafði snjóað og úti var ofurlítið frost,allir voru ánægðir þegar þeir litu út , allt var svo hreint , fallegt og jólalegt um að litast.Yngstu börnin fóru út að leika sér en þessi eldri voru að hjálpa til,öllum fannst þessi dagur svo lengi að líða , allir voru spenntir. Dagurinn leið samt áfram og var að kveldi kominn, það var einmitt á Þorláksmessukvöld sem fjölskyldan var vön að skreyta jólatréð , þetta var eitt af því sem krökkunum þótti einna mest spennandi og hátíðlegt fyrir jólin.Klukkan átta þegar allir voru búnir að borða og frágangi eftir matinn lokið, pabbinn fer út og sækir þar tré nýhöggvið grenitré sem hann hafði komið með um leið og hann kom heim úr vinnunni,hann var líka með lítinn kassa undir hendinni, í þessum kassa var mikið af fallegu nýju jólaskrauti sem hann hafði keypt fyrr um daginn. Yngri krökkunum fannst þetta mjög spennandi, og þeim eldri líka en samt fannst þeim eins og eitthvað væri að, mamman varð mjög hissa.Pabbinn setti tréð inn í stofu,festi það svo í fótinn og allir hjálpuðu til við að koma nýja glitrandi skrautinu á,í kassanum voru rauðar og grænar kúlur, litlir sætir jólasveinar og stjörnur.Allt var þetta til þess að hengja á nýja tréð.Þegar allt var komið á tréð,vafði pabbinn að síðustu langri hvítri lengju utan um tréð “ jæja sagði pabbinn, þá er tréð orðið fallegt og virkilega jólalegt”jú vissulega var tréð mjög fallegt og jólalegt , en eitthvað vantaði samt ,hugsaði mamman með sér.Nú var komið að háttatíma á þessu Þorláksmessukvöldi, þegar klukkan sló tólf , voru allir sofnaðir.

Aðfangadagur þessi yndislegi dagur sem allir biðu eftir,byrjaði eins og dagurinn áður, bjartur, fagur og bætt hafði lítið eitt á snjóinn sem gerði jólin enn hátíðlegri. Krakkarnir drifu sig á fætur, þau gátu ekki sofið lengur fyrir spenningi. En það var eitthvað sem vantaði fyrir þessi jól, þeim fannst það bara en voru ekki viss hvað það var. Krakkarnir fóru út að leika sér,einn strákurinn sem var 11 ára hitti vin sinn úr næstu götu, þeir fóru að leika sér saman, bjuggu til snjókall, á meðan ræddu þeir um jólin, vinurinn var ekki mjög spenntur fyrir jólunum, mamma hans og pabbi voru svo fátæk, þau áttu til dæmis ekki neitt jólatré, einnnig yrði lítið um gjafir þessi jól. Þegar þeir höfðu lokið við snjókallinn sem þeir kölluðu Snæfinn, var kominn hádegismatur. Í matartímanum sagði strákurinn frá öllu saman með vin sinn. Eftir matinn þá kallaði pabbinn alla inn í stofu, hann bað alla að setjast og hlusta á sig, hann spurði alla að því hvort þau vildu ekki gefa stráknum í næstu götu og fjölskyldu hans nýja tréð og nýja skrautið og þau mundu nota þeirra gamla góða tré,júhhh sögðu allir og krakkarnir stukku í fangið á pabbanum, fallegt bros færðist yfir andlit mömmu. Nú varð uppi fótur og fit, pabbinn og strákurinn sem átti vininn tóku nýja tréð og fóru með það til vinarins ásamt peningum í poka sem strákurinn hafði hrist úr sparibauknum sínum. Vinurinn og hans fjölskylda urðu mjög glöð og sögðu að þetta væri besta jólagjöf sem þau hafi nokkurn tíma fengið, mamma vinarins þakkaði þeim vel fyrir með tárin í augunum.Nú var farið og opnað uppá háaloft til þess að sækja tréð, þeirra ekta jólatré og allt skrautið sem þeim þótti svo vænt um.

Um miðjan dag var búið að skreyta tréð , það var dásamlega fallegt og allir voru komnir í sitt besta jólaskap, undir öllu fallega skrautinu brosti svo gamla góða tréð.

Júlíus Júlíusson

Leitin að jólunum

Það er frábært að komast í jólafrí,  sofa lengur, fara í sendiferðir fyrir mömmu, spila, bera út kort og pakka, heimsækja Siggu sem gefur alltaf nammi fyrir jólin og fleira. Þetta var Nonni að hugsa á leiðinni á litlu jólin í skólanum. Hann var í jólafötunum, með spariskóna, kerti og smákökur í poka.

 Fyrsti klukkutíminn leið hratt. Þá var bekkurinn hans saman í þeirra stofu, kennarinn las sögu og allir krakkarnir höfðu kveikt á kertunum sínum og brögðuðu á smákökunum. Nonni var ekki alveg eins og hann var vanur að vera, hann fann ekki jólaandann sem hafði ríkt í hjarta hans á litlu jólum skólans hingað til. Var það af því að kennarinn las alltaf sömu söguna eða var það af því að nú voru þau árinu eldri? Nonni var ekki viss og reyndi að hrista þetta af sér. Nú var tíminn sem bekkurinn hafði út af fyrir sig búinn og allir áttu að mæta á sal,  Nonna fannst þetta einhvern veginn öðruvísi, það var meiri kliður í salnum. Í minningunni voru allir stilltir og prúðir, allir í sparifötunum og enginn kliður, hvað var eiginlega að gerast  –  nú voru sumir meira að segja í sömu fötum og þeir voru í skólanum á venjulegum degi, hvað voru foreldrar þeirra eiginlega að hugsa.

 Nú var skólastjórinn kominn og þá færðist aðeins ró yfir salinn. Hann óskaði eftir því að fá gott hljóð sem gekk eftir. Þau eru eitthvað að taka sig á, það ætlar kannski að rætast úr þessu hugsaði Nonni með sér.  Skólastjórinn hélt stutta ræðu, ræðu sem er eins á hverju einasta ári, Nonni kunni hana næstum því og gat fylgt skólastjóraum eftir … en bíddu við hvað var hann nú að segja … þetta hafði Nonni ekki heyrt áður. Oofan á allt annað var skólastjórinn farinn að breyta litlu jólaræðunni, hann fór að tala um jólaandann og ef að maður fyndi hann ekki innra með sér þá yrði maður að leita að honum, hann væri ekki glataður heldur aðeins í felum og ef svo væri  þyrfti maður að leggja sig fram við leitina.  Eftir ræðuna og nokkur jólalög komu gestir í heimsókn, þetta voru árlegir gestir sem komu alltaf með látum og léku við hvern sinn fingur, þetta voru blessaðir jólasveinarnir. Þeir færðu öllum pakka, en auðvitað vissu krakkarnir að þetta voru ekki pakkar frá þeim því að allir nemendurnir létu pakka í púkk og síðan fengu sveinarnir þá og dreifðu til allra … oft var spennandi að fylgjast með hver fengi pakkann sem maður setti sjálfur í púkkið … stundum óskaði maður eftir því að það væri stelpa sem fengi hann, afhverju maður vonaði það var Nonni ekki viss um.  En nú voru jólasveinarnir hljóðlátir og ekkert skemmtilegir, sungu illa og bara ómögulegir á allan máta. Á leiðinni heim hugsaði Nonni mikið um litlu jólin í skólanum sem honum fannst að hafi ekki verið góð, var þetta eitthvað innra með honum eða var það eitthvað annað? Ofarlega í huga hans var einnig það sem skólastjórinn sagði í ræðu sinni um að ef maður fyndi ekki jólaandann yrði maður að leita. 

 Sama kvöld þegar Nonni var að hjálpa mömmu sinni að pakka inn gjöfum og skrifa á kort fór hann að ræða þetta við hana og sagði henni frá því sem honum hafi fundist á litlu jólunum og hugsunum sínum. Þetta gerist stundum og þá verður maður sjálfur að finna jólaandann, einmitt eins og kom fram í ræðu skólastjórans, sagði mamma og brosti út í annað munnvikið. Þegar Nonni var lagstur á koddann um kvöldið tók hann þá ákvörðun að fara og finna jólin. Hann pakkaði brauði, smákökum, oststykki, eldspýtum og kerti ofan í lítinn bakpoka,  klæddi sig og læddist út í dimma nóttina. Hann vissi ekkert hvert förinni var heitið en ákvað að ganga út fyrir bæinn í suðurátt. Fljótlega kom hann að litlum gróðurreit og settist þar á þúfu til að hvíla sig, hann opnaði bakpokann og fékk sér eina smáköku … þegar Nonni stakk síðasta bitanum upp í sig fannst honum eins og að hann væri ekki einn, hann horfði í kring um sig en sá aðeins sín spor …

 „… smákökur … smákökur, smákökur uppáhaldið mitt, mætti herrann missa eina smáköku eða tvær?“  Ha … hver er hérna, sagði Nonni svo hissa að hann gleymdi alveg að vera hræddur. „Hver og hver, bara ég … mmmmm … smákökur minn líkar smákökur mmmmm.“ Nú leit Nonni niður á þúfuna og sá þar lítinn búálf, hann vissi að þetta var búálfur af því að hann hafði séð mynd af honum í bók og hann var alveg eins, lítill sætur og með rauða húfu.  Errrtuuuu búúúálfur?  stamaði Nonni. „Búálfur – búálfur … hvað heldurðu að ég sé, sýnist þér ég vera kálfur, þú ert álfur kálfur sjálfur … tímir þú smákökunni eða ekki góði minn … sóði minn? Nonni var búinn að gleyma því að búálfurinn hafði beðið hann um smáköku, hann opnaði pokann sinn og rétti honum tvær kökur. „Takk og skakk, þú er gjafmildur tvær kökur ekki verra, góðar kökur og stökur.“

 Búálfurinn sat um stund á þúfunni, maulaði smákökurnar og starði upp í stjörnubjartan himininn. Þegar hann stakk upp í sig síðasta bitanum sagði hann: „Svo þú ert að leita að jólunum og hólunum, Nonni minn?“  Nei bara að jólunum … en hvernig veist þú hvað ég heiti og hvað ég er að gera hér? spurði Nonni. „Ohhohh veit og sveit við búálfarnir vitum allt svona og vona.“ Vona hvað? sagði Nonni hissa.  „Vona? … já þú meinar það og hvað … ja bara vona að við finnum það sem við leitum að,“  sagði búálfurinn rétt eins og að hann væri að redda sér úr klípu.  Getur þú  kannski hjálpað mér?“  spurði Nonni.  „Nú auðvitað, hvers vegna heldurðu að ég sé hérna, hélstu að ég hafi bara og tjara komið til að betla af þér kökur og bökur …“ Nei, svaraði Nonni. Þú komst til að hjálpa mér að leita að jólunum. „Rétt og frétt!“ svaraði búálfurinn.  Nú stóð hann upp, tók niður húfuna og klóraði sér í kollinum í gegnum gulgrátt hárið. „Hvar skal byrja og smyrja, oftast þarf nú ekki að leita langt yfir skammt.“ Eru jólin hér einhvers staðar?  spurði Nonni.  „Hér og þar en oftast eru þau innra með manni og ef maður finnur þau ekki  þarf stundum eitthvað til þess að hjálpa til við leitina, komdu með mér við skulum kanna málið.“  Búálfurinn rölti af stað og það var ekki erfitt fyrir Nonna að halda í við hann því hann tók lítil hænuskref miðað við Nonna. En einhvern veginn gekk ferðin ótrúlega vel og áður en Nonni vissi af stóðu þeir á hlaðinu á sveitabæ einum. Þar stansaði búálfurinn og sagði: „Hér erum við og og getum ekki annað. Ef við eigum að halda áfram þá þarf ég smáköku og smáköku til að hugsa og slugsa.

