Jólasögur
Álfar á jólanótt
Á bæ einum í Eyjafirði varð sá atburður hverja jólanótt þegar fólk fór til kirkju að sá sem heima var á bænum var á einhverja síðu illa útleikinn, dauður eða vitstola o. s. frv. Var það þá eina jólanótt að fólk fór til kirkju eftir vanda og var ekki eftir heima nema einn kvenmaður.
Svo um nóttina þegar fólkið var komið á stað settist konan við rúm sitt og fór að lesa í bók, en kertaljós brann þar á borði hjá henni. En þegar hún hafði þannig setið um stund komu þrjú börn inn á baðstofugólfið og fóru að leika sér; léku þau sér á marga vegu og færðu loksins leikinn upp á pallinn þar sem stúlkan sat og svo fóru þau að klifra upp um hana og leika sér við hana.
Hafði hún látið sem hún sæi þau ekki, en nú var hún blíð við þau og klappaði á hendurnar á þeim. Fóru þau þá að fitla í ljósið; tók hún þá kertið og skipti því í fjóra parta og kveikti á hverjum stúf, fékk svo sínu barni hvern kertispart, en hafði einn stúfinn sjálf. Urðu börnin þá mikið kát og hlupu burtu hvert með sitt ljós.
En að stundu liðinni kom inn kallmaður og settist hjá stúlkunni og var mikið blíður í bragði, en hún lét sem hún sæi hann ekki. Gjörðist hann þá frekari í ástartilraunum sínum. Varð hún þá alvarleg og sagði honum væri ekki til neins að fara þess á leit, „því ég sinni aldeilis ekki ástaratlotum þínum,“ mælti hún. Sneyptist hann þá og fór því næst í burtu.
En að stundu liðinni kom inn kona bláklædd og hélt á stokk undir hendinni; gekk hún að stúlkunni og mælti: „Litlu get ég nú launað þér fyrir það sem þú varst góð við börnin mín og ekki góð við manninn minn; samt svo ég sýni lit á því skaltu eiga fötin sem eru í stokknum þeim arna, en varastu nokkur viti hvernin á þeim stendur fyr en næstu jól eru liðin.“ Fékk hún stúlkunni þá stokkinn og fór þar eftir burtu.
Leið svo til þess fólkið kom frá kirkjunni. Urðu menn þá glaðir er þeir sáu stúlkuna glaða og heila á hófi, en engum sagði hún frá því sem fyrir hana bar. Leið svo tíðin til þess um sumarið. Einn þurrkdag þá breiddi stúlkan fötin úr stokknum út, en er bóndakonan sá fötin varð hún uppvæg af ágirnd á fötunum og spurði stúlkuna hvar hún hefði fengið þau. En hin kvað hana það engu skipta. Þóttist þá konan vita að hún hefði eignast þau um jólin.
Og um næstu jól þegar fólk fór til kirkju sagði bóndakona að hún ætlar að vera heima. Þókti bónda það illa og vildi hún færi með sér, en hún kvaðst heima vera og hlaut svo að standa. Fór síðan allt fólk til kirkju á jólanóttina utan bóndakona var heima. Sat hún þá inni og las í bók og hafði hjá sér kertaljós. Komu þá þrjú börn inn á gólfið og fóru að leika sér, en er þau höfðu leikið sér þar um stund færðu þau leikinn upp til konunnar og léku sem áður; varð hún þá úfin við og hastaði á þau, en þau héldu áfram og fóru að fitla í ljósið; gerði þá konan sér alvöru, tók vönd og flengdi börnin. Hlupu þau þá grátandi í burtu.
En að stundu liðinni kom inn maður og settist hjá konunni hýr í viðmóti; var hún engu síður blíð við hann og lét hann mótmælalaust fá öll þau ástaratlot er hann vildi. En er þau höfðu leikið sem þau lysti fór hann burtu, og brátt kom inn kona, gekk að bóndakonu og tók í hönd henni og mælti: „Er þetta ekki hendin sem þú flengdir börnin mín með og klappaðir manninum mínum?“ Gat hin þá ekki borið það af sér. Mælti þá sú aðkomna: „Það legg ég á að þessi hönd skal visna og þér að bana verða. Skalt þú hafa það fyrir illsku þína.“ Síðan fór hún burtu, en konan beið þess að fólkið kom frá kirkjunni. Hafði hún þá fengið vanheilsu og var hendin orðin afllaus. Sagði hún þá frá því er fyrir hana bar um nóttina. Sagði þá og vinnukonan frá því er fram við hana kom hina fyrri jólanótt og sýndi þá fötin og vóru það kvenföt og svo góð að menn þóktust valla hafa séð svo góð klæði, og naut hún þeirra vel og lengi, en vanheilsa konunnar fór í vöxt þar til hún dó af því um síðir.
Jólanótt í Kasthvammi
Það skeði einhverju sinni að Hvammi í Laxárdal á þeim tímum sem messur tíðkuðust á jólanætur að maður sem heima var þar eftir hvarf á jólanótt, og fór svo tvær jólanætur, en þriðju jólanótt vildi enginn vera heima nema einn sem bauð sig fram til þess.
Þegar nú fólkið var í burtu farið tók hann sér góða bók og las í henni þar til hann heyrði einhvern umgang frammi í bænum; þá slökkur hann ljósið og getur troðið sér milli þils og veggjar. Síðan færist nú þruskið inn að baðstofunni og gjörist nú æ ógnarlegra, skraf og háreysti, og þegar það er komið inn í baðstofu gaufar það í hvert horn og verður þá glaðværð mikil er það kemst að raun um að enginn muni vera heima.
Kveikir það þá ljós, setur borð á mitt gólf, breiðir á dúk og ber á alls konar skrautbúnað og óútsegjanlegar dýrindiskrásir. Þegar best stóð nú á borðhaldinu stökk maðurinn undan þilinu og þá tók huldufólkið fjarskalegt viðbragð undan borðum út, og út og upp á heiði og beina stefnu að Nykursskál (það er stór kvos sunnan og austan í Geitafellshnjúk).
Þetta fer maðurinn allt á eftir, en þarna hverfur honum fólkið í klappir. En hann fer heim og sest að leifunum á borðinu, og bar ekki á neinu illu á jólanætur upp frá því. Eftir þetta var bærinn kallaður Kasthvammur af því ógnarlega kasti sem huldufólkið tók frá krásaborðinu. Öðruvísi segja aðrir: Þegar fólkið stóð frá borðinu varð á eftir madama nokkur tigugleg. Hún hafði yfir sér grænt silkikast og náði maðurinn í það og reif úr því eða konan kastaði því af sér, og fyrir þetta er bærinn kallaður Kasthvammur. Silki þetta var lengi síðan brúkað fyrir altarisklæði í Þverárkirkju.
Tvær jólanætur
Það var á bæ einum að allt fólk fór til messu á jólanótt nema vinnukona ein var heima. Þegar hún hafði aflokið heimastörfum settist hún á rúm sitt og kveikti kertaljós og fór að lesa í bók.Stundu seinna komu tvö börn inn í baðstofu og léku sér, seinast lögðu þau hendur á skaut kvenmanninum, en hún tók kertið sitt og skipti því í þrjá hluti og gaf sinn þriðjung hverju barni, en átti sjálf einn.
Þá hýrnaði yfir börnunum og hlupu þau því næst í burtu. Skömmu síðar kom maður á kjól inn í baðstofuna; hann heilsaði blíðlega kvenmanninum og vildi fá hana til fylgilags með sér, en þess var engi kostur; fór hann þá í burtu við svo búið. Því næst kom inn til hennar kona; hún kvaddi hana og þakkaði henni fyrir börnin sín. Tók hún upp hjá sér rautt klæði og sagðist vilja gefa henni það fyrir börnin sín og fyrir það hún vildi ekki þýðast manninn sem til hennar hefði komið. Því næst gekk hún í burtu.
Þegar heimilisfólkið kom heim frá kirkjunni þá sá konan (húsmóðirin) pilsefnið hjá vinnukonu og öfundaði hana af því. Grófst hún vandlega eftir hvernig hún hefði fengið það, en vinnukona vildi eigi segja frá því.
Leið svo fram að jólum veturinn eftir að ekkert bar til tíðinda. Húsmóðirin lét allt fólk fara til kirkju, en var sjálf heima. Þegar hún hafði aflokið heimastörfum sínum settist hún upp á rúm með ljós og fór að lesa í bók.
Þá komu börnin sem fyr og léku sér á pallinum, en þegar þau lögðu hendur á skaut henni flengdi hún á þær, en börnin hlupu burtu grátandi.
Nú kom kjólmaðurinn til hennar og heilsaði hann henni blíðlega og mæltist til þess sama við hana og við vinnukonuna. Hugsaði hún þá að þessi maður hefði gefið vinnukonunni pilsefnið og varð strax við bón hans. Síðan fór hann í burtu.
Þá kom konan til hennar og tók í hægri hendina á henni og sagði að hún mundi hafa flengt börnin sín með henni og klappað manninum sínum, og lagði hún það á hana að hún skyldi í henni aldrei jafngóð verða og fór svo burtu, en konan mis
Álfadrottning í álögum
Saga af álfkonu sem átti kónginn er önnur vildi eiga og lagði það á hana að hún skyldi aldrei una hjá honum nema hvorja jólanótt fyrr en mennskur maður kæmi þeim saman án beggja hjónanna tilstuðlunar.
