23. desember
Þó að kaþólskur siður hafi verið afnuminn á Íslandi árið 1550 er enn að vissu leyti haldið upp á messu íslenska dýrlingsins Þorláks helga á messudegi hans þann 23. desember ár hvert. Í dag er það þó aðallega í tengslum við undirbúning jólanna sem menn minnast á Þorláksmessu og eru margir sem leggja það í vana sinn að skreyta jólatréð á Þorláksmessu eða gera síðustu jólagjafainnkaup sín. Einnig hefur sú hefð skapast hér á landi að borða kæsta skötu á Þorláksmessu.Það eru kannski ekki allir sem vita að í raun er þessi siður leifar frá kaþólskum tíma þar sem fastað var fram að jólum og ekki borðað kjöt. Þess vegna var borðaður fiskur, helst lélegur fiskur, daginn fyrir kjötveisluna miklu sem hófst þegar jólahátíðin gekk loks í garð. Siðurinn að borða skötu á Þorláksmessu barst til höfuðstaðarins frá Vestfjörðum um miðja 20. öld en það var aðallega á Vestfjörðum og við Breiðafjörð sem skatan veiddist.
Hún þótti reyndar ekki mikið lostæti, en þar sem haustvertíðinni lauk á Þorláksmessu var skötuát í hugum margra nátengt þessum degi og fór mönnum að finnast það nauðsynlegt að fá skötu daginn fyrir jól.