Jólabók í skóinn

Ég fór að hugsa um það í morgun hvort að ég hafi nokkuð fengið í skóinn þegar ég var lítil stelpa. Það er nú ekki svo ýkja langt síðan ég var lítil en samt er ég ekki alveg viss um hvernig þetta var.

Í þessu tilfelli eins og svo mörgum öðrum er líklega best að hringja í mömmu. Hún man allt svona og líklega lendi ég í því síðar með mína dóttur að rifja eitt og annað með henni. Svo ég hringdi í mömmu og auðvitað mundi hún þetta allt.

Við systkinin fengum alltaf heimagert jóladagatal. Mamma hafði saumað jólamynd, fest 24 hringi á hana og á þetta dagatal voru síðan festir pakkar fyrir hvern dag fram að jólum. Við vorum þrjú systkinin og þetta var rosalega flott. Reyndar er ég ekki frá því að ég hafi setið ein að jóladagatalinu eftir 12 ára aldur þegar systkini mín voru farin burtu í skóla. Það er svo gott að vera prinsessa og örverpi.

Pakkarnir voru ævinlega litlir, það var alltaf nammi í þeim og í þá daga fylgdi ekkert tannkrem með. Það var ekki mikið nammi, kannski einn moli, ein karamella eða í mesta lagi lakkrísrúlla en stærsti pakkinn var alltaf á aðfangadag. Þá fengum við ópalpakka og fannst ansi vel í lagt. Skórinn fór ekki út í glugga fyrr en að kvöldi aðfangadags og í minningunni skilaði sveinki alltaf bók í skóinn. Þannig tryggði sveinki það að ekkert okkar systkinanna átti það á hættu að eiga bóklaus jól.

Ég fékk raunar í skóinn langt fram yfir tvítugt þó hann þyrfti orðið að sæta lagi og koma til mín seint um nótt til að koma að mér sofandi.

Á unglingsárunum hafði ég nefnilega tekið upp þann indæla sið að taka ávallt bók og súkkulaði með mér í rúmið að kvöldi aðfangadags og lesa lengi. Best var að klára eina bók fyrir svefninn. Sveinki er ennþá að gefa mér í skóinn en nú nennir hann ekki þessu næturbrölti lengur. Nú fæ ég alltaf einn pakka undir jólatréð frá jólasveininum og ennþá er það bók.

Þeir Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottasleikir, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur og Ketkrókur skipta sér ekki af mér frekar en endranær en Kertasníkir er samur við sig.

Bestu jólakveðjur

Hrafnhildur Brynjólfsdóttir Reykjavík

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is