Jólafrásagnir og bernskuminningar

Á jólaföstu 2005

Það var allt á rúi og stúi í búningsklefanum. Klukkan var orðin átta og skólasundið að hefjast. Í klefanum var fjöldi stelpna á aldrinum sjö til níu ára og körfur, fatnaður og sundföt þvældust milli fóta þeirra um gólfið. Tilvalið ástand til að láta fara í taugarnar á sér ef maður vildi eyðileggja fyrir sér daginn.

Ég tók fljótlega eftir þremur vinkonum sem fóru sér að engu óðslega enda þótt ,,sturtukerlingin“ eins og hún var kölluð í mínu ungdæmi, ýtti látlaust á eftir þeim og skipaði fyrir um hegðun í búningsklefa og sturtum. Líka tilvalið ástand til að láta fara í taugarnar á sér, enn í dag. Þær voru að sýsla og rísla með sápur og sundboli þegar ég hljóp út í laug. Fljótlega hafði unglingahópur einnig bæst í hóp sundgesta; strákar og stelpur á aldrinum fimmtán til sautján ára. Dásamlegt að synda í desembermyrkrinu með einstaka stjörnu á himni; allt þetta fólk í kring en samt svona alein.

Þegar ég kom uppúr voru vinkonurnar þrjár enn komnar í sturturnar og skiptust nú á sjampóum og góðum ráðum. Skyndilega fóru þær að syngja fullum hálsi ,,Klukkurnar dinga linga ling“. Þær gerðu nokkrar atrennur að dinga linga ling með yfirrödd og það ómaði eins og í kirkju þarna í sturtunum. Hversdagurinn var að breytast í hátíð. Skömmu síðar vorum við saman á þurrksvæðinu og stóru stelpurnar voru farnar að tínast í sturturnar. Við stóðum þarna, ég og vinkonurnar þrjár, hver með sitt handklæði að stússast, þegar þær brustu enn í söng. Ég spurði hvort þær hefði verið að æfa sig að radda jólalögin í skólanum. Þær játtu því um leið og þær hófu enn upp raust sína og nú með ,,Er lækkar á lofti sólin, þá koma bráðum jólin. Við fögnum í friði og ró. Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó.“ Þá gerðist hið óvænta. Stóru stelpurnar í sturtunum tóku undir og úr varð stelpukór, eldri og yngri, sem allar sungu af gleði og innlifun um ,,Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó“. Þetta var engu líkt, nema bíómyndasenu, úr amerískri bíómynd. Og þarna stóð ég með handklæðið mitt og hamingjan seytlaði um mig á föstudagsmorgni á jólaföstu 2005.

Svanfríður Inga Jónasdóttir.

Rafmagnslaust

Eitt það eftirminnanlegasta sem ég man eftir var þegar það var rafmagnslaust á jóladag. Það var búið að vera brjálað veður og mikill snjór. Ég átti þá heima á æskustöðvum mínum sem er í sveit í Borgarfirði. Mamma þorði ekki öðru en að vera búin að sjóða hangikjöt og kartöflur á þorláksmessu, því að það kom fyrir að rafmagnið fór. Svo þegar klukkan var hálfsex á jóladagskvöld, fór rafmagnið. Mér fannst það í fyrstu ekkert sniðugt og eiginlega hálfpartinn myrkfælinn. En þetta reddaðist allt saman. Og þetta var hátíðlegasta jólakvöld sem ég man eftir. Og mjög friðsamlegt. Svo fékk ég kerti og las bók sem ég fékk í jólagjöf um kvöldið og svo þegar við vorum að fara að sofa, kom rafmagnið aftur. En mér þótti það hálfpartinn leitt.

Kær Kveðja Inga Sigríður Ingvarsdóttir Borgarnesi

Kápur bokin.is – Albumm.is – glatkistan .is og eigin skönnun

Jólasvuntan

Margt kemur upp í hugann þegar hugsað er til baka til liðinna jóla og bernskujólin hafa oftast vinninginn með sína sérstöku birtu og yl.

Á mínum bernskujólum var ekki rafmagn á heimilinu og ljósfærin vour 8-lína lampar sem kallaðir voru og svo stór Aladinlampi í eldhúsinu og stundum kom pabbi inn með gasluktina og þá varð sko skjannabjart. Um jólin bættust svo kertaljósin við og þau gerðu allt svo hátíðlegt.

Við systkynin, öll sjö, biðum jólanna með óþreyju eins og öll önnur börn og við áttum sérstakt jóladagatal -alls ólíkt jóladagatölum nútímans,en það var kartöflugrís. Þann 30. nóvember var grafið í kartöflupokann og fundin stærsta kartaflan og ein minni. Litla kartaflan var notuð fyrir haus á grísinn og sú stóra fyrir búkinn og á hana voru settar 24 eldspýtur – lappirnar á grísinn og síðan var tekin ein á dag þar til búið var að taka allar eldspýturnar og þá voru líka jólin komin. Við skiptumst á að taka elspýturnar af og það var kúnst að láta grísinn standa með sem fæstar lappir en einhvernveginn tókst það aldrei þegar aðeins tvær lappir voru eftir. Ein jól standa upp úr í minningunni en það eru jólin sem mamma hló sem mest. Ekki það að hún hafi aldrei hlegið mikið því hún er ákaflega glaðsinna og hlær oft mikið og dátt og verður þá alveg máttlaus og getur sig hvergi hrært. 

Þannig háttaði til í mínum heimahögum að kvenfélagskonur héldu alltaf basar rétt fyrir jólin og þá gáfu náttúrulega allar konurnar eitthvað stórt eða smátt á basarinn og svo fóru allir og keyptu eitthvað á basarnum sem gott var að gefa í jólagjöf. Móðir mín var sem sé í kvenfélaginu og gaf á basarinn að venju og í þetta skiptið saumaði hún meðal annars forláta svuntu sem hún gaf. Segir ekki meira af svuntunni þar til á aðfangadagskvöld. Þá erum við börnin búin að taka upp okkar pakka og mamma situr með einn pakka í kjöltu sér.

Hún tekur pakkann upp og þuklar hann og það birtast brosviprur á andlitinu. Svo opnar hún pakkann, sem var mjúkur og sívalur, í annan endann og stingur hendinni inn undir bréfið og þreifar á innihaldinu og svo kemur hláturinn. Hún sat þarna í stólnum og réri fram og aftur og hló og hló. Við systkynin horfðum á hana stórum augum og spurðum hvert í kapp við annað: „Hvað er svona fyndið “ ? Loksins þegar hún gat stunið upp orði fyrir hlátri þá sagði hún: „Haldiði að amma ykkar hafi ekki gefið mér svuntuna sem ég saumaði og gaf á basarinn“. Og þá voru fleiri sem tóku undir hláturinn og oft síðan er búið að minnast á svuntuna sem mamma gaf á basarinn, en þó ég ætti lífið að leysa þá man ég ekki hvernig svuntan sú arna leit út.

Þuríður Sigurðardóttir. Dalvík.

