Jól

Aðfangadagur - Heilög Lúsía - Brandajól - Jólagjafir - Jólin til forna.

Jól - Aðventukransar og ljós - Að gefa í skóinn - Jólatrésskemmtanir

Jól hefjast nú aðfarakvöld 25. desember. Þau eiga sér á norðurslóðum ævaforna sögu tengda vetrarsólhvörfum. Nafnið er norrænt, og er einnig til í fornensku. Frummerking þess er óljós. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jól voru haldin í heiðnum sið, sennilega með fullu tungli í skammdeginu. Ekki vita menn heldur hvernig þau voru haldin, nema að þau voru drukkin með matar og ölveislum. Buðu íslenskir höfðingjar oft fjölmenni til jóladrykkju. Norræn jól féllu síðar saman við kristna hátíð. Svipuð kristnun heiðinna hátíða um þetta leyti hafði áður átt sér stað suður við Miðjarðarhaf, og var þá ýmist minnst fæðingar krists eða skírnar. Á 4. og 5. öld komst sú venja víðast á að minnast fæðingarinnar 25. desember en skírnarinnar og tilbeiðslu vitringanna 6. janúar, og má þangað rekja jóladagana 13 á Íslandi. Helgi aðfangadagskvölds á rót sína í vöku sem almenn var kvöldið fyrir kaþólskar stórhátíðir enda var oft talið að sólarhringurinn byrjaði á miðjum aftni klukkan sex. Fasta fyrir jól var einnig lögboðin, stundum miðuð við Andrésmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma. Mikil þjóðtrú tengist jólum og jólaföstu í miðju íslensku skammdegi.

Íslendingar eru mikil jólabörn. Lega landsins gerir það að verkum að hér er dimmt stóran hluta úr deginum þegar líður að vetrarsólstöðum. Það kann að skýra mikinn áhuga landsmanna á að skreyta húsin sín ljósum. jólum. Upp úr 1. desember fara jólaskreytingar að sjást fyrir alvöru í heimahúsum og flest eru þau orðin fullskreytt um miðjan mánuðinn. Fyrstu tvær vikur desembermánaðar eru mesti annatíminn í jólaundirbúningnum. Á flestum heimilum er mikill bakstur, allt upp í tíu tegundir af smákökum, randalín og rúllutertubrauð svo eitthvað sé nefnt. Auk þess tilheyrir íslenskum jólaundirbúningi að gera heimilið hreint frá toppi til táar, kaupa gjafir, jólaföt og mat. Mikið er borist á í mat yfir jólahátíðina. Flestir borða reykt svínakjöt og rjúpur. Svínakjötshefðin er komin frá frændum vorum Dönum og er nýleg þar sem svínarækt á Íslandi á sér ekki langa sögu og lengi þurfti heilmikla útsjónarsemi til að komast yfir svínakjöt. Rjúpur eru aftur á móti séríslenskur jólaréttur. Líkt og laufabrauðið var rjúpan upphaflega fátækrakrás og bara borðuð á þeim heimilum sem höfðu ekki efni á að slátra lambi fyrir jólahátíðina. Á jóladag er svo borðað hangikjöt, en það er lambakjöt sem er reykt við sauðatað. Annar algengur réttur á matseðlinum er möndlugrautur sem er hrísgrjónagrautur sem fær nafn sitt af þeim sið að út í hann er sett mandla. Svo verður að borða grautinn þar til einhver bítur í möndluna og fær hinn heppni möndlugjöf.

Þorláksmessa er mikill annadagur hjá flestum. Jólatréð er skreytt, undirbúningur er hafinn við matargerð aðfangadagsins og síðasta skrautið er sett upp. Sumir eru jafnvel enn að ná í síðustu jólagjafirnar og margir nota daginn til að pakka þeim inn. Sú hefð að borða kæsta skötu á Þorláksmessu er upprunnin á Vesturlandi en sífellt fleiri hafa tileinkað sér þann sið. Á aðfangadag setja margir sígrænar skreytingar og logandi kertaljós á leiði ástvina og þá eru kirkjugarðarnir fallegir á að líta baðaðir ljósum. Klukkan sex á aðfangadagskvöld eru svo jólin hringd inn í kirkjum landsins, messur hefjast, kveikt er á ljósunum á jólatrjám í heimahúsum og fólk óskar hvert öðru gleðilegra jóla. Eftir ríkulega máltíð sest heimilisfólkið við jólatréð og gjöfunum er dreift.


Aðfangadagur
Aðfangadagur eða Aðfangadagur jóla er hátíðardagur í kristinni trú. Orðið aðfangadagur mun að líkindum vera þýðing á gríska orðinu parasceve (undirbúningur) sem notað var um daginn fyrir páskahelgina, það er föstudaginn langa. En er núorðið nær eingöngu haft um 24. desember, dagurinn fyrir jóladag og því nefndur svo.  Samkvæmt hátíðadagatali Íslensku þjóðkirkjunnar er aðfangadagur jóla ekki sérstakur hátíðisdagur. Hann markar lok aðventu eða jólaföstu og kl. 18.00 hefst jóladagur. Ástæðan fyrir þessu er, að í stað þess að miða upphaf dags við sólarlag, eins og Gyðingar, fastsettu kristnir menn upphaf daga við miðaftann og lifir það enn í hátíðadagatalinu. Íslendingar fylgja þessu enn hvað jólin snertir.

