Yfirlit yfir jólaminningar
Jólaminningar
Þetta var allt svo yndislegt og skemmtilegt - Anna Jóhannesdóttir
Árið 1986 skrifaði Jón Helgi Þórarinsson fyrir Bæjarpóstinn. Á jólaföstunni heimsótti hann Önnu Jóhannesdóttur frá Syðra Garðshorni Svarfaðardal. Þetta ár var Anna 93 ára . Jón ræddi við hana um jólahald í bernsku. Hér birtum við viðtalið með leyfi frá Bæjarpóstinum. Anna bjó á Dalbæ er viðtalið var tekið en er nú látin.
Anna fæddist í Brekkukoti í Svarfaðardal 1893. Foreldrar hennar voru Steinunn Zóphaníasdóttir og Jóhann Jónsson. Var Anna nokkuð yngst sex systkina. Við báðum Önnu að segja okkur frá jólaundirbúningi í Brekkukoti, en þar bjó hún fram að fermingu. “ Fyrst vil ég segja það, að ég átti ákaflega góða æsku . Það þótti öllum vænt um mig. Ég man t.d eftir því að Zóphanías bróðir minn var í legu sem kallað var, var á skipi, og færði hann mér alltaf eitthvað fallegt og gott þegar hann kom heim.
Seldi smáband í kaupstaðnum og keypti jólarúss
Jólaundirbúningurinn var ekki mikill meðan ég var í Brekkukoti. Það er best að byrja að segja frá því, að að allt frá hausti og fram að jólum var tætt smáband, sem kallað var, það voru vettlingar og sokkar . Með þetta fór pabbi í kaupstaðinn fyrir jólin. Fyrir þá peninga var jólarússið keypt.Þá var farið á árabátum inneftir til Akureyrar, svo þetta var mikil ferð. Mikil gleði var hjá okkur krökkunum, þegar pabbi kom með koffortið inn á baðstofugólfið, og tók upp úr því. Við áttum alltaf eitthvað sem hann hafði keypt fyrir okkur. Á aðventunni var annars aldrei neitt um að vera . Ég held að maður hafi bara hamast við að vinna, meðan maður gat. Það kom fyrir að séra Kristján kom og sagði okkur krökkunum sögu. Annað var nú ekki til skemmtunar. Svo var farið að undirbúa jólin , allt þvegið hátt og lágt. Að sjálfsögðu var búið til laufabrauð. Gera varð margar kökur, en hverjum manni var skammtað . Mamma bakaði einnig eitthvað til jólanna, þó hún hefði enga eldavél , þá bjó hún til kleinur og pönnukökur. Pabbi kom ævinlega neð jólaköku úr kaupstaðnum en bakarí var á Akureryri. Það var ósköp mikil gleði hjá okkur börnunum yfir þessu öllu , og við hlökkuðum mikið til jólanna.
Pabbi smíðaði jólatré
Svo komu nú blessuð jólin, aðfangadagurinn. Þá klæddi mamma okkur í bestu fötin sem við áttum, þó það sé ekkert eins og núorðið. Pabbi var ágætur smiður og smíðaði svilítið jólatré. Við krakkarnir tókum falleg umbúðabréf og bjuggum til kramarhús. Voru rúsínur og gráfíkjur og því um líkt látnar í þau. Það var fjrska mikil gleði hjá okkur öllum yfir þessu. Þetta var sem sagt góð æska sem við áttum öll krakkarnir. Þó við værum fátæk höfðum við samt nóg. Síðan fórum við að labba í kringum jólatréð. Mamma gat lítið sungið, en pabbi söng ákaflega fallega og vel, einnig einn bróðir minn og systir. Ég man hvað ég var hugfangin að horfa á jólatréð og allt þetta. Við jólatréð sungum við kvæði séra Matthíasar:
Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól,
man það fyrst, er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.
Allt þetta kvæði sungum við alveg hreint, og ég hafði það einnig fyrir sið er ég síðar bjó í Garðshorni.
Jólahugvekjan var því næst lesin, pabbi og Inga systir sungu og reyndi ég eitthvað að taka undir.Brátt fór mamma að skammta jólamatinn. Það var hangikjöt og döndull, sem kallaður var, þ. e sperðlar magáll og laufabrauð. Kerti fylgdi einnig hverjum diski, eitt stórt kerti. Mamma hitaði einnig súkkulaði og gaf okkur með þessu fína brauði sem manni fannst. Þetta var allt svo yndislegt og skemmtilegt. Við létum smákerti á bita, borðstóla og bök. Annars var nú baðstofan lítil og lítið hægt að gera. Áður en við sofnuðum kom mamma og las jólasögu fyrir okkur og síðan signdi hún yfir okkur.
Sr. Kristján var alltaf góður við mig.
Á jóladag er við vöknuðum var sami gleðiljóminn yfir öllu. Þá var farið til kirkju og mamma sagði að við mættum einnig fara ef við værum bara nógu stillt. Séra Kristján heitinn Eldjárn var þá prestur á Tjörn, og ég man þegar ég kom, tók hann mig upp og sagði ; ,, ja hvað þú ert orðin falleg og stór“.
Jólasveinninn á glugganum
Ég man að eitt sinn var ég inni við á jóladag og þá kemur einhver á gluggann. Ég varð voðalega hrædd ég vissi ekkert hvað þetta var. En þetta var þá jólasveinninn. Það var þá strákur af næsta bæ, Tryggvi Svörfuður frá Brekku , sem bjó sig svona til . Hann var svo sniðugur að það var ekki nokkru líkt. Þetta var góður strákur. Hann vissi að ég átti enga skauta, en hafði fjarska gaman af að vera á skautum, svo hann gaf mér skautana sína. Hann hann hafði gert gat á poka og steypt yfir sig, setti reipi yfir sig ofanverðan. Svo setti hann á sig loðhúfu, var hún skreytt með allra handana fjöðrum. Hann var alveg voðalega skrýtinn og ég hrædd eftir því. Ég fór að skæla , svo einn bróðir minn tók mig og fór að lýsa þessu fyrir mér. Og þegar allt var búið hafði ég gaman af öllu saman.
Grýla reið með garði
Það var einnig minnst á Grýlu í tengslum við jólin, maður lærði þessi lifandis ósköp af grýlukvæðum. Það er vert að ég man vart nokkra þulu núna þessa stundina. Einnig voru til margar jólasveinaþulur.
Margir kunna þessa þulu:
Grýla reið með garði,
gekk með henni Varði,
hófar voru á henni,
hékk toppur úr enni.
Dró hún belg með læri,
börn trúi ég þar í væri.
Þetta er ein af ótalmörgum Grýluvísum sem ég kunni.
Engar jólagjafir í Brekkukoti
Það kom fram í máli Önnu, að engar jólagjafir voru gefnar þegar hún var barn í Brekkukoti, nema þá ef börnin fengu nýja flík, og svo kerti. ,,Það var ekki fyrr en ég kom í Syðra- Garðshorn sem byrjað var með jólagjafirnar. Ég man eftir fyrstu jólagjöfunumsem ég gaf börnunum, en þá gaf ég drengjunum bindi, en stúlkunum náttkjóla, sem ég saumaði handa þeim. Þegar börnin áttu von á jólunum, þurfti ég alltaf að segja þeim að jólasveinarnir væru þarna og þarna, uppi á Nikurtjörn, uppi á björgum. Svo biðu þeir við hlöðuhornið þangað til þeir komust heim í bæinn. Þeir hurfu aftur á braut, þegar kveikt var á kertunum. Ég sagði börnunum líka að jólin kæmu eitt hænufet á dag á jólaföstunni og kæmu inn í bæinn klukkan sex.
Mikil gleði í Syðra-Garðshorni
Krakkarnir dönsuðu mikið í kringum jólatréð og einnig var mikið sungið og spilað . Krakkarnir fengu alltaf spil og mikið af kertum. Það var mikið um heimboð til okkar, og þá var farið í marga leiki. Fólkið kom af öllum bæjunum í kring. Það var óskaplega gaman, og krakkarnir léku sér mikið og fannst sérstaklega gaman í feluleik í dimmum göngunum. En í Brekkukoti voru engir jólaleikir. Altt var svo einfalt eins og það gat verið. Áramótin í Brekkukoti voru heldur ekkert öðruvísi en tíðkaðist. Það var lesið og sungið og farið til kirkju . Við krakkarnir lékum okkur, fórum mikið á skauta og skíði.. Borðaður var sami matur og um jól. Auðvitað voru ekki til nein blys , en þegar gott var veður, fórum við út með kerti og veifuðum þeim í kring um okkur. Engin heimboð tíðkuðust þegar ég var í Brekkukoti, hvorki um jól né áramót, fólkið hafði ekki uppá neitt að bjóða, nema bara þetta vanalega. Það rétt hafði hver handa sér. Þannig var þetta á flestum bæjum , fólkið bara rétt komst af.
Presturinn var Vofa
Þegar Júlíus var þriggja ára (Júlíus Daníelsson sonur Önnu, innsk J.J) var álfadans á Skakkabakkanum, og fékk strákur að fara. Sveinbjörn bróðir minn hélt á honum á handleggnum. Dansað var í kringum brennuna. Þór á Bakka og systir hans voru drottning og kóngur, en við Daníel vorum prinsessuhjónin. Júlíus horfði ósköp hugfangin á þetta. Síðan er ekki miera um þetta að segja, nema um vorið var Jóhann skírður (Jóhann Danílesson sonur Önnu inssk J.J) í Tjarnarkirkju. Þá var séra Stefán Kristinsson tekinn við sem prestur á Tjörn og Bolla (Ingibjörg) dóttir hans spilaði á orgelið . Júlíus fékk að fara til kirkjunnar til að vera við skírnina, og gekk það allt vel. Stuttu síðar var Júlíus spurður hvort gaman hefði verið að fara í kirkjuna. Þá segir hann: Ja presturinn var vofa, en Bolla hafði handleggi. Þá var enn ljóslifandi í huga stráksins myndin frá álfadansinum. Þar voru púkar og einn þeirra var í hvítri skikkju og og stráknum fannst það vera vofa . Presturinn var eitthvað líkur þessari veru þegar hann lyfti höndunum. En Bolla var með bera handleggina svo það var augljóst hvers kyns hún var. Margt fleira rifjaði Anna upp, og ljóst er af frásögn hennar að oft hefur hún notið góðra daga og skemmtilegra stunda með góðu fólki. Með þeim orðum þökkum við henni fyrir spjallið.
Í gamla daga, Ágúst Bjarnason - Unnur Sigurðardóttir
Unnur Sigurðardóttir og Ágúst Bjarnason rifja upp bernskujól.
Ágúst Bjarnason
Fæddur 1917 , ólst upp í Grímsey. “Ég man ekki til þess að hafa fengið jólagjöf þegar ég var krakki, einna helst hafa það verið skór, sauðskinnskór og íleppar. Hangikjötið var skammtað og sett í sérstaka kassa sem hver og einn fékk. Það var aldrei nýtt kjöt á jólum. Jólatré voru skreytt með pokum og góðgæti sett í þá , t.d brenndur sykur. Það var langt að fara í kaupstað og auðvitað róið til Akureyrar, farið á árum. Svo komu stundum skip frá landi og þá var farið til Húsavíkur t.d ef það þurfti að sækja lækni. Eins og ég segi þá var ekki mikið um jólagjafir. Það er eins og mig minni að hver og einn hafi fengið tvö til þrjú kerti en ég minnist þess ekki að þau hafi verið steypt út í ey. Þau hafa komið einhversstaðar frá.Ef um aðrar gjafir var að ræða , voru það föt og skór.”
Tóvinna.
„Það var mikið prjónað fyrir jólin . Ég var við að kemba og eins þæfði ég en ég lærði aldrei að prjóna, ég man eftir því þegar fyrsta prjónavélin kom út í ey. Það var ljósmóðirin sem átti hana og það fóru allir til hennar og fengu að prjóna. Við krakkarnir vorum mikið við að bera vatn úr brunnunum og ég man að reyndum að hafa nóg vatn til þess að geta átt frí um jólin.”
Hangikjötið reykt í bænum.
„Ég átti heima í torfbæ og hangikjötið var alltaf reykt inni í fremra eldhúsinu í bænum og það var því mikill ilmur um allan bæinn. Gjallið var síðan hreinsað úr öskunni og svo var því dreift um gólfið og sópað en gólfin voru glerhörð. Fjósið var áfast bænum sem við sváfum í og um jólin var reynt að velja besta heyið handa öllum skepnunum. “
Jólabaðið
„Ég man að fyrir jólin voru allir baðaðir upp úr þvottabala og það var heilmikið umstang að hita vatnið. Það þurfti að sækja vatnið í brunnana og því reynt að fara sparlega með það. Krakkarnir fóru nú flestir í sama baðið það var rétt bætt út í annað slagið . Það var líka talsvert um að snjórinn væri bræddur og skepnum var líka mikið gefinn snjór.”
Unnur Sigurðardóttir – Svæði
„Ég er fædd í Höfn 1908 , en pabbi byggði húsið 1906 . Ég man fyrst eftir mér þegar ég var fjögurra ára . Fyrstu jólin eru mér sérstaklega minnistæð vegna þess að ég átti bróður Guðjón, sem var tíu árum eldri en ég og hann var strax mjög laginn við smíðar , þegar hann var drengur þá smíðaði hann lítið jólatré . Það komust á það 12 ljós . Það voru þrjár greinar í röð og fjórar raðir , kertin voru lítil , mislit snúin og ég man að pabbi gaf okkur þau”.
Farið á árabátum í kaupstað og keypt til jólanna.
„Það var nú farið á árabátum til Akureyrar fyrir jólin til að kaupa ýmsan varning . Ég man að fyrir jólin var tætt smáband sem kallað var, spunnið og prjónaðir sokkar og vettlingar úr haustullinni þegar gærurnar voru rakaðar og skinnið auðvitað . Sokkarnir voru háir , upp undir hné og sjóvettlingar. Svo var þetta lagt inn og keypt fyrir þetta til jólanna, t.d eitthvað góðgæti”.
Á Jólunum
„Ég man að Guðjón fékk að fara til Akureyrar af því að hann var þetta eldri . Hann hefur nú átt einhverja aura, því hann kom með svo fallegan pappír , allavega á litinn til þess að riða jólapoka. Þessa poka settum við svo á tréð til þess að skreyta og líka englahár og svo var kóngurinn efstur. Mamma gaf okkur svo gráfíkjur eða döðlur til þess að setja í pokana . Á jólanóttina var svo dregið um pokana. Pabbi las síðan alltaf húslesturinn, hann var alltaf öðruvísi lesinn heldur en bókalesturinn. Pabbi las alltaf upp úr Helga Hálfdánarsonar Postillu. Ég man svo vel eftir þessari jólanótt. Ég átti lítið skammel sem Guðjón smíðaði handa mér og ég sat svo oft á því þegar pabbi var að lesa upphátt á kvöldin .Og svo sat ég á þessu þarna á jólanóttina og það var búið að skreyta tréð og setja það upp á borðið og pabbi sat við borðið og las húslesturinn og mamma söng“ í dag er glatt í döprum hjörtum“. Mér fannst þetta allt svo hátíðlegt að mér fannst ég sjá jesúbarnið í jötunni. Ja, þvílíkt. Ég er búinn að lifa mörg skemmtileg jól en ég man ekki eftir neinum sem fest hafa eins vel í mér eins og þessi “.
Jólamaturinn
„Á jólanóttina var auðvitað borðað hangikjöt og laufabrauð. Svo var gefin súpa,kjötsúpa eða eitthvað álíka. Það var ekki mikið um nýtt kjöt, ég man ekki eftir því, að það hafi verið slátrað sérstaklega fyrir jólin. Það voru döndlar sem kallaðir voru magálar . Döndlarnir voru búnir til úr ristlunum.Þeir voru ristir skafnir upp og þvegnir. Síðan var þetta vafið upp og saumað utan um þindarnar og reykt og notað sem álegg á brauð.
Heimildir
Jólablað Bæjarpóstsins 1993. Birt með leyfi blaðsins.
Hjörleifur Hjartarson - Þrjár sögur af hrakföllum jólasveina
Úr jólablaði Norðurslóðar 2001. Birt með leyfi blaðsins.
Við höfum iðulega brugðið á það ráð við efnisöflun í jólablað Norðurslóðar að fá menn og konur úr byggðinni til að rekja fyrir okkur jólaminningar, segja frá jólum bernsku sinnar eða einhverjar sögur sem tengjast jólunum. Mig langar að segja hér þrjár hrakfallasögur sem eiga það sameiginlegt að tengjast Tjarnarbræðrum og jólum. Þá kemur Björn Þórleifsson fyrrverandi skólastjóri á Húsabakka einnig við sögu en hann hefur jafnan verið iðinn við að gera sér þorramat úr hrakföllum Svarfdælinga jafnt á jólum sem öðrum árstímum.
Jólakortið sem hvarf
Fyrsta sagan gerist þegar ég var enn mjög ungur og flokkast vart sem hrakfallasaga. Það var til siðs heima á Tjörn að um hádegisbil á aðfangadag vorum við börnin á bænum jafnan send af stað á skíðum með jólakort á næstu bæi; Grund, Brekku, Jarðbrú, Laugahlíð, Húsabakka og Ingvarir. Þetta voru miklir leiðangrar og tóku oftast lungan úr aðfangadeginum. Auðvitað voru þetta, svona eftir á að hyggja, einskær klækindi af hálfu foreldra okkar til að skapa frið fyrir húsmóðurina að undirbúa kvöldið og draga úr spennumyndun á heimilinu. Ég hef sjálfur beitt þessu bragði á mín börn með góðum árangri. Það þurfti nú reyndar síst að hvetja okkur til fararinnar því þetta var alltaf sannkölluð lystireisa, fólk í jólaskapi á öllum bæjum að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn áður en hátíðin gengi í garð og hvarvetna vorum við nestuð með sælgæti og smákökum og einu sinni man ég eftir því að Sigga gamla á Jarðbrú gaf mér nýprjónaða lopavettlinga því henni þóttu mínir heldur litlir.
Það var sem sagt í einni af þessum póstferðum á aðfangadag sem saga þessi gerist. Við bræður höfðum kjagað á milli bæjanna í skafrenningi og vorum búnir að skila af okkur öllum kortum suður á bæina. Það er orðið rokkið þegar við komum í hlað á Ingvörum en þá uppgötvum við okkur til skelfingar að jólakortið til Ingvarabónda er horfið. Líklega hafði það skoppað upp úr vasa á leiðinni og fokið út í buskann. Hefur ekkert til þess spurst síðan. Nú voru góð ráð dýr. Ekki þótti okkur sæmandi að laumast burt eins og þjófar að nóttu án þess að bera einhverja jólakveðju í bæinn. Eldri bræðurnir telja því Kristján á að banka upp á og bera Steingrími bónda jólakveðjuna munnlega. Kristján lætur til leiðast eftir dálitla eftirgangsmuni og loforð um vænan skerf af nestinu, fer upp tröppurnar og gengur beina leið inn í eldhús án þess að banka. Þar stillir hann sér upp í skíðaskónum á miðju eldhúsgólfinu og þylur: “Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár, þakka liðið, til fjölskyldunnar á Ingvörum frá fjölskyldunni á Tjörn” Án þess að hafa um það fleiri orð eða bíða eftir andsvörum heimamanna hraðar hann sér svo aftur út til okkar sem biðum og renndum við hið snarasta úr hlaði í hátíðarskapi og ánægðir með vel unnið verk.
Jólaballið sem gleymdist
Jólatrésskemmtanir kvenfélagsins Tilraunar að Þinghúsinu á Grund voru um árabil eitt helsta tilhlökkunarefni barna hér í sveitinni. Hápunktur slíkra dansleikja er og var að sjálfsögðu koma jólasveinanna sem aldrei hefur brugðist – eða því sem næst aldrei. Það gerðist þó fyrir nokkrum árum á einni af síðustu jólatrésskemmtuninni sem haldin var á gömlu Grundinni að jólasveinarnir brugðust. Stundvíslega klukkan tvö hafði safnast saman fjöldi prúðbúinna barna og foreldra og myndað fimmfaldan hring um jólatréð eins og segir í kvæðinu. Hófu börnin þegar að syngja jólatréssöngva undir öruggri stjórn Elínborgar á Syðra-Hvarfi við undirleik Jóhanns Daníelssonar en samkvæmt hefðinni áttu svo jólasveinar að banka upp á þegar liði á dansinn og færa börnunum epli. Höfðu kvenfélagskonur gert viðeigandi ráðstafanir og ráðið tvo bræður frá Tjörn til að gegna hlutverki jólasveina. Þegar líður á dansinn og ekkert bólar á jólasveinum byrja kvenfélagskonur að ókyrrast enda, söngskráin tæmd, börnin tekin að lýjast í dansinum og byrjuð að flosna frá jólatrénu. Eru þá þrjár þeirra sendar út af örkinni í bíl til að grennslast fyrir um hvað orðið hefði um bræðurna því ekki var viðlit að ná á þeim í síma þó reynt væri. Þegar konurnar renna í hlað á Tjörn sjá þær hvar bræðurnir koma í hægðum sínum á gönguskíðunum upp túnið neðan af engjum og er ekki á þeim neinn asi. Voru þeir sælir og rjóðir að koma úr fuglatalningarleiðangri búnir að steingleyma jólaballinu en eins og lesendur Norðurslóðar vita manna best fer fram fuglatalning um allt land árlega milli jóla og nýárs og hafa Tjarnarbræður jafnan látið mjög til sín taka á þeim vettvangi Mikill var fögnuður barnanna eftir hátt í tveggja tíma bið, þegar jólasveinarnir mættu loks með eplin en heldur fengu þeir kaldar kveðjur og illt auga frá kvenfélagskonum. Um þetta atvik orti Björn Þórleifsson og söng á næsta þorrablóti undir alkunnu ensku jólalagi:
Á fjórða degi jóla sáust sveinar út við Tjörn,
horfa á þrettán hrafna,
tólf hvíta karra
ellefu mædda máva,
tíu snjótittlinga,
níu naut frá Melum,
áttavilltan bónda,
sjö rýra sauði,
sextíu börn þá biðu
í fimmföldum hring.
Klukkan fjögur fóru
í fólksbíl þrjár,
fundu bræður tvo,
því að ein skemmtun gleymdist á Grund.