Álfkonan fer því þar til hún finnur mennskan mann er bjó ógiftur einhvorstaðar. Honum virðist hún allkvenleg og býður henni vist með sér, og það þiggur hún og verður bústýra hjá honum, en ekki vill hún nánari sambúð við hann.
Að næstkomandi jólum fara allir til kirkju nema bústýran sem segir sér sé óglatt, en daginn eftir þegar fólkið kemur frá kirkju er hún alhraust og allt vel um búið. Þegar önnur jól koma fer allt á sömu leið.
Þegar líður að þriðju jólum kemur vinnumanni bóndans í hug að forvitnast um hvað því valdi að bústýra fari ei til kirkju á jólum sem annað fólk eða að hún skuli krenkjast framar en alla tíma aðra.
Þegar þessi þriðju jól koma fer vinnumaður af stað til kirkju með hinu fólkinu eftir vanda, en þykist krenkjast á leiðinni og snýr heim aftur, tekur sér hulinhjálm og gætir nú að háttsemi bústýrunnar.
Hann sér að hún býr sig nú betur en nokkurn tíma áður, tekur dúk undir hönd sér og gengur þar til hún kemur að móðu eða vatni, breiðir út dúkinn, kastar honum á móðuna og fer þar út á.
Vinnumaðurinn sem veitir henni eftirför fer á dúkinn líka án hennar vitundar. Þau fara svo gegnum móðuna þar til þau koma að landi hvar fagurt er um að líta. Þau koma þá að höll hvar veisla er tilbúin og þar eru tvö börn að leika sér, að hvörjum álfkonan lætur mjög móðurlega og ljær þeim fingurgull sitt.
Vinnumaðurinn tekur það af börnunum; er þá farið að leita að því, en það finnst ekki. Líka tekur hann rif af matborðinu og gyllt silfurstaup sem kóngur drakk af meðan hann var við horðið. Lofar nú kóngur þeim öllu er sá vilji æskja er geti fundið þessa hluti.
Á jóladagsmorguninn fer álfkona sama veg burtu og vinnumaðurinn eftir henni, og er búin að hagræða öllu heima þá fólkið kemur frá kirkjunni. Nokkru síðar fer vinnumaðurinn að sýna henni það sem horfið hafði í álfheimi og þekkir hún það. Verður það þá meðal til ásthylli kóngs við hana að maðurinn fer með henni og til kóngs og sannar að hún hafi ekki verið völd í þessu og lýsir trúskap hennar og hollustu, en hún launar vinnumanni atvik sín.
Huldufólksdansinn
Það var siður í gamla daga að haldinn var aftansöngur á jólanóttina; sóttu þangað allir þeir sem gátu því við komið, en þó var ávallt einhver eftir heima til þess að gæta bæjarins. Urðu smalamenn oftast fyrir því, því að þeir urðu að gegna fjárgeymslu þá eins og endrarnær. Höfðu þeir sjaldan lokið við gegningar þegar kirkjutími kom og voru því eftir heima.
Á einum bæ er svo frá sagt að þessi siður var eins og annars staðar, að fólk fór allt til kirkju nema smalamaður; hann var einn heima. En þegar fólkið kom heim frá kirkjunni var smalamaður horfinn; var hans leitað, en hann fannst aldrei.
Bóndi réð þá til sín annan smalamann. Leið nú fram til næstu jóla. Fólkið fór til kirkju eins og vant var, en smalamaður varð eftir. En um morguninn var hann horfinn. Eins fór um hinn þriðja smala sem bóndi tók, að hann hvarf. Fór nú þetta að berast út og vildu fáir verða til að vistast til hans fyrir smala. Var bóndi nú orðinn úrkula vonar um að hann mundi fá nokkurn því að þá voru komin sumarmál og flestir búnir að vista sig.
Einn dag kom maður nokkur rösklegur til bónda og spurði hann hvort hann vantaði smalamann, sagðist vilja fá vist og hefði sér verið vísað til hans; sagði hann að sér væri lagin fjárgæsla, því að við það hefði hann verið hafður. Bóndi tók fegins hendi boðum hans, en sagði honum þó að vandhæfi væri á vistinni því þrír smalar er hann hefði haft undanfarandi hefðu farist á jólanóttina og enginn vitað hvað af þeim hefði orðið. Komumaður sagði að einhver ráð yrðu til að komast hjá því þegar þar að kæmi.
Tók nú smalamaður við starfa sínum; kom hann sér vel við alla því að hann var ötull og kunni vel að verki sínu. Liðu nú fram tímar og fram að jólum; fór þá fólk allt til kirkju eftir vanda því að smalamaður sagðist einn vilja gæta bæjar.
Þegar fólkið var farið gjörir hann sér gröf ofan í gólfið undir loftinu svo djúpa að hann geti verið þar niðri í; síðan refti hann yfir, en hafði smugu eina litla svo að hann gat séð allt hvað fram fór inni.
Ekki var hann búinn að liggja þar lengi áður tveir piltar vel búnir koma inn. Þeir skyggnast um alla króka, en þegar þeir voru búnir að leita lengi sögðu þeir sín á milli að þar væri enginn maður heima. Síðan fóru þeir út aftur, en þegar lítil stund var liðin komu þeir inn aftur og báru á milli sín burðarstól; var í honum maður einn gamall og grár af hærum. Þeir settu stólinn á gólfið innanvert.
Síðan kom inn fjöldi fólks; voru allir þar mjög fagurlega búnir og að öllu hinir prúðmannlegustu. Síðan voru sett fram borð og matur á borinn; voru öll áhöld úr silfri og að öllu mjög vönduð. Settust síðan allir að dýrlegri veislu. Hinn gamli maður hafði hefðarsætið á meðal þeirra er til borðsins sátu. Síðan voru borð upp tekin og maturinn borinn burtu og öll áhöldin. Var þá setst að drykkju og síðan var farið að dansa og gekk það langt fram á nótt.
Einn maður var þar unglegur; sá var mjög skrautlega búinn; hann var á hárauðum kjól. Smalamanni virtist hann vera sonur hins gamla manns því hann var virður næst honum. Einu sinni þegar hinn rauðklædda mann bar að gryfjunni greip smalamaður hníf sem hann hafði hjá sér og skar lafið af kjólnum og geymdi hjá sér.
Þegar leið undir dag fór fólkið að fara burtu. Tóku hinir sömu gamla manninn og báru hann burtu. Litlu síðar kom fólkið heim; varð bóndi mjög glaður er hann sá smalamann lifandi. Smalamaður sagði nú allt eins og farið hafði og sýndi kjóllafið til sannindamerkis, en aldrei varð þar síðan vart við neitt þess konar og þóttust menn vita að huldufólk þetta mundi hafa banað smölunum vegna þess að það hefði eigi viljað láta þá vita hvað það hefðist að.
Huldukonan mállausa
Eitt sinn fannst kona út á skógi er ekki var mennsk, heldur álfakyns og talaði ekki orð við neinn mann. Hún var á einum bæ á Suðurlandi um veturinn og var ófáanleg til að fara nokkurn tíma til kirkju.
Eina jólanótt fór allt til kirkju nema hún, en smalanum varð illt á leiðinni svo hann sneri aftur, en þegar huldukonan var húin að gjöra allt sem hún þurfti bjó hún sig og gekk á stað og smalinn á eftir, en sem hún kom að jarðfalli einu lagði hún þar dúk er hún sté á og smalinn einnig.
Gengu þau svo þar til þau komu í undirgang einn og gengu eftir honum þangað til þau komu að húsaþorpi, þar var margt fólk að ríða til kirkju, og linntu þau ei fyrr en þau komu að kirkjudyrunum. Kom þá maður og börn og margar konur og var ein meðal þeirra með barn er huldukonan tók við og fór með inn í kirkjuna, en um messuna fór barn hennar að hljóða og varð rétt óhuggandi þar til konan tók hringinn af hendi sinni og léði því. En þegar það var búið að leika sér stundarkorn missti það hringinn á kirkjugólfið, en smalinn sem var í hulinshjálmi tók hringinn.
Og síðan var messunni lokið og fólkið kvaddi hana með mestu virktum og þó skjótlega, en hún fór á stað og smalinn fylgdist með henni svo hún vissi ekki af, og las hún sig áfram á dúknum. Og er þau voru rétt nýkomin heim kom fólkið frá kirkjunni, en þegar allir voru heim komnir segir húsbóndinn því hún vilji ei til kirkju fara. Álfkonan svarar engu heldur en fyrri því hún mátti eigi mæla.
Þá segir smalinn hún hafi heyrt eins góða messu eins og það í nótt. Þá segir álfkonan hvert hann geti sannað það. Sýnir hann þá hringinn til sannindamerkis, en hún gleðst mjög og segir að það sé kona í híbýlum hennar sem hafi lagt á sig að hún skyldi fara til mennskra manna og ekkert orð geta talað fyrr en það kæmist upp hvernig á henni stæði, en leyft hefði sér verið að koma til álfa þrjár jólanætur. En ef það kæmist ekki upp þá þriðju skyldi hún aldrei geta burt komist né við menn mælt.
Síðan kvaddi huldukonan allt fólkið og sagði smalanum að hann skyldi koma að jarðfallinu næsta morgun og þar yrðu tveir sekkir, annar fullur með gull, hinn með silfur. Og þetta reyndist svo sem hún sagt hafði, og lýkur þar sögunni.
