Fjögur sett af öfum og ömmum

Já, blessuð jólin!
Eins og ég þoli ekki þegar við Íslendingar gleypum við öllum bandarískum siðum eins og hrekkjavöku, svörtum föstudegi og valentínusardegi, þá kokgleypti ég amerísku jólin fyrir mörgum árum. Já, já. Ég veit. Ég dauðskammast mín. Og reyni að predika minna! En ég er algjört jólabarn og hef alltaf verið. Mér þykir kjánalega vænt um allt jólaskrautið mitt. Sér í lagi það sem ég veit að hefur verið gert af sérstakri alúð. Heimagerð jólakort hengi ég upp í alla glugga um hver jól og dáist að dugnaði og hugmyndaflugi þeirra sem þau gera. En rautt og grænt og hvítt og gyllt skal það vera!! Ég hreinlega ofhleð stofuna af skrauti og nýt þess svo að sitja með kertaljós um allt og horfa á dýrðina. Sem verður oft til þess að maður hverfur á vit ljúfra jólaminninga. Í mínum huga eru ömmur og afar nátengd jólum. Þeim fylgja allskonar hefðir og sögur frá gömlum dögum sem oft eru rifjaðar upp árlega. Og ég er heppin. Ég er heppin að afi minn og amma skildu og náðu sér bæði í annan maka. Ég er líka heppin að vera lausaleikskrói og eiga í kaupbæti tvo pabba. Þeim fylgja tvö sett af foreldrum! Svo var ég heppin að langömmur mínar urðu flestar langlífar. Þetta allt gerir það að verkum að ég var rosa rík af lifandi forfeðrum. Átti 4 sett af öfum og ömmum og 4 langömmur þegar ég var 12 ára.

Jólin á Ósi
Á Ósi í Arnarneshreppi var ég mikið hjá Jóni móðurafa mínum og Kristínu fósturömmu. Þar var fullt af torfkofum um öll tún og fjósið var með 3 torfveggi. Í því var ekkert rafmagn og ekkert rennandi vatn. Amma og afi ólust bæði upp í torfbæjum og fannst engin nauðsyn að aðlagast nútíma þægindum og óþarfa. Mér fannst oftast ekkert athugavert við það og átti margar hugljúfar stundir á aðventunni þegar amma var að mjólka kúna með eina olíulugt á veggnum. Oft sagði hún sögur frá liðnum jólum og kenndi mér allskonar ljóð og bænir. Jórtrið í kálfunum, skrjáfið í heyinu sem afi var að gefa og kurrið í hænunum sem voru farnar að sofa á sínum prikum sveipa þessar minningar hátíðarljóma. Ég var reyndar alveg rosalega myrkfælin og á meðan var ekki komið ljós á lugtina ríghélt ég mér í úlpuna hans afa eða í hundinn. Jólatréð var skreytt á Þorláksmessu. Oft var ég þar og fékk að hjálpa til. Tréð var gamalt, fóturinn var hulinn með bómull, serían var eins og kerti, kúlurnar voru marglitar og nokkrir fuglar voru einnig til. Svo var allt hulið englahári. Og afi fór í langt bað! Hann sagði alltaf að það væri nóg að fara í bað fyrir jól og páska. Mér fannst hugmyndin góð en fékk nú ekki að apa það eftir gamla manninum. Hann var auðvitað alinn upp við það að góður þvottur með þvottapoka á hverju kvöldi væri nóg flesta daga. Ég sá svo þegar ég eltist að auðvitað voru böðin miklu fleiri en tvö hjá honum! Koddinn hans var samt alltaf “brúnn”. Sérstaklega í kringum heyskap þegar hann var aldrei með húfu. Ég gat ekki annað en strokið blíðlega yfir koddann minn þegar hann varð svona í fyrsta skiptið eftir að ég flutti sjálf í sveitina.

Jóladagskvöld á Steindyrum Erna amma mín og Ármann fósturafi á Steindyrum voru heldur nútímalegri þó þau byggju í sveit. Erna amma frá Þýskalandi og aldrei vel talandi á íslensku. Ég fékk líka að skreyta jólatréð hjá þeim. Og fékk alveg að ráða því ein nema fleiri barnabörn væru á svæðinu. Ég fór líka mjög oft með ömmu að kaupa jólagjafir og átti því auðvelt með að undirstinga hvað væri vinsælt í pakkann minn. Stórfjölskyldan borðaði alltaf saman á Steindyrum á öðrum í jólum. Oft reyndum við að komast úteftir seint á jóladagskvöld. Það var sofið í hverju herbergi í rúmum og á dýnum og aldrei þótti gamla settinu of margt. Það var alltaf svín í matinn með súrum gúrkum, asíum og steiktu hvítkáli. Fullorðna fólkið fór með okkur út að leika ef það var snjór en oft fórum við bara og lékum okkur öll í hlöðunni. Kaffitímarnir einkenndust af skreyttum rjómatertum, randalínum og smákökum. Kvöldin af appelsíni og miklu konfekti. Oft voru bæði kettlingar og hvolpar og þeim var dröslað af okkur börnunum upp á loft þar sem við klæddum þau í dúkkuföt og svæfðum þau í rúmum. Alltaf lét amma sem hún sæi ekki hvað við vorum að gera. Þýska langamma mín var oft erlendis á jólunum og þá var nú gaman að fá sendan pakka frá útlöndum. Þeim fylgdi líka alltaf þýskt góðgæti. Lakkríspípur, Lubekker marsípan og þessar hræðilegu hunangskökur. Besta jólagjöfin var þegar ég fékk frá henni dúkku sem gat gengið og sungið, með mikið sítt hár. Henni fylgdu átta “plötur” (sem maður setti í bakið á henni) í mismunandi litum sem innihéldu misskemmtileg þýsk lög. Þessa dúkku á ég ennþá og hún heitir að sjálfsögðu Fríða!

