Jólamatur - Jól og matur

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru drukkin með matar og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju.  Fyrstu tvær vikur desembermánaðar eru mesti annatíminn í jólaundirbúningnum. 

Jólahátíðin hefur löngum verið mikil matarhátíð þar sem menn belgja sig út af góðum mat og hefur kjötneysla verið sérstaklega áberandi hér á landi. Í seinni tíð hefur það þróast svo að það er ekki aðeins um hátíðina sjálfa sem mikið er borðað heldur byrjar átið  strax á aðventunni. Þá fer fólk að leggja leið sína á jólahlaðborð þar sem hægt er að borða nægju sína af alls kyns dýrindis krásum.

Á flestum heimilum er mikill bakstur, allt upp í tíu tegundir af smákökum, randalín og  rúllutertubrauð  og skera jafnvel út laufabrauð. Á mörgum heimilum er nartað í jólabaksturinn á aðventunni þó að sumir vilji sjálfsagt geyma krásirnar til jólanna

Mikið er borist á í mat yfir jólahátíðina. Flestir borða reykt svínakjöt og rjúpur. Svínakjötshefðin er komin frá frændum vorum Dönum og er nýleg þar sem svínarækt á Íslandi á sér ekki langa sögu og lengi þurfti heilmikla útsjónarsemi til að komast yfir svínakjöt. Rjúpur eru aftur á móti séríslenskur jólaréttur. Líkt og laufabrauðið var rjúpan upphaflega fátækrakrás og bara borðuð á þeim heimilum sem höfðu ekki efni á að slátra lambi fyrir jólahátíðina. Á jóladag er svo borðað hangikjöt, en það er lambakjöt sem er reykt við sauðatað. Annar algengur réttur á matseðlinum er möndlugrautur sem er hrísgrjónagrautur sem fær nafn sitt af þeim sið að út í hann er sett mandla. Svo verður að borða grautinn þar til einhver bítur í möndluna og fær hinn heppni möndlugjöf.

Jólarefur hét það sem hverjum heimilismanni var skammtað til jólanna (í mat) á aðfangadagskvöldið.

Jólahangikjöt, spikfeitt. Auglýsing

Jólafasta

Þótt jólin sjálf hefjist jólaaftan eða aðfangadagskvöld hefur undirbúningur þeirra að fornu og nýju staðið miklu lengur, og hátíðin sett mark sitt á vikurnar 3 – 4 á undan, þegar fastað var í kaþólskum sið og ekki étið kjöt.

Ekki liggja í augum uppi bein náttúruleg frumtilefni þess að draga við sig kjötmeti á þessum árstíma. Á það má samt benda að haustslátrun var víðast lokið fyrir nokkru. Þá höfðu menn belgt sig upp af allskyns nýjum sláturmat, svo að tímabært var að hvíla meltingarfærin og spara kjötbirgðir áður en vetrarveislur hófust. Um þetta leyti stóð fengitími sauðfjár einnig mjög víða yfir, en skiljanlega vildu hjarðþjóðir ekki slátra úr bústofninum frá sláturtíð fram að sauðburði nema brýna nauðsyn bæri til.

Hér áður fyrr voru síðustu vikurnar fyrir jól kallaðar jólafasta vegna þess að í kaþólskum sið var fastað á þessum tíma og kjöt ekki borðað. Þetta orðalag hélst lengi fram eftir öldum þó að ekki væri lengur fastað í eiginlegum skilningi þess orðs. 

Desemberfasta er í kristnum sið hugsuð sem undirbúningstími fyrir fæðingarhátíð Frelsarans. Hún heitir á latínu adventus sem merkir ’tilkoma’. Af því er smíðað tökuorðið aðventa og var frá miðri 14. öld notað jöfnum höndum við jólaföstu sem jafnan stendur í elstu lagahandritum og kemur einnig fyrir í norskum fornlögum en vék þar að mestu fyrir aðventu.

Skata

Sú hefð að borða kæsta skötu á Þorláksmessu er upprunnin á Vesturlandi en sífellt fleiri hafa tileinkað sér þann sið.

