Jólakötturinn

Myndir með textanumi: Talið ofan frá ,  Marina Dejanovic  – Tryggvi Magnússon – Hope Doe  – Ljósmynd Reykjavíkurborg –  Alexandra Noel  –  Heiða Rafnsdóttir  

Við könnumst flest við jólaköttinn, þá voðalegu skepnu sem situr um að taka þá sem eru svo óheppnir að fá engin ný klæði á jólunum.Fyrrum var jólakötturinn hræðilegur ógnvaldur sem börnin óttuðust allra kvikinda mest. Það var eðlilegt þegar örbirgðin var mikil og alls óvíst um nokkurn jólaglaðning. Má fara nærri um alla þá sálarangist sem jólakötturinn olli hjá kynslóð eftir kynslóð fátækra barna. Það þótti nær óbærileg skömm að fara í jólaköttinn. Eftir því sem velmegun hefur aukist, hefur sú ógn sem stafaði af jólakettinum dofnað verulega.

Jólakötturinn er einn af mörgum svipuðum jólavættum sem þekkst hafa í Evrópu á liðnum öldum og talið er að eigi sér fornar sameiginlegar rætur í heiðni. Hlutverk allra er að fylgjast með jólaundirbúningi manna og sjá til þess þeir klári þau verk sem vinna þarf fyrir jólin.  

Ljóst er að hlutverk jólakattarins og samskonar jólavætta tengdust vinnusemi fólks í bændasamfélaginu og jólaundirbúningi. Það gefur auga leið af hverju hræða þurfti fólk og refsa þeim sem ekki fengu ný föt fyrir jólin. Það var hagur húsbænda og heimilismanna að allur undirbúningur jóla gengi vel fyrir sig og ef einhverjir voru latir og töfðu verkin varð eðlilega að grípa til einhverra úrræða. Þar komu ofangreindir refsivendir, jólakötturinn og ættingjar hans, til sögunnar. Stundum var sagt að Jólakötturinn æti stundum jólaref fólksins en það er sá matur sem hverjum manni var skammtaður til jólanna hér áður.

 Einn siður sem tengist jólakettinum kemur að vestan var sá að klára skyldi allt sem byrjað var á fyrir jólin, annars varð það jólafeitt. Það þýddi að jólakötturinn tók allt feitmeti sem fólki var skammtað á jólum og nuddaði því í óklárað prjónlesið.

Jólakötturinn. Teikning Marina Dejanovic.
Jólakötturinn. Tryggvi Magnússon
Jólakötturinn. Tryggvi Magnússon

 Það eru ýmsar hugmyndir á kreiki um tilurð og uppruna jólakattarins þar má nefna að norskur framburður á þessum orðum jólageit og jólaköttur sé nógu líkur til að hafa getað valdið misskilningi þar sem geitur hafa ætíð verið fátíðar hér á landi.   Það má einnig benda á að jólakötturinn er ekki eina kattarskrímslið í þjóðtrú okkar. Þar koma til sögunnar skrímsli af kattarkyni sem eru skoffín, skuggabaldur, finngálkn og urðarköttur en sagt er að jólakötturinn sé af urðarkattakyni. Líkt og jólakötturinn eru þetta myrkraverur sem hættulegar eru mannfólkinu.

Heilagur Nikulás var verndari allra barna. Því var það, að á degi heilags Nikulásar, sem er 6. desember, var oft einhver látinn klæðast gervi dýrlingsins, ganga um og útbýta gjöfum meðal barna, líkt og jólasveinar eru látnir gera í dag. En það sem athyglisverðast er í þessu sambandi er það, að á þessum ferðum hafði hann iðulega í fylgd með sér hlekkjaða veru í púkagervi. Púki þessi, sem gjarnan var klæddur í svarta sauðagæru, fór á kostum í kringum dýrlinginn og skemmti áhorfendum með hrekkjum og skringilegum uppátækjum. Nikulás hafði að sjálfsögðu fullt taumhald á þessum hlekkjaða fanga sínum, þótt óstýrilátur væri, og þannig voru þeir félagarnir, Nikulás og púkinn hans, í raun lifandi tákn um vald hins góða yfir hinu illa.