Skyrjarmur mætir ekki
Jólasveinninn Skyrjarmur ber fulla ábyrgð á þeim hrakföllum mínum sem lýst er í þriðju og síðustu frásögninni. Hefði hann ekki svikist um að gera skyldu sína aðfararnótt 19. desember árið 1993 hefðu þeir hörmungaratburðir sem nú skal greint frá ekki orðið.
Forsaga málsins er sú að umræddan desembermorgun vakna ég eldsnemma við háreysti úr herbergi sona minna eins og ekki var óalgengt á þessum tíma. Ég verð þess þó fljótt áskynja að eitthvað meira en lítið veldur drengjunum angri og þegar ég legg við hlustir heyri ég hvers kyns er. Jólasveinninn hefur svikist um að gefa þeim glaðning í skóinn þrátt fyrir óaðfinnanlega hegðun þeirra alla jólaföstuna. Mér þótti þetta eins og þeim í hæsta máta ósanngjarnt og ákvað þarna undir heitri sænginni að freista þess að bæta fyrir brot Skyrjarms. Án þess að velta því frekar fyrir mér “strokka ég mig berlæraður fram úr” eins og Björn nágranni minn Daníelsson hefði orðað það, þess albúinn að bjarga nú málunum og heiðri jólasveinastéttarinnar.
Þannig háttaði til í Laugahlíð þar sem ég bjó að svefnherbergi voru á neðri hæð en eldhús og stofur á þeirri efri. Ég hraða mér upp á efri hæðina til að verða á undan drengjunum, gríp skó þeirra upp af forstofugólfinu og kem þeim fyrir úti í bakherbergisglugga ásamt þrem mandarínum sem lágu þar nærhendis. Ég hugsaði að drengirnir myndu sjálfsagt velta vöngum yfir því af hverju Skyrjarmur veldi þessa skó og þennan glugga en ekki barnaherbergisgluggann og skóna sem þar voru fyrir. Ég opnaði því gluggann til að gera þessa sviðsetningu á jólasveinaheimsókn raunverulegri. Utan við gluggann sá ég að kominn var kafdjúpur nýfallinn snjór og þá fékk ég þá örlagaríku hugmynd að áhrifaríkast væri náttúrulega að gera spor í snjóinn að glugganum svo ekki færi á milli mála að Skyrjarmur hefði verið þar á ferðinni. Ég mátti hins vegar engan tíma missa því strákarnir voru væntanlegir upp á efri byggðir á hverri stundu. Enn var ég á stuttbrók minni einni klæða og þar sem tími var naumur hafði ég ekki fyrir því að tína á mig aðrar spjarir en hólkvíðar bomsur og stuttan regnfrakka sem hékk í forstofuhenginu. Þannig klæddur storma ég nú út í skammdegismyrkrið.
Það fyrsta sem ég skynja þegar út er komið er að kuldinn er meiri en ég hafði gert mér grein fyrir en þess má geta að það var 16 stiga frost þennan dag. Annað vandamál mætti mér þarna á stéttinni. Til að komast að umræddum bakglugga yrði ég að fara lengri leiðina norður fyrir fjós sem sambyggt var íbúðarhúsinu því að öðrum kosti gengi ég fyrir barnaherbergisgluggann auk þess sem auðvelt yrði að rekja spor mín í þá áttina. Ég setti því undir mig hausinn og stikaði norður fyrir fjós lítt klæddur í bítandi morgunfrostinu. Norðan við fjósið var allmikill skafl, illur yfirferðar sökum þess hve snjórinn var laus í sér svo fljótlega var ég farinn að vaða snjóinn upp í nára berlæraður eins og áður segir og hálfpartinn farinn að skríða á fjórum fótum. Bomsurnar voru sem áður segir hólkvíðar og gleyptu allan þann snjó sem á vegi þeirra varð. Ekki hvarflaði þó að mér að hætta við áform mín og ekki einu sinni þó ég lenti ofan í bæjarlækjargilinu þar sem snjórinn náði mér í geirvörtur og bomsurnar fylltust af krapa. Við illan leik komst ég upp úr lækjargilinu og tók nú stefnuna að girðingunni umhverfis húsið mjög orðinn móður af krafsinu og svo blautur og kaldur að ekki þóttist ég áður hafa komist í slíkar raunir. Bót í máli þótti mér þó að skaflinn og lækjargilið voru að baki og snjórinn ekki nema hnédjúpur sem eftir var leiðarinnar yfir girðinguna og að glugganum. Ég hélt því ótrauður áfram för minni enda orðinn svo kaldur á höndum og fótum að ég taldi hámarkinu náð í mannlegum þjáningum. Þar skjátlaðist mér þó illilega því það versta var eftir.
Þar sem ég hyggst vippa mér síðasta spölinn yfir girðinguna inn í garðinn og upp að húsinu gríp ég þéttingsfast um efsta girðingarstrenginn. Skiptir þá engum togum að um mig fer slíkt ólýsanlegt raflost að líktist helst sem væri ég sleginn bylmingshöggi af ólmum hesti svo ég tókst bókstaflega á loft og flaug láréttur inn í garðinn en fyrir augum mér sá ég stjörnur og sólir og síðan myrkur. Ekki veit ég hvernig ég komst inn í bæ né hversu lengi ég hafði þá legið í skaflinum en það næsta sem ég man eftir mér er að ég ligg skjálfandi undir þunnri ábreiðu í stofusófanum í Laugahlíð og má ekki mæla sökum mæði en drengirnir allir yfir mér grátandi undan sviksemi jólasveinsins og veita því ekki hina minnstu athygli í hvers konar ástandi faðir þeirra er.
Það tók mig það sem eftir var dagsins að ná aftur eðlilegum hjartslætti og andardrætti og það sem eftir var jólaföstunnar að ná úr mér hrollinum eftir hrakningarnar og þó ég hafi með semingi tekið jólasveininn Skyrjarm í sátt þá hef ég enn ekki að fullu fyrirgefið þeim grönnum mínum sem leiddu rafmagn í garðstrenginn til að hemja hross á Laugarhlíðartúninu. Um þessa hrakför mína orti svo náttúrulega Björn Þórleifsson og söng á næsta þorrablóti undir þekktu jólalagi:
Um hrakfarir jólasveins sem kom að glugga í Laugahlíð jólin 1993
Það er einhver úti í skurðinum með skanka upp í loft,
hefur skollið bakið á.
Hann líkist ekki sveinum þeim er séð ég hefi oft
og ég sé ekki gjöfina er ég á að fá.
Hví er sveinninn minn að baksa hingað berlæraður heim
og í bomsunum hans pabba ?
Það er einhver úti í skaflinum sem skrækir eins og grís,
það er skelfing að heyra og sjá.
Hann minnir ekki á Kertasníki að kafa snjó og ís,
kannski hefur hann landa bragðað á?
Það er einhver útí skafli og það skín í lærin ber,
skárri er það nú jólasveinninn!
Oná rafgirðingarstrengnum er hann staddur eins og er
og hann stynur þungt og sárt.
Hann ætlaði að glugganum með gjafir handa mér,
hvað gerir hann þarna er ekki klárt?
Út af rafmagninu í strengnum rísa hárin alveg stíf.
Hann er reyndar í úlpu af pabba.
Í aðdragamda jóla 1965 - Valgerður Gunnarsdóttir
Vinkonur tvær liggja í snjónum og búa til „engla“ með því að sveifla höndum og fótum til hliðanna og til baka nokkrum sinnum, rísa svo upp og dást að afrekinu, færa sig um set og búa til fleiri engla, marga engla. Það eru koma jól. Að lokum liggja þær kyrrar í einum englinum og horfa upp í stjörnubjartan himininn, þær þekkja báðar Fjósakonurnar og svo er tunglið líka þarna. Þær sjá greinilega andlit karlsins í tunglinu, hann brosir til þeirra af velþóknun. Þvílík undursamlega dýrð þarna á himninum og Jesúbarnið á bráðum afmæli á sjálfum jólunum.
Þær eru á leið heim úr skólanum, eru lengi á leiðinni og koma við hjá Ingu Ásgeirs, kennara. Það var alltaf svo gaman að koma í dyrnar hjá henni og spjalla aðeins um allt það skemmtilega sem Inga er að láta bekkinn föndra fyrir jólin og nú er verið að búa til jólatré, sem bekkurinn á saman. Á litlu jólunum á svo að setja á það logandi kerti og silfurstjörnur og pakkana sem lagðir eru í púkk. Síðan verður teiknuð jólamynd á alla krítartöfluna og hengdir upp músastiganarnir sem höfðu verið fléttaðir úr marglitum kreppappír.
Þær rölta í rólegheitum út að Bárubúð og kíkja aðeins inn til að sjá öll leikföngin sem Bára hefur fengið fyrir jólin. Hillurnar eru fullar af fallegum brúðum og bílum og ýmsu dóti sem gaman er að horfa á og láta sig dreyma um. Það eru margir í búðinni í jólainnkaupum og Bára mælir efni úr stranga fyrir Öbbu, sem ætlar að sauma fallega jólakjóla á dætur sínar. Já það eru sannarlega að koma jól.
Þær halda áfram för sinni og við blasir jólastjarnan á þaki Kaupfélagsins og fyrir framan það stendur jólatréð með marglitum ljósum, hátt og tignarlegt. Í glugganum í vefnaðarvörudeildinni hneigir jólasveinninn höfuðið í sífellu. Þetta þrennt er staðfastleg sönnun á jólakomunni á Dalvík.
Vinkonurnar fara inn í búðina. Á móti þeim stendur Dóri og afgreiðir í Skeifunni. Jónas í Koti fær sér í nefið og þeir Dóri hlæja hátt að einhverju. Í vefnaðarvörudeildinni eru Alla og Svanbjörg að stússast með tölur og tvinna, sokka og belti og bindi og fleira sem nauðsynlegt er að geta keypt fyrir jólin. Á mörkum Skeifunnar og vefnaðarvörudeildar er leikfangadeildin. Þar er nú aldeilis hægt að gleyma sér. Bollastell, eldavélar, upptrekktir bangsar og bílar, postulínshundar og líka pappírshattar fyrir áramótin. Þarna er sannkallað gósenland fyrir unga huga.
En vinkonurnar hafa ekki mikil auraráð og skunda því yfir í matvörudeildina, þar sem Rósa tekur broshýr á móti þeim, þrátt fyrir miklar annir við að vigta hveiti og sykur og vanillukex í poka fyrir Jónu Bjössa. „Hvað viljið þið, stelpur mínar ?“ Rósa horfir kankvís á þær. Vinkonurnar vilja möndlur í poka fyrir tvær krónur á tíu aura stykkið. Rósa tekur skeiðina og telur möndlurnar vandlega ofan í kramarhús, sem hún snýr upp á staðnum. Eplalyktin fylgir þeim út úr búðinni og þær vita að í kjöllurum flestra húsa munu verða stórir kassar fullir af eplum og appelsínum um jólin, sem heimilisfólk fær að gæða sér á til hátíðarbrigða.
Vinkonurnar eru nú komnar framhjá Barnum og Mjólkurbúðinni og stefna á Kjötbúðina til Kæju og Friðjóns. Hangikjötið er komið á sinn stað við vesturgluggann og nú hafa einnig komið nokkrar tunnur af vínberjum, sem mun skipt nokkuð jafnt milli kaupenda á Dalvík. Friðjón gefur stelpuskottunum tvö vínber hvorri að smakka. Þvílíkur munaðurog unaðslegt bragð, þó smá korkur fylgi með úr tunnunni, sem bara eykur enn á framandleikann.
Þær ganga nú upp Lágina og önnur hverfur heim til sín í Höfn og hin trítlar inn til ömmu í Sælandi, sem stendur við eldavélina og er að hita kakó. Á eldhúsborðinu er jóladúkur, voxdúkur, eins og amma segir. Á dúknum eru myndir af jólaveinum og hreindýrum og fallegum jólapökkum. Amma nær í smákökur og laufabrauð fram í búr og ber fyrir dótturdóttur sína, sem borðar af bestu lyst. Það er svo gott að koma til ömmu og nú eru að koma jól.
Södd og sæl röltir hún upp Bárugötuna heim til mömmu. Yngri systkinin eru hjá henni í eldhúsinu og ilmur af smákökubakstri umvefur allt. Inni í stofu er annar ilmur, af tekkolíu og húsgagnabóni. Mamma sér um það. Nú mætti pabbi fara að koma heim af sjónum. Það eru að koma jól.
8. desember 2013
Valgerður Gunnarsdóttir – Birt með leyfi Norðurslóðar
Jólaminningar miðaldra Dalvíkings - Pálmi Óskarsson
Ég er uppalinn á þeim árum sem Dalvík er að breytast úr möl í malbik. 2-3 götur voru bikaðar á hverju sumri; spenntir sátum við um að sitja í hjá vörubílstjórum sem voru á vinnuskyrtum, með mismikinn plömmer á gallabuxunum. Strákar voru á hjóli: Fyrst Kopper, svo Grifter, svo DBS. Stelpum hafði ég ekkert vit á. Leðurgallaðir, mjóslegnir mótorhjólatöffarar voru við Shellið; minntu á lakkrísrör. Við skulfum fyrir eistnaskoðun í gömlu Gimli hjá Eggerti lækni Briem, þeim mikla ljúflingi og harmdauða. Þar var síðar tónlistarskólinn og æskulýðsmiðstöð, sumsé áður en Heiða náði í Bjarna til Grenivíkur. Dalbær var byggður, heilsugæslan (sem var kölluð læknamiðstöð) og Ráðhúsið (alltaf kallað stjórnsýslan). Kaupfélagið var opið 9-12 og 13-18, lokað í hádeginu. Eins var hjá Eika í Kjörbúðinni. Plötur fengust í Sollubúðinni, bakaríið var í Týról. Þar var líka bókasafnið þar sem gott var að hringa sig niður í rykmettuðu skoti og lesa meðan afi afgreiddi. Krakkager fór í Fallin spýtan við Bergó; veit ekki hvort nokkur hefur reynt þann leik í kringum raðhúsið sem þar stendur nú. Samherji var enn bara þrír menn og Guðsteinn. Sunnanáttin lagði minkabúsbrælu fyrir vit okkar; Fiskidagurinn mikli var miklu betri hugmynd hjá Steina. Tíkallaspil var í Shellinu; trompvinningurinn var 10 krónur, í krónupeningum. Gógó réði Hólnum; þar skiptust frændurnir Hákon og Örvar á að eiga metið í Ms. Pac-Man. Siggi Matt stökk hæð sína án atrennu í gamla íþróttahúsinu. Hávaxinn maður með auðþekkt göngulag arkaði um bæinn á gamlárskvöld í múnderingu sem á stóð Sprengja ´84 og blikkaði rauð ljósapera efst.
Svo kom nútíminn ´85 með Svarfdælabúð og hádegisopnun. Farið var að sjónvarpa á fimmtudögum og í júlí.
Að lokum var búið að malbika allt. Maður stækkaði, menntaðist, flutti burt, öðlaðist fjarlægð og víðari sýn. Aðrir tóku við…
Jólin voru ekki í huga manns fyrr en í lok nóvember. Þetta voru jú tímar sem einkenndust af skorti á svörtum fössurum og sæber monday og outlet og dömulegum dekurdögum. Hugmyndaflugi skransala voru enn einhver takmörk sett. Kaupfélagið var miðpunkturinn sem allt mannlíf hverfðist um, þar fékkst allt sem þorpsbúar þurftu og þar skiptist fólk á fréttum. Jólin urðu áþreifanleg þegar jólasveinninn kom í gluggann austan við hornið (ja, raunar er þetta nú afar rúnnað horn…) á kaupfélaginu. Blessaður karlinn stóð þar einn ár eftir ár og kinkaði kolli án afláts, já já já jólin eru að koma fannst mér hann segja. Stóreflis stjarna var sett upp á kaupfélagið og lýsti alla aðventuna. Þá voru jólin komin í seilingarfjarlægð. Svo komu jólasveinar og sungu lög á kaupfélagssvölunum. Þeir voru oft ansi líkir körlum í byggðarlaginu.
Í minningunni voru jólalög aldrei leikin fyrir fyrsta desember, hvorki í útvarpi né af hljómplötum heima fyrir. Jólaföndrið í Dalvíkurskóla kom manni í allgóðan jólagír; þar hljómuðu jólasöngvar af snældum einn laugardag á meðan maður draslaði saman einhverri ólögulegri jólahrúgu úr filti, pípuhreinsurum og glimmer. Vopnaður límstifti.
Lítil stemning var fyrir hátíðlegum jólalögum á mínu æskuheimili; það var Gáttaþefur sem gægðist fyrstur inn í barnssálina, svo Jólastjörnur Gunnars Þórðarsonar og auðvitað Ellý og Vilhjálmur. Þetta rúllar enn fyrir jólin og ekki séð að synir mínir hafi minna gaman af.
Amma í Odda var músíkölsk og dillaði sér einkum við harmonikkuspil. Hún átti plötu sem ég skellti gjarnan á fóninn í litlu stofunni í Odda. Þar var Eddukórinn. Það er einhver sérkennilega þung og góð nostalgísk stemning yfir þessum kór, sem ég fann síðar að er alls ekki besti kór í heimi. En að heyra hann syngja um jólasveinana, kvæði Jóhannesar úr Kötlum, er hreinn unaður. Og enn í dag finn ég mér stað og stund í einrúmi og spila Á jólunum er gleði og gaman rétt fyrir jólin. Þá loka ég augunum og er staddur í Odda, í stólnum með skammelinu, rökkvað í stofunni en jólaljós í glugga.
Ég fékk aldrei í skóinn. Það var þó ekki fyrir það að jólasveinninn fyrirliti mig. Nei, ég fékk á strenginn. Strengurinn var krosssaumslengja með dagatali sem móðir mín blessuð hengdi á vegginn í herberginu mínu að kvöldi þrítugasta nóvember. Við hvern dag var plasthringur sem eitt stykki sælgæti hékk á að morgni frá og með fyrsta desember. Síríuslengja, Rjómatoffee, Bananastöng, Staur, Malta, Hraun, Conga, Ópalpakki eða Rommí. Ég hef mömmu grunaða um að hafa haft einhver afskipti af þessu. Annars var það mamma sem bar hitann og þungann af undirbúningi jóla. Henni á ég mest að þakka að aðventa og jól eru sveipuð notalegum vellíðunarljóma. Hún er mesta hamhleypa til verka og hefur lágan skítastuðul, vart merkjanlegan. Föt saumaði hún á okkur bræður fyrir jólin jafnan. Því næst var allt þrifið í hólf og gólf, skápar og loft skinu og önguðu af Ajax. Með salmíaki.
Átján sortir söfnuðust í dunka, lagkökur og rúllutertur, perutertur, sherrytertur.
Laufabrauð var skorið og steikt fyrstu eða aðra helgina í desember. Deigið var lengst af fengið hjá Rikka. Mamma og amma fóðruðu svo vöðvabólguna með því að fletja út eins og 250 stykki. Mér fannst mikið á liggja að hespa skurðinum af og skar jafnan flestar kökurnar. Með því hætti ég þó alltaf á að fá hornauga frá föður mínum og afa, sem handskáru og gaumgæfðu kvurt hnífsbragð. Þeir höfðu höndlað þann mikla sannleik: It´s the journey, not the destination. Mér fannst þeir hins vegar ætla að handskera laufabrauð langt fram á nýár og þóttist eiga mestan heiður af því að þetta hafðist alltaf á einum degi.
Jólaöl var fastur liður. Það var sótt upp í Ásveg til Jóhanns Tryggva, sem var eins manns útibú Sana á Dalvík. Þetta renndum við feðgar og var hátíðablær yfir, kannski ekki síst vegna þess að fátítt var að faðir minn gerði annað en að smíða fyrir bæjarbúa og slíkar samverustundir því dýrmætar. Til marks um þetta kom ósjaldan fyrir að hann svaraði: “Tréverk” þegar síminn hringdi heima. Og alltaf varð ég hissa þegar ég sá hann í hversdagsfötum. Þeir áttu það sameiginlegt, Andrés Önd og pabbi, að þurfa bara einn galla; Andrés matrósafötin en pabbi bláan Snickers. Munurinn er hins vegar sá að Andrés er fullkominn ónytjungur en faðir minn einhver duglegasti og traustasti maður sem ég veit.
Foreldrar mínir voru í seinna fallinu með skreytingar. Aldrei var skreytt fyrr en tveim dögum fyrir jól. Þá var maður nánast kominn með harðlífi af jólaspenningi. Gjafir voru farnar að safnast fyrir inni í geymslu; pinklar komu með póstinum frá fjarstöddum ættingjum. Við bræður fengum svo að raða herlegheitunum í kringum tréð á aðfangadag. Eru það einu skiptin sem ég hef haft verkstjórn yfir Degi bróður mínum.
Seríur voru settar í glugga að kveldi tuttugasta og annars. Þar var faðir minn millimetrasmiðurinn með fullkomna yfirsýn. Ekki skyldi flanað að neinu. Sama formið, sama sería, sami gluggi. Hjarta, tígull, kassi, hallamál og tommustokkur.
Jólatréð fór upp á Þollák og hengdar á það kúlurnar. Sami toppurinn var á trénu ár eftir ár, allt þar til aldurhnignum foreldrum mínum fæddist síðbúið barn sem braut hann árið 1991. Eða 92. Hann hefur stundum verið minntur á það síðan. Það er ónærgætið og ómaklegt, enda er hann vænsta skinn. Keyptur var annar toppur sem var bæði verri og ljótari.
Spariföt voru alger skylda á aðfangadag. Í minningunni var ég klæddur í stingandi ullarnærbol undir skyrtunni. Allir fóru í bað, pabbi var lengst. Hann komst svo sjaldan í bað því hann var alltaf að saga plötur fyrir menn niðrá Tréverk.
