Jólakerti, jólaseríur og jólaskraut
SAGA KERTANNA
Kerti hafa þekkst og verið notuð sem ljósgjafi í yfir 5.000 ár. Þau voru notuð til að lýsa upp alls konar mannfagnaði áður fyrr, svo sem Hanukka, ljósahátíð Gyðinga og páskahátíðina á 4. öld, svo það er viðeigandi að fræðast aðeins um sögu kertanna.
Hver bjó til fyrstu kertin?
Talið er að forn Egyptar hafi fundið upp kertið. Þeir böðuðu kjarna úr sefjurtinni í bráðinni dýrafitu, eða tólg, og bjuggu þannig til sefljós og kyndla. Sef er hávaxið gras með grönn blöð, sem vex nærri vatni eða í mýrlendi. Tólg er fita af nautgripum og sauðfé, sem búið er að bræða. Þegar tólgin er fljótandi er hún látin metta hör- eða bómullarhnoðra og þannig notuð sem kveikur. Sefljós höfðu, hinsvegar, ekki kveik, eins og venjuleg kerti. Það voru forn-Rómverjar sem eru taldir hafa fundið upp kerti með kveik. Þeir eru sagðir hafa búið til kerti með því að dýfa papýruslengjum aftur og aftur í bráðna tólg eða bývax.
Kerti um allan heim
Í Kína voru kerti sögð búin til með því að steypa þau í sívölum mótum með kveik úr hrísgrjónapappír og vaxi úr ákveðinni tegund skordýra blandað með fræjum. Í Japan voru kerti búin til úr vaxi sem tappað var af ákveðinni tegund trjáa. Á Indlandi voru kerti búin til með því að sjóða ávexti kaniltrjáa. Frumbyggjar Ameríku fundu út að hægt var að fá sætt ilmandi vax með hreinan bruna með því að sjóða ber af mjaðarlyngi. Gallinn var að það var mikil og erfið vinna að ná vaxinu úr þessum berjum. Þess vegna hættu kerti úr mjaðarlyngsvaxi fljótlega að sjást.
18. öld: fyrstu nútíma kertin
Á 18. öld varð fyrsta verulega breytingin á framleiðslu kerta vegna uppgangs hvalveiða. Byrjað var að búa til kertavax úr hvalaolíu, sem var framleidd í miklu magni. Ástæða þess að fólki líkaði vel við kerti gerð úr hvalaolíu var að af þeim var engin ólykt og þegar þau brunnu kom skærara ljós. Sagnfræðingar hafa lýst því yfir að fyrstu nútíma kertin hafi verið framleidd úr hvalaolíu.
1820: Framleiðsla á stearín vaxi
Á þriðja áratug nítjándu aldar urðu gríðarlegar framfarir í framleiðslu nútíma kerta fyrir tilstuðlan fransks efnafræðings, Michel Eugene Chevreul. Hann fann út hvernig hægt var að ná stearín sýru úr dýrafitu. Stearin sýra er föst fitusýra sem fá má úr dýrum eða jurtum. Hún er hörð, endingargóð og hefur hreinan bruna. Af þessum ástæðum urðu stearín kerti vinsæl í Evrópu og eru það enn.
1850: Vax unnið úr paraffín olíu
Um miðja nítjándu öld uppgötvuðu efnafræðingar hvernig hægt var að vinna paraffín vax úr olíu og hreinsa það. Þó það hafi lágt bræðslumark, þá hefur það hreinan bruna og stöðugan. Það varð fljótlega hagkvæmara að framleiða paraffín kerti en aðrar tegundir kerta. Lágt bræðslumark paraffín kerta var hækkað með því að blanda það með stearín sýru.
1879: Hrun í framleiðslu kerta
Með því að eima og hreinsa steinolíu gat Tomas Edison sýnt fram á notagildi ljósalampa. Þetta leiddi til þess að framleiðsla á kertum minnkaði verulega, þrátt fyrir framfarir á því sviði. Kertið hætti að vera nauðsynlegt til að lýsa upp heimilin og fóru í það að vera aðallega til skrauts.
19. öld: Kerti fjöldaframleidd
Árið 1934 stuðlaði Joseph Morgan að fjöldaframleiðslu kerta með því að finna upp vél sem steypti kerti. Vélin virkaði þannig að sívalningur var fylltur með vaxi. Stimpill í sívalningnum ýtti svo kertinu út þegar vaxið storknaði. Með þessari fjöldaframleiðslu féll verð á góðum kertum svo mikið að almenningur hafði ráð á þeim.
20. öld: Vinsældir kerta aukast
Vinsældir kerta voru stöðugar allt fram á miðjan níunda áratuginn. Þá jókst áhugi almennings á kertum til skrauts, til að skapa tilfinningar og til gjafa. Þegar hér var komið sögu var hægt að fá kerti í alls kyns formi, litum og stærðum. Mikill áhugi viðskiptavina leiddi síðan af sér framleiðslu ilmkerta.
Á tíunda áratugnum jukust vinsældir kerta aftur þegar ný tegund af kertavaxi var uppgötvuð. Efnafræðingar í landbúnaði í Bandaríkjunum uppgötvuðu að hægt var að búa til vax úr sojabaunum. Það reyndist mýkra og bráðnaði hægar en paraffín vax. Í öðrum löndum var framleitt vax úr pálmaolíu, sem var síðan notað í kerti.