(Þjóðsagnasafn Jón Árnasonar – Netútgáfan)
Besta jólagöfin
Jólin voru að ganga í garð.Halli litli var kominn í sparifötin og beið nú jólagleðinnar. Hann gekk inn til ömmu sinnar. Þar ætlaði hann að stytta sér stundir, meðan jólamaturinn var borinn á borð. Mamma og pabbi voru búin að raða jólagjöfum umhverfis jólatréð í betri stofunni. Jólabögglarnir voru marglitir og skrautlegir. Halli var óþreyjufullur. Hann var vanur að fá margar jólagjafir, en nú var eftir að vita hvað hann hlyti að þessu sinni. Það var best að dveljast hjá ömmu um stund. Hún var vís til að segja honum sögu, en þær kunni hún margar og sagði þannig frá að unun var á að hlýða. Hún kunni vel þá list að segja sögu. Amma Halla sat í stólnum sínum og prjónaði. Hún réri fram í gráðið. Hún var blind, eldur augnanna horfinn, en það var eins og hún ætti innri augu sem greindu þá hluti, er öðrum voru huldir. Æviárin höfðu rist rúnir í svip hennar. Löng og hörð lífsbarátta hafði gefið henni minningar , sumar daprar, en einnig aðrar , sem voru henni ljós í myrkrinu og vermdu hana á ævikvöldi. Halli brosti til ömmu sinnar. Hún faðmaði hann að sér og faldi smáar hendur hans milli lófa sinna. Varmi og atlot þreyttra og hrukkóttra handa veittu drengnum ró og innri hlýju. “ Ertu nú kominn blessaður stúfurinn minn?“ „Já amma mín viltu segja mér sögu ? Mér finnst tíminn svo lengi að líða. Ég hlakka svo til að fá jólagjafirnar og ganga í kringum jólatréð“. „Jú litli vinur ég skal gjarnan gera það “ En eitt verður þú að muna. Þótt jólagjafirnar þínar séu góðar, þá mega þær ekki verða til þess, að þú gleymir öðrum, en munir aðeins eftir þér sjálfum.Þær mega aldrei verða svo margar, að þú kunnir að hætta að meta þær. Gleymdu því aldrei að besta jólagjöfin sem mennirnir hafa eignast, er lítið barn, sem lagt var í jötu, af því ekki var rúm fyrir það í gistihúsinu:“ Svo hóf gamla konan söguna. “ Þegar ég var lítil stúlka, átti ég heima í sveit.Ég hlakkaði til jólanna eins og þú.Sérstaklega eru mér minnistæð jólin, sem ég nú ætla að segja frá: Frost og snjókoma hafði verið um langan tíma. Þá voru ekki miðstöðvar eða rafmagn til þess að hita upp húsin. Ylurinn frá eldavélinni, sem kynt var með sverði , hrísi eða moði frá gripunum var ekki nægur til að sigrast á kuldanum. Svo þurfti líka að spara eldiviðinn. Það logaði ekki eldur nema nokkurn hluta dagsins. Oft var því kalt og ónotalegt. Ég man líka, að hendur mínar voru bólgnar og rauðar. Kuldabólgan sagði til sín Nokkrum dögum fyrir jól veiktist Nonni litli, bróðir minn. Honum versnaði með hverjum degi , sem leið.Pabbi varð að brjótast í næstu sveit eftir lækni hvað sem það kostaði . Við vorum aðeins fjögur á heimilinu, mamma og pabbi, ég og litli bróðir á öðru ári. Pabbi átti því illa heimangengt á þessum tíma árs , þegar allar skepnur voru á gjöf. Langt var til næstu bæja og enga hjálp þar að fá, því karlmenn voru margir í kaupstaðarferð fyrir jólin. En nú var ekki um annað að ræða en að pabbi færi að sækja lækninn. Litli bróðir varð að fá hjálp ef mögulegt var Í bernsku minni þekktust ekki aðrar jólagjafir en einhver þörf flík. Ég fékk oftast nýja ullarsokka og brydda skó og þótti mikið til koma, var glöð og ánægð. Nú vissi ég, að mamma gat ekki lokið þessum kærkomnu jólagjöfum vegna veikinda Nonna litla. Ég forðaðist að hugsa um þau vonbrigði, en bað þess heitt og innilega, að litli bróðir fengi að lifa. í þeirri bæn gelymdi ég öllum erfiðleikum mínum. Ég gekk inn í svefnherbergið til mömmu. Það logaði á stóra lampanum í einu horninu. Mamma kraup við rúmstokkinn og hlúði að Nonna litla . Það var þung raun að sjá kvaladrættina í andlitinu og hlusta á kvein hans. Mamma sagði ekki neitt , en það blikuðu tár í augum hennar . Við vonuðum, að pabbi kæmi sem fyrst með lækninn þrátt fyrir veðurofsann. Ég kraup við hlið mömmu. Við grétum báðar við hvílu litla bróður. Tár okkar vættu heitar hendur hans. Bænin í saklausum augum barnsins gekk okkur til hjarta. Stormurinn hvein úti . Nóttin var myrk.—–Loksins loksins hrikti í bæjarhurðinni. Ég hentist fram og opnaði dyrnar. Inn úr dyrunum reikuðu tvær klökugar og fannbarðar verur, líkari ófreskjum en mennskum mönnum Það var pabbi og læknirinn.— Aðfangadagur jóla var kominn Læknirinn og pabbi höfðu vakað alla nóttina. Þau höfðu sameiginlega gert allt, sem í þeirra valdi stóð til þess að hjálpa litla bróður. Þessa nótt áttu þau aðeins eina ósk,óskina, sem fólst í bæninni um sigur lífsins. Ég hafði oltið útaf í rúmi mínu í öllum fötum og vaknaði ekki fyrr en með birtu. Jólahátíðin var komin. Pabbi og læknirinn röbbuðu saman. Mamma tendraði jólaljósin með bros á vör. Ég sat við rúm Nonna litla. Hann hreyfði sig ofurlítið og opnaði augun. Hann starði á mig um stund. Fagurt bros breiddist yfir andlitið.Þetta bros er fegursta og besta jólagjöfin, sem ég hef eignast um ævina.
Jólagesturinn
„Amma kemur ! Amma kemur!“ Þannig hrópuðu börnin hvert í kapp við annað.“Komið þið sæl blessuð börnin mín!“. Velkomin , amma svöruðu börnin einum rómi. Þegar amma var kominn inn og sest í hægindastólinn, báðu börnin hana að segja sér ævintýri. Amma setti minnsta drenginn á hné sér og hóf mál sitt: „Já nú eru jólin komin aftur, litlu vinir. Og það undraverða við jólin er það að þau fylgja okkur alla ævi, eins og gyllt ævintýrabók, sem engan endi hefur, því að á hverjum jólum bæta jólaenglarnir nýjum blöðum við, svo að ævintýrabókin verður að síðustu þykkri en bíblían á altari kirkjunnar . Hérna þagnaði amma andartak, eins og hún væri að hugsa sig um. „Hvaða ævintýri viljið þið svo heyra í kvöld, kæru börn ? Um álfinn sem drukknaði í hrísgrjónagrautnum ? Eða prinsessuna, sem varð drottning í Hamingjulandi ?“ „Eitthvað um pabba, þegar hann var lítill“, sagði Stína. „Já um pabba“, sögðu börnin einum rómi. Amma brosti. „Já í kvöld skuluð þið fá að heyra um það, þegar pabbi ykkar villtist í snjóhríðinni og var nærri orðinn úti“. Á þeim árum snjóaði oft miklu meira en nú. Ekki aðeins nokkra daga, heldur vikur og mánuði samfleytt. Þá voru skaflarnir orðnir svo stórir, að húsin voru komin á kaf. Þannig var það þetta aðfangadagskvöld. Klukkan var farin að ganga sex, og úti var snjóhríðin svo dimm, að óratandi var milli bæja. En okkur leið vel inni og vorum önnum kafin við undirbúning hátíðarinnar. Afi ykkar var að enda við að skreyta jólatréð í stofunni og undir neðstu greinunum voru gjafirnar geymdar eins og þá var venja“. „Já en þú ætlaðir að segja okkur frá pabba“ , sagði Stína. Og amma sagði ………..Þessarar bókar skuluð þið gæta vel, börn, því að hún er eitt af því dýrmætasta, sem við flytjum með okkur á okkar löngu ferð gegnum lífið. Hvert aðfangadagskvöld þegar kirkjuklukkurnar hringja og ljósin loga á jólatrénu, þá fá jólaenglarnir nóg að gera.Þúsundir af fagnandi og vonglöðum mönnum rétta þeim hvít óskrifuð blöð og biðja þá um að mála á þau fögur jólaævintýri. Og jólaenglarnir mála………. Hérna þagnaði amma andartak. Og amma sagði frá, hvernig þau mitt í önnunum fengu nýtt umhugsunarefni. Helgi litli var horfinn. Strax var leitað um allt í kjallaranum, á loftinu, í hlöðunni en hvergi fannst drengurinn. Þá var kveikt á fjósluktunum og menn af næstu bæjum fengnir til að leita. Þeir dreifðu sér í smáhópum yfir snævi þakta jörðina, þar sem jólastormurinn þyrlaði upp snjónum. Þeir leituðu klukkustundum saman, og sneru þreyttir og vonlausir heim aftur. “ Já en hvar var pabbi þá?