Alltaf var farið í kirkju á aðfangadag þótt annars væri ekki farið nema ferma þyrfti. Að vísu sungu foreldrar mínir báðir í kirkjukórnum hjá Gesti Hjörleifs og fóru því oftar. Ég held þau hafi ekki alltaf langað. Gestur kom á Willys, A 2702, og brúkaði ökuhanska. Ég hafði sæmilegt eyra fyrir músík og kom mér jafnan fyrir næst bassanum, þar sem pabbi söng. Þar drundu líka Árni Óskars og Dóri Jó. Þetta voru alvörumenn. Síðan kann ég bassann í öllum jólasálmunum. Stefán Snævarr þótti mér halda afskaplega langar ræður; held að Jón Helgi hafi verið sneggri að rusla guðsorðinu af. Afi heitinn sagði líka að hann væri verkhygginn og jarðarfarirnar væru snyrtilegar hjá honum.
Aldrei tókst mér að átta mig á því hvers vegna sólin var songuð í Heims um ból. Ég gat bekennt að mærin væri signuð en songuð sól? Rugl var þetta. Setningin “frumglæði ljóssins en gjörvöll mannkind” er líka fullkomlega óskiljanleg þegar punktur er settur aftan við hana, eins og ég gerði alltaf. Enda ekki skrítið: Kirkjukórinn tók alltaf kúnstpásu á eftir mannkind og sleit þar með setninguna sundur. Og meinvillin…mér stóð alltaf stuggur af henni.
Talandi um gallsúra jólatexta: Fyrir allmörgum árum starfaði ég á Húsavík og var á vakt rétt fyrir jólin. Vaninn er að læknar stöðvarinnar hittist að morgni og vaktlæknir fari yfir helstu atburði liðinnar vaktar. Á fundi að morgni Þorláksmessu sagði ég þeim að í mig hefði hringt maður á miðjum aldri og haft áhyggjur af föður sínum. Hann væri orðinn gamall og einn, og því hefðu þeir bræðurnir, synir hans, ákveðið að koma saman allir sjö og vera með honum um jólin. Þeir höfðu svo setið að spjalli í stofunni allir saman þegar undarlegir atburðir tóku að gerast. Sá gamli stóð á fætur og lýsti því hátíðlega yfir að hann elskaði alla syni sína. Þeir tóku því vel og endurguldu ást hans í orði. En þá lagði karl hendur saman eins og fyrir bæn og hneigði sig í sífellu. Svo klappaði hann saman lófunum, stappaði niður fótum nokkrum sinnum, vaggaði mjöðmunum til og frá og sneri sér að því búnu einn hring. Þetta endurtók hann tvívegis; hélt svo áfram spjallinu eins og ekkert hefði í skorist. Nefndi þó aftur að hann elskaði þá alla. Sonur mannsins vildi nú vita hvort ástæða væri til að læknir liti á hann. Gæti þetta verið heilablóðfall? Rugl vegna sýkingar? Bráð sturlun?
Félagar mínir höfðu setið með spekingssvip, albúnir að leggja mér lið með gáfulegum tillögum um uppvinnslu og áframhald. Svo könnuðust þeir við Adam.
Hvað er hann að sá? Og af hverju á jólunum? Og hver sáir svona bjánalega, með hendur í bænastellingu? Ég sættist við þá skýringu að þetta væri danska: Han saa de. Hann sumsé sá synina. Gott og vel. Mér hefur þó alltaf þótt eitthvað sjúklegt við þetta hátterni.
Í dag er glatt var uppáhalds. Af því að maður sá fílinginn hríslast um afa gamla þegar það fór í gang. Hann var held ég vita laglaus sjálfur, og aldrei heyrði ég hann syngja, en einhvern jólastreng snerti Mozart í honum. Þetta fallega lag er eitthvað svo dapurlegt en textinn einn allsherjar rífandi fagnaðarboðskapur. Sennilega er þetta þó á sinn hátt lýsandi fyrir lúterskt helgihald: Mikill fögnuður boðaður með hálfgerðum hundshaus.
Ég er alinn upp við reykt svín á aðfangadag. Svínakambur, bayonneskinka, hamborgarhryggur. Lengi vel át ég bert kjötið með rauðrófum en bætti svo öðru meðlæti við þegar bragðlaukar slitu barnsskónum.
Pabbi skaut eitt sinn hálfa rjúpu þegar prófa átti villtara mataræði. Hún dugði skammt.
Á jóladag var arkað niður í Odda til afa og ömmu. Svona um hádegið; rétt eftir að maður opnaði augun, svínakets- og konfektþrútin. Þar var jólahangiketið snætt. Afi gerði skúrblönduna, kókblandað malt og appelsín. Hann notaði litlu glerflöskurnar, það voru réttu hlutföllin. Nafnið kom til vegna þess að hann fór með könnur út í skúr (bíslagið á Odda) og lokaði að sér. Síðan blanda ég alltaf kóki í malt og appelsín.
Svo liðu jólin í vellystingum og áhyggjuleysi þess sem ekki þarf að mæta í skólann fyrr en eftir áramót. Jólaböll fyrir krakka voru haldin í Víkurröst. Þau var ég tregur að sækja, enda feiminn og spéhræddur, alls ólíkur Búrfells-Skjóna langafa míns sem var “svifóttur í haga og gamansamur á mannamótum”.
Maður skalf af leiðindum yfir fréttaannálum á gamlárskvöld, bíðandi eftir Sirkus Billy Smart og skaupinu. Nú er Billy Smart löngu dauður, og öll dýrin af illri meðferð og trúðarnir úr sorg. Engar prúðbúnar þulur á skjánum með logandi jólakerti. Og fréttaannállinn það skemmtilegasta í dagskránni. Svona verður maður galinn með árunum.
Flugeldum var svo fýrað upp í kringum miðnættið; heldur var það hófsamara en nú. Ártalið í fjallinu var ómissandi. Það var brilliant framtak og mikill sjónarsviptir að því.
Eftir nýársdag hrökk mannlífið í sitt gamla horf, fólk skrapp í kaupfélagið, það var soðin ýsa og skyr og brauð á virkum dögum, lifur og gota á útmánuðum, það hríðaði, fraus og hlánaði og svo voraði og allt kom í ljós; sumarið með hafgolu og taktföstum, klingjandi skellum fánalínanna við flaggstangirnar. Og svo haustaði og skólaði og aftur nálguðust jólin…
Á aðventu í æsku - Þuríður Sigurðardóttir
Þuríðar Sigurðardóttir söngkona, hestakona, listakona og lífskúnstner skrifar aðventuminningar.
Á aðventu í æsku – I
Þegar ég fór að huga að sýningunni minni Heima og heiman í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga, sem opnaði í haust, hugsaði ég heim í Laugarnes, inn í gamla kolakynta timburhúsið, sem gat orðið ansi kalt á nóttunni ef kyndingin brást – og eitt af því sem kom upp í hugann voru frostrósir, þessar dásamlegu forgengilegu myndir sem frostið málaði á einfalt glerið í gluggum hússins, þessi lifandi málverk móður náttúru, sem áttu svo skamman líftíma þegar búið var að fýra upp í kolakyndingunni og hitastigið í húsinu hækkaði. Frostrósirnar tóku breytingum, stundum með minni hjálp, með því að anda á þær, rispa með nöglunum eða halda heitum fingri að þeim og búa til gægjugöt. Ég fylgdist með frostrósunum bráðna þar til yfir lauk og útsýnið tók yfir, glugginn varð minn sjónvarpsskjár og útsýnið ekki amalegt yfir sundin blá.
Á aðventu í æsku – II
Til þess að halda hátíð, þarf undirbúning – og ég skil ekki hvernig mamma fór að, hún sat við á kvöldin og oft fram á nótt við að sauma fötin á okkur krakkana eftir dagsverkin, sem voru ærin í litla húsinu okkar, sem virtist svo stórt þar sem það stóð uppá bæjarhólnum í Laugarnesi, elsta þekkta bæjarstæðinu í Reykjavík. Húsið var uppá tvær hæðir, gult með rauðu þaki og kolakjallara, barnafjölskyldur á hvorri hæð og við 8 manns í tæpum 50 fm. Eitt sameiginlegt klósett var með fólkinu á efri hæðinni og á veturna var þar stundum svo kalt að það var svell á gólfinu. Ég var býsna slungin við að klofa frá þröskuldinum uppá klóesettið til að setjast þar. En úff hvað setan var oft köld! En kuldinn gat verið heppilegur því allt að 15 manns, sem bjuggu í húsinu, vörðu ekki lengri tíma á klósettinu en þurfti! En aftur að undirbúningnum. Lagkökur voru bakaðar sem geymdar voru í boxum til jólanna, lokin voru límd á boxin með límbandi…en það dugði ekki alltaf til.
Á aðventu í æsku – III
Dagurinn fyrir þorláksmessu var þvottadagur í Laugarnesi. Þá var þvotturinn þveginn í Þvottalaugunum og við krakkarnir böðuð í leiðinni, því þar var ekkert þvottahús, engin þvottvél, ekkert baðherbergi og aðeins einn krani með köldu vatni við vask í eldúsinu. Í Þvottalaugunum voru raðir af útisnúrum og blessunarlega var oft fátækraþurrkur, eins og hann var kallaður en það var líka hægt að hengja upp þvottinn inni ef þurrkurinn brást, sem mér finnst að aldrei hafi gerst fyrir jólin. Þegar heim var komið var allt straujað. Og af hverju var verið að þvo þvottinn svona rétt fyrir jól? Jú, það voru ekki rúmföt til skiptanna á öll rúmin fyrir 8 manna fjölskyldu – og nóttina fyrir aðfangadag voru sængur á öllum rúmum án rúmfata, þau biðu, því á jólanótt var sofið við hrein, straujuð rúmföt, sem ilmuðu af útilofti. Og satt að segja viðhélt ég þessari hefð þar til fyrir nokkrum árum að bóndinn minn spurði, eftir áratugi í hjónabandi: Þura, af hverju eru aldrei rúmföt á sængunum á þorláksmessu?
Allt á sér skýringar, ég heyrði af konu, sem alltaf sauð jólahangikjötið í tveimur pottum og þegar hún var spurð af hverju – hugsaði hún sig sig um og sagði: Það er bara betra, þannig sauð mamma það og amma. En af hverju ætli það hafi verið? Jú, væntanlega af því það var ekki til nógu stór pottur fyrir heilt læri!
Myndin er af málverki sem ég málaði af þvottabalanum hennar mömmu og var hluti af útskriftarverkinu mínu í LHÍ.
Á aðventu í æsku – IV
Og þá er komið að fyrstu kynnum mínum af jólasveininum. Það var á aðfangadag, rétt áður en hátíðin gekk í garð, mamma stóð við eldavélina, ég var á þriðja ári, komin í jólakjólinn, með slöngulokka, stóra slaufu í hárinu og í glænýjum lakkskóm, sem ég var mjög stolt af. Bræður mínir höfðu farið að sækja jólaísinn á Bjarmaland, sem var næsti bær, því enginn var kæliskápurinn í Laugarnesi. Þá var bankað á hurðina, sem enginn átti von á á aðfangadag og á nýju lakkskónum, sem voru með hörðum sóla náði ég að teygja mig upp í hurðarhúninn, með því að standa á tám. Hreykin í bragði opnaði ég hurðina og fyrir utan stóð þetta ferlíki, rauðklætt með gæru fyrir andlitinu og æpti Hó, hó hó! Ég man ennþá tilfinninguna þegar mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds og hárið/slöngulokkarnir risu á höfðinu á mér. Ég held að ég hafi aldrei orðið eins hrædd á ævinni!
Jólasveinninn hafði farið húsavillt með bókagjöf frá verslun, sem ætluð var allt öðrum en okkur. Það tók mig mörg ár að sættast við jólaveininn – en ég þáði gott í skóinn og þótti bara fínt að hann færi hljóðlega um á nóttunni – og þá eins og nú ef ég er smeyk hjálpar bænin alltaf.
Ljósmyndin er af pabba Sigurði Ólafssyni með okkur börnin sín, sem þá voru fædd, hjá Ólafi afa í Akurgerði. Ég er í kraftaverkaskónum með harða sólanum
Á aðventu í æsku – V
Þorláksmessa var undirlögð við undirbúning jólanna og við krakkarnir send út að leika, því það var hreinlega ekkert pláss fyrir okkur inni. Barnamenning þess tíma var í boði barnanna sjálfra, hugmyndaflugið óþrjótandi og leikirnir óteljandi – enda ekkert sjónvarp, engar tölvur og aðeins einn sími, svarti hlunkurinn munið þið – og hann var fyrir fullorðna.
Ef við teiknum upp íbúðina okkar í Laugarnesi var þar gangur/forstofa innaf útihurðinni, á vinstri hönd var stigi uppá efri hæðinna, undir stiganum var smá geymsla og þar voru jólaeplin geymd, þá klósettið, forstofuherbergi á hægri hönd, sem leigt var út framan af, og eldhúshurðin okkar fyrir enda gangsins, alltaf ólæst. Innaf eldhúsinu var stofa og þá eitt svefnherbergi og þar svaf öll fjölskyldan. Á daginn var búið um á einu rúmi, svo hægt væri að setjast á hin. Á þorláksmessu voru gólfin skúruð og stífbónuð, húsið var skreytt með loftskrauti, sem fest var með teiknibólum – munið þið borðana, kúlurnar og pappísrsbjöllurnar, sem héngu í loftunum og lagt var saman á milli hátíða?
Grenigreinum var komið fyrir á bak við málverk og myndir, pabbi verkaði rjúpurnar og sá um útihúsin, fjárhús og hesthús og skreytti með greinum. Og kannski ekki furða að ég misskildi aðeins niðurlagið í faðirvorinu, bað heitt og innilega, með spenntar greipar. “…því að þitt er ríkið, mátturinn – og DÝRIN.“ Ég bað fyrir öllu og öllum og m.a. börnunum í Konsó, því þau voru fátæk. En ég skildi reyndar aldrei hvernig það átti að hjálpa börnunum í Konsó að ég borðaði matinn minn – en það er önnur saga.
Myndin er af Laugarnesbænum sem jafnaður var við jörðu af eigendunum, Reykjavíkurborg, árið 1987. Þriðji glugginn frá vinstri á neðri hæð er af svefnherberginu þar sem ég fæddist. Viðbyggingin á hægri hönd tilheyrði okkur ekki en þar við hliðina var hlaða og fjós.
Á aðventu í æsku – IV. Þorláksmessa og aðfangadagur.
Um kvöldið á þorláksmessu var jólatréð skreytt og þegar við krakkarnir fórum að sofa, með sængurnar án sængurfata, eins og fram hefur komið í fyrri frásögn, fóru jólagjafirnar undir tréð.
Ég man ilminn af grenitrénu þegar ég vaknaði á aðfangadagsmorgunn og síðan ilminn af nýbökuðum hveitikökum, sem mamma bakaði til að hafa með hangikjötinu á jóladag. Innpakkaðar gjafirnar, sem komnar voru undir jólatréð glöddu augun og vöktu tilhlökkun. Og við krakkarnir hlökkuðum líka til að sjá ljósin kveikt á jólatrénu rétt fyrir kl 6 á aðfangadag og þá var búið að koma fyrir sælgæti í skálum brjóstsykri; kónga, peru og súkkulaðifylltum.
Ein minningin hefst á þögn, þessari hátíðlegu þögn, þegar útvarpið hljóðnaði, þögnin, sem síðan var rofin með kirkjuklukkum Dómkirkjunnar kl 6 á aðfangadagskvöld og við tók hátíðlegur aftansöngur. Öll fjölskyldan prúðbúin, ilmur af jólum fyllti húsið, sem var hlýtt og notalegt og við óskuðum hvort öðru gleðilegra jóla, með kossi á kinn. Jólamessan hljómaði á meðan við borðuðum og eftir uppvask og jólakortalestur, sem allir hlustuði á, var komið að stóru stundinni að taka upp gjafirnar.
Jólagjafirnar á æskuheimilinu voru oftast bók og eitthvað sem okkur vanhagaði um. Mér er sérstaklega minnisstæð jólagjöf frá bróður mínum Erling sem þá var 14 ára og farinn að vinna fulla vinnu hjá BP, ég var sjö ára og pakkinn harður og mun stærri en ég átti að venjast. Þegar ég tók jólapappírinn utan af pakkanum, ofurvarlega, því svona stór örk var notuð aftur, kom í ljós ljósgrænn kassi með loki og þegar ég lyfti því upp blasti við mér brúða, sú fyrsta sem ég man eftir að hafa eignast. Þarna lá hún með lokuð augun í blúnduskreyttum satínkjól, með hvíta skó á fótunum, brúnt liðað hár og brún gljándi augu, sem opnuðust þegar ég tók hana upp úr kassanum. Ég man að ég táraðist.
Mynd 1 er málverk af ljósmynd, sem ég tók af brúðunni minni og var hluti af röðinni Ágrip, útskriftarverki mínu frá LHÍ.
Mynd 2 er af okkur yngri systkinunum með mömmu og pabba í stofunni heima í Laugarnesi á jólum. Svefnherbergið er innaf.
Að sofna á jólanótt við ilminn af sæng, sem hefur verið viðruð úti og hreinum, straujuðum sængurfötum er ein af þessum minningum sem standa uppúr. Stundum náðist að glugga aðeins í jólabók áður en lagst var til svefns en þegar við börnin vorum komin í ró voru ljósin slökkt, enda öll í sama herbergi framan af og frekari lestur beið til morguns. Mamma vakti okkur á jóladagsmorgunn með því að færa okkur í rúmið heitt súkkuði með þeyttum rjóma, smákökur og lagkökur. Sum sofnuðu aftur á eftir en önnur fóru að lesa.
Það er gott að eiga góða minningar og ég hef tilhneygingu til að halda í hefðir – og ein af þeim er að vakna á jóladagsmorgunn á undan fjölskyldunni og færa þeim í rúmið, súkkulaði og smákökur ein og mamma gerði og mamma hennar og mér þykir vænt um þessa hefð. Og mér þykir líka vænt um jólakort, sendi alltaf nokkra tugi til þeirra sem ég næ ekki að óska gleðilegra jóla öðruvísi. Við lesum jólakortin saman á aðfangadagskvöld – og stundum við hjónin í ró og næði á þorláksmessu, ef við eigum von á mörgum á aðfangadagskvöld. Það má nefnilega aðlaga hefðirnar að breyttum aðstæðum – ekki satt? Það sem mestu skiptir er að lifa í sátt.
Guð blessi minningu mæðra okkar, formæðra og allra þeirra sem veitt hafa okkur vellíðan og skapað góðar minningar.
Ég þakka ykkur sem hafið lesið þessar hugrenningar mínar, öll fallegu ummælin og ykkar sögur.
Bernskujól - Gestur Guðmundsson
Úr jólablaði Norðurslóðar 2001. Birt með leyfi blaðsins.
Aðfangadagskvöld í Gullbringu 1940. Málverk eftir Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Gullbringu. Af forsíðu jólablaðs 2001.
Sunnanátt og hlýindi síðustu dagana í nóvember eftir heldur kalt og umhleypingasamt haust.
Gullbringukrakkarnir voru orðin heldur leið hvert á öðru í þrengslunum og hávaðanum sem fylgdi því jafnan þegar veður hamlaði útiveru, enda var þetta stór hópur; þrettán er upp komust. Hlý sunnangola fyllti þau fögnuði og frelsi eins og kýr sem hleypt er út að vori eftir langan vetur. Útihurðin var rifin upp og skarinn streymdi út og dreifðist. Flest fóru til fjalls, gjarnan uppí bæjargilið þar sem volgrurnar var að finna og músarrindillinn tísti og lék við hvern sinn fingur. Þaðan var haldið út í Hraun, tyllt sér á steina og gómagöngin þanin til að láta Hraunið taka undir og bergmála, því það var svo gaman. Þegar fór að birta og við sáum að rjúka tók á bæjunum var haldið heim. Við vorum „nefnilega“ (eins og Gestur í Bakkagerði notaði svo gjarnan) sárasjaldan háð klukkunni, en þeim mun oftar veðrinu.
Álgöt – eitt af undrum veraldar?
Þegar jólafastan hófst var eins og andrúmsloftið í bænum yrði að heita má rafmagnað, því svo margt þurfti að gera. Allir voru fyrir öllum. „Greyin mín getið þið ekki verið úti að leika ykkur? Þið tefjið bara fyrir, því eg þarf að gera svo margt,“ sagði mamma.
Þreytan og kvíðinn leyndu sér ekki. Við Ragnar, sem var tveimur árum yngri en ég, létum okkur hverfa. Við röltum þögulir með skautana okkar niður á Tjarnartjörn og hugsaði hvor sitt. Eftir þrúgandi þögn meðan við bundum á okkur skautana réttir Ragnar úr sér og segir: „Mér finnst engin jól vera að koma þegar mamma er svona þreytt.“ Eg ætlaði að svara einhverju en datt þá á hausinn, því eg hafði rekið annan skautann ofan í holu í svellinu. „Hvers konar hola er nú þetta?“ spurði Ragnar og áhyggjurnar gleymdust snarlega. „Þetta er álgat,“ segi eg og er nú búinn að ná velsæld minni á ný. „Anda álarnir í gegnum þessi göt?“ spyr Ragnar. „Hálfviti ertu,“ segi eg drýgindalega, „þeir anda með tálknum.“ Nú upphófust miklar bollaleggingar um þau undur sem okkur fannst þetta vera, en engin niðurstaða fékkst. „Skyldu þeir á Tjörn vita hvernig þessi göt verða til?“ segir Ragnar. – Þegar heim í Tjörn kemur hittum við fyrir Tóta, sem oftar en ekki hafði hafði leyst vel úr ýmsu sem okkur lá á hjarta. „Þetta eru bara álgöt,“ segir hann og ekki meir um það. Á meðan við drukkum mjólkina og borðuðum brauðið sem Tóti bauð okkur var eg að hugsa um hvað það væri undarlegt með þá Tjörnunga að vita ekkert um þau undur sem væru svo að segja í túnfætinum hjá þeim, en eiga það svo til að liggja úti í varpa á stjörnubjörtum haustkvöldum með hendur undir hnakka, starandi upp í stjörnur og norðurljós, þyljandi nöfn stjarna og stjörnumerkja og veita okkur, þessum bláeygu, margvíslegan fróðleik um gang himintungla, en vita svo ekki af hverju álgöt stöfuðu.
