Á aðventu í æsku – Þuríður Sigurðardóttir

Þuríðar Sigurðardóttir söngkona, hestakona, listakona og lífskúnstner skrifar aðventuminningar.

Á aðventu í æsku – I
Þegar ég fór að huga að sýningunni minni Heima og heiman í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga, sem opnaði í haust, hugsaði ég heim í Laugarnes, inn í gamla kolakynta timburhúsið, sem gat orðið ansi kalt á nóttunni ef kyndingin brást – og eitt af því sem kom upp í hugann voru frostrósir, þessar dásamlegu forgengilegu myndir sem frostið málaði á einfalt glerið í gluggum hússins, þessi lifandi málverk móður náttúru, sem áttu svo skamman líftíma þegar búið var að fýra upp í kolakyndingunni og hitastigið í húsinu hækkaði. Frostrósirnar tóku breytingum, stundum með minni hjálp, með því að anda á þær, rispa með nöglunum eða halda heitum fingri að þeim og búa til gægjugöt. Ég fylgdist með frostrósunum bráðna þar til yfir lauk og útsýnið tók yfir, glugginn varð minn sjónvarpsskjár og útsýnið ekki amalegt yfir sundin blá.

 Á aðventu í æsku – II
Til þess að halda hátíð, þarf undirbúning – og ég skil ekki hvernig mamma fór að, hún sat við á kvöldin og oft fram á nótt við að sauma fötin á okkur krakkana eftir dagsverkin, sem voru ærin í litla húsinu okkar, sem virtist svo stórt þar sem það stóð uppá bæjarhólnum í Laugarnesi, elsta þekkta bæjarstæðinu í Reykjavík. Húsið var uppá tvær hæðir, gult með rauðu þaki og kolakjallara, barnafjölskyldur á hvorri hæð og við 8 manns í tæpum 50 fm.  Eitt sameiginlegt klósett var með fólkinu á efri hæðinni og á veturna var þar stundum svo kalt að það var svell á gólfinu. Ég var býsna slungin við að klofa frá þröskuldinum uppá klóesettið til að setjast þar. En úff hvað setan var oft köld! En kuldinn gat verið heppilegur því allt að 15 manns, sem bjuggu í húsinu, vörðu ekki lengri tíma á klósettinu en þurfti!  En aftur að undirbúningnum. Lagkökur voru bakaðar sem geymdar voru í boxum til jólanna, lokin voru límd á boxin með límbandi…en það dugði ekki alltaf til.

Á aðventu í æsku – III
Dagurinn fyrir þorláksmessu var þvottadagur í Laugarnesi. Þá var þvotturinn þveginn í Þvottalaugunum og við krakkarnir böðuð í leiðinni, því þar var ekkert þvottahús, engin þvottvél, ekkert baðherbergi og aðeins einn krani með köldu vatni við vask í eldúsinu. Í Þvottalaugunum voru raðir af útisnúrum og blessunarlega var oft fátækraþurrkur, eins og hann var kallaður en það var líka hægt að hengja upp þvottinn inni ef þurrkurinn brást, sem mér finnst að aldrei hafi gerst fyrir jólin. Þegar heim var komið var allt straujað. Og af hverju var verið að þvo þvottinn svona rétt fyrir jól? Jú, það voru ekki rúmföt til skiptanna á öll rúmin fyrir 8 manna fjölskyldu – og nóttina fyrir aðfangadag voru sængur á öllum rúmum án rúmfata, þau biðu, því á jólanótt var sofið við hrein, straujuð rúmföt, sem ilmuðu af útilofti. Og satt að segja viðhélt ég þessari hefð þar til fyrir nokkrum árum að bóndinn minn spurði, eftir áratugi í hjónabandi: Þura, af hverju eru aldrei rúmföt á sængunum á þorláksmessu? 

Allt á sér skýringar, ég heyrði af konu, sem alltaf sauð jólahangikjötið í tveimur pottum og þegar hún var spurð af hverju – hugsaði hún sig sig um og sagði: Það er bara betra, þannig sauð mamma það og amma. En af hverju ætli það hafi verið? Jú, væntanlega af því það var ekki til nógu stór pottur fyrir heilt læri! 

Myndin er af málverki sem ég málaði af þvottabalanum hennar mömmu og var hluti af útskriftarverkinu mínu í LHÍ.

