Jólakort

Fyrstu jólakortin komu á markað á Íslandi kringum 1890 og voru dönsk eða þýsk. Nokkru eftir aldamót var byrjað að gefa út íslensk jóla- og nýárskort. (Saga Daganna)

Jólakortasafnarinn Aðalgeir Egilsson frá Mánárbakka við Húsavík hefur í sínu kortasafni nokkur íslensk kort frá árinu 1898 og hann telur að fyrstu íslensku jólakortin hafi komið út í lok 19. aldar.  Al­mennt fóru Íslend­ing­ar ekki að senda jóla­kort, til vina og ætt­ingja, fyrr en í byrj­un 20. ald­ar og um 1910 var það orðið mjög al­gengt að senda kort í til­efni jól­anna. Hann seg­ir að fyrstu kort­in með ís­lensk­um mynd­um hafi aðallega verið gef­in út af Þjóðverj­um og eitthvað af kortum frá Frakklandi. Hér til hliðar má sjá auglýsingu úr Æskunni fyrir jólin 1897.

Jólakorta auglýsing úr Æskunni

Fyrsta jólakortið

Fyrsta jólakortið varð til fyrir algera slysni. Í desember árið 1843 áttaði Henry Cole, mikilsmetinn Lundúnabúi, sig á að hann hafði gleymt að skrifa bréf með jólakveðjum til vina og ættingja. Honum hraus hugur við því að þurfa að skrifa öll þessi bréf á svona stuttum tíma og þess vegna bað hann vin sinn, listamanninn John Callot Horsley, að hanna fyrir sig kort með staðlaðri kveðju. Innan fárra daga var fyrsta jólakort sögunnar tilbúið, það voru aðeins prentuð 1000 stk. Það var afar látlaust í útliti, með mynd af fólki við gleðskap og alveg án trúarlegs ívafs. Kveðjan var einföld „Gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár“. Horsley var einn af uppáhalds listamönnum Viktoríu drottningar og varð hún yfir sig hrifin af kortinu. Að hennar áeggjan lagði hann fyrir sig að gera fleiri kort og keypti drottningin hundruð þeirra til að senda fjölskyldu sinni og vinum.

Annað jólakortið sem kom út var teiknað af William Maw Egley kom út árið 1848, það má segja að annað kortið sé svipa og það fyrsta og þau voru bæði einföld kort.

Þegar um 1850 voru margir listamenn sem unnu við að teikna jólakort en það var ekki fyrr en eftir 1860 að farið var að fjöldaframleiða þau og jólakortaiðnaðurinn blómstraði. Vinsælasti jólakortaframleiðandinn í Bretlandi var án vafa Raphael Tuck í London sem borgaði vel fyrir fallega hönnuð jólakort. Frægasti viðskiptavinur hans var frú Grover Cleveland, eiginkona bandaríska forsetans, sem lét hafa eftir sér: “Þúsundir Bandaríkjamanna verða stoltir viðtakendur þessa fallegu korta frá forsetanum og konu hans”.

Fyrstu bandarísku kortin voru gefin út af R.H.Pease í New York, en þrátt fyrir það er það útgefandinn Louis Prang frá Boston sem fær þann heiður að vera kallaður “faðir bandaríska jólakortsins”. Louis Prang var innflytjandi frá Þýskalandi 1850 og var frumkvöðull jólakortasamkeppna þar sem vegleg verðlaun voru í boði, allt að $1000, sem var afar rausnarlegt á þeim tíma. Sýnir það líka hve arðsöm þessi iðngrein hefur verið.

Úrvalið var einhæft í byrjun, og á meðan siðurinn var að þróast var myndavalið algerlega háð tískusveiflum. Í dagblöðum í New York var sérstakur dálkur með gagnrýni um nýjustu jólakortin. Þau kort sem þar fengu lofsamlega dóma voru jafnan söluhæst það árið. Myndefnið var vetrarmyndir, mistilteinn og kristsþyrnir.