Þó að kaþólskur siður hafi verið afnuminn á Íslandi árið 1550 er enn að vissu leyti haldið upp á messu íslenska dýrlingsins Þorláks helga á messudegi hans þann 23. desember ár hvert. Í dag er það þó aðallega í tengslum við undirbúning jólanna sem menn minnast á Þorláksmessu og eru margir sem leggja það í vana sinn að skreyta jólatréð á Þorláksmessu eða gera síðustu jólagjafainnkaup sín. Einnig hefur sú hefð skapast hér á landi að borða kæsta skötu á Þorláksmessu.Það eru kannski ekki allir sem vita að í raun er þessi siður leifar frá kaþólskum tíma þar sem fastað var fram að jólum og ekki borðað kjöt. Þess vegna var borðaður fiskur, helst lélegur fiskur, daginn fyrir kjötveisluna miklu sem hófst þegar jólahátíðin gekk loks í garð. Siðurinn að borða skötu á Þorláksmessu barst til Reykjavíkur frá Vestfjörðum um miðja 20. öld en það var aðallega á Vestfjörðum og við Breiðafjörð sem skatan veiddist. 

Hún þótti reyndar ekki mikið lostæti, en þar sem haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu var skötuát í hugum margra nátengt þessum degi og fór mönnum að finnast það nauðsynlegt að fá skötu daginn fyrir jól.

Tindaskata eða tindabikkja er oftast 40 – 70 cm að lengd en getur náð 100 cm. Hún er trjónustutt og er kjafturinn lítill. Börðin er breið og halinn stuttur. Tindaskatan er alveg slétt að neðan, en hrufótt að ofan af smáum og stórum tönnum og tindum. Hún er mógrá með ljósum eða dökkum blettum að ofan, en ljós að neðan. Stutti halinn og gaddarnir greinir tindabikkjuna frá öðrum skötum. Tindaskatan er botnfiskur og lifir á 20 – 1000 metra dýpi. Tindaskata er brjóskfiskur af skötuætt.

Vestfirsk skata að gömlum sið

800 g skata, vel kæst

300 g  vestfirskur hnoðmör,

salt

Matreiðsla

Sjóðið skötuna, hreinsið brjósk og roð af skötunni. Stappið vel saman við hana hnoðmör og saltið eftir smekk.

Berið stöppuna fram heita með kartöflum og rúgbrauði. Einnig má láta stöppuna kólna í formi, skera hana í sneiðar og hafa hana með brauði. Í staðinn fyrir hnoðmör má nota tólg eða súrt smjör.

Rúgbrauð

Júlía sendi okkur þessa uppskrift af rúgbrauði sem henni fannst vanta með skötunni. 

750 gr rúgmjöl

450 gr heilhveiti

4 tsk natron

2 tsk salt

250 gr. sýróp (1 lítil dós)

1 1/2 l súrmjólk

Aðferð

Öllu hrært saman og skipt í fjórar mjólkurfernur sem er svo lokað með heftara. Þetta er bakað í 8-9 klst (yfir nótt) við 100° athugið að fernurnar verða að standa í ofninum,- neðsta rim-  borðað með miklu smjöri og vel kæstri skötu……..

Takk Júlía

Skötustappa

700 g skata, kæst eða söltuð

300 g kartöflur, soðnar

160 g smjör

4 stk hvítlauksrif.

pipar, nýmalaður

salt

steinselja

Matreiðsla

Sjóðið skötuna og kartöflurnar og saxið niður hvítlauksrifin. Búið til mauk úr skötunni  og kartöflunum. Hrærið mjúkt smjörið saman við ásamt hvítlauknum. Bragðbætið með salti og pipar.

Berið skötustöppuna fram með brauði og smjöri.

Saga jólagrautsins

Orðið jólagrautur þýðir í munni Íslendinga á 20. öld þykkur hrísgrjónamjólkurgrautur með rúsínum. Grautur af því tagi verður reyndar ekki algengur hér fyrr en upp úr aldamótum 1900 en áður hafði jólagrauturinn oftast verið úr bygggrjónum, mjólk og rúsínum. Hrísgrjónagrauturinn er borinn fram með kanelsykri og rjóma eða mjólk, stundum saft eða saftsósu og víða er grautur af þessu tagi kallaður jólagrautur hvort sem hann er á borðum á jólum eða aðra daga. Sums staðar á Íslandi var jólagrauturinn hafður fyrir matinn á aðfangadagskvöld þegar líða tók á 20. öld en slíkt mun hafa verið algengast í Danmörku. Í Skandinavíu þar sem jólagrautur af þessu tagi er hefðbundin réttur á jólum er grauturinn venjulega eftirréttur á aðfangadagskvöld.

