Jólahefðir í Dalvíkurbyggð

Jólastjarnan í Kaupfélagshúsinu

100_7336

Jólastjarnan á þaki Kaupfélagshússins er skreyting sem hefur verið eins lengi og ég man eftir mér.  Húsið var tekið í notkun 1953, Arngrímur Stefánsson – Addi í Ásbyrgi smíðaði stjörnuna 1955 og að öllum líkindum var hún fyrst sett upp 1956. Um leið og stjarnan kemur upp ár hvert, kemur jólaskapið hjá manni, ef stjarnan var eitthvað seint á ferðinni, þá gerði maður sér ferð í Kaupfélagið til spyrja hvort stjarnan ætti ekki að fara upp í ár. Ég sá stjörnuna alltaf út um gluggann í herberginu mínu í Höfn þar sem ég átti heima. Stjarnan á vissan sess í mínu jólahaldi. Fyrir hönd okkar allra jólapúkanna í Dalvíkurbyggð vonast ég til þess að stjarnan verði á sínum stað um alla framtíð þó nýjir eigendur taki við.

Jólasveinninn sem hneigir sig

20231206_064510_resized

Jólasveinninn sem stöðugt hneigir sig á aðventunni hefur verið í gluggum verslana sem hafa verið í Kaupfélagshúsinu nánast alla tíð en húsið var tekið í notkun 1953. Líkur eru taldar á því að Jólasveinninn hafi komið á svipuðum tíma og jólastjarnan á þaki hússins sem sett var upp 1956. Móðir mín sagði að hún myndi eftir því að hafa farið með mig í desember 1966 í vagni til að sýna mér sveininn og í grein Valgerðar Gunnarsdóttur sem hún skrifaði í Norðurslóð minnist hún þess árið 1965 hafi hún kíkt á sveininn hneigjandi á leið heim úr skólanum. „Þær halda áfram för sinni og við blasir jólastjarnan á þaki Kaupfélagsins og fyrir framan það stendur jólatréð með marglitum ljósum, hátt og tignarlegt.  Í glugganum í vefnaðarvörudeildinni hneigir jólasveinninn höfuðið í sífellu.  Þetta þrennt er staðfastleg sönnun á jólakomunni á Dalvík“ ( Sjá alla greinina í pistlum)

Nú sjá eigendur Víkurkaups vel um jólasveininn og fyrir jólin 2022 var smíðar pallur fyrir hann. 

Aðventuröltið

Kertakvöld

Segja má að ákveðin hefð í kring um aðventuna hafi fyrst byrjað um árið 1994 með svokölluðum kertakvöldum sem Heiða Símonardóttir og samstarfskonur hennar í blómabúðinni Ilex stóðu fyrir. Rómantísk stemmning á aðventunni með kertaljósum og alls konar tilboð í gangi. Þó kertakvöldin hafi ekki verið komin til að vera og lognuðust fljótt út af, gáfu þau tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Jólamarkaðshelgin

Árið 1997 ákvað Júlíus Júlíusson að setja á fót svokallaða jólamarkaðshelgi. Var þá búið að útvega bæjarbúum bækling sem innihélt lista yfir þau 21 fyrirtæki sem ætluðu að taka þátt. Áttu þeir sem vildu taka þátt síðan að heimsækja a.m.k. tíu þessara fyrirtækja til að komast í pott og eiga möguleika á að vinna verðlaun sem fyrirtækin gáfu. Fyrir þessa helgi höfðu flest öll fyrirtæki bæjarins sammælst um að taka á móti fólki og voru með tilboð á vörum og þjónustu. Markmiðið var „að efla heimamenn til að versla heima“, nýta sér þá þjónustu sem fyrir var í bænum og styðja þannig við bakið á þeim. „Fyrst og fremst var markmiðið samt að búa til stemningu. Jólamarkaðshelgin var haldin árin 1997 og 1998 en hefur ekki verið haldin sem slík eftir það. Hins vegar þurfti ekki meira til þess að fyrirtækja eigendur áttuðu sig á hve hagstætt þetta gat verið og sömuleiðis ríkti mikil ánægja meðal bæjarbúa með þessa hefð.

Aðventuröltið

Árið 2008 tók handverkskonan Sigríður Guðmundsdóttir sig til og endurvakti þessa stemningu. Tengdu hún og fleiri handverkskonur og fyrirtæki sín á milli með kertum og buðu fólk velkomið. Má segja það fyrsta árið sem aðventuröltið fór af stað undir þeim formerkjum sem það er í dag. Á næstu árum fóru fleiri fyrirtæki að taka þátt og nokkrir aðilar haldið utan um skipulagið og er þetta nú orðið að þeirri miklu hefð sem hún er í dag.