“ Nonni var fljótur að taka bakpokann af sér og rétti búálfinum tvær smákökur sem hann var fljótur með. „Jæja strákur, nú bregðum við okkur hér inn í þennan bæ, þar er gömul kona sem liggur veik í rúminu, hún sér mig ekki en ég verð samt hjá þér. Þegar við komum inn þá skaltu kynna þig og spyrja hana hvort að þú getir eitthvað hjálpað til,“ sagði búálfurinn mjög ákveðinn á svip.  En hún þekkir mig ekki og hvernig á ég að hafa komist inn og á enginn annar heima hér?  „Hún  býr ein og á engan að, ekki fleiri spurningar, ég sé um allt annað sem upp kann að koma, hafðu ekki áhyggjur  … svona af stað og hvað, við höfum ekki alla nóttina og sóttina.“   Og áður en Nonni vissi af stóð hann við rúmgafl gamallar konu sem var greinilega veik. Það var  kveikt á kerti á náttborðinu. Komdu sæl, ég heiti Nonni, get ég gert eitthvað fyrir þig?  Konan settist upp í rúminu. Ertu kominn, elsku drengurinn, guði sé lof og dýrð, þakka þér faðir á himnum … já nú þarf ég  hjálp, það eru að koma jól og ég get ekki fóðrað kindurnar mínar tíu ….svo þarf ég að láta sendast fyrir mig, ert þú tilbúinn  að hjálpa mér fyrir jólin elsku drengurinn minn?  Já, það er ég,“ sagði Nonni og fann að það var klappað á bakið á honum og hvíslað í eyra hans: „Gott og flott hjá þér drengur, við sjáumst síðar“

. Nonni … Nonni minnn, vaknaðu … Nonni minn, vaknaðu,  ég þarf að tala aðeins við þig.“ Nonni var eitthvað svo þreyttur og átti erfitt með að vakna. „Nonni minn, vaknaðu nú,“ sagði mamma hans í sífellu. Loks vaknaði Nonni og settist framan á rúmið. Hann var hissa – hafði hann þá bara verið að dreyma?   „Nonni minn, hann Geiri frændi hringdi og spurði hvort þú gætir aðstoðað hana Stínu á Hóli því hún er veik.“ Hver er það? spurði Nonni.  „Það er gömul kona kona sem býr hér rétt fyrir utan bæinn, hana vantar aðstoð í 3-4 daga við að gefa kindunum og fleira.“

Hvað ertu að segja? segir Nonni. Hvenær hringdi Geiri og hvað er klukkan?  „Geiri hringdi snemma í morgun og klukkan er að verða tíu.“ Nú tók Nonni eftir því að bakpokinn hans lá á gólfinu við rúmið. Hann opnaði pokann og sá sér til mikillar undrunar að í honum var oststykki, brauð, kerti, eldspýtur og tómt smákökubox. Þetta var þá ekki draumur en afhverju? Ég man ekki … ég meina …“ Það var margt sem Nonni hugsaði á þessari stundu.

Hann klæddi sig, fékk sér morgunmat og flýtti sér út í Hól til Stínu. Er hann kom lá hún í rúminu. „Komdu sæll, drengur minn, þakka þér fyrir að koma.“ Hún fór yfir allt sem hann átti að gera og Nonna varð ljóst að hún hafði aldrei séð hann áður og ævintýrið um nóttina með búálfinum var dularfullt en samt raunverulegt. En það var líka eitt sem hann tók ekki eftir strax; honum leið vel og hann var kominn í mikið jólaskap.  Nú fór Nonni að gefa kindunum. Honum fannst það skemmtilegt og hann fann ró innra með sér. … hó skó … drengur … lengur …  Nonna brá þegar búálfurinn stökk upp úr heyinu. „Ertu búinn …lúinn … að finna jólin hólinn?“

 Já, það held ég, sagði Nonni. Og þakka þér fyrir.

 „Ekki þakka pakka mér heldur þér. Jólin eru tími kærleikans og ef maður á erfitt með að finna jólaandann þá er gott að gera eitthvað fyrir þá sem minn mega sín. Það skiptir öllu máli að gefa af sér, ef maður gerir þetta frá hjartanu … þá kemur jólaandinn af sjálfu sér,“ sagði búálfurinn og stökk upp í loftið og hvarf. Nonni stóð á hlöðugólfinu með fangið fullt af heyi, brosandi og í sínu besta jólaskapi. 

Júlíus Júlíusson

Jólatöfrar eða var þetta raunverulegt ?

Það er fimmtudagsmorgunn seint í nóvember, Halli, Jói og Bella sitja inn í herbergi heima hjá Jóa og eru að hugsa hvað þau geti gert spennandi. Úti dynur norðan hríðarbylur á glugganum, það er frí í skólanum vegna veðurs og ófærðar og í ofanálag er rafmagnslaust. Halli segjir „það er nú ekki margt hægt að gera þegar það er rafmagnslaust, tölvan virkar ekki, “ „og ekkert hægt að fara út , sjónvarpið dautt, ekkert videó“ segjir Bella „veriði róleg við finnum eitthvað“ segjir Jói. Þau sitja þarna í hálfgerðu myrkri, þau voru aðeins með eitt vasaljós sem var eiginlega alveg að gefa sig, það dofnaði á því ljósið með hverri mínútunni sem leið.

Jói og Bella voru 11 ára en Halli var einu ári eldri eða 12 ára. Þau áttu heima í litlu þorpi úti á landi. Þeim líkaði mjög vel að eiga heima þar, alltaf eitthvað spennandi að gerast. Það kom stundum fyrir á veturna að veðrið væri brjálað , en það var mjög sjaldgæft að rafmagnið færi af, þá gerðist yfirleitt eitthvað skemmtilegt, sérstaklega ef rafmagnið var ekki á í nokkra daga. Á meðan þau eru að spjalla um heima og geyma þá heyra þau að það er bankað dauflega á herbergið hans Jóa, Bella hrekkur við og Halli hlær að henni, Jói stekkur upp opnar dyrnar og hann sér að það er enginn frammi „hver er að reyna að vera fyndinn“ segjir Jói , hann lokar hurðinni og kemur aftur inn. Um leið og Jói kemur inn, þá gefur vasaljósið sig alveg, batterýin eru búin “ 

Jólakúla í fjársjóðskistu
Kertaljós á ganginum

“ þetta var nú ekki gott og ég á engar vararafhlöður „. Jói fór niður í eldhús til þess að ná í eldspítur og kerti, hann var dálitla stund af því að hann var svo lengi að finna kertin.Á meðan voru Halli og Bella í myrkrinu, Bella var pínu hrædd en Halli lét ekki bera á neinu, veðrið gnauðaði enn meira heldur en fyrr og það hvein í öllu. „Hvað er Jói að gera svona lengi ? af hverju kemur hann ekki „? sagði Bella með örlítið titrandi röddu“. Rétt í þessu kom Jói og kveikti á kertinu hjá þeim. „Þetta er nú bara jólalegt sagði Halli enda styttist í jólin „.

Það var svo farið að spjalla um jólin, heilmiklar jólapælingar. Þau fóru að segja hvort öðru frá því þegar þau voru lítil og voru hrædd við jólasveininn og margar aðrar minningar flugu á milli. Á meðan að þau voru á kafi í þessum umræðum, þá voru þau næstum því búin að missa af því að það var bankað aftur. Þeim þótti þetta dálítið skrýtið vegna þess að það var enginn frammi þegar það var bankað síðast. Halli var fljótur að stökkva til og reif upp hurðina, en það var það sama og áðan, enginn fyrir utan. Halli lokaði hurðinni aftur og stundi. Þegar hanni hafði lokað hurðinni sér Bella að það er eitthvað blað undir henni, Jói tekur það upp, þetta var umslag og utan á því stóð „Jólaskraut“ Þið hefðuð átt að sjá svipinn á þeim öllum þegar þau sáu þetta og þau hrópuðu öll í einu „Jólaskraut !!!!“ “ Hvað er þetta eiginlega, hver að fíflast í okkur ? hér er enginn heima sagði Jói og andlitið á honum var eitt spurningamerki. Þau opnuðu umslagið en það var tómt. Þetta þótti þeim vægast sagt undarlegt og skildu ekki neitt í neinu, Bellu leist ekki á þetta, hún var þess fullviss að það væri eitthvað á seiði sem væri eitthvað gruggugt og hún ekki tilbúin að takast á við, en hún var ein um þessa skoðun. Strákarnir voru spenntir og voru búnir að velta umslaginu fram og tilbaka, bera það upp að kertaljósinu, þefa af því og fleira. „Má ég kannski aðseins sjá umslagið “ sagði Bella “ Þetta er svona gamalt umslag með fóðri “ sagði Bella og togaði í fóðrið , strákarnir horfðu agndofa á Bellu kippa fóðrinu úr umslaginu og ekki nóg með það, heldur sneri hún umslaginu við og viti menn þar var lesning. Strákarnir stukku á fætur og reyndu að hrifsa umslagið af henni. „Hei veriði rólegir ég er með þetta og það var ég sem uppgötvaði þetta “ sagði hún. Bella stillti sér upp , en var ekkert að flýta sér, strákarnir voru orðnir órólegir „flýttu þér“ sögðu þeir báðir í kór. Og Bella las !

Kæru vinir ! þar sem ég er í örlitlum vandræðum þá ákvað ég að biðja ykkur um hjálp, já afhverju ykkur ? .Svörin við því koma síðar og þá komið þið til með að skilja ýmislegt betur, en ef þið fylgið öllum fyrirmælum fer allt mjög vel og allir geta átt gleðileg jól. Verið ávallt viðbúin. ????????. Stendur ekkert meira ? spurðu strákarnir mjög forvitnir , Jói tók af henni umslagið til þess að vera viss um að þetta væri rétt hjá Bellu.“ Hvað er þetta trúir þú mér ekki „? spurði Bella. Jói játti því að hann tryði henni, honum fannst þetta bara svo skrýtið. Nú var Halli sestur niður með blað og penna , hann var að reyna að finna út hvað þessi spurningamerki undir bréfinu þýddu, þau voru búin að reyna í hálftíma að finna út hvað þessi spurningamerki í bréfinu táknuðu, en án árangurs. “ Hvað eigum við að gera næst “ ? spurði Jói. “ Við verðum bara að vera róleg og bíða “ Vera viðbúin eins og stóð í bréfinu “ sagði Bella. Þau voru orðin svöng og drifu sig niður í eldhús og fóru að gera sér samlokur. Þau voru greinilega orðin svöng því þau fengu sér 3 samlokur á mann. Þegar Halli var að ganga frá eftir sig þá sér hann jólakúlu á eldhúsbekknum og spyr Jóa hvort hún eigi að vera þarna ? Jói var bara hissa og yppti öxlum og kannaðist ekkert við þessa stöku jólakúlu á eldhúsbekknum heima hjá sér í lok nóvember. Þau fóru aftur upp í herbergið han Jóa og tóku kúluna með sér. „Ég veit hvað við gerum !“ sagði Bella „Opnum kúluna “ „til hvers að eyðileggja jólakúluna okkar „? hnusaði í Jóa. Halli hlustaði ekki á þusið í Jóa , tók kúluna og braut hana í tvennt, og viti menn innan í kúlunni var miði “ ja hérna nú fer þetta að verða hreint aldeilis spennandi“ sagði Bella og tók miðann og gerði sig líklega til þessa að lesa hann upphátt fyrir þau. „Nú má ég lesa“ sagði Jói.´ “ Á ég ekki að gera það ég las hinn miðann “ sagði Bella. Það varð svo úr að Bella las hann á miðanum stóð:

Kæru vinir nú hefst nú hefst erfitt verkefni sem ég þarf að biðja ykkur um að leysa , það er mikið sem liggur við. Ef að eitthvað bregst hjá ykkur, koma engin jól í landinu. “ Koma engin jól, það má ekki gerast ? “ hváði Halli við. Bella las áfram á miðann. Það sem þið þurfið að gera núna er að fara uppá loft og finna þar gamla kistu sem er full af gömlu jólaskrauti, kistan er merkt Ástvaldi Geirssyni , hann átti heima í þessu húsi fyrir mörgum árum síðan, löngu áður en þið fæddust og mömmur ykkar og pabbar voru bara krakkar. 

Jólakúla hangandi í forgrunni

Þegar þið hafið fundið kistuna opnið hana og finnið lítinn upptrekktan jólasvein…..takk í bili meira síðar ?????????? 

