Grýla og Leppalúði

Jólavefur Júlla 2012

Copyright  Jólavefur Júlla ©

 

Heimildir: Saga daganna, Mál og Menning / Árni Björnsson 1993 (Birt með góðfúslegu leyfi útgefenda og höfundar)viðtöl við fólk, eigin upplifun og fleira sem  minnst er á neðanmáls.

 

(Mynd eftir Tryggva Magnússon)

Grýla

Er þekkt sem flagð frá 13. öld , það er minnst á hana sem tröllkvendi í SnorraEddu, en það er ekki fyrr en á  17.-18 sem hún er bendluð við jólin og þá sem barnaæta. Í kvæðum og sögum af Grýlu þá hefur hún oftast ekki erindi sem erfiði og þarf alltaf að láta í minni pokann.Orðið sjálft merkir einna helst , ógn, hótun eða hryllingur. Fyrst fréttist af jólasveinum á 17. öld sem afkvæmi Grýlu og miklu illþýði. Þeir taka nokkuð að mildast á 19. öld, koma þá ýmist af fjöllum eða af hafi, eru oftast 9 eða 13. Spurnir eru af rúmlega sjötíu jólasveinanöfnum.  Grýla er sá gestur jólanna sem er talinn hvað  skelfilegastur. Hún er tröllkerling, sem heyrir í óþekkum börnum yfir holt og hæðir, skellir þeim í pokann sinn og þau enda svo í stóra pottinum hennar.  Í mínum huga er Grýla alltaf með pokann á bakinu, tilbúinn ef heyrist í óþekkum krakka, hún er líka alltaf svöng, endalaust hungur sem hrjáir hana. Sumar lýsingar á Grýlu er svakalegar,  jafnvel að hún sé marghöfða djöflakerling, hafi marga langa hala.  ( Sjá )

"Hún hefur hala og hófa í stað fóta. Hún er geysistór með svakalegar hendur sem hún grípur óþekku börnin með og kartnögl á hverjum fingri. Hún hefur skögultennur og mikið og bogið nef alsett vörtum. Hún hefur brennandi augnaráð og geysigóða heyrn."

Enn þann dag í dag er Grýla notuð á saklaus börnin ef þau eru ekki stillt eða hlýðin.

 " Nú fara Grýla og jólasveinarnir að fylgjast með  -  Það styttist í að  það eigi að setja skóinn út í glugga, nú er eins gott fyrir ykkur að hlýða annars......! "

Eitthvað í þessum dúr heyrist á heimilum í dag.....eða hvað. Þó svo að sumir haldi að Grýla sé dauð... myndi ég taka þeim fréttum með varúð.

Þegar ég var krakki og langt fram á unglings ár fannst mér þessi mynd hans Tryggva hér að ofan vera hræðileg og önnur mynd sem ég vona að ég finni og fái leyfi fyrir að hafa á síðunni, ég vildi helst ekki sjá þessar myndir því ég varð bókstaflega mjög hræddur. ( í dag þykir mér vænt um þessar myndir )  J.J

Jólakötturinn, Grýla og Leppalúði  -  ( Jólamjolk.is )

 

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir meðal annars um Grýlu: 

"Þó nú gangi ekki lengur nein munnmæli um Grýlu að teljandi sé verður allt um það að geta hennar að því sem finnst um hana í fornum ritum og þulum og manns hennar Leppalúða, því á fyrri öldum hafa farið miklar sögur af þeim, einkum henni, svo að löng kvæði hafa verið um þau kveðin og mörg um Grýlu.  Þau áttu bæði hjónin að vera tröll enda er Grýla talin í tröllkvennaheitum í Snorra-Eddu.  Mannætur voru þau og sem önnur tröll og sóttust einkum eftir börnum þó einnig þægju þau fullvaxna menn.  En eftir að farið var að hætta að hræða börn í uppvextinum með ýmsu móti hefur Grýlutrúin lagzt mjög fyrir óðal því Grýla var mest höfð til að fæla börn með henni frá ógangi og ærslum og því er orðið grýla þegar í Sturlungu haft um tröllkonu eður óvætt sem öðrum stendur ógn af og grýlur um ógnanir. " (JÁ I:207) 

 

Leppalúði og Grýla Brians Pilkingtons - Sólarfilma

Börn gægjast úr poka Grýlu - Brian Pilkington - Sólarfilma.