Kerti í dag
Frá því að gefa ljós í myrkri allt til þess að vera eingöngu til skrauts uppfylla kerti í dag ennþá allar þessar væntingar og meira. Kerti eru táknmynd fagnaðar, ástar, þæginda, friðar, athafna og fegurðar. Kertin gefa okkur ljós, yl, vellíðan og ánægju – og það er kosturinn við kerti.
Jólasaga – Gluggainnsetning í Hafnarstræti 88 á Akureyri – Jólin 2023
Í kjallara Hafnarstrætis 88 á Akureyri er afar fallegur og jólanostalgíulegur gluggi . Innsetningin er verk Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og systur hennar Áslaugar Harðardóttur Tveiten öðru nafni Fröken Blómfríður. Í glugganum má sjá ýmislegt tengt jólum fortíðar meðal annars glitrandi skrautlengjur, marglitar ljósaseríur, spariföt, skreytt jólatré, bakstursáhöld og leikföng. Efni innsetningarinnar er ekki til sölu og kemur úr ýmsum áttum m.a. frá persónulegu safni systranna. Allt er þetta dót sem hefur verið geymt af alúð og hefur nú fengið nýjan tilgang sem er frekar marglaga að sögn Brynju. Innsetningunni er ætlað að endurspegla þá nýtni og útsjónarsemi sem oft fylgdi jólahaldi hér áður fyrr. Eins að lífga upp á umhverfið, búa til töfraheim í götunni, svolítið athvarf fyrir öll þau sem eiga leið hjá. Ósk okkar systra er að innsetningin skapi ekki bara gleði og jákvæð hughrif tengd liðnum jólum heldur hvetji fólk líka til að slaka á í amstri dagsins, staðsetja sig í núinu og njóta aðdraganda jólatíðarinnar. Við erum vissar um að margir munu upplifa angurværa jólagleði, rifja upp minningar og einfaldlega eiga góða stund við gluggann.
Kerti eru ómissandi þáttur í jólahaldinu.
Flestum þykir rólegt flökt kertalogans skapa ákveðna stemningu og ró. Fyrr á öldinni voru heimatilbúin tólgarkerti úr dýrafitu ekki óalgeng hér á landi, enda býflugnavax eins og notað var erlendis til forna ekki hráefni sem fáanlegt var hér á norðurhjara. Nú eru það vaxkerti sem flest eru verksmiðjuframleidd, þó handunnin kerti fáist einnig sem mörg þykja mikil listasmíð.
Vaxkerti og tólgarkerti.
Kerti voru til foma búin til úr býflugnavaxi. Það varð að flytja inn frá útlöndum og var mjög dýrt; ein mörk af vaxi kostaði sama og þrjár lambagærur. Á miðöldum bjuggu munkar í klaustrum til kerti. Vaxkertin voru notuð í kirkjum og klaustrum. Tólgarkerti komu svo til sögunnar á 15. öld eða fyrr. Þau var auðvelt að búa til á sveitabæjunum og voru því notuð á hátiðum eins og jólum. Á fyrri hluta 19. aldar er svo farið að nota efnið stearin í kerti.
Strokkkerti .
Tólgarkerti voru búin til þannig að tólgin var brædd og hellt í djúpan trédall. Oft var það strokkurinn á heimilinu sem var notaður og vora kertin þá kölluð strokkkerti í strokkinn var fyrst sett (volgt) Sumir segja sóðandi vatn og svo bráðin tólg ofan á. Rök og ljósagarn Kveikir á kertum voru kallaðir rök. Þeir voru búnir til úr ljósagarni en það var úr fléttaðri bómull. Á íslandi voru rökin oft búin til úr gömlum léreftsflíkum sem voru rifnar í ræmur eða þau voru fléttuð eða tvinnuð úr hrosshári. Strokkkerti voru algeng í Rangárvallasýslu um 1880.
Kertasteypa
Rökin voru fest á lítið prik sem var kallað kertará. Síðan var þeim dýft ofan í tólgina og tólgarlagið látið storkna. Þegar það hafði storknað var þeim dýft aftur í tólgina og þannig haldið áfram þangað til kertin voru orðin mátulega gild. Kerti voru einnig steypt í kertaformi sem var hólkur úr málmi. Kerti sem voru steypt i formi þóttu fínni og höfðu sléttara yfirborð en strokkkertin.
Kóngakerti á jólunum
Fyrir jólin voru auk einfaldra kerta steypt kóngakerti. Þau greinast í þrennt og eru tákn heilagrar þrenningar. Kóngakerti voru búin til með því að binda þrjú rök neðan í spýtu og hnýta endarökin á mitt miðjurakið.
Jólajósin- Jólakertin – Tólgarkerti – Kóngakerti
Lesbók Morgunblaðsins 24.12 1958
JÓLIN eru ljóssins hátíð, og voru það sérstaklega á liðnum öldum. Nú hafa rafmagnsljósin útrýmt myrkrinu í híbýlum manna. En það var öðru vísi áður fyr, og þess vegna eru ljúfustu endurminningar manna á fyrri öld bundnar við blessaða birtuna og Ijósdýrðina á jólunum. Hér skuiu raktar nokkrar frásagnir um það.