Í skýrslu Þórarins Liljendal um íslenskt mataræði frá því 1783 kemur fram að á jóladag ásamt nokkrum öðrum hátíðisdögum reyni Íslendingar að hafa mjólkurgraut kvölds og morgna til hátíðabrigða. Þessum graut bregður oft fyrir í heimildum á 19. öld; nefndur er bygggrjónagrautur með sméri út á, sýrópi eða sírópsmjólk. Misjafnt hefur verið hvort jólagrauturinn var framreiddur á jóladag eða aðfangadagskvöld. Í sveitarlýsingu úr Breiðdal í Suður Múlasýslu frá miðri 19. öld segir:

Á jólanóttina var nærri alls staðar matreiddur (bygg)grjónagrautur úr mjólk og rúsínum út í og skammtaður fólkinu….

Sumir tengdu jólasveininn Pottasleiki sérstaklega við jólagrautinn; hann færi til fjalla strax þegar hann væri búinn að sleikja jólagrautarpottinn og kæmi því fyrstur jólasveinanna. Í byrjun tuttugustu aldar varð vanalegt að jólagrauturinn væri hafður úr hrísgrjónum sem þá voru orðin aðgengileg fyrir alþýðufólk, en höfðu áður verið fæða höfðingja. Í heimildum á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands, sem eiga við fyrstu áratugi 20 aldar, kemur fram að víðast hvar var grauturinn á borðum á jólum en mismunandi hvort hann var etinn á aðfangadagskvöld eða jóladag. Á vestanverðu landinu var algengara að hann væri hafður á jóladag, ýmist í morgunmat eða sem eftirréttur á eftir miðdegismat. Á austanverðu landinu, einkum norðanmegin, var algengara að bera hann fram á aðfangadagskvöld og sá háttur vann á eftir því sem leið á 20. öld. Jafnframt komu til sögunnar möndlugjafir í tengslum við jólagrautinn en hvort tveggja kemur til okkar frá Danmörku. Mandla var sett í jólagrautinn og sá sem hana fann hlaut verðlaun eða gjöf að launum, venjulega sælgæti eða smáhlut.

Eftir að hrísgrjónagrauturinn varð á allra færi varð ris `a l´amande höfðingjaútgáfan af jólagrautnum og tók jafnframt víða við sem eftirréttur á aðfangadagskvöld á síðustu áratugum 20. aldar. Ris `a l´amande er nafn á dönskum hrísgrjónabúðingi með möndlum sem mun ekki tengjast Frakklandi að öðru leyti en því að innihaldið er talið eiga uppruna sinn í möndlugjöfinni. Hún er aftur talin tengjast frönskum sið sem þekktur er frá miðöldum og felst í því að í samkvæmi daginn fyrir þrettánda borðuðu menn köku sem í var falin baun. Sá sem hana fann réði öllu i samkvæminu það sem eftir lifði kvölds.

Hallgerður Gísladóttir  –  Vísindavefur Háskólans

Möndlugrautur

Soðinn er venjulegur þykkur hrísgrjónagrautur. Grauturinn er kældur og saman við hann er blandað góðum slatta af þeyttum rjóma og ferskri vanillu. 

Ekki má gleyma möndlunni góðu og sá sem fær hana á að sjálfsögðu skilið að fá ofurlitla möndlugjöf.  Gott er að bera fram heuta berjasósu með grautnum.

 

Ris a L'amande

1 bolli (65 g) hrísgrjón (short grain)

2 bollar (1/2 l) mjólk

1 teskeið vanilla extract

one lítill bolli (50 g) britjaðar möndlur

2-3 matskeiðar sykur

1-2 matskeiðar madeira eða sherry

2 litlir bollar (0.4 l) þeyttur rjómi

Aðferð

Smyrjið botn pottsins með smjöri, hitið svo mjólkina að suðu. Setjið hrisgrjónin varlega útí meðan hrært er. Lækkið undir pottinum og setjið lok yfir, látið svo sjóða á mjög lágum hita í u.þ.b. 50 mínútur.

Látið grautin kólna, bætið þá möndlum, sykri, vanillu og víni saman við. Þeytið rjómann og blandið varlega saman við.

Jólaglögg

Jólaglögg - óáfeng

2 bollar vatn.

1 bolli sykur.

2 msk. negulnaglar.

2 kanilstengur, brotnar.

2 tsk. saxað engifer (nýtt eða þurrkað).

4 bollar eplasafi.

2 bollar appelsínusafi.

2 msk. sítrónusafi.