Jólaólétt

Jól eru minn uppáhaldstími og í minningunni eru jólin alltaf æðisleg. Þó á ég tvö alveg dásamleg augnablik sem gleymast seint. Jólin þegar ég var ólétt af Þórdísi dóttur minni voru alveg hrikalega fyndin og það er enn verið að gera grín að mér í familíunni. Frúin var nefnilega frekar viðkvæm á þessu stigi meðgöngunnar og það mátti hreinlega ekkert út af bera svo tárin færu nú ekki að flæða. Eftir að ég og maðurinn minn vorum búin að fara rúntinn með pakka og jólakort þá héldum við heim á leið og ég hlakkaði ógurlega til að opna hurðina heima hjá mömmu og pabba og finna hangikjöts og rauðkálsilminn taka á móti mér og mínum. Sú varð nú ekki raunin þar sem þau voru í kirkjugarðinum. Ég varð alveg rasandi bit, skildi ekkert í því hvar mamma væri eiginlega, klukkan farin að ganga sex og engin heima. Ég hringdi í ofboði til systur minnar og yfirheyrði hana um málið, hún sagði mér að þau væru rétt farin frá sér og væru á leið í kirkjugarðinn og þaðan heim. Mér var stórlega misboðið, hvað var mamma að þvælast þetta, hún átti að vera að gera jólin til, hún hefur aldrei áður farið í þessa reisu með pabba, hvað eiginlega í ósköpunum er að gerast hugsaði ég og litla frekjan náði tökum á mér svo um munaði. Maðurinn minn fékk engu tauti við mig komið og taldi ráðlegast bara að leyfa frúnni að losa hormónapokan. Ég rölti mér upp á efri hæðina til að leyta nú af mér allan grun og þar fann ég bræður mína tvo, sofandi eins og jólin væru á morgun og þá var mér allri lokið, tárin tóku að streyma og ég gargaði á þá eins og ég væri 14 ára að tapa mér. Þeir hrukku upp af værum svefni hinna réttlátu og vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Ég hljóp í mikilli dramatík niður, hágrátandi og fór að taka mig til og þegar foreldrar mínir komu heim sat ég við eldhúsborðið með tárin streymandi og var að reyna að setja á mig maskara. Mamma hélt að einhver hefði dáið og þegar þau svo áttuðu sig á því um hvað málið snérist gátu þau ekki annað en farið að skellihlægja og á endanum gat ég ekki annað heldur.

Græn jól

Þessi jól, sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér, var ég stödd í Kristjaníu í Kóngsins Kaupmannahöfn. Ég var að heimsækja Beggu vinkonu mína ásamt Gísla vini okkar. Begga hafði heyrt af því að öllum námsmönnum og öðrum þurfalingum væri boðið í mat þar á vegum hins Danska Hjálpræðishers. Við ákváðum að slá til og hittum þar fjöldan allan af frábæru fólki, íslenska námsmenn og fleiri. Á boðstólnum voru allskyns kræsingar, svínakjöt, lambakjöt og grænmetisréttir handa þeim sem það vildu ásamt öllu því meðlæti sem þessu fylgir. Ég má þó til með að segja að heimatilbúna rauðkálið hennar mömmu og ORA er að mínu mati mun betra en hið danska.

Forrétturinn var alveg hrikalega krúttlegt hunangsbolluhjarta sem búið var að setja við hvern disk og eftirrétturinn var að sjálfsögðu „Ris a la mande“ með smjöri og einhverju sultutaui.

Þetta var hinn mesti herramannsmatur og ekki skemmdi að vera þarna innan um alla litaflóruna af mannfólki og hundum. Þó stendur ein ung kona alltaf upp úr. Hún kom og settist hjá okkur og heilsaði okkur eins og við værum hennar ástkæru ættingjar. Hún var með grænt hár og „ég veit ekki hvað“ marga klúta um höfuð og herðar. Hún fór að rekja ævisögu sína og það má víst með sanni segja að litla stúlkan með eldspíturnar fölnaði við hliðina á henni. Þvílík raunasaga, maður minn, búin að eiga og missa í hendur félagsyfirvalda 4 börn og það yngsta 3 mánaða, enda stelpu greyið ekki í neinu ástandi til að ala upp börn. Hún sagði okkur sína drauma og það sem hana langaði mest af öllu í heiminum var að geta gefið börnunum sínum jólagjafir og svo að fara til Frakkland og læra að spila á gítar.

Við félagarnir sátum og hlýddum á sögu hennar á meðan við borðuðum og allan tímann var hún að gera hlé á sögu sinni, hlaupa og sækja meira handa okkur, og öllum hinum í kringum okkur, að borða og passaði upp á að allir fengju nú nóg. Og ekki nóg með það heldur tók hún líka til við það að þrífa alla öskubakka sem hún sá og hún var sko ekkert að flækja hlutina, hrækti bara duglega í öskubakkann, þurrkaði með hálsklútnum sínum, skellti honum svo á sig aftur og brosti sínu blíðasta og sagði: jæja, allt orðið hreint og fallegt hjá okkur. Við göptum bara á þessa ótrúlegu manneskju sem mátti nú muna sinn fífil fegri en var samt að springa úr kærleik og góðsemi. Svo fór hún eitthvað afsíðis blessunin og þegar hún kom til baka var augljóst að hún hafði innbyrgt eitthvert óþverrans eiturlyf og var orðin heldur skrautlegri í móðurhlutverkinu sem hún tók mjög alvarlega, hún varð að passa alla þarna inni og við erum að tala um mörg hundruð manns. Svo allt í einu stendur hún upp á stól og fer að syngja á sinni ilhýru dönsku: Jesus skal gifte sig i dag. Einhver góðlegur hjálpræðishersafi með skegg kom og talaði við hana og leiddi hana eitthvað afsíðis.

Svo hófst söngur við harmonikku og gítar undirleik þeirra Hjálpræðishersmanna og kvenna og undirstrikaði það alveg þann hátíðleik og dásamlega jólaanda sem þarna ríkti.

Það síðasta sem við sáum af þessari grænhærðu góðlegu stelpu var þegar hún ruddist upp á svið og hóf að syngja áður nefnt lag um giftingu Jesú.

Ég upplifði þarna eitthvað sem ég hef hvorki fyrr né síðar upplifað. Þarna áttaði ég mig á því hvað ég hef það gott og á góða að. Það er víst alveg ábyggilegt að ég hef ekki yfir neinu að kvarta enn sem komið er í þessu lífi. Ég vona bara að grænhærða vinkona okkar verði heppnari í því næsta því ég er alveg viss um að hún ræður ekki við fíkn sína í þessu lífi, hún bar það bara með sér blessunin.

……og elskumst um jólin!

Hera Björk

Lítil töfraveröld

Þegar fólk talar um skemmtilega viðburði , atburði, sem jólum tengjast detta mér alltaf í hug jólin, þegar faðir minn gaf stjúpmóður minni -konu sinni, forláta jólaljós í jólagjöf. Ásamt boxi sem innihalda átti hina fegurstu mynd, en innihélt spegil. Þetta fannst mér afskaplega falleg gjöf, en svona átti þetta víst samt ekki að vera.

Ég ákvað að eyða jólunum heima á Dalvík með föðurfjölskyldu minni sem var ört stækkandi. Allur undirbúningur var í hámarki þegar ég kom með son minn með mér að sunnan á Þorláksmessukvöld. Allir gengu heldur seint til náða, og við pabbi minn ákváðum að í fyrramálið skyldum við vakna eldsnemma og skreppa „í bæinn,“ eða til Akureyrar.

Ég átti eftir að koma af mér nokkrum gjöfum og kortum til ættingja og vina þar innfrá svo og kaupa eitthvað smáræði. Hann var þéttsetinn litli bíllinn hans pabba þegar lagt var eldsnemma af stað á aðfangadagsmorgun. Fleiri af systkynum mínum höfðu slegist í hópinn til að sinna síðustu jólaerindunum. Einhver þurfti að kaupa sér nýja flík, aðrir áttu eftir að versla eitthvað fallegt handa vinum og ættingjum. Hvaða erindi faðir minn átti, vissi ég sosum ekki en taldi víst að hann ætlaði að skreppa í Hagkaup eða eitthvað slíkt. Við ruddumst í búðir á slaginu níu. Ég held, svei mér þá, að flestar verslanir Akureyrar hafi verið þræddar fram að hádegi. Pabbi ók okkur yfirmáta þolinmóður á milli staða og beið oftast nær í bílnum. Á milli ellefu og tólf þegar búið var að sendast með alla pakka og kort hingað og þangað um bæinn, var bílnum lagt á stæði í miðbænum og pabbi lagði sig í bílnum á meðan að við „krakkarnir“ skruppum að fá okkur pylsu og skanna búðirnar ögn betur. Ákveðið var að hittast við bílinn á lokunartíma, sem var kl 1300 að mig minnir.