Möðruvallastræti 10
Í Möðruvallastræti 10 bjuggu fósturafi minn og amma, Ellen og Sverrir. Þangað fórum við alltaf á jóladag. Dubbuðum okkur upp um tvöleytið og mættum í kaffi. Gulltertan hennar ömmu er ein besta kaka sem ég hef fengið. Og hún var alltaf á jólunum. Á meðan fullorðna fólkið kláraði að borða gat ég dundað við að dást að fallega jólaskrautinu sem amma og afi höfðu búið til. Heklaði óróinn sem alltaf hékk yfir borðstofuborðinu og jólatrésdúkurinn voru samt uppáhaldið mitt. Ég varð því ekki lítið glöð þegar ég, fullorðin kona, fékk eins jólatrésdúk frá þeim í jólagjöf. Svo byrjuðum við loksins að púkka. Þetta spil er eingöngu spilað um hátíðirnar. Heimagert spilaborð, spil og eldspýtustokkur á hvern mann. Amma með nammiskálina á hliðarlínunni, sumir að reyna að svindla, aðrir að kveikja á eldspýtum, einhverjir komnir á hausinn í spilinu, hlé gert fyrir jólastundina okkar. Hangikjötið á sínum stað með öllu tilheyrandi og ísterta í eftirrétt. Síðan gengið í kringum jólatréð. Martröð allra á ákveðnum aldri. Aftur púkkað og áður en heim var haldið voru appelsínur og epli. Borðað með ávaxtahnífum. Ég tók yfirleitt eins og eitt brjálað frekjukast rétt fyrir heimferð. Lækjargil 22 Föðurforeldrar mínir bjuggu í

Lækjargili 22.
Amma Stella og afi Nunni. Ég fór lítið til þeirra á jólum sem barn. Við fórum hins vegar alltaf þangað á aðfangadag þegar við krakkarnir fórum með pabba að keyra út pökkum. Þetta var alltaf þegar barnaefnið var búið. Yndisleg stund fyrir alla. Mamma fékk frið við eldamennskuna fyrir spenntum og óþolinmóðum krökkum, pabbi fékk frið fyrir tuðinu í mömmu og við krakkarnir dreifðum huganum og jukum á sykuræsinginn þar sem við fengum fullt af nammi. Amma Stella gaf okkur alltaf loftkökur sem hún geymdi í kökudunki langt upp í hillu í búrinu. Mér hafa alltaf þótt loftkökur vondar en þorði náttúrulega ekki að segja frá þessum gikkshætti. Bræður mínir græddu því alltaf vel á þessari heimsókn þar sem þeir fengu hálfbræddar kökurnar úr lófa mínum þegar út í bíl var komið.

Á spítala um jólin Amma.
Stella tengist svo sjúkrahúsvist minni um jól töluvert. Tæplega 9 ára gömul greindist ég með lungnabólgu á Þorláksmessu. Ég var send á spítalann og lögð inn á gömlu barnadeildina í “lyftuhúsinu” á FSA. Ég lá á margra barna stofu þar sem einhverjir komu og fóru á meðan ég var. Ein lítil stelpa var þó allan tímann og svo miklu lengur en ég. Hún hafði brennst illa á heitu vatni. Enn man ég þegar allir voru reknir út af stofunni þegar verið var að skipta um umbúðir á henni og hún grét mjög. Amma Stella vann á B-deildinni sem var þá við hlið barnadeildarinnar og kíkti oft á mig þegar hún var að vinna. Það var mjög notalegt. Á þessum tíma var ekki vani að foreldrar væru allan sólarhringinn með börnum sínum á spítalanum. Ég man þó ekki eftir að það plagaði mig neitt nema á gamlárskvöld þegar ég varð að horfa á flugeldana út um gluggann. En sjö íspinnar á þeim degi redduðu nú miklu. Já, það var gott að vera barn og búa við skemmtilegar jólahefðir. Samvera í jólaboðum, endalaus útivera með vinum og nágrönnum og enginn skóli! Svo líður tíminn og maður kemur í manns stað. Ömmur mínar og afar hafa horfið af sjónarsviðinu og við búið til nýjar hefðir án þeirra. Nú er ég sjálf orðin amma. Vona bara að ég verði amma sem verður minnst. Að ég gleymi ekki að leika mér og leiðbeina, kenna skátasöngva, Olsen-olsen, renna mér á þotu og fara í leiki. Og halda í jólahefðir!

Myndatexti:
Púkkað í Möðruvallastræti 10. Afi Sverrir og bræður mínir Magnús og Ágúst að gera spilið
klárt. Eldspýtustokkana vantar. Fallegi heklaði jólaóróinn fyrir ofan borðið.

Gunnhildur Gylfadóttir Steindyrum Svarfaðardal.
Jólaminningar – Norðurslóð 12.12 2019. Birt með leyfi Gunnhildar og Norðurslóðar.

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is