Aðferð

Sjóðið vatnið og sykurinn í 10 mínútur. Bindið negulnaglana, kanilstengurnar og engiferið inn í grisju og látið vera í sykurleginum í eina klukkustund. Hrærið afganginn af efnunum út í og hitið upp að suðu. Fjarlægið kryddið. Berið fram heitt eða kalt. Þetta getur orðið nokkuð bragðsterkt þannig að ef börn eru með getur verið gott að hafa þeirra drykk kaldan og blanda hann til helminga með ljósum gosdrykk.

Jólaglögg - áfeng

1 flaska rauðvín.
1 appelsína.
15 – 20 negulnaglar.
1/2 vanillustöng.
1 dl sykur.

Aðferð

Hellið víninu í pott. Stingið negulnöglunum í appelsínuna og leggið í pottinn og látið malla um stund. Bragðbætið með vanillu og sykri. Glöggin er best rjúkandi heit.

Glühwein, glögg og jólaglögg

Glögg, eða jólaglögg eins og hún heitir hér á Íslandi, má upprunalega rekja til hins þýska glühwein sem breiðst hefur um heiminn. Englendingar kalla glöggina annað hvort glühwein eða jólapunch en eflaust hafa fáir haldið heiðri glöggarinnar jafn hátt og Svíarnir. Á 19. öldinni var glöggin talsvert daufari en við eigum að venjast í dag. Rauðvín var þá þynnt út til helminga á móti vatni eins og sjá má í einfaldri uppskrift Gustava Björklund frá 1880 með rauðvíni, vatni, sykri, negul og kanil. Helsti munur á glögg og glühwein er sá að glühwein inniheldur oftar en ekki nellikur og jafnvel vanillustangir. Sömuleiðis er sykri oft skipt út fyrir hunangi í glühwein. Hvoru tveggja er svo oft lagað með sítrónu eða appelsínuberki til að fá örlítið beiskara bragð.

Helsta ástæða þess að glöggin varð sterkari með árunum er sú að menn komust fljótlega á 20. öldinni að því að brenndur sykur bætti bragðið í glögginni. Menn hófu því að leggja sykurinn í mót ofan á drykknum, kveikja í honum og láta áfengið þannig brenna sykurinn áður en honum var blandað saman við. Til þess að þetta sé hægt verður áfengismagnið að vera í það minnsta 20%. Hins vegar hverfur talsvert af áfenginu við að drykkurinn sé hitaður á þennan hátt og nú á dögum brenna menn ekki sykurinn svona lengur. Engu að síður voru menn nú orðnir vanir því að styrkja glöggina og gera það enn þann dag í dag. Glöggin á því lítið sameiginlegt við glühwein lengur.  Á netinu má finna fjöldan allan af glögguppskriftum og sama má segja með sænsk heimili. Sjálfsagt er þar ein uppskrift fyrir hverja fjölskyldu. Uppistaðan er samt sem áður alltaf sú sem Gustava Björklund notaði 1880. Rauðvínið er hitað í potti ásamt vodka eða kláravíni og vatn er oft sett til að drýgja sterka vínið, sérstaklega ef notað er sterkara áfengi en 40%. Sykurinn er síðan leystur upp í víninu og negulnöglum og kanilstöngum er bætt út í. Margir taka hýðið af appelsínuberki og bæta því sömuleiðis út í. Þetta er svo látið malla við lágan hita og að klukkustund liðinni er kominn tími til að smakka. Nú má bæta við rauðvíni, sykri, áfengi eða kryddi eftir smekk og bragðbæta síðan með t.d. púrtvíni, madeira, cognaci, armagnac eða calvados. Að lokum er glögginni hellt í litla leirbolla á stærð við mokkabolla og möndlur og rúsínur eru bornar fram í skálum sem hver og einn setur út í eftir smekk. Hér á Íslandi hefur sá siður tíðkast frekar að bera glögg fram í vínglasi með piparkökum. Hver og einn finnur sína aðferð og sína uppskrift, aðalatriðið er að allir njóti vel.

Að lokum langar mig til að benda á einfalda uppskrift fyrir þá sem hafa aðstöðu til. Í apótekum í Skandinavíu fæst „Tinctura aromatica“. Hellið saman 3 lítrum af rauðvíni á móti ½ líter af vodka og ½ líter af vatni. Setjið 2-300 g af sykri út í og u.þ.b. 1 dl. af tinctura. Leysið upp sykurinn og látið malla í a.m.k. hálftíma og njótið vel. Þessi aðferð er mjög almenn í Svíþjóð. 