Aðföng
Eitt var það í jólaundirbúningi heima hjá okkur, sem eg held að hafi ekki verið hjá öðrum í sveitinni, en það var einijólatréð sem við gerðum fyrir hver jól. Til þess að af því gæti orðið þurfti að fara hátt upp í fjallshlíðina til að sækja eininn og þótti ekki tiltökumál. Þetta verk kom oftar en ekki í hlut okkar Ragnars. Þessir leiðangrar gátu orðið hinar mestu háskaferðir því stundum var fjallshlíðin þar sem einirinn óx svo að segja ein svellglæra. Að heiman bjuggumst við ýmsum búnaði, svo sem beittum hníf, sög, skóflu og ekki mátti gleyma kaðli og snærum, því oft þurftum við að fara í vað yfir hörðustu hjarnbreiðurnar meðan við hjuggum spor í snarbrattan frerann. Sem betur fór urðu aldrei nein óhöpp, þótt stundum stæði tæpt.
Svo þegar við komum niður úr mesta brattanum slaknaði á spennunni hjá okkur og við fórum að tala um ýmislegt sem varðaði jólahaldið heima hjá okkur og öðrum sem við þóttumst þekkja til í sveitinni. Alls kyns samanburður við önnur heimili kom þá oftar en ekki upp á yfirborðið hjá okkur, þar sem þetta og hitt hlyti bara að vera miklu skemmtilegra hjá okkur en öðrum. Hverjir höfðu t.d. einijólatré og hverjir höfðu Sundskálann til að baða sig í, aðrir en við? Í framhaldi af því segi eg Ragnari í trúnaði frá því að sumt fólk þurfi að þvo sér um skrokkinn upp úr þvottabala við hin aumustu skilyrði. Eg tek nú upp á því að hlæja þarna á göngunni eins og auli. „Að hverju ertu að hlæja?“ spyr Ragnar með undrunartón. Eg dreg við mig svarið meðan eg er að ákveða hvort eg eigi að segja honum frá því sem mér datt í hug. „Nú hvað var það?“ spyr Ragnar aftur og má nú merkja mikla óþolinmæði í röddinni. Þá get eg ekki þagað lengur en segi honum frá því að eg hafi komið á bæ fyrir nokkru, þar sem konan var að baða manninn upp úr þvottabala. „Nú, hvað – er eitthvað svo merkilegt við það?“ spyr Ragnar. „Já, því hann var svo snjóhvítur á skrokkinn en hendurnar svo dökkbrúnar og útiteknar eins og þær væru bæsaðar!“ Þannig mösuðum við áfram á heimleiðinni, alteknir gleði yfir vel heppnaðri einiferð.
Hvaðan koma jólin?
Þegar aðfangadagur rann svo upp átti undirbúningi jólahaldsins að vera að mestu lokið, en það var auðvitað aldrei svo að eitthvað væri ekki eftir. Fátækraþerririnn hafði ekki brugðist að þessu sinni og hangiðkjötssuðan frá gærdeginum fyllti bæinn unaðsangan. Jólatréð stóð tilbúið og skreytt frammi í stofu, stutt og digurt með allskyns poka og böggla utaná sér eins og Stutta Stína þegar sem mest var um fyrir henni á bæjarflandrinu. Systurnar höfðu það sem sérverkefni að skreyta tréð og fórst það alla jafnan vel úr hendi, enda fengu þær algjörlega að ráða skreytingunni. Allt skraut bjuggu þær til sjálfar og fengu jafnan mikið lof fyrir. Að vísu var samanburður ekki mjög mikill og kröfugerð eftir því. Eg minnist þess að stundum þóttu yngstu systurnar ekki flýta fyrir skreytingalistinni og komið gat þá fyrir að stuggað var við þeim, svona helst til mikið, í því algleymi gleðinnar sem athöfninni fylgdi. Það gat tekið ansi mikið á ungu hjörtun að vera hafnað á slíkum augnablikum, enda kom það ósjaldan fyrir að harmi sollin augu Snjóku litlu leituðu ásjár hjá mömmu, sem hafði þrátt fyrir ómælt annríki alltaf tíma aflögu fyrir volandi smáfólk.
Nú var farið að líða á aðfangadaginn og spennan jókst með hverri mínútunni sem leið. – Hvaðan og hvernig skyldu jólin koma? Hvernig verður heilagt? Slíkar vangaveltur þyrluðust um barnssálina án þess að nokkur svör fengjust. Eg neyddist til að koma mér upp kerfi í huganum þar sem eg einfaldaði komu jólanna með því að segja við sjálfan mig þegar mér fannst rétta stundin runnin upp: – Nú setjast þau á Digrahnjúkinn, hoppa þaðan niður á Efri-bunkann og svo á þann Neðri, síðan stall af stalli alveg niður að túngirðingu og þá er orðið heilagt, biðin á enda og jólin komin.
Göngum við í kringum
Það þótti sjálfsagt að borða klukkan sex til að lengja kvöldið sem mest. Allir höfðu þá klætt sig sem best þeir máttu og nutu matarins í hljóðlátri gleði miðað við allan Gullbringuhávaðann sem maður var óneitanlega vanari. Svarta Hiltlersskeggið á pabba fór hið besta við hvíta skyrtuna og manni fannst hann allt að því framandlegur með stóra vindilinn, sem hann treindi sér þó að kveikja í þar til eftir matinn. Kálfssteikin á aðfangadagskvöld var reyndar ekki mjög vinsæl af öllum, en svo kom blessuð sætsúpan. Þá þóttu rjúpur hvunndagsmatur og því ekki spennandi. Á jóladag og annan í jólum var venjulega hangikjöt en á þriðja borðuðu þeir sem vildu signa ýsu. Smjöttuðu þeir þá gjarnan og umluðu eitthvað í þá áttina hvað það væri nú gott að fá fisk eftir allt ketátið. Við hin, þessi sem vorum á miðjum aldri, þ.e.svona sex til tólf ára, fórum líkt að og beljurnar í fjósinu þegar þeim var gefið það sem þær vildu ekki, en þá hnusuðu þær gjarnan út í loftið með heimspekilegri ró eins og þær væru að segja: „Þetta er ekki einu sinni mannamatur, hvað þá fyrir okkur!“
Það kom ósjaldan fyrir að Haraldur, elsti bróðirinn, birtist í eldhúsdyrunum þegar við vorum byrjuð að borða á aðfangadagskvöld, en hann var þá við rafvirkjastörf á Akureyri. Ekki minnkaði gleðin í bænum við komu hans, því bæði var að okkur fannst hann afar skemmtilegur og svo ekki síður hitt, að hann gaf okkur oftast einhverjar jólagjafir, svo framarlega sem hann hafði nokkur tök á. Eftir að við höfðum borðað var kveikt á jólatrénu sem nú stóð eins og óþreyjufullt og beið í fremri baðstofunni eftir því að við tækjumst í hendur, gengjum í kringum það og hæfum jólasönginn. Samkennd og mikil helgi gagntók okkur nú þarna við tréð. Söngurinn ómaði og fyllti baðstofuna, hver sálmurinn eftir annan var sunginn og í hjarta mínu þakkaði eg Þórarni á Tjörn fyrir hvað hann hafði kennt okkur marga sálma á liðnum vetrum, þó fleiri hafi vissulega komið þar að. Ég man enn töfrana frá flökti kertaljósanna, sem mynduðu ólýsanlegar hreyfimyndir á baðstofuþiljunum með skuggunum af okkur þegar við gengum í kringum tréð.
Er söngurinn hljóðnaði var loksins farið að kíkja á jólagjafirnar, ef um aðrar var að ræða en einhvers konar föt sem maður hafði vísast þá þegar klæðst. Yfirleitt var töluvert um bækur og smá leikföng og gátu nú flestir snúið sér að eigin hugðarefnum. – Þegar kertin voru langt komin að brenna upp birtist mamma í baðstofudyrunum, oftast með eitthvert góðgæti. Hvílíkt stolt og hvílík gleði skein úr ásjónu hennar þegar hún leit yfir hópinn sinn – því gleymi ég aldrei. Hún hafði þá eftir allt saman greinilega hlotið einhverja smá umbun alls erfiðis síns.
Jólamessa í Tjarnarkirkju
Á jóladaginn var svo oftast farið í Tjarnarkirkju, þar sem séra Stefán Snævarr predikaði. Mér fannst það fremur fallegur prestur sem talaði með miklum helgiblæ, en heldur leiðigjarnt að hann skyldi alltaf segja okkur sömu söguna, sem maður lærði auðvitað strax og byrjaði svona: – Það bar við um þessar mundir_ Mér varð starsýnt, eins og sjálfsagt fleirum, á skemmtilegan ávana sem hann hafði tileinkað sér og fólst í því að meðan hann flutti ræður sínar, sem mér fannst hann gera með slíkum hátíða- og glæsibrag að betur yrði ekki gert, þá ruggaði hann sér aftur á hæl og upp á tábergið þannig, að þegar hann lyftist lokuðust augun en þegar hann seig niður aftur héldust augnalokin uppi svo augun opnuðust, alveg í takt við hreyfinguna. Seinna lagði hann að mestu af þennan skemmtilega vana, því miður, verð eg að segja.
Söngurinn í kirkjunni er mér mjög minnisstæður, þar sem Þórarinn á Tjörn og Daníel í Syðra-Garðshorni drundu svo þýtt og fallega að rúðurnar glumruðu á ryðguðum nöglum í gisnum gluggafögunum. Auðvitað kostuðu þessir miklu og djúpu tónar sitt, því þrengslin á söngloftinu voru slík að þegar þeir bjuggu sig undir erfiða frasa drógu þeir svo djúpt andann, að þeir sem framan við þá stóðu þrýstust fram á orgelið svo það bifaðist í takt við loftþörf bassanna. Svona minnir mig a.m.k. að þetta hafi verið. Tryggvi í Brekkukoti tónaði tenorinn tært og mjótt en Diddurnar, Mæjurnar og Nöbburnar sáu um háu og ljúfu tónana. Af kvenröddum var jafnan mikið úrval og kom það sér vel, því konur stóðu yfirleitt mun styttra við í kórnum en karlarnir.
Svo þegar komið var heim úr kirkjunni var þess ekki langt að bíða að súkkulaðið og kökurnar færu að renna niður þurfandi hálsa. Og meðan við drukkum og borðuðum dvínuðu einhvers staðar innra með manni síðustu ómarnir frá kirkjusöngnum. Þeir hafa þó ekki enn náð að deyja alveg út. Þetta voru mín fyrstu kynni af kórsöng og tel eg mig mikinn heppnismann að eiga minningar frá þessum tíma um þetta ágæta söngfólk sem bjó mig út í lífið með þessar minningar.
Jólaminningar frá Völlum - Gunnlaugur V Snævarr
Jólin byrjuðu alltaf á sama stað.Ekki þar fyrir að fólk tæki ekki eftir einhverri breytingu á mannlífinu þegar jólin nálguðust. Lífið hafði gjarnan verið tilbreytingarlítið frá sláturtíð. Daginn stytti meir og meir, myrkrið óx og fótatak gamla fólksins varð enn hægara en fyrr.
Í svartasta myrkrinu og mesta kuldanum þegar snjóaði enn á norðurherbergið greip óskiljanlegt þrifnaðaræði allt í einu um sig. Dregnir voru fram penslar. Strokið var af skápum og marglitur pappír límdur á hillur og jafnvel kolastían var sópuð. Ýmislegt var málað og annað þrifið hegðun okkar systkinanna var sett undir enn strangara mæliker. Því var janfnvel gaukað að okkur að jólin kæmu alls ekki ef við létum svona eins og við áttum að láta. Þau myndi fara ofan garð ef ekki yrði breyting á. Þrátt fyrir allt þetta tengdist koma sjálfra jólanna þessu alls ekki, frekar en margt annað óskiljanlegt brambolt eldri kynslóðanna á heimilinu.
Jólin komu aldrei fyrr en eftir messuna á aðfangadagskvöld.Þótt hún væri ungum manni löng og guðfræðin torskilin minnist ég þess aldrei að mér leiddist sú messa eins og margar aðrar. Tvennt var það sem gerði þessa messu frábrugna öðrum. Í fyrsta lagi það sem beið inni svo auðveldara var að þreyja þorrann og góuna. Hitt var það að söngurinn var alltaf svo sérstakur. Réði þar mestu um að þá komu fleiri raddmenn en venjulega og minnist ég sérstaklega Þórarins á Tjörn og Daníels í Garðshorni . Aðra mat ég léttvægari þótt vafalaust hafi þeir átt sinn þátt í að gera sönginn og messuna af því ævintýri sem hún var mér barnungum. Söngurinn fékk allt annan blæ þegar þessir höfðingjar voru mættir Það er þó ekki hægt að sleppa því að minnast á Imbu á Jarðbrú . Hún gat breytt ótrúlega miklu . Hún breytti jafnmiklu fyrir kórsönginn í Svarfaðardal og Jói Dan og Helgi Indriða fyrir Karlakór Dalvíkur. Ég minnist margra sálmalaga sem sungin voru á jólum sem misstu allan ljóma voru þau sungin á öðrum tímum af því að þá var skarð fyrir skildi. Sérstaklega er mér minnisstæður sálmurinn Í dag er glatt í döprum hjörtum,sem mig minnir að hafi verið sunginn á jóladag og svo kirkjan ómar öll. Þar nutu þessir frábæru bassar sín. Þeir ásamt Helga frá Þverá, eru mér eftirmnnilegastir sveitunga minna frá bernsku minni á Völlum . Mér er til efs að ég hafi borið aðra eins virðingu fyrir nokkrum eins og Þórarni án þess að þekkja hann nokkurn skapaðan hlut eða vita af hverju ég bar svona mikla virðingu fyrir honum. Auðvitað hafði ég Tjörn fyrir augunum á hverjum degi og nafn Þórarins var oft nefnt, en fasi hans og framkomu hef ég aldrei gleymt. Helgi hafði ákveðið virðingarsæti í mínum huga sem tengdist skólanum en bassin hans Daníels og hollingin á honum hverfur mér ekki úr minni.
Jólamessan var ævintýri, tónlistin var svo sérstök. Einstaka tóna og einstakar raddir man ég betur an margt af því sem ég þurfti að muna. Mér er ekki grunlaust um að í Svarfaðardal hafi verið betur sungið en víðast annarstaðar á landinu á þessum tíma. Sinn stóra þátt í því átti Óli á Hvarfi sem þjónaði kirkjunni nánast allan þann tíma er ég átti heima á Völlum og reyndar lengur.Mér er það óskiljanlegt hvernig hann áorkaði því sem hann og jafnvel og hann leysti það af hendi. Erfiðisvinnumaður, oft hrjáður af gigt, og lék á orgelið í misheitri eða kaldri kirkjunni. Stundum náðist upp bærilegur hiti meðan að messan stóð yfir en í annan tíma stóð orgelið í óupphitaðri kirkjunni. Oft var reynt að koma tauti við það með því að láta rafnagnsofn blása á það í nokkra klukkutíma svo mætti ná mætti sæmilega kristilegum hljóðum úr því.
Jólamessan var líka ævintýri á annan hátt. Þar sem guðfræðin þvældist þá enn minna fyrir mér þafði ég góðan tíma til rannsókna. Niðurstöður þessara rannsókna verða aldrei birtar í miðlægum gagnagrunni en mörg rannsóknarefnin fann ég og ýmsar samanburðarkannanir voru gerðar . Þannig komst ég til dæmis að þeirri niðustöðu að Brautarhólsættin opnaði mest munninn af öllum þegar hún söng. Að sjálfsögðu skildi ég það síðar að það er nánast skilyrði við söng að opna munninn, eigi eitthvað að heyrast. Ég komst að þeirri niðustöðu að meiri líkur væu á því en hitt að Hjörtur á Tjörn sofnaði einhvern tímann í messunni og u.þ.b 30% líkur væru á því að Bjössi á Ölduhrygg myndi tóna með föður mínum einhvern hluta af hátíðartóninu. Hann sat hinsvegar svo aftarlega í kirkjunni að ég átti erfitt með að fá næði til þeirra rannsókna . Aldrei heyrði ég föður minn finna að ef einhver dottaði í messu , hann vissi að vinnan var hörð og ylurinn í kirkjunni slakaði á spenntum og lúnum vöðvum. Mér er fremur nær að halda að honum hafi þótt vænt um það. Eftir að rannsóknir höfðu átt sér stað í jólamessunni og henni lauk, hófust jólin loks endanlega. Þau voru komin þegar gengið var úr kirkjunni. Þá skyndilega var margt breytt. Ég er ekki frá því að göngulag fólk hafi breyst. Það gekk hægar, minna lá á þótt allir vildu auðvitað komast sem fyrst til sín heima og við lá að ég sjálfur gæti, a.m.k stundum talist þokkalega prúður og stilltur eftir að hafa heyrt af jesúbarninu sem fæddist í jötu. Þó hann væri svo umræddur , og vitringarnir færðu honum gjafir jól eftir jól minnist ég þess ekki að ég hafi nokkurn tíma öfundað hann. Til þess þekkti ég fjárhúsjötuna of vel.
Ljóst var að annríki undanfarinna daga var að baki og kærkomin hvíld var framundan að vera bóndi þýddi ekki frí en allt fimbulfambið , baksturinn,hreingerningin og málningin var að baki þótt úti í húsum biðu skepnur sem þurfti að sinna og gerðu enga undantekningu Þótt það væru jól. Nú skyldi þess notið í nokkra jóladaga sem sáð hafði verið til á jólaföstu.
Ég minnist þess að jólin voru að nokkru leyti, formföst á Völlum. Auðvitað snerust þau meira og minna í kringum starf föður míns sem prests og bónda.Hann messaði í öllum kirkjunum ef fært var, og hann var aldrei í rónni fyrr en því var lokið. Fyrir kom nokkrum sinnum að hann þurfti að messa á 10 kirkjum þessa daga. Mér er það ljóst að hann taldi sig ekki hafa gegnt skyldu sinni fyrr en allar messur væru sungnar . Ég tel að honum hafi beinlínis liðið illa þar til að ljóst væri að honum tækist að messa á öllum kirkjunum. Á sama tíma þurfti hann að sinna fé, mjólka kýr og gera annað það er laut að starfi bóndans. Snjórinn gerði honum sem öðrum oft erfitt fyrir og gramt í geði.
Í endurminningunni finnst mér að allt hafi verið á kafi í snjó frá október og fram í maí og þótt vissulega hafi verið gaman á skíðum eða skautum, þá áttum við ekki skap saman ég og veturinn frekar en í dag.undirbúningur jólanna var einnig svipaður frá ári til árs . Ekki minnist ég þess að mér þætti hann skemmtilegur utan sá dagur sem notaður var í laufabrauðsgerðina.Þá komu séra Pétur og frú Sólveig , prestshjón á Akureyri og síðar biskupshjón með börn sín og gerðu laufabrauðið með okkur .Ég varð snemma mjög afkastamikill skurðarmaður og skar að jafnaði á annað hundrað í hvert sinn . Ég held að það hafi verið um það bil fjórðungur þess sem skorið var. Um listrænt gildi skurðarins læt ég ósagt en einhvern veginn þóttu mínar kökur þó lystugri en kökur annara . Þessi dagur var alltaf skemmtilegur. Ég tel mig fara rétt með að fjölskyldurnar hafi aðeins misst niður laufabrauðsskurð fyrir ein jól frá árinu 1954 til dagsins í dag. Kökunum hefur að vísu fækkað en ég held mig samt alltaf nálægt hundraðinu og enn bragðast mínar kökur betur en annarra. Það skilja þeir einir sem sjá.
Jólaboð
Annað sem setti svip á jólin, voru jólaboðin. Við fórum ævinlega út í Sökku og suður í Hof. Þessar heimsóknir voru síðan endurgoldnar . Fyrir utan óhóf í mat og drykk voru þessar heimsóknir eftirminnilegar. Mikið var spilað og helst bridge og stundum brús með tilheyrandi gauragangi. Það var toppurinn á tilverunni. Að sjálfsögðu hafði ég ekkert vit á spilamennskunni en það gerði ekkert til. Þarna nutum við samvista við eldra fólkið sem hafði nú meiri tíma til að sinna okkur og veita meiri athygli en í dagsins önn.Mikill samgangur var milli þessara bæja og mikil vinátta . Ég minnist þess ekki að farið væri í slík heimboð á fleiri bæi. Hitt var algengara að fólk kæmi inn eftir messuna á gamlárskvöld og sæti yfir góðgerðum fram á nótt. Þá fengum við að vaka þar til fæturnir báru ekki búkinn lengur, uns örendið þraut eins og algengt er víða á nýársnótt en e.t.v af annari ástæðu. Ekki verður svo skilist við þetta stutta minningarbrot, frá jólum að ekki sé minnst á heimilisfólkið sem náði yfir þrjár kynslóðir. Auðvitað var það ekki síst það sem gerði allan þennan skemmtilega jólasvip. Stefanía, amma mín, var afskaplega róleg og yfirveguð kona og uppfyllti allar kröfur sem gerðar eru til ömmuhlutverksins. Hæg og róleg sinnti hún sínum störfum og veitti okkur það skjól sem ömmur jafnan gera. Árnína systir hennar , var í sama mótið steypt, rólegheitin einkenndu hana ásamt sífelldum fyrirbænum og guðsorðalestri. Held ég að henni hafi ekki veitt af eftir að ég komst á legg. Þær ávörpuðu hvor aðra systir mín. Ég heyrði þær aldrei nefna hvor aðra með nafni. Valdimar afi var nokkuð annarar gerðar, Hann sat jafnan og skrifaði þegar hann var heima en mikil útþrá var ævinlega í honum. Hann þurfti að atast í ýmsu þó æskulýðs og barnastarf væri hans aðaláhugamál, a.m.k á síðari árum. Hann var ákafamaður með mikið skap sem hann kunni þó að stilla en hann var aldrei sami félagi okkar og þær systur.