Það gekk eftir og lagt var af stað til baka skömmu síðar. Við vorum öll hálf uppgefin eftir verslunar-æðið og ræddum okkar á milli hvað keypt hafði verið og skoðað, og sungum nokkur lög, eins og við gerum oftast þegar við komum saman, systurnar. Þegar Moldhaugnahálsinn var að baki, spurði eitthvert okkar pabba, hvort hann hafi ekkert verið orðinn pirraður á að bíða og hvort hann hafði ekki getað lokið erindum sínum.

Bifreiðin var stöðvuð all-harkalega og ég ætla ekki að hafa þann munnsöfnuð eftir sem ruddist út úr annars dagfarsprúðum föður mínum. A.m.k. ekki svona rétt fyrir hátíðirnar. Eitthvað mikið hlaut að hafa gerst. Slík voru geðbrigðin.

Hann pabbi hafði nefninlega átt erindi til Akureyrar þennan aðfangadagsmorgunn. Hann var að fara að kaupa jólagjöf handa konunni sinni heittelskuðu. Sennilega skartgrip, eða annað fallegt. Gallinn var bara sá að hann hafði steingleymt því, og nú voru allar búðir lokaðar.Hann var sjálfum sér, -að vonum, sárreiður. Nú voru góð ráð dýr. En eftir miklar vangaveltur og bollaleggingar, var ákveðið að hann skyldi tala við fyrrverandi grannkonu sína sem rak og rekur blómabúð bæjarins, og biðja hana um að sjá aumur á sér, og opna fyrir sér búðina. Að sjálfsögðu varð þessi ágæta kona við ósk föður míns, og úr varð að hann kom heim með lítinn pakka. Við vorum ákaflega spennt að sjá hvað í honum var. Ég var jafnvel enn spenntari yfir honum en mínum eigin gjöfum, vegna þess að ekkert hafði fengist upp úr þeim gamla. Hann var ákaflega leyndardómsfullur.  Þegar frúin svo tók utan af pakkanum, blasti við þessi líka fallega gjöf. Lítil, en svo ótrúlega falleg. Jólaljós sem var eins og lítil töfraveröld og skipar síðan heiðurssess í glugga hjá foreldrum mínum, til vitnis um þennan sérstaka dag. Daginn sem pabbi ætlaði að gleðja konu sína með fallegri gjöf, sem varð enn fallegri fyrir alla fyrirhöfnina.

Gleðileg jól  –  Ylfa Mist og fjölskylda

Sjá þegar þau koma

Ég ætla nú að senda  þér smá jólasögu í sambandi við jólabarn okkar ungu hjóna (þá). Við vorum að byggja eins og gerðist á þessum árum, fluttum inn í fokhelt hús, svo á aðfangadag, ætli það hafi ekki verið ´69 er verið að stússast eins og gengur, allt á fullu. Ég segi við manninn,  hvar er drengurinn, ég veit ekki segir hann, allt jólastúss dettur niður og við förum að leita, við finnum drenginn út við glugga innan um hinn og þennan smíðavið, ég segi:“ Hvað er þetta drengur,við vissum ekki hvar þú varst  ? „

nei mamma svarar hann og augun ljóma eins og stjörnur „ég ætla að sjá þegar þau koma“. Þau hver spyr ég eins og auli .“ Nú jólin“ mamma er svarað .

Já svona var þetta í þá daga 

–  Ólöf Óskarsdóttir

Sá eftir því ...

Mig langar að segja ykkur frá jólunum mínum þegar ég var 9 eða 10 ára gömul, en mig minnir að það hafi verið árið 1987. Þannig er að við erum 2 yngstar systur af 4 og erum mjög nánar, aðeins 3 ár á milli okkar. Ég man að á hverjum morgni, 13 dögum til jóla vöknuðum við spenntar til að kíkja í skóinn. Þetta var það allra skemmtilegasta fyrir utan alla pakkana á aðfangadagskvöld. En, einhverra hluta vegna kom upp púkinn í mér og þegar við fengum eitthvert nammi í skóinn þá þóttist ég borða það en geymdi í boxi

í staðinn, án þess að litla systir vissi. Svo kom aðfangadagur, og eftir jólamatinn og gjafirnar þá sótti ég boxið, settist fyrir framan tréð og litlu systur og mmmm…fékk mér nammið! Litla systir fór auðvitað að skæla og mér var alveg sama, ég átti þetta nammi…en svo sá ég að mér og gaf henni með mér. Í marga daga og vikur sá ég svo sárt eftir því að hafa gert henni þetta og hefur þessi atburður kennt mér í gegnum árin að ástvinir skipta öllu máli og jólin snúast um fjölskylduna og samveruna, ekki nísku, stress, öfund eða mont.

María Úlfarsdóttir

Heppni?

Fyrir nokkrum árum var ég einstæð móðir með 3 börn nýlega fráskilin og auralítil ,átti þar að auki að vinna til kl 20 á aðfangadags kvöld. Á þorláksmessu labbaði ég nú heldur niðurlút á leið í vinnuna og var að velta fyrir mér hvernig ég gæti nú helst glatt börnin mín á jólunum ég átti ca 500 kr. sem duga áttu fyrir jólagjöfum og mat svo það var úr vöndu að ráða. Ég gekk framhjá sjoppu og sá að þar var spilakassi ég setti pening í hann, og viti menn það ultu út peningar ,þetta gekk þar til ég var komin með 5000 krónur, svo nú léttist nú brúnin á mér .Ég keypti jólagjafir handa krökkunum og fór í vinnuna, þegar þangað er komið sá ég að það var jólabasar á 1 hæðinni og þar sem ég átti afgang keypti ég 1 happdrættismiða sem á reyndist vera vinningur “ full karfa af jólamat, hangikjöt og allt sem til þarf í jólamatinn “ , mér var nú heldur en ekki brugðið og settist niður og fór að skæla af einskærri gleði. Þannig gat ég haldið jólin hátíðleg og ekkert skorti. Á aðfangadagskvöld voru krakkarnir hjá ömmu sinni á meðan ég var að vinna, en í jólaborðhaldinu í vinnuni fékk ég möndlugjöfina sem var sá stærsti konfektkassi sem ég hef séð.

Þetta eru þau eftirminnilegustu jól sem ég hef upplifað.

Vona að allir eigi góða og gleðilega jólahátíð.

Hrefna Leifsdóttir

Af jólaföstusiðum á Jarðbrú

Fyrsti granni minn í höfuðborginni, sem fékk áþreifanlegan jólafiðring í ár, kveikti á jólaseríu í stofuglugganum hjá sér um miðjan nóvember. Það þótti mér nokkuð snemmt og varð hugsað til Jónsa afa á Jarðbrú. Hann hafði orð á því einu sinni að jólin kæmu snemma í Brekku þegar kveikt var á seríunni undir þakskegginu þar á bæ 21. desember en ekki á Þorláksmessu. Þannig stóð bara á helgi og Brekkubændum þótti viðeigandi að byrja jólin með fyrra fallinu. Því fögnuðum við Jarðbrúarbræður enda boðuðu ljós undir Brekkuþaki að bið eftir jólum væri senn á enda. Afi Jónsi gaf sig aldrei og hreyfði hvorki jólaskraut eða seríur fyrr en á Þorláksmessu, eftir að þulir Útvarpsins voru byrjaðir að senda kveðjur í sýslur og dali. Þá var loksins óhætt að príla upp á borð og stóla á Jarðbrú til að festa músastiga og alls kyns pappírsvafninga í loft og veggi með teiknibólum. Afi sá sjálfur um verkið framan af en gerðist verkstjóri okkar bræðra við jólaskreytingar þegar við uxum úr grasi. Hann hafði samt ævinlega á sinni könnu að festa kúlur neðan í ljósakrónuna í stofunni. Þær voru í fánalitunum, rauðar og bláar, óskaplega fínar en svo brothættar að ekki var fyrir hvern sem er að handleika þær. Svona fánalitakúlur hefi ég ekki séð annars staðar fyrr eða síðar og veit eiginlega ekki hvað um þær varð. Einhvern tíma spurðist ég fyrir um hvort kúlurnar hefðu verið lagðar í kistuna hans ásamt písknum en það var ólíklegt talið. Sennilegra er að okkur bræðrum hafi tekist að stúta þeim smám saman við upphengingar á Þorláksmessu eftir að verkstjórinn var horfinn yfir móðuna miklu.