Uppskrift að jólaglögg

1 líter rauðvín
15 cl. ákavíti
10 stk. kanilstangir
2 tsk. kardimomma
5 stk. negulnaglar
5 sneiðar engiferrót
225 grömm sykur

Aðferð

Látið malla, ekki sjóða, við meðalhita í klukkutíma. Kælið í hálftíma og sigtið svo frá. Hitið aftur og berið fram með rúsínum og hesslihnetum eða piparkökum. Í stað ákavítis má nota vodka. Mörgum þykir gott að bragðbæta með púrtvíni, cognaci, armagnac eða Grand-marnier.

“Heimildir: Árni Þorsteinsson, framreiðslumeistari, cocktail.is ( sonur Þorsteins Svörfuðar )

Heimalagað rauðkál

1 stk. rauðkálshöfuð, um 1 kg

50 – 75 g smjör

1 tsk salt

3 stk negulnaglar

4 stk. piparkorn

1/2 tsk. pipar

1 msk. rauðvínsedik

2 msk. rifsberjahlaup

1 dl hindberjasafi

1 stk. epli

1/2 l vatn

Aðferð

Skerið rauðkálið og epli smátt. Bræðið smjörið í stórum potti og látið rauðkál og epli krauma í því í nokkrar mínútur. Bætið kryddi, ediki, rifsberjahlaupi, vatni og saft saman við. Setjið negulnagla og piparkorn í grisju, þannig að auðvelt sé að fjarlægja að suðu lokinni. Látið þetta krauma undir loki í um 45 mínútur, eða þar til kálið er orðið mjúkt. Hrærið öðru hverju. Bætið örlitlu vatni út í ef þarf.

Malt og Appelsín

Upphafið var sennilega um 1940, en þá tók fólk upp á því að blanda malt með gosdrykkjum til að drýgja það, því að maltið var mjög dýr drykkur. Egils appelsín var ekki til á þessum tíma, að minnsta kosti ekki í núverandi mynd, en ýmsir aðrir drykkir voru notaðir. Þetta virðist hafa verið nokkuð algengt.Þegar Egils appelsín kom á markað um 1955 fóru menn að blanda maltið með því og hefur trúlega líkað vel því að um 1960 var þetta orðið nokkuð almennur jólasiður.

Laufabrauð

Laufabrauð er eitt af sérkennum jólahalds á Íslandi. Víða í Evrópu voru og eru til skrautlegar hátíðakökur en þær eru langtum matarmeiri en laufabrauðið. Laufabrauð: Laufótt brauð, sem hnoðað er úr hreinu hveiti, en þunnt og útskorið með margvíslega löguðum myndum, smurt með smjöri og soðið yfir eldi.

Sérstaða laufabrauðs felst einkum í því hversu næfurþunnt það á að vera. Upphafleg orsök þeirrar þynnku er langsennilegast sá skortur á korni sem löngum hrjáði Íslendinga, ekki síst á einokunartímanum á 17. og 18. öld. Með því að skera hráefnið sem mest við nögl var unnt að gefa fleiri munnum að smakka lostætið og útskurðurinn gerði kökurnar enn girnilegri.

Áður fyrr var Ísland mjög einangrað. Allt sem ekki var hægt að rækta hér þurfti að flytja hingað með skipum. Þessi skip voru lítil og illa búin á okkar tíma mælikvarða. Yfir veturinn, meðan veður voru vond, lögðust allar samgöngur af. Vörur eins og korn, sykur, salt, tóbak og ýmislegt fleira var munaðarvara og hinir fátækari keyptu hana ekki nema til að gera sér dagamun, eins og um jólin.

Á flestum bæjum var matarskammturinn um jólahátíðina stærri en venjulega og það þótti aumt ef ekki var borið fram brauð líka. Á fátæku heimilunum var ekki hægt að kaupa mikið af mjöli og til að fá sem flestar kökur úr deiginu þær hafðar eins þunnar og mögulega var hægt. Sums staðar var haft að orði að ef hægt væri að lesa Biblíuna gegnum kökuna væri hún nógu þunn. Til að gera þennan glaðning sem hátíðlegastan voru skornir laufaskurðir í kökurnar og þeim svo flett upp til að búa til listileg mynstur.