Jón Árnason segir svo í Þjóðsögum sínum:
Það er nú svo sem sjálfsagt, að allir hlakka til jólanna, sem er móðir allra hátíða annarra; þá er ekki lítið um dýrðir fyrir börnunum. hlakka til að sjá svo mörg ljós sem kostur er á að sjá, bæði í kirkjum og heimahúsum.Húsmæður settu ljós í hvern krók og kima, svo hvergi bæri skugga á. Þegar fólkið fór að hátta hafði húsfreyjan jafnan gát á því, að ekkert ljós væri slökkt, og setti þá upp ný Ijós í hverju horni, þegar hin voru farin að loga út, eða lét á lampana aftur, svo ljósin skyldu endast alla nóttina, þangað til kominn var bjartur dagur daginn eftir. Það er enn sums staðar siður hér á landi að láta ljós loga í baðstofum yfir fólkinu, þó það sé sofandi. og þó ekki sé lengur kveykt ljós í hverju horni, eldir það enn eftir af ljósaganginum forna, að víða er hverju mannsbarni á heimilinu gefið kerti á aðfangadagskvöld og kallað jólakerti.
Séra Þorkell á Reynivöllum:
Jólin voru þá (um miðja 1S. öld) eins og nú hin mesta hátíð ársins; þá var á öllum hinn mesti gleðibragur; til jólanna hlökkuðu börnin lengi áður, ekki síst vegna kertanna, sem þau áttu von á að fá, og sem þau höfðu svo undurgaman af. Kertaljósið ber svo langt af lýsisljósinu að fegurð og birtu, að það vekur eftirtekt hjá öllum, og þó ekki síst börnunum.
Finnur Jónsson á Kerseyri:
Á Þorláksmessu voru steypt tólgarkerti, bæði kerti og dásar, í strokk. Því á aðfangadagskvöld var öllum gefið kerti og börnunum dásar. Dásarnir voru mjó, lítil kerti, álíka og mislitu jólakertin barnanna sem síðar fengust í búðum. Þegar kerti voru steypt í strokk, var fyrst hellt i strokkinn sjóðandi vatni, og síðan bræddri tólg. Nokkrir ljósagarnspottar um 12 þumlunga langir voru festir á prik. Var þeim síðan dýft í tólgina. Síðan var prikið lagt yfir trog, eða annað ílát, nálægt strokknum, og lak tólgin, sem ekki storknaði, ofan í það. Síðan var tekið annað prik með jafnmörgum spottum og farið með eins og hið fyrra. Fór prikafjöldinn eftir því, hvað mörg kerti átti að steypa. Jafnóðum og tólgin storknaði, var þeim dýft í strokkinn á ný, þar til öll kertin voru orðin nógu gild. Ekki var mjög sjaldgæft að steypt voru svonefnd kóngakerti. Þau voru búin til þannig, að tveir liósagarnspottar voru hnýttir nokkuð fyrir ofan miðju kertisraks og látnir ganga á ská upp í prikið, sitt hvoru megin við miðrakið. Loguðu þrjú ljós á kertinu góða stund á eftir að kveikt var á því. í sumum kirkjum sá ég kóngakerti í altarisstjökum á hátíðum, og entust Ijósin þrjú um messutímann. — Á aðfangadagskvöld, þegar allir voru komnir inn og búið var að snæða kvöldmatinn, fór fólkið að þvo sér og klæðast betri flíkum. Var þá hverjum gefið jólakerti. Svo var gefið sætt kaffi með sykruðum lummum.
Guðbjörg á Broddanesi:
Þegar búið var að kveikja og allir höfðu haft fataskipti, fór móðir mín fram í stofuloft til að sækja kertin Hún gaf öllum á bænum tvö kerti, faðir minn fekk tvö kerti eins og aðrir, þó að hanr væri blindur. Eg fann hvað hann var sviphýr þegar hann var að handleika kertin.
Þegar allir voru búnir að fá kertin, fjölgaði ljósunum i baðstofunni. Nú voru blessuð jólin komin. Sumt fólkið fór að lesa í bók. Aðrir tóku skrifpúltin sín og fóru að skrifa. Nú höfðu aliir nóga birtu, nema faðir minn; þó var enginn glaðari en hann; verið getur að hann hafi einhvers staðar átt skærra ljós en við hin. Lýsislampinn í dyrastafnum hætti nærri að bera birtu, kóngakertin á borðinu yfirgnæfðu birtu hans. Kertaljósin voru svo hrein og fögur. Ljósafjöldinn hefir vafalaust stuðlað mikið að því að gera jólin svo dýrleg sem þau voru i huga manna. Þessi smáljós, sem lýstu í lágum híbýlum dauðlegra manna minntu á stóra alheimsljósið: barnið í jötunni.
Þórleifur Bjarnason:
Helgi jólanna hófst á aðfangadagskvöld klukkan sex með hugvekjulestri. Allur bærinn var ljós -um skrýddur eftir því sem föng voru til, og hvergi átti að ganga í myrkri, þó að farið væri um bæinn það kvöld, og var nú brngð ið öllum sparsemisreglum Tólgarkertin lýstu upp baðstofuna og hún varð hlýrri og notalegri en venjulega. Ljós loguðu þá nótt alla.