Á aðventu í æsku – IV
Og þá er komið að fyrstu kynnum mínum af jólasveininum. Það var á aðfangadag, rétt áður en hátíðin gekk í garð, mamma stóð við eldavélina, ég var á þriðja ári, komin í jólakjólinn, með slöngulokka, stóra slaufu í hárinu og í glænýjum lakkskóm, sem ég var mjög stolt af. Bræður mínir höfðu farið að sækja jólaísinn á Bjarmaland, sem var næsti bær, því enginn var kæliskápurinn í Laugarnesi. Þá var bankað á hurðina, sem enginn átti von á á aðfangadag og á nýju lakkskónum, sem voru með hörðum sóla náði ég að teygja mig upp í hurðarhúninn, með því að standa á tám. Hreykin í bragði opnaði ég hurðina og fyrir utan stóð þetta ferlíki, rauðklætt með gæru fyrir andlitinu og æpti Hó, hó hó! Ég man ennþá tilfinninguna þegar mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds og hárið/slöngulokkarnir risu á höfðinu á mér. Ég held að ég hafi aldrei orðið eins hrædd á ævinni! 

Jólasveinninn hafði farið húsavillt með bókagjöf frá verslun, sem ætluð var allt öðrum en okkur. Það tók mig mörg ár að sættast við jólaveininn – en ég þáði gott í skóinn og þótti bara fínt að hann færi hljóðlega um á nóttunni – og þá eins og nú ef ég er smeyk hjálpar bænin alltaf. 

Ljósmyndin er af pabba Sigurði Ólafssyni með okkur börnin sín, sem þá voru fædd, hjá Ólafi afa í Akurgerði. Ég er í kraftaverkaskónum með harða sólanum

Á aðventu í æsku – V Þorláksmessa var undirlögð við undirbúning jólanna og við krakkarnir send út að leika, því það var hreinlega ekkert pláss fyrir okkur inni. Barnamenning þess tíma var í boði barnanna sjálfra, hugmyndaflugið óþrjótandi og leikirnir óteljandi – enda ekkert sjónvarp, engar tölvur og aðeins einn sími, svarti hlunkurinn munið þið – og hann var fyrir fullorðna. Ef við teiknum upp íbúðina okkar í Laugarnesi var þar gangur/forstofa innaf útihurðinni, á vinstri hönd var stigi uppá efri hæðinna, undir stiganum var smá geymsla og þar voru jólaeplin geymd, þá klósettið, forstofuherbergi á hægri hönd, sem leigt var út framan af, og eldhúshurðin okkar fyrir enda gangsins, alltaf ólæst. Innaf eldhúsinu var stofa og þá eitt svefnherbergi og þar svaf öll fjölskyldan. Á daginn var búið um á einu rúmi, svo hægt væri að setjast á hin. Á þorláksmessu voru gólfin skúruð og stífbónuð, húsið var skreytt með loftskrauti, sem fest var með teiknibólum – munið þið borðana, kúlurnar og pappísrsbjöllurnar, sem héngu í loftunum og lagt var saman á milli hátíða? Grenigreinum var komið fyrir á bak við málverk og myndir, pabbi verkaði rjúpurnar og sá um útihúsin, fjárhús og hesthús og skreytti með greinum. Og kannski ekki furða að ég misskildi aðeins niðurlagið í faðirvorinu, bað heitt og innilega, með spenntar greipar. “…því að þitt er ríkið, mátturinn – og DÝRIN.“ Ég bað fyrir öllu og öllum og m.a. börnunum í Konsó, því þau voru fátæk. En ég skildi reyndar aldrei hvernig það átti að hjálpa börnunum í Konsó að ég borðaði matinn minn – en það er önnur saga. Myndin er af Laugarnesbænum sem jafnaður var við jörðu af eigendunum, Reykjavíkurborg, árið 1987. Þriðji glugginn frá vinstri á neðri hæð er af svefnherberginu þar sem ég fæddist. Viðbyggingin á hægri hönd tilheyrði okkur ekki en þar við hliðina var hlaða og fjós.

Á aðventu í æsku – IV. Þorláksmessa og aðfangadagur.

Um kvöldið á þorláksmessu var jólatréð skreytt og þegar við krakkarnir fórum að sofa, með sængurnar án sængurfata, eins og fram hefur komið í fyrri frásögn, fóru jólagjafirnar undir tréð.