Ísaumuð Grýla á eldspítustokki - Rósa Pálsdóttir


Grýla og Leppalúði Kristínar Karolínu


Leppalúði og Grýla ættuð úr Varmárskóla

 

Grýla og Leppalúði Inga Sölva Arnarssonar (2002)

Grýla og Leppalúði  - Af þýskri síðu um Grýlu (Ekki viss um teiknara)

Grýla og Leppalúði Bjarna Þ Kristjánsson
 

Póstkort af Grýlu og Leppalúða Snowmagic.is - Kristín Sigurðard hannaði sveinana.

Þessa teiknaði Ólafur Pétursson.

Þessi Grýla er úr hinum magnaða Jólagarði í Eyjafjarðarsveit



Grýla Holly Hughes á Ísafirði
 

Það hefur ýmislegt verið samið um Grýlu.

( Mynd Þjóðminjasafnið )

Grýlukvæði

Grýla hét tröllkerling
leið og ljót,
með ferlega hönd
og haltan fót.

Í hömrunum bjó hún
og horfði yfir sveit,
var stundum mögur
og stundum feit.

Á börnunum valt það,
hvað Grýla átti gott,
og hvort hún fékk mat
í sinn poka og sinn pott.

Ef góð voru börnin
var Grýla svöng,
og raulaði ófagran
sultarsöng.

Ef slæm voru börnin
varð Grýla glöð,
og fálmaði í pokann sinn
fingrahröð.

Og skálmaði úr hamrinum
heldur gleið,
og óð inn í bæina
eina leið.

Þar tók hún hin óþekku
angaskinn,
og potaði þeim
nið’r í pokann sinn.
Og heim til sín aftur
svo hélt hún fljótt,
undir pottinum fuðraði
fram á nótt.

Um annað, sem gerðist þar,
enginn veit,
en Grýla varð samstundis
södd og feit.

Hún hló, svo að nötraði
hamarinn,
og kyssti hann
Leppalúða sinn.

Svo var það eitt sinn
um einhver jól,
að börnin fengu
buxur og kjól.

Og þau voru öll
svo undurgóð,
að Grýla varð hrædd
og hissa stóð.

En við þetta lengi
lengi sat.
Í fjórtán daga
hún fékk ei mat.

Þá varð hún svo mikið
veslings hró,
að loksins í bólið
hún lagðist - og dó.

En Leppalúði
við bólið beið,
og síðan fór hann
þá sömu leið.

Nú íslenzku börnin
þess eins ég bið,
að þau láti ekki hjúin
lifna við.

(Jóhannes úr Kötlum)

Grýlukvæði Eggerts Ólafssonar

( Ísl ljóðasafn II bindi, Almenna bókaf 1975.)
Hér er komin hún Grýla,
sem gull-leysin mól,
:,: hún er að urra' og ýla,
því af henni :,: kól.
 

Hún er að urra' og ýla,
því ein loppan fraus,
:,: þrjár hefur hún eftir,
en það ég ei :,: kaus.
 
Þrjár hefur hún heilar
og hlakkar sem örn;
:,: hún ætlar að hremma
þau íslensku :,: börn.
 
Það er hann Skúti Marðarsson,
hann svarði við það,
:,: að hennar skyldi' hann hyskið
höggva niður í :,: spað.
 
Að hann skyldi brytja það
og borða við saup;
:,: heyrði það hún Grýla
og hélt það væri :,: raup.
 
Heyrði það hún Grýla
og gretti sitt trýn:
:,: ekki munu þeir gráklæddu
leggja til :,: mín.
 
Settust að henni dísir
og sálguðu' henni þar;
:,: hróðugur var hann Skúti
og hálf-kenndur :,: var.
 
Þá mælti þá Tuga-sonur,
tyrrinn og blár;
:,: koma munu þau Grýlu-börn
til Íslands í :,: ár.
 
Koma munu þau Grýlu-börn
og kveða við dans:
:,: kyrjum við hann Skúta
og kumpána :,: hans!
 
Glöð urðu þau Grýlu-börn
og gengu af stað:
:,: aldrei skal þeim Íslendingum
eira við :,: það.
 