„Þetta er sama undirskriftin og í hinu bréfinu“ sagði Bella „ég meina þetta eru jafnmörg spurningamerki. „Er eitthvað loft hjá ykkur Jói ? “ spurði Halli „Og hefurður komið þangað upp “ ? spurði Bella. Jóa leist ekkert á þetta, hann vissi ekki um neitt loft hjá þeim, en þau ákváðu samt að athuga ,með þetta. Þau gengu um allt hús og fundu ekki neitt , engan hlera, engan stiga eða neitt op. Þetta var mjög skrýtið, þau voru farin að halda að þetta væri bara gabb, þegar Jóa datt dálítið í hug, hann mundi eftir því að inní skáp í herberginu hans kom stundum smá vindur inn um rifu á veggnum, nú ætti það að finnast því norðanbylurinn gnauðaði sem aldrei fyrr, ef eitthvað var þá hafði bætt í vindinn. Jói fór að rusla út úr skápnum öllu dótinu. Þvílíkt drasl. “ Þetta verður ágætis jólahreingerning “ sagði Bella og hóstaði af öllu rykinu sem þyrlaðist upp í látunum í Jóa. Þegar skápurinn var orðinn tómur bað Jói Halla að rétta sér skrúfjárn og kertið, Halli gerði það og var orðinn mjög spenntur, það heyrðist brak inn í skápnum. „Hvað er að gerast núna “ ? spurði Halli verulega forvitinn. Það umlaði eitthvað í Jóa, eftir pínu stund þá henti hann einhverri timburplötu fram á gólf og minnstu munaði að þetta lenti í stóru tánni á henni Bellu. “ Ertu að verða alveg galinn “ argaði Bella til Jóa inn í skápinn, en hann var svo spenntur að hann lét þetta sem vind um eyrun þjóta. Eftir um 5 mínútur kallaði Jói hátt og skýrt innan úr skápnum “ Halli – Bella nú skuluð þið sko koma og takið með ykkur eldspíturnar „. Þau létu ekki segja sér þetta tvisvar og drifu sig inn í skápinn Loksins voru þau öll búin að troða sér í gegnum þetta litla gat, sem Jói hafði gert innan á skápinn. “ Réttu mér eldspíturnar Bella “ hvíslaði Jói ofurlágt „afhverju ertu að hvísla “ ? spurði Halli. Jói yppti öxlum og vissi það í rauninni ekki sjálfur.

Nú var hann búinn að kveikja á kertastubbnum sem þau höfðu haft með sér, við það birti örlítið á loftinu, þau skimuðu í kringum sig. „Þarna er stór 5 arma kertastjaki með kertum í “ sagði Bella og bent á lítinn bekk sem var þarna undir súð. Jói fór og kveikti á þeim, við það varð mjög bjart þarna inni. 

Það var nú ekki beint hlýtt á loftinu, þakið var lítið einangrað og úti gnauðaði norðanáttin. Á loftinu var margt að sjá og þau horfðu hissa í kringum sig , sérstaklega Jói sem átti heima þarna og hafði ekki haft neina vitneskju um þetta loft. „Jæja finnum þessa kistu “ sagði Halli , “ hérna er einhver kista og hún er þung “ sagði Jói. Þau opnuðu kistuna sem var ólæst, það var fullt af ryki á lokinu og ofan á dótinu sem var efst, það var greinilegt að ekki hafði verið snert á þessu lengi. Þarna var margt að sjá , mikið af gömlu dásamlega fallegu skrauti: bréfaskraut í loft, litlir fuglar til að setja á tré, kúlur í mörgum litum, fallegar myndir og styttur og svona mætti lengi telja. þessi kista er hreinn og beinn fjársjóður fyrir jólapúka. “ Hérna er þessi upptrekkti jólasveinn sem við áttum að finna “ hrópaði Bella upp yfir sig og var greinilega spennt, hún blés af honum rykið og Þegar Bella hafði blásið af honum rykið, trekkti hún hann upp og hann spilað ljómandi fallegt jólalag. Þau biðu spennt eftir því að eitthvað myndi gerast, jólasveinnin spilaði bara lagið sitt á enda svo stóð hann sperrtur með sitt bros og ekkert gerðist. “ Hvað ! afhverju segjir hann ekkert ? “ spyr Jói , hann vill láta hlutina ganga vel og hratt fyrir sig. “ Kannski þarf hann ekkert að segja, það getur verið eitthvað annað “ sagði Halli frekar spekingslega. Halli var varla búinn að sleppa orðunum þegar upptrekkti jólasveinninn gerði sig líklegan til þess að byrja að syngja aftur, en nú kom ekki söngur heldur lágt endurtekið tal „setjist öll á rauða sófann þarna “ „Komiði þið munið að við áttum að hlýða öllu til þess að allt geti gengið upp, í sambandi við þetta verkefni sem huldumaðurinn lagði fyrir okkur. Þau löguðu kistuna, tóku jólasveininn með sér, kertin og kertasjaka, settust svo á sófann og viti menn um leið og þau höfðu komið sér fyrir í sófanum , byrjaði hann að lyftast og snúast í hringi. „Ég heyri jólasöngva ! heyrið þið sönginn ?“ spurði Halli. Jói og Bella voru með samanbitnar varir og sögðu ekki orð vegna hræðslu. Innan stundar voru þau steinsofnuð, og sófinn hvarf í reykskýi. Þeim dreymdi fallega drauma, þar sem fullt af litlum jólaálfum tók á móti þeim, fagnandi jólaálfarnir sögðu við þau að þeir væru glaðir með að þau ætluðu að bjarga málunum. 

Það var haldin veisla fyrir þau í þakklætisskyni, söngur, dans og mikið var af mat, þau dönsuðu við jólaálfana, hlustuðu á fallega jólasöngva, það sungu allir með, allir voru svo glaðir, allt var svo yndislega gott. Þarna var mjög jólalegt og þeim fannst einmitt að svona ættu jólin að vera þar sem allir væri góðir. Í lok veislunnar söng stór og mikill kór „Heims um ból“ fallega og kröftuglega. Bella sat með tárin í augunum og Jói rétti henni klút til að þurrka sér…..ennnn allt í einu var draumurinn búinn og þau vakna upp, þau eru enn í sófanum, hann er á fleygiferð og það er ískalt. „Við erum að fara að lenda “ segir Jói … áður en þau vissu af lenti sófinn mjúklega í snjóskafli, veðrið var fallegt, smá logndrífa og afskaplega jólalegt. “ Mér er kalt “ Sagði Bella og tennurnar í henni glömruðu. Þau skimuðu í kringum sig, í fjarska sjá þau eitthvað nálgast “ þetta er einhverskonar farartæki“ segjir Jói „mér sýnist þetta vera sleði “ sagði Halli og reyndi að rýna betur út í logndrífuna. Eftir stutta stund sjá þau að farartækið er sleði og á honum eru 5 litlir jólaálfar, þeir stökkva af sleðanum og heilsa krökkunum og bjóða þau velkomin og lýsa ánægju sinni með að þau skyldu sjá sér fært að koma. Einn jólaálfurinn kemur með hlýjar úlpur handa þeim. Eftir stutta stund er öllum orðið hlýtt og þau komin upp á sleðann hjá jólaálfunum og lögð af stað eitthvert inn í jólalandið, eða hvert sem þau voru nú komin, á leiðinni sjá þau fjöll og dali og mikinn snjó, þegar líður á ferðina sjá þau lítil sæt hús með fallegum ljósum, þau sjá ekki betur en að einhverjir séu að bauka eitthvað fyrir utan húsin og þar í kring. Þau eru mjög hissa á þessu og ræða það sín á milli en komast ekkert lengra með þær pælingar. Nú er sleðinn að hægja á sér og upp á hól sjá þau ofsalega stórt og fallegt hús með garði og ábyggilega hundrað gluggum, í kringum húsið var mikið af jólaálfum og allir að vinna við einhver verkefni, laga til, smíða, bera böggla og kassa. “ Vááá finnst ykkur þetta ekki fallegt og stórfenglegt “ sagði Bella og brosti sínu breiðasta“ “ Júhúú “ sögðu strákarnir báðir alveg agndofa yfir þessu. Nú var sleðinn kominn heim á hlað og nam staðar fyrir framan stórar tröppur fyrir miðju húsinu, tröppurnar voru allar útskornar og fallega skreyttar með greinum.

  Þeim var hjálpað af sleðanum og boðið inn, þegar þau gengu upp tröppurnar struku þau handriðið þeim þótti það svo fallegt. Ekki minnkaði nú hrifningin þegar inn var komið, þar var allt svo jólalegt fullt af dóti, sem jólaálfarnir höfðu smíðað, allir glaðir og syngjandi og allt saman skreytt í hólf og gólf , þarna ríkti svo sannarlega hinn sanni jólaandi. “ En hvað eigum við að gera hér “ sagði Jói, “ við kunnum ekki neitt sem þau kunna ekki !“ “ hættið þessu nöldri og verið bara viðbúnir eins og okkur var uppálagt í byrjun“ sagði Bella ákveðin við strákana. Nú var þeim boðið inn í stórt og mikið herbergi inn í þessu herbergi var mikið af undarlegu og fallegu jóladóti, þarna voru margir skápar, Jói kíkti inn í einn af þessum mörgu skápum, í skápnum voru ósköpin öll af fötum. Jói hvíslaði einhverju að Halla „jólasveinaföt “ hrópaði Halli ,“ usss ég er ekki viss “ sagði Jói og lagði fingur á munn sér. Bella leit á strákana með fyrirlitningar svip og hálf skammaðist sín fyrir lætin í þeim. Þau gengu áfram innar í herbergið þar var rúm og fyrir framan rúmið var stóll og á honum lágu föt, á litlu borði við rúmið var kveikt á kerti. Allt í einu heyrðu þau rödd segja “ Jæja eruð þið loksins komin skinnin mín, mikið eruð þið dugleg að leggja þetta allt saman á ykkur, þau hrukku aðeins við, “ leggja hvað á okkur “ ? spurði Halli “ og hver ert þú “ ? 

Jólasögur barnanna

Þau biðu spennt eftir þvi að fá að sjá framan í þennan mann sem var að tala. “ Komiði hérna nær rúminu “ sagði hann, þau færðu sig nær og sáu þá að í rúminu var gamall maður með mikið hvítt skegg og skalla, hann bauð þau aftur velkomin og spurði þau hvort þau væru með upptrekkta jólasveininn „hér er hann „sagði Bella og lét hann á rúmið til hans. „Þessari stundu er ég búinn að bíða lengi eftir „.
Hann trekkti jólasveininn upp og hlustaði á hann með tárin í augunum, þegar síðustu tónarnir dóu út , stökk maðurinn á fætur og opnaði einn af mörgum skápum í herberginu tók þar út þessi fínu jólasveina föt og klæddi sig í þau. Svipurinn á krökkunum var hreint ótrúlegur þegar þau sáu manninn í rúminu breytast í alvöru jólasvein. “ Nú er ég til í að fara til mannabyggða og vera góður við börnin og færa þeim gjafir“ sagði jólasveinninn. Síðan sagði hann þeim alla söguna af því þegar hann fyrir mörgum árum fór um jól til mannabyggða og týndi þessum upptrekkta jólasveini, þegar hann kom heim var honum skipað að fara upp í rúm og hann mátti ekki fara í jólasveinaföt og ekki gera neitt þar til að upptrekkti sveinninn væri fundinn. Ég ákvað svo að reyna að hafa samband við ykkur , af því að ykkur leiddist út af fríinu í skólanum og leiðinlegu veðri, líka af því að sveinninn var lokaður upp á loftinu hjá Jóa. Eina leiðin til þess að hafa samband við ykkur var að svæfa ykkur og láta ykkur svo dreyma sama drauminn, það tókst og með þessu góðverki ykkar hafið þið gefið mörgum möguleika á að eiga gleðileg jól, með þessum orðum lagði hann hendur yfir axlir krakkanna og brosti……..við þetta hrukku þau upp og voru í hrúgu í herberginu hjá Jóa “ Vá vitiði hvað mig dreymdi ? “ sagði Jói “ eða þá mig “ sagði Halli, „ég veit að það sem ykkur dreymdi er ekki nærri því eins spennandi og það sem mig dreymdi, en ég segji ykkur það seinna nú verðum við að fara heim Halli klukkan er orðin mikið og veðrinu hefur líka slotað “ sagði Bella og brosti.