Efir að ég fór að vinna að útgáfu ljóða afa , upp úr áramótum 1982, og fara gegnum ýmis gögn frá honum varð mér fyrst ljóst hvílíkur afkastamaður hann hafði verið.Hann var m.a í bréfasambandi við marga þekkta rithöfunda og þekkt skáld í Evrópu. Þeir sendu honum bækur og ljóð. Sum þessara ljóða þýddi hann síðar og eru þau sum sunginn enn í dag. Ég hef undir höndum rúmlega 700 ljóð og sálma sem hann hefur annaðhvort þýtt eða frumsamið. Þá hef ég ekki minnst á að á fyrri árum skrifaði hann ýmsar kennslu bækur, m.a í eðlisfræði. Þetta lét hann sig hafa þrátt fyrir að hann lyki aðeins tveggja vetra námi frá Möðruvallaskóla, Sums staðar hefur hann sett þanka sína á blað og kemur þar fram að saknaði þess að hafa ekki meiri menntun, “vita ekki meira, lélegur! Lítill karl.” Þetta skrifaði hann á eitt blað eftir harða glímu við að fella tilfinningar sínar í fjötra bragfræðinnar. Ég er þess fullviss að hverju ungu barni er mikill akkur í því að eiga þriðju kynslóðina á heimilinu. Fyrir utan það að taka ýmiskonar ómak af miðkynslóðinni veitti hún yngstu kynslóðinni ómetanlegan hluta af lífsreynslu og hyggni og veitti henni öryggi ásamt gleði. Að sjálfsögðu voru foreldrar mínir þeir aðilar sem bjuggu mest til jólin, a.m.k hin ytri. Á þeim hvíldi amstrið og stússið að mestu leyti. Faðir minn erfði rólegheit og yfirvegun móður sinnar, þó hann hafi verið launhrekkjóttur og ágætur húmoristi. Mér var oft kennt um ýmis skammarstrik sem hann átti svikalaust og blekkti hann m.a móður mína oftsinnis og hélt því fram að ég hefði hlotið galgopaskapinn úr föðurætt hennar, Á síðustu árum létti hann stundum á samvisku sinni og viðurkenndi hrekkjarbrögð sem voru sett á mitt þéttskrifaða syndaregistur. Rósa amma mín á Sökku var ekki síður góð, róleg og grandvör kona en Stefanía amma . Einu sinni lét hún svo ummælt, þegar um einhver prakkarastrik mín var rætt, að ekki væri von á góðu þegar drengurinn ætti þennan afa og átti þá við Gunnlaug afa minn, og bætti svo við og þennan föður . Hún hafði komið auga á að hann átti sitthvað til. Gunnlaugur afi var mikill verkmaður, vel að sér og fróður. Kunni ógrynnin öll af vísum, þótt ekki verði þær allar fluttar við messu. Hann var einnig góður hagyrðingur og kastaði fram lausavísum en sálmakveðskap sinnti hann ekki eins og Valdimar afi. Sennilega er hann mér minnisstæðastur fyrir sagnaþáttinn. Hann sagði vel frá, ýkti hæfilega og stundum dálítið djarflega til að krydda annars daufa frásögn og var óþreytandi að koma auga á hið spaugilega í tilverunni. Honum tókst að gera mikið úr litlu á margan hátt. Þetta fólk sem ég hef rætt um hér í undanfarandi línum setti rammann utan um jólamyndina sem ég geymi enn í kollinum. Þar mætti að vísu telja marga fleiri en e.t.v verður það gert síðar.
Gunnlaugur V Snævarr
Heimildir Jólablað Norðurslóðar 1998 – Birt með leyfi Norðurslóðar.
Fjögur sett af öfum og ömmum - Gunnhildur Gylfadóttir
Já, blessuð jólin!
Eins og ég þoli ekki þegar við Íslendingar gleypum við öllum bandarískum siðum eins og hrekkjavöku, svörtum föstudegi og valentínusardegi, þá kokgleypti ég amerísku jólin fyrir mörgum árum. Já, já. Ég veit. Ég dauðskammast mín. Og reyni að predika minna! En ég er algjört jólabarn og hef alltaf verið. Mér þykir kjánalega vænt um allt jólaskrautið mitt. Sér í lagi það sem ég veit að hefur verið gert af sérstakri alúð. Heimagerð jólakort hengi ég upp í alla glugga um hver jól og dáist að dugnaði og hugmyndaflugi þeirra sem þau gera. En rautt og grænt og hvítt og gyllt skal það vera!! Ég hreinlega ofhleð stofuna af skrauti og nýt þess svo að sitja með kertaljós um allt og horfa á dýrðina. Sem verður oft til þess að maður hverfur á vit ljúfra jólaminninga. Í mínum huga eru ömmur og afar nátengd jólum. Þeim fylgja allskonar hefðir og sögur frá gömlum dögum sem oft eru rifjaðar upp árlega. Og ég er heppin. Ég er heppin að afi minn og amma skildu og náðu sér bæði í annan maka. Ég er líka heppin að vera lausaleikskrói og eiga í kaupbæti tvo pabba. Þeim fylgja tvö sett af foreldrum! Svo var ég heppin að langömmur mínar urðu flestar langlífar. Þetta allt gerir það að verkum að ég var rosa rík af lifandi forfeðrum. Átti 4 sett af öfum og ömmum og 4 langömmur þegar ég var 12 ára.
Jólin á Ósi
Á Ósi í Arnarneshreppi var ég mikið hjá Jóni móðurafa mínum og Kristínu fósturömmu. Þar var fullt af torfkofum um öll tún og fjósið var með 3 torfveggi. Í því var ekkert rafmagn og ekkert rennandi vatn. Amma og afi ólust bæði upp í torfbæjum og fannst engin nauðsyn að aðlagast nútíma þægindum og óþarfa. Mér fannst oftast ekkert athugavert við það og átti margar hugljúfar stundir á aðventunni þegar amma var að mjólka kúna með eina olíulugt á veggnum. Oft sagði hún sögur frá liðnum jólum og kenndi mér allskonar ljóð og bænir. Jórtrið í kálfunum, skrjáfið í heyinu sem afi var að gefa og kurrið í hænunum sem voru farnar að sofa á sínum prikum sveipa þessar minningar hátíðarljóma. Ég var reyndar alveg rosalega myrkfælin og á meðan var ekki komið ljós á lugtina ríghélt ég mér í úlpuna hans afa eða í hundinn. Jólatréð var skreytt á Þorláksmessu. Oft var ég þar og fékk að hjálpa til. Tréð var gamalt, fóturinn var hulinn með bómull, serían var eins og kerti, kúlurnar voru marglitar og nokkrir fuglar voru einnig til. Svo var allt hulið englahári. Og afi fór í langt bað! Hann sagði alltaf að það væri nóg að fara í bað fyrir jól og páska. Mér fannst hugmyndin góð en fékk nú ekki að apa það eftir gamla manninum. Hann var auðvitað alinn upp við það að góður þvottur með þvottapoka á hverju kvöldi væri nóg flesta daga. Ég sá svo þegar ég eltist að auðvitað voru böðin miklu fleiri en tvö hjá honum! Koddinn hans var samt alltaf “brúnn”. Sérstaklega í kringum heyskap þegar hann var aldrei með húfu. Ég gat ekki annað en strokið blíðlega yfir koddann minn þegar hann varð svona í fyrsta skiptið eftir að ég flutti sjálf í sveitina.
Jóladagskvöld á Steindyrum Erna amma mín og Ármann fósturafi á Steindyrum voru heldur nútímalegri þó þau byggju í sveit. Erna amma frá Þýskalandi og aldrei vel talandi á íslensku. Ég fékk líka að skreyta jólatréð hjá þeim. Og fékk alveg að ráða því ein nema fleiri barnabörn væru á svæðinu. Ég fór líka mjög oft með ömmu að kaupa jólagjafir og átti því auðvelt með að undirstinga hvað væri vinsælt í pakkann minn. Stórfjölskyldan borðaði alltaf saman á Steindyrum á öðrum í jólum. Oft reyndum við að komast úteftir seint á jóladagskvöld. Það var sofið í hverju herbergi í rúmum og á dýnum og aldrei þótti gamla settinu of margt. Það var alltaf svín í matinn með súrum gúrkum, asíum og steiktu hvítkáli. Fullorðna fólkið fór með okkur út að leika ef það var snjór en oft fórum við bara og lékum okkur öll í hlöðunni. Kaffitímarnir einkenndust af skreyttum rjómatertum, randalínum og smákökum. Kvöldin af appelsíni og miklu konfekti. Oft voru bæði kettlingar og hvolpar og þeim var dröslað af okkur börnunum upp á loft þar sem við klæddum þau í dúkkuföt og svæfðum þau í rúmum. Alltaf lét amma sem hún sæi ekki hvað við vorum að gera. Þýska langamma mín var oft erlendis á jólunum og þá var nú gaman að fá sendan pakka frá útlöndum. Þeim fylgdi líka alltaf þýskt góðgæti. Lakkríspípur, Lubekker marsípan og þessar hræðilegu hunangskökur. Besta jólagjöfin var þegar ég fékk frá henni dúkku sem gat gengið og sungið, með mikið sítt hár. Henni fylgdu átta “plötur” (sem maður setti í bakið á henni) í mismunandi litum sem innihéldu misskemmtileg þýsk lög. Þessa dúkku á ég ennþá og hún heitir að sjálfsögðu Fríða!
Möðruvallastræti 10
Í Möðruvallastræti 10 bjuggu fósturafi minn og amma, Ellen og Sverrir. Þangað fórum við alltaf á jóladag. Dubbuðum okkur upp um tvöleytið og mættum í kaffi. Gulltertan hennar ömmu er ein besta kaka sem ég hef fengið. Og hún var alltaf á jólunum. Á meðan fullorðna fólkið kláraði að borða gat ég dundað við að dást að fallega jólaskrautinu sem amma og afi höfðu búið til. Heklaði óróinn sem alltaf hékk yfir borðstofuborðinu og jólatrésdúkurinn voru samt uppáhaldið mitt. Ég varð því ekki lítið glöð þegar ég, fullorðin kona, fékk eins jólatrésdúk frá þeim í jólagjöf. Svo byrjuðum við loksins að púkka. Þetta spil er eingöngu spilað um hátíðirnar. Heimagert spilaborð, spil og eldspýtustokkur á hvern mann. Amma með nammiskálina á hliðarlínunni, sumir að reyna að svindla, aðrir að kveikja á eldspýtum, einhverjir komnir á hausinn í spilinu, hlé gert fyrir jólastundina okkar. Hangikjötið á sínum stað með öllu tilheyrandi og ísterta í eftirrétt. Síðan gengið í kringum jólatréð. Martröð allra á ákveðnum aldri. Aftur púkkað og áður en heim var haldið voru appelsínur og epli. Borðað með ávaxtahnífum. Ég tók yfirleitt eins og eitt brjálað frekjukast rétt fyrir heimferð. Lækjargil 22 Föðurforeldrar mínir bjuggu í
Lækjargili 22.
Amma Stella og afi Nunni. Ég fór lítið til þeirra á jólum sem barn. Við fórum hins vegar alltaf þangað á aðfangadag þegar við krakkarnir fórum með pabba að keyra út pökkum. Þetta var alltaf þegar barnaefnið var búið. Yndisleg stund fyrir alla. Mamma fékk frið við eldamennskuna fyrir spenntum og óþolinmóðum krökkum, pabbi fékk frið fyrir tuðinu í mömmu og við krakkarnir dreifðum huganum og jukum á sykuræsinginn þar sem við fengum fullt af nammi. Amma Stella gaf okkur alltaf loftkökur sem hún geymdi í kökudunki langt upp í hillu í búrinu. Mér hafa alltaf þótt loftkökur vondar en þorði náttúrulega ekki að segja frá þessum gikkshætti. Bræður mínir græddu því alltaf vel á þessari heimsókn þar sem þeir fengu hálfbræddar kökurnar úr lófa mínum þegar út í bíl var komið.
Á spítala um jólin Amma.
Stella tengist svo sjúkrahúsvist minni um jól töluvert. Tæplega 9 ára gömul greindist ég með lungnabólgu á Þorláksmessu. Ég var send á spítalann og lögð inn á gömlu barnadeildina í “lyftuhúsinu” á FSA. Ég lá á margra barna stofu þar sem einhverjir komu og fóru á meðan ég var. Ein lítil stelpa var þó allan tímann og svo miklu lengur en ég. Hún hafði brennst illa á heitu vatni. Enn man ég þegar allir voru reknir út af stofunni þegar verið var að skipta um umbúðir á henni og hún grét mjög. Amma Stella vann á B-deildinni sem var þá við hlið barnadeildarinnar og kíkti oft á mig þegar hún var að vinna. Það var mjög notalegt. Á þessum tíma var ekki vani að foreldrar væru allan sólarhringinn með börnum sínum á spítalanum. Ég man þó ekki eftir að það plagaði mig neitt nema á gamlárskvöld þegar ég varð að horfa á flugeldana út um gluggann. En sjö íspinnar á þeim degi redduðu nú miklu. Já, það var gott að vera barn og búa við skemmtilegar jólahefðir. Samvera í jólaboðum, endalaus útivera með vinum og nágrönnum og enginn skóli! Svo líður tíminn og maður kemur í manns stað. Ömmur mínar og afar hafa horfið af sjónarsviðinu og við búið til nýjar hefðir án þeirra. Nú er ég sjálf orðin amma. Vona bara að ég verði amma sem verður minnst. Að ég gleymi ekki að leika mér og leiðbeina, kenna skátasöngva, Olsen-olsen, renna mér á þotu og fara í leiki. Og halda í jólahefðir!
Gunnhildur Gylfadóttir Steindyrum Svarfaðardal.
Jólaminningar – Norðurslóð 12.12 2019. Birt með leyfi Gunnhildar og Norðurslóðar.
Englahár
Eitt það sem ég man hvað best af jólaskrautinu á bernskuárum mínum er englahárið á jólatrénu. Þá var ekki eins mikið úrval af jólaskrauti og nú. Rauðir dúkar á borðum, og svo skrautið á jólatrénu: brothættar kúlur, fánar, pappírsmyndir, og svo englahárið. Það var alvöru englahár, ekki svona bómull eða borðar sem nú eru oftast notaðir, heldur hárfínt og glitrandi englahár, sem var teygt og breitt yfir allt tréð. Og það varð að gæta þess að teygja mátulega úr því svo það sæist í gegn um það, en ekki svo mikið að það yrði slitrótt.
En af hverju skyldum við skreyta jólatré með englahári? Fyrir stuttu las ég helgisögu, sem útskýrir hver sé upprunaleg ástæða, en sagan er svona:
Þið munið kannski að Heródes var grimmur konungur, sem var staðráðinn í að
halda völdum sínum í landinu, og þegar vitringarnir þrír sögðu honum að konungur væri fæddur í Betlehem vildi hann strax fá að vita hver hann væri, ekki til að veita honum lotningu, einsog hann sagði, heldur til að deyða hann. Sagan segir að hann hafi svo skipað fyrir að öll sveinbörn upp að tveggja ára aldri skyldu líflátin, og þannig fannst honum hann öruggur um að hinn nýfæddi konungur myndi líka deyja. Jósep og María voru vöruð við þessu, og ætluðu til Egyptalands, þar sem Heródes réð engu. Þar gætu þau verið örugg og myndu finna vini, því þar bjuggu þúsundir gyðinga. Þessvegna lögðu þau af stað þangað, og fyrstu nóttina áðu þau til að sofa í litlum helli. Það var kalt og jörðin var hvít af frosthrími, en af því að þau voru enn á yfirráðasvæði Heródesar þorðu þau ekki að kveikja eld. Þau fóru inn í hellinn, sem var eiginlega bara skúti, með þröngu opi. Þau vissu ekki að í hellinum bjó könguló. Sagan segir að þegar hún sá Jesúbarnið vissi hún strax að hann væri Messías, frelsarinn, og þá langaði hana einsog marga aðra til að gefa honum eitthvað eða hjálpa honum. Hún sá að Maríu, Jósep og barninu var kalt, og reyndi að finna eitthvað sem hún gæti hjálpað þeim. Og hún gerði það eina sem hún gat. Hún fór að opinu á hellinum, og gerði vef yfir innganginn til að kaldur vindurinn myndi ekki blása eins mikið inn og hlýjan ekki fara út. Litlu síðar kom flokkur af hermönnum Heródesar að hellinum í leit að Jesúbarninu, og einn þeirra ætlaði inn íhellinn, en liðsforinginn stöðvaði hann. “Sjáðu,³ sagði hann, “hér getur einginn hafa farið inn, því hver sem gerði það hlyti að hafa slitið þennan köngulóarvef. Þú sérð að vefurinn nær alveg yfir innganginn, og það er hvergi op.³ Þeir litu allir á og vefurinn var greinilegur, því hann var alþakinn hvítu frosthrími. Og þá héldu þeir áfram, og Jesús komst óhultur til Egyptalands.
Og það er sagt að glitrandi borðar og englahár sem við setjum á jólatréð tákni köngulóarvefinn, sem þakinn frosthrími lokaði hellisopninu fyrir hermönnunum.
Þetta er notaleg saga, og svo mikið er víst: Engin gjöf, sem er færð Jesú, gleymist nokkurn tíma, sérstaklega ef hún er, eins og gjöf köngulóarinnar: Það besta sem hún gat gert.
(Guðni Þór Ólafsson þýddi)
Kærar þakkir frá Jólavefnum til sr. Guðna Þórs Ólafssonar – Melstað í Miðfirði, Laugarbakka.
Jólasveinasaga - Jónína Hjaltadóttir
Stúfur velti sér í fletinu, klóraði sér ólundarlega í skegginu og tautaði fyrir munni sér.
Dæmalaus þverhaus er hann Stekkjastaur. Heldur hann virkilega að þetta uppistand hafi einhverja þýðingu ? – Örugglega búinn að gleyma hvernig þetta var í fyrra. Tóm leiðindi og niðurrif á sjálfsímyndinni. Það er bókstaflega allt jóla- hitt og þetta, farið að verða okkur allt of erfitt. Nú höfum við barist á þessum markaði síðustu árin, við kjánalega, innflutta velmegunardasa, feita og pattaralega, í hárauðum, straufríum druslum með næloneftirlíkingu af hvítabjarnarskinni á jöðrum og köntum. Dæmalasir pjattsperðlar með aflitað hár og skegg, ef það er þá ekta.
– Huhhh! Og þykjast svo vera JÓLASVEINAR.
Í þessum svifum birtist nefið á Gáttaþef í dyrunum.
Ætlarðu ekki að klifra út úr fletinu stubburinn þinn og koma þér á fundinn?
Ég er svo svangur að ég hef varla afl til að standa í fæturna. Stundi Stúfur.
Þú ert nú hvort sem er með rassinn niður undir gólfi, svo að það er ekki úr háloftunum að detta þó þú veltir um. Tuldraði Gáttaþefur út um nefið.
Svona, drífðu þig nú! Það eru allir mættir nema Skyrgámur. Hann verður víst að missa af þessum fundi.
Nú, hvar er hann?
Hann!! – Liggur í rúminu eftir að hann át úr sparsltúbbunni sem var kastað í hann í fyrra.
Er hann tómur í hausnum eða hvað?
Nei, hann var tómur í maganum eins og þú, greyið.
Stúfur skreiddist fram úr, dró buxurnar upp um sig og staulaðist á eftir Gáttaþef. Frammi í hellinum gaf á að líta. Jólakötturinn, úfinn og þvengmjór, hékk um hálsinn á Grýlu gömlu sem sat, grindhoruð, á hækjum sínum við hlóðirnar og horfði ofan í tóman pottinn. Hún hafði hvorki séð tangur né tetur af krakkakjöti í mörg ár. Ekki svo að skilja að börnin væru orðin svo góð, heldur heitir óþekktin einhverjum öðrum nöfnum, svo sem ofvirkni eða misþroski og Grýla étur ekki veik börn. Kattarskarnið var alveg í dauðateygjunum. Það var enn lengra síðan hann hafði fengið æti. Það var ekki smuga að einhver færi í Jólaköttinn, eins og fólk bruðlaði með fötin. Leppalúði, sem alltaf hafði verið hafður útundan við matarborðið (enda ekki vitað til að hann hafi gert handtak, sá ræfill) var löngu orðinn að dufti í gröf sinni. Stekkjastaur stóð upp við dyrastaf, tekinn og fölur og horfði á fjölskyldu sína, hryggur í bragði. Hann var elstur þeirra bræðra og rann vítamínsnautt blóðið til skyldunnar að taka af skarið, svo að þetta þjóðarbrot yrði ekki minningin ein.
Strákar mínir! Það dugar ekki að liggja hér í eymd og volæði. Við verðum ekkert nema prentsverta á blöðum þjóðsagna, ef við tökum okkur ekki á og reynum að gera eitthvað í málunum. – Hérna, – borðiði þetta!
Hann rétti þeim hverjum sína pilluna.
Ég hitti lækni hérna á dögunum og ráðfærði mig við hann.- Sagðist bara vera útgerðarmaður að vestan og þá sagðist hann strax þekkja vandamálið. Lét mig hafa þessa dollu og sagði að innihaldið væri til að lækna þunglyndið. Ég gæti fengið meira ef fiskveiðilöggjöfin breyttist ekki á næstunni.
Hægum hreyfingum stungu þeir töflunum upp í sig, bruddu og kyngdu. Smá saman lifnaði yfir hópnum. Gamli hrekkjaglampinn kom í augu Hurðaskellis og Þvörusleikir rétti úr kútnum. Þvílíkt töfralyf. Giljagaur, sem húkt hafði úti í horni, staulaðist á fætur, ræskti sig og tók til máls.
Ég hef svolítið verið að laumast í byggð upp á síðkastið. Það er alveg agalegt ástandið hjá fólki. Allir hlaupa og hlaupa, kaupa og kaupa, aka og aka, sitja og sitja, borða og borða og horfa og horfa. Það er bókstaflega ekki nokkur leið fyrir okkur að vera með í þessum hamagangi lengur. Okkar markaður er algerlega hruninn. Það er aðeins smuga fyrir Hurðaskelli og Gáttaþef, en við hinir eigum ekki möguleika, nema að fara í endurmenntun. Við getum bara farið yfir röðina. – Stekkjastaur á orðið í stökustu vandræðum með að finna fjárhús og í þeim fáu sem hann finnur eru örfáar, steingeldar rollur. Og þó hann hafi eitthvað verið að reyna orkudrykkina, er hann orðinn skíthræddur við eftirlitsmyndavélarnar í búðunum. – Ég þoli ekki gerilsneydda mjólk. Gjörónýt afurð! Og í þetta eina skipti sem mér tókst að láta hana freyða, varð hún römm af furunálabragði. Ekki komandi í fjósin lengur fyrir sótthreinsunarfílu og flúorljósum. Svo er búið að framlengja spenana á kúnum með gegnsæju æðakerfi, sem liggur ofan í ískaldan járnpott í öðru herbergi. Í þetta eina skipti sem ég vogaði mér að reyna, náði ég æðinni, en þá varð allt vitlaust með það sama. Mjólkin frussaðist af svo miklu afli, að ég missti takið og fór flatur. Það var ekki notaleg gusa. Ég var nærri frosinn í hel á leiðinni heim og hét því að ef ég lifði, skyldi ég aldrei aftur stíga fæti mínum inn í svona fjós. – Stúfur hefur ekki séð skán á pönnu svo árum skipti. Þær standa allar skínandi hreinar inni í skápum. Fólkið stingur matnum inn í litla kassa. Ör- eitthvað og þar er aldrei neinar skánir að finna. – Þvörusleikir fann eina sleif í fyrra. Var rétt að ná henni, þegar húsbóndinn hrifsaði hana og stakk henni inn í skáp, ýtti á takka og þá fór að sulla í skápnum. Þegar Sleikir stökk til og opnaði skápinn, fékk hann vatnsgusu framan í sig.