Íslendingar fagna aðfangadegi með sínum hætti og eru siðirnir æði mismunandi eftir fjölskyldum. Hjá flestum er þó mikið lagt upp úr góðum kvöldverði, gjafir opnaðar eftir klukkan sex og síðan fara margir til miðnæturmessu. Árið 2010 framkvæmdi Gallup á Íslandi könnun sem sýndi helstu venjur og siði og hve margir tækju þátt í þeim. Þar kom meðal annars fram að 98% landsmanna gefa jólagjafir. Menn gefa ekki bara sínum nánustu gjafir því 70% af fullorðnum íslendingum styrkja góð málefni fyrir eða um jólin. Þar kemur líka í ljós að þeir eldri eru gjafmildari en þeir yngri. Mikill áhugi er á jólaljósum og jólaskrauti en yfir 90% heimila eru skreytt með slíku. Og varðandi jólatrén, þá eru 40% heimila með lifandi jólatré, en 12% heimila með ekkert tré. Um þriðjungur Íslendinga sækir guðsþjónustu um jólin, eldra fólk oftar en það yngra. Eins sækja fleiri íbúar landsbyggðarinnar messur, eða 41% en 30% íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Það var alkunnur siður á Íslandi áður fyrr að húsfreyjan gekk í kringum bæinn á aðfangadagskvöld og mælti þessi orð: „Komi þeir, sem koma vilja, veri þeir, sem vera vilja, fari þeir, sem fara vilja, mér og mínum að meinalausu“

Orðið "jól"

Orðið jól kemur þegar fyrir í heiðnum sið og var þá notað um miðsvetrarblót, sólhvarfahátíð. Síðar þegar kristni barst til Norðurlanda og fæðingar Krists var minnst á svipuðum tíma færðist heitið á heiðnu hátíðinni yfir á þá kristnu. Í færeysku er notað jól, í dönsku, norsku og sænsku jul. Í norsku er jol upprunalegra, en jul er tekið að láni úr dönsku. Orðið juhla ‘hátíð’ er fornt tökuorð í finnsku úr norrænu og sýnir háan aldur orðsins. Uppruni orðsins er umdeildur. Elstu germanskar leifar eru í fornensku og gotnesku. Í fornensku eru til myndirnar ol í hvorugkyni og ola í karlkyni, til dæmis rra ola ‘fyrsti jólamánuðurinn’, það er ‘desember’ og fterra ola ‘eftir jólamánuðinn’, það er ‘janúar’. Einnig er þar til myndin ili sem notuð var um desember og janúar. Í gotnesku, öðru forngermönsku máli, kemur fyrir á dagatali fruma jiuleis notað um ‘nóvember’, það er ‘fyrir jiuleis, fyrir desember’. Skylt þessum orðum er íslenska orðið ýlir notað um annan mánuð vetrar sem að fornu misseratali hófst 20.-26. nóvember. Sumir vilja tengja þessar orðmyndir indóevrópskum stofni sem merkir ‘hjól’ og að átt sé við árshringinn. Aðrir giska á tengsl við til dæmis fornindversku ycati ‘biður ákaft’ og að upphafleg merking hafi þá verið ‘bænahátið’. Hvort tveggja er óvíst.

Um þetta má t.d. lesa hjá Ásgeiri Blöndal í Íslenskri orðsifjabók (1989:433) og hjá Bjorvand og Lindeman í Våre arveord (2000:442-443).

Jólin í fornöld

Jésus Kristur fæddist fyrir um 2000 þúsund árum og það ár er í okkar tímatali númer eitt. Þá var enginn á íslandi nema fuglar, fiskar, pöddur og mörg falleg tré. Langa, langa, langa, nær endalausir langa langa afar og ömmur íslendinga voru þá í Noergi, Írlandi og fleiri löndum. Þá héldu menn í menningarlöndunum suður við miðjarðarhafið jól til að fagna frjósemi jarðar, fagna því að sólin snýr við á göngu sinni og lætur blóm og grös vaxa á ný. Menn fögnuðu nýrri fæðingu sólar, þrælarnir fengu að gleðjast með húsbændum sínum og allir fengu nógan mat og drykk. Þetta voru fínar veislur sem stóðu í marga daga , og krakkar fengu að vera með og dansa og fíflast fram á nótt. Þessar veislur voru oft haldnar á fyllu tungli svo að menn og börn gátu dansað í birtunni. Í Rómaveldi var stærsta veislan um jólaleytið helguð guðinum Satúrnusi sem stjórnaði frjósemi jarðar. Þetta voru heiðin jól, en kristnir menn kalla trú þeirra manna sem ekki trúa á Jesúm Krist heiðna trú. Rómaveldi sem réði yfir stórum hluta Evrópu og löndunum í kringum miðjarðarhaf, gerði kristna trú að ríkistrú. En menn vildu ekki hætta að skemmta sér á jólunum, menn vildu ekki hætta við dans, gjafir í mat og víni og dýrlegar leiksýningar á jólunum. Þess vegna var ákveðið að 25. desember , sem í Rómaveldi hafði verið fæðingardagur hinnar ósigrandi sólar, væri fæðingardagur frelsarans Jesú. Réttur fæðingardagur Jesú var löngu gleymdur, en eftir að menn tóku að trúa á þann guð, sem hann boðaði, var Jesú sjálfur kallaður ósigrandi sól og ljós heimsins. Menn vissu ekki hvenær hann átti afmæli, en trúðu því að hann væri ekki maður með venjulegan afmælisdag eins og við hin, heldur sonur guðs. Hann er í augum þeirra sem á hann trúa ljós jólanna – eins konar jólasól.