Hope Doe
Hope Doe
Jólakötturinn. Ljósmynd: Reykjavíkurborg
Jólakötturinn. Ljósmynd: Reykjavíkurborg

Það er þessi púki, fylgisveinn heilags Nikulásar sem er reyndar ættfaðir margra furðuvera sem tengdar eru jólahaldi víða um Evrópu, og of langt mál væri að telja upp hér, en á meðal þeirra er jólahafurinn í Skandinavíu, og jólakötturinn hér á landi. Hvernig púkinn hefur klofnað í mismunandi afleiddar myndir á vafalaust rætur sínar að rekja til þess ruglings sem skapaðist í sambandi við jólasiði á 16. öld, þegar mótmælendur gerðu gangskör að því að kveða niður dýrlingatrú fundu mótmælendur m.a. upp á því, að láta Jesúbarnið taka við því hlutverki heilags Nikulásar, að færa börnum gjafir (þ.e.a.s. gjafir til barnanna eru látnar tengjast fæðingu Jesú), og í þeim félagsskap var púkanum að sjálfsögðu algerlega ofaukið. En vinsældir þeirra Nikulásar meðal almennings voru slíkar, að ógerlegt reyndist að reyna að útrýma þeim með tilskipunum. Í stað þess að láta þá hverfa í algjöra gleymsku, var þeim einfaldega blandað saman við aðra jólasiði sem fyrir voru á hverjum stað, og þá stundum fengin alveg ný hlutverk. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð mun hlutverk Nikulásar að nokkru leyti hafa flust yfir á Lúcíu, sennilega að þýskum innflytjendum á 17. eða 18. öld, en Lúcía hafði áður þótt vera hið versta forað, og gæti þess vegna vel verið eitthvað skyld henni Grýlu okkar.

Púkinn hans Nikulásar er a.m.k. til í tveimur afleiddum myndum á Norðurlöndum. Sú þekktari er jólahafurinn, og alkunna er að klaufir hans og horn hafa löngum verið talin einkenni púka og djöfla. Það kemur nefnilega í ljós að púkinn hefur líka verið til í kattarlíki víðar en á íslandi, og þá fara nú tengslin við jólaköttinn nokkuð að skýrast. Á meginlandi Evrópu var það gömul trú, að Djöfullinn og púkar hans birtust gjarnan í kattarlíki, og í Hollandi er einmitt eitt af mörgum nöfnum Djöfulsins „Duivekater“ sem þýðir Djöflaköttur, eða köttur djöfulsins . Eftir siðaskiptin  varð mikil uppstokkun og blöndun á jólasiðum og upp frá því hafa þeir Nikulás skotið upp kollinum í ýmsum myndum. í Hollandi og Þýskalandi tóku menn t.d. upp á því, að baka sérstakt brauð sem nefnt var „Duivekater“ og borðað var fyrir jólin. Þannig verður púkinn þarna að táknrænu brauði. Þetta brauð barst síðan með innflytjendum til Svíþjóðar, og er þar sama brauðið og heilög Lúcía er látin bjóða uppá á Lúcíudaginn 13. desember. Enda nefnist þetta brauð þar í landi „Dövelskatt“, eða „Lussekatt“, eins og nú er algengast. Þetta samhengi milli brauðsins og púkans verður reyndar alveg rökrétt, ef maður minnist þess að hlutverki Nikulásar hafði að nokkru leyti verið velt yfir á Lúcíu. Púkinn og Nikulás fylgjast þar enn að, þó að í breyttri mynd sé. Ég tel að þarna sé einmitt kominn týndi hlekkurinn sem vantaði til þess að tengja jólaköttinn okkar við uppruna sinn, því að það virðist varla nokkur vafi geta leikið á því, að hinn evrópski „Djöflaköttur“ og hinn íslenski Jólaköttur séu í raun sama skepnan sem báðir eiga ættirsínar að rekja til sama forföður; þ.e. óþæga púkans hans Nikulásar.