Afi hafði þann starfa á jólaföstu að kippa ljósakúplum niður, týna úr þeim dauðar flugur og pússa glerið að innan. Þetta var vandaverk. Einu sinni sem oftar bar Tryggva í Brekkukoti að garði. Þeir afi fengu sér kaffi og tár út í og ætluðu svo að hjálpast að við að þrífa flugnaskít í Jarðbrúarljósum. Ömmu leist ekki á blikuna og taldi þá verða að velja um kaffi og kúpla eða kaffitár og enga kúpla. Þeir völdu kaffitár og síðan tárið eintómt en létu látnar flugur bíða um sinn. Alltaf voru flestar flugur í kúplinum á ganginum. Bræður veltu fyrir sér af hverju þær vildu frekar drepast á ganginum en t.d. í svefnherbergjum. Sú gáta er óleyst enn þann dag í dag.

Á fjölda heimila þessa lands er til siðs að rífa upp jólakortin strax og þau berast inn á heimilið með póstinum. Það hefði Jónsa afa þótt álíka guðlast og tendra jólaseríu í nóvember. Á Jarðbrú voru jólakortin geymd í lokuðum umslögum og opnuð við sérstaka athöfn seint á jólanótt, eftir pakkana og eftir biskupinn í Sjónvarpinu. Þetta fyrirkomulag var yfir alla umræðu hafið, svo sjálfsagt var það. Opnun jólakorta hefur alltaf verið sérstök athöfn á jólanótt á mínu heimili eftir að það varð til og frú Guðrún kann því vel. Hún þekkti hins vegar ekki annað heiman frá sér, og á heimilum ættingja og vina, en menn læsu jólakortin þegar þau duttu inn um bréfalúguna. Þannig lifir tiltekinn jólaarfur frá Jónsa á Jarðbrú í hátíðarvenjum afkomandans í Álftalandi 5 í Reykjavík. Okkur þykir hins vegar fullseint að bíða fram á Þorláksmessu með að setja upp seríur í glugga og á grindverk en það gerist samt aldrei fyrr en um miðjan desember. Það held ég að afi fyrirgefi fúslega, einkum og sér í lagi þegar fyrir liggur að jólakort heimilisins eru stimpluð trúnaðarmál þar til kl. 23 á aðfangadagskvöld.

Atli Rúnar Halldórsson frá Jarðbrú.

Eftirminnilegur aðfangadagur

Þessi saga gerðist fyrir nokkrum árum.

Til glöggvunar verð ég að byrja á að lýsa húsinu mínu. Það er tveggja hæða og kjallari undir hluta hússins. Á efri hæð eru eldhús, lítið baðherbergi, stofa og sjónvarpsherbergi. Niðri eru svefnherbergin, þvottahús og baðherbergi.

Það var aðfangadagsmorgunn. Við hjónin erum mikil jólabörn í okkur. Undirbúningur jólanna var nánast búinn. Húsið var allt orðið hreint og hvert herbergi hafði verið skreytt. Það átti einungis eftir að fara í búð að kaupa eitthvað smávegis sem vantaði.

Þennan morgun vöknuðum við klukkan níu. Eldri dætur mínar áttu að mæta í skólann klukkan tíu. Það er siður hér að elstu börn grunnskólans leika jólasveina á aðfangadag og bera út póstinn í leiðinni. Yngri dætur mínar sem voru þá 3 og 6 ára vöknuðu um svipað leiti.

Við fórum allar mæðgurnar á fætur og fengum okkur morgunmat. Þetta var notaleg stund og lá vel á öllum. Davíð maðurinn minn lá áfram í leti inni í rúmi. Eftir morgunmat fóru stóru systurnar af stað í skólann. Yngri stelpurnar fóru að horfa á sjónvarpið og lokuðu sjónvarpsherberginu á eftir sér. Klukkan var farin að nálgast tíu.

Ég ákvað að leggja mig aðeins hjá bónda mínum. Klukkan tíu ákveð ég að drífa mig í búð. Þegar ég er að fara út heyri ég að Davíð fer fram úr rúminu og fer inn á baðherbergi og læsir á eftir sér. Ég þurfti að fara í 2 eða 3 búðir og tók þetta töluverðan tíma. Ég hitti líka einhverja sem ég spjallaði við. Mér lá heldur ekkert sérstaklega á. Ég naut þess líka að vera ein að snúast. Það var enginn suðandi í mér að kaupa þetta og hitt eins og stundum.

Klukkan var um það bil ellefu þegar ég kom aftur heim. Þegar ég var rétt komin inn í þvottahús heyri ég Davíð segja inni á baði: Hvaða voða tíma tók þetta! Það var greinilegt á raddblænum að það lá ekkert sérstaklega vel á honum.

Ég varð nú dálítið hissa því heima var ekkert sérstakt að gera annað en að dáðst að jólaskrautinu. Fljótlega tókst honum þó að koma mér í skilning um að hann væri læstur inni á baði og búinn að vera það í klukkutíma. Auk þess hafði hann ekki verið búinn að klæða sig og stóð því þarna á brókinni. Það var sama hvað hann reyndi að snúa lyklinum, hann haggaðist ekki. Hann var líka búinn að kalla og kalla en dæturnar sem voru að horfa á sjónvarpið heyrðu ekki neitt í honum. Þó er nú maðurinn minn mjög raddsterkur maður. Þær virtust ekki hafa saknað foreldranna mikið. Ég verð nú að viðurkenna að þegar hér var komið sögu þá þótti mér þetta nú dálítið fyndið. Ég lét þó ekki á því bera því Davíð þótti þetta greinilega ekkert fyndið.

Nú upphófust ýmsar tilraunir við að reyna að opna baðherbergið. Hann sendi mér lykilinn undir hurðina. Ég prófaði að opna með honum utanfrá en ekkert gekk. Ég reyndi að sparka í hurðina og skutla mér á hana en alveg sama. Ég prufaði að sprauta saumavélarolíu í lásinn en það dugði ekki heldur. Ekki þýddi að láta Davíð skríða út um gluggann því það passaði enganveginn.

Glugginn er lítill og Davíð stór. Hann var nú farin að kvarta um kulda og vildi fá einhver föt utan á sig. Það var þó ekkert auðvelt. Ekki var hægt að troða fötum undir hurðina. Til þess var rifan undir hurðinni of lítil. Það var því ekki annað ráð en senda honum fötin inn um gluggann. Þar sem kjallarinn er undir þessum hluta hússins þá eru gluggarnir á jarðhæðinni á einni og hálfri hæð. Það þýddi að ég gat ekki rétt honum fötin því ég náði ekki upp. Ég tróð því trefli undir hurðina til hans. Hann átti síðan að láta hann síga út um gluggann. Eins og áður segir þá þótti Davíð þetta ekkert fyndið. Hann var því ekki tilbúinn að láta vegfarendur sjá hvað við værum að bauka. Ég tek það fram að þessi hlið hússins stendur við þjóðveginn til Ólafsfjarðar.