“ „Já hvar var hann ? meðan leitarmennirnir lýstu með ljóskerjum yfir snjóþaktar breiðurnar en þeir, sem inni voru, töldu mínúturnar og biðu fullir örvæntingar, þá braust lítill drengur móti hinum kalda austanstormi, svo hann sveið í eyrun. hann hafði gleymt að kaupa jólagjöf handa pabba sínum . Og jólagleðin, góðu börn, er nú ekki bundin við það, að fá gjafir, heldur einnig að gefa.Og þegar hann allt í einu áttaði sig á því, að hann einn hafði ekki hugsað fyrir neinni jólagjöf handa pabba sínum, þá fékkst hann ekkert um veðrið heldur fór út í snjóbylinn, með tveggja króna pening í annari hendinni og stefndi á búð kaupmannsins En kaupmaðurinn var búinn að loka búðinni. Svo litli anginn með peninginn í hendinni sneri heim aftur í þungu skapi. En litli drengurinn villtist, og vissi ekkert hvert hann fór og sat við og við fastur í sköflunum. En hann var ekki einn úti í vetrarnóttinni. Lítill spörfugl var í fylgd með honum. Einn af boðberum drottins, sem alltaf koma, þegar einhver mannssál ráfar ein í myrkri. Hann heyrði tísta við vegbrúnina og tók hann upp með skjálfandi höndunum.Fuglinn var lítill villtur, heimilislaus aumingji, eins og hann sjálfur sem þráði að komast í skjól. Þannig fylgdust drengurinn og fuglinn að í hinni köldu vetranótt og urðu vinir. Hann fann litla hjartað fuglsins slá af hræðslu undir hinu fiðurklædda brjósti. Og samstundis gleymdi hann, að hann sjálfur var að villast í snjóhríðinni og myrkrinu.Honum fannst syngja í kringum sig ósýnilegir herskarar af englum. Snjókornin urðu að álfum og gæfudísum, sem hjálpuðu honum móti veðrinu. Annað hjarta sló í takt við hans eigið og gaf honum kjark til að berjast áfram. !Og hvað svo amma ?“ „Já hvað svo. Það fór hér, kæru börn, eins og svo oft í lífinu, þegar við gleymum okkar eigin þjáningum vegna annara, þá kveikir drottinn á stjörnum sínum hinni myrku nótt, og leiðir okkur heim, þó að við höfum villst“. „Funduð þið hann svo, amma ?“ Já hann fannst. Ajax fann hann. Góði trygglyndi hundurinn okkar, sem pabbi ykkar hafði oft leikið sér við. Hann vildi ekki hætta að leita, hvernig sem kallað var á hann, fyrr en hann fann litla drenginn, sem var lagstur fyrir dauðuppgefinn í einn skaflinn, en hélt fuglinum uppi við brjóstið. Svo héldum við jólin . Gæsasteikin var brunnin og hrísgrjónagrauturinn sangur, en það gerði ekkert til? Jólin eru þó ekki bara matur. „En litli fuglinn ?“ Litli fuglinn var besta jólagjöfin, sem pabbi ykkar fékk það ár. Hann svaf í búri við rúm hans á nóttunni og vakti hann á morgnana með sínu unaðslega kvaki. Og þegar vorið kom og sólin sendi ylríka geisla sína yfir jörðina, þá flaug hann frjáls út í sólskinið, upp á móti hinum blá himni og þakkaði fyrir lífið og ljósið með unaðslegu kvaki. Og nú er víst búið að kveikja á jólatrénu, enda er sögunni lokið.
Þýtt.
Ungliðadeildirnar
Það ríkti mikil tilhlökkun meðal barnanna í Ungliðadeildunum. Fyrsta desmber átti að fara fram fánhylling á leikvelli skólans í tilefni dagsins. Þá ætluðu ungliðadeildirnar einnig að halda sameiginlegan fund til þess að ræða um jólagjafir frá deildunum til sjúklinga á sjúkrahúsum og aldursforseta kauptúnsins. Fyrir hádegi fyrsta desember komu börnin saman við skólann. Flest þeirra voru með lítinn, íslenskan fána á stöng. Piltur og stúlka drógu íslenska fánann að hún á flaggstöng skólans. Fjallkonan, lítil stúlka í þjóðbúningi , flutti kvæðið, Til fánans, sem Einar Benediktsson orti um bláhvíta fánann. Eftir hádegi héldu börnin fund í samkomusal skólans. Í öðrum enda salarins var var stórt borð skreytt blómum með merki rauða krossins og íslenska fánanum á stöng. Öll börnin höfðu hvíta húfu og hvítan borða með rauðum krossi um arm..Stjórn deildanna tók sér sæti við borðið. Formaður var fundarstjóri Hann setti fundinn með stuttri ræðu og stjórnaði almennum söng á eftir. Því næst var lesin upp fundargerð síðasta fundar. Þar hafði margt verið til fróðleiks og skemmtunar:frásögn skólastjóra um stofnun og starf Rauðakrossins, þá var tekið fyrir aðalmálefni fundarins jólagjafir til sjúklinga og aldursforseta kauptúnsins. Eftir nokkrar umræður var samþykkt tillaga þess efnis að kjósa fimm manna nefnd til þess að sjá um jólagjafir í samræmi vil vilja fundarins.Féhirðir deildarinnar gaf þær upplýsingar að fjárhagur deildarinnar væri óvenju góður. Sumardag fyrsta síðastliðinn höfðu deildirnar fagnað sumri að vanda með því að fara í skrúðgöngu um kauptúnið og halda skemmtun fyrir almenning í samkomuhúsi kauptúnsins til ágóða fyrir deildina. Næstu daga var nefndin sem átti að sjá um jólagjafirnar í miklum önnum. Hún þurfti að ákveða gjafirnar, pakka þeim inn og koma þeim í póst. Einnig þurfti hún að skrifa á jólakort, sem börnin teiknuðu, með hverjum pakka. Nefndin fór margar ferðir í verslanir kauptúnsins Það var mikill vandi að velja og hafna. Margs þurfti að gæta. Það varð að taka tillit til verðs og gæða. Gjafirnar urðu að vera smekklegar og sem best við hæfi hvers og eins. Nefndin lét börnin í deildunum fylgjast með kaupum og ákvörðunum.Samstarf nemenda um þetta verkefni hafði áhrif á andrúmsloftið í skólanum. Börnin voru venju fremur vinsamleg í umgengni hvert við annað, tillitsöm og hjálpfús. Þau reyndu auðsjáanlega að setja sig í spor þeirra, sem ekki gátu haldið jól heima, en urðu að dveljast sjúkir og fjarri vinum og vandamönnum. Jólin nálguðust. dagarnir liðu hver af öðrum, og loksins kom aðfangadagur, en þá ætlaði nefndin að færa aldursforseta kauptúnsins jólagjöfina Aldursforsetinn að þessu sinni var var kona á níræðisaldri . Hún var ekkja og bjó hjá syni sínum í litlu húsi í útjaðri kauptúnsins. heimili hennar var fátæklegt, en hreinlegt. Hún var orðlögð fyrir hógværð og háttprýði. Hjálpsöm var hún við menn og málleysingja. Þegar snjór var yfir öllu á vetrum, mátti oft sjá mergð snjótittlinga í garðinum fyrir utan húsið hennar. Það var henni unun í ellinni að gefa þeim korn daglega. Nærvera þessara litlu vina gaf henni hlutdeild í þeirri gleði, er sá einn þekkir, sem veitir öðrum hjálp í neyð. Nefndin frá ungliðadeildinni drap á dyr. Gamla konan opnaði hurðina. Hún var broshýr og hlý í viðmóti. Kannski grunaði hana eitthvað ? Börnin afhentu henni jólagjöfina með viðeigandi formála , sem var fyrir fram hugsaður og ákveðinn. þau báðu hana að opna ekki pakkann fyrr en um kvöldið. Gamla konan klökknaði og þakkaði þeim innilega hugulsemina. Hún bauð þeim inn í herbergið sitt, og þar ræddi hún við þau um stund.Hún sagði þeim frá jólunum, þegar hún var barn. margt hafði breyst, en alltaf veittu jólin birtu og yl og snertu viðkvæma strengi í brjóstum mannanna. Börnin kvöddu og héldu heim. Þeim bjó sönn jólagleði í hjarta. Gamla konan opnaði jólapakkann um kvöldið. Hún sat með hann í kjöltu sinni og lét hugann reika. Tár blikuðu á augum. Þrátt fyrir nær öld að baki var hún enn barn á jólunum.
