Jólaminningar frá Rúfeyjum – 1920

Mynd: Forsíða Morgunblaðsins 24. desember 1920

Ebba Hólmfríður Ebenezersdóttir.  Æskuminningar frá Rúfeyjum kringum 1920
– Breiðfirðingur 1992 –

Jólaundirbúningur 

Nú tók við undirbúningur fyrir blessuð jólin. Við áttum stórt jólatré með 24 spírum undir kertin. Spírurnar voru lengstar neðst og smástyttust eftir því sem ofar dró. Þá var nú fyrst að klæða sjálft tréð. Við söfnuðum allt árið öllum fallegum bréfum sem við gátum náð í, það var oft svo fallegt fóður í umslögum og utan um tóbakið hennar ömmu (en hún reykti pípu). Þau voru oftast gyllt eða silfurlit með stjörnum og systir mín var meistari í að búa jólatréð út. Hún klippti renninga úr bréfunum innan úr kandíssykurkössum, svo klippti hún kögur öðrumegin í renningana og svo vafði hún þessu um jólatréð frá toppi og niður úr, og eins vafði hún spírurnar sem kertin voru límd á. Síðan bjó hún til rósettur sem við kölluðum. Fyrst var smádúlla klippt, svo tvær minni og sett gat á þær miðjar, svo setti hún stærstu dúlluna neðst og minnstu efst. Pær voru hver með sínum lit. Svo vafði hún saman bréf eins og blýant og klippti kögur á annan endann.  Svo dró hún þennan vöndul í gegnum allar dúllurnar og er komið var að kögrinu, þá hélt þetta dúllunum saman og var breitt úr kögrinu. Þetta gat verið svo fallegt. Síðan ófum við jólakörfur. í þær höfðum við glanspappír sem var utan um stílabækur krakkanna frá árinu áður. Það voru ansi fallegir og breytilegir litir á stílabókunum. í byrjun desember voru allir skrifaðir á lista sem komu á jólaföstunni (jólasveinar). Mamma steypti tólgarkerti og var ég alltaf með henni. Það voru búnir til kveikir úr Ijósagarni eða jafnvel léreftsrenningar snúnir saman. Svo var þetta sett á prik svona þrír á hverja spýtu og eitthvað þungt fest neðst í hvern kveik. Svo var sett sjóðandi heitt vatn í strokkinn og bráðin tólg sett ofan á vatnið. Síðan var spýtunni með kveikjunum difið ofan í strokkinn, hvað eftir annað þar til mömmu fannst kertin orðin nógu sver. Þannig voru steypt 40-50 kerti. Þar næst var að búa til laufabrauðin, ég man ekki hvað þau voru mörg en það var mjög mikið. Það var skammtaður stór skammtur á jóladagskvöldið og þá fékk hver 3-4 laufabrauð og 2 tólgarkerti, heilt stórt strengsli af lúðuriklingi, stóran bita af pottbrauði, 1/2 lundabagga reyktan, stóran smjörbita og gríðarstóran hangikjötsbita, hert rafabelti, sem var steikt á glóð og margt fleira sem ég man ekki. Þetta hafði fólkið að grípa til ef það langaði í aukabita. Bagga systir mín var aldrei nein matmanneskja. Hún hafði sinn skammt til að borga strákunum fyrir að hella úr skólpfötu, fara út með öskufötu eða taka af henni aðra smásnúninga. 

Jólainnkaup 

Þegar kom fram í miðjan desember, var von á Gullfossi til Flateyjar frá Kaupmannahöfn. Þá var von á jólapakka frá Siggu föðursystur minni til ömmu. Sigga vann þá á tannsmíðastofu þar, en hún var lærður tannsmiður. Pabbi fór því vestur í Flatey sama dag og skipið kom. Það þurfti líka að kaupa smávegis til jólanna, þar á meðal kerti og spil og ég hafði alltaf þau sérréttindi hjá pabba að velja mér fallegasta spilapakkann. Annars voru þá spilin afskaplega falleg með gylltum hornum og mjög fallegar spilamyndirnar. En það var bakið á spilunum sem ég fór eftir, því þau voru í glærum pappír svo það sást vel í gegnum pappírinn. Það voru keyptir margir pakkar, allir krakkarnir fengu spil og kertapakka á aðfangadagskvöld. Svo átti pabbi ein spil, því þegar komu gestir, var alltaf spilað. Jæja, nú var skipið komið til Flateyjar og pabbi líka. Hann fór um borð með kassa sem Siggu frænku var sendur: hangikjöt og riklingur, rafarbelti og eitthvað fleira, og tók skipstjórinn þetta. Pabbi þekkti hann vel og hann kom aftur með kassa, stóran í þetta skipti og ofan á hann var bundið stórt grenitré. Við höfðum aldrei séð svoleiðis tré. Það var nú heldur betur fögnuður og svo það sem var í kassanum, það var ekkert smáræði. Heilmikið jólaskraut, 2 fuglar, 2 lúðrar, ótal kúlur, þetta var svo fallegt að við vorum alveg orðlaus. Einnig var heilmikið af sælgæti og vínber sem við höfðum aldrei séð né smakkað áður og epli, ávaxtahlaup í krukku, spennur á jólatréð til að láta kertin í og 3 pakkar af kertum á jólatréð. Amma fékk 4 pakka af reyktóbaki í mjög fallegum umbúðum sem við fengum svo fyrir næstu jól. Svo sendi hún okkur stelpunum bleikar perlufestar og brjóstnælur með eins steinum. Eg man ekki hvað strákarnir fengu, en allir fengu eitthvað. Þegar heim var komið með þetta, tók amma þetta undir sinn verndarvæng og hvað sem við vorum forvitin að sjá í kassann, fengum við það ekki fyrr en á aðfangadag, að við vorum orðin hrein og fín útúr og innúr. Pá fyrst fór amma að tína upp úr kassanum. Pabbi smíðaði fót undir jólatréð og þegar búið var að punta það þá beið það eftir að farið yrði að lesa jólalesturinn sem amma gjörði þegar allir voru búnir að borða steikt kálfakjöt og búðing með jarðarberjasaftblöndu út á. Okkur fannst þetta mjög gott.