Þegar ég var komin út lét hann trefilinn síga. En þá heyrðist í bíl. Með leifturhraða dró Davíð trefilinn inn aftur og lét sig hverfa úr glugganum. Ég lét sem minnst fyrir mér fara á meðan bíllinn ók framhjá. Í næstu tilraun tókst að senda honum föt inn um gluggann. Við vorum farin að sjá fram á að jólasteikin færi sömu leið til hans klukkan sex!! Ef til vill væri líka hægt að troða laufabrauði undir hurðina.

Við vorum búin að komast að þeirri niðurstöðu ég yrði að saga læsinguna í sundur. Þá á ég við stykkið sem gengur fram þegar lyklinum er snúið. Til þess þurfti ég járnsagarblað. Það var nú ekki til á heimilinu. Klukkan var farin að nálgast tólf. Ég dreif mig aftur í búð og nú til að kaupa járnsagarblöð.

Fyrir utan kaupfélagið hitti ég Línu vinkonu mína. Ég hafði ekki séð hana í nokkrar vikur. Við förum að spjalla saman og mér tókst að steingleyma innilokaða eiginmanninum. Þegar klukkan var rétt að skella í tólf átta ég mig. Þá vorum við búnar að spjalla saman í 10 – 15 mínútur.

Ég dríf mig inn í byggingavörudeildina. Þar er ekki nokkur sála. Allavega var enginn annar að kaupa járnsagarblöð á síðustu stundu áður en jólin gengu í garð. Ég fór síðan heim með feng minn. Eitthvað hafði Davíð það á orði að ég hefði verið lengi. Ég svaraði því til að það hefðu verið margir í búðinni! Við höfðum lent í því að læsingin á svalahurðinni bilaði og þá hafði Davíð notað járnsagarblað til að opna. Þetta hafði tekið einhverja tíma, með hléum. Ég sá nú fram á að dagsverkið mitt yrði að standa þarna og saga.

Þegar ég er rétt byrjuð þá smellur lásinn til baka. Nú var hægt að opna. Heldur var Davíð feginn að losna út af baðinu eftir rúmlega tveggja tíma dvöl þar.

Allt endaði þetta nú vel . Aðfangadagur varð að öðru leyti mjög ánægjulegur. Við höfum stundum skemmt okkur yfir þessu ævintýri síðar. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem ég sagði Davíð hvers vegna ég var svona lengi að kaupa járnsagarblaðið.

Vilborg Björgvinsdóttir Dalvík

Aðventuþankar

Hér á eftir ætla ég að segja frá því þegar stressið vék fyrir ánægjunni af aðventunni og ég komst að því að jólin koma hvað svo sem maður gerir eða gerir ekki.

Jólaundirbúningur og jólahald er líklega svipað frá ári til árs hjá allflestum og hefur trúlega verið, er og verður, með mörg ykkar eins og var hjá mér hér á árum áður (nú hefði yngsti fjölskyldumeðlimurinn sagt að ég væri nú ekki SVO gömul ) en þá voru jólafötin saumuð á tvö til þrjú börn og sjálfan sig líka.

Ekki nóg með það, jólakortin heimatilbúin og jafnvel jólagjafirnar, já…já…já… smákökur, tertur og ís……. uss…. miklu meira en nokkur hafði gott af. Það átti að standa sig og vera hin fullkomna húsmóðir.

Þegar aðfangadagskvöld rennur upp með klukknahljóm, jólasteik og pakkafjöld er mamma orðin svo dösuð eftir margra daga undirbúning að hver pakkinn á fætur öðrum umbreytist í dúnsæng og heilsukodda fyrir hálfluktum augum hennar og hún þorir ekki í miðnæturmessu, hroturnar myndu örugglega ekki halda sama takti og kórinn.

Svo bankar þrettándinn uppá leyndardómsfullur og glottandi, hver og einn heitir því að borða minna um næstu jól. Pabbar og mömmur ákveða að byrja jólaundirbúninginn strax í september, jafnvel strax í næstu viku, svo hægt verði að njóta jólatónleika, jólaföndurs, aðventumessunnar og alls hins sem desember hefur uppá að bjóða ár hvert, án þess að hugsunin um það sem eftir er að gera drepi niður frjóa hugsun með yfirgangi og frekju. Ups….. HVAÐ KLIKKAÐI???!!!!!

Kominn 1. des. enn einu sinni og allt eftir eins og fyrri daginn… já svona er það. Þegar mikið er að gera og jólaandinn sveimar yfir láð og legi kemst ekkert annað að en að ljúka hverju verkefninu á fætur öðru. Mér tókst alltaf að stressa mig upp úr skónum og búa mér til alls kyns óþarfa kvaðir sem hlaupa varð eftir fyrir þessi blessuð jól. Ég gat engan vegin skilið þau rólegheit sem gátu „fært jólin til“ eins og einni kunningjakonu minni tókst – við vorum nokkrar að ræða bakstur, saumaskap og þess háttar þegar hún segir: „Ég ætla í bæinn seinnipartinn í næstu viku og ljúka innkaupunum“. Ó key!! Þá yrði nú komið það tímabil hjá okkur hinum sem nefnt hefur verið „á milli jóla og nýárs“. Hvernig er þetta hægt? JÁÁÁ!!! og segja svo bara eitt einfalt „Ó“ þegar henni var bent á hvaða dagur væri hjá öðrum á jarðarkringlunni!!!!

Svo gerðist það……… við skárum út laufabrauð í kappi við hvert annað, kertaljósið brosti og dansaði til og frá við jólalögin. En ekki var allt eins og það átti að vera, mér leið undarlega, æi… þetta hlýtur að líða hjá – enginn tími til að leggjast í rúmið í fyrstu viku desembermánaðar. Ekkert búið að baka, örfá jólakort tilbúin og alltof margar jólagjafir einhverstaðar í skumaskoti heilans sem óljósar hugmyndir.

Tveimur dögum seinna ákváðu jólasveinarnir á næsta spítala að best væri fyrir mig að dvelja hjá þeim í nokkra daga og gera ekki handtak eftir að heim væri komið, ekki fyrr en nýtt ár hefði litið dagsins ljós og vel það. Já, og hana nú!! En eitt var það sem mér fannst alveg stórmerkilegt og ég átti alls ekki von á…….. ég naut þess að liggja þarna og láta snúast við mig og uppgötva að jólin koma án þess að ganga þurfi frá sjálfum sér í stressi yfir einhverjum gerviþörfum. Ég segi gerviþörfum því það sem við þörfnumst mest eru fjölskyldan og vinirnir en ekki hreinir skápar og enn ein jólaserían, tilhvers líka meira skraut og stærri tertur ef enginn er til að njóta þess með.

Við ættum að eyða meiri tíma í að gera eitthvað skemmtilegt á aðventunni með þeim sem okkur þykir vænt um, njóta þess að vera til og leggja áherslu á jákvæða hugsun þá verða jólin ánægjulegri. Þetta voru rólegustu og afslöppuðustu jól sem ég hafði átt fram að þessu, þá er ég að tala um minn innri mann og sálartetur.

Það verður líka að segjast eins og það er: Forgangsröðin hefur verið önnur eftir þetta. Mikið var notalegt að finna hversu margir hugsa til manns þegar á móti blæs og eiga vini sem maður getur hlegið og líka þagað með. Vináttuna og fjölskylduböndin þarf að rækta, því megum við ekki gleyma. —- Ókey, þetta er að verða heldur væmið, en ég vildi gjarnan að þið sem hafið verið í mínum sporum (í stresskasti fyrir hver jól) setjist niður og hugsið ykkar gang. Það er erfitt að draga í land en þá er bara að hugsa til Pollýönnu sem gladdist yfir því að þurfa ekki að nota hækjurnar sem hún fékk sendar þegar heitasta óskin var um brúðu.