Endir

Gleðileg jól

Júlíus.J Samið fyrir jólin 2000.

Jól hjá bæjarstjóranum.

Jól hjá bæjarstjóranum

Í litlum bæ voru jólin að koma. Bærinn var það lítill að flestir þekktust. Á Þorláksmessu voru allir á fullu að klára jólaverkin, krakkarnir voru í sendiferðum með kort og að ná í ýmislegt smálegt í búðina. Bæjarstjórinn gekk alltaf um bæinn á Þorláksmessu og dreifði litlum konfektkössum til allra íbúanna og óskaði öllum gleðilegrar hátíðar í eigin persónu.

Bæjarbúum þótti mjög vænt um þennan fasta lið á Þorláksmessu ár hvert og honum fannst þetta vera skylda sín að huga að sínu fólki áður en hátíðin gengi í garð. Hann spjallaði við alla, spurði hvernig undirbúningur fyrir hátíðina gengi og hvort nokkurn vanhagaði um eitthvað. Bæjarstjórinn sagði alltaf að jólin kæmu ekki hjá sér fyrr en að hann vissi að allt væri í góðu lagi hjá sínu fólki.

Er bæjarstjórinn hafði lokið dagsverki sínu á Þorláksmessukvöld og hann sestur í árlegt kvöldkaffi og smákökur hjá aldraðri móður sinni, fann hann innra með sér að það var eitthvað sem var að angra hann – hafði hann gleymt einhverjum’

Nei, hann var búinn að fara vel yfir það. Hann var örugglega búinn að fara á alla staði, hitta alla og allt virtist vera í lagi! Eða hvað?

Eftir að hafa setið um stund hjá móður sinni og borðað bestu smákökur í heimi með hangikjötsilminn í húsinu fór hann heim til sín. Á leiðinni hugsaði hann um hvað það væri sem hann var ekki sáttur við. Aðfangadagur rann upp, um nóttina hafði snjóað, allt var hvítt,  hreint og friðsælt. Nokkrir krakkar fóru um bæinn á sleða með pakka og kort til vina og ættingja og nokkrir gamlir karlar stóðu á götuhorni og ræddu málin. Heima hjá bæjarstjóranum var eiginkona hans að skúra öll gólf í húsinu og þá mátti enginn vera inni. Bæjarstjórinn var uppi á lofti að huga að skrautinu sem fara átti á jólatréð, honum fannst þessi stund sín uppi á loftinu hvern aðfangadagsmorgun vera hátíðleg og friðsæl. Í þetta sinn fann hann ekki hátíðleikann – það var eitthvað sem truflaði hann. Hvað gat það verið?

Eftir grjónagrautinn í hádeginu fór bæjarstjórinn með krökkunum sínum í gróðrareit fjölskyldunnar að höggva tré, en eiginkona hans var heima að gera eftirrétt kvöldsins. Svona var þetta ár eftir ár allt með sama hætti og allir alltaf jafnspenntir. Þau fundu stórt og fallegt tré. Krökkunum fannst þetta vera fallegasta tré sem þau höfðu nokkurn tíma haft á jólum. Pabbi þeirra glotti yfir þessum ummælum því honum fannst að hann hafi heyrt þau áður, en honum þótti samt alltaf jafn vænt að heyra þau.

Er þau komu heim með tréð fannst krökkunum að pabbi þeirra væri eitthvað annarshugar og spurðu hann hvort það væri ekki allt í lagi. Jú jú sagði hann og vildi gera sem allra minnst úr þessu en þau gengu á hann og hann sagði þeim að þegar hann var búinn að heimsækja alla bæjarbúana í gær hafi honum fundist eins og að hann hafi gleymt einhverjum eða að eitthvað væri ekki í lagi, hann gæti bara ekki áttað sig á því hvað það væri. Þau vissu hvað hann var pottþéttur í þessu og vildi að öllum liði vel og reyndu að stappa í hann stálinu og segja honum að þetta sé allt saman í góðu lagi. Hann hresstist allur og reyndi að fullvissa sig um að þetta væri rétt hjá krökkunum.

Tíminn leið hratt og jólin nálguðust óðfluga. Allir fóru í jólabaðið sitt og voru komnir í sitt fínasta púss rétt fyrir klukkan 18.00.

Bæjarstjórinn átti heima rétt hjá kirkjunni. Þegar hann heyrði kirkjuklukkurnar hringja jólin inn stökk hann á fætur og hljóp út. Fjölskyldan sat eftir hissa. Eftir skamma stund kom hann til baka. Hann var ekki einn.

Ég áttaði mig loksins á  hvað það var sem hafði verið að valda mér hugarangri, um leið og ég heyrði kirkjuklukkurnar hringja minnti það mig á jarðaförina hennar Stínu hans Pétur sem dó í sumar. Þegar ég hittu Stínu á sjúkrahúsinu eftir að hún veiktist sagði hún mér að það yrði einhver að hugsa um Pétur hennar um jólin, hann væri alltaf svo lítill og ósjálfbjarga um jól og gæti ekki verið einn.

Pétur var orðinn nokkuð gamall og kunni lítið á húsverk, en hann bað aldrei um hjálp, Stína og Pétur höfðu búið í bænum alla tíð en áttu enga ættingja. Á Þorláksmessu þegar bæjarstjórinn hafði komið að heimili Péturs með konfektkassann hafði Pétur strax komið  út í dyr og hallað á eftir sér, hann þakkaði bæjarstjóranum fyrir og sagðist ekki mega vera að því að tala við hann núna. Bæjarstjórinn hafði hugsað sem svo að hann vildi ekki trufla hann við undirbúning jólanna, en hið rétta var að Pétur sat einn inni og kveið því að vera einn á jólunum – hann vissi ekkert hvað hann átti að gera, Stína hafði alltaf séð um allt fyrir jólin og nú sat hann og saknaði Stínu sinnar og allra jólasiðanna hennar.

Þegar bæjarstjórinn kom hlaupandi heim til Péturs sat karlgreyið í myrkrinu og starði út í loftið. Hann var enn í hversdagsfötunum sínum, en hann varð glaður við að sjá bæjarstjórann og vildi strax koma með heim til hans. Fjölskyldan frestaði jólunum um stund, meðan Pétur var baðaður og settur í jólafötin sín. Á heimili bæjarstjórans ríkti nú sannkölluð jólagleði og hann hafði það á orði að nú segði hann eins og krakkarnir að þetta væru bestu jól sem hann hefði upplifað. 

Stuttu fyrir miðnætti fylgdi bæjarstjórinn og krakkarnir Pétri heim. Hann settist í þreyttur en ánægður í stólinn sinn og var sofnaður áður en þau yfirgáfu húsið. Bæjarstjórinn breiddi teppi yfir Pétur í stólnum og yfir andlit Péturs færðist sælubros.

Í huganum sagði bæjarstjórinn: Þakka þér fyrir, Stína, að minna mig á þetta. Um leið og nokkur tár runnu niður kinn bæjarstjórans smellti hann einum kossi á enni Péturs og bað guð að blessa hann. Bæjarstjórinn og krakkarnir leiddust svo glöð heim í stjörnubjartri jólanóttini.

Júlíus Júlíusson

FÍ FÆ FÓ

Hún er fátæk, og á ekki alltaf mat. Samt er hún glöð og ánægð. Þessi litla stelpa heitir Lovísa. Hún á heima í Reykjavík og er fimmta í röðinni í hópi sex systkina. Mamma hennar vinnur við að skúra í búðum og á skrifstofum út um alla borg. Pabbi hennar fór frá þeim þegar Lovísa var fimm ára. Já, vel á minnst nú er Lovísa tíu ára gömul, og heldur að pabbi sinn sé núna að vinna í Kárahnjúkavirkjun. Hún hefur bara einu sinni séð hann síðan að hann fór. Sumir segja að hann hafi verið vondur að fara, en Lovísu finnst það ekki, hún er viss um að hann hafi haft einhverja ástæðu og að hann muni koma aftur, hún saknar Pabba síns…. svo mikið.

Lovísu gengur vel í skólanum og hún er dugleg að læra, en getur ekki alltaf mætt af því að hún þarf stundum að vera heima og passa litla bróður sinn sem er að verða fimm ára. Hann var rétt nýfæddur þegar pabbi þeirra fór frá þeim. Mamma Lovísu vinnur oftast seinnipartinn og á kvöldin, en þeir peningar sem hún fær fyrir þá vinnu duga ekki handa þeim. Því þarf hún stundum að vinna aukavinnu á daginn til að þau geti búið áfram í húsinu og eigi fyrir mat.

Lovísu finnst grjónagrautur mjög góður. Þau hafa oft grjónagraut og henni finnst það bara í góðu lagi, það þarf ekki alltaf að vera eitthvað fínt. Lovísu finnst stundum að krakkarnir í skólanum séu dálitlir kjánar þegar þau vilja ekki það sem er í matinn heima hjá þeim, eitthvað sem að á Lovísu heimili myndi teljast til hátíðarmats. Rikki elsti bróðir Lovísu ber út blöð eldsnemma á morgnana og fær aðeins greitt fyrir það, hann er að að safna sér fyrir námi, hann ætlar að verða lögfræðingur til þess að geta hjálpað þeim sem þurfa á því að halda. Stundum þegar ekki er til neitt í matinn lætur Rikki mömmu sína hafa það sem hann hefur fengið útborgað fyrir mánuðinn svo þau geti borðað, mamma segist ætla að borga honum þetta aftur, en Rikki veit að það verður erfitt, hann hugsar ekki um það en vonar það besta. Dóra tólf ára systir Lovísu er í sama skóla og hún, henni er strítt svo mikið í sínum bekk, af því að hún er fátæk og á ekki nógu fín föt. Dóru líður ekki vel út af þessu. Það hefur verið rætt að Dóra fari í annan skóla en það gengur ekki vel. Stundum langar Lovísu að taka í hnakkadrambið á þessum krakkakjánum og segja þeim heldur betur til syndanna, en … en Lovísa er skýr stelpa og veit betur og hún situr á sér. Hún segir stundum við sjálfa sig: „Ég vona að guð komi vitinu fyrir þessa krakka,“ því hún er alveg viss um að þegar þau eldast og skilja hvað þau hafi gert líði þeim ekki vel.

Jólin eru oft erfið fyrir þá sem hafa lítið á milli handana. Lovísu finnst þetta stundum en æ sjaldnar því henni finnst svo margt skemmtilegt á aðventunni sem kostar ekki neitt og hún vill meina að margir gleymi að njóta þess alls. Hún fer oft fyrir jólin niður í bæ með bróður sinn að skoða skreytingar, ljós og vörur í búðargluggum og oft er verið að syngja fallega jólasöngva. Það er uppáhaldið hennar Lovísu.

Í einni slíkri skoðunarferð gerðist dálítið merkilegt. Þau voru stödd fyrir utan blómaverslun. Þar logaði á risastórum kertum og eigendur blómabúðarinnar höfðu sett fullt af skrauti og jóladóti út vegna þess að veðrið var gott. Þau höfðu líka fengið barnakór Dómkirkjunnar til að koma og syngja. Það var eldri kona sem stjórnaði kórnum, hún var falleg, ákveðin en virtist vera nærgætin og blíð. Þau sungu nokkur lög. Lovísa þekkti flest lögin og gleymdi sér alveg og söng hástöfum með. Stjórnandinn tók eftir þessu og brosti út í annað munnvikið. Þegar kórinn hafði lokið við dagskrána sína, sagði stjórnandinn krökkunum í kórnum að drífa sig á næsta stað og þau myndu hittast þar eftir smástund. Þegar Lovísa og litli bróðir hennar gerðu sig líkleg til að fara, stoppaði stjórnandinn þau og hún spurði Lovísu hvað hún héti, hvar hún ætti heima og í hvaða skóla hún gengi. Lovísa svaraði öllum spurningunum kurteisislega. Þá spurði konan hana hvort að hún hafi sungið í kór. Nei, sagði Lovísa hissa, en það er örugglega skemmtilegt fyrir þá sem geta það. Það koma allir í prufu og þá sjáum við hvað þeir geta. Ég átti ekki við það sagði Lovísa, mamma mín vinnur svo mikið og ég þarf að hjálpa til heima og við krakkarnir getum ekki tekið þátt í neinu félagsstarfi af því að það kostar svo mikla peninga, en þakka þér kærlega fyrir frú að spyrja mig, sagði Lovísa og leiddi bróður sinn upp eftir götunni. Stjórnandinn stóð eftir og vissi ekki alveg hvernig hún átti að vera, en hún var þungt hugsi yfir þessari litlu kurteisu og skýru stúlku sem henni fannst Lovísa vera.