Jólaköttur - Alexandra Noel
Jólaköttur - Alexandra Noel
Jólköttur - Heiða Rafns 2011
Jólköttur - Heiða Rafns 2011

Kannski er jólakötturinn mun eldri í íslenskri þjóðtrú og hafa menn nefnt tenginu við Sæmund Fróða og púkann. Það gæti líka verið að siðurinn hefði borist hingað að nýju síðar, t.d. með þýskum eða hollenskum kaupmönnum. Það er ekki vitað með nákvæmri vissu hvernig fæðingu jólakattarins bar að enda er sjaldgæft að slíkt sé hægt þegar um aldagamla þjóðtrú er að ræða. Jólakötturinn er svipaður í háttum og fjöldamargir jólavættir sem þekkst hafa á Norðurlöndum, Bretlandseyjum og á meginlandi Evrópu um aldir. Þar koma líka til sögunnar jólaleikir og vikivakar þar sem þekkt var, bæði hérlendis og erlendis, að menn klæddust gervum ýmissa dýra og vætta og talið að eigi sér fornar rætur aftur í heiðni.  Samkvæmt skoskum heimildum frá því um 1500 er ljóst að illt þótti að fá ekki ný föt fyrir jól svo sú þjóðtrú er a.m.k. 500 ára gömul. Því ætti að vera óhætt að draga þá ályktun að jólakötturinn eigi sér aldagamlar rætur þó ekki sé vitað um eldri heimildir um hann hérlendis en frá því um miðja 19. öld. Svo má segja í stuttumáli  að jólahafurinn norski og jólakötturinn okkar séu báðir afsprengi púkans sem fylgdi Nikulási forðum og var tákn hinna illu afla í heiminum.

Enginn fór í jólaköttinn

Þórey Ólafsdóttir fæddist árið 1915 og átti bernskujól sín í foreldrahúsum á Upphólum, sem var torfbær sem stóð miðja vegu milli Gullfoss og Geysis. „Þá voru jólin mikil hátíð rétt eins og núna þótt með öðru sniði hafi verið. Þórey segir að húslestur hafi verið í hávegum hafður í baðstofunni á Upphólum og hjónin Ólafur og Sigríður skipst á að lesa upp. Jólaguðspjallið var lesið fyrir heimilisfólkið á aðfangadag.

Þórey minnist þess ekki að hafa verið hrædd við jólaköttinn eða jólasveinana en þó var ævinlega séð til þess að „enginn færi í jólaköttinn“ og allir fengu nýja flík. „Mamma prjónaði eitthvað handa hverju okkar svo við hefðum eitthvað nýtt til að fara í á jólunum. Eyja gamla prjónaði ófáar flíkurnar á okkur systkinin en hún var vinkona mömmu og bjó alla tíð hjá okkur. 
Heimildir: Kristín Heiða Kristinsdóttir – Jól í Torfbæ – Morgunblaðið 2003

Rósa Pálsdóttir Akureyri – Holly Hughes Ísafirði –  Óþekktur teiknari – Brian Pilkington / Sólarfilma –  Óþekktur teiknari

BJÖRK - Jólakötturinn

Jólakötturinn á Lækjartorgi í Reykjavík

Jólakötturinn á Lækjartorgi í Reykjavík er með hvorki meira né minna en 6499 led perum. Kötturinn er stór, 5 metrar á hæð og 6 metrar á lengd. Kötturinn er hannaður í samstarfi Reykjavíkurborgar við Garðlist og mk-Illumination í Vínarborg