Ekki skal þeim Íslendingum
ævin verða löng:
:,: margan heyrða' eg óvætt,
sem undir það :,: söng.
 
Margan heyrða' eg annan,
sem undir tók þau hljóð:
:,: nú mun ei þeim íslensku
ævin verða :,: góð!
 
Afturgengin Grýla
gægist yfir mar;
:,: ekki verður hún börnunum
betri' en hún :,: var.

 

Hér er komin Grýla.

( Ljóðabók barnanna )

Hér er komin Grýla
grá eins og örn.
Hún er sig svo vandfædd,
að vill ei nema börn.

Hún er sig svo vandfædd,
að vill ei börnin góð,
heldur þau sem hafa miklar
hrinur og hljóð,
heldur þau sem löt eru á lestur og söng.

Þau eru henni þægilegust,
þegar hún er svöng.
Þau eru henni þægilegust,
það veit ég nú víst.
Ef þau þekktu Grýlu,
þá gerðu þau þetta sízt.
 

Það á að gefa börnum brauð.

Það á að gefa börnum brauð
að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð,
svo komist þau úr bólunum,.
Væna flís af feitum sauð,
sem fjalla gekk á hólunum.
Nú er hún gamla Grýla dauð,
gafst hún upp á rólunum.

Grýla kemur á hverjum vetri

Grýla kemur á hverjum vetri,
hún er í loðnu skinnstakks tetri.
Sú er ekki sagan betri,
sinn í belg hún fá vill jóð.
Valka litla, vertu góð,
Valka litla, vertu góð,
vendu þig af að ýla.
Senn kemur að sækja þig hún Grýla.

( Ljóðabók barnanna)

Gömul þula

Sofa urtu börn
á útskerum,
veltur sjór yfir,
og enginn þau svæfir.
 

Sofa kisu börn
á kerhlemmum,
murra og mala,
og enginn þau svæfir.
 

Sofa Grýlu börn
á grjóthólum,
urra og ýla,
og enginn þau svæfir.
 

Sofa bola börn
á grjóthólum,
urra og ýla,
og engin þau svæfir.
 

Sofa manna börn
í mjúku rúmi,
bía og kveða,
og babbi þau svæfir.

 Gömul þula um Grýlubörn

Grýla var að sönnu
gömul herkerling,
bæði á hún bónda
og börn tuttugu.
Eitt heitir Skreppur,
annað Leppur,
þriðji Þröstur,
Þrándur hinn fjórði,
Böðvar og Brynki,
Bolli og Hnúta,
Koppur og Kyppa,
Strokkur og Strympa,
Dallur og Dáni,
Sleggja og Sláni,
Djangi og Skotta.
Ól hún í elli
eina tvíbura,
Sighvat og Syrpu,
og sofnuðu bæði.
 

Hún er suður í hólunum

Hún er suður í hólunum,
hefur gráa skýlu,
meira veit ég ekkert um
ættina hennar Grýlu.

 
( Ljóðabók barnanna )

Grýla og Leppalúði

( Þórarinn Eldjárn )

Er börnin uxu upp og burt
ellimóð þá sátu kjurt
veslings Grýla og Leppalúði.
Á lífið hvorugt þeirra trúði.

Uns Grýla mælti mædd og rám:
- Það mætti reyna að hefja nám ...
Og uppi í Hamrahlíðarskóla
háöldruð þau vermdu stóla.

Í Háskólann þau héldu inn
er höfðu klárað öldunginn.
Innrituð þau eru bæði
í uppeldis- og kennslufræði

Grýla reið með garði

Grýla reið með garði,
gekk með henni Varði.
Hófar voru á henni,
hékk henni toppur úr enni.
Dró hún belg með læri,
börn trúi ég þar í færi.
Valka litla kom þar að
og klippti á gat með skæri,
tók hún band og hnýtti á hnút
og hleypti öllum börnum út.
Svo trúi ég það færi.

Grýla reið fyrir ofan garð

Grýla reið fyrir ofan garð
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala
hundrað belgi,
en í hverjum belg
börn tuttugu.
Þar vantar í eitt,
og þar skal far í barnið leitt.

Og önnur svipuð.