Lovísa og litli bróðir hennar skoðuðu marga búðarglugga og töldu alla jólasveina smáa sem stóra sem þau sáu í öllum gluggunum á Laugaveginum. Þeir voru 56 talsins. Um kvöldið sagði Lovísa mömmu sinni frá því sem stjórnandi kórsins hafði sagt, en Lovísa vildi ekki gera mikið úr því að hana langaði afar mikið til þess að fara í svona prufu og komast í kór. Hún sagði að kannski myndi hún geta gert þetta seinna. Mamma hennar játti því en vissi samt alveg hvað klukkan sló, það var bara ekki hægt að hugsa um neitt slíkt á þessari stundu. Dagarnir fram að jólum liðu hratt, lífið gekk sinn vanagang í skólanum og Lovísa var dugleg heima, mamma hennar vann enn meira og á öðrum tímum því að búðirnar voru opnar svo lengi. Lovísu fannst skrýtið og skildi ekki  afhverju þetta þurfti að vera svona, hvenær átti eiginlega fólkið sem vinnur í búðunum að undirbúa jólin og njóta aðventunnar? Jólin eru nú meira en að fara í búðir.

Litlu jólin eru á morgun í skólanum hennar Lovísu. Þá mæta allir fínt klæddir og með lítinn pakka. Lovísa veit að hún missir af þeim. Þannig hefur það verið undanfarin litlu jól að hún og systkini hennar hafa ekki mætt. Þau hafa alltaf tilkynnt veikindi á þessum degi, þó svo að þau væru ekki veik, þau eiga bara ekki nein önnur föt heldur en þau sem þau mæta í á hverjum degi, og alls ekki aukapening til að kaupa pakka. Ef það fellur til aukapeningur á þessu heimili þá fer hann í að kaupa mat. Það er alveg ótrúlegt hvað systkinin taka þessu með miklu jafnaðargeði og eru ekkert að skammast yfir þessu, þó svo að þau séu leið. Þau rífast aldrei, þau eru yfirleitt góð hvert við annað og hjálpast að, mismikið þó, þau eru skýr og vita og þekkja sínar aðstæður í raun þekkja þau ekkert annað. Lovísa segir stundum að ef þau ættu fullt af dóti og gætu fengið það sem þau langaði til þá myndu þau kannski ekki vera svona samstíga og myndu örugglega rífast oft, en henni finnst nú samt að það mætti vera minni munur, þó að það væri ekki nema að þau ættu föt og gætu leyft sér stundum eitthvað pínu skemmtilegt, t.d eins og að taka þátt í félagsstarfi það væri algjör hátíð fyrir þau.

Þegar Lovísa vaknaði þennan dag sem litlu jólin voru var hún ákveðin í því að þetta yrði góður dagur. Hún var full af orku og henni leið vel. Þegar þau höfðu snætt hafragraut í morgunverð og mamma þeirra farin til vinnu, því að síðustu dagana fyrir jól vann hún mjög mikið tók alla þá aukavinnu sem hægt var að fá, því ekki veitti af peningunum fyrir jólin og líka til að eiga eitthvað í janúar því þá var engin aukavinna, sagði Lovísa við systkini sín:  Í dag skulum við hafa gaman og vera dugleg, við skulum laga til, þrífa allt í hólf og gólf.  Innan örfárra mínútna voru þau öll komin á fullt. Lovísa stjórnaði með mikilli röggsemi. Hún hafði kveikt á útvarpinu og jólalög hljómuðu um alla íbúð og allir skemmtu sér vel og enginn var að hugsa um hvað þau voru að missa af í skólanum. Það var komið hádegi og enginn hafði svo mikið sem sest niður til að hvíla sig, það tók enginn heldur eftir því að Lovísa hafði skroppið út í bakaríið sem er stutt frá, þar fer hún stundum og biður um fuglabrauð. Oft er þetta bara dagsgamalt brauð sem er ekki síðra en nýtt. Lovísu finnst þetta leiðinlegt að hálf plata þau í bakaríinu, en hún fer alltaf með hluta af brauðinu niður á tjörn og gefur fuglunum þannig finnst henni að hún sé ekki að segja ósatt þegar … hún biður um fuglabrauð. Þau í bakaríinu vita hvernig þetta er og hafa mjög gaman af enda láta þau hana alltaf hafa nánast nýtt brauð. Lovísa kom svo heim með ilmandi brauð og hitaði súpu handa duglegu vinnumönnunum. Þau voru svo ánægð með þessa dýrindis máltíð. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig svona máltíð bragðast fyrir svanga maga og munna.

Það var komið kvöld og allt var orðið hreint og ilmandi hreingerningarlykt. Það er nefnilega alltaf til nóg af hreingerningarvörum, mamma þeirra fær þær í bónus hjá hreingerningarfyrirtækinu sem hún vinnur hjá. Mamma þeirra kom heim klukkan átta um kvöldið og yngri krakkarnir voru rétt að fara að sofa. Þau sátu öll inni í stofu þegar hún kom dauðþreytt og ætlaði að setjast á  sófann. Þá leit hún í kringum sig, og svo sá hún hvað þau höfðu gert, vááá, þið eruð algjörir englar. Hún fór um allt húsið með þeim og hún sagði að þetta væri svo vel gert, bæði tiltektin og allt svo hreint og fínt. Hvað get ég sagt, sagði hún með tárin í augunum, settist á sófann í stofunni og fór að hágráta og sagðist vonast til þess að þau eignuðust betra heimili einhvern tíma, en krökkunum fannst þau eiga bestu mömmu í heimi og frábært heimili, það væri ekkert sem þau kvörtuðu yfir.

Lovísa hitaði afganginn af súpunni og gaf henni afganginn af fuglabrauðinu. Mamma hennar spurði hvort hún hefði farið í bakaríið. Lovísa játti því og mamma brosti, hún veit um þetta leyndarmál. Um kvöldið þegar mamma fór með bænirnar sínar, þakkaði hún guði fyrir hvað hún ætti frábær og heilbrigð börn, og bað guð um að vernda þau, leiða þau á réttar brautir og óskaði eftir kraftaverki.

Um nóttina dreymdi Lovísu að hún væri að ganga niður Skólavörðustíginn og kæmi að barnakórnum frá Dómkirkjunni. Stjórnandinn kom til hennar og rétti henni bréf og brosti til hennar um leið og hún strauk henni um vangann. Lovísu fannst þessi snerting góð og henni leið vel. Hún fór heim með bréfið og þegar hún ætlaði að fara að lesa það vaknaði hún. Lovísa var frekar spæld að fá ekki að vita hvað stóð í bréfinu og var viss um að þessi draumur hefði einhverja merkingu. Hún ákvað strax að ganga niður Skólavörðustíginn seinnipartinn  sama dag, sem hún og gerði. Er hún hafði gengið götuna hálfa heyrði hún söng, fallegan kórsöng sem hún hafði heyrt áður. Nú jók Lovísa hraðann og gekk mjög ákveðið að búðinni þar sem kórinn var að syngja. Hún stansaði í hæfilegri fjarlægð og horfði á prúðar stúlkurnar í kórnum, þær sungu svo fallega og þær voru í svo fallegum búningum. Lovísu var farið að dreyma þarna við húshornið og hún tók ekkert eftir því að kórinn var hættur að syngja og stjórnandi kórsins stóð fyrir framan hana.

Komdu sæl, gaman að sjá þig aftur. Já sæl, sagði Lovísa utan við sig. Mig langaði að tala aðeins við þig, en það er betra að þú komir til mín sagði stjórnandinn, hér er heimilisfangið mitt sagði hún um leið og hún rétti Lovísu samanbrotinn miða og kvaddi. Lovísa stóð eftir og horfði þegar stjórnandinn gekk niður götuna. Hún kíkti á miðann og sá að hún átti heima á Kárastíg. Það var ekki svo langt frá Kárastíg og þar sem Lovísa átti heima. Þetta var í leiðinni frá Skólavörðustígnum og heim til hennar, hún ákvað því að kíkja á húsið hennar. Það var flott lítið timburhús, með fallega skreyttum gluggum og í einum þeirra var engill sem blikkaði og hreyfðist. Lovísa dreif sig heim og á leiðinni var hún að velta því fyrir hvort að hún ætti að segja mömmu sinni frá þessu, einnig var hún að hugsa um hvort að hún ætti nokkuð að hitta stjórnandann. Þegar hún var komin heim var hún búin að ákveða sig og hún hugsaði með sér: ég fer strax eftir skóla á morgun til hennar. Hún tók líka þá ákvörðun að bíða með að segja mömmu sinni þetta.

Klukkan var að ganga fjögur þegar Lovísa var búin í skólanum. Hún fór beint upp á Kárastíg en hægði á sér þegar hún nálgaðist húsið. Engillinn blikkandi var á sínum stað í glugganum og hreyfði sig til hægri og vinstri í einhverjum takti sem Lovísa áttaði sig ekki á. Lovísa bankaði kurteisislega á dyrnar, en enginnn svaraði. Lovísa bankaði aftur og þá ofurlítið ákveðnar en í fyrra skiptið. Hún er greinilega ekki heima, hugsaði Lovísa með sér og gekk vonsvikin af stað heim á leið.

Þegar Lovísa hafði gengið nokkur skref frá húsinu heyrði hún að útidyrnar opnuðust. Hún leit við og sá stjórnandann á sloppnum og greinilega nývaknaða. Komdu inn vina mín og fyrirgefðu ég hef dottað aðeins. Hún bauð Lovísu inní eldhús þar sem hún bauð henni upp á heitt súkkulaði og randalín. Lovísu fannst þetta mjög gott og naut þess virkilega. Í flestum tilfellum hefði hún bara sagt nei takk ég er nýbúin að drekka, það hefði verið stíll Lovísu, en núna leið henni svo vel, það var góður andi í húsinu og bakkelsið leit svo vel út að hún ákvað bara að njóta þess að vera í svona fínu boði. Lovísa spurði stjórnandann til nafns og hún sagðist heita Rósa. Nú bauð Rósa Lovísu inn í stofu. Lovísu fannst heimilið hennar það fallegasta sem hún hafði séð. Hún var búin að skreyta fyrir jólin. Hún sagði að þar sem hún væri svo mikið að vinna með kórnum fyrir og um jólin þá hefði hún alltaf allt klárt fyrir jólin um miðjan desember.

Jæja Lovísa, sagði Rósa, þig langar til að syngja í kór er það ekki? Lovísa játti því en bætti við að hún myndi kannski gera það seinna eða þegar hún væri orðin stór og síðan reyndi Lovísa að breyta um umræðuefni, þó svo að þetta væri það sem hún vildi helst tala um. Lovísa spurði Rósu út í engilinn sem blikkaði í glugganum og hreyfði sig til og frá. Rósa sagði að hann væri mjög sérstakur og ætti sína sögu. Ég veit að þú hefur góða söngrödd, Lovísa, og með dálítilli æfingu gætir þú sungið einsöng.  Lovísa roðnaði. Ég held að ég hafi ekki kjark í það, en nú þarf ég að fara heim til mín, sagði Lovísa og var ekki með sjálfri sér eða vissi ekki hvernig hún átti að taka þessu. Nú hugsaði hún með sér að hún hefði bara átt að sleppa þessu, við höfum ekki efni á þessu. Lovísa mín, áður en þú ferð þá ætla ég að gera þér tilboð sem þú getur hugsað um til morguns.