Jól norrænna fornmanna

Fyrir meira en ellefhundruð árum hófst landnám á Íslandi. Þá sigldi fólk í stórum hópum til íslands. Þetta voru norskir og írskir bændur með fjölskyldur sínar, húskarlar, húskonur, og nokkrir víkingar með írska þræla. Norðmennirnir voru flestir heiðnir, en fólkið sem hingað kom frá Írlandi var kristið. Við köllum stundum tímann, áður en við tókum kristna trú, fornöld. Fornöld var lengur á norðurlöndum en í suður Evrópu. Það var ekki fyrr en árið 1000, þegar tíu hundruð ár voru liðin frá fæðingu Jesú, að Íslendingar tóku kristna trú og fóru að halda kristin jól. Þá voru sumar þjóðir suður í Evrópu búnar að hafa þá guðstrú sem Jesú boðaði í mörg hundruð ár. Víkingarnir sem bjuggu innan um friðsama bændur á Norðurlöndum fóru á landnámsöld í grimmilegar ránsferðir suður til Evrópu. Þeir voru villimenn í augum manna í englandi, Írlandi og Frakklandi því þeir rændu klaustur og rupluðu, drápu menn og gerðu aðra að þrælum sínum. En árið 1000 voru kristnar hugmyndir farnar að berast til Norðurlanda frá þjóðunum sunnar í álfunni. Íslendingar tóku þá kristna trú. Þá hættu Íslendingar og Norðurlandabúar að trúa á fornu guðina sína og fengu hinn kristna guð, Jesúm, Maríu og dýrlingana í staðinn. Fólkið í norðri fór að líta á heiminn með augum kristinna manna. Ótrúlega stutt er síðan að sá siður lagðist niður að taka þræla, það gerður kristnir menn líka fyrir nokkrum mannsöldrum. En það þykir slæmt sem er gert við mann sjálfan . Kristnum mönnum þótti fyrr á öldum allt í lagi að sækja þræla til Afríku þó að helmingurinn dæi á leiðinni, og halda síðan heilög jól. En kristnum mönnum þótti það aftur á móti mikil villimennska þegar víkingarnir gerðu þá sjálfa að þrælum. Kristnir menn hafa á öllum öldum farið í hræðileg stríð og jörðin verið af blóði á jólum. Mannkindin er því miður ansi gölluð eins og skynsöm börn sjá fljótt þegar þau hugsa um heimsmálin. Sumir eru að springa af spiki og ofáti og henda mat meðan aðrir deyja úr hungri. Á jólunum fær ríka fólkið oft samviskubit og gefur þeim sem eru fátækari peninga fyrir mat og klæðum. Þannig hefur það verið á öllum öldum líka í fornöld. ítið er vitað um jólin áður en norrænir menn, þar á meðal íslendingar, fóru að trúa Jesúm

Jólin eldri en marga grunar

 Kristnir menn litu á Satúrnusarhátíðina sem guðlast og skurðgoðadýrkun

Í huga flestra tengjast jólin fæðingu Jesú Krists fyrir um 2000 árum og kristinni trú. Jólin eiga sér mun eldri sögu og fyrir 4000 árum héldu íbúar Mesópótamíu tólf daga hátið í kringum vetrarsólstöður. Hátíðin var haldin til heiðurs guðinum Marduk sem samkvæmt trú Mesópótamíubúa barðist við ill öfl á þessum árstíma. Á hverju ári fórnuðu íbúarnir leikkonungi sem átti að standa við hlið Marduks í baráttu sinni. Leikkonungurinn var oftast dæmdur glæpamaður sem klæddur var í viðhafnarklæði og auðsýnd konungleg virðing. Persar og Babýlóníubúar héldu svipaða hátíð sem nefndist Sacaea og í einn dag á ári skiptust húsbændur og hjú á hlutverkum. Þrælar urðu húsbændur og húsbændur vinnuþý.

Illir andar
Evrópubúar trúðu því að illir andar, álfar og tröll væru mikið á ferli um jólaleytið og sérstakar helgiathafnir fóru fram til að tryggja að sólin hækkaði aftur á lofti. Íbúar í nyrsta hluta Skandinavíu sáu ekki til sólar í heilan mánuð í mesta skammdeginu og sendu menn á fjöll til að leita að sólinni. Þegar þeir komu til baka með þær fréttir að sólin væri að hækka á lofti var haldin stórveisla þar sem eldar voru kveiktir til að bjóða hana velkomna.

Satúrnusarhátíð
Grikkir blótuðu Kronos um vetrarsólstöður og Rómverjar héldu hátíð Satúnusar um svipað leyti. Satúrnusarhátíðin stóð frá miðjum desember og fram til 1. janúar. Hátíðin fór að miklu leyti fram úti á götu og fólk klæddist grímubúningum, fór í skúðgöngur, hélt átveislur (eins og við), heimsóti vini og gaf gjafir. Rómverjar skreyttu heimili sín um jólin og logandi kerti voru hengd á sígræn tré. Einnig þekktist að húsbændur þjónuðu þrælum sínum. Kristnir menn í Róm litu á Satúrnusarhátíðina sem argasta guðlast og skurðgoðadýrkun. Þeir vildu stöðva átið og gleðskapinn og halda upp á fæðingu Krists með bænum og kirkjusókn. Þegar kristni var lögtekin sem ríkistrú í Róm reyndu kirkjunnar menn að stöðva hin heiðnu hátíðarhöld en með litlum árangri. Smám saman yfirtók kirkjan vetrarsólstöðurnar og hugmyndina um upprisu sólarinnar og gerði hana að sinni.

Ákveðið árið 350
Ekkert er vitað um nákvæman fæðingardag Jesú Krists en sagan segir að haldið hafi verið upp á hann frá því um árið 98 og að árið 138 hafi biskupinn í Róm gert hann að stórhátíð. Það var svo árið 350 að Júlíus páfi 1. ákvað að fæðingardagur Krists skyldi haldinn hátíðlegur 25. desember ár hvert.

