Jólakveðjur

Mörgum þykir það ómissandi liður í jólaundirbúningnum að senda vinum og vandamönnum sínum nær og fær jólakveðjur. Algengt er að send séu jólakort en þó hefur það færst í aukana með nútímatækni að sendar séu rafrænar jólakveðjur, tölvupóstar, samfélagsmiðlakveðjur og smáskilaboð sérstaklega í tilefni jólanna.

Frá árinu 1932 hefur Ríkisútvarpið sent út jóla- og nýárskveðjur og hafa þær sannarlega slegið í gegn og eru nú lesnar á tveimur dögum.
Jólakveðjurnar voru fyrst ætlaðar hlustendum á Grænlandi og útlendingum búsettum á Íslandi. Í kringum 1940 nefnist þessi dagskrárliður „Jólakveðjur og ávörp til skipa á hafi úti og sveitabýla“. Árið 1943 heyrast jólakveðjurnar fyrst á Þorláksmessu. Árið 1956 er bryddað upp á þeirri nýbreytni að flytja kveðjur frá Íslendingum erlendis. Í dagskrá stendur: „Jólakveðjur frá Íslendingum í Stuttgart og e.t.v. víðar“. Þetta tíðkaðist um nokkurra ára skeið og var jafnan framkvæmt þannig að Íslendingar búsettir erlendis söfnuðust saman á heimili einhvers þeirra og lásu inn á segulband. Kveðjurnar voru síðan sendar með pósti til Íslands og útvarpað kl. 13.00 á jóladag. Ekki hefur varðveist nein upptaka af þessum toga. Eftir því sem árin liðu fór jólakveðjum Ríkisútvarpsins sífjölgandi, sérstaklega jukust þær á stríðsárunum þegar fólkið sem flykkst hafði úr sveitunum í atvinnuna “fyrir sunnan” , tók að senda kveðjur heim til sín. Þótti þá mörgum, sem heima sat, gott að heyra nafn sitt og heimilisfang hljóma á öldum ljósvakans og hefur það ekkert breyst í nútímanum. 

Jólakveðjurnar eru einn af þeim hlutum sem eru til þess að setja punktinn yfir góða aðventu, og eru algjörlega ómissandi, þegar ég var lítill, reyndi ég oft að skrifa niður öll nöfn sem komu fyrir í kveðjunum, þetta var svona til þess að drepa tímann. Og annað skondið ég man alltaf eftir því þegar Yngvar og Gylfi sendu jólakveðjur í alla landshluta. (J.J) 

Sigvaldi Júlíusson þulur hjá Ríkisútvarpinu

Atli Rúnar Halldórsson frá Jarðbrú í Svarfaðardal fór í heimsókn á Rás eitt í Efstaleiti 22. desember 2016 til þess að hitta og ræða við okkar mann Dalvíkinginn Sigvalda Júlíusson þul með meiru er hann var að undirbúa lestur jólakveðja.

Silli flutti þjóðinni fyrst jólakveðjur í Ríkisútvarpinu 1987 og hefur gert það á Þorláksmessu síðan þá að undanskildu árinu 2011 þegar hann forfallaðist. Lesturinn árið 2016 var þá  sá tuttugasti og áttundi.

Jólakveðjurnar skapa eftirvæntingu og stemningu á heimilum landsmanna og kveðjunum fjölgar bara ár frá ári. Við sendum fleiri og fleiri kveðjur og hlustum á þær líka. Áður dugði Þorláksmessa frá morgni til kvölds til að koma öllum kveðjum til skila. Svo var farið að lesa fram á aðfaranótt aðfangadags og dugði ekki til. Nú eru jólakveðjur lesnar í hátt í fimm klukkustundir að kvöldi 22. desember og svo endilanga Þorláksmessu til miðnættis eða lengur ef þarf. Ég byrjaði í þessu starfi 1987 og fékk fastráðningu í nóvember það ár.