Hér fer Grýla
í garð ofan
og hefur á sér
hala fimmtán.
( Sturlunga )

Ó Grýla

(Ómar Ragnarsson)

Grýla heitir grettin mær,
Í gömlum helli býr,
hún unir sér í sveitinni
við sínar ær og kýr.
Hún þekkir ekki glaum og glys
né götulífsins spé
og næstum eins og nunna er,
þótt níuhundruð ára sé.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Hún sinnir engu öðru
nema elda nótt og dag,
og hirðir þar um hyski sitt
með hreinum myndarbrag.
Af alls kyns mat og öðru slíku
eldar hún þar fjöll.

oní þrettán jólasveina
og áttatíu tröll.

Ó Grýla, ó Grýla, Ó Grýla
í gamla hellinum.

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Hún Grýla er mikill mathákur
og myndi undra þig.
Með matarskóflu mokar alltaf
matnum upp í sig.
Og ef hún greiðir á sér hárið,
er það mesta basl,
því það er reitt og rifið
eins og ryðgað víradrasl.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Og hjá þeim Grýlu og Leppalúða
ei linnir kífinu,
þótt hann Grýlu elski alveg
út úr lífinu.
Hann eltir hana eins og flón,
þótt ekki sé hún fríð.
Í sæluvímu sama lagið
syngur alla tíð:
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla,
ég elska bara þig.

Grýlukvæði

(Séra Guðmundur Erlendsson  1595-1670 )

Hér er komin Grýla
og gægist um hól.
Hún mun vilja hvíla
sig hér um öll jól.

Hún mun vilja hvíla sig,
því hér eru börn;
hún er grá um hálsinn
og hlakkar eins og örn.

Hún er grá um hálsinn
og hleypur ofan í fjós,
hún vill ekki horfa í
það hátíða ljós.

Hún vill ekki heyra
þann hátíðasöng;
kvartar hún um ketleysi
og kveðst vera svöng
.

Grýla á sér lítinn bát

Grýla á sér lítinn bát,
rær hún fyrir sandi.
Þegar hún heyrir barnagrát,
flýtir hún sér að landi.

Grýla kallar á börnin sín

Grýla kallar á börnin sín,
þegar hún fer að sjóða
til jóla
Komið þið hingað öll til mín,
ykkur vil ég bjóða,
Leppur, Skreppur,
Lápur, Skrápur,
Langleggur og Skjóða,
Völustakkur og Bóla.

Hér er önnur svipuð:

Grýla kallar á börnin sín
þegar hún fer að sjóða til jóla.
Komið þið hingað öll til mín,
Nípa, Típa,
Næja, Tæja,
Nútur, Kútur,
Nafar, Tafar,
Láni, Sláni,
Leppur, Skreppur
Loki, Poki,
Leppatuska, Langleggur
og Leiðindaskjóða,
Völustakkur og Bóla.

 

Grýla kemur á hverjum vetri,
hún er í loðnu skinnstakks tetri,
sú er ekki sagan betri, 
sinn í belg hún fá vill jóð,
Valka litla vertu góð,
Valka litla vertu góð,
vendu þig af að ýla.
Senn kemur að sækja þig hún Grýla

Gamall húsgangur

Grýla píla appelsína
missti skóinn ofan í sjóinn.
Þegar hún kom að landi
var hann fullur af sandi.


Barnarím um Grýlu frá lokum 20. aldar.

 

Jólasveinarnir og Grýla.

Þetta gerist í trúustu alvöru, ég fæ fjórtán sinnum í skóinn í staðin fyrir þrettán sinnum.  Ykkur finnst ég kanski vera montinn en ég er það ekki ég segi þetta í trúustu alvöru. Þetta ljóð, Grýla á sér lítin bát rær hún fyrir sandi, þegar hún heyrir barnagrát flýtir hún sér að landi.  Þetta er eitthvað skrítið. Grýla étur ekki börn.   Það á að gefa börnum súkkulaði og sætindi á jólunum svo þau geti farið til tannlæknis eftir nýár.   Nú finn ég ekki fleiri lítil skrítin ljóð en bara svona til að minnast á það, grýla gefur mér dýrt í skóinn.

