Jólasveinar
Elsta jólasveinamynd úr íslensku riti
Elsta jólasveinamynd sem fundist hefur í íslensku riti er á forsíðu jólablaðs Æskunnar árið 1901. Þar eru greinilega litlu dönsku jólanissarnir á ferð. Árið 1906 er mynd í jólablaði Unga Íslands af síðskeggjuðum öldungi í skósíðum kufli með jólatré um öxl og gjafapoka á baki. Þetta er greinilega miðevrópski jólasveinninn en í blaðinu er hann einungis nefndur gamli maðurinn i. Upp úr síðustu aldamótum taka jólasveinar á Íslandi smám saman að fá æ meiri svip af þessum útlendu körlum bæði hvað snertir útlit, klæðaburð og innræti. Ímynd góða jólasveinsins með gjafirnar náði fljótt nokkurri fótfestu.
Fyrsti jólasveinninn
Fyrsti þekkti jólasveinnin varð til úr persónu dýrlings Sankti Nikulásar „Sankti Kláus“ sem var biskup í borginni Mýru í litlu Asíu (Tyrkland í dag ) í kring um aldamótin 300. Eina barn ríkrar fjölskyldu. Hann varð munarlaus á unga aldri þegar foreldrar hans dóu báðir úr plágunni. Hann ólst upp í klaustri, þegar hann varð 17 ára var einn af yngstu prestum sögunnar. Margar sögur eru til af gjafmildi , hann gaf allan sinn auð til bágstaddra og þá sérstaklega barna. Sagan segir að hann hafi látið poka með gulli detta niður um reykháfa eða hent pokunum inn um glugga og ofan í sokka sem héngu til þerris á arinhillum. Seinna varð hann biskup.
Í Hollandi birtist heilagur Nikulás í sinni upprunalegu mynd, í fullum biskupsskrúða, og er kallaður Sinterklaas. Og hann gefur gjafir á messudegi sínum, 6. desember. Í Grikklandi er það hins vegar annar dýrlingur, heilagur Basilíus, sem gefur gjafir. Þær eru gefnar á messudegi Basilíusar, á nýársdag, 1. janúar.
Á Íslandi var Nikulás mikið tignaður sem annars staðar, svo ekki voru færri en 44 kirkjur og kapellur helgaðar honum í katólskum sið. Einungis María mey, Pétur postuli og Ólafur helgi stóðu honum framar að þessu leyti. Ein Nikulásarkirkjan var í Odda á Rangárvöllum. Í Sturlungu segir svo af háttum Sæmundar Jónssonar í Odda (Loftssonar Sæmundssonar fróða), “ að hann hafði veisludag hvern vetur Nikulásmessu og bauð til öllu stórmenni þar í sveit.” Ekki hafa enn fundist önnur dæmi um Nikulásgildi á Íslandi.
Tvær íslenskar sögur eru til af Nikulási, ein heil drápa og brot af annarri. Hinsvegar hefur hann sjálfur aldrei orðið jólasveinn á Íslandi.
Í þessu sambandi á við að geta um þann sið, að börn setji skó sinn út í glugga nokkru fyrir jól í þeirri von, að jólsveinar láti eitthvert góðgæti í hann. Eftir því sem næst verður komist hefur þessi siður borist til Íslands á þriðja áratug þessarar aldar, líklega frá Þýskalandi. Hans mun fyrst getið á prenti í jólakvæði eftir Ragnar Jóhannesson sem er ort kringum 1940. Hann hefur svo á síðustu áratugum breiðst út einsog eldur í sinu, fyrst í Reykjavík og öðrum bæjum. Mjög er misjafnt úti í Evrópu, hvenær þetta er gert. Sumir gera þetta aðeins á hverjum laugardegi í jólaföstu, en aðrir byrja á degi Nikulásar. Á Íslandi er auðvitað engin hefð til um þetta atriði, en þó virðist það ætla að verða algengast að miða við þann dag, þegar jólasveinar taka að koma af fjöllunum, hvort heldur það er þréttán eða níu dögum fyrir jól.