Hvergi sést hanga kjöttuttla eða bjúga, svo að þeir Ketkrókur og Bjúgnakrækir eiga ekki sjö dagana sæla. Allt innpakkað, frosið og ómögulegt að krækja í nokkurn hlut. – Askasleikir: Tekinn fyrir innbrot í minnjagripaverslun. Fengurinn, þrír fallegir askar, höfðu aldrei verið óhreinkaðir með mat. – Kertasníkir hefur verið magasjúklingur síðan tólgarkertin hurfu og farið var að nota vax og ilmefni. Svo pissar hann í öllum regnbogans litum. – Skyrgámur er alltaf að villast á skyri og allslags óþverra. Hann á í mesta basli með hægðirnar, eftir síðustu mistök. Sannkallað harðlífi hjá honum, garminum.
Það alvarlegasta var þó slysið á Gluggagægi, eftir að hann klifraði upp þakrennuna þarna á Akureyri. Ekki nóg með að hann hafi bæði legið á spítala og setið í steininum, heldur er hann stimplaður öfuguggi, bara af því að hann var aðeins að kíkja. Hann sæti örugglega ennþá í steininum, ef frændi okkar hefði ekki komið honum til hjálpar. Og eins og þið sjáið, er ólíklegt að mamma og kötturinn hafi þessi jól af, ef við gerum ekkert í málunum.
Giljagaur hafði aldrei haldið aðra eins ræðu. Hann seig til baka í skotið sitt og strauk svitann af enninu. Gáttaþefur, sem fann lykt af flestu, nasaði í áttina að Gluggagægi.
Heyrðu Gluggagægir? Þú hlýtur að hafa komist að einhverju meðan þú dvaldir þarna fyrir norðan?
Gluggagægir lyftist í sæti sínu, sveiflaði hækjunni og þótti mikið til sín koma að vera kallaður til ráðgjafar.
Ssskkkoooo —. Þegar ég lenti á spítalanum, var komið með vatn í poka sem hékk á priki. Mér var sagt að þetta væri næring. Ég fann nú ekkert bragð af því, enda var það tengt í hendina á mér. En ég hætti að vera svangur. Mér datt í hug, hvort við ættum ekki að reyna að tengja hellislækinn við mömmu og köttinn og vita hvort þeim finnst það ekki betra. Já, ég var settur í steininn sem er nú enginn steinn, heldur fínn staður með flottu bæli og nægum mat. Þar var ég látinn hafa inn til mín, svakalega magnaðan glugga. Ég sá alla skapaða hluti í honum. Mér fannst svolítið skrítið þegar fólkið í honum fór að tala um jólasveina. Reyndar óttalegajólasveina. Það var ekki verið að tala um okkur, – og ekki um rauðu dasana, heldur bæði karla og kerlingar, sem töluðu, töluðu og töluðu, aðallega um peninga, peninga og peninga. Þessir óttalegujólasveinar ráða víst yfir öllu landinu. Ein kerlingin, – örugglega ekkert skyld okkur, talaði mikið um að sökkva öllu í vatn. Heimilinu okkar líka. Hún vildi meiri orku, en mér fannst hún nú ekkert orkulaus. Hún hefði átt að sjá mömmu. Svo var hún líka alltaf að tala um banka- þetta og banka- hitt. Bankar eru okkar verstu óvinir. Þangað streymir fólkið og kemur út með peninga og einhverskonar spil, sem það notar til að kaupa, kaupa og kaupa í búðunum. Ég held að við ættum að athuga hvort Hurðaskellir getur ekki stoppað þetta. Fólk tekur ennþá svolítið mark á þeim sem skella hurðum. Ef hann næði að skella þessum bankahurðum aftur, kæmist fólkið ekki inn – og peningarnir ekki út. Þá gæti þetta allt breyst aftur.
Ég komst líka að því að járnadraslið hérna á fjöllunum stjórnar miklu. Það brotnuðu einu sinni tveir eða þrír staurar og þá hætti allt að virka.
Það kom skrítinn svipur á hina. Þetta hefur líklega verið þegar þeir náðu sér í efnið í brúna í hlákunni.
Ég fann, meira að segja steikarlykt, en það skrítna var að fólkið var með eldamaskínurnar úti. En lyktin var góð, Stúfur. Því máttu trúa. Svo logaði allsstaðar á kertum og einhver talaði um „aumingja bændurna“ sem þyrftu að mjólka í fötur í myrkrinu, eins og í gamla daga.
Ja, mikill happadagur hefur það verið, þegar þú hrapaðir, sagði Stekkjastaur.
Það var vont!! Gluggagægir var sár yfir þessari athugasemd.
Það er líka vont að svelta, sagði Þvörusleikir. – Segðu okkur meira!
Svindl og svínarí. Ég komst, til dæmis, að því að rauðu dasarnir eru svindlarar. Þeir kaupa sér rauð föt í einhverjum Rúmfatalager, eru með svikið hár og skegg og þykjast svo vera við. Rétt eins og við séum vanir að þvælast um í náttfötunum með hárkollur og það á þessum mótormottum, sem ekki er nokkur svefnfriður fyrir hér í fjöllunum. Allt þetta jólasveinahyski ætti að draga fyrir dóm, fyrir stuld á vörumerkinu okkar.
Svo eru það verkföllin! Þau eru stórkostlegt fyrirbæri!
Þarna þagnaði Gluggagægir, til að leggja áherslu á orð sín.
Hvaðan falla þau eiginlega? Skaut Askasleikir inn í.
Þú ert heimskur! Verkfall er þegar fólkið hættir verkum sínum. Það voru til dæmis spúsur sem þvoðu gólfin á spítalanum og meðan þær voru í verkfalli mátti enginn skúra. Þegar ég heyrði þetta, datt mér snjallræði í hug. Kjötkrókur og Bjúgnakrækir gætu farið til byggða og krækt í nokkra af þessum rauðu náttgöllum. Svo förum við í þá, förum til byggða og skellum á verkfalli hjá ÖLLUM jólasveinum. Landið lamast með það sama, því enginn jólasveinn má vinna neitt. Svo setjum við fram kröfur.
Hvernig eru kröfur? Stamaði Stúfur.
Hans hugrekki var í sama hlutfalli og hæðin.
Við getum til dæmis krafist þess að fá yfirráð yfir Norðurlandi. Frændi okkar sagði að þar tryði fólkið ennþá á okkur bræður, enda væri fólkið þar nokkuð „norðmal“. Þar er líka einhverskonar alheims-jólasvæði, með jólahúsi og öllu. Þar má jafnvel ennþá finna eitthvað af ekta hangikjöti, sperðlum og laufabrauði. Við semjum líka um að fá eins og eitt ekta torffjós og hlóðaeldhús, með pottum og þvörum, skyrsá og tólgarkertagerð. Allt svona gamaldags og gott, er nú til dags kallað „ferðamannaiðnaður“ og þá er komið að dæmalausa-orku-jólasveinakerlingarráðherranum. Hún er að norðan. Við gefum henni kerti og spil, og fáum hana í lið með okkur, enda á að nota tilraunasveitarfélög, eins og Akureyri, til að gera tilraunir. Þeim veitir ekki af að koma einhverju púðri í starfsemina þar.
Bræðurnir standa alveg gapandi af undrun, yfir þessum fróðleiksfossi.
Gluggagægir (ánægður með sig) lítur af einum á annan.
Hvað finnst ykkur um þessa hugmynd, bræður. Eigum við að prufa þetta?
Einn af öðrum réttu þeir upp höndina til samþykkis. Þá stakk Gluggagægir hendinni í buxnahaldið og dró fram lítinn pakka, fitlaði við hann og lagði hann að eyranu. Eftir svolitla stund ljómaði hann í framan.
Kristján Þór! Blessaður, þetta er frændi þinn, Gluggi Grýlu. Já – og þakka þér fyrir síðast og NMT síman. Hann virkar flott!
Heyrðu mig. Þetta heppnaðist alveg. Þeir eru búnir að samþykkja þetta, strákarnir. Já, já. Hvað ertu að segja? Ertu búinn að redda mömmu plássi á Hlíð? Frábært vinur. Heyrðu? – Ég gleymdi að biðja þig að spyrja hvort hún mætti taka kattarræfilinn með sér.
Jónína Hjaltadóttir frá Ytra Garðshorni Svarfaðardal – Jólavefurinn færir henni bestu þakkir
Ég veit að mamma grætur á jólunum - Sigurjón í Hlíð
Það er frostbitur desember dagur fyrir 24 árum. Norðanþræsingur þeytir snjórenningi niður Strandgötuna á Akureyri. Þótt skammdegismyrkrið sé alrátt er mér nokkuð létt í sinni. Ég er að bíða eftir jólablaði þess vikublaðs er ég veiti forstöðu og því innan fárra daga verð ég komin heim í kyrrð dalsins míns ! Brátt rennur sendibíll prentsmiðjunnar að gangstéttinni – og í sömu mund kemur drengurinn hann Nonni, sem ber út blaðið í miðbæinn . Ég tek fljótt eftir því að Nonni er ekki eins og hann á að sér að vera, glaður og hressilegur. Nú minnir hann frekar á gamlan mann , álútan og svifaseinan, líkt og þung byrði sé á herðum hans sem hann er nær kominn að kikna undan. Óbeðinn hjálpar hann mér að bera blöðin upp í skrifstofuna og fer síðan þegjandi að telja þau blöð er komu í hans hlut að bera út. Ég fylgdist áhyggjufullur með þessum 10 ára vini mínum og fann til löngunar að nálgast hann, vita hvað þjáði hann ef ske kynni að ég gæti úr bætt. Mér fannst ég ekki geta séð á eftir honum út í myrkrið svona á sig kominn. Til að tefja tímann svolítið á meðan ég væri að átta mig á hvað gera skyldi, spurði ég hann hvort hann vildi hjálpa mér að telja blöðin til hinna krakkanna. Hann kinkaði kolli og án orða fór hann að telja er ég fék honum lista yfir nöfn krakkanna og tölu þeirra fjölda blaða er hvert þeirra átti að fá. Til að reyna að rjúfa þagnarmúrinn milli okkar spurði ég í hálfgerðum vandræðum; „Hlakkar þig til jólanna ?“ “ Nei “ var svar hans kalt og hranalegt. „Hvers vegna ekki ?“ spurði ég og var kominn í hálfgerða varnarstöðu. „Ég veit að mamma fer að gráta eins og á jólunum í fyrra „. „Hvers vegna ?“ hraut af vörum mér. Það kom andartaks hik á drenginn en svo kom svarið og tóntegundin var hin sama hörð og næstum hatursfull. “ Þig varðar ekkert um það“. Með þessu svari fannst mér Nonni hafa mátað mig gersamlega. Við erum búnir að telja blöðin. Snögglega stendur drengurinn á fætur og býst til ferðar, grípur sinn blaðabunka og snýr til dyra. Þegjandi legg ég peningana í lófa hans . Ég finn að hönd hans er ísköld og hann skelfur. Eitthvað innra með mér mótmælir því að ég láti drenginn svona á sig kominn fara frá mér út í nepjuna og myrkrið. Hugdettu skýtur upp í kollinum „Heyrðu Nonni minn. Viltu ekki hjálpa mér að keyra út blaðinu svo ég verði fljótari ?“ Og útskýri hálf flaumósa hvernig han geti flýtt fyrir, að ég beri blöðin úr bílnum til krakkanna en hann verði með peningaumslögin til þeirra. Hann hikar litla stund en kinkar síðan kolli, sem ég tók sem jáyrði við bæn minni. „En viltu ekki hringja heim fyrst og segja mömmu þinni að þér seinki vegna þess að þú sért að hjálpa mér ?“ „Mamma er ekki heima hún er að skúra“. „En pabbi þinn. Er hann ekki kominn heim úr ….“ Ég sé strax að við þessa spurningu mína þyngist byrðin til muna á ungum herðum hans. Hann lútir höfði og drjúglöng þögn hefur völdin – en svo kemur svarið kreist út á milli samanbitinna tanna : „Pabbi er fullur einhverstaðar fyrir sunnan“, síðan koma nokkur ekkasog og á eftir þrúgandi þögn. Ég spyr ekki meir en legg hönd yfir axlir hans og teygi mig í símann og hringi á leigubíl. Svo hjálpumst við án orða að bera blöðin niður stigann. Brátt flautar bíll fyrir utan innan stundar erum við lagðir af stað. Við þurfum að koma við á átta stöðum víðsvegar um bæinn. Ég afhendi krökkunum blöðin en Nonni bréfin eins og um var samið. Ég óska börnunum gleðilegra jóla og taka þau glaðlega undir, en litli ferðafélaginn minn var þögull sem gröfin. Eftir rúman hálftíma erum við aftur komnir niður í Strandgötu. Við göngum hlið við hlið upp stigann að skrifstofunni og nú var aðeins eftir að bera blöðin hans Nonna út í miðbæinn.. „Jæja Nonni. Nú hjálpa ég þér við við útburðinn“ segi ég hressilega „En fyrst fáum við okkur eitthvað í svanginn „. Á leið okkar um bæinn hafði ég keypt nokkrar pylsur og kók í sjoppu er leið okkar lá framhjá. Yfir andlit hans færðist dauft bros. Keyptirðu þetta handa mér ? “ og það var furða í rödd hans. „Handa okkur báðum. Þeir sem vinna þurfa að borða karl minn“ er svar mitt. Ég fann gleðitilfinningu fara um mig. Skyldi mér auðnast að rjúfa þagnarmúrinn sem hann varði sig með ?
Að loknum snæðingi hófum við blaðburðinn og mér fannst hann ekki eins þungstígur og áður er hann gekk niður stigann. Líkt og byrðin á herðum hans hefði örlítið lést. Úti var enn napurt og renningskóf og án andmæla leyfði hann mér að draga loðfóðraða hanska á hendur hans. Við tókum á sprett undan kófinu og gekk blaðburðurinn hratt og vel fyrir sig og innan stundar vorum við aftur komnir heim á skrifstofukompuna. Ég sá að bragði að það þyrmdi aftur yfir félaga minn – og með óstyrkri hendi seildist hann eftir umslaginu sínu, ég vildi ekki sleppa honum strax. Þrá mín til að vinna traust hans varð æ heitari. „Hvíldu þig aðeins áður en þú ferð út í kuldann á ný“. Hann settist þegjandi eins og hann væri bíða einhvers. Vænti hann kannski hjálpar frá mér ? Ég fann til vanmáttar. Var ég þess megnugur að lyfta okinu af herðum hins unga drengs og svartnættinu úr sál hans ? Þögnin í litlu skrifstofunni var orðin löng og þrúgandi. En allt í einu fannst mér birta til – mér fannst ég finna til nálægðar móður minnar og sem í leiðslu hvíslaði ég til drengsins „Kanntu að biðja , Nonni ?“ Hann hrökk við og við horfðumst í augu og svo kom svar hans. „Já mamma og pabbi kenndu mér það. “ Hálf feiminn spyr ég aftur; „Viltu biðja með mér um að mamma þín þurfi ekki að gráta um jólin og að pabbi þinn komi heim og öðlist þrek til að hætta að drekka ?“ Hann stóð hikandi upp og rétti mér höndina og hlið við hlið krupum við niður við borðið. Einhver ósegjanlegur friður gagntók mig og ég skynjaði einnig að hinn ungi vinur minn var einnig á valdi heitra tilfinninga. Hve lengi við krupum og báðum veit ég eigi en er við stóðum upp kom Nonni í fang mér og tár sem tærar perlur runnu niður vanga hans. Ég leyfði honum að gráta og strauk sem annars hugar ljósu lokkana á kolli hans.
Nokkru síðar vorum við aftur komnir út í hríðarkófið og leiddumst hönd í hönd uns við vorum komnir heim til hans. Við kvöddumst á tröppunum en um leið og hann opnaði hurðina hvíslaði hann í eyra mér í barnslegri einlægni: „Ég ætla að biðja mömmu líka að biðja með mér áður en við förum að hátta“ að svo búnu lokaði hann hurðinni hljóðlega á eftir sér. Á leiðinni til baka fóru efsasemdir að sækja að mér. Hafði ég raunverulega gert rétt með framkomu minni ? Hafði ég ekki vakið falsvonir í huga drengsins – og því yrði sársaukinn enn óvægnari er hann stæði frammi fyrir þvíað bænastund okkar saman var aðeins haldlaust hjóm og blekking – en samt þetta kvöld ríkti friður innra með mér og ég sofnaði óvenju fljótt er ég hallaði mér á koddann.
Daginn fyrir Þorláksmessu var för mín ákveðin heim í dalinn. Dálítið annars hugar var ég að taka nokkurt dót saman til fararinar . Dagana á undan hafði ég oft verið kominn að því að hringja heim til Nonna , en ávallt brostið kjarkur. Ég lít á úrið og sá að aðeins var klukkutími uns rútan leggði af stað til Dalvíkur. Ég geng um gólf til að drepa tímann. Ég hrekk við er bankað er að dyrum í flýti opna ég. Fyrir utan stendur Nonni og heldur í hönd manns sem er mér ókunnur. „Þetta er pabbi “ hrópar drengurinn. “ Hann er kominn heim “ og augu vinar míns geisluðu af gleði – „og hann er hættur að drekka “ bætir hann við og hleypur í fang mér ör og kátur. Faðir hans réttir fram höndina og handtak hans er fast og hlýtt . Ég horfi í augu hans. Þau eru að vísu döpur en samt finnst mér örlítil geislablik gefa þeim líf . Þeir feðgar hjálpa mér með dótið á brottfararstað rútunnar. Á þeirri göngu eru þeir hinir sterku að mé finnst, en ég hinn veikburða.
Oft varð mér hugsað til Nonna yfir jólin. Skyldi faðir hans standast ofurvald vínguðsins ? ótti og von toguðust á í huga mér.Á leiðinni til Akureyrar að jólaleyfi loknu ákvað ég að það skyldi verða mitt fyrsta verk er ég kæmi í bæinn að hringja í Nonna. Er ég dró upp lykillinn að skrifstofunni blasti við mér hvítt blað límt á hurðina og þar gaf að lesa Sigurjón komdu í kaffi strax og þú kemur í bæinn og undir orðsendingunni stóð með stórum stöfum NONNI. Ég mun aldrei gelyma því heimboði. Ást, friður og hamingja ríkti í litla húsinu. Faðir Nonna var kominn í fasta vinnu og stóð sem sigurvegari í glímunni við Bakkus konung.
Allan þennan vetur og næsta sumar var ég hálfgerður heimagangur hjá Nonna og foreldrum hans. Þau góðu kynni veittu mér oft frið og hvíld frá erli starfsins. En að haustdögum rofnuðu að mestu tengslin. Ég hætti blaðamennsku og nokkru síðar flutti fjölskyldan í annan landshluta. Nú eru báðir foreldrar Nonna dánir en hann virtur kennari á höfuðborgarsvæðinu.
Það var eitt sinn ætlun mín að skrifa ævisögu móður minnar og vorum við bæði búin að leggja nokkur drög að henni – og nafn bókarinnar var löngu ákveðið. Bænin var minn styrkur, það var nafnið. En snöggt og óvænt var mamma kölluð á braut og því bókin um hana óskráð. Þessi minningarbrot vil ég henni og lífssögu hennar, sem vörðuð var af kjarki, mildi og kærleika og síðast en ekki síst af æðri trú og hndleiðslu.
Senn líður enn að jólum, fæðingarhátíðar mannvinarins mikla. Það er einlæg bæn mín og von að ekkert barn kvíði komu jólanna altekið ótta um að mamma þess gráti um jólin.
Ég bið þess að sjúkir, syrgjendur og þeir sem einmana reika öðlist styrk, frið og hvíld, frá þeim er fórnaði lífi sínu í baráttunni geng grimmd og hatri. Reynum að vera boðberar kærleikans. Minnist þess að jafnvel þétt handtak og hlýtt bros getur varpað ljósi inn í myrkvaða sál. Ég óska lesendum hvíldar og friðar um heilög jól.
S.J.
(e. Sigurjón Jóhannsson frá Hlíð í Skíðadal. Heimild Bæjarpósturinn. Birt með leyfi Bp)
Jól hjá Gunnþóri
Því svo elskaði guð heimin að hann gat son sinn eingetinn … Þessi orð standa skrifuð og staðfest í helgri bók. Þegar ég fæddist í þennan heim var ég ferskur eins og nýkreistur appelsínusafi, reyndar finnst mér ég vera það ennþá, enda ekki nema rétt 26 vetra gamall. Ég var ekki eingetinn í þennan heim frekar en önnur börn á þeim tíma.
Þegar ég átti mín fyrstu jól var ég engan veginn með á nótunum um helgihald og hefðir sem tilheyra jólum. Jól á Íslandi eru skemmtilegur tími, ekki einungis vegna þess að Krist(björn) Arngrímsson góður vinur minn og gamall bekkjarbróðir(1975) er fæddur á jóladag, hann er sannkallað jólabarn og skírður í höfuðið á Kristi Jesú. En hvað um það, ég hef lifað rúm tuttugu jól á Íslandi og einnig hef ég haldið jól í Ghana 1995 er ég var skiptiliði þar, jólin 1998 hélt ég einnig í Afríku en þá drjúgt sunnar eða í Namibíu þar sem foreldrar mínir búa.