Reyndar held ég að dregið hafi úr jólastressinu allra síðustu ár eða um leið og farið var að skreyta heimili og fyrirtæki svona mikið fyrr en áður var, það ítir við fólki og jólaskapið bankar á dyrna um leið og ljósin eru tendruð. Það er ekki langt síðan mér fannst þetta einum of en í ár (2002) er enginn snjór til að draga úr myrku skammdeginu svo jólaljósin eru margvelkomin.

Með jólakveðjum,

Hulda.

Ógleymanleg jólaminning

Ég er ein þeirra mörgu sem talist gæti til hinnar svokölluðu „68 kynslóðar. Flestir sem hafa svo mörg ár að baki, hljóta að eiga einhverja eftirminnilega jólaminningu sem í frásögur er færandi.

Ég er að hugsa um að greina frá einni slíkri sem alltaf kallar fram bros hjá mér við tilhugsunina um þessi sérstöku jól bernsku minnar, sem voru í sjálfu sér ekki svo frábrugðin öðrum jólum þess tíma, nema fyrir eftirfarandi atburð sem gerði þau sérstaklega eftirminnileg.

Það var til siðs á heimili foreldra minna um nokkurt árabil, að móðir mín bjó til jólaöl sem soðið var úr sérstakri blöndu sem kölluð var MALTÓ og fékkst í pökkum í kaupfélaginu. Þessi blanda var soðin eftir kúnstarinnar reglum eða nákvæmlega eins og uppskriftin á pakkanum sagði til um. Þá var eins gott að vigta sykurinn rétt í blönduna, svo að styrkurinn á innihaldinu yrði hvorki of eða van. Ég veit að móðir mín var mjög nákvæm hvað þetta snerti, því ekki kom annað til mála en að allir í fjölskyldunni mættu drekka jólaölið um hátíðarnar.

Síðan skeður það óvænta, þetta tiltekna jólakvöld, að búið er að leggja á jólaborðið og ekkert eftir nema sækja jólaölið, að ég fer og næ í flösku inn í búr og fer með hana óopnaða inn í stofu. Eitthvað var tappinn í flöskunni óþægur við mig, svo að ef til vill hef ég komið af stað ólgu í innihaldinu við átökin, nema hvað ? Loksins þegar tappinn skaust úr flöskunni, þá var það með þvílíkum krafti að hann small með látum í stofuloftinu og á eftir honum fylgdi það stærsta ölgos sem við höfum nokkurn tímann augum litið og flaskan tæmdist að mestu á augabragði. Og þvílík útkoma, okkur hreinlega féllust hendur að sjá jólaborðið og nánasta umhverfi útslett af jólaöli.

Við vissum varla hvort við ættum að hlæja eða gráta, en ef ég man rétt, þá varð hláturinn yfirsterkari. Af eðlilegum ástæðum var kvöldverðurinn snæddur með seinna móti þetta jólakvöld, því drjúgan tíma tók að þrífa stofuna, eins og geta má nærri. En eftirleiðis var það óskráð regla, að ölflöskurnar fóru ekki óopnaðar inn í stofu, svo mikið er víst, því öll fengum við nóg af þessu ógleymanlega gosi. Að lokum má ég til með að geta þess, að það kom fyrir að fáeinar ölflöskur gleymdust tímabundið í búrinu og varð innihald þeirra nokkuð sterkt og bragðmikið.

Við systkinin kunnum samt að meta þetta ágæta öl og notuðum hvert tækifæri til að laumast í búrið og fá okkur sopa þegar enginn sá til. Ég gæti trúað því að þeir sopar hafi verið helst til of sterkir fyrir okkur krakkana, enda kættumst við mjög, hvort sem það var bara ímyndun okkar sjálfra sem olli því eða örvandi áhrif frá ölinu hennar mömmu.

Læt ég svo hér með lokið upprifjun minni af jólakvöldinu góða.

SS Seyðisfirði

Fyrstu jólin án mömmu og pabba

Árið 1998 ákváðum við hjónaleysin að flytja erlendis og stunda þar nám!! Við fluttum út í september og ákváðum þá að halda jólin úti þar sem það tæki því varla að fara heim aftur eftir svona stutta útiveru!! Nú mánuðurnir liðu og allt í einu komin desember!! Okkur fannst rosalega gaman að sjá hvernig jólin voru undirbúin og gaman að bera alla siði og menningu saman!!

Þegar líða fór á desembermánuð fóru að berast pakkar og bögglar frá Íslandi og í einu þeirra reyndist vera hangilæri! Ekki amalegt þar sem hangikjöt var fastur liður á heimilum okkar um jólin!! Nú á aðfangadag ákváðum við að hafa reykt svínakjöt og prófa okkar fyrstu jól án rjúpna!! Við vöknuðum snemma til að hafa allt klárt fyrir þetta stóra og í raun skrýtna kvöld! Ég hamaðist svo við að gera matinn eins líkan og hjá mömmu og átti ég nokkur langlínusímtöl þann daginn!! Nú þegar ég var svo að leggja matinn á borðið og klukkurnar hringdu inn jólin og ég enn á náttfötunum!! Þá áttaði ég mig á því hve gott ég hafði alltaf haft það!! Mamma gerði allt, já allt!!. 

Aðfangadagskvöld leið svo ósköp notalega þó þetta væri allt saman frekar einmanalegt!! Þetta eru samt eiginlega jólin sem gleymdust..fyrir okkur voru þetta engin alvöru jól og það var ekki fyrr en tveimur árum seinna sem okkur fannst við halda alvöru jól aftur, þá enn í þessu ókunnu landi, en þá vorum við ekki tvö heldur með litlu dóttur okkar!!

Kveðja,

Ólöf Huld Matthíasdóttir Þýskalandi.

Kristall

Pabbi minn gaf alltaf mömmu kristal í jólagjöf og hann var lengi að velja og pakka inn gjöfinni til hennar um hver jól og fór mjög laumulega að þessu, hann fór með gjöfina, pappírinn og límið niður í kjallara og þar dundaði hann og dedúaði við að pakka inn jólagjöfinni hennar mömmu. Síðan kom að því að við systur vorum nógu gamlar til þess að hægt væri að treysta okkur og sýna okkur hvað hann ætlaði að gefa mömmu í jóagjöf.

Þessi tilteknu jól þá keypti hann handa henni 2 blómavasa úr kristal útskorna og rosalega fína. Nú var komið að þeirri heilögu stund að gjöfinni yrði pakkað inn og hann rölti af stað með gjöfina, pappírinn, límbandið og eldri systur mína en ég fékk ekki að hjálpa þeim að pakka inn því ég var talin of ung til þess og gæti jafnvel brotið dýrindin og sat því eftir með sárt ennið, en það var bót í máli að ég vissi alveg hvað var í pakkanum.

Síðan kom aðfangadagskvöld með öllu sem því fylgir, spenningi og góðum mat og þegar búið var að borða og ganga frá þá var sest með viðhöfn í stofuna og allir fóru að opna pakkana sína. Svo fékk mamma pakkann frá pabba, eitthvað fanst mér hann nú asnalega lítill miðað við það sem vissi að ætti að vera í honum, nema hvað mamma fær pakkann frá pabba og allir biðu og horfðu á hana taka utan af pakkanum og þegar hún opnaði og tók þennan fína vasa uppúr og dáðist að honum og setti kassann á gólfið þá sagði ég „gáðu aftur í kassann mamma það er annar eins þar einhverstaðar“ og eyðilagði allt fyrir pabba því hann hafði pakkað vösunum í 2 kassa og ætlaði að láta mömmu missa andlitið tvisvar þetta aðfangadagskvöld.