Krans

Aðventukransar

Aðventukransar
Sagan segir að í kringum 1830 hafi þýskir kaupmenn tekið sig til og farið að selja svokallaðar aðventukrónur. Það voru kransar sem voru á einni til þremur hæðum og á hverjum kransi voru fjögur kerti sem skyldu tákna sunnudagana fjóra í aðventu. Krónan var síðan hengd upp í loft með öllu saman.  Síðar var farið að einfalda krónurnar og urðu þá til aðventukransar til að standa á borði. Siður þessi breiddist út um Þýskaland og þaðan til Danmerkur. í Danmörku urðu kransarnir mjög útbreiddir á hernámsárunum enda var þá fátt annað til að prýða heimilin.   Talið er að aðventukransar hafi ekki komið til íslands fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld og þá fyrst sem skreytingar í einstaka gluggum verslana og á veitingahúsum. Það var ekki fyrr en í kringum 1960-70 sem aðventukransar urðu söluvara á íslandi og samtímis því fór fólk að gera eigin kransa. Það má kannski bæta því við að aðventa er latneskt orð sem merkir tilkoma, það er koma Krists. Samkvæmt kristinni trú bera aðventukransar fjögur kerti. Hvert kerti hefur sitt tákn.

Aðventukransarnir bera fjögur kerti og er kveikt á einu fyrir hvern sunnudag í aðventunni. Guðspjöll sunnudaganna boða komu Drottins. Logandi kertin merkja komu Krists og aðdragandann að henni. Litur aðventunnar er fjólublár.

Fyrsta kertið er Spámannskertið, sem minnir á fyrirheit spámannanna um komu frelsarans.

Annað kertið er Betlehemskertið, og heitir eftir fæðingarbæ Jesús.

Þriðja kertið er Hirðakertið, nefnt eftir hirðingjunum sem fyrstir fengu fregnir um fæðingu frelsarans.

Fjórða kertið er Englakertið, sem minnir okkur á englana sem fluttu fréttina um fæðingu frelsarans.

 

Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

Fyrsta kerti
Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

Annað kerti
Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

Þriðja kerti
Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

Fjórða kerti
Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.

Heimildir:
Saga daganna. Árni Björnsson
Tímarit.is
Kirkjan.is

Brandajól

Þegar líður að jólum er þeirri spurningu stundum varpað fram hvort nú muni ekki vera brandajól eða öllu heldur stóru brandajól. Þessi spurning var síðast til umræðu í fjölmiðlum árið 1992 þegar jóladag bar upp á föstudag. Jólahelgin lengdist þá um einn dag við það að þriðji í jólum var sunnudagur. En voru þetta stóru brandajól? Í Almanaki Þjóðvinafélagsins árið 1969 var eftirfarandi skýring gefin:

brandajól, jól sem falla þannig við sunnudaga, að margir helgidagar verða í röð. Venjulega haft um það, þegar jóladag ber upp á mánudag. Stundum hefur verið gerður greinarmunur á stóru brandajólum og litlu“ brandajólum, en notkun heitanna virðist hafa verið á reiki. Nafnskýring óviss, ef til vill tengt eldibröndum á einhvern hátt. Sunnar í löndum kemur svipað orð fyrir í sambandi við páskaföstuna (Dominica Brandorum: 1. sunnudagur í föstu).

Ætlunin er að bæta nokkru við þessa skýringu með því að rekja helstu heimildir. Sú elsta mun vera minnisblað sem Árni Magnússon ritar, líklega í byrjun 18. aldar (AM 732 a XII 4to). Þar segir að brandajól kalli gamlir menn á Íslandi þegar jóladag ber upp á mánudag, áttadag (nýársdag) á mánudag og þrettándann á laugardag. Árni bætir reyndar við, að sumir telji þá aðeins brandajól, að þetta gerist á hlaupári, en erfitt er að skilja ástæðuna fyrir slíkri reglu. Á þessum tíma og fram til 1770 var þríheilagt á stórhátíðum, svo að þriðji í jólum var helgidagur. Þegar jóladag bar upp á mánudag, urðu því fjórir helgidagar í röð (fjórheilagt).

Önnur heimild, nokkru yngri, er orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík (AM 433 fol.), sem rituð er á latínu. Þar segir að brandajól heiti það þegar fjórir helgidagar fari saman. Séu það brandajól meiri, ef sunnudagurinn fari á undan fyrsta jóladegi, en brandajól minni, ef sunnudagurinn fari á eftir þriðja degi jóla. Þetta mun ritað um miðja 18. öld.

Næst er brandajóla getið í íslensk-latnesk-danskri orðabók sem séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal samdi á árunum 1770-1785. Þar segir að brandajól séu þegar dagurinn fyrir fyrsta jóladag eða dagurinn eftir þriðja í jólum sé sunnudagur. Er það sama skýring og hjá Grunnavíkur-Jóni, nema hvað Björn minnist hvorki á stóru né litlu brandajól. Tæpri öld síðar vitnar Eiríkur Jónsson í þessa heimild í orðabók sinni (Oldnordisk Ordbog, 1863), en bætir því við, að frekar séu það brandajól ef jóladagur sé föstudagur eða mánudagur. Eiríkur tekur þarna tillit til þess að þriðji í jólum er ekki lengur helgidagur og breytir skilgreiningunni samkvæmt því.

Árið 1878 ritar Jón Sigurðsson grein um almanak, árstíðir og merkidaga í Almanak Þjóðvinafélagsins. Jón minnist á brandajól og segir, eins og Árni Magnússon, að menn hafi kallað það brandajól þegar jóladag bar upp á mánudag. Jón nefnir, að sérstök helgi hafi áður fyrr verið á áttadegi jóla og þrettándanum, og hafi þessar helgar báðar lengst um einn dag á brandajólum. Það, að allar helgarnar þrjár lengist á brandajólum, kemur líka óbeint fram á minnisblaði Árna Magnússonar.