Eftir 1850 fór heilagur Nikulás að vera áberandi myndefni en jólatrén ruddu sér ekki rúms inn á jólakortin fyrr en á síðustu árum síðustu aldarinnar og blómið sem allir kannast við sem jólastjörnu kemur ekki til sögunnar á kortunum fyrr en á fyrstu árum 20. aldarinnar.

Jólakortin snúast yfirleitt um jólasveininn og gjafir, en ekki má gleyma í öllu amstrinu og gjafakaupunum fyrir hvað jólin standa á meðal kristinna samfélaga – fæðingu frelsarans og fagnaðarerindið innihaldsríka.

Louis Prang

Raphael Tuck & Sons

Íslensk jólakort

Nokkru eftir aldamótin 1900 fóru heimagerð íslensk jólakort að fást í verslunum. Fyrst um sinn voru þetta aðallega kort með ljósmyndum af landslagi og kaupstöðum en seinna fóru teiknuð kort að koma á markað. Á millistríðsárunum varð mikil aukning í sendingu jólakorta og siðurinn varð almennur meðal landsmanna. Sérstaklega voru jólakortin mikilvæg samskiptaleið og tenging milli þeirra sem flust höfðu í þéttbýlið úr sveitunum og ættingjanna heima í sveitinni. Einnig fengu Íslendingar mikið af jólakortum send frá ættingjum í vesturheimi. Að senda jólakort var sterk hefð á Íslandi fram á 21. öldina en með tilkomu samfélagsmiðla hefur jólakortunum fækkað mikið.  

Elstu kortin voru öll einföld en þegar kemur fram á þriðja áratuginn fara að koma tvöföld kort og einnig kort sem skreytt eru með svarthvítum ljósmyndum sem oftast eru vetrarmyndir teknar út í náttúrunni eða myndir af kirkjum. Einnig eru dæmi um  kaupmenn og fyrirtæki hafi sent viðskiptavinum jólakveðju með mynd af versluninni eða tengt átthögunum.

Eftir 1940 verður sýnileg breyting á jólakortunum. Hún felst, meðal annars í því að þau eru ekki eins litskrúðug. Trúlega er ástæðan sú að ekki hefur verið hægt að fá prentun erlendis á stríðsárunum þannig að framleiðslan hefur flust heim. Líklegt er að lélegur vélakostur eða skortur á aðföngum í prentsmiðjunum hafi ekki leyft prentun í mörgum litum því flest kort frá þessum tíma eru svarthvít eða aðeins í tveimur litum. Þau eru aftur á móti afskaplega þjóðleg, til dæmis með íslenskum burstabæ, fólki á leið til kirkju, bónda að koma úr kaupstað með jólavarninginn, jólasveinunum eða jafnvel útigangshestum í hríðarbyl.

Nú eru það íslenskir listamenn sem teikna, flestir virðast eiga rætur í hinni gömlu grónu sveitamenningu og sækja þangað hugmyndir og myndefni Ekki verða íslenskum jólakortum gerð skil öðruvísi en minnst sé á jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum sem fyrir löngu er orðið sígilt.  Það er alveg óhætt að halda því fram að skáldið hafi með þessu skemmtilega ljóði sínu átt stóran þátt í að skapa íslensku jólasveinanna eins og við þekkjum þá í dag. Það er, þessa hressu náunga sem halda fast í ýmis vafasöm sérkenni sín, svo sem matarfíkn, ófyrirleitni, hvinnsku og kvensemi, þrátt fyrir að hafa orðið fyrir töluverðum erlendum áhrifum í klæðaburði og framkomu. Þessir sérkennilegu “karakterar” jólasveinarnir hafa verið listamönnum, sem lagt hafa til myndir á jólakort óþrjótandi uppsretta.

 Á síðustu árum hafa jólakort tekið miklum breytingum. Margir gera sín kort sjálfir og nota eigin myndir og oft er þá tækifærið notað af foreldrum til að gefa ættingjum, vinum og kunningjum kost á að fylgjast með vexti og viðgangi afkvæmanna.  Þá hefur tölvuvæðingin gert fólki auðvelt að útbúa bréf með fréttum og myndum af fjölskyldunni sem koma nú í korta stað. Það er fallegur siður að senda jólakveðju og ég segi áfram jólakort.