Kristleifur Þorsteinsson:
Fyrsti jólaglaðningurinn, sem öllum var úthlutað jafnt, voru kertin. Gestir voru sjaldan á jólanótt. En kæmi það fyrir voru það helst heimilislausir förukarlar og var þeim þá rétt eitt jólakerti líka, svo framarlega sem þeir vildu þiggja það. Flestir ungir og gamlir tóku við jólakerti með gleðibrosi, en þó einkum börnin. Það var allt fábreytt og fátæklegt á sveitarbæum samanborið við það sem nú er, bæði byggingar, fæði og klæði. En það var hin fagra og dásamlega helgi saga um fæðingu Krists, sem gerði jólanóttina svo himinhreina. Jóla ljósin voru tendruð, svo að bjart yrði í hverjum krók og kima. Tilefni jólanna átti að vera þessa nótt efst í hug og hjarta hvers manns og allt heimilisfolk átti að vera sem einn maður.
Fyrsta rafmagnsjólaljósið
Rafmagnsjólaljós voru líklega fyrst notuð á jólatré 1882 í New York. Aðstoðarmaður Thomas Edisons, Edward Johnson, átti hugmyndina og bjó til fyrstu jólaseríuna og setti á jólatré heima hjá sér. Þær voru síðar fjöldaframleiddar og ruddu sér til rúms í verslunum í New York sem þóttu jafnan vel skreyttar á þessum árum. Johnson þessi lærði iðn sína af Thomas Alva Edison og varð reyndar síðar framkvæmdastjóri fyrirtækis hans.
Árið 1895 var kveikt á fyrsta jólatrénu með litaðri jólaseríu í Hvíta húsinu og var það þáverandi forseti Bandaríkjanna, Grover Cleveland, sem hafði látið heillast af lita- og ljósadýrðinni. Eitt frægasta jólatré heims, það sem jafnan er sett upp á Rockefeller-torginu í New York, hafði lifandi ljós frá 1931 en fékk ekki rafmagnsljósaseríu fyrr en 1956.
Í gegnum tíðina hefur tískan tekið miklum sveiflum í jólaseríum. Á fimmta og sjötta áratugnum þótti fínt að hafa litaðar seríur. Á sjöunda og áttunda áratugnum urðu litaseríur fáanlegar með minni perum en þá þóttu eldri litaðar ljósaperur, sem gjarnan voru formaðar eins og bananar ef þær voru gular og epli ef þær voru rauðar, frekar púkalegar. Slíkar seríur þykja þó mikilfenglegar í dag enda margir orðnir frekar leiðir á litlu ljósaperunum sem voru hvað vinsælastar á níunda áratugnum.
Lítil kertaljós á greinar jólatrés voru almenn strax í kringum miðja 17. öld.
Noma loftbóluserían
Á fjórða áratug síðustu aldar kom fram á sjónarsviðið sería, sem sló öllum öðrum svo rækilega við, að segja má að engin henni lík hafi verið fundin upp. Perurnar í henni voru afar framúrstefnulegar, minntu einna helst á djúkbox. Ofan á ljósgjafanum sjálfum kom glerstautur með gulum, rauðum, grænum eða bláum vökva og skömmu eftir að stungið var í samband tóku bólur að stíga upp á við í vökvanum. Það var bandaríska rafeindafyrirtækið Noma sem fyrst kom með þessa óvenjulegu jólaseríu árið 1945, skömmu eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk. Serían var fljótt mög vinsæl og breyddist hratt út á nokkrum árum.Fyrst í stað var miðað við að átta perur væru í hverri ljósakeðju, en þeim fjölgaði þegar árin liðu. Í sumum tilvikum gat fólk líka keypt perur og sett þær í gömlu seríurnar sínar, ef svo vel vildi til að perustæðin voru af réttri stærð. Galdurinn við að láta bólurnar stíga í perunum var að hafa í þeim efni með lágt suðumark. Þegar perurnar í botninum hitnuðu tóku loftbólur að stíga upp á við. Helst þurftu perurnar að standa beint upp til að bólurnar yrðu almennilegar. Jólaseríur sem þessar eru orðnar fáséðar.
Jólaljós á jólatré frá Reykjalundi
Jólasería með fimmtán bjöllum með álímdum jólaglansmyndum. Serían er í upprunalegum kassa sem á stendur: Jólaljós á jólatré. Framleidd í Vinnuheimilinu að Reykjalundi. Verðmiði á kassanum sýnir að varan kostaði 179 kr. á sínum tíma.
Amerískar jólaseríur
Jólaskraut
Á árum áður var þekkt að tré voru skreytt með eplum, poppkorni á þræði, hentum, sykurstöfum og smákökum. Um 1850 byrjuðu glerblásarar í Lauscha í Þýskalandi að útbúa festar úr gleri, kúlur og aðrar fígúrur sem skraut á jólatré. Þessir litlu hlutir vöktu mikla athygli og eftir að myndir af jólatré Viktoríu Bretlandsdrottningar skreyttu jólaskrauti birtust í bresku dagblaði jukust vinsældir glingursins verulega. Árið 1880 hófst sala glerskrautmunanna í Ameríku í verslunum Woolworths og þá má segja að jólaskrautið hafi orðið að almenningsvöru. Hefðirnar eru eins margar og þær eru mismunandi. Enn í dag tíðkast til dæmis í Danmörku að nota lifandi ljós á jólatréð. Önnur dönsk hefð sem við Íslendingar höfum tileinkað okkur síðustu ár er að safna jólaóróum frá Georg Jensen. Árlega kemur nýr órói eftir danskan hönnuð og hefur gert síðan 1984 og þær eru ófáar íslensku fjölskyldurnar sem eiga þá alla.