Lovísa stansaði í forstofunni. Ég þarf á stúlku að halda annað slagið við ýmisleg störf hér heima og einnig vantar mig aðstoðarkonu til að fletta fyrir mig nótum þegar ég er með píanó konserta. Ég greiði þér engin laun, en þú getur komið í kórinn og þarft ekkert að borga. Ég skaffa þér búning kórsins og ég að lokum býðst ég til að taka þig hingað heim í einkatíma. Lovísa vissi ekki hvort átti hún að gráta eða hlæja. Rósa horfði á stúlkunar og það kom stórt bros á andlit hennar. Þakka þér kærlega fyrir en heldur þú að ég geti unnið það sem um ræðir? Já ég er viss um það, þú ert kurteis, snjöll og heiðarleg stúlka, meira þarf ég ekki að vita. Mér líst mjög vel á þetta, það hljómar eins og í draumi, en ég verð að ræða þetta við mömmu fyrst.

Um kvöldið ræddi Lovísa þetta við mömmu sína. Henni leist vel á boðið og var upp með sér og stolt fyrir hönd dóttur sinnar. Mamma Lovísu ákvað að heimsækja Rósu daginn eftir. Lovísa beið spennt heima á meðan, hún var farin að ganga um gólf af spenningi. Loksins kom mamma heim og Lovísa sá það strax að mömmu hennar leist vel á. Þær ræddu það sem þeim hafði farið á milli og að lokum minntist mamma hennar á að hún hefði séð mjög fallegan og sérstakan engil í glugganum hjá henni. Já þann sem blikkar og hreyfist sagði Lovísa, ekki bara það hann segir eitthvað líka.

Daginn eftir byrjaði Lovísa að vinna hjá Rósu og seinnipart sama dag var fyrsta söngæfingin í Dómkirkjunni. Lovísa var aðeins stressuð en æfingin gekk vel og Rósa hældi henni. Næstu dagar fóru í einkatíma og æfingar. Hún fékk saumaðan á sig kórbúning og þegar hún kom heim með hann og mátaði fyrir mömmu sína og systkini fannst þeim hún vera fínasta prinsessan í öllum heiminum.

Daginn eftir þegar Lovísa mætti til Rósu lét hún hana hafa verkefni heima við því hún þyrfti að skreppa aðeins. Lovísu fannst gott að Rósa treysti henni og hún var ekki smeyk við verkefnið, sem var að þurrka af og þess háttar en það kunni Lovísa mjög vel. Þegar Rósa var farin og Lovísa byrjuð að þurrka af í glugganum þar sem engillinn hekk heyrði hún að engillinn sagði eitthvað í sífellu. Lovísa færði sig nær og lagði eyrað að englinum. Hann hvíslaði í sífellu:

Ef þú vilt óska þér einhvers lokaðu þá augunum, hafðu óskina efst í huga og segðu Fí Fæ Fó.

Lovísa var hissa, en ákvað að hlusta aftur en þá heyrðist ekki neitt. Eftir tvo klukkutíma kom Rósa heim. Hún var afar ánægð með verk Lovísu og hældi henni á hvert reipi og svo glöð var hún að hún ákvað að gefa Lovísu sönghefti sem hún átti. Lovísa faðmaði Rósu að sér og sagði að þetta væri besta gjöf sem hún hafi fengið.

Við skulum taka æfingu núna, Lovísa mín, og svo ætla ég að segja þér svolítið.

Æfingin gekk vel og Rósa var hin ánægðasta, sennilega stolt af sér að hafa fundið svona góða söngrödd. Lovísa mín, þetta hefur gengið svo vel hjá okkur. Á morgun er jólamessa í Dómkirkjunni og ég ætla að biðja þig að syngja með kórnum og þú mátt bjóða fjölskyldunni með.

Ertu að meina þetta í alvörunni, er ég tilbúin? Já, með kórnum og seinna meir ef þú verður dugleg áttu kannski eftir að læra söng og verða fræg, sagði Rósa og brosti. Svona farðu nú heim að hvíla þig.

Lovísa spurði Rósu hvar hún hafi fengið þennan engil og hvaða hljóð væru í honum. Ég skal segja þér seinna … hljóð ? Ég hef nú ekki heyrt nein hljóð í honum, svona drífðu þig nú og góða nótt.

Aðfangadagur rann upp. Lovísa og allir í fjölskyldunni voru orðnir mjög spenntir að fara í kirkjuna. Þeim fannst þetta vera frábært. Þau höfðu aldrei farið í kirkju um jól og hvað þá að sjá og heyra Lovísu syngja með barnakór Dómkirkjunnar sem er vel þekktur. Lovísa fór á undan því kórinn þurfti aðeins að æfa og hita upp. Fjölskyldan var nú sest í inn í fallega kirkjuna. Það var kveikt á mörgum kertum og krökkunum fannst þetta vera dásamlegt. Nú byrjaði messan og um miðbikið steig barnakórinn fram, Lovísa var fremst fyrir miðju. Lovísu fannst þetta vera yndislegasta stund sem hún hafði upplifað, sjá allt fólkið, mömmu og krakkana, allt skreytt og hátíðlegt. Hún var ekki viss um að þetta væri raunveruleiki. Hún ákvað því að loka augunum eitt augnablik til að athuga hvort þetta væri allt þarna. Um leið og hún lokaði augunum mundi hún eftir englinum og hvað hún heyrði hann segja. Hún ákvað að prófa að segja Fí Fæ Fó, opnaði svo augun og leit fram í kirkjuna og þar sér hún pabba sinn ganga inn og setjast framarlega. Þetta virkaði! Þessi engill sagði þá satt! Nú var Rósa komin fyrir framan kórinn og tilbúin að stjórna. Og söngurinn hljómaði um alla kirkjuna og langt inn í hjörtu viðstaddra. Lovísa var hamingjusamasta stúlkan í öllum  heiminum. J.J

Jól í aðsigi

Hildur litla gekk hröðum, öruggum skrefum heim til sín. Það var komið kvöld og myrkrið var með yfirhöndina. Það var ekki mikil lýsing á milli bæja í sveitinni. Hildur á heima í Svarfaðardal, sem er fallegasti dalur á  Íslandi.Þetta var í byrjun desember og Hildur var að koma frá Völu vinkonu sinni sem átti heima á næsta bæ, þær voru að búa til jólaskraut. Mamma Völu var að baka piparkökur og mömmukossa sem þær nutu góðs af. Smákökurnar runnu ljúflega niður með ískaldri sveitamjólkinni. Það var stutt í að þær vinkonur færu í frí í skólanum, þær ætluðu að vera duglegar að hjálpa til heima í fríinu en líka að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi.

 Hildur var einmitt í þeim hugleiðingum þegar hún gekk heim til sín þetta kvöld í myrkrinu. Þegar hún átti eftir stuttan spöl heim heyrði hún einhvern tala, en hún heyrði ekki orðaskil. Henni brá en hún varð samt ekki mjög hrædd. Hildur leit í kring um sig en sá ekki neinn. Þegar hún var komin heim á hlaðið stansaði hún. Eftir stutta stund heyrði hún lágt og veikt: „Ég vona að þú getir hjálpað til.“ Síðan kom bara þögn. Hildur varð mjög hissa og skildi ekki neitt í neinu. Þegar hún kom inn sagði hún pabba sínum frá þessu. Hann hló bara og sagði: „Það er svo margt sem litlar stelpur heyra í myrkrinu.“ Svo kyssti hann hana á kollinn og brosti. Þegar Hildur var komin upp í rúm og búin að fara með bænirnar sínar gat hún ekki sofnað, þó svo að hún væri dauðþreytt eftir langan, erfiðan en skemmtilegan dag. Hún lá andvaka um stund, gekk síðan að glugganum og leit út. Úti var allt í einu orðið stjörnubjart … Hildur hafði oft séð undurfagran stjörnuhimininn í Svarfaðardal en núna var einhver ljómi yfir honum, eitthvað sérstakt og henni leið svo vel er hún horfði á hann. Það glitraði líka svo fallega á snjóinn.

 Hildur leit sem snöggvast upp í fjallið hinum megin í dalnum sem heitir Rimar og er hæsta fjallið í dalnum … henni fannst eins og að þar blikkuðu einhver ljós, þau voru mjög dauf. Er hún fór að horfa betur á þetta fannst henni eins og að þau mynduðu röð eða nokkurskonar lykkju sem hreyfðist. Hildur lokaði augunum og kreppti og opnaði þau aftur til að vera viss, en þegar hún opnaði þau aftur sá hún ekki neitt nema stjörnurnar á himnum. Hildi fannst þetta mjög undarlegt og skildi ekkert, henni fannst nóg komið af einhverju sem hún skildi ekki á þessum degi. Hún ákvað nú að reyna að sofna og hætta að hugsa um þetta um leið og hún lagðist á koddann steinsofnaði. 

 Um nóttina dreymdi hana að hún væri prinsessa og einn strákur í Húsabakkaskóla, skólanum hennar, væri prinsinn. Þessi prinsessa hafði lent í álögum og var með stóra, ljóta kúlu á enninu. Eina leiðin til þess að hún losnaði við kúluna var að prins sem hét Helgi Róbert kæmi og kyssti hana. Það vildi svo skemmtilega til að einn strákur í skólanum hét þessu nafni. Allt í einu kom hann aðvífandi og myndaði sig við að kyssa hana … birtist þá ekki gömul kona, lítil og sæt. Um leið og hún kemur breyttist draumurinn, Hildur verður bara hún sjálf og situr í litlum skógarreit, sem nefnist Hánefsstaðareitur og er austan megin í Svarfaðardal. Þar situr hún og bíður, hún er ekkert hrædd, veðrið í draumnum var gott – sól og fuglasöngur. Eftir að hún hafði setið þarna á trjástofni um stund kemur skógarþröstur fljúgandi með bréf í munninum og lét það falla í kjöltu hennar. Hún tók bréfið og las: „Ég vona að þú getir hjálpað til.“ Um leið og hún var búin að lesa þetta gufaði bréfið upp og draumurinn var búinn.

 Um morguninn þegar Hildur vaknaði mundi hún allt saman mjög vel. Hún var nú frekar vonsvikin að fá ekki kossinn í draumnum, en það gleymdist fljótt því nú gat hún ekki beðið með að segja Völu vinkonu sinni frá þessu öllu saman. Á leiðinni í skólann með skólarútunni hugsaði hún mikið um þetta. Það sem henni fannst vera skrýtið og dularfullt var að röddin sem hún heyrði fyrir utan bæinn sagði það sama og stóð í bréfinu í draumum. Hún velti því líka fyrir sér hvort að það væru einhver tengsl milli þess og ljósanna sem hún sá eða sá ekki í Rimum, fjallinu hinum megin í dalnum. Þegar rútan stoppaði á planinu við Húsabakkaskóla sá Hildur að Vala beið spennt eftir henni. Það var nú ekki alvanalegt. Um leið og Hildur stökk út úr rútunni kom Vala til hennar og dró hana afsíðis eins og hún vildi segja henni eitthvað merkilegt. Vala sagði: „Mig dreymdi draum í nótt, ég verð að segja þér hvernig hann var.“ Völu lá svo mikið á að koma þessu frá sér að Hildur komst ekki að til þess að segja henni það sem henni lá á hjarta. Rétt þegar Vala er að fara segja frá draumnum, kemur Ingiborg skólastjóri og spyr: „Hvað eruð þið eiginlega að hugsa?“ Tíminn sem þær áttu að vera í var byrjaður, en hún ssagðist fyrirgefa þeim þetta því að þetta hafi aldrei komið fyrir áður. Nú verða þær að bíða með að segja hvor annarri allt þar til í frímínútum. Þegar Hildur settist inn í stofuna fannst henni eins og að Helgi Róbert, prinsinn í draumnum, horfði eitthvað svo mikið á hana og hún fann að hún roðnaði.

 Loksins voru komnar frímínutur. Hildur og Vala höfðu ekkert lært fyrir spenningi. Þær hittust bakvið skólann og Vala byrjaði þar sem frá var horfið: „Mig dreymdi að það kom til mín – þar sem ég sat og var að borða morgunmatinn minn – lítil kona, algjör dúlla. Hún brosti, sagði ekki neitt og lét mig hafa lítið bréf. Ég var mjög hissa á þessu en opnaði bréfið og í því stóð aðeins  – ég vona að þú getir hjálpað til – síðan vaknaði ég.“ Hildur verður mjög hissa og finnst þetta vera í hæsta máta undarlegt. Hildur segir Völu alla sólarsöguna og þær sitja bakvið skólann og líta út eins og tvö stór spurningarmerki. Þær eiga erfitt með að einbeita sér að námi og því sem fram fer í skólanum þennan dag þar sem þær eru sífellt að hugsa um þessa dularfullu hluti. Þær ákveða að hittast heima hjá Hildi eftir skóla.