Snemma á þessari öld ritar séra Jónas Jónasson frá Hrafnagili (d. 1916) um orðið brandajól (Íslenskir þjóðhættir, útg. 1934, bls. 207). Jónas segir, að fyrir 1770 hafi það heitið brandajól þegar fjórheilagt varð, hvort sem það bar þannig til að jóladagur féll á mánudag eða fimmtudag. Heimildar getur Jónas ekki, en Sigfús Blöndal gefur sömu skýringu í Íslensk-danskri orðabók (1924) og vitnar í orðabók Björns í Sauðlauksdal.

Jónas frá Hrafnagili segir enn fremur, að eftir að jólahelgin var stytt, árið 1770, hafi menn kallað það brandajól þegar þríheilagt varð, þ.e. þegar jóladag bar upp á mánudag eða föstudag, en hina fornu fjórhelgi hafi menn kallað brandajól hin stóru. En Jónas segir líka, að menn hafi stundum kallað það stóru brandajól þegar jóladag bar upp á þriðjudag, svo að þarna eru komnar tvær skýringar á nafngiftinni stóru brandajól og hvorug þeirra fellur saman við hina eldri skýringu Jóns frá Grunnavík. Nýjustu skýringuna er að finna hjá Sigfúsi Blöndal sem segir að nú heiti það stóru brandajól þegar jóladag beri upp á föstudag og helgidagar verði fjórir í röð. Sigfús telur aðfangadaginn greinilega með helgidögum þótt hin kirkjulega helgi hefjist ekki fyrr en á miðjum aftni (kl. 18) þann dag. „Litlu brandajól“ kallar Sigfús það þegar jóladagur er á mánudegi, því að þá verði helgidagar einum færri. Segja má að það skjóti skökku við, þegar þau einu jól sem Árni Magnússon kallar brandajól, og Jón frá Grunnavík kallar brandajól meiri, eru orðin að litlu brandajólum!

Af framansögðu er ljóst að á liðinni tíð hafa menn lagt mismunandi skilning í orðið brandajól, einkum þó hvað séu stóru og litlu brandajól. Þær heimildir sem vitnað hefur verið í, benda eindregið til að orðið brandajól hafi upphaflega merkt einungis það þegar jóladag bar upp á mánudag. Síðan hafa einhverjir farið að kalla það brandajól líka, þegar sunnudagur fylgdi á eftir jólahelginni. Þau jól hafa þó verið nefnd brandajól minni eða litlu brandajól, því að þau urðu ekki til að lengja helgar um nýár eða þrettánda. Eftir að hætt var að halda þrettándann heilagan (1770) hafa menn horft meira til þess hvaða dagamynstur gæfi lengsta jólahelgi eða flesta frídaga. Það hefur leitt til frekari ruglings, hin upphaflega merking stóru brandajóla hefur gleymst, og loks hafa menn gert litlu brandajólin að þeim stóru.

Ef menn vilja koma reglu á þetta mál, mælir margt með því að fylgt verði elstu heimildum og heitið brandajól einungis haft um það þegar jóladag ber upp á mánudag. En ef menn kjósa að hafa tvenns konar brandajól, mættu þetta heita stóru brandajól, en litlu brandajól yrðu þá þau jól þegar jóladag ber upp á föstudag. Ekki virðist ráðlegt að tengja skilgreininguna við annað en kirkjulega helgidaga því að aðrir frídagar eru sífelldum breytingum háðir og auk þess mismunandi eftir starfsstéttum. Samkvæmt þessu hefði í mesta lagi átt að telja jólin 1992 til litlu brandajóla, en næstu (stóru) brandajól verða þá árið 1995.

Um forliðinn branda- í orðinu brandajól er það að segja, að ýmsir hafa túlkað hann svo, að þar sé átt við eldibranda. Þetta er þó engan veginn víst, og gæti allt eins verið alþýðuskýring. Árni Magnússon hefur það eftir gömlum mönnum, að nafnið sé af því dregið, að þá sé hætt við húsbruna, en „adrer hallda þad so kallad af miklum liosa brenslum Nafngiftin hefur því valdið mönnum heilabrotum í þrjú hundruð ár að minnsta kosti, og verður svo vafalaust enn um hríð.n

(Úr Almanaki Háskólans 1994)

Að gefa í skóinn

40c09f45-a772-46b0-85a3-32486e82481a

Eftir miðja 20. öld breiddist sá siður hratt út í Reykjavík og síðar öðrum kaupstöðum að börn settu skó sinn út í glugga á hverju kvöldi nokkru fyrir jól í von um að jólasveinn léti í hann eitthvert góðgæti sem fyndist morguninn eftir. Sú von gerði þau oft þægari að sofna.
Siðurinn varð hinsvegar mjög hamslaus á Íslandi fyrst eftir 1950. Sumir byrjuðu strax í upphafi jólaföstu eða 1. desember, og stundum komu stórar fjárfúlgur í skóinn. Olli slíkt bæði metingi og sárindum þegar börn báru sig saman í skóla, og leiðindum fyrir alla uppalendur. Ekki var gert neitt skipulagt átak til að hamla gegn þessum ófögnuði. Fóstrur og ömmur leituðu þó ráða hjá þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins, og af hennar hálfu var fjallað um málið í Ríkisútvarpinu. Árangurinn varð sá að upp úr 1970 tókst smám saman að innræta þá eðilegu meginreglu að ekkert kæmi í skóinn fyrr en fyrsti jólasveinninn kemur til byggða 13 eða 9 nóttum fyrir jól, og ekki væri annað en smáræði í skónum.

Bréf til starfsmanna og sjálfboðaliða í skógjafadeildum landsins.