Myndin að ofan er úr vörulista sem kom út árið 1936 og er frá Erwin Geyer í bænum Lauscha í Þýsklandi .
Höldum gleðileg jól - Er allt löglegt og öruggt hjá þér ?
Kertaljós
Undanfarin ár hefur notkun kerta aukist stórlega. Engar tölur eru til um brunaslys eða bruna af völdum kerta en samkvæmt könnun sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna lét gera í nóvember 1999 má rekja 25% bruna hérlendis til kerta eða kertaskreytinga. Áætlað er að tjón af völdum bruna nemi árlega tugum milljóna20 – 40 milljónum árlega en einstök ár er þessi tala mun hærri vegna stærri bruna.
Engir staðlar eru til um kerti sem þýðir að engar sérstakar kröfur eru gerðar til framleiðslu og hönnun þeirra. Dæmi eru um að kerti úr sama pakka brenni öll á mismunandi hátt en slíkt heyrir þó til undantekninga. Merkingar og upplýsingar sem fylgja kertum eru einnig afar mismunandi.
Nokkur góð ráð
- Yfirgefið aldrei vistarverur þar sem kertaljós logar
- Látið kerti aldrei loga innanhúss án eftirlits
- Gætið vel að staðsetningu kertaljóss
- Forðist að hafa kerti í dragsúgi
- Vindsveipur eða gegnumtrekkur getur kveikt eld á ný
- Forðist að koma kerti fyrir nálægt opnum glugga þar sem vindur getur sveiflað gluggatjöldum í kertalogann
- Setjið kerti aldrei nálægt tækjum sem gefa frá sér hita s.s. sjónvarpi. Hiti frá tæki veldur aukinni hættu á óhappi
- Hafið eftirfarandi sérstaklega í huga
- Gætið þess að kerti séu föst í kertastjaka og að hann sé stöðugur og öruggur.
- Hafið ekki mishá kerti of nálægt hverju öðru. Hiti frá lægri kertum getur brætt hærri kerti
- Eftir að kertalogi hefur verið slökktur getur ennþá leynst glóð í kveiknum
- Almenn viðmiðun er að hafa a.m.k. 10 cm á milli kerta
- Kertakveikur á ekki að vera lengri en 1 cm. Klippið af kveiknum svo að ekki sé hætta á að logandi kveikur detti af og brenni út frá sér.
- Treystið því aldrei að sjálfslökkvandi kerti slökkvi á sér sjálf.
- Kennið börnum að umgangast kertaljós
- Fyrir börn hefur kertaljós séstakt aðdráttarafl. Brýnið fyrir börnum að fara ætíð varlega með eld og gætið þess að börn leiki sér ekki án umsjónar nálægt logandi kertum
Hvernig á að slökkva á kerti
Aldrei má hella vatni á kerti, sérstaklega ekki útikerti. Best er að slökkva á kerti með því að nota kertaslökkvara. Þó eru til dæmi þess að áfram hafi rokið úr kveik kerta lengi á eftir að loginn var kæfður. Reykurinn er í sjálfu sér skaðlaus en fylsta ástæða til þess að hafa þetta í huga þegar slökkt er á kerti.
Til þess að öruggt sé að eldur lifi ekki lengur í kertakveik og að vistarverur fyllist ekki að reyk geta neytendur slökkt með kertaslökkvara og síðan lagt blautan fingur utan um kertakveikinn.
Kertastjakar
Kertastjakar verða að vera úr óbrennanlegu efni sem leiðir ekki hita og eru stöðugir. Ekki öll ílát eru heppileg til nota sem kertastjakar og falleg glös eða ílát sem eru ekki sérstaklega ætluð undir kerti t.d. vermikerti þola e.t.v. ekki hitann frá kertinu. Notið því ekki hvað sem er undir keti.
Kertaskreytingar
Kertaskreytingar eru vinsælar en einnig eldfimar. Hafið kertaskreytingar ætíð á óeldfimu undirlagi t.d. úr gleri eða málmi og gætið að því að kertaloginn nái ekki til skreytingarinnar. Kerti brenna mishratt, jafnvel kerti úr sama pakka en oftast eru upplýsingar um brennslutíma á umbúðum kertanna sem gagnlegt er að kynna sér. Á markaðnum er einnig fáanleg eldtefjandi efni til að úða yfir skreytingar þannig að minni hætta er á eldsvoða ef kertalogi berst í skreytinguna. Margir kjósa að föndra eigin skreytingar eða jafnvel bara skreyta kerti ein og sér. Nokkuð hefur færst í vöxt að líma servéttur sem skraut utan á kerti. Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu mælir ekki með slíku skrauti sökum eldhættu. Dæmi eru um að kviknað hafi í kertum sem eru með áföstu skrauti s.s. vanilustöngum, barri eða berjum þegar vaxið fer bráðnar og logi kertsins náið í skrautið.
Gelkerti
Gelkerti eru í glösum og í botni þeirra er ýmis konar skraut t.d. glimmer eða skeljar. Þetta skraut getur flotið upp þegar gelið í glasinu hitnar og verður fljótandi og því getur skrautið orðið að auka kveik eða einfaldlega brunnið þegar gelið brennur niður. Gætið þess því að staðsetja gelkerti á öruggu undirlagi. Gelkerti eru mjög heit lengi eftir að slökkt hefur verið á þeim og því er mikilvægt að þau séu ávallt staðsett þar sem börn ná ekki til, sérstaklega gelkerti sem eru með skrauti sem höfðar til barna.