Jólanóttin
Nóttin helga fór í hönd. Áliðið var aðfangadagsins: kirkjukertin horfin og komin út í Sólheimakirkju. Búið að senda kerti og ýmsar jólagjafir víðsvegar til fátæklinga. Aðeins einn jólagestur sat eftir af öllum þeim gestum, sem komið höfðu í dag.Stúlkurnar höfðu raðað öskunum nýþvegnum á búrbekkinn, sópað undan öllum rúmum og þvegið rúmstokkana. Öll gólf voru tárhrein, og helst máttu börnin ekki koma inn allan daginn. Fátækraþerririnn brást ekki, og engin flík var óhrein innan bæjar. Í kýrkláfunum var besta taða, og öll verkfæri hrein. Rokkarnir allir, kembukassar og hesputré var sett út á miðloft og raðað þar, og blöðin, sem alltaf voru geymd uppundir í sperruverk, horfin.Þegar dimma tók, var borinn þvottabali inn í norðurhús, þar sem vefstaðurinn var. Og þar var allagt gólfið með boldangi. Sjóðandi heitu vatni var hellt í balann, og þegar það var mátulega heitt, vorum við börnin kölluð þangað og þvegin frá hvirfli til ylja. Þarna var nokkuð heitt af vatnsgufu, en kaldara mátti það samt ekki vera. En áður fórum við í eldhúsið, þar beið Inga systir og beygði okkur ofan yfir keytustamp, sem hún svo vatt hárið á okkur upp úr. Þetta var það versta fyrir jólin. Ég kreisti aftur augun og beit saman munninum, þorði varla að anda á meðan þessu stóð. Síðan þerraði hún höfuðið og hárið með strigadúk og lét okkur hlaupa inn að kerlauginni í vefjarhúsinu . Það var mikil svölun þar að baða sig eftir höfuðþvottinn í eldhúsinu. Þetta gekk eftir röð, og alltaf varð að bæta í balan nýju heitu vatni. Svo stóð stór skál á borðinu með hreinu köldu vatni og sápu sem hver notaði síðast eftir vild.Þegar búið var að skola okkur börnin, kom fullorðna fólkið og lét líka lauga sig, það var bara einstaka manneskja, sem ekki tók nema keytuþvottinn. Þegar stúlkurnar voru búnar lokuðu karlmennirnir sig inni og báru áður að margar fötur af volgu og köldu vatni, það var mikill gauragangur í þeim, og oft tók dágoða stund að laga til eftir þá. Að öllu þessu loknu var borinn inn rjúkandi kjötsúpa, þykk eins og grautur Það verkaði vel á mann baðið og fólkinu létti í skapi. Vænir spaðbitar, feitur og magur voru í hvers manns aski. Allir höfðu skipt um nærföt, er þeir komu úr baðinu, og nú klæddu þeir sig í sparifötin. Svo var kvöldverkum öllum lokið klukkan 6-7 um kvöldið. Kertalykkjurnar lágu á baðstofuborðinu, og byrjaði mamma að kveikja á þeirri fyrstu og lét brenna sundur rakið á milli þeirra, logaði þá á tveim kertum undir eins. Þau voru gefin elstu mönnum í baðstofunni. Þessi athöfn stóð talsverðan tíma, og biðum við börnin, meðan allt eldra fólk tók á móti sínum kertum. Loksins tók mamma kertalykkjuna okkar og kveikti á henni. Svo rétti hún mér og Ólu systur sitt kertið hvoru með ljósi „Takið þið við, börnin mín góð,“sagði hún og tárin runnu niður kinnar hennar. Ég tók við mínu kerti og kyssti mömmu og strauk með litlu lófunum tárin hennar, hún brosti og sagði: þykir þér falleg jólaljósin, Eyfi minn. Þrír bræður þínir og systur njóta þó fegurri jólaljósa hjá jólabarninu Jesú. Svo kveikti hún á tveim hákertum, sem stóðu í stjökum á borðinu, það voru hjónaljósin. Gesturinn sem var aldraður bóndi, sat við annan borðsendann og fékk líka sitt kerti. Af háhillunni yfir baðstofuglugganum voru nú teknar lestrarbækurnar. Það var Péturspostilla, bænakver og tvær sálmabækur. Pabbi flutti sig inn til mömmu sinnar í norðurbaðstofuna, en söngfólkið var kyrrt í frambað- stofunni. Gesturinn var góður raddmaður og byrjaði jólasálminn. Tveir sálmar voru sungnir á undan og tveir á eftir. Hjá pabba sat ég allan lesturinn og mændi á opna postilluna. Hvenær ætlaði þessi lestur að enda ? Og svo átti ég að muna eitthvað úr honum. Þetta mundi ég: „Guð-Drottinn-allt-Amen!“ og pabbi brosti. Þetta var allt og sumt, en söngnum tók ég betur eftir og braut heilann um það, hvað Guð mundi eiga margt í „hornum“ sínum. Seinna um kvöldið spurði ég ömmu, hvort hún vissi það. Hún var byrst og sagði, að hjá guði væru engin horn. „Svona máttu ekki spyrja, dengi minn“ sagði hún. „En það var sungið í jólasálminum,“ sagði ég. Það mundi ég glöggt. Forsöngvarinn sagði svo skýrt: „…minn Guð gaf af hornum sér“. Amma leiðrétti mig eftir andartak, og bágt átti ég að skilja, að hennar meining væri réttari en mín. Eftir húslesturinn byrjaði sálmasöngur á víxl og góðlátlegt samtal. Og brátt rauk upp af stórri leirskál, barmafullri af „púnsi“. Pabbi kveikti á henni, og var það fallegur rauðblár logi. Svo fengu allir púns í bolla, og sló þá nokkuð í glaðværð. Svo kom fullt af lummum og kaffi.Hin ánægjulegasta stund þetta kvöld var meðan á jólagjöfum stóð. Mamma gaf öllum einhverja nýja flík, þegar að afloknum jólalestri Karlmennirnir fengu nýjar milliskyrtur eða nýjan jakka, jólaskó bryddaða og nýja háleista. Stúlkurnar fengumillipils eða svuntu og sjalhyrnu, stundum allt þetta hver, sauðskinnsjólaskó og sortulitaða sokka. Börnin fengu ný föt, rauða eða bláa sokka eða jólaskó. Enginn mátti fara í jólaköttinn. Jólagestur var í þetta sinn Ólafur bóndi frá Brekkum. Hann var ókátur og einmana, en glaðanaði við púnsdrykkjuna og jólagjafirnar. Konu sína hafði hann misst á þriðja hjónabands- ári þeirra. Hún dó af barnsförum. Eftir lát hennar eirði hann hvergi, en sat helst í smiðju sinni og klambraði eitthvað smávegis, sem engu var nýtt. Fann hann þá eitt sinn í smiðjunni blað sem skrifaðar voru á þrjár vísur. Huggaðist hann við að lesa þær og vissi, að guðs engill hafði flutt honum þær til styrkingar, þær voru frá konunni hans. Þessar vísur söng hann tárfellandi, þó jólanótt væri. Mamma byrjaði sjálf jólasálmana, en engin rödd var svo fögur eins og hennar. Síðast var sungið þetta vers úr Passíusálmunum, „Gef þú að móðurmálið mitt,“ o.s.frv. Ljósið á baðstofulampanum var ekki slökkt, þegar háttað var, og logaði alla nóttina á honum. Reyndi ég að vaka sem lengst til þess að njóta birtunnar. Síðast streymdu ljósstafir frá lampanum til mín, og ljósbrotin mynduðu geislakrans um baðstofuna. Og ég þoldi ekki að horfa á móti allri þeirri dýrð, sem myndaðist um jólabarnið. „Góða nótt, mamma mín,“ sagði ég , og tungan drafaði. Draumur tók við.
Eyjólfur Guðmundsson Vökunætur II (1947) Vetrarnætur.
Lítil hjartnæm jólasaga
Þessi saga gerðist fyrir mörgum árum.
Maður nokkur refsaði 3ja ára gamalli dóttur sinni fyrir það að eyða heilli rúllu af gylltum pappír. Ekki var mikið til af peningum og reiddist hann þegar barnið reyndi að skreyta lítið box til að setja undir jólatréð. Engu að síður færði litla stúlkan föður sínum boxið á jóladagsmorgun og sagði: „þetta er handa þér pabbi“. Við þetta skammaðist faðir stúlkunnar sín fyrir viðbrögð sín daginn áður. En reiði hans gaus upp aftur þegar hann áttaði sig á því að boxið var tómt. Hann kallaði til dóttur sinnnar, „veistu ekki að þegar þú gefur einhverjum gjöf, þá á eitthvað að vera í henni?“ Litla stúlkan leit upp til pabba síns með tárin í augunum og sagði: „Ó pabbi boxið er ekki tómt. Ég blés fullt af kossum í það. Bara fyrir þig pabbi.“ Faðirinn varð miður sín. Hann tók utan um litlu stúlkuna sína og bað hana að fyrirgefa sér. Það er sagt að mörgum árum seinna, þegar faðir stúlkunnar lést, og hún fór í gegnum eigur hans hafi hún fundið gyllta boxið frá því á jólunum forðum við rúmstokkinn hans, þar hafði hann haft það alla tíð; þegar honum leið ekki vel gat hann tekið upp ímyndaðan koss og minnst allrar ástarinnar sem barnið hans hafði gefið honum og sett í boxið.
Í vissum skilningi höfum við allar lifandi mannverur tekið á móti gylltum boxum frá börnunum okkar, fjölskyldum og vinum, fullum af skilyrðislausri ást og kossum. Það getur enginn gefið dýrmætari gjöf.
Í dag skaltu gefa þér augnablik og njóta stórrar handfylli af minningum. Og mundu að þær verma hjarta þitt og bráðna þar, en ekki í höndum þínum.
Hvernig jólasálmurinn varð til
„Af himnum ofan boðskap ber
oss börnum jarðar, engla her,
vér fögnum þeirri fregn í trú;
af fögnuð hjartans syngjum nú.“
Þannig byrjar einn jólasálmur vor, sem er eftir Martein Lúther. Séra Stefán Thorarensen (l831-l892),prestur á Kálfatjörn hefur þýtt hann eins og hann er í sálmabókinni. Sögukorn um tilurð sálmsins fer hér á eftir.