Birt með leyfi Atla Rúnars Halldórssonar hjá Svarfdælasýsl. Pistillinn er í fullri lengd með myndum á svarfdaelasysl.com

Fróðleiksmolar um jólakveðjur Ríkisútvarpsins

  • Ríkisútvarpið tók til starfa 1930 og 1932 voru þar fyrst fluttar jólakveðjur. Fyrst voru þær á dagskrá á aðfangadag jóla, svo á jóladag og loks á Þorláksmessu og þar hafa þær verið áratugum saman.
  • Ragnheiður Ásta Pétursdóttir starfaði sem þulur í 44 ár. Hún las fyrst jólakveðjur á Þorláksmessu 1962 og þá hófst lesturinn kl. 20:30.
  • Sigvaldi Júlíusson las jólakveðjur í fyrsta sinn 1987. Þá hófst lesturinn kl. 16 og honum lauk um miðnætti.
  • Í ár, 2016, var lesið í fimm tíma að kvöldi 22. desember og alla Þorláksmessu frá morgni til miðnættis! Öllu var rutt af dagskrá Rásar eitt nema fréttum, veðurfregnum og hefðbundnum auglýsinga- og tilkynningalestri.

Heimildir: Sigvaldi þulur Júlíusson og Morgunblaðið 16. desember 2010

Elsta íslensk jólakveðja, sem fundist hefur, er hins vegar í bréfi frá Brynjólfi Sveinssyni Skálholtsbiskupi 7. janúar 1667 , en hann endar það á þessa leið: “Með ósk gleðilegra jóla, farsællegs nýja árs, og allra góðra heillastunda í Vors Herra nafni Amen.”

Jólamerki

Fyrsta jólamerkið frá Danmörku 1904
Það voru frœndur vorir Danir sem fundu upp jólamerkið og gáfu út fyrsta merkið 1904
Hugmyndin þótti góð og hún fór sigurför um heiminn, og innan fárra ára var vart til nokkur þjóð á jörðinni, sem játaði kristna trú, hefði ekki jólamerki. Talið er að danski póstafgreiðslumaðurinn Einar Hoiböll œtti hugmyndina að merkinu. Þegar hann var að vinna að þvi að flokka jólapóstinn 1904 í Kaupmannahöfn, datt honum í hug, að það hlyti að vera hœgt að safna miklu fé með því að fá fólk til að bæta einu litlu merki við hvert bréf.  Fyrsta sænska jólamerkið kom einnig út 1904, norska merkið 1906 og fyrsta finnska jólamerkið 1912. ( Að ofan má sjá myndir af merkjunum frá Danmörku 1904, 1905. 1906 , 1909, 1910)

Fyrsta íslenska jólamerkið

Líklegt er að fyrsta íslenska jólamerkið hafi komið hingað til lands 1904.  Það er nokkur líknarfélög sem hófu að gefa út merki til styrktar góðum málefnum. Fólk bætti þessum merkjum við á kortin eða umslag og lét fé af hendi rakna til Líknarfélaganna. Samkvæmt lista ytfir íslensk jólamerki  kom fyrsta jólamerkið út 1904, annað 1905 og hið þriðja 1911.  Það vara Hvítabandið sem gaf út fyrsta merkið og á því er  hvítur fálki á fjólubláum grunni, og fyrir ofan hann stendur: „Barnahælið“, en fyrir neðan hann „Caritas“. Á öðru er sami fálkinn og sama „Barnahælið“, en undir stendur „Karitas“, það er C-ið er orðið að K-i. Hið þriðja, frá 1911, er svo eins og hið fyrsta. Caritas þýðir kærleikur. Árið 1913 tók Thorvaldsensfélagið að sér útgáfu jólamerkjanna og hefur gefið þau út síðan til ágóða fyrir barnauppeldsissjóð félagsins. 

Myndir að neðan er úr merkilegu jólamerkjasafni Eriks Jensen. 
Sjá HÉR. ..Linkur..ath

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is