Sjálfslökkvandi kerti
Til eru nokkrar gerðir af sjálfslökkvandi kertum. Kertin eiga að á sér sjálf þar sem kveikurinn endar. Minni gerðin af sjálfslökkvandi kertum eiga að hafa 1 cm slökkvihæð (kerti ætluð á jólatré) en slökkvihæðin fyrir önnur kerti er 2 cm. Notendur verða þó ætíð að hafa í huga að engin trygging er fyrir því að kertin slökkvi á sér sjálf og því ber að varast að treysta á það að þau slökkvi á sér sjálf t.d. ef sjálfslökkvandi kerti notuð í aðventukransa.
Kúlu- þríhyrnings og fígúrukerti
Kerti sem hafa slíka lögun eru afar viðkvæm fyrir trekk og við slíkar aðstæður brennur vax þeirra hraðar en um venjuleg kerti er að ræða. Slík kerti verða því að vera á tryggu undirlagi sem engin hætta er á að kvikní í útfrá. Kveikurinn getur losnað, flotið með vaxinu og haldið þannig áfram að brenna á borði ef því er að skipta.
Húðuð kerti
Um er að ræða kerti sem eru húðuð með t.d. gull- eða silfurhúð. Húðuð kerti eiga það til að ósa meira en venjuleg kerti. Einnig eru dæmi um að húð slíkra kerta bráðni utanaf kertunum. Fylgist því vel með kertunum og slökkið strax ef þau byrja að ósa.
Vermikerti / sprittkerti
Eru um margt frábrugðin venjulegum kertum og þurfa sérstakrar aðgæslu við. Vaxið í þeim verður fljótandi stuttu eftir að kveikt er á kertinu og því er ekki ráðlegt að færa það úr stað meðan logar á kertinu. Látið slík kerti ætíð brenna út af sjálfu sér eða slökkvið með kertaslökkvara. Notið aldrei vatn. Gætið þess að hafa vermikerti í kertastjaka sem þolir háan hita. Setið vermikerti aldrei beint á dúk eða borð.
Útikerti
Varasamt er að setja fleiri en eitt útikerti þétt saman og kveikja á þeim þannig. Útikerti skal undantekningarlaust standa á óbrennanlegu undirlagi og aldrei á tréplötu, trépall eða öðru auðbrennanlegu undirlagi. Útikerti loga flest eingöngu á kveiknum en þó eru til kerti sem allt yfirborð vaxins logar. Þá getur loginn náð allt að 50 cm hæð og slegist til í allar áttir. Snertið aldrei form útikerta með berum höndum. Eldur getur blossað upp ef vatn eða snjór slettist á vax kertisins. Æskilegt er að koma kertum þannig fyrir að þau sjáist vel, þar sem ekki er hætta á að börn og fullorðnir reki sig í þau. Þeir sem klæðast víðum fatnaði þurfa að gæta sérstkrar varúðar í nánd við slík kerti.
Kertaljós út frá umhverfissjónarmiðum.
Kertaljós eru hluti af því notalega andrúmslofti sem flestir tengja við jólin, en kerti eru samt alls ekki öll jafn notaleg með tilliti til heilsunnar og umhverfisins. Þess vegna skiptir miklu máli hvernig kertin eru valin. Almennt talað er um tvo valkosti að ræða varðandi hráefni til kertaframleiðslu, annars vegar hráolíuafurðir og hins vegar afurðir úr dýra- eða plöntufitu. Parafín er enn langalgengasta hráefnið, en það er unnið úr olíu og hefur alla sömu galla og hver önnur jarðolía frá umhverfislegu sjónarmiði. Þegar parafínkertum er brennt er gróðurhúsalofttegundum sleppt út í andrúmsloftið, auk þess sem brennslunni fylgir sótmengun sem getur verið óholl fyrir þá sem dvelja til lengri tíma við parafínkertaljós í lítt loftræstum vistarverum. Kerti úr olíulausa flokknum, eru almennt mun ákjósanlegri frá umhverfislegu sjónarmiði, þó að uppruninn sé vissulega misjafn. Í þennan flokk falla kerti úr sojavaxi, býflugnavaxi og tólg, svo eitthað sé nefnt. Algengasta hráefnið er þó stearín, sem er blanda af þremur mismunandi fitusýrum úr lífríkinu.
Stearín er ekki það sama og Stearín í sumum tilvikum er stearín til dæmis framleitt úr pálmaolíu, sem er fengin úr pálmatrjám sem ræktuð hafa verið á svæðum þar sem áður voru regnskógar. Slíkt stearín er líklega engu betra en olíuafurðir frá umhverfislegu sjónarmiði. Þegar við förum út í búð að kaupa kerti, þá er okkur vandi á höndum, því að það er ekki endilega nóg að velja stearínkerti. Besta leiðin til að þekkja „gott stearín“ frá „vondu stearíni“, er að kaupa Svansmerkt kerti. Til þess að kerti fái Svansvottun þurfa a.m.k. 90% hráefnanna að vera endurnýjanleg, sem þýðir m.a. að kerti úr parafíni geta ekki fengið vottun. Ilmefni eru ekki leyfð í Svansmerktum kertum, þar sem þau geta verið ofnæmisvaldandi, nokkur önnur óholl og mengandi efni eru líka á bannlista, og einnig eru gerðar kröfur um hámarks sótmengun. Svonefnd teljós, sem aðrir kalla sprittkerti, geta fengið vottun ef þau uppfylla fyrrnefnd skilyrði, en þó því aðeins að þau séu seld án hulsturs, eða þá í hulstri sem brotnar niður í náttúrunni eða er notað aftur og aftur til sömu nota. Þannig getur teljós í álbakka ekki fengið Svaninn, jafnvel þótt álbakkanum sé að sjálfsögðu skilað í endurvinnslu að notkun lokinni.