Kortateiknarar - Listamenn

Fyrr á árum voru nokkir mjög góðir listamenn sem teiknuðu kort­in. Má þar nefna Tryggva Magnús­son, en eft­ir hann er til mjög mikið af fal­leg­um kort­um og marg­ar serí­ur.  Kortin hans Hall­dórs Pét­urs­sonar er mikl­ar perlur og í miklu uppáhaldi hjá mér. 

Svo getum við nefnt teikn­ara eins Bjarna Jónsson eftir hann er til mikið af  fallegum kortum sem eru algert listaverk og Selmu Jónsdóttur.

Það eru líka skemmtileg kort eftir Barböru W Árnason, Kurt Zier, Ragnhildi Ólafsdóttur, Ágústu  Pét­urs­dótt­ir Snæland  en hún er systir Halldórs Péturssonar. Kort Stefáns Jónssonar skera sig úr  að því leiti að þau voru hugsuð sérstaklega fyrir enska og ameríska hermenn. Nafn Íslands er yfirleitt prentað framan á kortin til að viðtakandi sjái hvaðan kortið berst. Myndirnar hafa yfir sér brag skopmynda, hermaður á íslenskum hesti er að elta uppi ísbjörn. 

Jólakortin sem voru teiknuð frá alda­mót­um 1900 og fram til 1940 eru fallegustu kortin að mínu mati, fjölbreytt og full af lífi og jólastemningu. Eft­ir stríðsár­in breytt­ist út­gáfa korta nokkuð og minna varð um mjúk­ar lín­ur í kort­un­um. 

Auk þess hafa ljósmyndir þekktra ljósmyndara notið vinsælda, oft af þjóðþekktum stöðum í vetrarbúningi, og má þar nefna Snorra Snorrason og Rafn Hafnfjörð. Í seinni tíð hefur færst í vöxt að fólk láti prenta eigin myndir á jólakort. 

Heimildir:
Saga daganna – Árni Björnsson
Fregnir tímarit Sorptistasambands Íslands 2008
Myndir af kortum – m.a. Kortasafn Valgerðar Þorbjarnardóttur

Bjarni Jónsson

Þórdís Tryggvadóttir ( Birt með leyfi ættingja)

Tryggvi Magnússon ( Birt með leyfi ættingja)

Ágústa Pétursdóttir Snæland – Stefán Jónsson – Kurt Zier – Ragnhildur Ólafsdóttir – Barbara Moray Williams Árnason

Hvað skal skrifa í jólakortin

Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári:
Þökkum liðið.
Kær kveðja …..

Sendum ykkur okkar allra bestu jólakveðjur
Tökkum ljúfar stundir á árinu sem er að kveðja
Jólaknús……

Kæru ættingar og vinir.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og alls góðs á nýju ári.
Jólakveðja….

Elsku fjölskylda og vinir
Gleðileg jól
og heillaríkt komandi ár
Þökkum liðnar stundir.
Hátíðarkveðjur…..

Til ykkar kæru vinir sendum við jóla og hátíðaróskir
Njótið samverunnar með fólkinu ykkar
Hittumst hress á nýju ári…..

Sendum okkar bestu óskir um gleði og frið um jólin og farsæld á komandi ári. 
Þökkum liðnar stundir

Jólakveðja….

Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár
Til þín og þinna með bestu þökkum fyrir tryggð og vináttu á liðnum árum

Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár
Þökkum allt á liðnum árum……

Gleðileg jól og gæfuríkt komandi ár
Þökkum þér af alhug góðar og glaðar stundir. 
Óskum þér hins besta á nýju ári…… 

Gleðileg jól og farsælt komandi ár. 
Með innilegu þakklæti fyrir hið liðna. 
Hittumst á nýju ári! 
Með hátíðarkveðju….. 

Ég óska ykkur gæfu á ófarinni braut
ykkur umvefji hamingju sólin.
Í framtíð og nútíð ykkur falli í skaut
sá friður sem innleiðir jólin.