Ég er hér
Það styttist í að það fari að vera nóg að gera á verkstæðum og starfsstöðvum skógjafadeilda landins. Jólavefur Júlla mælir eindregið með því að undirbúningur hefjist tímanlega, vel verði haldið á spöðunum og minnir á að þetta á vera skemmtilegt, ekki kvöð og alls ekkert stress og munum að hafa börnin í huga, gefa þeim tíma og athygli, samverustundir eru frábærar skógjafir. Höfum það í huga þegar verið er að hanga í símanum eru börnin á meðan að segja „Ég er hér“

Börnin blessuð börnin
Börnin blessuð börnin eru mjög klár, það er mikilvægt að huga að því að þau eru meðvituð um það sem er gott fyrir umhverfið okkar. Þess vegna ætti að forðast að kaupa ódýrt plastdót sem endist stutt og verður komið í ruslið eftir nokkra daga. Svo er mikilvægt að ræða við starfsmenn í öðrum skógjafadeildum, fá ráð og sammælast um hvað skal gefið í skóinn og kannski hvað ekki. Það er mjög umhugsunarvert að gefa dýrar gjafir í skóinn, það er ekki gott fyrir neinn, hvorki þann sem fær gjöfina né þá sem fá hana ekki. Nú á tímum samfélagsmiðla eru tíðindi fljót að berast og það að einn fái stórt og dýrt getur gert svo marga sára og leiða.

Aðventan
Aðventan er vandmeðfarin þegar að börn eiga í hlut. Þau geta verið spennt, kvíðin eða óróleg yfir truflun á rútínunni Ekki nota þetta skógjafaverkefni á nokkurn máta til að hræða eða hóta. Ekki nota að börnin þurfi að vera góð, öll börn eru góð. Ekki tengja þetta við svefninn, það að börnin þurfi að fara snemma að sofa annars fái þau ekki i skóinn. Ekki tengja þetta við mat, að þau verði klára matinn og svo framvegis, ekki nota þetta ef að barn hefur t.d. misst sjórn á skapi sínu. Ekki nota að Grýla og jólasveinarnir fylgist með hverju spori barnanna því að allt þetta og meira til getur skapað kvíða og spennu sem getur aftur á móti leitt til erfiðrar hegðunar. Hrósum börnunum fyrir góða hegðun. 

Essin fjögur
Smáar, sniðugar og skemmtilegar skógjafir er málið. Markmið starfsmanna skógjafadeildarinnar ætti að vera: „Verum sniðug“. Verið líka skipulögð og undirbúið alla dagana tímanlega því ef þið eruð að gera þetta á síðustu stundu  gætuð þið endað á að kaupa tóma vitleysu.

Höfum gaman af þessu
Gefum okkur tíma í þetta verkefni, leggjum frá okkur símann og njótum.
Gaman að nefna það við börnin að jólasveinunum finnst gaman að fá bréf, ekkert endilega óskir hvað þeim langi í jólagjöf. Þeir vilja vita hvað krakkarnir eru að gera í leikskólanum, skólanum og í frítímanum og í leiðinni styrkir þetta sköpun hjá börnunum. Það gæti verið gjöf eða hluti gjafar að jólasveininn gefi bréf í skóinn og spyrji börnin um þeirra hagi sem þau þurfa svo að svara skriflega. Einnig gæti þetta verið verkefni sem að jóasveinninn biður börnin um að leysa, taka til, lesa bók, týna rusl af lóðinni gera við eitthvað, heimsækja ömmu á dvalarheimilið og færa henni piparkökur eða smá súkkulaði svo fátt eitt sé nefnt. 
Gott er að byrja á því að huga að og skoða hvað er til heima hjá okkur, ekki stökkva af stað út í búð. Hvað er til, hvað get ég búið til og svo framvegis.

Hugmyndir sem vert er að skoða

Í baðið
Finna skemmtilegt dót í baðið. Freyðibað, baðbombur, jólasveinabaðsalt eða leikföng til að leika með í baði og hér er hugmyndin að þetta sé annaðhvort eitthvað sem að klárast /eyðist og eða dót sem er umhverfisvænt og leikið er með aftur og aftur.

Gjafabréf
Gjafabréf geta verið sniðug sem gjöf í skóinn. Hafa skal í huga að þau geta jafnt verið heimatilbúin eða keypt hjá verslun eða þjónustuaðila. Ferð í ísbúðina, bakarí, bíó, bókasafn, skautaferð, heitt kakó og piparkökur, kósýkvöld, ævintýradagur með fjölskyldunni. Hér eru möguleikarnir endalausir.

Bakstur – Bakstursdót
Að baka saman fyrir jólin er dýrmæt stund fyrir alla. Gjafir því tengdu eins og kökuförm, lítil eða stór kökukefli, áhöld, svunta eða kokka/bakarahúfa Það væri hægt að græja t.d. piparkökudeig og gefa það í skóinn. Þarna er t.d. hægt að dreifa hugmyndum þessu tengdu á nokkra daga. 

Föt
Gott að hafa í huga að samtvinna skógjafaverkefnið við það sem hvort sem er þarf að kaupa t.d. að gefa föt sem barnið vantar í skóinn. Sokkar, nærföt, kósý jólanáttföt, jólasveina húfa, hlýir sokkar eða inniskór.

Bækur – Lestur
Litlar skemmtilegar bækur sem eru ekki dýrar er dásamleg gjöf. En góð hugmynd er að taka jólabarnabækur á bókasafninu og gefa í skóinn. Og þó að þeim verði skilað þá er það þannig að jólabækur eru hvort sem er bara lesnar í kring um jól og fara svo í geymslu.
Svo er hægt að hafa bréf frá jólasveininum, að hann hafi hitt ömmuna eða afann og fundist það góð hugmynd að gefa barninu lestrar eða sögu stund með þeim t.d. sitthvort kvöldið, semsagt tvær gjafir klárar þar.