Íslensku jólasveinarnir
Íslensku jólasveinarnir eru öldungis óskyldir hinum alþjóðlega rauðklædda Santa Claus sem er kominn af dýrlingnum Nikulási biskupi, . Þeir eru af kyni trölla og voru upphaflega barnafælur. Á þessari öld hafa þeir mildast mikið og klæða sig stundum í rauð spariföt, en geta samt verið þjófóttir og hrekkjóttir.
Smám saman verða jólasveinar smáskrítnir vinir barna fremur en fjendur, færa þeim gjafir, syngja fyrir þau og segja sögur. Munu verslanir ekki síst hafa stuðlað að þessari þróun með því að nota jólasveina í búðargluggum og seinna blaðaauglýsingum að erlendri fyrirmynd. Afstöðubreyting þessi hefst miklu fyrr í kaupstöðum en sveitum.
Kringum 1930 virðist verða einskonar þjóðarsátt um jólasveinana. Þá tók Ríkistúvarpið til starfa og strax um jólin 1931 kom íslenskur jólasveinn í heimsókn í barnatíma þess í útvarpssal. Sá siður hefur haldist æ síðan og leikarar valið sér eitthvert hinna hefbundnu jólasveinanafna, hvort sem þeir komu fram í útvarpi eða á annarri jólatrésskemmtun. Þessi jólasveinn var hinsvegar hvorki hrekkjóttur né ógnvekjandi heldur einfaldur og góðhjartaður fjallabúi sem undraðist borgarlífið og tæknina. Hann gerði að gamni sínu við börnin, sagði frá og söng um ævi sína og bræðra sinna eða hann rakti grátbrosleg ævintýri sín á leið til byggða. Hann var í gervi hins alþjóðlega jólakarls og gaf börnum að skilnaði ávexti eða annað góðgæti. Eftir 1950 tóku rauðklæddir jólasveinar að sjást í stærri verslunum og enn síðar að hafa í frammi tilburði á götum úti eða húsaþökum. Á nokkrum heimilum var einnig tekið upp á því að láta einhvern í gervi jólasveins koma með gjafir á aðfangadagskvöld en það hefur aldrei orðið mjög vinsælt á Íslandi.
Fyrsta ritaða heimildin þar sem minnst er á jólasveinana er í Grýlukvæði Séra Stefáns Ólafssonar frá Vallanesi frá 17.
Þar segir um þau skötuhjú Grýlu og Leppalúða:
Börnin eiga þau bæði saman
brjósthörð og þrá,
af þeim eru jólasveinar,
börn þekkja þá.
Af þeim eru jólasveinar
jötnar á hæð,
öll er þessi illskuþjóðin
ungbörnum skæð.
Jólasveinarnir
Jólasveinar Tryggva Magnússonar 1932. ( Birt með leyfi ættingja Tryggva)
Hér les Friðbjörn Gunnlaugssson kvæðið Jólasveinarnir eftir Jóhannes úr Kötlum. Kvæðin las hann oft fyrir börnin sín á jólum. Kvæðið og myndirnar eru úr bókinni Jólin koma sem kom út árið 1968. Myndirnar teiknaði Tryggvi. Magnússon. Í lokin eru myndir af Friðbirni og nokkrar gamlar fjölskyldumyndir. Upptakan var gerð í lok nóvember 2014.
Jólasveinarnir í Dimmuborgum í Mývatnssveit
Þrettán jólasveinar
Jólasveinar eru taldir þrettán og kemur sá fyrsti hálfum mánuði fyrir jól og síðan einn hvern dag til jóla og eins haga þeir brottferð sinni eftir jólin. Gamalt fólk hafði það fyrir vana að sletta floti á eldhúsveggi á Þorláksmessu þegar kjötið var soðið og hurfu þessar slettur síðan því jólasveinar sleiktu þær. En þessi eru nöfn jólasveina eftir því sem réttorður kvenmaður hefur heyrt:
Tífall og Tútur,
Baggi og Hnútur,
Rauður og Redda,
Steingrímur og Sledda,
sjálfur Bjálfinn og Bjálfans barnið,
Bitahængir, Froðusleikir,
Gluggagægir og Syrjusleikir.