Það var að morgni aðfangadags: Marteinn Lúther sat í bókastofunni sinni og var að búa sig undir jólaræðuna. Þá var komið í dyrnar og inn kom Katrín húsfreyja og var heldur fasmikil: „Góði Marteinn minn“, sagði hún.“Ég kemst ekki yfir helminginn af því sem þarf að gera fyrir hátíðina. Nú gætir þú gert mér þann greiða að fara yfir í hina stofuna og sitja við vögguna hjá honum Hans litla. Ég þarf þá ekki að tefja mig á því að sinna honum.“
Marteinn Lúther tók Biblíuna sína með sér og settist við barnsvögguna. Hans litli svaf vært, og Lúther hvarf nú frá ræðugerðinni,laut niður að vöggunni og var með allan hugann hjá syni sínum. Hver hugsunin tók við af annarri, og hann fór að hugsa um það, hve furðulegt það væri, að sonur Guðs hefði legið í jötu rétt eins og hvert annað barn af fátækum foreldrum. Og honum varð það þá fyrir sem oftar að hann sótti hörpuna sína og lék undir ljóðin, sem brutust fram úr hjarta hans. Þá orti hann við vöggu Hans litla jólasálminn: „Af himnum ofan boðskap ber“. Lagið kom um leið af sjálfu sér hjá honum, og hann söng erindin hvert af öðru við hörpuslátt. Nú árið l995 eru liðin síðan hátt upp í 5oo ár. Og æ síðan hefur sálmurinn verið sunginn á öllum jólum um víðan heim á mörgum tungumálum. Þegar Katrín húsfreyja kom inn seinna um daginn, þakkaði Lúther henni sem bezt fyrir að hafa sett sig í það hlutverk að gæta vöggunnar. Hann átti einmitt því að þakka að hann hafði ort jólasálminn, honum fannst eins og hann hefði miklu síður getað ort hann í bókastofunni sinni en við barnsvögguna.
Nýtt Kirkjublað l906 (texti lagfærður). ( Gamli Noi )
Jólaklukkur
Gömul frásögn, sem geymst hefur meðal íbúa lands nokkurs greinir frá því, að þar í landi sé mjög merkileg kirkja. Hún stendur svo hátt, að hún gnæfir yfir alla byggðina. Kirkjan var úr grásteini, miklar hvelfingar og mjög þykkir veggir. Inn í þennan fagra helgidóm var gengið um stórt hlið. Í kórnum var mjög skrautlegt altari úr hvítum marmara.
Í kirkjunni var einnig orgelið, en tónar þess voru svo voldugir, að borgarbúar flýttu sér að loka bæði hurðum og gluggum, þegar leikið var á það. Það sem þó var merkilegast við þessa kirkju var hinn frábæri hljómur kirkjuklukknanna. Turninn, sem teygði sig eins langt og augað eygði var vaxinn villivínviði og í honum var klukknaspil. Það voru jólaklukkurnar. Þar höfðu þær verið frá því að turninn var reistur og sagt var, að þær væru hljómmestu og hljómfegurstu kirkjuklukkur í heimi. Talið var, að mikill tónsnillingur hefði látið steypa kirkjuklukkurnar, stillt hljóm þeirra og séð um að setja þær á sinn stað. Aðrir töldu hljóm þeirra svo fagran, sem raun bar vitni af því að þær væru svo hátt uppi og loftið þar þess vegna hreinna en á jörðu niðri. Eitt voru allir sammála um, að mannlegt eyra hefði aldrei numið fegurri hljóma. Helst var þeim líkt við söng englaskara á himni, eða englanna, sem sungu svo fallega á Betlehemsvöllum forðum daga.
En nú um langan tíma hafði enginn heyrt í kirkjuklukkunum. Gamall maður, sem átti heima nálægt kirkjunni, greindi frá því, að móðir hans hefði heyrt í þeim, þegar hún var barn. Þetta var allt sem vitað var. Í borginni var sá gamli góði siður, að allir, sem vettlingi gátu valdið, smáir sem stórir, ungir sem aldnir fóru í kirkjuna á aðfangadagskvöld jóla og færðu Jesúbarninu gjafir sínar. Sá orðrómur var ætíð á kreiki, að jólaklukkurnar tækju að hringja, þegar stærsta og dýrmætasta gjöfin væri lögð á altarið. Smám saman hafði heimshyggjan náð tökum á borgarbúum og engin slík gjöf verið lögð á altarið, að jólaklukkurnar tækju að leika sína fögru tóna.
Það voru aðallega þeir auðugu og voldugu, sem ruddust að altarinu með gjafir sínar og reyndu að taka öðrum fram hvað snerti verðmæti þeirra, fegurð o.fl. Eina hugsunin, sem komst að hjá þeim var þessi. Ef til vill fara kirkjuklukkurnar að hringja, þegar ég legg gjöf mína á altarið. Hér var eigingirnin á ferðinni. En frá turninum há barst aðeins ýlfrið frá vindinum og það þrátt fyrir glæsileik gjafanna og íburðarmikla guðsþjónustu.
Í litlu þorpi í nágrenni borgarinnar áttu m.a. heima tveir drengir, Pétur og litli bróðir hans. Þeir höfðu lítið heyrt um hið merkilega klukknaspil kirkjunnar. Þeir höfðu frekar heyrt um íburðarmikla guðsþjónustu í kirkjunni á aðfangadagskvöld. Og nú höfðu þeir með mestu leynd ákveðið að fara þangað um næstu jól „Þú getur ekki ímyndað þér, hve þar er allt fagurt og fínt,“ sagði Pétur við litla bróður. „Ég hef heyrt, að Jesúbarnið sjálft komi þangað stundum og blessi guðsþjónustuna. Hugsaðu þér, ef við fengjum að sjá Jesúm.“ Úti var snjór og kuldi, snjóflygsurnar dönsuðu í loftinu rétt eins og þær væru að bregða á léttan leik. Síðla aðfangadagsins fóru þeir Pétur og litli bróðir af stað og leiddust. Er rökkva tók gátu þeir greint ljósin í gluggum íbúðarhúsa borgarinnar.
Þegar þeir komu að einu borgarhliðinu sáu þeir e.ð. sem líktist svartri þústu við vegkantinn. Þeir gengu hægt og varlega nær og sáu, að þetta var gömul kona, sem greinilega hafði hnigið niður af þreytu. Mjúkur snjórinn var svæfillinn hennar og hún virtist sofa vært. Pétur var nógu stór og vitur til þess að skynja, að konan mátti ekki liggja lengur þarna ef hún ætti framar að vakna. Hann ýtti örlítið við henni svo að hún rétt rumskaði. Síðan tók hann undir handlegg hennar og ætlaði að reyna að reisa hana upp. En hann gat það ekki. Hann leit eitt augnablik á konuna og var mjög hugsi. Hann stóð upp og sagði við litla bróður.“ Nei þetta gengur ekki Litlibróðir. Þú verður að fara einn. Ég verð að reyna að vekja hana betur og halda henni vakandi og láta höfuð hennar hvíla í kjöltu minni, svo að hún fái hita frá mér.“ “ Einn hrópaði Litlibróðir, ætlar þú ekki að sjá hina íburðaramiklu jólahátíð í kirkjunni.“ “ Nei þú ferð einn og hér er lítill silfurpeningur, sem þú skalt leggja á altarið “ . Allir sátu spenntir og djúp kyrrð ríkti í kirkjunni, þegar fólkið horfði á konunginn taka af sér hina dýrmætu kórónu og leggja á altarið. Og hér og hvar heyrðist hvíslað. Nú hljótum við að heyra hljóm kirkjuklukknanna því að enginn hefur áður gefið svo dýrmæta gjöf. En frá turninum barst aðeins ýlfur vindsins. Fólk hristi höfuðið mjög efablandið. Ekki einu sinni núna.. Nokkrir sögðu, að þeir hefðu aldrei trúað þessari gömlu sögusögn og ætíð efast um, að jólaklukkurnar hefðu yfirleitt verið til eða nokkurn tíman hefði heyrst í þeim. Tíminn til að leggja gjafirnar á altarið var á enda. Kórinn hóf að syngja af mikilli fegurð og snilli. Allt í einu hætti orgelleikarinn að spila. Augu allra beindust að gamla prestinum, sem stóð fyrir framan altarið. Hann lyfti hendinni sem tákni þess, að nú skyldu allir vera hljóðir. Frá mannfjöldanum heyrðist hvorki stuna eða hósti svo algjör var kyrrðin. Allt í einu var þögnin rofin og kirkjan stóra fylltist dásamlegum tónum, mjúkum, björtum, hreinum. Það var eins og tónarnir bærust langt að, samt heyrðust þeir mjög vel, og hljómurinn var svo dásamlegur, að orð fá ekki lýst og annað eins hafði aldrei heyrst áður. Það var hljómur jólaklukknanna. Hin langa þögn þeirra var rofin. Dauðakyrrð ríkti í kirkjunni. Enginn þorði að rjúfa hina hátíðlegu stund. Loks stóð einn og einn upp til þess að gá hvort hægt væri að sjá, hver væri þessi dýrmæta gjöf, sem hafði verið lögð á altarið og komið jólaklukkunum til þess að hljóma að nýju. Aðeins þeir sem næstir voru sáu litla veru, sem læddist hljóðlega frá altarinu. það var Litlibróðir, sem hafði fært Jesúbarninu litla silfurpeninginn hans Péturs að gjöf, og lagt hann á altarið meðan hann hjúkraði gömlu konunni.