Í dag er þessi siður ómissandi hluti af jólahátíðinni hjá þeim sem halda hann og gjarnan safnast stórfjölskyldan og vinahópar saman í upphafi aðventu til að hjálpast að við laufaskurðinn og steikinguna. Og á þeim heimilum þykir lítið varið í hangikjötið ef ekki er borið fram með því laufabrauð.

„Laufabrauð, laufótt brauð, sem hnoðað er úr hreinu hveiti, en þunnt og útskorið með margvíslega löguðum myndum, smurt með smjöri og soðið yfir eldi; það er þeim sætabrauð.“

Jón Ólafsson frá Grunnavík um 1736

 „Laufabrauð eða kökur af hveitideigi, vættu í sykur-blandinni góðri mjólk eður rjóma, útskornar ýmislega, og soðnar í bræddu smjöri, eru svo algengin, að frá þeim þarf ekki meira að segja.“

Einfalt matreiðslu vasakver fyrir heldri manna húsfreyjur útg. 1800. Magnús Stephensen.

Laufabrauð I

¾ l vatn

¼ l rjómi1

½ tsk salt

1 tsk sykur

½ tsk lyftiduft

600-700 gr hveiti

Kúmen ef vill (ca 1 ½ tsk)

Aðferð
Vatn og rjómi er hitað að suðu, ef kúmen er notað er það hitað með og síðan sigtað frá. Ekki er víst að þurfi allt hveitið svo ágætt er að taka frá ca 100 gr og bæta frekar við deigið ef þarf. Þurrefnum blandað saman og vætt í með rjómablöndunni, sem mesti hitinn er látinn rjúka úr.Hnoðað þar til deigið sleppir borði og er mjúkt og meðfærilegt. Varast skal að hnoða of lengi því þá verður það seigt. Rúllað í lengju og vafið með plastfilmu og geymt á köldum stað í a.m..k. ½ klst. Skorið í bita og flatt út mjög þunnt með kökukefli. Skorið undan diski og bökunarpappír lagður á milli þegar staflað er upp. Í kökurnar er síðan skorið mynstur með laufabrauðsjárni eftir smekk hvers og eins.Pikkað um leið með hnífsoddi.Kökurnar steiktar í vel heitri feiti og athugið að það tekur mjög stutta stund að steikja hverja köku. Ágætt að nota 2 bandprjóna við að snúa þeim í feitinni.
Þessi uppskrift gefur ca 25 kökur.

Laufabrauð II

3 dl nýmjólk

40 gr smjör

2 msk sykur

1 tsk salt

ca 500 gr hveiti

Kúmen ef vill (ca 1 tsk)

Aðferð

Mjólk og smjör hitað að suðu og kúmen með ef það er notað. Sama aðferð og með uppskriftina hér að ofan.
Þessi uppskrift gefur ca 20 kökur. Ath. að skipta má hluta af hveitinu út fyrir heilhveiti eða rúgmjöl ef vill.

Málað laufabrauð

Fjölskyldan í Miðkoti rétt utan við Dalvík, norðan við Brimnesána, hefur til margra ára haft það fyrir sið um hver jól að mála með matarlit á laufabrauðskökur. Hér sjáum við nokkrar myndir frá þeim Hafsteini , Filippíu og börnum þeirra Jóhannesi, Örnu og Ólu.

Brot úr viðtölum þar sem minnst er á mat og matarhefðir

Jólaminningar frá Völlum

„Ekki minnist ég þess að mér þætti jólaundirbúningurinn skemmtilegur utan sá dagur sem notaður var í laufabrauðsgerðina. Þá komu séra Pétur og frú Sólveig , prestshjón á Akureyri og síðar biskupshjón með börn sín og gerðu laufabrauðið með okkur  .Ég varð snemma mjög afkastamikill skurðarmaður og skar að jafnaði á annað hundrað í hvert sinn . Ég held að það hafi verið um það bil fjórðungur þess sem skorið var. Um listrænt gildi skurðarins læt ég ósagt en einhvern veginn þóttu mínar kökur þó lystugri en kökur annara . Þessi dagur var alltaf skemmtilegur. Ég tel mig fara rétt með að fjölskyldurnar hafi aðeins misst niður laufabrauðsskurð fyrir ein jól frá árinu 1954 til dagsins í dag. Kökunum hefur að vísu fækkað en ég held mig samt alltaf nálægt hundraðinu og enn bragðast mínar kökur betur en annarra. Það skilja þeir einir sem sjá“

Gunnlaugur V Snævarr

Heimildir jólablað Norðurslóðar 1998 . Birt með leyfi Norðurslóðar.