Konur jólasveinanna eru páskadísirnar og koma þær til híbýla mennskra manna um páskaleytið.
Nöfn jólasveina (eftir annari sögn):
Tífill, Tútur,
Baggi, Lútur,
Rauður, Redda,
Steingrímur og Sledda,
Lækjaræsir, Bjálminn sjálfur,
Bjálmans barnið,
Litlipungur, Örvadrumbur.
(Eftir enn annari sögn)
Jólasveinar eru níu talsins og heita: Gáttaþefur, Gluggagægir, Pottasleikir og Pönnuskuggi, Guttormur og Bandaleysir, Lampaskuggi, Klettaskora. Þeir kveða:
Upp á stól
stendur mín kanna,
níu nóttum fyrir jól,
þá kem ég til manna.
Jólasveinar var sagt að kæmu til heimila með jólaföstunni með stóra hatta á höfðum, búklausir, en kloflangir upp að herðum og sæktu eftir floti. Aðrir sögðu þeir sæktu ekki til bæja fyrr en rúmri viku fyrir jólin og staðfestu það með kvæði þessu:
Níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.
Upp á hól
stendur mín kanna.
Best áttu þeir að þrífast á þeim heimilum sem var bölvað á. Um þrettánda dag jóla áttu þeir að safnast saman og drepa þann magrasta.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Nöfn jólasveinanna
Hér koma nokkur nöfn jólasveina og jólameyja sem fundist hafa í heimildum:
Baggalútur, Baggi, Bandaleysir, Bitahængir, Bjálfansbarnið, Bjálfinn, Drumbur fyrir alla, Dúðadurtur, Efridrumbur, Faldafeykir, Flautaþyrill, Flotgleypir, Flotnös, Flórsleikir, Froðusleikir, Gangagægir, Guttormur, Hlöðustrangi, Hnútur, Kattarvali, Kleinusníkir, Klettaskora, Litlipungur, Lummusníkir,Lungnaslettir, Lútur, Lækjarræsir, Moðbingur, Pönnuskuggi, Rauður, Redda, Reykjasvelgur, Skefill, Sledda, Smjörhákur, Steingrímur, Svartiljótur, Svellabrjótur, Tífall, Tífill, Tígull, Tútur, Þambarskelfir, Þorlákur, Örvadrumbur.
Þrettán jólasveinanöfn sem við þekkjum í dag:
Stekkjastaur, Giljagaur, Stúfur, Þvörusleikir, Pottaskefill, Askasleikir, Hurðaskellir, Skyrgámur, Bjúgnakrækir, Gluggagægir, Gáttaþefur, Ketkrókur, Kertasníkir.
Efalaust má einkum þakka það skáldunum og útvarpinu að íslenskir jólasveinar héldu bæði fjölda sínum og sérnöfnum þótt þeir tækju upp búning og viðmót útlendra jólagaura. Þjóðminjasafn Íslands tók hinsvegar upp þann sið árið 1988 að skipuleggja heimsóknir jólasveina í safnið síðustu 13. daga fyrir jól. Eru þeir þá í gömlum íslenskum klæðum og hafa orðið afar vinsælir meðal yngstu kynslóðar sem þykja þessir jólasveinar mun áhugaverðari en þessi rauðklæddu.
Myndin er eftir Halldór Elvarsson og er af frímerkjahefti. ( Birt með leyfi Halldórs )
Stekkjarstaur
Kom fyrstur, stirðbusalegur karl með staurfætur. Hann fer af stað þrettán dögum fyrir jól, hann reynir að ná sér í sopa af mjólk sem honum finnst ósköp góð en sú heimsókn endar þó oftast með ósköpum því kindurnar verða alveg ærar. Stekkjastaur heldur þá áfram án þessa að fá minnstan dreitil hrakfallabálkurinn sá.
Giljagaur
Er annar og mikill príluköttur. Hann hafði yndi af mjólkurfroðunni og hélt sig mest í fjósinu, þegar fjósamaður og kona eru orðin ráðalaus vegna óláta í kúnum skríkir Giljagaur af ánægju og nær sér svo í mjólkurlög á leiðinni út, já makalaus er hann Giljagaur.