Í fyrra hélt ég svo jólin í Hollandi, nánar tiltekið í Rotterdam þeirri merkilegu hafnarborg sem hefur byggst upp með geysilega skemmtilegum arkitektúr eftir sprengjuregn í síðari heimsstyrjöldinni. Í Ghana var ekki verið að hafa fyrir skreytingum eins og við gerum hér á Íslandi, á mínu heimili var stórum pottablómum komið fyrir á víð og dreif og hvítt gervijólatré var skreytt með jólakortum, aðsendum! Þrátt fyrir mikla kristni, kirkjusókn og almennt helgihald árið um kring var farið afslappað í jólin heima hjá mér í Tema. Á aðfangadag var slappað af, borðað Fufu (Fúsi, þú verður að koma með næst til Ghana og bragða FufuJ) hér vitna ég í mörg og merkileg samtöl míns og Sigfúsar Þorvaldssonar togarasjómanns á Björgvin, góður maður og afskaplega vel lesinn. Eftir magafylli af Fufu og reyndar nokkra eftirvæntingu eftir jólastemmingunni sem reyndar kom aldrei fór ég með Kwabena(fæddur á miðvikudegi) vini mínum á veitingastað um kvöldið þar sem við gúffuðum í okkur kjúkling og hrísgrjón og ræddum um íslenskar konur. Á jóladag fór ég með vinum mínum á ströndina þar sem við steiktum líkamann og chilluðum á kantinum.
Í Namibíu hélt ég jól með Árnýju og Ara sem eru systrabörn mín búsett á Bakka í Svarfaðardal og Árný á heima í Hollandi, í Namibíu er hásumar á jólum og hitinn mikill, við áttum yndisleg jól með mömmu og pabba, í stað snjós er mikill hvítur sandur í Lüderitz þar sem ma&pa búa. Það var afslappað og huggulegt að vera í sól og sælu í henni Afríku, við snæddum saman namibískan svínahrygg sem var afar góður með Stellenboch rauðvíni. Á annan í jólum fórum við pabbi í leiðangur með Ragga vélstjóra að veiða humar í einni vík sem fáir fara um. Ég lærði þarna að leggja humargildrur og veiðin var vonum framar enda var svo slegið upp humargrillveislu um kvöldið fyrir alla Íslendingana í Lüderitz. Um áramótin söfnuðum við feðgar í brennu sem samanstóð af nokkrum stolnum brettum og öðru drasli sem við tíndum til. Brennan var staðsett í fjörunni skammt frá hótelinu og var í fyrstu ætluð okkur íslensku lúðunum en fljótt dreif að ferðafólk og innfædda sem þótti uppátækið skemmtilegt og stemming myndaðist, enda fátt skemmtilegra en að hafa gaman saman eins og stendur.
Í Hollandi var ég um jólin 2000 í Rotterdam hjá Hermínu systur og fjölskyldu ásamt Gumma og Ósk sjúkraþjálfum og börnum þeirra en þau eru vinafólk Arnars og Hermínu. Það var ósköp þægilegt að vera í Hollandi, yfirvegað samfélag og lítið um stress í fólki. Gummi bar með sér hreindýr sem hann skar til og snæddum við það ásamt öðru gómsætu. Við höfðum á orði á aðfangadagsmorgunn að nú vantaði bara snjóinn, viti menn, uppúr hádegi byrjaði að mokhríða og jólin komu í hús, allir út að leika og göslast í snjónum. Við hluti af eldra fólkinu fórum milli jóla og nýárs til Amsterdam og að sjálfsögðu fórum við og fengum okkur kaldan drykk í Rauða hverfinu sem skartaði jólaljósum og litskrúðugu mannlífi. Það sem mér fannst þægilegast við dvölina í Hollandi var að maður þurfti ekki að mæta eitt né neitt til dæmis í jólaboð, maður slappaði bara gjörsamlega af við spil og huggulegheit með góðu fólki. Ekki er þar með sagt að mér leiðist jólaboð, síður en svo, þegar ég er heima á Dalvík á jólum er ómissandi að fara inní Steinnes á jóladag og hitta föðurfjölskylduna þar sem ávallt er kátt á hjalla. Svo fer maður til Siggu og Vals og auðvitað til ömmu og afa. Mér finnst gaman að hitta ættingja því maður er manns gaman.
Þessi jólin verð ég svo í Namibíu ásamt Hollandsgenginu og mömmu og pabba. Jólin er tími sátta og samverustunda, margir eiga um sárt að binda eftir að hafa misst ættingja og vini á liðnu ári, ég hef persónulega misst góðan vin sem ég minnist með bros á vör því er við hittumst var engin lognmolla í samræðunum og mikið hlegið, ég minnist Sveins Birkis sem góðs drengs. Það er nauðsynlegt hverri manneskju að tala um hlutina og ekki síst á svona tímum þar sem söknuðurinn er þungbær, við sameinumst og aðstoðum hvert annað eins og Jesús kenndi okkur. En gleymum ekki að brosa og lifa skemmtilegu lífi.
Ég vil nota tækifærið og óska vinum og ættingjum gleðilegra jóla og farsældar í framtíðinni,
Gunnþór Eyfjörð G. mannfræðinemi.
Birtist í Bæjarpóstinum Dalvík jólin 2001
Jól í Konsó - Birna G. Jónsdóttir
Ég stend við gluggann í stofunni í gamla húsinu í Konsó. Hér höfum við búið í hálft ár og komið okkur bara vel fyrir. Húsið var illa farið og við höfum lagfært það töluvert. Dætur okkar, Guðrún og Katrín, eru á leið heim í bíl ásamt gestum. Það er loksins komið jólafrí og allt er tilbúið til að taka á móti þeim.
Dálítið af jólaskrauti er komið upp og jóladagatalið með litlum gjöfum fyrir hvern dag sem eftir er til jóla. Þetta er ekki eins og heima á Íslandi þar sem dagatalið var fullt fyrir alla dagana af litlum pökkum. Nú hafa stelpurnar verið í burtu frá okkur mestallan desembermánuð og einungis örfáir pakkar hanga og bíða þess að verða opnaðir. Ég skima út á veginn til að reyna að sjá bílinn en ekkert bólar á honum. Ég lýk við litla jólaskreytingu og labba með hana upp í litla gestahúsið þar sem gestirnir munu sofa.
Þetta eru fyrstu jólin okkar í Eþíópíu og mér finnst þetta hálfótrúlegt og ekkert „jólalegt“ að ganga með jólaskreytingu milli húsa í steikjandi hitanum. Það er allt grátt enda búið að vera langvarandi þurrkur. Rauð slaufan á jólaskreytingunni stingur í stúf við umhverfið. Enginn í kringum okkur hugsar um jól eða undirbúning jólanna. Fólkið heldur áfram sínu daglega amstri eins og ekkert sé. Eþíópísk jól koma ekki fyrr en í byrjun janúar en þeim fylgir ekki jólatónlist eða jólaskraut. Eþíópar fagna páskum mun meir en jólum.
Ég hef þurft að hafa fyrir því að reyna að komast í hina réttu „jólastemmningu“ með því að spila jólalög af diskum og kassettum, með því að sýsla við smájólaskraut og smákökubakstur. Húshjálpin mín, hún Oshje, sem hefur unnið hjá mörgum kristniboðum áður, tekur þátt í þessu með mér. Stundum hristir hún höfuðið og hlær að mér og fer heim til sín að loknum vinnudegi þar sem ekkert slíkt stúss er í gangi. Hún hugsar eflaust sitt um uppátæki þessara útlendinga!
Það er kominn talstöðvartími. Tvisvar á dag tala allar kristniboðsstöðvarnar saman og ég fæ að heyra að bíllinn er nýkominn til Arba Minch og því um tveir tímar eftir enn til Konsó. Það verður skollið á myrkur þegar þau koma. Ég fer upp á sjúkraskýli til að líta þar yfir en danska hjúkrunarkonan er farin í stutt jólafrí. Þegar tveir tímar eru liðnir stend ég aftur við gluggann og reyni að sjá hvort ekki eru bílljós einhvers staðar á leiðinni. Gulli (Guðlaugur Gíslason, eiginmaður Birnu. Hann bjó í Konsó í tíu ár sem barn ásamt fjölslyldu sinni) rifjar upp að þannig hafi mamma hans alltaf staðið og beðið eftir að þau krakkarnir kæmu þegar þau voru að koma í frí. Þá voru ekki eins margir bílar og nú og einu bílljósin voru þeirra bíll. Nú er meiri umferð og við verðum að geta upp á hvað ljós bera okkar dýrmæta farm.
Loks heyrum við í bíl gefa í upp litlu brekkuna á kristniboðsstöðinni. Brekkan er ekki brött en mjög gróf af steinum. Hundurinn byrjar að gelta. Þau eru komin!! Það verða fagnaðarfundir. Ég finn að það léttir á spennunni hjá mér að vita af stelpunum loksins heima og langri ferð þeirra frá höfuðborginni er lokið. Nú eru jólin komin, hugsa ég!!
Þessir fáu dagar fram að jólum líða allt of fljótt. Það var lítið af jólaskrauti tekið með frá Íslandi og hafði alveg gleymst að taka með eitthvað á jóltréð. Öll hjálpuðumst við að, við að búa til skraut úr því efni sem til var. Þegar upp var staðið var þetta eitt fallegasta tréð sem við höfum haft. Sjálft tréð þurftum við að höggva úr nágrenninu.
Aðfangadagur var runnin upp. Allt var að verða tilbúið. Kússe næturvörður var fenginn til að hita vatn í stórum potti svo allir gátu farið í jólabað. Sturtan í Konsó er úti í litlum klefa. Vatnið er sett í fötu með krana neðan á. Sturtutíminn er því takmarkaður við það vatn sem er í fötunni! Ég er síðust í sturtuna. Þegar ég labba til baka finn ég langþráða regndropa á andlitinu á mér. Ég þakka Guði fyrir regnið, fyrir fjölskylduna og góða vini sem eru að klæða sig fyrir jólahaldið. Ég þakka honum fyrir að hafa sent sinn eingetinn son til þess að frelsa mig. Ég bið um styrk og visku til að starfa á meðal Konsófólksins. Þeir hafa margir heyrt frelsisboðskapinn og tekið við honum en enn eru mörg héruð sem ekki hafa heyrt og víða vantar leiðtoga til að halda starfinu áfram. Katrín kemur hlaupandi á móti mér. Hana vantar hjálp við að greiða sér. Guðrún er komin í eþíópskan kjól og er að sýna mér hvað hún er fín. Ó, ef ég gæti bara alltaf haft þær hjá mér. Ég finn kvíðann hellast yfir mig. Það fer að styttast í að skólinn byrji á ný.
Kvöldið er yndislegt. Hápunkturinn hjá stelpunum er þegar þær fylgjast með okkur Gulla opna pakkana sem þær hafa sjálfar búið til á jólaverkstæðinu á skólanum. Þær gjafir þykir okkur líka vænst um. Fyrr en varir er kvöldið liðið. Klukkan sex næsta morgun vakna ég við að hundurinn geltir einhver ósköp. Ég sé út um gluggann glitta í vasaljós á hreyfingu. Næturvörðurinn á sjúkraskýlinu bankar varlega á gluggann: „Sister Birna, það er kona í fæðingu sem þarf hjálp.“ Ég fer strax á fætur og labba þessi skref sem eru upp á sjúkraskýlið.
Fyrir utan fæðingarstofuna situr hópur manna. Það eru burðarmennirnir sem hafa borið konuna langa leið. Á fæðingarstofunni er ung stúlka mikið kvalin. Hún er að eiga sitt fyrsta barn. Á gólfinu situr eldri kona sem rær fram og tilbaka og tautar eða sönglar í sífellu. Það er tengdamóðirinn sem samkvæmt sið Konsómanna er viðstödd fæðinguna. Ég skil eitt og eitt orð. Hún er að biðja…. Ég geri allt sem ég get til að hjálpa stúlkunni og með hjálp sogklukku fæðist lítil stúlka. Hún er mjög dösuð í fyrstu en jafnar sig fljótt. Það er ólýsanleg gleðin og léttirinn á andliti stúlkunnar þegar hún loks heyrir barnsgrátinn. Tengdamóðirin fellur til fóta mér til að þakka fyrir aðstoðina! Ég verð hálfhvumsa og reisi hana upp og segi henni að þakka þeim sem ber og þeim sem hún bað til, Guði almáttugum.
Ég geng aftur heim og þakka Guði fyrir að Hann skuli geta notað mig í þjónustunni og bið um fyrirgefningu að mér finnist stundum það kosta of mikið. Það er bara rúm vika þar til ég þarf að kveðja stelpurnar mínar á ný. Þegar heim er komið eru allir komnir á fætur. Ég segi þeim frá litla jólabarninu sem fæddist í nótt. Stelpurnar fóru með gestina til að sjá litlu nýfæddu stúlkuna. Hún lá vafin í lítið lak í fangi móður sinnar. Einhverjum varð að orði: „Þetta eru sko alvörujól hérna í Konsó, með alvöru jólabarn og allt!!“
Boðberinn 6. tbl. 13. árg. 1999 – Birna G Jónsdóttir Hjúkrunarfræðingur.
Jólin í fyrri daga - Guðbjörg Jónsdóttir Broddanesi á Ströndum
Nokkru fyrir jólin lét móðir mín steypa mikið af kertum. Þann dag fór hún snemma á fætur til að tvinna rökin. Þau voru úr ljósagarni. Þann morgun þótti mér mjög gaman að vakna í rúminu fyrir ofan móður mína, sjá hana tvinna rökin og láta þau á kertaspýturnar. Þá fannst mér ég vera stödd í fordyri jólahátíðarinnar. Rökin voru látin á mjóar spýtur, tvö og þrjú á hverja, og stundum fleiri, eftir því hvað spýtan var löng. Þegar farið var að steypa, voru tvær árar látnar á kláfa í eldhúsinu, þar á milli var svo kertaspýtunum raðað. Svo var strokkurinn látinn á gólfið hjá árunum og skorðaður með grjóti, síðan hellt í hann heitu vatni og tólg. Þá var rökunum dýft ofan í, en þess á milli látið kólna á spýtunum. Þetta var endurtekið þangað til kertin voru orðin nógu gild. Móðir mín átti kertaform, en það var ekki notað, nema þegar lítið þurfti að steypa. Oftast var verið nærri allan daginn að steypa kertin. Móðir mín þurfti mikið á kertum að halda, hún var örlát á þau, eins og annað. Öllum unglingum á heimilinu gaf hún kerti, þegar steypt var. Ég man hvað mér þótti vænt um litla kertið mitt, það var svo bjart á því ljósið. En skammdegismyrkrið í gamla bænum var svo svart og svo langt. Fyrir jólin var baðstofan þvegin og allt hreinsað og prýtt. Askar, dallar og öskjur var þvegið upp úr hangikjötssoði.
Á fyrri árum höfðu foreldrar mínir gefið fátæku fólki, sem nálægt þeim var, gjafir fyrir jólin, matvæli og fleira. Kerti voru send til fátækra barna í sveitinni. Gömul kona, sem ólst upp hjá fátækum foreldrum sínum í nánd við foreldra mína, hefur sagt mér að einu sinni fyrir jólin hafi móðir sín ætlað að fara að sjóða reykt selkjöt til jólanna, en þá hafi einn af vinnumönnum foreldra minna komið með hangikjöt og fleira sælgæti, og svo ógleymanlegu kertin. Mikil gleði sagði hún að þá hefði verið í litla kotbænum. Ekki voru jólin áður gerð dýrleg með kökubakstri eins og nú er siður. Þá var ekki annað búið til með kaffinu en lummur úr sigtuðu grjónamjöli og kleinur og pönnukökur úr sigtuðu rúgmjöli.
Allir höfðu fataskipti á aðfangadagskvöld og þvoðu sér. Þeir sem vildu þvo eitthvað meira en hendurnar og andlitið, fóru út í fjós, þar var hlýjast að vera við þvottinn. En ekki má skilja orð mín svo, að fólkið hafi ekki þvegið sér nema á jólunum. Það þvoði sér oft og greiddi, eftir bestu vitund, og sumar stúlkur höfðu mikið hár, þá þótti það prýði.
Mikið hlakkaði ég til aðfangadagskvöldsins. Þá fékk ég að fara í bestu fötin sem ég átti til, og mér fannst ég vera ákaflega fín, en um það hugsaði ég mikið. Þegar búið var að kveikja og allir höfðu haft fataskipti, fór móðir mín fram á stofuloft til að sækja kertin. Hún gaf öllum á bænum tvö kerti, eins fólkinu á búi systur minnar. Síðari árin var hér tvíbýli. Faðir minn fékk tvö kerti eins og aðrir, þó að hann væri blindur. Ég man hvað hann var sviphýr, þegar hann var að handleika kertin, sem móðir mín gaf honum. Þegar allir voru búnir að fá kertin, fjölgaði ljósunum í baðstofunni. Nú voru blessuð jólin komin. Sumt fólkið kveikti á kerti og fór að lesa í bók. Aðrir tóku skrifpúltin sín og fóru að lesa. Nú höfðu allir nóga birtu, nema faðir minn. Þó var enginn glaðari en hann. Verið getur að hann hafi einhverstaðar átt stærra ljós en við hin. Lýsislampinn í dyrastafnum hætti nærri að bera birtu, kóngakertin á borðinu yfirgnæfðu birtu hans. Ljósafjöldinn hefur vafalaust mikið stuðlað að því að gera jólin svo dýrðleg sem þau voru í huga manna. Þessi smáljós, sem lýstu í lágum híbýlum dauðlegra manna, minntu á stóra alheimsljósið: barnið í jötunni.
Húslestrar voru þá engin nýjung. Þó fannst mér eitthvað meira við jólalestrana en vanalegt var. Þá var miklu meira sungið, og allir sungu, sem söngrödd höfðu. Ráðsmaðurinn var forsöngvarinn, hann söng laglega, en fátt kunni hann af nýjum lögum. Oftast var byrjað á þessum sálmi: Þjer, mikli guð, sje mesti prís! Vor mildi guð! vjer þökkum þjer, o.s.frv., eða jólasálminum: Með gleðiraust og helgum hljóm. Ekki voru sungnir færri en fjórir sálmar, tveir fyrir og tveir eftir, stundum meira. Á meðan faðir minn las og söng sjálfur, hafði hann sungið fjórtán sálma á aðfangadagskvöldið. Það er minna nú á dögum.
Skemmtanir voru engar á jólakvöldið, nema að lesa í bókum, og var fólkið að mestu leyti sjálfrátt um hvað það las. Móðir mín las í Biblíunni fyrir föður minn, þó einkum á jóladaginn. Við unglingarnir fengum að spila á spil, þó með því móti að hafa ekki hátt, það þótti ekki viðeigandi á aðfangadagskvöldið. Friður og helgi jólanna fylltu gömlu baðstofuna og ljómuðu á hverri brá. Á jóladaginn spiluðu þær mamma og „Þobba mín“ stundum púkk við okkur krakkana, það þótti okkur skemmtilegt. Annars vildi fólkið, sem kunni að spila, ekki spila við okkur, sem ekkert kunnum, en þær gömlu gerðu það fúslega og hirtu ekki um vankunnáttu okkar. Stundum var farið í jólaleiki á jóladagskvöldið, eða annan í jólum, og sungið, aldrei aðrar skemmtanir. Þetta nægði okkur, við gerðum ekki miklar kröfur.
Á fyrri tímum sat fólkið ekki við dúklagt borð á jólunum, með mörgum diskum á eins og nú tíðkast. Hver tók á móti sínum diski, kúfuðum af hangikjöti, feitu og mögru, ásamt brauði og smjöri. Á jóladagsmorguninn var eldaður hrísgrjónagrautur úr nýmjólk, með rúsínum í og var smjörsneið stungið ofan í grautinn, þegar skammtað var, hjá þeim sem vildu það. Á nýárinu voru skammtaðar stórar rúgkökur – flatbrauð – reyktir lundabaggar og magálar, smjör og kæfa. Hún „Þobba mín“ blessuð bjó til allar þessar stóru kökur og steikti þær á glóð. Hjá mörgum náði hátíðamaturinn saman, sumir geymdu hann sér til sælgætis langt fram yfir hátíðar. Hangiflot og tólg saman við var látið í spordalla og öskjur handa öllum á heimilinu, sem þessi ílát áttu, svo geymdi fólkið þessi ílát á hillu yfir höfðalagi sínu.
Ljós var látið lifa í baðstofunni bæði jólanóttina og nýársnótt. Á gamalárskvöld voru sungnir margir sálmar líkt og á jólunum. Þá var ætíð byrjað á þessum sálmi: Guð vors nú gæsku prísum. Í síðasta versinu voru síðustu hendingarnar ætíð tvíteknar og stundum þríteknar. Þær hljóða svona:
Í Jesú nafni nú
þín biðja börn ennfremur
blessa árið, sem kemur,
allra þörf uppfyll þú.
Á jóladaginn og nýársdag voru líka sungnir margir sálmar. Það var siður á flestum bæjum að syngja mikið á stórhátíðum. Ég heyrði talað um, að á einum bæ í Bitru hefðu verið sungnir fimmtán sálmar á jólanóttina. Það held ég að hafi líka verið hámarkið. Fyrir þessum sið er ekki hægt annað en bera virðingu. Þetta var saklaust og snerti engan óþægilega, því að vafalaust hefur allt heimilisfólkið tekið þátt í þessu. Þessi viðhafnarlausi sálmasöngur lyfti hugum og hjörtum jarðarbarnanna upp í hæðirnar.
Gamlar glæður. Helgi Hjörvar – Ísafoldarprentsmiðja .
Rotaður í fjósi á jólanótt! - Jóhann Ólafur Halldórsson
Í endurminningunni finnst mér alltaf að hátíðleiki og ljómi hafi verið yfir jólahaldinu heima í Svarfaðardal. Fjölskyldan kom saman og verkefni okkar systkinanna þegar komið var heim í jólafrí í skólum var að skreyta hús, bæði úti og inni – sem og auðvitað að taka þátt í útiverkunum. Og eins og gengur var svo gripið í spil – spilaður brús – en raunar fékk ég litla æfingu í þeirri list þar sem foreldrar mínir sáu til þess að framleiða í löglegan fjölda brússpilara áður en röðin kom að mér. Mitt hlutverk fólst í að fylgjast með bókhaldinu í spilinu og opna síðan allar dyr og flóttaleiðir í húsinu þegar útlit var fyrir að klóraðir yrðu hausar!