Framboð á Svansmerktum kertum hefur aukist mjög hratt á síðustu 5 árum, þ.e.a.s. frá því að fyrstu Svansmerkin voru límd á kertapakka í kertaverksmiðju Delsbo Candle í smábænum Delsbo skammt utan við Hudiksvall, 350 km norðan við Stokkhólm. Síðan þá hafa margir kertaframleiðendur fengið leyfi til merkja vörurnar sínar með Svaninum.
Annar góður valkostur fyrir meðvitaða kertakaupendur er að kaupa endurunnin kerti, t.d. frá vernduðum vinnustöðum á Íslandi. Þessi kerti eru framleidd úr kertaafgöngum, sem annars hefði verið hent. Efnið er auðvitað af misjöfnum uppruna og hollustan eftir því misjöfn, en þessi framleiðsla skapar í öllu falli störf fyrir fólk sem á líklega ekki marga annarra kosta völ á vinnumarkaði. Og svo standa auðvitað íslensku tólgarkertin alltaf fyrir sínu.
Það er mælt með því að við höldum öllum kertaafgöngum til haga. Þeim er hægt að skila í sérstakar tunnur á gámastöðvum víða um land, og einstaka bensístöðvar OLÍS líka við kertaafgöngum. Allir þessir afgangar nýtast í endurvinnslu. Til að fara út í aðeins meiri smáatriði, þá skiptir kveikurinn í kertunum líka máli þegar rýnt er í umhverfisvænleika þeirra. Yfirleitt er kveikurinn úr bómull, en erfitt er að gefa einhverja forskrift að því hvaða kveikir séu bestir. Aðalatriðið er auðvitað að kveikurinn gefi eðlilegan loga og sem minnst sót. Bómullarkveikir í Svansmerktum kertum verða að vera úr Ökotex-vottaðri bómull, og þar eru málmþræðir í kveikjum alfarið bannaðir. Hér kemur Svanurinn því aftur í góðar þarfir.
Heimildir:
RÚV – Stefán Gíslason
Vísindavefurinn.
Jólaljós og rafmagnsöryggi
Jólin eru hátíð ljóssins og þá er kveikt á fleiri ljósum og lengur en aðra daga ársins. Hluti af undirbúningi jólanna á að vera að ganga úr skugga um að þau ljós sem nota á séu í góðu lagi. Óvandaður, skemmdur og rangt notaður ljósabúnaður getur valdið bruna og slysum.
- Látum aldrei loga á ljósum á jólatréinu yfir nótt eða þegar við erum að heiman.
- Hendum gömlum jólaljósum sem eru úr sér gengin
- Notum ætíð ljósaperur af réttri gerð, stærð og styrkleika
- Gætum þess að brennanleg efni séu ekki nálægt jólaljósum
- Óvarinn rafbúnaður getur valdið raflosti
- Vörum okkur á óvönduðum jólaljósum
- Inniljós má aldrei nota utandyra
ENGIN JÓLALJÓS eru svo örugg að hægt sé að útiloka íkveikju af þeirra völdum. Varasamt er að láta loga á jólaljósakeðjum (jólaseríum), sem og öðrum jólaljósum innanhúss, yfir nótt eða þegar við erum að heiman. Sérstaklega á það við um ljós á jólatrjám. Flestar nýrri ljósakeðjur til notkunar innandyra eru þannig gerðar að þegar ein pera deyr logar áfram á hinum. Eftir því sem logar á færri perum eykst ljósstyrkur hverrar peru og þar með hitinn. Ljós sem ofhitna geta auðveldlega valdið bruna. Skiptum því strax um bilaðar perur í ljósakeðjum.
ALGENGT er að fólk haldi upp á gömul jólaljós sem eru úr sér gengin. Oft endar þessi hirðusemi með íkveikju eða slysi af völdum ljósanna. Hendum því gömlu ljósunum eða látum fagmann yfirfara þau ef minnsti grunur leikur á að þau séu í ólagi.
ALDREI má setja sterkari peru í ljós en það er gert fyrir. Röng gerð, stærð eða styrkur getur valdið ofhitnun sem leiðir til íkveikju. Til þess að fá örugglega rétta ljósaperu í stað bilaðrar peru í jólaljósi er best að taka ljósabúnaðinn með sér þegar ný er keypt. Sölumenn eiga að vita hvaða perur henta best.
VEGNA hitans sem stafar frá ljósaperum er mikilvægt að alltaf sé nægileg fjarlægð frá ljósi í brennanlegt efni. Rafljós geta t.d. kveikt í gluggatjöldum engu síður en kertaljós.Sýnum sérstaka varúð gagnvart jólastjörnum og öðru pappírsskrauti sem sett er utan um ljósaperur. Ef ljósapera liggur við brennanlegt efni eins og pappír er stórhætta á íkveikju.