Andri Már  3. JG  Ölduselsskóla

( Mynd tekin af Grýlu og nokkrum rauðum sveinum í Dalvíkurskóla )

Grýla átti fullt af  börnum með þremur eiginmönnum.  ( Gustur, Boli og Leppalúði ) .Hér koma nokkur nöfn  í viðbót við þau sem eru í kvæðinu hér að ofan.. ( Saga Daganna Árni Björnsson )

Askur, Ausa, Bikkja, Bokki, Bolli, Botni, Brynki, Bútur, Böðvar, Dallur, Dáni, Dúðadurtur, Flaka, Gráni, Hnúta, Hnútur, Hnyðja, Hnýfill, Höttur, Jón, Kleppur, Knútur, Koppur, Kútur, Kyllir, Kyppa, Láni, Lápur, Leppatuska, Ljótur, Loki, Lúpa, Mukka, Mösull, Nafar, Nípa, Nútur, Næja, Poki, Pútur, Sighvatur, Sigurður, Skotta, Skráma, Skrápur, Sláni, Sleggja, Sóla, Stampur, Stefna, Stefnir, Sikill, Strokkur, Strítur, Strumpa, Stútur, Surtla, Syrpa, Tafar, Taska, Típa, Tæja, Völustallur, Þóra, Þrándur, Þröstur.

Leppalúði er þriðji eiginmaður Grýlu og saman eiga þau hina alræmdu jólasveina sem koma til byggða um jólin. Leppalúði er afar latur og nánast það eina sem hann gerir er að bíða eftir að Grýla færi honum mat.

Grýlu er fyrst  getið í Snorra-Eddu á 13. öld sem leiðir líkum að því að hún hafi komið með landnámsmönnum frá Noregi til Íslands, en það og fleira um Grýlu er óstaðfest

Það að jólasveinarnir væru 13 sést fyrst í Grýlukvæði frá 18. öld.

Grýla, Leppalúði, Jólakötturinn og Jólasveinarnir - Brian Pilkington - Sólarfilma

 

Grýla í bókum

Grýla kemur fyrir í nokkuð mörgum bókum, hér ætla ég að  hafa  lista yfir bækur þar sem minnst er á Grýlu

 ( Ég vil biðja alla sem geta bætt við listann að láta mig vinsamlegast vita   - Takk )

 
JPV ÚTGÁFA (2005)hefur sent frá sér óviðjafnanlega skemmtilega bók: Rakkarapakk – Með kveðju frá jólasveinafjölskyldunni eftir Sigrúnu Eddu Björnsdóttur og Jan Pozok.
Kemst Grýla í kjólinn fyrir jólin?  Stenst Leppalúði álagið í hjónabandinu?   Verður hrútspungaflöff á loðnubeði á borðum landsmanna um jólin?  Verður þjóðin söm eftir að hafa fengið 13 óalandi og óferjandi jólasveina í heimsókn í jólamánuðinum?
 

Tröll í Reykjavík  -   ( Vantar höfund )

Raggi í jólasveinalandinu - ( Vantar höfund )

Raggi og týndi jólasveinninn - ( Vantar höfund )

Ævintýri á aðfangadag   ( Vantar höfund )

Grýla.   -  ( Gunnar Helgason - Mynd birt með leyfi útgefenda )( Bókaútgáfan Hólar)

Skórnir í glugganum  -  ( Vantar höfund )

Grýla gamla og jólasveinarnir. - Kristján Jóhannesson










Grýlusaga  - Bókin er frábær

Krækjur í aðrar síður þar sem Grýlu er að finna

Um Grýlu og Jólaköttinn - Barnaskóli Vestmanneyja

Grýla - Steingrímur Eyfjörð Kristinsson

Um Grýlu á þýsku

Grýluhátið á Skriðuklaustri

Þessi er nú öðruvísi

Af vef Jóhannesar úr Kötlum

Grýlukvæði

Af  frábærri síðu Salvarar Gissurardóttir

Efni um Grýlu og hennar hyski

Af Jólavef Júlla.

Jólakötturinn

 

Copyright  Jólavefur Júlla ©

TIL BAKA

Vefsmiður Júlíus Júlíusson. Jólavefur Júlla - 2003 -  2004  -  2005 - 2006 - 2007 - 2008 - 2009 - 2010 - 2011 -2012

Póstur