En mér var nú fyrirgefið svona þegar líða tók á kvöldið því hann sá að það hefði verið betra að láta mig vera með í því að pakka inn jólagjöfinni enda fékk ég það alltaf eftir þetta.

Margrét Bragadóttir Akureyri

Sem mig langaði að fá ...

Þegar að ég var 11 ára gömul gerði ég í fyrsta skipi engan óskalista fyrir fjölskylduna mína og ættingja af því að ég fékk hvort sem er nánast aldrei það sem ég setti á listann, þannig að ég sá ekki tilganginn í að gera hann.

Ég var samt með ýmislegt í huga sem að mig langaði í. Á aðfangadag fór ég að sjá soldið eftir því að hafa ekki gert lista því ég varð svo hrædd um að fá bara eitthvað sem að mig langaði alls ekki í. Maturinn var lengi að líða þetta aðfangadagskvöld og svo tóku foreldrar mínir sér góðan tíma í að lesa jólakortin áður en við opnuðum pakkana. (örugglega bara af því að þau vissu hvað ég vildi fara að opna pakkana). Loksins þegar stundin rann upp reif ég upp alla mína pakka, og viti menn ég hafði aldrei áður fengið jafn mikið af því sem mig langaði að fá, ég varð svo ánægð að ég ætlaði aldrei að geta hætt að skoða allt þetta flotta sem að ég fékk 😉

Lilja ósk Kristbjarnardóttir 11 ára.

Ein minning um jólin í bernsku

Við vorum þrjú systkynin og gátum alltaf fundið okkur eitthvað til dundurs. Jólin voru alltaf ákaflega spennandi tími hjá okkur systkynunum og heima hjá okkur voru sterkar hefðir sem síðan þá hafa fylgt okkur eftir að við sjálf stofnuðum til fjölskyldu. Eitt af því sem ég man eftir var að jólatréið var alltaf skreyt rúmri viku fyrir jól. Þetta var og er reyndar enn stórt og fallegt gervitré ættað frá Ameriku. Mamma vildi alltaf gera hlutina í góðan tíma og því var það skreytt svona snemma. Yfirleitt setti mamma öll ljósin á tréið en svo máttum við systkynin hengja allar kúlurnar og fígururnar á en þannig var að ekki ein einasta kúla eða annað skraut var eins. Það var bara eitt stykki af hverjum hlut. Tréið var ákaflega skrautlegt þarna sem það stóð inni í stofu með öllum sínum marglitu ljósum. Það eina sem pabbi hafði að segja í þessum málum var að það var bannað að kveikja á trénu fyrr en á aðfangadag og þá ekki fyrr en um fimmleitið. Það var alltaf svo lítið erfitt að horfa á tréið þar sem það stóð án þess að fikta í því og þannig þróaðist það að svo kallaður ljósa leikur kom til sögunnar. Í þá daga voru allar ljósaseríur með skrúfuðum perum í og ef ein var skrúfuð laus að þá slokknað á seríunni. Til að stytta okkur stundirnar fram að jólum fórum við því oft í þann leik að eitt okkar skrúfaði einhverja peru lausa og svo komu við hin inn og það okkar sem fyrst fann hvar lausa peran var vann. Auðvitað var þetta alltaf gert í hálfgerðu pukri því hvorki mamma né pabbi máttu af þessu vita (þó þau hafi eflaust gert það) enda áttu nú allir hlutir að endast von úr viti. Minningin um þennan leik okkar systkynanna og þá hefð sem var í kringum þetta tré er eitt af því sem gerðu jólin svo sérstök í huga mínum í bernsku. Það þarf ekki alltaf að gera eitthvað svo mikið til þess að gleðja lítil hjörtu.

Jólakveðjur Þórunn Einarsdóttir Keflavík

 

Bók í skóinn

Ég fór að hugsa um það í morgun hvort að ég hafi nokkuð fengið í skóinn þegar ég var lítil stelpa. Það er nú ekki svo ýkja langt síðan ég var lítil en samt er ég ekki alveg viss um hvernig þetta var.

Í þessu tilfelli eins og svo mörgum öðrum er líklega best að hringja í mömmu. Hún man allt svona og líklega lendi ég í því síðar með mína dóttur að rifja eitt og annað með henni. Svo ég hringdi í mömmu og auðvitað mundi hún þetta allt.

Við systkinin fengum alltaf heimagert jóladagatal. Mamma hafði saumað jólamynd, fest 24 hringi á hana og á þetta dagatal voru síðan festir pakkar fyrir hvern dag fram að jólum. Við vorum þrjú systkinin og þetta var rosalega flott. Reyndar er ég ekki frá því að ég hafi setið ein að jóladagatalinu eftir 12 ára aldur þegar systkini mín voru farin burtu í skóla. Það er svo gott að vera prinsessa og örverpi.

Pakkarnir voru ævinlega litlir, það var alltaf nammi í þeim og í þá daga fylgdi ekkert tannkrem með. Það var ekki mikið nammi, kannski einn moli, ein karamella eða í mesta lagi lakkrísrúlla en stærsti pakkinn var alltaf á aðfangadag. Þá fengum við ópalpakka og fannst ansi vel í lagt. Skórinn fór ekki út í glugga fyrr en að kvöldi aðfangadags og í minningunni skilaði sveinki alltaf bók í skóinn. Þannig tryggði sveinki það að ekkert okkar systkinanna átti það á hættu að eiga bóklaus jól.

Ég fékk raunar í skóinn langt fram yfir tvítugt þó hann þyrfti orðið að sæta lagi og koma til mín seint um nótt til að koma að mér sofandi.

Á unglingsárunum hafði ég nefnilega tekið upp þann indæla sið að taka ávallt bók og súkkulaði með mér í rúmið að kvöldi aðfangadags og lesa lengi. Best var að klára eina bók fyrir svefninn. Sveinki er ennþá að gefa mér í skóinn en nú nennir hann ekki þessu næturbrölti lengur. Nú fæ ég alltaf einn pakka undir jólatréð frá jólasveininum og ennþá er það bók.

Þeir Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur og Ketkrókur skipta sér ekki af mér frekar en endranær en Kertasníkir er samur við sig.

Bestu jólakveðjur

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir Reykjavík

Prakkarastrik á jólunum

Í endurminningunni er þett sennilega það stærsta skammarstrik sem ég gerði mín bernskuár.

Það var aðfangadagskvöld og ég var 6 ára. Við höfðum rétt lokið við að borða, og vorum sest inn í stofu, sem var á næstu hæð fyrir ofan. En það vildi ekki betur til en svo að systir mín sem var nokkurra mánaða gömul, þurfti endilega að gera stórt í bleyjuna sína um leið og við vorum sest. Mamma og pabbi urðu því að fara niður til þess að bjarga málunum. Og til að flýta fyrir fór pabbi og fann til ný föt á barnið meðan mamma skipti um bleyjuna. En áður en þau fóru niður réttu þau mér og bróður mínum, 3 ára, sitthvorn pakkan til að opna á meðan. Síðan koma þau aftur eftir svona 10 mínútur, en þá blasir við þeim frekar ömurleg sjón. Þar sat ég í sófanum umkringd pappír og umbúðum. Búin að opna hvern einasta pakka,og húga þeim öllum saman í eina hrúgu. Svo að það sem eftir fór að kvöldinu fór í að reyna að finna út hver fékk hvað. Og það var auðvitað ekkert hægt að sjá frá hverjum hvað hafði verið. Það hefur verið seinni tíma vandamál hjá mömmu, að spyrja ættingjana hvað þeir gáfu.

En eftir þetta voru pakkarnir aldrei settir undir tréð fyrr en rétt fyrir matinn, og við systkinin aldrei skilin eftir eftirlitslaus hjá þeim.