 Pabbi Völu skutlar henni til Hildar um kvöldið. Á leiðinni stoppaði hann við þinghúsið eða á  Grundinni, sem er gamall samkomustaður í dalnum. Hann þurfti að ná í eitthvað af timbri sem geymt var í kjallaranum. Á meðan beið Vala í Land Róvernum. Það var nú engin sérstök miðstöðin í bílnum og náði ekki að hita upp á rúðuna. Vala var að reyna að skafa til að fá betra útsýni. Hvað var þetta – var einhver að laumast á bakvið húsið? Nei sennilega er þetta bara pabbi, hann hefur farið út bakdyramegin, hugsar Vala með sér. Um leið og hún var að hugsa þetta kemur pabbi hennar út að framan með timbrið í fanginu. Vala fer út úr bílnum og laumast frekar hrædd á bakvið húsið … hún litast um en sér ekki neinn.

„Halló er einhver þarna?“ segir hún, en ekkert svar.

 Þegar hún er í þann mund að snúa til baka í bílinn er henni litið upp í hlíðina fyrir ofan bæinn Grund … þar sér hún einhvern á gangi … þetta var það langt í burtu að hún gat ekki greint hvort þetta var einhver fullorðinn eða krakki. Henni fannst nú líklegra að þetta væri krakki eða þá lágvaxinn maður. Kannski var þetta einhver af bænum.

 „Vala, hvað ertu að gera þarna á bakvið?“ spurði pabbi hennar um leið og hann henti síðasta timbrinu uppá kerruna.

 „Ekki neitt,“ sagði Vala um leið og hún kom upp í bílinn. „Ég var bara að kíkja þarna á bakvið.“

 Pabbi hennar brosti og byrjaði að syngja Bráðum koma blessuð jólin og Vala tók undir. Þegar þau komu heim hjálpaði Vala pabba sínum að setja timbrið inn í vélageymslu. Þegar Vala fór með síðasta timbrið inn sá hún miða sem var festur á eina spítuna…. hún tekur miðann og les:


Nú væri mjög gott ef þið stöllur gætuð hitt mig fljótt, því tíminn er naumur. Ef þið eruð tilbúnar að hjálpa, komið og hittið mig í þvottahúsinu í Húsabakkaskóla eftir tvo daga,  í fyrstu frímínútunum.
 
Kær kveðja, Baldur.

 Nú var Vala hugsi …og mjög spennt. Hún ætlaði að hitta Hildi á morgun, en var svo spennt að hún bað Pabba sinn að skutla sér aðeins til Hildar. Hann varð nú hissa og sagði: „Veistu ekki hvað klukkan er? Hvað er svona merkilegt að það megi ekki bíða til morguns?“ 

 „Ég þarf bara aðeins að tala við hana.“

 „Þau eru ábyggilega farin að sofa á þeim bænum, ef ég þekki þau rétt,“ sagði pabbi. 

 Vala áttaði sig á því að klukkan var orðin dálítið mikið og samþykkti að hún skildi hætta við þetta núna. Þegar Vala var komin upp í rúm stakk hún miðanum undir koddann sinn. Hún byrjaði strax að hugsa um að nú gæti hún ekki sofnað strax fyrir spenningi … en viti menn, hún var sofnuð um leið og hún lagðist á koddann og var farin að dreyma fullt af kindum sem hlupu upp um fallega græna hlíðina fyrir ofan bæinn að sumri til. Morguninn eftir var Vala fljót að klæða sig og fór með pabba sínum út til að hjálpa honum við morgunverkin. Hún var ekki alltaf dugleg að hjálpa honum en núna komst ekkert annað að hjá henni en að komast sem fyrst til Hildar til að segja henni frá öllu og sýna henni miðann. Pabbi hennar var búinn að átta sig á því að henni lá mikið á. Hann var skilningsríkur og ákvað að spurja ekkert frekar út í þetta. Hann frestaði morgunkaffinu þar til að hann var búinn að keyra Völu til Hildar. Land Róverinn var varla stopp á hlaðinu hjá  Hildi þegar Vala stökk út og skildi hurðina á Landróvernum eftir opna. Pabbi hló að henni, lokaði hurðinni og keyrði heim. Vala flýtti sér svo mikið inn til Hildar að hún gleymdi bæði að heilsa mömmu hennar sem var að þrífa í eldhúsinu og banka. Vala las miðann fyrir Hildi.

 „Þetta er nú að verða mjög dularfullt,“ sagði Hildur. „Ég þori sko alveg að fara, en þú?“

 „Jú, auðvitað,“ sagði Vala með semingi, „en við vitum ekki hvað eða hver þetta er.“

 „Ég er alveg viss um að þetta er ekki neitt illt eða vont, ég finn það á mér,“ sagði Hildur. „Ég er svo spennt að ég get varla beðið, en tíminn verður vonandi fljótur að líða.“

 Nú kallaði mamma Hildar á þær stöllur en hún var búin að setja smákökur á disk og komin með ískalda sveitamjólk beint úr bæjarlæknum, þar sem hún vær í kælingu.

 „Þið vitið að þið eigið ekki að fá smákökur í morgunmat, en ég laumast bara til þess að gefa ykkur svona núna, enda enginn heima,“ sagði mamma.

 Kökurnar brögðuðust guðdómlega með alvöru mjólk. „Mér finnst þetta svo jólalegt að sitja hérna í eldhússkotinu –  mamma að þrífa og jólaljósið með englinum komið í gluggann,“ sagði Hildur með bros á vör.

 Eftir þennan yndislega morgunmat ákváðu þær Hildur og Vala að hittast í skólanum þennan tiltekna morgun og reyna að vera alltaf saman, líta sem minnst af hvor annari, hafa augun vel opin ef þær rækjust á einhvern sem ekki er vanur að vera í Húsabakkaskóla.

 Vala lagði af stað gangandi heim enda farið að birta og veðrið var gott. Þegar hún kom heim var pabbi hennar hissa á hvað Vala var fljót, hann bjóst við því að hún yrði allan daginn miðað við atganginn sem var hjá henni þegar hún var að drífa sig til Hildar.

  Vala vaknaði snemma daginn sem þær stöllur áttu að hitta Baldur í þvottahúsi Húsabakkaskóla. Hún borðaði morgunmatinn rösklega og sagði fátt. Pabbi hennar hafði á orði “ er ekki allt í sómanum”. „Jú jú,“ sagði Vala og fór út til að bíða eftir skólarútunni sem stoppaði niður við veg. Þegar skólarútan stoppaði á hlaðinu á Húsabakkaskóla beið Hildur þar. Um leið og hurðin opnaðist á rútunni tróð Vala sér út. Hinir krakkarnir skildu ekki neitt í neinu því Vala var ekki vön að láta svona. Hildur spurði Völu hvernig hún hefði sofið í nótt.

 „Bara vel,“ sagði Vala.

 „Ég var svo spennt og átti erfitt með að sofna,“ sagði Hildur. 

 Þær drifu sig inn og fyrsti tíminn byrjaði. Þær áttu ekki beint auðvelt með að einbeita sér að náminu … hugurinn var annarstaðar. Þegar fyrsti tíminn var hálfnaður kemur Ingiborg skólastjóri inn í stofuna og kallar á Völu: „Vala það er samtal við þig í forstofunni.“ Vala hrökk í kút, en stóð samt fljótt upp, fór fram og gekk niður stigann. Þegar hún kom niður í forstofuna beið pabbi hennar þar með poka. „Þú hefur verið að flýta þér eitthvað í morgun, Vala mín, þetta er ólíkt þér, hér er nestið þitt, trefillinn og reikningsbækurnar.“ „Takk pabbi minn,“ sagði Vala, „ég var eitthvað utan við mig í morgun.“ Síðan kvaddi hún pabba sinn og fór aftur inn í kennslustofuna. Nú leið að fyrstu frímínútum … rrrrrinnnnggggg … bjallan hringir, allir drífa sig út í frímínútunum … flestir eru vanir því að stökkva af stað þegar bjallan hringir en þær Vala og Hildur eru nú yfirleitt rólegar, nema núna þær rjúka af stað og hittast niðri fyrir framan þvottahúsið. Þær stoppa fyrir utan hurðina, hjörtu þeirra slá dálítið hratt. Það verður mjög fljótt hljótt í skólanum því nú eru öll börnin komin út eins og þau eiga að gera, það má enginn vera inni nema að hann sé lasinn.

 Rétt í því þegar þær eru búnar að telja í sig kjark kemur Björn húsvörður. „Hvað eruð þið að gera inni stelpur?“ segir hann hissa.  Vala og Hildur eru ekki vanar því að þurfa að láta reka sig út. Hildur hefur orð fyrir þeim: „ …. vviiðð  þurfum að gá að svolitlu …“ en Björn tekur slík rök ekki gild og bendir þeim að fara út. Vala fer þá allt í einu að stynja: „Mér er svo illt í maganum.“ Síðan leggst hún í gólfið og stynur. Hildur stumrar yfir henni, Björn tekur þetta gott og gilt og lætur þær við sitja.  „Jæja hann er farinn, nú skulum við koma inn í þvottahúsið,“ sagði Vala. „Kannski er Baldur farinn.“  Þær opna hurðina og læðast inn. Fyrst kemur stuttur gangur, síðan herbergi, ekki sérlega stórt með þvottavél, snúrum og stórri hrúgu af óþvegnum þvotti. Þær nema staðar inni á miðju gólfi, líta í kringum sig. Þær líta síðan hvor á aðra og eru greinilega hálfsvekktar, því þær sjá ekki neinn.

 „Þetta er nú dálítið skrýtið,“ segir Hildur.

 „Já ég er nú bara fúl,“ segir Vala, „ég var búin að vera svo spennt.“

 Þær snúa við og ganga fram litla ganginn, opna hurðina fram á skólaganginn. Þá heyrist hljóð inni í þvottaherberginu.

 „Heyrðir þú eitthvað? segir Vala.

 Hildur var ekki alveg viss en þær ákveða að snúa við og athuga málið, loka fram á skólaganginn og fara til baka. Þegar þær koma inn er allt við það sama. „Hér er enginn,“ segir Vala, „við skulum bara fara og gleyma þessu, þetta er allt saman bull og vitleysa, við erum bara bjánar að láta draga okkur svona á asnaeyrunum.“ „Kannski er þetta rétt hjá þér,“ sagði Hildur en um leið og hún var að ljúka þessari setningu … hreyfðist þvottahrúgan … og allt í einu stekkur pínulítill álfur upp úr hrúgunni og hristir sig og fussar. Stelpunum bregður og þær öskra upp yfir sig. Þær hafa aldrei séð svona lítinn mann eða álf, hann rétt nær þeim upp að hjám.

 „Verið óhræddar stelpur, ég ætlaði ekki að gera ykkur bilt við. Á meðan ég beið eftir ykkur kom húsvörðurinn og henti þessari hrúgu af þvotti ofan á mig og ég var nærri kafnaður … jæja nóg um það en nú ætla ég að kynna mig. Ég heiti Baldur og er einn af mörgum hjálparálfum jólanna hér í Svarfaðardal. Ég veit hvað þið heitið, svo þið þurfið ekkert að kynna ykkur.“

 Vala og Hildur voru svo hissa að þær komu varla upp einu einasta orði. Eftir smá stund spurði Vala: „Varst það þú sem sendir okkur miðann?“ 

 „Já ég er nú hræddur um það og er búinn að senda ykkur allra handa boð, ljósmerki, draummerki og fleira og fleira.“

 Hildur spurði afhverju hann væri að senda þeim svona skilaboð.

 „Þar ertu einmitt komin að kjarna málsins, það er stórt og mikið vandamál í gangi og þið eruð eina mannfólkið sem getur hjálpað … vegna þess … að þið eruð með svokallað jólahjarta. Þið eruð kærleiksríkar, góðar og trúið ýmsu góðu sem er ekki á yfirborðinu.“ Þær litu hissa hvor á aðra.

 „Ég meina á mannamáli að innra með ykkur býr sannkallaður jólaandi.“

 „Hvernig veist þú það?“ spurði Hildur. 