Stúfur
Sá þriðji óttaleg písl, snaggaralegur og honum fannst best að kroppa viðbrenndar leifarnar af pönnunum, hann borðar oft yfir sig því hann vill verða stór og sterkur eins og bræður hans, eitthvað gengur það nú illa og virðist hann hreinlega ekkert stækka þótt hann sé eldgamall, já stuttur er hann Stúfur.
Þvörusleikir
Er sá fjórði hinn mesti garpur en mjór eins og girðingastaur. Honum þótti ekkert betra en að sleikja þvörur sem notaðar voru til að hræra í pottum. Hann á það til að taka fleira en þvöruna eina og hefur þá skálina með öllu deiginu með sér á brott, hann hættir ekki að sleikja fyrr en allt deigið er búið, já sælkeri er hann Þvörusleikir.
Pottaskefill
Er sá fimmti ljúfur í lund, stundum gerist það að hann sleikir svo marga potta að hann verður alveg máttlaus í tungunni af þreytu, þeir þurftu engan þvott eftir þá meðferð. já prakkari er hann Pottasleikir.
Askasleikir
Er sá sjötti hann er karl í krapinu. Stal öskum fólksins, faldi sig með þá og skilaði ekki aftur fyrr en þeir voru tómir. Hann flýtir sér stundum svo mikið að hann missir leirtauið í gólfið, við það bregður honum svo mikið að hann þýtur út og gleymir að að setja gott í skóinn, já klaufskur er hann Askasleikir.
Hurðaskellir
Er sá sjöundi afskaplegur hrekkjalómur, af og til læðist hann þar sem einhver situr í makindum og á sér einskis ills von þá opnar hann dyrnar varlega og skellir hurðinni skyndilega svo undir tekur í öllu, já stríðinn er hann Hurðaskellir.
Skyrgámur
Er sá áttundi sterkur og stór rumur sem að þefaði uppi skyrtunnurnar og át þar til að hann stóð á blístri. Hann er alveg sérstaklega hittinn hann gerir sér lítið fyrir og kastar inn um glugga því sem í skóinn skal, jafnvel margar hæðir, já stórhuga er hann Skyrgámur.
Bjúgnakrækir
Er sá níundi, vaskur sveinn og fimur við að klifra upp í rjáfur. Það þykir ekki einleikið hversu miklu hann torgar af reyktum hrossabjúgum, svo miklu að það gæti dugað ofaní margar fjölskyldur, já belgstór er hann Bjúgnakrækir.
Gluggagægir
Er sá tíundi, mesti heiðurskall en hnuplari, sjái hann eitthvað fallegt og þá sérstaklega sætar kökur, hristist hann svo mikið af gleði að glugginn hreinlega brotnar, já forvitinn er hann Gluggagægir.
Gáttaþefur
Er sá ellefti heilmikill kappi með heljarstórt nef og gat hann fundið lykt af nýsteiktu brauði langar leiðir og runnið þannig á sinn uppáhaldsmat, laufabrauð. Ef Gáttaþefur finnur ekki góða lykt í langan tíma skreppur nefið á honum saman og verður eins og gömul kartafla, en um leið og ilmur berst að vitum hans ,blæs það út og verður glansandi fínt, já lyktnæmur er hann Gáttaþefur.
Ketkrókur – Kjötkrókur
Er sá tólfti, kátur kraftakarl sem stakk löngum stjaka með króki á niður um strompana til að krækja í kjötlærin sem héngu í eldhúsloftinu. Ef Kjötkrókur var mjög svangur borðar hann hangikjötið á leið sinni milli húsa og fleygir svo frá sér beinum í allar áttir, já svakalegur er hann Kjötkrókur.
Kertasníkir
Er sá þrettándi ósköp viðkvæm sál, að lokum verður hann svo gagntekinn af ljósadýrðinni að hann má ekki til þess hugsa að hverfa út í myrkrið án þess að næla sér í nokkur tólgarkerti til að kveikja á, já fagurkeri er hann Kertasníkir.
Íslensku jólasveinarnir á ensku
Kristín Sigurðardóttir hannaði Jólasveinana og foreldrana.