Jólahald

Snemma var búið að mjólka og gefa kindunum, allt varð að vera búið fyrir kl. 6 og allir urðu að vera komnir í sparifötin áður en farið var að lesa. Þá var kveikt á jólatrénu sem var með 24 kertum, þannig að það var mjög bjart í baðstofunni, og við hlustuðum með ánægju á jólaguðspjallið og blessaða jólasálmana, sem ennþá eru sungnir um jólin. Þegar búið var að lesa og allir voru búnir að þakka fyrir lesturinn og óska gleðilegra jóla, þá fór amma að úthluta jólagjöfunum og pabbi spilunum og kertapökkunum. Við fengum kannski líka nýjan kjól eða fallega svuntu og alltaf svarta sauðskinnsskó með hvítum bryddingum og fallegum leppum, sem við prjónuðum sjálfar stelpurnar, fallega leista með fallegum röndum. Alltaf á jóladagsmorgun færði mamma öllum kaffi eða kókó í rúmið og kúffulla diska af kökum. Þetta var nú vel þegið, því venjulega voru ekki kökur með kaffinu. En þetta var mikið meira en nokkur gat torgað, svo þetta var eins og með jólamatinn, geymt og nartað í þetta. Við máttum aldrei spila eða ólátast á aðfangadagskvöld, en á jóladag var allt í lagi. Þá fóru allir í ýmiskonar leiki og spil og var mjög gaman. Við vorum boðin inn í Rauðseyjar á milli hátíðanna, það var næsta byggða eyjan og var Gísli náfrændi pabba. Allt það fólk voru yndislegir nágrannar og það var mjög gaman að fara þangað. Fyrst var þar heilmikil veisla, súkkulaði og kaffi og ótal kökusortir, svo var farið í leiki og dansað. Síðan komu Rauðseyingar aftur til okkar um áramótin. Þetta var allt yndislegt. 

Áramót

 Á gamlaárskvöld og svo líka á þrettándanum voru útbúin blys fyrir okkur krakkana heima frá því ég man eftir mér. Gjörði það ungur maður sem var ættaður úr Ólafsvík. Hann var heilsulítill og átti að vera sér til hressingar heima, og öllum þótti vænt um hann, mér sérstaklega. Hann útbjó blysin og mitt blys var stærst af öllum blysunum, enda gat ég ekki borið það, en ég var ánægð ef Steini minn bar það og ég hékk í honum. Svo fór allur skarinn, 6-7 krakkar og Steini, upp á hól og þar var kveikt á blysunum. Þá varð að passa vel að vera ekki þar sem vindurinn stóð á bæjarhúsin, svo neistaflug kæmist hvorki í þökin sem voru torfþök, eða í heygarðinn. Steini minn passaði þetta alit samviskusamlega. En einu sinni fór nú ekki vel. Það var ansi mikill stormur og þegar hæst stóð athöfnin og allir sungu af hjartans lyst: „Brenna blysin skær, brakar ís og snær“, komst nú ekki kórinn lengra því þá fýkur allt ofan af blysinu mínu, sem Steini hélt á, ofan af hólaklettinum. Hann hélt bara á berri stönginni, en öll hin blysin sem krakkarnir voru með loguðu lengi. Steini minn huggaði mig og sagði að það skyldi verða betra á þrettándanum. Okkur þótti mjög gaman að sjá blys og brennur í eyjunum í kring og eins á Skarðströndinni. Pað var oft farið að safna í brennur snemma á haustin. Einu sinni sjá Skarðstrendingar að það er heilmikið bál á Reynikeldu löngu fyrir jól en þar bjuggu 3 eldri manneskjur og unglingspiltur. Er fólkið sér logann halda allir að bærinn sé að brenna og menn drífur að eftir því sem hægt var, þá voru ekki bílar. Svo er þeir komu að, þá hitta þeir strák og spyrja hverju þetta sæti. Pá segir strákur: „Ég kveikti í brennu, það var bara prufa“. Hann var auðvitað skammaður og kom þetta ekki fyrir aftur. Pað var haft kveikt á jólatrénu bæði á gamlárskvöld og eins á þrettándanum og þá vorum við líka með blys. Svo var allt tekið saman og aftur var dimmt í baðstofunni okkar, en við áttum nokkuð lengi kertin og minningarnar um jólin okkar.

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is