Ég man ilminn af grenitrénu þegar ég vaknaði á aðfangadagsmorgunn og síðan ilminn af nýbökuðum hveitikökum, sem mamma bakaði til að hafa með hangikjötinu á jóladag. Innpakkaðar gjafirnar, sem komnar voru undir jólatréð glöddu augun og vöktu tilhlökkun. Og við krakkarnir hlökkuðum líka til að sjá ljósin kveikt á jólatrénu rétt fyrir kl 6 á aðfangadag og þá var búið að koma fyrir sælgæti í skálum brjóstsykri; kónga, peru og súkkulaðifylltum.

Ein minningin hefst á þögn, þessari hátíðlegu þögn, þegar útvarpið hljóðnaði, þögnin, sem síðan var rofin með kirkjuklukkum Dómkirkjunnar kl 6 á aðfangadagskvöld og við tók hátíðlegur aftansöngur. Öll fjölskyldan prúðbúin, ilmur af jólum fyllti húsið, sem var hlýtt og notalegt og við óskuðum hvort öðru gleðilegra jóla, með kossi á kinn. Jólamessan hljómaði á meðan við borðuðum og eftir uppvask og jólakortalestur, sem allir hlustuði á, var komið að stóru stundinni að taka upp gjafirnar.

Jólagjafirnar á æskuheimilinu voru oftast bók og eitthvað sem okkur vanhagaði um. Mér er sérstaklega minnisstæð jólagjöf frá bróður mínum Erling, sem þá var 14 ára og farinn að vinna fulla vinnu hjá BP, ég var sjö ára og pakkinn harður og mun stærri en ég átti að venjast. Þegar ég tók jólapappírinn utan af pakkanum, ofurvarlega, því svona stór örk var notuð aftur, kom í ljós ljósgrænn kassi með loki og þegar ég lyfti því upp blasti við mér brúða, sú fyrsta sem ég man eftir að hafa eignast. Þarna lá hún með lokuð augun í blúnduskreyttum satínkjól, með hvíta skó á fótunum, brúnt liðað hár og brún gljándi augu, sem opnuðust þegar ég tók hana upp úr kassanum. Ég man að ég táraðist.

Mynd 1 er málverk af ljósmynd, sem ég tók af brúðunni minni og var hluti af röðinni Ágrip, útskriftarverki mínu frá LHÍ.

Mynd 2 er af okkur yngri systkinunum með mömmu og pabba í stofunni heima í Laugarnesi á jólum. Svefnherbergið er innaf.

Að sofna á jólanótt við ilminn af sæng, sem hefur verið viðruð úti og hreinum, straujuðum sængurfötum er ein af þessum minningum sem standa uppúr. Stundum náðist að glugga aðeins í jólabók áður en lagst var til svefns en þegar við börnin vorum komin í ró voru ljósin slökkt, enda öll í sama herbergi framan af og frekari lestur beið til morguns. Mamma vakti okkur á jóladagsmorgunn með því að færa okkur í rúmið heitt súkkuði með þeyttum rjóma, smákökur og lagkökur. Sum sofnuðu aftur á eftir en önnur fóru að lesa. 

Það er gott að eiga góða minningar og ég hef tilhneygingu til að halda í hefðir – og ein af þeim er að vakna á jóladagsmorgunn á undan fjölskyldunni og færa þeim í rúmið, súkkulaði og smákökur ein og mamma gerði og mamma hennar og mér þykir vænt um þessa hefð. Og mér þykir líka vænt um jólakort, sendi alltaf nokkra tugi til þeirra sem ég næ ekki að óska gleðilegra jóla öðruvísi. Við lesum jólakortin saman á aðfangadagskvöld – og stundum við hjónin í ró og næði  á þorláksmessu, ef við eigum von á mörgum á aðfangadagskvöld. Það má nefnilega aðlaga hefðirnar að breyttum aðstæðum – ekki satt? Það sem mestu skiptir er að lifa í sátt.

Guð blessi minningu mæðra okkar, formæðra og allra þeirra sem veitt hafa okkur vellíðan og skapað góðar minningar.

Ég þakka ykkur sem hafið lesið þessar hugrenningar mínar, öll fallegu ummælin og ykkar sögur.

 




Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir,…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024/

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir, snyrtistofur,…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is