Nöfn íslensku jólasveinanna á ensku.
SHEEP WORRIER – Stekkjarstaur
GULLY GAWK – Giljagaur
STUBBY – Stúfur
SPOON LICKER – Þvörusleikir
POT LICKER – Pottasleikir
BOWL LICKER – Askasleikir
DOOR SLAMMER – Hurðaskellir
SKYR GLUTTON – Skyrgámur
SAUSAGE STEALER – Bjúgnakrækir
WINDOW PEEPER – Gluggagægir
DOOR SNIFFER – Gáttaþefur
MEAT HOOK – Ketkrókur
CANDLE BEGGAR – Kertasníkir
Úr bókinni – Jólakarlar komnir á kreik. ( Mig vantar upplýsingar um þessa bók)
Hin ýmsu andlit íslensku jólasveinanna
Jólasveinar þjóðminjasafnins .
Jólasveinar Ólafs Péturssonar © Ólafur Pétursson. Birt með leyfi höfundar
Jólamjólkursveinarnir – Jólamjólk.is
Jólasveinar á Ísafirði – Holly Hughes
Kvenkyns jólasveinn - La Befana
Á Ítalíu má finna jólasvein sem er kona: La Befana. Hún gefur gjafir á þrettándanum og talið er að nafn hennar, Befana, sé afbökun á heiti þrettándans, Epifania. Samkvæmt þjóðsögu var Befana kona sem vitringarnir þrír heimsóttu þegar þeir voru að leita að Jesúbarninu. Þeir sögðu henni frá barninu og buðu henni að koma með sér til að leita að því, en Befana var önnum kafin við að sópa heimili sitt og sagðist ekki hafa tíma til að koma með þeim. En þegar vitringarnir voru farnir snerist henni hugur og hún hélt af stað að leita að Jesúbarninu. Hún tók með sér sópinn sinn og leikföng handa barninu. Enn hefur hún ekki fundið Jesúbarnið, en hún gefur öðrum börnum gjafir í þess stað.
Danskir jólanissar
Jólasveinar ýmissa landa
Kína Dun Che ao Ren – Belgía Pere Noel – Brasilía Papai Noel – Kanada Santa claus – Tékkland Svatý Mikulas
Bretland Father Christmas-Finnland Joulupukki-Frakklamd Pere Noel-Þýskaland Weichtnasmann -Hawaii Kanakaloka – Spánn El Nino Jesus
Ungverjaland Mikulas – Indland – Baba – Ítalía Babbo Natale – Japan Hoteiosho – Holland Kerstman&Sinter klaas – Noregur Julenissen
Litháen Kaledu Senelis – Perú Papa Noel – Pólland Swiety Mikolai – Rússland Ded Moroz – Sviþjóð Jultomten
Jólasveina pússl - Brians Pilkington
Jólasveina pússl fra Nordic games. Teiknari Brian Pilkington.
Gluggagægjar – Sleðaferðin -Jólasveinasirkusinn – Jólasveinabandið -Fótboltaliðið – Stúfur stjarna – Snjókastskeppnin
Coca Cola jólasveinninn
1931 og 1964, hannaði Haddon Sundblom nýja Jólasveina fyrir Coca-Cola samsteypuna og sá jólasveinn varð fljótt frægur var m.a annars á baksíðu blaðanna Post og National Geographic. Þetta er jólasveinninn sem við þekkjum á rauðu fötunum, leðurstigvélunum, hvítu skeggi og slatta af leikföngum í poka á bakinu.
Heimildir: Saga daganna. Mál og Menning. Árni Björnsson 1993 (Birt með góðfúslegu leyfi útgefenda og höfundar)
Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar. Tímrit.is.Viðtöl við fólk, eigin upplifun og fleira.