Að skapa
Það er mikilvægt fyrir alla að skapa, það þurfa allir að fá útrás við sköpun.
Teikniblokk og teikniblýantur, vatnslitir, perlur og perluform, lítil og auðveld útsaums vekefni, leir, leirform, skartgripaföndur, jólaskraut, litabækur eða útprentaðar myndir af netinu það elska allir að lita saman.  Það er hægt að gera gjafir fyrir nokkra daga með skapandi gjöfum.  Munum að hafa alltaf í huga að það sem að við kaupum nýtist eða eyðist og sé ekki plastdrasl sem fer í ruslið fljótt.

Sígilt
Allir fá þá eitthvað fallegt. Fátt er jólalegra en að fá kerti, nú er til svo mikið af skemmtilegum ódýrum rafmagnskertum og svo gamli góði spilastokkurinn, 52 spilin. Við minnum á að það er mikilvægt að líta upp úr símanum og góð hugmynd að spila frekar við börnin. Það er til mikið af skemmtilegum smáspilum en munum að vanda valið.

Sælgæti eða ávextir
Jólavefurinn mælir ekki með miklu af sælgæti í skóinn heldur tengja það við nammidag ef þeir eru til staðar hjá fjölskyldunni eða sleppa því alveg. Mandarína, jólaepli eða aðrir ávextir er skemmtilegt, jólalegt og hollt.

Púsluspil
Að skipta púsluspilum er góð hugmynd. Það er hægt að gefa púsl sem hentar allri fjölskyldunni að púsla saman, stök minni púsl.  Það getur líka verið sniðugt að gefa aðeins flóknari púsl og búa þar með til  fjölskyldu púslstund. Önnur hugmynd er að taka púsl fyrir börn, púsla því þegar þau sjá ekki til, setja fyrst hringinn í poka og skipta svo restinni í tvo poka þ.e.a.s. púslunum hægra megin og svo vinstra megin  og gæti skapað jákvæða og skemmtilega spennu að sjá hvað kemur næst eða yfirleitt að sjá hvort að jólasveinnin yfirleitt gefur þetta næst eða kannski þar næst, gæti verið ávöxtur þarna á milli.

Jólaskraut
Það er hægt að gefa efni til þess að föndra heimagert jólaskraut. Það má finna gamalt skraut af loftinu til að hengja á jólatréið. Efni og kannski áhöld til að
föndra jólakort eða til að búa til bókamerki

Munið svo að allt þarf að vera klárt að kvöldi 11. desember.

Aðfaranótt:

 1. des: Stekkjastaur
 2. des: Giljagaur
 3. des: Stúfur
 4. des: Þvörusleikir
 5. des: Pottaskefill
 6. des: Askasleikir
 7. des: Hurðaskellir
 8. des: Skyrjarmur
 9. des: Bjúgnakrækir
 10. des: Gluggagægir
 11. des: Gáttaþefur
 12. des: Ketkrókur
 13. des: Kertasníkir

Heilög Lúsía. 13. desember - Saffranbrauð

Lúsía var stúlka sem bjó á Sikiley, dóttir ríkra foreldra og talið er að hún hafi fæðst árið 283. Hún dó píslarvættisdauða árið 304 í ofsóknum keisara gegn kristnum mönnum. Lúsía ákvað ung að helga líf sitt Guði og neitaði þess vegna bónorði ungs manns sem kærði hana fyrir að vera kristin, í hefndarskyni. Keisarinn dæmdi hana þá til lífstíðarvistar í hóruhúsi en hún bjargaðist þaðan með undraverðum hætti. Þá var hún dæmd til dauða og átti að brenna hana á báli. En logarnir sveigðu fram hjá henni og henni var bjargað frá þeim. Þá var ákveðið að stinga hana til bana með sverði sem var stungið niður í háls á henni. Sögur um heilaga Lúsíu eru þekktar frá 5. öld og Lúsíudagurinn er 13. desember en þá þótti vera ein lengsta nótt ársins. Lúsíuhátíðin er hins vegar hátíð ljóssins og er það tengt við nafn hennar en Lúsia er skylt latneska orðinu „lux“ sem merkir ljós. Það eru sérstaklega Svíar sem halda dag Lúsíu hátíðlegan en siðurinn hefur einnig lifað að einhverju leyti í Noregi. Á síðustu áratugum hefur hátíðar Lúsíu verið minnst víðar á Norðurlöndum, t.d. hér á Íslandi. Á Lúsíuhátíðinni er sunginn texti tileinkaður Lúsíu og talið er að lagið sé sikileyskt þjóðlag. Lúsía gengur fremst í flokki með ljósakrans á höfði en kransinn er tákn hreinleika Lúsíu, sem brúðar Krists. Rauði lindinn sem Lúsían ber um mitti sér er hins vegar tákn sverðsins sem var stungið í háls hennar. Með Lúsíu gengur hópur barna og hafa stelpurnar englahár um mitti sér en strákarnir bera uppmjóan hatt. Samkvæmt sænskum sið ber Lúsía heimilisfólkinu morgunverð. Það byggir á gömlum sögnum um að Lúsía hafi borið kristnu fólki sem hafðist við í katakombum vegna ofsókna, mat. Í Svíþjóð eru bakaðar sérstakar bollur eða Lúsíubrauð (Lusekatter) með saffrani sem er borðað þann 13. esember.

*Lúsíuhátíð náði fyrst fótfestu í Värmland í Svíþjóð á 18. öld og breiddist síðar út um alla Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum.

* Mikinn þátt í vinsældum hennar á lagið Sankta Lúsía sem Gunnar nokkur Wennerberg mun hafa haft með sér frá Ítalíu árið 1852. Lagið  var       var þá ekki um Sankta Lúsíu sjálfa heldur fiskihöfn sem nefnd hafði verið eftir dýrlingnum.

*Nafn hennar þýðir „ljós“ og er hún verndardýrlingur blindra og sjónskertra.