Anna Jóhannesdóttir frá Syðra Garðshorni

Árið 1986 skrifaði Sr Jón Helgi Þórarinsson fyrir Bæjarpóstinn. Á jólaföstunni heimsótti hann Önnu Jóhannesdóttur frá Syðra Garðshorni Svarfaðardal. Þetta ár var Anna 93 ára .

“ Á aðventunni var annars aldrei neitt um að vera . Svo var farið að undirbúa jólin , allt þvegið hátt og lágt. Að sjálfsögðu var búið til laufabrauð. Gera varð margar kökur, en hverjum manni var skammtað . Mamma bakaði einnig eitthvað til jólanna, þó hún hefði enga eldavél , þá bjó hún til kleinur og pönnukökur. Pabbi kom ævinlega neð jólaköku úr kaupstaðnum en bakarí var á Akureryri. Það var ósköp mikil gleði hjá okkur börnunum yfir þessu öllu , og við hlökkuðum mikið til jólanna.“

„Svo komu nú blessuð jólin, aðfangadagurinn. Pabbi var ágætur smiður og smíðaði svilítið jólatré. Við krakkarnir tókum falleg umbúðabréf og bjuggum til kramarhús. Voru rúsínur og gráfíkjur og því um líkt látnar í þau“

„.Brátt fór mamma að skammta jólamatinn. Það var hangikjöt og döndull, sem kallaður var, þ. e sperðlar magáll og laufabrauð. Kerti fylgdi einnig hverjum diski, eitt stórt kerti. Mamma hitaði einnig súkkulaði og gaf okkur með þessu fína brauði sem manni fannst. Þetta var allt svo yndislegt og skemmtilegt.

(Með leyfi frá Bæjarpóstinum)

Ágúst Bjarnason - Gústi Grímseyingur

“ Fæddur 1917 , ólst upp í Grímsey. Hangikjötið var skammtað og sett í sérstaka kassa sem hver og einn fékk. Það var aldrei nýtt kjöt á jólum. Jólatré voru skreytt með pokum og góðgæti sett í þá , t.d brenndur sykur „

Hangikjötið reykt í bænum.

“Ég átti heima í torfbæ og hangikjötið var alltaf reykt inni í fremra eldhúsinu í bænum og það var því mikill ilmur um allan bæinn. Gjallið var síðan hreinsað úr öskunni og svo var því dreift um gólfið og sópað en gólfin voru glerhörð. Fjósið var áfast bænum sem við sváfum í og um jólin var reynt að velja besta heyið handa öllum skepnunum. “

Unnur Sigurðardóttir frá Svæði Dalvík

Jólamaturinn

“ Á jólanóttina var auðvitað borðað hangikjöt og laufabrauð. Svo var gefin súpa,kjötsúpa eða eitthvað álíka. Það var ekki mikið um nýtt kjöt, ég man ekki eftir því, að það hafi verið slátrað sérstaklega fyrir jólin. Það voru döndlar sem kallaðir voru magálar . Döndlarnir voru búnir til úr ristlunum.Þeir voru ristir skafnir upp og þvegnir. Síðan var þetta vafið upp og saumað utan um þindarnar og reykt og notað sem álegg á brauð.

( Birt með leyfi frá Bæjarpóstinum)

Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður

„Jólaundirbúningnum var að mestu lokið á Þorláksmessu, þá var laufabrauðið skorið og steikt, kleinur og ástapungar, áður var lokið bökun á smákökum og tertum með sultutaui sem voru á stærð við Steinsbiblíu, en auk þess voru bakaðar margar jólakökur í litlum formum auk hveitibrauðs, pottbrauðin voru bökuð í hlóðaeldhúsi. Á aðfangadag var hangiketið soðið, og saltket í matinn þann dag soðið með, það þótti lostæti. Þegar við húskarlar komum frá útiverkum þessa daga drukkum við ilminn af réttunum í bæjardyrunum. Hvert handtak við það sem vinna þurfti átti sér stað og stund og því féll ekkert í gleymsku. Kertin voru steypt úr tólg í þrískiptum formi sem var til og flest til fatnaðar var heimagert…“

úr bók Tryggva Emilssonar „Baráttan um brauðið“

Geymsla matvæla

Áður fyrr var allur matur ýmist þurrkaður, reyktur eða settur í súra mysu. Einnig var hann saltaður, en í þá daga var salt hjá almenningi af skornum skammti. Sumir létu matinn bara liggja og mygla og kallast það kæstur matur og borðaði fólk hann af bestu lyst.Nú til dags þegar tæknin hefur rutt sér til rúms virðist sjálfsagt að hafa ísskáp og frystikistu á hverju heimili og þykir mikið þarfaþing.