Ég (J.J) Vona og trúi að hefðin lifi um ókomin ár, enda hefur fólk gaman af, en þjónustuaðilum fer fækkandi þannig að nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda utan um þessa hefð.  Nýjung bættist við verkefnið þegar við vorum í Bergi og hefur verið óslitið síðan en það er sameiginlegur markaður þar sem handverksfólk safnast saman og selja verk sín. Aðventuröltið frábær kynning og tækifæri fyrir ný fyrirtæki að koma sér á framfæri og við höfum alltaf  hvatt fólk til þess að fara út, skilja bílinn eftir heima og rölta um bæinn með fjölskyldu og vinum, umftram allt er kjarninn í þessu að fólk hittist. Eitt af þeim skiptum sem ég hélt utan um skipulagið kom ég með þetta slagorð sem hefur verið notað síðan og mér finnst það innramma stemninguna mjög vel.Kruðerí, kósýheit, kertaljós og knús

Jólasveinar á svölum Kaupfélagshússins á Dalvík

Jólasveinarnir hafa komið á svalir Kaupfélagsins á Dalvík í tugi ára, ég er ekki búinn að fá það á hreint hvenær þeir byrjuðu, síðustu upplýsingar sem ég hef, er að þeir hafi byrjað fyrir 1960, hér með auglýsi ég eftir upplýsingum um það hvenær þessu var startað og upphafsmönnum,og öllum þeim upplýsingum sem einhver lúrir á.

Jólasveinarnir mæta alltaf kátir og hressir um miðjan desember ár hvert með epli í poka, fara upp á svalirnar, segja sögur og syngja öll jólalögin, allir taka undir, stórir sem smáir þegar söngnum líkur þá koma þeir niður til fjöldans og gefa öllum epli, eplin eru þau bestu sem maður hefur smakkað, svo er dansað kringum jólatréð, þetta eru dásamlegir kallar, allir sem einn. Það eru margskonar farartæki sem þeir nota blessaðir, fótgangandi, á vélsleðum, snjóbíl eða á dráttarvélum allt eftir árferðinu og færinu í hvert sinn.

Frá því að ég var í barnavagni þá hef ég alltaf farið að sjá jólasveinana á svölunum, fengið epli, nema eitt ár þá missti ég af þessari skemmtilegu og ómissandi uppákomu, en þá bjó ég í Reykjavík, ég verð að viðurkenna að mér leið hálf undarlega þennan dag, þegar ég vissi að jólasveinarnir væru að koma á svalirnar á Kaupfélaginu á Dalvík.

Jólasveinapóstur á aðfangadag

Jólasveinapóstur á aðfangadag á Dalvík síðan 1938 –  Dásamlegur siður

Skömmu eftir að Ásgeir P Sigurjónsson gerðist kennari á Dalvík 1932, kom hann á fót barnadeild innan Ungmennafélags Svarfdæla handa þeim sem höfðu ekki aldur til þess að ganga í félagið. Börnin kusu sér stjórn og héldu fundi mánaðarlega undir stjórn Ásgeirs, það var margt sem deildin tók sér fyrir hendur, eitt af því var að sjá um árlega jólatrésskemmtun á Dalvík. Það var svo rétt fyrir jólin 1938 , að Ásgeir kennari gerði tilllögu um, að deildin tæki upp þann sið að fá jólasvein til að bera út bréf og böggla í hús á Dalvík á aðfangadag. Hugmyndin hlaut samþykki og vakti almennan fögnuð viðstaddra . Á “litlu jólunum” var svo tilkynnt, að tekið yrði við jólasveinapósti á Þorláksdag , en jólasveinnin kæmi öllu til skila á aðfangadag. Eldri deild barnaskólans veitti póstinum viðtöku, krakkar lásu sundur og flokkuðu í húsin. Fyrsti jólasveinninn sem annaðist póstburð, var þréttán ára strákur, Friðjón Kristinsson, seinna póstafgreiðslumaður á Dalvík . Allt gekk samkvæmt áætlun , Friðjón kom öllu til skila ,og var langt liðið kvölds,er hann hélt heim. Til dagsins í dag hafa börn enn þennan hátt á á Dalvík eftir 74 ár, og aldrei fallið út ár, nú flykkjast þau í hópum. Pósturinn hefur vaxið drjúgt í tímanna rás, um 1982 þá voru sveinarnir 15 talsins, yfirleitt þrír í hóp einn aðalsveinn og tveir hjálparmenn, drógu þeir póstinn á sleða eða sleðum.

Jólasveina hersingin setur gleðibrag á bæinn allann. Og vel er þeim tekið , er þeir skila pósti, óska um leið gleðilegra jóla og gauka oftar en hitt góðgæti að yngstu börnunum, sem heima sitja. Nú er pósturinn orðið ærið starf og verður að taka daginn snemma til þess að vera búinn að ljúka við útburð áður en hringt er til aftansöngs.