Hljóð er in höfga nótt.
Hægum í blænum
dormar nú sérhver drótt.
Dimmt er í bænum.

Birtir af kertum brátt,
blíð mærin eyðir nátt:
heilög Lúsía,
heilög Lúsía.

Veröld í vændum á
vonglaðar stundir.
Ljósdýrð frá himnum há
hríslast um grundir,

Drottins því bjarma ber
blessuð mær öllum hér,
heilög Lúsía,
heilög Lúsía.

Líða um lönd og sæ
ljúfsætir ómar.
Streyma frá byggð og bæ
blæfagrir hljómar.

Hennar lof heyrast skal
himins um bjartan sal
helgrar Lúsíu,
helgrar Lúsíu!

Elsa E. Guðjónsson

Saffranbrauð –  Lúsíukettir.
Í þessi brauð þarf hveiti, smjör, egg, sykur, mjólk, rúsínur, ger og salt og síðast en ekki síst kryddið saffran en það kemur úr saffrankjörnum og gerir brauðið fallega gult og af því kemur sérstakt saðranbragð og lykt.

Ein uppskrift að saffranbrauðum er svona:
125 gr smjör
5 dl  mjólk

2 tsk. eða 50 grömm af geri
1/2 tsk.af salti
1 dl. Sykri
1 gr. Saffran
2 egg
 16 dl. af hveiti
Rúsínur til að skreyta og penslað með eggi

Feitin er brædd og mjólk hellt þar saman við og haft svona fingurheitt, 37″ á Celsíus. Gerið er hrært i mjólkina og saffranið er mulið, með dálitlu af sykri, og hrært út í mjólkina. Eggin hrærð sérstaklega og siðan bætt út í og hveitinu er bætt í og deigið hrært. Hveiti stráð ofan á og hreinn klútur lagður yfir deigið og það látið lyfta sér þar til það hefur tvöfaldast. Síðan er deigið hnoðað og það á að vera ljóst, teygjanlegt og frekar laust í sér. Nú má móta deigið í brauð og setja á smurða ofnplötu og láta lyfta sér í svona hálftíma. Pensla svo með eggi og skreyta með rúsinum. Saffranbrauð má móta í alls konar form og snúninga, stundum eru búnir til kransar og fléttur. Brauðið verður fljótt þurrt og það er því ágætt að frysta það og þíða svo í örbylgjuofni þegar á að borða það heitt.

Jólatrésskemmtanir

Jólatrésskemmtanir fyrir börn urðu eftir þetta algengur siður á vegum ýmissa fleiri samtaka og jafnvel einstaklinga í Reykjavík og fleiri kaupstöðum. Svo háan sess fer jólatréð að skipa að síra Valdimar Briem líkir því við Jesúm Krist í sálmi, en það hafði Jón Thoroddsen reyndar þegar gert í afmælisvísum árið 1859.Elstu íslensku jólatréskvæði sem enn hafa fundist eru eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld og steingrím Thorsteinsson. Kvæði Guðmundar heitir Við jólatréð“ og var sungið undir laginu Gamla Nóa“ á barnasamkomu Iðnaðarmannafélagsins í reykjavík 7. janúar 1898. Ekki verður þess vart að það hafi borist víðar, nema hvað það birtist í Æskunni fyrir jólin 1921:

Ljósin skína,ljósin skína
ljómar grantréð hátt!
Ilm við finnum anga
epli á greinum hanga.
Syngjum, dönsum, syngjum,dönsum
syngjum fram á nátt.
Tengdum höndum, tengdum höndum
tréð við göngum kring.
Nú er gleði og gaman
gott að vera saman.
Kringum ljósin, kringum ljósin
kát við sláum hring

Jólagjafir

Jólagjafir í nútímaskilningi eru ekki nema rúmlega hundrað ára gamall siður meðal almennings á Íslandi þótt gjafir á jólum þekktust frá fornu fari hjá kóngafólki og öðrum höfðingjum erlendis og hérlendis eins og þegar má sjá í Egils sögu og fleiri fornritum.

Eigi síðar en snemma á 19. öld var orðinn almennur siður að gefa hverju barni kerti á jólunum og jafnvel öllu heimilisfólkinu. Önnur tegund jólagjafa var á þá lund að hinir betur stæðu sendu snauðum nágrönnum einvherja matarögn fyrir jólin. Þessi siður mun eiga sér ævafornar rætur sem kirkjan hélt áfram að rækta. Eftir miðja 19. öld fer að örla á jólagjöfum í nútímastíl enda varð þá meira um sölubúðir en áður eftir að fullt verlsunarfrelsi komst á árið 1855.

Langt fram á 20. öld var algengt að kaupmenn auglýstu sérstaka jólabasara og buðu afslátt á ýmsum vörum. Þetta fellur niður á stríðsárunum seinni en um leið fjölgar jólagjöfum um allan helming. Þessa breytingu virðist mega rekja til hinnar margrómuðu lífskjarabyltingar verkalýðsins á þessum árum. Eitt af fyrstu viðbrögðum verkafólks þegar lífskjör bötnuðu var að sjá til þess að börn þeirra fengju jóalagjafir ekki síður en hinna sem betur máttu. Þá reyndist ekki lengur sama þörf fyrir basara með niðursettu verði.

Íslendingar hafa jafnan afhent jólagjafir sínar á aðfangadagskvöld rétt eins og menn fengu áður jólaskó og kerti á því sama kvöldi.

Heimildir:
Saga daganna.  Mál og Menning . Árni Björnsson 1993 (Birt með góðfúslegu leyfi útgefenda og höfundar)
Vísindavefurinn, Tímarit.is
Ljósmyndir jólatrésskemmtanir – Þjóðminasafnið

Grýla

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is