Sögur um jólaköttin sem krakkar hafa samið

Jólakötturinn

Einu sinni var ung stúlka, hún var afar fátæk og átti hvorki fjölskyldu né vini. Það var komið aðfangadagskvöld og unga stúlkan fékk auðvitað engan jólamat og engar jólagjafir. Eins og öll önnur aðfangadagskvöld þá var hún að labba á milli glugga og laumast til að kíkja inn í húsin þar sem allir voru svo glaðir og hamingjusamir þá óskaði hún sér alltaf innilega hún gæti verið inni hjá einhverju af fólkinu sem skemmtu sér svo vel á jólunum. þar sem hún lá á glugga einum heyrðu hún allt í einu skrítið og veiklulegt mjálm fyrir aftan sig, hún kíkti fyrir aftan sig og sá að þar stóð köttur sem mjálmaði og vildi augljoslega láta klappa sér. Stúlkan gekk að kettinum og sagði ,,æjæj ertu tíndur? Þú mátt alveg vera hjá mér á jólunum“. Kötturinn stökk í fangið á henni og hún gekk í burtu með köttinn. Hún fór með kisa litla í lítið skot milli húsa þar sem hún var vön að sofa á nóttunni og gaf kisanum þann litla mat sem hún átti. Hún hafði fengið þennann mat hjá kaupmanninum á horninu og hafði geymt hann þar til núna. Þegar kötturinn var búinn að borða þá tók hún hann og vafði inn í lítið teppi sem hún átti og hélt á honum og klappaði. Þar sem hún sat og klappaði kettinum byrjaði hann allt í einu að tala !! Stúlkan hrökk í kút en kötturinn sagði ,,ekki vera hrædd, ég ætla að gefa þér 1 ósk af því þú ert búin að vera svo góð við mig“. Stúlkan spurði hver hann væri og hann kvaðst vera Jólakötturinn!!! Stelpan var skelfingu lostinn en sagði ,,ætlar þú þá að éta mig eða hvað“ Jólakötturinn sagðist ekki ætla að gera það og sagði að það væri bara gömul þjóðsaga til að hræða óþekk börn sem eru alltaf að skemma ný föt. Hann sagði að í raun og veru væri hann bara saklaus jólaköttur sem væri kannski pínulítið göldróttur. Litla stúlkan trúði kettinum ekki en hún ákvað samt að prufa að óska sér þð skaðiði varla. Hún óskaði þess að hún ætti fjölskyldu sem væri að halda upp á jólin saman !!! Og viti menn óskin rættist. Allt í einu sat hún við stórt jólatré og var að opna jólagjöf sem stóð á ,,til litlu stelpunnar minnar frá Mömmu“.

Snædís Karlsdóttir Hraunbær 56 110 Reykjavík(2002)

Jólakötturinn á jólaballi

Einu sinni var jölakötturinn að hjálpa hurðaskelli til byggða þegar vonskuveður skall á. Þeir villtust og týndu hvor öðrum. Kötturinn reikaði um í marga klukkutíma þar til að hann kom að stað sem hann hélt að væri fjallaskáli. Og þá varð hann glaður því hann komst þá loksins í skjól bak við skálann. Nokkrum tímum síðar batnaði veðrið og hann fór að líta í kringum sig, þá áttaði hann sig á því að hann var kominn til Mývatns þar sem besta vinkona hans átti heima, kötturinn Blíða. Fyrst jólakötturinn var á annað borð komin til Mývatns fór hann heimsækja hana Blíðu. En þegar þangað var komið var hún ekki heima. Allt í einu sá hann Stúf og Stekkjastaur á leið á jólaball og hann slóst í hópinn. Á jólaballinu skemmti Jólakötturinn sér konunglega og krökkunum þótti bara gaman að fá hann á jólaballið því þetta var náttúrulega fyrsta jólaballið hans. Eftir ballið fór hann aftur í hellinn til Grýlu, Leppalúða og þeirra jólasveina sem eftir voru í hellinum. Stuttu seinna fór hann að fylgja Skyrgámi til byggða. Eitt er víst að hann hefur alltaf hugsað sig um áður enn að hann hefur gert eitthvað seinna.

Gestur Leó Gíslason Norðurvegi 21 630 (2002)

Jólakötturinn er í góðu skapi.

Í dag er Grýla í mjög góðu skapi. Stekkjarstaur á afmæli og hann verður 365 ára!! hvorki meira né minna og Grýla ætlar að halda veislu. Ég, jólakötturin er í góðu skapi eins og allir aðrir í hellinum. Skrítið en satt hann Leppelúði reif sig upp og hljóp út um allar trissur eins og vitlaus maður með boðskort handa öllum tröllunum í nágrenninu og allar tröllamæður sem sáu til hans urðu alveg rasandi bit á að letingin sá væri að hlaupa! En ég ætlaði að gefa pakka eins og flestir þannig að ég fór niður í bæ og leitaði að einhverju til að gefa Stekkjastaur í afmælisgjöf. Eftir langa leit fann ég eitt par af ullarvettlingum sem ég pakkaði inn í tusku sem lá á götunni. Svo stökk ég upp í helli og gaf Stekkjarstaur pakkann og ég fékk góða köku, mjög góða köku! ENDIR.