Heimildir Saga Dalvíkur 4. bindi – Myndir Héraðsskjalasafn Svarfdæla, Guðmundur Ingi Jóntansson Bæjarpósturinn.

Af því að það var minnst á fyrsta jólasveininn Friðjón Kristinsson í greininni hér að ofan, langar mig að minnast á að þegar ég fékk loksins tækifæri á því að vera hinum megin við borðið var alltaf sérstaklega gaman að koma til Friðjóns og Rikku á Svarfaðarbrautinni.
Þar var boðið inn í kökur,drykk og ýmislegt fleira, hann hefur vitað eftir sína reynslu hvað þyrfti til að gleðja þreytta jólasveina. Ég ætla að vona að þessi dásamlegi siður haldist um aldur og ævi, og mikið er ég þakklátur þessari góðu hugmynd hjá Ásgeiri Sigurjónssyni.  ( JJ)

Á mynd númer tvö er Steingrímur Þorsteinsson á Vegamótum að mála sveinana. Þarna eru Karl Sævaldsson og Steinþór Sigurðsson.

Úr jólablaði Norðurslóðar 2008

Birt með leyfi Norðurslóðar.

Jólasveina pósturinn á Dalvík – Hanna Kr. Hallgrímsdóttir skrifar.

Við, sem ólumst upp á Dalvík, munum alltaf eftir jólasveinapóstinum á aðfangadag. Eftirvæntingin var mikil að bíða eftir jólasveinunum, enda ekkert sjónvarp með barnaefni þá til að stytta okkur biðina eftir jólunum. Við systkinin lágum úti í gluggum og biðum spennt. Þeir komu þrír saman og drógu sleðann með póstinum í á eftir sér.  Svo þegar þeir komu var mikið fjör og sumir yngstu krakkarnir voru hálf hræddir við þessa karla. Þegar þeir höfðu afhent póstinn fengu þeir gjarnan epli eða appelsínu með sér í nesti. Þessi póstur, sem jólasveinarnir komu með, var og er jólakort og bögglar sem Dalvíkingar sendu sín á milli innanbæjar. Póstur og sími sá svo um þann póst sem kom lengra að og Raggi póstur bar hann út. 

Upphafið að þessu var að upp úr 1932 kom Ásgeir P. Sigurjónsson barnakennari á fót barnadeild innan Ungmennafélags Svarfdæla. Fyrir jólin 1938 kom hann því á að fá jólasvein til að bera út bréf og böggla á aðfangadag. Þetta vakti almennan fögnuð og á Þorláksdag var tekið við póstinum í skólanum, eins og gert er enn í dag, og hann borinn út á aðfangadag. Krakkar taka á móti póstinum og flokka hann í húsin. Til gamans má geta þess að fyrsti jólasveinninn, sem bar út jólapóstinn, var 13 ára strákur sem hét Friðjón Kristinsson. Hann var lengi póstafgreiðslumaður á Dalvík og hlaut viðurkenningu fyrir góðan frágang á póstinum og stimplarnir hans þóttu skírir og vel læsilegir.

Jólin 1982 voru jólasveinarnir orðnir 15 talsins. Þeir fóru oftast um gangandi eða á skíðum og notuðust við sleða og snjóþotur enda snjóþyngsli oft mikil. Síðar tóku þeir tæknina í sína þjónustu og draga nú sleðana á dráttarvélum og vélsleðum. Þeir fara um bæinn þrír og þrír saman og eru að allan daginn. Það tekur tímann sinn að útbúa alla þessa jólasveina og lengi hafði Steingrímur Þorsteinsson kennari yfirumsjón með því, en hann var einnig mjög virkur í Leikfélagi Dalvíkur. Hann málaði leiktjöld, sminkaði leikarana, lék og leikstýrði. Þar á meðal lék hann Skugga-Svein með tilþrifum. Elsti bróðir minn (hann Viggi), var jólasveinn upp úr 1970 . Það var gaman þegar hann kom heim í jólamatinn, útitekinn og allur í sminki í framan, með kassa af eplum og appelsínum, sem höfðu sankast að honum í „jólasveininum“ eins og Dalvíkingar segja. Það er notalegt að rifja þessar skemmtilegu minningar upp. Ég held að svona jólasveinapóstur sé hvergi á landinu nema á Dalvík. Vona ég að þessi siður lifi sem lengst.

Þessi grein birtist í Póstmannablaðinu 2006.

Heimildir:
Saga Dalvíkur, IV. bindi eftir Kristmund Bjarnason. Útgefandi: Dalvíkurbyggð.

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is