ÞEGAR farið er yfir jólaljósin er áríðandi að skipta tafarlaust um brotnar klær og brotin perustæði. Göngum einnig úr skugga um að allar rafmagnsleiðslur séu heilar, að einangrun sé alls staðar í lagi og að ekki sjái í bera víra.
EKKI er til neitt eitt ráð til að ganga úr skugga um hvort jólaljós séu af vandaðri gerð. Vert er þó að hafa í huga að sérlega ódýr jólaljós eru yfirleitt ekki eins vönduð og dýrari ljós af sömu gerð. Gæði og öryggi fara saman í þessu sem öðru.
JÓLALJÓS utandyra eiga að vera sérstaklega gerð til slíkrar notkunar. Á öllum jólaljósum eða umbúðum þeirra, sem seld eru hér á landi sem inniljós, á að standa á íslensku að þau séu eingöngu til notkunar innanhúss. Að nota inniljós utandyra getur verið lífshættulegt.
ÚTILJÓSAKEÐJUR sem ekki eru tengdar við spennu-breyti (12V-24V) eiga að vera vatnsvarðar. Brýnt er að perur útiljósa vísi ávallt niður svo að ekki sé hætta á að vatn safnist í perustæðin. Einnig er mikilvægt að festa útiljós vandlega þannig að perur geti ekki slegist við og brotnað.
LOGANDI kerti eru vitaskuld alltaf varasöm en komist þau í kynni við rafmagn er hætta á ferðum. Því er brýnt að láta kerti aldrei standa ofan á raftækjum eins og sjónvarpi eða hljómflutningstækjum. Kertið getur brætt sér leið niður í tækið og kveikt í því. Einnig getur kveikurinn fallið logandi af kertinu ofan í tækið eða vax lekið niður í það og valdið íkveikju.
Góður siður er að skipta um rafhlöður í reykskynjurum fyrir jól.- Höldum gleðileg jól.
Val á leikföngum
Ert þú að kaupa leikföng sem hæfa aldri og þroska barns?
Börn hafa ekki þroska til þess að meta hvort leikföngin þeirra eru örugg eða ekki. Kaupendur leikfanga verða því að vera vel á verði, skoða varúðarmerkingar vel, lesa og fara eftir leiðbeiningum en síðast en ekki síst velja leikföng sem hæfa aldri og þroska barns.
Hér að neðan koma nokkur góð ráð til kaupenda sem vert er að hafa í huga við val á leikföngum:
Börn yngri en 3ja ára
Lítil börn smakka á öllu, líka leikföngum.
Þetta merki þýðir að leikfangið hæfir ekki barni yngra en 3ja ára.
Gætið sérstaklega að því að leikföng hafi ekki hvassar brúnir eða hvöss horn.
Varist leikföng eða aðrar vörur sem líkjast matvælum en eru í raun úr gúmmí eða plasti, ung börn geta sett þau upp í sig með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Annað sem ber að hafa í huga
Spilandi tækifæriskort og jólasveinahúfur
Leikföng sem gefa frá sér há og hvell hljóð eiga að vera með viðvörunarmerkingu þess efnis að leikfangið eigi ekki að bera upp að eyra, þar sem það getur skaðað heyrn.
Snúrur og bönd í leikföngum mega ekki vera lengri en 22 cm.
Gætið þess vel að áfastir hlutir á leikföngum s.s. augu, hár og nef séu vel föst.
Gangið frá plastumbúðum utan af leikföngum áður en barnið fær þau í hendur.
Spilandi jólakort og blikkandi jólasveinahúfur eru ekki við hæfi yngri barna þar sem rafhlaðan getur losnað og valdið köfnunarhættu.
Sömu reglur gilda um leikföng sem keypt eru í Netverslunum og út í búð.
Ef kaupendur telja að vara uppfylli ekki kröfur og að hún sé hættuleg eru þeir hvattir til þess að hafa samband við markaðsgæsludeild Löggildingarstofu, í síma 510 1100 eða ls@ls.is
Leikföng sem ætluð eru börnum yngri en 14 ára eiga að vera merkt. Merkið er ekki öryggisstimpill heldur til staðfestingar þess að varan uppfylli öllum skilgreindum kröfum sem gerðar eru til framleiðslunnar. Með því að gera ákveðnar kröfur til hönnunar og framleiðslu leikfanga er leitast við að koma í veg fyrir að þau valdi slysum á börnum.
Nokkuð hefur færst í aukana að rafhlöður séu í tækifæriskortum s.s. jólakortum. Slík kort spila lag þegar þau eru opnuð og höfða því augljóslega til barna. Gætið þess vel að rafhlaðan sé vel föst og að ung börn geti ekki náð til að fjarlægja hana úr kortinu. Til sölu eru einnig húfur fyrir börn s.s. jólasveinahúfur sem eru með ljós sem blikka og rafhlöðu. Slíkar húfur eru ekki ætlaðar börnum yngri en 3ja ára sökum smáhluta og eiga að bera merkingu þar af lútandi.
Að kaupa leikföng á Netinu
Leikföng sem keypt eru á Netinu eiga að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru annarra leikfanga sem markaðssett eru hér á landi. Allar viðvörunarmerkingar s.s. aldursviðvörun á leikföngum á að vera sýnileg þegar kaup fara fram. Allar frekari upplýsingar um öryggi leikfanga og þær kröfur sem gerðar eru til markaðssetningu leikfanga hér á landi veitir:
Markaðsgæsludeild Löggildingarstofu – Sími: 510 1100