Gleðilegt ár og gæfuríkt komandi ár 
með hjartans þökk fyrir kaffið og góðar og skemmtilegar samræður á síðustu árum 

Gleðilega jólahátíð 
kær jólakveðja…..

Gleðilegt ár og gæfuríkt komandi ár 
Þakka góða vináttu og samverustundir í gegnum tíðina. 

Gleðileg jól og farsælt komandi ár 
óskum við þér með þökkum fyrir allt gott á liðnum árum. 
Guðs blessun í ykkar hús….

 Við óskum ykkur friðsælla og gleðilegra jóla
 Njótið vel þess sem að hátiðin bíður uppá í samveru mat og drykk
Jólaknús……

Gleðileg jól og farsælt komandi ár
með þakklæti fyrir gjöfula vináttu og skemmtilegar stundir liðinna ára. 
Lifðu heill….. 

Sendum okkar bestu óskir um
Gleðileg jól og farsælt komandi ár
Þökkum liðið
Megi komandi ár færa gleði og gæfu
Kær kveðja…….

Við óskum ykkur hamingju og friðar um jólin
Og á árinu sem senn gengur í garð .
Þökkum allar góðu samverustundirnar
á árinu sem er að líða.

Húmið förlast,hækkar sól
Hýrna frosnar grundir
Guð þér sendi gleðileg jól
og góðar vetrar stundir.

Hamingjan gefi þér gleðileg jól.
Gleðji og vermi þig miðsvetrarsól.
Brosi þér himinn heiður og blár
og hlýlegt þér verði hið komandi ár.

Kæra fjölskylda
Nú nýtt ár gengur í garð
við minnumst þess liðna,
sem dásamlegt var
og tíminn leið hratt
Jólakveðju nú við sendum
ykkur um leið og við óskum
öllum gleði og friðar á nýju ári

———————————

Hamingjan gefi þér gleðileg jól
Gæfu þér veiti ný hátíðar sól
Brosi þér heimurinn heiður og blár
Og hlýju þér færi hið komandi ár
Í brúðkaupi okkar var brosið þitt kátt
bjartur þinn svipur og hlegið svo dátt
að gleðjast með vinum ber gæfuna bjarta
fyrir gjafir og hlýhug, við þökkum af hjarta

Hvít jól

(Stefán Jónsson/Irving Berlin)

Ég man þau jólin, mild og góð

er mjallhvít jörð í ljóma stóð.

Stöfum stjörnum bláum, 

frá himni háum

í fjarska kirkjuklukknahljóm.

Ég man þau jól, hinn milda frið

á mínum jólakortum bið

að æfinlega eignist þið

heiða daga, helgan jólafrið.
____

Þó að engin sjáist sól, 
samt ei biturt gráttu. 
Nú skal halda heilög jól, 
hugga alla þig láttu.

Jól í koti, jól í borg, 
jól um húmið svarta. 
Jól í gleði, jól í sorg 
Jól í hverju hjarta

B. P. Gröndal.

Óskina héðan um yndisleg jól,
ykkur við sendum með ljúfustu lund.
Gleði og gæfa með hækkandi sól
gefist ykkur á stjarnljósa stund.

Hækkar sólin
hér um jólin,
hún þó enn er lág.
Sífellt hún þó hækkar,
hennar ljómi stækkar,
uns hún verður há.

Valdimar Briem.

Hamingjan gefi þér
gleðileg jól,
gleðji og vermi þig
miðsvetrarsól,
brosi þér himinn
heiður og blár
og hlýlegt þér verði
hið komandi ár.

G. Jóh.

Heyrið klukknanna hljóm,
er þær hringja inn jól,
þennan skærasta óm
undir skammdegissól.
Vaknar hrifning í hug
þessa heilögu stund,
þegar hljómanna flug
fer um hrímgaða grund.

Ég bið Guð að gefa þér
gleði-nægð um jólin,
æðri og meiri en blómi ber
blessuð júní-sólin.

—-

Sá sem gefur gleðileg jól
og gleður vinarhjarta,
ó, að hann unni öllum sól,
svo enginn þyrfti að kvarta.

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is