Aðventukransar

Aðventukransar
Sagan segir að í kringum 1830 hafi þýskir kaupmenn tekið sig til og farið að selja svokallaðar aðventukrónur. Það voru kransar sem voru á einni til þremur hæðum og á hverjum kransi voru fjögur kerti sem skyldu tákna sunnudagana fjóra í aðventu. Krónan var síðan hengd upp í loft með öllu saman.  Síðar var farið að einfalda krónurnar og urðu þá til aðventukransar til að standa á borði. Siður þessi breiddist út um Þýskaland og þaðan til Danmerkur. í Danmörku urðu kransarnir mjög útbreiddir á hernámsárunum enda var þá fátt annað til að prýða heimilin.   Talið er að aðventukransar hafi ekki komið til íslands fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld og þá fyrst sem skreytingar í einstaka gluggum verslana og á veitingahúsum. Það var ekki fyrr en í kringum 1960-70 sem aðventukransar urðu söluvara á íslandi og samtímis því fór fólk að gera eigin kransa. Það má kannski bæta því við að aðventa er latneskt orð sem merkir tilkoma, það er koma Krists. Samkvæmt kristinni trú bera aðventukransar fjögur kerti. Hvert kerti hefur sitt tákn.

Aðventukransarnir bera fjögur kerti og er kveikt á einu fyrir hvern sunnudag í aðventunni. Guðspjöll sunnudaganna boða komu Drottins. Logandi kertin merkja komu Krists og aðdragandann að henni. Litur aðventunnar er fjólublár.

Fyrsta kertið er Spámannskertið, sem minnir á fyrirheit spámannanna um komu frelsarans.

Annað kertið er Betlehemskertið, og heitir eftir fæðingarbæ Jesús.

Þriðja kertið er Hirðakertið, nefnt eftir hirðingjunum sem fyrstir fengu fregnir um fæðingu frelsarans.

Fjórða kertið er Englakertið, sem minnir okkur á englana sem fluttu fréttina um fæðingu frelsarans.

Ljósin á aðventukransinum lýsa okkur í biðinni eftir jólunum og minna á tímann sem líður og reynsluna sem mótar okkur. Stundum tökum við á móti jólunum í gleði og eftirvæntingu. Stundum væntum við þeirra í sorg og sársauka. Hvert kerti á kransinum getur skírskotað til minninganna sem við berum með okkur en vísar um leið til vonarinnar sem jólin eru fyrirheit um.

Fyrsta kerti
Fyrsta aðventukertið minnir á ástvinina sem eru ekki lengur með okkur. Við nemum staðar, nefnum nafnið þeirra, rifjum upp röddina þeirra, andlitið þeirra og allar minningarnar sem tengjast þeim og jólatímanum. Við tendrum ljós, felum þau Guði og þökkum fyrir það sem lífið þeirra gaf okkur.

Annað kerti
Annað aðventukertið lýsir upp sársaukann yfir erfiðum breytingum sem hafa orðið í lífinu okkar. Það geta verið sambandsslit, atvinnumissir, fjárhagslegt áfall, heilsubrestur, frelsissvipting vegna streitu og álags, og hvers kyns breytingar sem skilja okkur eftir í einsemd. Við nefnum það sem veldur sársaukanum, leggjum okkur í Guðs hendur og biðjum um frið í hjartað.

Þriðja kerti
Þriðja aðventukertið er tendrað fyrir þau sem hafa misst áttir í lífinu og finnst þau vera týnd. Við þurfum öll að hafa stefnu í lífinu, að vita hver við erum og á hvaða leið við erum. Þess vegna er gott að þiggja leiðsögn ljóssins sem kemur í heiminn og vill upplýsa hvert og eitt okkar. Við tendrum ljós og biðjum fyrir þeim sem hafa misst sjónar á ljósinu og biðjum Guð að leiða þau í öruggt skjól.

Fjórða kerti
Fjórða aðventukertinu fylgir vonin um allt það sem jólin færa okkur. Barnið í jötunni er fyrirheit um frið og gleði handa öllum Guðs börnum. Við biðjum að ljós jólanna upplýsi huga og hjarta og að ljós okkar fái lýst bræðrum okkar og systrum.

Heimildir:
Saga daganna. Árni Björnsson
Tímarit.is
Kirkjan.is

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar
Kammerkór Norðurlands

14. desember, 2023

Jólatónleikar Kammerkórs Norðurlands í Bergi laugardaginn 16. desember kl. 20 Stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is