Sagan er ekki lengri, en margt væri hægt að læra af henni, á morgun förum við yfir þætti tengda sögunni… Jólaklukkur – Hugleiðing.
Hver og einn, sem hugsar um hana og boðskap þann er hún flytur finnur, að rauði þráðurinn er einmitt þessi: “ Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Þegar þetta fær að gerast í lífi hvers og eins eru heilög jól, hvað sem dagatalið og birtan úti fyrir kann að segja. Við erum fædd til þess að fækka tárum manna, vera ljósberar í heimi hér. Háleitara hlutskipti er ekki til. Guð gefi öllum þetta hugarfar við undirbúning jólanna, svo að þau mættu fyrst og fremst verða birtugjafi og tákn þess að: Ljósið sanna, lífið manna er komið í heiminn.
Kertið hennar mömmu
Það dimmir snemma á Þorláksmessu þegar loftið er þungt af snjó svo að hvergi sér í bláa rönd af himni,og svo var þennan dag. Sveinn í Bjarnarey var léttur í spori þegar hann var að smala saman mönnum sínum, en ekki eftir því léttur á brúnina. Það var ekki fljótlegt að finna þá í þorpinu, en nú vildi hann fara að komast af stað og það undireins. Það var að byrja að skyggja, útlitið ófagurt, sjórinn úfinn og löng leið fyrir höndum. En heim vildi hann komast í kvöld. Konan var ein heima með lasið barnið og lítinn glaðning til jólanna. Hann hafði lofað litlu stúlkunni að gefa henni kerti og það vildi hann efna. Ekki var víst að eftir betri tíma væri að bíða. Loks voru mennirnir fundnir, allt tilbúið. Bátnum var ýtt frá landi og undin upp segl. Sveinn settist undir stýri og nú var lagt á flóann. Það var ágætt leiði og báturinn skreið drjúgum. Eftir því sem utar kom í flóann þyngdi sjóinn og lá við ágjöfum, en bæði stjórnandi og bátur voru góðir. Nú komu nokkur snjókorn, og svo fleiri.
Það hvessti líka í élið og bráðum sást ekkert nema hríðarmökkurinn og æðandi snjóhvítar öldurnar, sem steyptust yfir bátinn, reiðubúnar að keyra hann niður í djúpið dökka. Sveinn kreppti hendina fastar utanum stýrissveifina. Nú varð hann að duga, úr þessum bardaga varð ekki flúið, og undir kröftum hans og ratvísi var líf allra þeirra komið. Hann treysti sér til að finna eyjuna og hann treysti Guði og bátnum sínum. Það var aðeins að finna lendinguna. Þar mátti svo litlu muna, því að skerin voru beggja megin við innsiglinguna og hún aðeins ein, beint framundan bænum hans.
Og þegar inn á voginn var komið var hlé fyrir öllum vindum. Heima í litla bænum beið konan með litlu stúlkunni sinni. Hún hafði nóg að gjöra. Hún var að hreinsa til í bænum og svo þurfti hún að sinna kúnum. Nú var komið langt fram á kvöld og hún settist inn á rúmið sitt með prjónana sína. Litla stúlkan var sofnuð og hún kveikti ekki til að spara olíuna, hún var nærri búin. Sveinn ætlaði að koma með olíu, en hún bjóst ekki við honum fyrr en á morgun. Hún vissi að í mörgu var að snúast hjá sumum þeim, sem með honum höfðu farið, og dagurinn var svo stuttur. Allt í einu vaknaði litla stúlkan og reis upp í rúminu. „Mamma, mamma,“ hrópaði hún.“ Kveiktu fljótt ljós, það er engill að koma til mín, kveiktu, kveiktu“, og litla stúlkan fór að gráta, af því að henni fannst mamma ekki vera nógu fljót að ná í týruna og kveikja. Og þegar mamma setti týruna á borðið sagði hún: “ Nei settu það út í glugga svo engillinn sjái það og rati til mín, en mamma hefurðu ekki meira ljós? Kveiktu heldur á lampanum. Það get ég ekki elskan mín, lampinn er þurr og ég á enga olíu, nema þá sem er á týrunni“, sagði mamma. Litla stúlkan fór að gráta. “ Mamma,mamma, hjálpaðu mér, kveiktu meira ljós. Engillinn sér ekki svona lítið ljós. Mamma, góða mamma áttu ekkert sem þú getur kveikt á? „.Mamma var orðin hrædd við ákafann í litlu telpunni. Hún hélt að henni væri að versna. Hún stóð upp og fór ofan í kistuna sína. Eftir dálitla leit tók hún upp stórt og fallegt kerti. “ Sjáðu elskan mín“, sagði hún, “ ég ætla að kveikja á þessu kerti og setja það út í gluggann. Þá hlýtur engillinn að sjá ljósið og koma til þín. Svo skal ég líka segja þér sögu, einmitt um þetta kerti, ef þú verður góð stúlka og leggst niður“.
Mamma leit út um gluggann um leið og hún setti kertið þar. Allt kvöldið hafði verið stormur og kafald og kominn nokkur snjór, en nú var að stytta upp. Hún settist á rúmstokkinn og horfði á kertaljósið. “ Ætlarðu að segja mér söguna mamma mín ? “ sagði litla stúlkan. Hún var nú orðin rólegri. “ Já, hún er ekki löng. Ég var lítið eldri en þú ert núna, aðeins 9 ára, og varð að fara að heiman frá henni mömmu minni. Við vorum mörg systkinin og pabbi og mamma fátæk. Ég var lánuð til snúninga hjónum sem bjuggu skammt frá. Þau voru ekki slæm við mig og enginn á bænum.Eiginlega skipti enginn sér neitt af mér, nema til þess að senda mig eitthvað eða segja mér fyrir verkum. Æ, hvað mér leiddist og hvað mig langaði heim til pabba, mömmu og systkina minna. Ég held ég hafi aldrei farið að sofa ógrátandi. Svona leið nú samt sumarið og haustið og jólin voru að nálgast. Mig langaði svo mikið til að fara heim um jólin, en þorði ekki að biðja um það. Á Þorláksmessu kom maður af næsta bæ og var með böggul til mín. Ég vissi, að hann var frá mömmu, enginn annar sendi mér böggul, og ég ætlaði ekki að opna hann fyrr en á aðfangadagskvöld. Um kvöldið sofnaði ég ekki grátandi, því að ég var með böggulinn í fanginu. Kvöldið eftir, þegar ég opnaði hann voru í honum bryddir sauðskinnsskór og sokkar og einmitt þetta kerti. Svo var bréf frá mömmu. Ég gat stafað mig fram úr því, og ég man að hún sagði: Þú mátt muna það elskan mín, að mamma og pabbi elska þig, en svo er líka einn, sem elskar þig og hann er alltaf vakandi og verndar þig, það er góður Guð. Skömmu seinna heyrðist gengið um bæjardyrnar. Það var Sveinn. Hann var kaldur og votur af ágjöfum, en það var gleðiglampi í augum hans og bros á vörum hans, þegar hann heilsaði konu sinni og dóttur. „Þakka þér fyrir ljósið“, sagði hann.“ Það hefur bjargað lífi okkar. Þegar hríðinni var að létta vorum við komnir að eyjunni. Ég heyrði það á brimhljóðinu, en þá var eftir að finna vörina í myrkrinu. Þá kom blessað ljósið, og þá var ég viss, því að þetta er eini glugginn sem snýr í þessa átt. Það er litlu stúlkunni þinni að þakka, og svo kertinu hennar mömmu“, sagði kona hans.
(Lára Á. Ólafsdóttir Kolbeins)
Biblían í veggnum
– Sannur atburður.
Það er sögð merkileg saga frá hinni fögru og sólríku Ítalíu. Appelsínutrén stóðu í blóma og vínviðurinn vafði sig upp eftir fjallshlíðunum. Kona nokkur var á gangi í útjaðri lítils bæjar, sem að miklu leyti var hulinn olívutrjám. Rétt fyrir utan bæinn hitti hún múrara, sem var að hlaða múrvegg. Konan heilsaði honum vingjarnlega, og hann tók undir kveðju hennar. Þau spjölluðu saman nokkra hríð um alla heima og geima. Loks tók konan ítalska Biblíu upp úr tösku sinni og ætlaði að gefa unga múraranum hana. Þá kom annar svipur á múrarann. Hann snéri sér með fyrirlitningu frá konunni. Hann kærði sig ekkert um þessa bók. Honum fannst hann ekki hafa neina þörf fyrir hana. Konan var samt ekki af baki dottin. Hún vann að því að dreifa út Biblíum. Hún lagði svo fast að manninum að þiggja bókina, að hann lét loks til leiðast. Hún skrifaði nafn hans í bókina og fékk honum hana. En konan tók ekki eftir einkennilegu glotti í augum mannsins, er hann kvaddi hana. Hún var ekki fyrr komin úr augsýn en múrarinn losaði um nokkra steina í veggnum, stakk Biblíunni þar inn og múraði yfir. Nú fannst honum bókin vera vel geymd – og nú væri hann laus við konuna. Þessi ótætis bók ætti ekki betra skilið.