Jólasveina kvæði Jóhannesar úr Kötlum og myndir Tryggva Magnússonar
Árið 1932 kom út kvæðakver Jóhannesar úr Kötlum Jólin koma með vísum um íslenskar jólavættir. Tryggvi Magnússon myndskreytti bókina, en hann var þá þekktasti teiknari landsins. Bókin kom út á tíma sjálfstæðisbaráttunnar þegar þjóðararfurinn gekk í endurnýjun lífdaga. Þjóðsagnaminni voru færð nær þjóðinni og um leið mörkuð sérstaða íslenskrar menningar. Á fyrri hluta 20. aldar var litið á íslensku jólasveinana sem tröll en jólasveinar Tryggva minna frekar á bændur. Þeir eru í eðlilegri stærð og klæðaburður þeirra þótti kunnuglegur. Þannig færði Tryggvi íslensku jólasveinana nær börnunum og jafnframt varð smám saman til málamiðlun á milli íslensku tröllanna og ameríska jólasveinsins. Jólasveinarnir fengu að vera þrettán talsins og heita sínum gömlu nöfnum. Aftur á móti fóru þeir smám saman að klæðast sömu fötum og sá ameríski og gefa gjafir jafnframt því að halda sínum séreinkennum og hrekkjum. Jóhannes úr Kötlum notaði að mestu sömu nöfn á sveinana og séra Páll Jónsson á Myrká (1812-1889) sjötíu árum fyrr í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Með þessu kvæði sínu má segja að Jóhannes hafi sett í fastar skorður nöfn jólasveinanna, fjölda þeirra og í hvaða röð þeir halda til byggða.
(Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn)
Jólasveinamyndir Tryggva Magnússonar ( Birt með leyfi ættingja Tryggva)
Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum
á bæina heim.
Þeir uppi á fjöllum sáust,
– eins og margur veit, –
í langri halarófu
á leið niður í sveit.
Grýla var þeirra móðir
og gaf þeim tröllamjólk,
en pabbinn Leppalúði,
– það var leiðindafólk.
Þeir jólasveinar nefndust,
– um jólin birtust þeir.
Og einn og einn þeir komu,
en aldrei tveir og tveir.
Þeir voru þrettán
þessir heiðursmenn,
sem ekki vildu ónáða
allir í senn.
Að dyrunum þeir læddust
og drógu lokuna úr.
Og einna helzt þeir leituðu
í eldhús og búr.
Lævísir á svipinn
þeir leyndust hér og þar,
til óknyttanna vísir,
ef enginn nærri var.
Og eins, þó einhver sæi,
var ekki hikað við
að hrekkja fólk og – trufla
þess heimilisfrið.
Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.
Hann vildi sjúga ærnar,
– þá var þeim ekki um sel,
því greyið hafði staurfætur,
– það gekk nú ekki vel.
Giljagaur var annar,
með gráa hausinn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skauzt í fjósið inn.
Hann faldi sig í básunum
og froðunni stal,
meðan fjósakonan átti
við fjósamanninn tal.
Stúfur hét sá þriðji
stubburinn sá.
Hann krækti sér í pönnu,
þegar kostur var á.
Hann hljóp með hana í burtu
og hirti agnirnar,
sem brunnu stundum fastar
við barminn hér og þar.
Sá fjórði, Þvörusleikir,
var fjarskalega mjór.
Og ósköp varð hann glaður,
þegar eldabuskan fór.
Þá þaut hann eins og elding
og þvöruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.
Sá fimmti, Pottaskefill,
var skrítið kuldastrá.
– Þegar börnin fengu skófir
hann barði dyrnar á.
Þau ruku’ upp, til að gá að
hvort gestur væri á ferð.
Þá flýtti ‘ann sér að pottinum
og fékk sér góðan verð.
Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus. –
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.
Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.
Sjöundi var Hurðaskellir,
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.
Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.
Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o´n af sánum
með hnefanum braut.
Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
unz stóð hann á blístri
og stundi og hrein.
Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.
Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.
Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.
Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.
Ellefti var Gáttaþefur,
– aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.
Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.
Ketkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. –
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.
Hann krækti sér í tutlu,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.
Þrettándi var Kertasníkir,
– þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.
Hann elti litlu börnin
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.
Á sjálfa jólanóttina,
– sagan hermir frá, –
á strák sínum þeir sátu
og störðu ljósin á.
Svo tíndust þeir í burtu,
– það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.
Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð.
– En minningarnar breytast
í myndir og ljóð.
Jóhannes úr Kötlum – 1899 – 1972