Ýmis ráð í eldhúsinu við jólaundirbúninginn

Vel steytt krydd

Eigi að steyta krydd (kardemommu, pipar, engifer o.fl.) reglulega vel, er það yljað í ofninum áður en það er steytt í mortéli. Þá verður það að fíngerðu dufti.

Skökk steik

Oft er steikin skökk, þ.e.a.s. hærri í annan endann, og er því hætt við að hún brúnist ekki jafnt í steikingunni. Þennan vanda leysum við með pappír og álþynnu, brjótum það saman undir þynnri enda steikarinnar og þá verður áferð hennar jöfn og góð.

Steikt í olíu

Þegar steikt er í olíu þarf að gæta þess að olían hitni ekki um of. Besti steikingarhiti er um 170° C. Hafa ber plötuna einu þrepi neðar en þegar steikt er í smjörlíki.

Eggjahvítan rennur undan

Auðvelt er að skilja að hvítu og rauðu með því að hella egginu í trekt. Hvítan rennur niður en rauðan verður eftir.

Gljáandi súkkulaðihúð

Láttu súkkulaðið í skál sem sett er ofan í vatn og bræddu það án þess að vatnsgufa komist að því. Súkkulaðihúðin fær einkar fallegan gljáa ef blandað er 1 tsk. af olíu í 200 g af plötusúkkulaði.

Marengs

Láttu plötuna með bökuðu marengskökunum standa andartak á röku dagblaði. Þá er víst að kökurnar losna af plötunni án þess að brotna eða aflagast.

Kertastjakinn hreinsaður

Notaðu aldrei hníf til að hreinsa vax af fallegum kertastjaka. Taktu kaffitrektina, settu síu í hana og hleyptu upp suðu í katlinum. Haltu stjakanum yfir síunni og helltu sjóðandi vatni yfir hann. Vaxið safnast í síuna en vaskurinn stíflast ekki.

Blikkmót hreinsuð

Oft fellur á eldhúsbúnað úr blikki en hann verður aftur ásjálegur ef hann er soðinn í hálftíma í sterku sódavatni ásamt einhverjum gömlum álhlut (t.d. gömlu loki e.þ.h.). Síðan eru hlutirnir skolaðir og þurrkaðir vandlega.

Möndlusykur

Þegar þú býrð til möndlusykur næst í ís eða kökur skalt þú blanda svolitlu sódadufti saman við hann og gæðin láta ekki á sér standa. En gættu þess vel að bæta þessu í á síðustu stundu, annars verður blandan beisk. Búðu til stóran skammt í einu, hann geymist mánuðum saman.

Húð í kristalskönnu

Ef húð hefur myndast innan í kristalskönnunni þarf að fara að öllu með gát. Kristall er mýkri en gler og getur því rispast. Láttu mulið eggjaskurn í könnuna, helltu síðan vænum edikssopa í hana og gutlaðu því innan um hana. Húðin hverfur eftir smástund og er þá kannan skoluð vandlega. Ef um glerkönnu er að ræða hellir þú köldu vatni og salti í hana og lætur standa nokkra hríð. Þvoðu síðan könnuna á venjulegan hátt.

Einnig er hægt að nota þvottaefni sem notað er í uppþvottavél. Þegar blandan hefur staðið nokkra stund er henni hellt úr könnunni. Síðan stingur þú þvottastykki eða eldhúspappír niður í könnuna og þurrkar innan úr henni.

Úr 500 Hollráð heimilisins

Heimildir:
Saga daganna, Mál og Menning,  Árni Björnsson 1993
(Birt með góðfúslegu leyfi útgefenda og höfundar)
Saga jólanna, Tindur, Árni Björnsson 2006.
Viðtöl við fólk og eigin upplifun.
Og fleira sem er minnst er á neðanmáls við hverja grein..

Mér þætti mjög vænt um að þeir sem eiga í fórum sínum efni, texta, uppskriftir, fróðleik, endurminningar eða upplýsingar sem gætu átt við hér á síðunni hefðu samband.

Jólabakstur

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is