Nokkrum árum síðar varð ægilegur jarðskjálfti í þessum bæ. Mörg hús hrundu,börn æptu af skelfingu og stunur særðra manna heyrðust úr öllum áttum. Á nokkrum mínútum gereyðilagðist meira en helmimgur bæjarins. Fólk flýði bæinn og leitaði óhultra staða. Að nokkrum tíma liðnum hurfu þó allmargir af íbúunum heim aftur og tóku að leita í rústunum. Dag einn stóð maður nokkur við hálfhruninn vegg og þreifaði fyrir sér hve traustur hann væri. Þá tók hann allt i einu eftir því, að tómahljóð heyrðist í veggnum á einum stað. Honum kom fyrst í hug, að þarna kynni einhver fjársjóður að vera fólginn og tók að brjóta upp vegginn. Það reyndist rétt vera! Þarna var hol í veggnum, og sjá, þarna lá lítil bók.
Maðurinn tók bókina heim með sér og fór að lesa hana. Honum varð ljóst, að þarna hafði mikill fjársjóður verið fólginn. Hann lærði að meta þessa bók, og í gegnum hana lærði hann að þekkja Jesúm. Afleiðingin varð sú, að maðurinn fór að vinna að útbreiðslu Biblíunnar. Hann hafði fundið frelsara sinn við að lesa bókina, og nú vildi hann vinna að því að dreifa þessum fjársjóði út til landa sinna. En það voru ekki margir,sem vildu kaupa Biblíur. Dag nokkurn kom hann þar að, er hópur verkamanna var að vinna. Hann tók upp bækur sínar og gaf sig á tal við þá. – Það þýðir ekkert að bjóða mér þessa bók sagði ungur múrari, ég kæri mig ekki neitt um hana. Einu sinni var einni slíkri bók troðið upp á mig, en ég hefi komið henni svo vel fyrir, að ekki einu sinni sá vondi sjálfur getur fundið hana! Manninum með Biblíuna brá við þessi orð. Honum kom allt í einu í hug hvernig hann hafði fundið hana. Hann opnaði Biblíuna, sem hann hélt á í hendinni, sýndi múraranum og spurði hvort hann kannaðist nokkuð við nafnið, sem skrifað var í hana. Múrarinn varð skelfingu lostinn. – Þetta er mitt nafn, hrópaði hann. Hvernig í ósköpunum hefur þú komist yfir þessa bók? Maðurinn skýrði frá með hvaða hætti það hafði orðið, og múrarinn fékk aftur Biblíuna sína. Nú bað hann meira að segja um að mega halda henni. Hann fór að lesa hana og nú skildi hann, að það var Guð,sem talaði til hans og hafði séð um það, að Biblían, sem hann hafði fyrirlitið, barst aftur í hendur hans á þennan undarlega hátt.
Upp frá þessu varð Biblían kærasti vinur hans. ( Ljósberinn l954 )
Blindir bræður
Klukkan var hálf sjö að kvöldi. Á litla sjúkrahúsinu í San Cataldo á Síkiley var allt í hinu ytra með sínu hversdagslega sniði. Eins og ávallt voru öll sjúkrarúmin upptekin. Hvar sem komið var lágu sjúklingar í sjúkrarúmunum og jafnvel á bekkjum í móttökuherberginu og á göngunum. Hjúkrunarkona gekk milli sjúklinganna og talaði uppörvandi til þeirra. En þótt allt virtist í hinu ytra með hversdagslegu sniði, þá var samt nokkuð óvenjulegt í aðsigi. Í sjúkrastofu númer l2 biðu fimm bræður þeirrar afgerandi stundar, sem skera mundi úr um, hvernig líf þeirra og framtíð yrði. Þeir voru allir blindir frá fæðingu. Orsökin var starblinda. Paolo var l5 ára, Carmelo l3 ára,Gioacchino ll ára,Giuseppe 9 ára og Calogero litli var 5 ára.
Mun það heppnast?
Læknirinn, Luigi Picardo var nýkominn. Hann hafði ákveðið að framkvæma augnaaðgerðina á drengjunum þetta kvöld. Á skrifstofu sjúkrahússins hitti hann lækninn Maira, sem ætlaði að aðstoða hann við aðgerðin. Picardo var fremur lágvaxinn, ljós yfirlitum og í eðli sínu nokkuð taugaóstyrkur. En þetta kvöld virtist hann taka hlutina með mikilli ró. Læknarnir ræddu saman meðan þeir skiptu um föt og þvoðu sér. Nú kom svæfingarlæknirinn. Deyfilyfið hafði þegar verið reynt og valið. Læknarnir lögðu mikla áherzlu á að vera í góðu jafnvægi. Hér,í þessu litla sjúkrahúsi í litlum bæ á Sikiley, ætluðu þeir þetta kvöld að reyna að gefa fimm drengjum sjónina. Móðir drengjanna sat hjá þeim. Við og við kallaði yngsti bróðirinn: “ Mamma…“ Og móðirin tók í hönd litla drengsins og hélt þétt um hana. Hinir drengirnir töluðu öðru hvoru saman í hálfum hljóðum. Hjúkrunarkonan inn .Nú förum við Paolo“. sagði hún og tók í hönd hans. Og Paolo, sem var elstur bræðranna fór með henni inn til læknanna. Þeir stóðu hljóðir í skurðstofunni. En þegar Paolo kom inn, gekk Picardo til hans og sagði: „Paolino, ertu hræddur?“ Nei, ég er ekki hræddur“. “ Heldurðu að þetta muni heppnast?“ “ Já læknir, ég trúi því, að það heppnist ef læknirinn trúir því,“ sagði drengurinn trúaröruggur.
FIMM BLIND BÖRN
Nú hófst skurðaðgerðin. Picardo fjarlægði með varfærni hin mjólkurlitu korn, sem hindruðu drenginn í því að geta séð umheiminn. Síðan saumaði hann saman sárið með hárfínum þráðum. Paolo var síðan aftur færður til stofu númer l2. “ Við skulum strax byrja á þeim næsta“,sagði Picardo. En svæfingarlæknirinn sannfærði hann um, að honum væri nauðsynlegt að hvílast stutta stund. Þá kom Carmelo í skurðstofuna og næsta aðgerð hófst. Þannig gekk það koll af kolli og eftir hverja aðgerð tók læknirinn sér stutta hvíld og byrjaði síðan á ný með einbeitni og ákveðni. Hann fann til geysilegrar eftirvæntingar.Ennþá gat hann ekki séð, hver árangurinn yrði. Þó var hann sannfærður um að aðgerðirnar myndu heppnast. En hann hafði miklar áhyggjur af því, ef fjórir fengju sjónina en einn yrði áfram blindur. Bræðurnir fimm voru fæddir í smábænum Campobello di Licata. Faðir þeirra vann við búskap. Fjölskyldan var fátæk. Börnin urðu l2. Fjögur voru dáin og fimm fæddust blind. Bæjarbúar kenndu mjög í brjósti um fjölskylduna,sem oft hafði varla nóg að borða. Þegar blindu drengirnir stækkuðu var gerð skurðaðgerð á þrem þeirra, og á tveim þeirra þrisvar sinnum, en aðgerðirnar misheppnuðust. Þá var hafin fjársöfnun í bænum, svo drengirnir kæmust til sérfræðings. Peningar streymdu inn og brátt hafði safnast álitleg fjárupphæð. En þegar læknarnir Picardo og Maria heyrðu sögu bræðranna fimm,buðu þeir fram hjálp sína og sjúkrahúsvist að kostnaðarlausu.
UMBÚÐIR FJARLÆGÐAR
Klukkan var orðin ellefu um kvöldið er síðustu aðgerðinni var lokið. Um árangur var ekki hægt að vita fyrr en umbúðirnar yrðu teknar frá augunum. Nóttin var erfið hjá Picardo lækni. Hann gat ekki sofið. Á tuttugu ára læknisferli sínum hafði hann gert aðgerðir af þessu tagi svo hundruðum skipti og flestar höfðu heppnast. Nú bar hann þær saman við aðgerðirnar á bræðrunum. Hve miklir möguleikar voru á því að þeir fengju sjónina? Næsta morgun kæmi það í ljós. Í sjúkrastofu bræðranna var byrgt fyrir gluggann til að draga úr birtunni. Byrjað var að fjarlægja umbúðirnar. Eftirvæntingin var geysileg. Drengirnir opnuðu augun. Einn hvíslaði“ Ljós, ég sé ljós“. Á næsta augnabliki kváðu við gleðihróp, þegar drengirnir einn eftir annan tókuu eftir birtu,litum,hlutum og að sjálfögðu fólkinu, sem þeir aldrei áður höfðu augum litið.Bræðurnir fimm höfðu allir fengið sjónina. Þeir föðmuðu hvor annan og hina óumræðilega hamingjusömu móður sína. Og læknirinn Luigi Picardo faðmaði starfsbróður sinn, flýtti sér síðan út úr sjúkrastofunni og grét. Aftur var bundið um augu drengjanna. Þeir þurftu smátt og smátt að venjast birtunni. Þær stundir,sem þeir fengu að vera án umbúðanna lengdust, þeir litu í kringum sig, spurðu athuguðu og undruðust. Starfsfólkið lét þá allt annað víkja og sýndi þeim þann heim, sem þeir loks fengu litið með eigin augum.
Endir – Gleðileg Jól