Jenný Gunnarsdóttir  Steinahlíð 2 a 603 Akureyri (2002)

Jólakötturinn

Það var eitt sinn í sveitaþorpi árið 1909 að strákur átti heima þar. Hann var 11 ára gamall og hét Jói. Hann var algjör prakkari og trúði ekki á neitt sem hét JÓLAKÖTTURINN. Mamma hans sagði alltaf að ef hann yrði ekki þægur í Desember þá myndi hann lenda í Jólakettinum og hún sagði líka að Jólakötturinn væri kolsvartur,með stórar vígtennur,beittar klær og stingandi augu. En hann Jói var sko ekkert hræddur hann sagði að þeta væri bara hjátrú og ekkert annað. En þá sagði mamma hanns að hún hafi einu sinni séð þessa skepnu. Eitt sinn þegar hú (mamma hans Jóa) var heima í fjósinu heyrði hún eitthvað þrusk og leit við og þá sá hún þessa stóru skepnu standa fyrir aftan sig og horfa á hana illum augum. Þá hljóp hún inn til sín og sagði öllum að hún hefði séð ógurlega skepnu sem líktist helst jólakettinum en foreldrar hennar söðu að jólakötturinn væri eyntóm hjátrú og að hún hefði bara sofað og greymt þetta. En hún var alveg viss um að þetta hefði ekki verið draumur. En hann Jói kippti sér ekkert upp við þessa sögu hann starði bara á mömmu sína og sagði þér hlítur að hafa dreymt þetta. En hann skánaði nú ekkert hann Jói hann hélt áfram að vera svona gífurlega óþekkur. Enn einn daginn þá fór Jói uppí fjall hann ætlaði eitthvað að leika sér uppí fjallinu stóra sem var fyrir ofan húsið hjá þeim. Enn viti menn þegar að Jói var búinn að vera dágóða stund uppí fjallinu þá heyrði hann einhvað þrusk sem líktist helst mjálmi. Hann varð orðinn svoldið kvíðinn enn vildi ekki trúa þessu með Jólaköttinnog hélt bara áfram að leika sér. Enn svo heyrði hann aftur vera mjálmað og þá greynilega og hann stökk á fætur og leit allstaðar í kringum sig enn sá ekkert neitt. Enn allt í einu stökk þessi stóra skepna fyrir framan hann og mjálmaði svo hátt að það bergmálaði í öllu. Jói öskraði uppfyrir sig og hljóp niður fjallið og beint inn til sín. Þegar hann kom heim spurði mamma hanns hvaða asi væri á honum enn hann sagði að hann hefði séð Jólaköttinn uppí fjalli. Mamma hanns hló og sagði já það eru þeir sem eru svona óþekkir sem fá að kynnast jólakettinum. En jólakötturinn meiðir aldrei neinn bara hræðir hann. Enn hann Jói var nú aldrei óþekkur eftir að hafa kynnst Jólakettinum því að hann vildi ekki fá að sjá hann aftur.

Jóna Fríður Sigurðardóttir Keflavík

Myndir með textanum í upphafi: Talið ofan frá ,  Marina Dejanovic  – Tryggvi Magnússon – Hope Doe  – Ljósmynd Reykjavíkurborg –  Alexandra Noel  –  Heiða Rafnsdóttir  
Heimildir :
Saga daganna, Saga Jólanna Árni Björnsson – Birt með leyfi höfundar og útgefenda.
Tímarit.is
Lesbók Morgunblaðsins – Guðmundur Ólafsson
Bændablðaið – Hrefna S. Bjartmarsdóttir
Þýðing: Guðjón Ólafsson 
Mynd Jólaköttur eftir Tryggva Magnússon. ( Birt með leyfi ættingja)

Grýla

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is