Ein jólin skera sig þó alveg sérstaklega úr í minningunni. Vinnsluminni mitt segir að þetta hafi verið jólin 1980 og ég því 16 ára gamall. Að vanda þurfti að sinna fjósverkum á aðfangadagskvöld og kom í hlut okkar bræðra, mín og Óskars Þórs, að sinna þeim. Þar sem lítið fer fyrir heita vatninu í krönum til sveita þurfti að hafa gott skipulag á böðunum heimilisfólks þannig að allir næðu að fá sitt heita jólabað áður en sest yrði að borðum. Það þurfti nefnilega að gæta þess að olíufíringin í húsinu hefði undan að framleiða heitt baðvatnið. Því fengu aðrir á heimilinu skipun um að ljúka sínum böðum í tíma þannig að heitt vatn yrði nægjanlegt þegar sveittir fjósamenn kæmu úr verkum. Fjóstíminn var harla venjulegur, framan af að minnsta kosti. Ég minnist þess þó að okkur bræðrum þótti tilhlýðilegt að gera vel við kýr og kindur á aðfangadagskvöld og gáfum gjarnan ríflega hey og kjarnfóður, svona til að skepnurnar fengju líka notið hátíðarinnar. Pabbi tók auðvitað eftir því að við fórum ekki alltaf nákvæmlega eftir nyt kúnna við fóðurgjöfina á jólanótt en skipti sér ekkert af því. Það að gera vel við skepnurnar í fóðurgjöf finnst mér að hafi verið einn jólasiðanna í verkunum á Jarðbrú og jafnvel kom fyrir að við systkinin brugðum á leik í fjósinu og pökkuðum fóðurblönduskömmtum inn í bréfpoka og létum síðan kúnum eftir að sleikja bréfið utan af fóðurblöndunni!
En aftur að þessum fræga mjaltatíma. Þegar mjaltir voru langt komnar tók ég til við að gefa hey og fór mikinn. Í fjósinu á Jarðbrú hagaði þannig til að fara þurfti eftir fóðurgangi í gegnum hurðagat milli gamla og nýja fjóss og af einhverjum ástæðum er gatið ekki sérlega hátt. Hæð mín hafði fram að þessu ekki verið vandamál, frekar en flestra annarra í minni ætt, en þegar ég geystist með eitt fangið úr hlöðunni brá svo við að ég rak mig harkalega upp undir í hurðargatinu og fleytti kellingar eftir jötunni fyrir framan kýrnar. Óskar var kominn fram í mjólkurhús að þvo mjaltatæki og engin urðu vitni að hinu undraverða slysi, nema kýrnar. Þær urðu eðlilega furðu lostnar á framferði jólabarnsins sem lagðist steinrotað í jötu og sá ekkert nema stjörnur, tígla og sólir! Ég rankaði við mér eftir stundarkorn þegar forvitin kúanef snösuðu af hrúgaldinu og þar sem ég hafði ekki ætlað mér að liggja í roti alla jólanóttina þá var ekki um annað að gera en harka af sér og koma heygjöfinni af. Ég fann að kúlan á hausnum stækkaði en ég ákvað að láta sem ekkert hefði í skorist. Hamaðist sem aldrei fyrr við heygjöfina og velti því fyrir mér hvort ég hefði virkilega stækkað svona mikið á þennan veginn á haustmánuðum í skólanum í Ólafsfirði! Mér fannst svitinn boga af mér en fékk staðfestingu á að eitthvað annað var á ferð niður andlitið á mér þegar Óskar kom úr mjólkurhúsinu. „Hvað er eiginlega að sjá þig drengur,“ sagði hann og um leið tók ég eftir að fjósgallinn var hægt og hægt að skipta um lit enda streymdi blóðið úr hausnum á mér. Nú varð uppi fótur og fit. Ég dreif mig strax í hús og Guðrún mágkona mín stjórnaði fyrstu aðgerðum á bráðamótttökunni. Foreldrar mínir komu í þennan mund úr jólamessu á Dalvík og þótti jólahaldið á Jarðbrúarheimilinu hafa tekið skyndilega vinkilbeygju á meðan þau brugðu sér af bæ. Héraðslæknirinn á Dalvík var rifinn frá jólarjúpunum og í símann en vildi gjarnan fá að ljúka rjúpunum áður en hann tæki til við að sauma saman hausinn á sveitapiltinum.“Haldið þið að hann lifi þetta ekki af á meðan ég borða jólasteikina,“ spurði Eggert læknir og boðaði sjúklinginn á stofu þegar hann hefði lokið rjúpum og eftirréttum.Borðhaldinu á Jarðbrú var nú frestað á meðan haus á mér yrði rimpaður saman. Á meðan mátti ég sitja undir háðsglósum um að það væri varla hægt að trúa því að ég hafi rekið mig upp undir og að ekki yrði fagur á mér skallinn þegar þar að kæmi! En enn sem komið er hefur hár mitt ekki lagt svo mikið á flótta að ummerkin eftir aðfangadagskvöldið forðum komi í ljós. Eggert læknir tók mér ljúfmannlega á læknastofunni og gekk frá 10 sporum í höfuðleðrið. Viðeigandi hippaband fékk ég um höfuðið og hef síðan ekki verið jafn framúrstefnulegur í útliti á jólanótt. Þegar heim á Jarðbrú var komið var tekið til við borðhald, þrátt fyrir að talsverð seinkun hafi orðið á. Því lauk áfallalaust, sem og uppvaski. Næsti leikur er öllum jólaunnendum kunnur en varla hafði heimilisfólkið sest niður við jólakortalestur og pakkaopnun þegar húsið varð almyrkvað. Gerður var út leiðangur í aðaltöfluna en út úr henni barst reykur og neistaflug. Við fullvissuðum okkur um að ekki væri laus eldur í töflunni en augljóst var að engu tauti varð við öryggi komið. Hér þurfti rafvirkja við og nú tók ég eftir að foreldrum mínum þótti orðið nóg um útköll iðnaðarmanna á Dalvík vegna óvæntra atburða á Jarðbrúarheimilinu. Við ákváðum að ljúka við jólapakka að mestu við kertaljós áður en hugað yrði að rafmagnsmálum. Þessu næst var hringt í Helga Indriða og hann sóttur til Dalvíkur til rafmagnstöfluviðgerða. Ekki sýndist mér illa liggja á Helga, frekar en fyrri daginn, og eftir að hafa tekið úr töflunni sviðin öryggi og leiðslur kom hann rafmagni á að nýju. Orð hafði rafvirkinn síðar á að þetta hafi verið með eftirminnilegri jólanóttum því ekki hafi hvarflað að honum að hann kæmist í sveitasæluna á sjálfa jólanótt. Helga hefur sennilega líkað heldur vel að finna hátíðleikann í sveitinni. Mig minnir að það hafi verið langt liðið á nótt þegar hefðbundinni dagskrá á aðfangadagskvöld lauk á Jarðbrúarheimilinu.
Þetta eru í mínum huga iðnaðarmannajólin á Jarðbrú – þegar á þurfti að halda bæði héraðslækni og rafvirkja til að komist yrði í gegnum jólahaldið. Svona viðburðir lifa eðlilega í minningunni og söguna um rothöggið í fjósinu get ég auðveldlega sannað – þegar ég fæ skalla!
Jóhann Ólafur Halldórsson frá Jarðbrú Svarfaðardal.
Jólaundirbúningur og jólahald á árum áður
Strax á imbrudögum hófst jólatiltektin með því að rokkar, laupar og lárar voru bornir úr baðstofu og geymdir á stofulofti fram yfir þrettándan, síðan var sópað niður og voru þá fram dregin rúm og kommóða ok kulkka tekin af vegg. Í þeirri sópun týndu margir húskrabbar og dordinglar lífi sínu og sáust þeir á hraða undanhaldi um öll gólf en voru eltir uppi og fjarlægðir skrokkarnir, og var þannig gengið um allan bæ og út í fjós og rangala og var öllu krabbasamfélagi sundrað í svip. Að því loknu var baðstofan þvegin hátt og lágt og eins rúmin, og allt hafurtask, sem þar var geymt borið út á hlað og hengt á snúrur og kenndi þar margra grasa. Þá voru gerðir þvottar miklir, öll brekán voru sett í potta og soðin í sápuvatni lútsterku og var á þeim degi allt til tínt fatakyns sem fylgdi í þá suðu og var keyta úr tunnu notuð til að spara sápu. Þvottasnúrur og stólpar voru urðuð í fataflækjum sem eins gátu verið af einhverjum óþekktum þjóðflokki sem væri að flytja búferlum. Í bænum voru bækur teknar fram go bronar úr einum stað í annan, rykslegnar og þurrkað yfir kjölinn, komu sumar þeirra upp úr koffortum og kistum til að taka þátt í jólahreingerningu og sýna á sér torkennilegt letur og lesmál.
Það var mikið sungið og glaðst við vinnuna á þessum dögum og á kvöldin, þegar konurnar bættu föt og brutu í stellingar, sat ég hnarreistur á kofforti og las upphátt úr Nújum kvöldvökum söguna „Jólabakstur í Engidal“. Þessi kvöld var gott að sofna út frá glöðum hugsunum í miðju myrkrinu sem grúfði yfir heiminum.
Jólaundirbúningnum var að mestu lokið á Þorláksmessu, þá var laufabrauðið skorið og steikt, kleinur og ástapungar, áður var lokið bökun á smákökum og tertum með sultutaui sem voru á stærð við Steinsbiblíu, en auk þess voru bakaðar margar jólakökur í litlum formum auk hveitibrauðs, pottbrauðin voru bökuð í hlóðaeldhúsi. Á aðfangadag var hangiketið soðið, og saltket í matinn þann dag soðið með, það þótti lostæti. Þegar við húskarlar komum frá útiverkum þessa daga drukkum við ilminn af réttunum í bæjardyrunum. Hvert handtak við það sem vinna þurfti átti sér stað og stund og því féll ekkert í gleymsku. Kertin voru steypt úr tólg í þrískiptum formi sem var til og flest til fatnaðar var heimagert…
Á aðfangadag jóla varð eftirvæntingin í blóðinu svo sterk að maður gekk hljóðlega um bæinn, það var rétt eins og von væri á sjálfum frelsaranum um kvöldið eða þá að María mey kæmi þarni í sinni fátækt og bæðist gistingar og ætti enn eftir að fæða guðsoninn. Í baðstofunni var ylur og ilmur, rúmin biðu uppbúin og nýþvegin, brekánin voru líkust blómabeði sem átti eftir að springa út en ofan á þeim lágu nærfötin og skyrturnar og sparifötin, en við rúmstokkinn voru svartir sauðskinnsskór með hvítum bryddingum og rósaleppum í og ofan á þeim flunkunýir sokkar brotnir á hæl…. Svo varð heilagt klukkan sex og settist þá hver á sitt rúm og gleðiblandin alvara fyllti baðstofuna því andrúmslofti sem samboðið er fæðingu mannkynsfræðarans inn í heim lifandi manna, og nú kom Gróa inn í baðstofuna með tvær bækur og gleraugun sín í hendinni, nóttin helga var gengin í garð.
Ég hafði oft heyrt föður minn lesa húslestur og hélt að enginn læsi betur en hann, en hún Gróa í Árnesi las með svo einstæðum hreim í rödd og svo sannfærandi að barnið í jötunni var hjá okkur í baðstofunni og ég var viss um að það væru englar fram um öll göng. Við sátum og hlustuðum af hug og hjarta á þennan undraverða hljóm orðanna sem settist að í huganum og hreinsaði mann af allri synd og gerði hjartaræturnar svo hlýjar og é sá það birti í baðstofunni.
Löngu seinna þegar ég fletti blöðum þessarar jólahugvekju í leit að þessu undraverða í lesmálinu þá fann ég að það var trúarvissa lesarans, hennar eigin kærleikur sem gerði hugvekjuna að guðsorði í Árnesbaðstofunni þetta aðfangadagskvöld. Að loknum lestri söng Gróa jólasálm og við tókum undir, „Heims um ból, helg eru jól“, og nú voru jólin komin og bauð hver öðrum gleðileg jól, en Gróu var þakkaður lesturinn af miklum innileik og ég sá að hún klökknaði smávegis og þá varð ég að snúa mér undan, ég var enn svo viðkvæmur í lund.
Úr bók Tryggva Emilssonar „Baráttan um brauðið“ – Vinnan 6. tbl. 1999
Epli og snjór í öllum bænum
Hann Júlli í Höfn er nútímamaður sem smíðar vefsíður í frístundum. Um leið er hann maður gamla tímans með áhuga á byggðasögu og siðum. Sigurbjörg Þrastardóttir heimsótti Jólavef Júlla, heimilislega tómstundavefinn sem opnaði fyrir ári og varð heimsþekktur á svipstundu. Dalvík er jólabær eins og þeir gerast sannastir. Þar deila jólasveinarnir út eplum í stað sælgætis, snjórinn kemur stundvíslega í nóvember og jólastjarnan á himninum er í boði Kaupfélagsins. Ja, kannski er ekki alveg hægt að treysta þessu með snjóinn, en öllu öðru má treysta og reyndar fleiru til, því Dalvíkingar eru duglegir við að halda í gamla siði og jafnvel brydda upp á nýjum. Svo áratugum skiptir hafa jólasveinar á grunnskólaaldri borið út jólapóstinn á aðfangadag, bæjarbúar flykkjast til fjölskylduföndurdags í byrjun aðventu og jólasveinarnir úr Böggvisstaðafjalli koma fram á svölum Kaupfélagshússins um miðjan desember við mikinn fögnuð viðstaddra.
Engin dádýr á Dalvík
Júlíus Júlíusson hefur öllum jólum ævi sinnar eytt á Dalvík. Hann er jólabarn að upplagi og er mikið í mun að viðhalda og varðveita hið sérstaka andrúmsloft sem setur svip á jólahaldið á Dalvík. „Hér hefur lengi verið öflugt félagslíf á ýmsum sviðum og félagvitund bæjarbúa er sterk. Það er eflaust þess vegna sem bæjarbúar eru samstiga í jólaundirbúningi og halda fast í gamla siði,“ segir Júlíus þegar spurt er um ástæður hópandans á jólaföstunni. Sjálfur segist hann fá jólafiðring strax í nóvember – að því tilskildu þó, að tíðin gefi tilefni til. „Snjórinn er lykilatriði. Ég segi ekki að jólin komi ekki ef jörð er auð, en það skapar allt öðruvísi stemmningu að sjá hvítt lag yfir bænum, á ákveðnum gömlum húsum og stöðum sem maður þekkir.“ Jólaskapið er þannig nátengt staðnum og Júlíus bætir því við að hann hafi saknað Dalvíkur þegar hann, eitt árið, eyddi aðventunni fyrir sunnan.
Nú hefur Júlíus tekið sig til og fært hluta hinnar dalvísku jólastemmningar inn á netið. Mánuði fyrir jólin í fyrra 1999, opnaði hann Jólavef Júlla og fékk hvorki fleiri né færri en 5200 heimsóknir á þremur vikum og hundruðbréfa. Vefurinn geymir jóladagatal með þrautum og sögum, myndir úr byggðarlaginu, endurminningar, jóla kveðjulista, krækjur í aðrar jólasíður og fleira. „Viðbrögðin voru ævintýraleg, miðað við að vefurinn var ekkert auglýstur. Ég sendi bara ábendingar um hann í tölvupósti og svo spurðistþetta út. Einhver sá og sagði öðrum, eins og gengur. Ég fékk tugi bréfa á dag, bæði svör við getraunum og þakkarbréf. Allir sem höfðu samband voru mjög jákvæðir – það verða jú allir svo kærleiksríkir um jólin – en þó var einn sem kom með kvörtun. Í bakgrunninum á aðalsíðunni voru nefni lega dádýramyndir og maðurinn benti mér á að það væru engin dádýr á Dalvík! Svo nú hef ég sett inn nýjarmyndir.“ Á vefnum í ár verða ýmsar nýjungar en einnig verður haldið áfram meðfasta þætti, svo sem minningar eldra fólks um bernskujólin nyrðra. „Ég hef nefnilega áhuga á því gamla og gömlum tíma. Í þessum lýsingum birtist gleði jólanna gjarnan þrátt fyrir fábrotin hátíðarhöld. Hlýja í litlu koti getur skapað meiri hátíðleika en ríki dæmi og gjafaflóð, því jólin eru jú fyrst og fremst tilfinning.“
Jólaseríur seldust upp
Á Jólavef Júlla í fyrra birtust jóla kveðjur frá fólki víða um land, sem og í útlöndum, þannig að með góðum vilja má halda því fram að vefurinn hafi orðið „heimsþekktur“. „Gestirnir á vefnum voru ekki endilega Dalvíkingar, enda er vefurinn öll um ætlaður. En sérstökustu við brögðin voru samt frá Dalvíkingum erlendis sem voru himinlifandi yfir að fá að fylgjast með. Þeir hefðu sennilega faðmað mig og kysst, hefðu þeir náð til mín. Svo vissi ég líka um Dalvíkinga sem voru við laufabrauðsgerð í Reykjavík og höfðu tölvuna við hliðina á sér á meðan brauðin voru skorin.“ Í ár hyggst Júlli í samstarfi við verslunina Elektro taka myndir í bæn um með reglulegu millibili og birta á vefnum, til þess að sýna þróunina í útiskreytingum eftir því sem á desember líður. Þannig geti fólk fylgst með því hvernig bæjarbragurinn breytist á aðventunni. Og hann viðurkennir að hafa lengi verið veikur fyrir ljósaskreytingum. „Sem gutti gerði ég mér að leik að fara um bæinn og telja aðventuljós. Þetta þróaðist svo út í eins konar fjölskyldusið, því þegar dóttir mín var yngri ókum við gjarnan um bæinn og töldum saman aðventuljósin. Þá athugaði ég líka í leiðinni hvernig skreytingum nágrannanna liði; hvort Toni í Lundi og Árni í Reykholti væru ekki örugglega búnir að setja upp sitt hefðbundna skraut, svo dæmi séu tekin. Ég var ekki í rónni fyrr en allt var komið á sinn stað.“ Svo var það árið 1996 að Júlíus tók það upp hjá sjálfum sér að efna til jólaskreytingasamkeppni meðal húsanna í bænum. „Mig langaði til þess að efla þennan þátt jólaundirbúningsins og það er skemmst frá því að segja að viðbrögð voru geysileg. Seríur seldust upp, bæði hér og í nágrannabyggðum. Jólaljósasalar á Akureyri vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið og spurðu hvað væri eiginlega að gerast inni á Dalvík! Það árið var sem sagt mikið skreytt, en þegar úrslit í keppninni voru tilkynnt, áttaði fólk sig á því að keppnin snerist ekki endilega um magn, heldur gæði. Við dæmum nefnilega eftir því hversu fallegar ljósaskreytingarnar eru, hversu vel þær fara við húsið og svo framvegis. Nú eru margir farnir að hanna eigin skreytingar á húsin sín og víða eru mjög vandaðar og smekklegar skreytingar fyrir jólin,“ segir Júlli, og á honum má skilja að þar með hafi tilgangnum með samkeppninni verið náð.
Með „kortin í sveinana“
Aðeins einu sinni á ævinni hefur Júlli misst af jólasveinunum á svölum Kaupfélagsins, föstum þætti í dalvískri aðventu. „Jólasveinarnir koma yfirleitt klukkan þrjú, en krakkarnir eru farnir að safnast saman undir svölunum upp úr hádegi. Mesti spenningurinn er falinn í því að sjá á hvaða farartæki sveinarnir koma, en þeir koma ýmist á sleðum, bát, vörubíl eða öðru sem verkast vill, eftir veðri og færð. Á svölunum syngja þeir og láta viðstadda syngja og koma svo niður og dreifa eplum. Og þetta eru langbestu epli sem maður fær – ég fæ vatn í munninn bara við að minnast á þau og ég fer ennþá niður á torg og fæ mér epli þótt ég ætti kannski að vera vaxinn upp úr því.“ Í bænum fara svo annars konar jólasveinar á kreik, en það eru grunnskólanemendur sem taka að sér að bera út jólakort bæjarbúa gegn vægri greiðslu. „Þetta kostar smá pening, en hann rennur allur til bókasafns skólans sem er orðið mjög gott. Það er örugglega jólapóstinum að þakka. Tekið er á móti póstinum í skólanum á Þorláksdag og er það kallað „að fara með kortin í sveinana“. Svo mæta krakkarnir sem leika jólasveinana á aðfangadag, búa sig í búninga og eru málaðir í framan áður en þeir bera út jólakortin sem skipta þúsundum.“ Jólasveinapóstur var fyrst borinn út á Dalvík árið 1938. Hugmyndina átti Ásgeir P. Sigurjónsson, kennari, sem nú er látinn en eftir hans dag hafa kennarar við Dalvíkurskóla við haldið siðnum í sjálfboðavinnu og aðstoðað börnin við móttöku og flokkun póstsins. Flest jólasveinaandlit hef ur Steingrímur Þorsteinsson málað í gegnum tíðina, en nú nýtur hann við það aðstoðar sonar síns og barna barns. „Þegar ég var lítill komu jólasvein arnir iðulega með ægilegum látum og börðu allt að utan þar til opnað var. Einu sinni brutu þeir meira að segja rúðu heima, en þeir hafa nú eitthvað mildast með árunum. Á hverju heimili er svo gaukað að þeim góðgæti og í lok dagsins eru pokar þeirra orðnir troðfullir af ýmiss konar góssi sem þeir rogast með heim. Sjálfur varð ég bara einu sinni svo frægur að leika jólasvein, en ég og mín fjölskylda pössum ennþá upp á að vera örugglega heima þegar von er á jólasveinunum með póstinn á aðfangadag,“ segir Júlli að endingu.
Þá er honum ekki lengur til setunnar boðið, enda bíður vefurinn þess að verða uppfærður svo jóladagatalið haldi dampi.
Júlíus Júlíusson
Viðtal úr jólablaði Morgunblaðsins 2000
( Birt með leyfi MBL )