 Baldur fræddi þær um mátt jólahjálparálfa til þess að skynja svona og ýmislegt fleira. Þær voru alveg rasandi á þessu öllu saman. Nú hringdi bjallan og þær urðu að drífa sig í tíma, kvöddu Baldur og spurðu hvar og hvenær þær ættu að hitta hann aftur. „Hittið mig í kvöld á slaginu 23.00 Þá er orðið vel dimmt, mitt á milli bæjanna ykkar, og munið að segja alls engum frá þessu samtali okkar og alls ekki fundi okkar í kvöld.“

 Þær lofuðu þessu og drifu sig í tíma. Er skólanum lauk flýttu þær sér upp í rútuna til þess að ná sætum saman. Þær skröfuðu mikið um atburði morgunsins og það má segja að þær hafi verið vægast frekar spenntar fyrir kvöldinu. Þær ákváðu að læra og gera allt sem þær þurftu að gera til þess að eiga möguleika á að fá að hittast svona seint á milli bæjanna. Þegar klukkan var að verða ellefu hittust þær við stein, sem oft hefur verið talinn  mitt á milli bæjanna þeirra. Þegar þær voru báðar komnar sagði Hildur:  „Varstu ekkert spurð heima hjá þér hvað þú værir að fara að gera?“

 Vala sagði að svo hefði verið, en svaraði því bara til  að það ætti ekki að spyrja svona,  rétt fyrir jólin.. Hildur var svo hissa að því að heima hjá henni var ekkert spurt. Nú sáu þær eitthvað hreyfast þarna í myrkrinu, jú þarna kom Baldur. „Jæja stelpur, nú er komið að því að ég segi ykkur hvað þetta allt saman snýst um. Fáið ykkur sæti hérna á steininum.“

 Þær voru orðnar mjög forvitnar.

 „Það er illt í efni hjá félögum mínum, þ.e.a.s hinum hjálparálfum jólanna hér í Svarfaðardal, þeir eru 20 talsins, og ég sá 21 og nú eru þeir allir lokaðir inni og allt stefnir í að jólin komi bara ekkert hér í dalnum.“ Þegar hér var komið við sögu litu Vala og Hildur forviða á hvor aðra. „Það kom nefnilega smá uppá hjá einum af félögum mínum sem heitir Belgur. Hann gerði þau afdrifaríku mistök að fara út með húfu Gappa gamla, sem er sá sem ræður öllu. Belgur asnaðist með hana út úr hellinum fyrir 1. sunnudag í aðventu og það er alveg stórhættulegt … því þá lokast hellirinn það árið. Þetta gerðist og hann rétt náði að henda sér inn. Ég var aftur á móti úti að ná í vatn og skildi ekki neitt í neinu þegar ég kom til baka. Það var bara steinn og ég komst ekki inn. Og nú eru jólin í hættu. Það vita það sennilega ekki margir að hjálparálfar jólannna eru þeir sem láta jólin koma, þeir eru til staðar og dreifa jólaanda, reyna að hjálpa til ef það er fátækt, ýta við mönnum ef þeir sofna ofan í verkin sín, og leiða fólkið í réttan farveg ef það stefnir í vitlausa átt í jólastressinu. Einnig koma þeir til hjálpar ef eitthvað er týnt, þeir gefa mönnum hugmyndir, hughreysta og dvelja hjá þeim sem eru einmana eða eiga um sárt að binda og svona mætti lengi telja. En eins og ég sagði… nú er þetta í hættu og eina leiðin til þess að bjarga þeim út er með ykkar hjálp.“

 „Hvað meinarðu, hvað hetum við gert?“ sagði Hildur.

 „Jú sjáiði til, ég var sendur til þess að finna tvo kærleiksríkustu einstaklingana í dalnum, þá einstaklinga sem eru með hlýtt hjarta, hreina og fallega hugsun, og það eru þið Vala og Hildur,“ sagði Baldur og þurrkaði sér um ennið til vitnis um að hann hafi haft þó nokkuð mikið fyrir því að finna þær og ná til þeirra.

 „Váá!“ sögðu stelpurnar hrærðar, „gaman að við skyldum vera svona.

 „Ég skil þetta nú samt ekki, það hljóta einhverjir aðrir, einhverjir fullorðnir að vera betra en við,“ sagði Hildur. 

 „Það er málið, þið eruð svo einlægar og trúið af svo miklum krafti á hluti sem eru til en margir og þá sérstaklega fullorðnir eru hættir að trúa, eða hafa kannski aldrei trúað á  hluti sem eru til staðar rétt við húshornið hjá þeim,“ sagði Baldur og hristi höfuðið. Hann vildi meina að álfar, huldufólk, jólasveinar og allra handa hyski væri til, en bara ekki alveg eins og flestir halda. Nú vildu stelpurnar fá að vita hvað þær ættu að gera til að bjarga hjálparálfum jólanna út, þær þyrftu nefnilega að fara að drífa sig heim núna, það væri orðið framorðið. „Þetta tekur næstum því heila nótt og það má enginn vita af ykkur og við höfum ekki mikinn tíma.“ Stelpunum leist ekki vel vel á þetta, hvernig ættu þær að komast út heima hjá sér án þess að einhver tæki ekki eftir því?

 Baldur sagði að það yrði að redda því með … léttum töfrum … hjálparálfatöfrum. Hann var dálítið rogginn með sig. „Við hittumst hér við þennan stein á slaginu miðnætti annað kvöld, þið verðið að vera vel búnar til fótanna, með bakpoka og í bakpokann eigið þið að setja tvær kökur af uppáhaldssmákökusortinni ykkar, uppáhaldsjólaskrautið ykkar og tvo bita af súkkulaði.“

 Með þessar undarlegu upplýsingar flýttu Hildur og Vala sér heim. Þær voru fljótar að sofna þrátt fyrir mikinn spenning. Kvöldið eftir voru þær frekar órólegar, báðar tvær á sínu heimili, klukkan sló tíu og ellefu, þegar hún var að verða hálf tólf og fólk á báðum bæjum að fara að hafa sig í háttinn … drrriiinngg  … hringir síminn, mæður þeirra beggja fara í símann og koma segja: „Mamma vinkonu þinnar var að hringja og spurði hvort það væri í lagi að þú myndir koma yfir og gista og vera hjá henniþví  þau þyrftu eitthvað að brasa.“ Það sama var sagt á báðum stöðum og allir samþykktu plottið.  Nú sló klukkan tólf og þær voru mættar með allt sitt hafurtask. Þegar Baldur kom sagði hann: „Jæja hvernig virkaði plottið hjá mér?“

 „Greinilega vel,“ sögðu báðar í kór. Þær voru að vísu hissa á hvernig að hann gæti hermt eftir röddum mæðra þeirra.

 „Nú leggjum við af stað fylgið mér og þið megið alls ekki  … líta til baka..“

 Þau gengu í um 10 mínútur … súmmmmmm og áður en þær vissu af voru þær komnar hátt upp í Rimar, hæsta fjallið í Svarfaðardal. Það var einmitt frá þessum stað sem ljósið blikkaði.

 „Hvað gerðist eiginlega” spurði Vala?

 „Ekki mikið,“ sagði Baldur.

 „Ekki mikið?“ spurði Hildur, „mér fannst þetta nú dálítið rosalegt, allt í einu erum við komin hingað upp í fjall. Fyrir örfáum mínútum vorum við niðri í miðjum dal.“

 „Það er rétt en við megum engan tíma missa,“ sagði Baldur og benti þeim að koma að stórum steini sem var í fjallshlíðinni. Baldur sagði stelpunum að láta smákökurnar þarna efst á steininn. Þær gera það og síðan fer Baldur með þær bakvið lítinn hól og segir þeim að beygja sig niður, hann skriður upp á hólinn og starir á smákökurnar … eftir smá stund kemur hann og segir: „Gott mál. Nú þurfum við ekki að hafa áhyggjur af verðinum.“ Stelpurnar spyrja út í það, en hann segir þeim að það skipti ekki máli því að hann sé ósýnilegur fyrir þeim … en honum finnast smákökur algjört lostæti.

 „Hafið nú súkkulaðið tilbúið í hendinni og um leið og ég segi þá hendiði því fyrir framan ykkur.“

 Nú stoppar Hildur og spyr Baldur hvort að hann sé að fíflast eitthvað með þær.

 „Nei elsku Hildur mín, alls ekki, súkkulaðið er handa hundi varðmannsins og hann er ósýnilegur fyrir ykkur eins og varðmaðurinn.“

 Nú gengu þau inn í lítinn dal sem sést greinilega ekki annarsstaðar frá, eða að þetta var eitt af töfrabrellum Baldurs. Nú nam Baldur staðar til þess að hlusta.

 „Stelpur !!! “kastið súkkulaðinu núna!“

 Þær gerðu það og eftir smá stund sáu þær súkkulaðið hverfa.

 „Nú verðum við að hafa hraðar hendur og … og fætur …“

 Þau ganga hröðum skrefum inn þennan litla dal. Fljótlega staðnæmast þau við lítinn klettavegg. Baldur segir þeim að setjast aðeins niður, rétt til þess að kasta mæðinni. Meðan að þær sátu sagði hann þeim að nú yrðu þær að beita þeim töfrum sem þær kynnu.

 „Við kunnum enga töfra,“ sagði Vala og Hildur samsinnti því.

 „Jú það kunna allir töfra,“ sagði Baldur „en það eru bara ekki allir með hreinan huga til að geta framkvæmt góða töfra og látið eitthvað gott af sér leiða.“

 Þegar þær voru búnar að hvíla sig um stund sagði Hólmur þeim að koma, geyma bakpokann en taka jólaskrautið með. Hann benti þeim að koma og setjast upp við klettavegginn, sem þær og gerðu.  „Réttið mér nú skrautið,“ sagði Baldur. Þær gerðu það, hann tók það og hengdi það á tvær nibbur sem stóðu út úr klettaveggnum síðan sagði hann við þær að nú ylti allt á þeim. „Nú horfið þið yfir dalinn og ef það eiga að koma almennileg jól, jól þar sem fólkið er í virkilegu jólaskapi, verðið þið að standa ykkur og einbeita ykkur vel að því að hugsa um ýmsar gamlar jólaminningar, t. d tengdar uppáhaldskrautinu ykkar.“ Þær lofuðu því að gera sitt besta, en höfðu samt litla trú á því að þetta yrði til þessa að opna þarna inn, hvað þá til að bjarga jólunum. Nú lokuðu þær augunum og létu hugann reika um fyrri jól … ekkert gerðist …

 Baldur var að verða órólegur … en þá gerðist það … það heyrðust brak og brestir og það molnaði úr klettaveggnum … síðan kom smá reykur. Stelpurnar stóðu upp og horfðu furðu lostnar á þetta litla gat myndast í vegginn, það var ekki lítið í augum hjálparálfanna. Þegar reykurinn var horfinn fór Baldur í gættina og kallaði einhverjar tölur og að lokum hátt og skýrt: „JÓL Í AÐSIGI í SVARFAÐARDAL.“ Um leið og hann var búinn að því kom fjöldinn allur af hjálparálfum út um gatið og föðmuðu Baldur og hófu að syngja jólalög og sálma. Eftir stutta stund, þegar allir voru komnir út, stoppaði Baldur sönginn og bað Hildi og Völu að krjúpa niður.

 „Kæru hjálparálfar, þið þurfið ekki að þakka mér, hér eru bjargvættir ykkar og jólanna, þessar stúlkur eru einstakar.“

 Nú fóru þeir allir í röð og þökkuðu stúlkunum fyrir sig, síðastur var Gappi æðsti hjálparálfur, sem sagði: „Þar sem þið hafið unnið mikið afrek og leist það af einlægni fáið þið eina ósk saman sem þið verið að koma með strax.“

 Þær litu hvor á aðra og sögðu svo samhljóma: „Við óskum þess að friður ríki í heiminum … “ sssssúúúúmmmmm og allt í einu voru þær komnar heim í rúm til sín og steinsofnaðar … og nú voru jólin rétt handan við hornið og hjálparálfar jólanna unnu dag og nótt til þess að jólin yrðu sem best.  

Júlíus Júlíusson

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is