Hafið þið öll gleðileg jól.

Borghildur F. Kristjánsdóttir Reykjavík

Jólamyndin

Það er aðfangadagur jóla. Ég stend í stiganum á ömmuhúsi á Dalvík og þétt við hlið mér stendur Villi frændi minn og jafnaldri. Hann á heima uppi, ég niðri, og stiginn einatt vettvangur gáska og leikja. Að þessu sinni er þó mikil alvara á ferð. Í útidyrunum fyrir neðan stigann stendur jólasveinn og lætur ófriðlega. Jólapakkarnir sem hann hefur komið með flæða um ganginn. Skyndilega kallar hann byrstri röddu um leið og hann nálgast:,,Ætlarðu ekki ekki að ná í skíðin þín strákur?“ Þetta er meira en fjögurra ára hjartað þolir. Frændi minn tekur stefnuna upp og inn í innsta horn undir rúmi foreldra sinna. Ég herði takið á stigahandriðinu og má mig hvergi hræra, skynja frekar en sé jólasveininn geysast upp á eftir Villa. Hvílík ógn og skelfing. Ég veit ekki fyrr en mörgum árum seinna að bak við gerfi þessa ákafa jólasveins er Otti frændi minn, þá unglingurinn á heimilinu. Hann var þar með kominn í stóran hóp hinna dalvísku jólasveina sem áratugum saman hafa farið um bæinn hvern aðfangadag með skrækjum og ólátum, færandi pakka í hvert hús. Fyrir börnin er koma sveinka enn í dag viðburður sem vekur óttablandna spennu og enn gera stórir frændur sig heimakomna með þeim hætti að heimsóknin gleymist aldrei.

Svanfríður Jónasdóttir. Strandbergi

Jólin 1995

Jólin árið 1995. Ég var fimm ára og var hjá ömmu og afa og allri fjölskyldunni, ég var að hlusta á jólalag og ætlaði að komast inní stofu áður en lagið var búið og kem hlaupandi en pabbi tekur ekki eftir því og heldur á jólasteikinni,  ég hleip á fatið og fæ skurð á ennið og það blæddi svo hrikalega og pabbi segir að við þyrftum að borða af gólfinu svo veit ég ekki af mér fyrr en inni á klósetti þar sem er verið að hreinsa sárið og svo líður mér bara vel og lagið var að enda og núna er ég enn með ör eftir þetta.

Karl Pálsson 10 ára 2001

Skógjafir

Einu sinni voru þrjú systkini sem voru farin að undirbúa jólin. Þau byrjuðu á því að baka myndapiparkökur sem þau síðan máluðu. Á meðan þau voru að þessu hlustuðu þau að sjálfsögðu á jólatónlist og höfðu kveikt á kerti, svo að það myndaðist góð jólastemming. Svo þurfti málningin að þorna þannig að þau settu kökurnar á bökunarplötu og settu þær undir rúm. Síðan var dagur að kvöldi komin þannig að þau áttu að fara að sofa, og þá var nú best að setja skóinn út í glugga. Daginn eftir vöknuðu þau snemma og voru mjög spennt að sjá hvað jólasveinninn hafði gefið í skóinn…..viti menn það voru myndapiparkökur í skónum. Sveinki hafði stolið piparkökum frá þeim og sett í skóinn, mikið voru þau hissa!!!

En síðan eru liðin 22 ár og held ég að þetta hafi verið minnistæðasta skógjöfin, og sýnir líka að skógjafir þurfa ekki að kosta svo mikið hjá jólasveinunum.

Ein að norðan.

Í fýlu í terlínbuxum

Það eru ýmis minningabrot, sem koma upp í huga mér þegar ég rifja upp þau bráðum 30 jól sem ég hef upplifað.

Í æsku minni átti ég alltaf yndisleg jól. Á mínu heimili var kærleikur og gleði látinn vera í hávegum og er ég svo óskaplega lánsamur að hafa upplifað flest ef ekki öll jól þannig. Mér eru þó minnisstæð jólin þegar Þorláksmessa fór í örvæntingafullar björgunartilraunir á jólatrésseríunni á heimilinu. Þá hef ég verið eitthvað um 6 ára gamall. Það var á þeim árum sem jólasería kostaði vikulaun. Þetta bjargaðist á endanum.

Líklega var ég á svipuðum aldri þegar ég upplifði mesta áfallið við opnun jólapakka. Það var nefninlega þannig að Laufey systir mín gaf okkur Hauki bróður mínum, sem var á svipuðum aldri og ég, alltaf svo góðar gjafir. Já, það voru glæsilegir bílar, tindátar og flest það sem ég óskaði mér fyrir hver jól. Ég giska á að ég hafi verið 8 ára þegar þetta minnistæða atriði átti sér stað. Það var aðfangadagskvöld og klukkan orðin sex. Við vorum komin í okkar fínasta púss og komin tími til að fara að borða. Jólatréð í stofu stóð, stjörnuna glampaði á og þarna voru þeir, jólapakkarnir. Spenningurinn var ekki lítill og þá sérstaklega ólgaði í huga mér sú spurning, hvað gefur hún systir mín mér í ár.

Það var í það minnsta margt sem ég óskaði mér og var búinn að sjá freistandi auglýsingar fyrir jólin í litasjónvarpinu. En áður en við gengum að borðinu og byrjuðum að borða hangikjötið sagði Laufey við mömmu að nú skildum við bræður opna gjöfina frá henni. Það var nú ekki vanalegt, svona fyrir matinn. En áður en eftirvænting náði yfirhöndinni, var ég búinn að opna pakkann. Og viti menn, þvílíkt áfall. Í pakkanum, sem fyrir það fyrsta var mjúkur, voru föt. Terlínbuxur ef ég man rétt og peysa. Þetta var agalegt. Það lá við að ég spurði að því hvar góði pakkinn væri.

Það er ekki laust við að á myndum frá þessum jólum, örli fyrir fýlusvip á mér út af þessu óvænta og hræðilega uppátæki hjá systur minni. Ástæðan fyrir opnuninni á pökkunum fyrir mat, var auðvitað sú, að við áttum að fara í þetta og vera í þessu. Þegar ég horfi til baka sé ég hvað þetta var annars rausnalegt af henni, en ekki sá ég það þá. Annað er mér ekki sérstaklega minnistætt frá jólum, nema þó minningarbrot sem koma upp í huga minn. Eins og mörgum, finnst mér eplalykt tilheyra jólum. Svo man ég líka eftir lyktinni í Sana en þangað var aðeins farið fyrir jól og keypt Thule appelsín og jólaöl í 10 lítra mjólkurkassa. Nú þegar ég er orðinn fullorðinn eru jólin mér ennþá mikils virði og kær. Ég var líka svo lánsamur að finna konu sem er sama jólabarnið og ég. Þau tólf ár sem við höfum eytt saman jólum, hafa skapast hefðir í jólahaldi okkar.

Allt er þetta svo skemmtilegt, skreyta piparkökur í lok nóvember, allur jólaundirbúningurinn í desember, skötuveislan með foreldrum mínum og systkinum á Þorláksmessu og svo jólagrauturinn hjá mömmu og pabba á aðfangadag. Þá kemur keppnisskapið upp í fjölskyldunni, hver fær möndluna?

Annars reyni ég að sjá tilgang jólanna í öðru en stórgjöfum og stressi. Reyndar tekst það ekki alltaf. Sanna jólagleði tel ég þó vera friður og kærleikur. Einnig finnst mér sá tími á jólum, þegar fjölskylda og vinir eru saman, spila og skemmta sér vera hverjum fjársjóði dýrmætari. Það eru jólin mín. Það er ósk mín að þið eigið góð og gleðileg jól, jólin ykkar.

Pétur Már Guðjónsson, Akureyri

Jólaminningar

Fleiri jólaminningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is