Jólakveðja frá Mehamn 71°02′08″N 27°50′57″E 

Ég flutti til Noregs 2009 og hef búið í Mehamn sem er á nyrsta odda evrópu á fastlandinu.  Hér bý ég með tveim strákum 13 og 8 ára.  Hérna búa um 800 manns, en í sveitarfélaginu eru um 1100 íbúar.

Núna er mörketid hjá okkur, frá nóvember til febrúar kemur sólin ekki upp, en það birtir samt aðeins, en meira svona eins og skammdegi frekar en dagsbirta.  Sem betur fer höfum við nóg af snjó sem hjálpar til með að lýsa aðeins upp skammdegið. Við höfum svo eins og heima 24 tíma sólarljós á sumrin, nema við höfum það aðeins lengur en þið, eða frá april/mai- ágúst/september.

Ég vinn núna með liðveislu í grunnskólanum, er aðstoðarmanneskja inni í skólastofunni eða með 1/1 fyrir þá nemendur sem þurfa aukin stuðning.  Svo er ég inn á milli í eldhúsinu á hjúkrunarheimilinu þegar vantar fólk þar.  

Þá eru jólin alveg að koma. 23. desember í dag, og tími kominn til að skreyta jólatréið.  Ég skal viðurkenna að ég er ekki mikið jólabarn, en æskuminningarnar leita alltaf til jólahaldsins á Hrafnstöðum í den.  Þar kom meiri parturinn af stórfjölskyldunni saman (þeir sem þekkja til vita að þar er talað með stóru S ), amma og 2-3 af systrunum stóðu inni í þröngu eldhúsinu og steiktu laufabrauð, meðan afi, dætur, synir, tengdasynir og barnabörn sátu um allt hús og skáru út alls konar mynstur í kökurnar sem voru svo lagðar á lök á sófann inni í stofu og biðu eftir að verða steikt. 

Í kjallaranum gat maður svo stolist í fleiri sortir af smákökum sem amma Stebba hafði bakað, og auðvitað smá konfekt líka fyrst maður var nú einu sinni kominn þangað niður.

Á aðfangadag var alltaf grjónagrautur, lambakjöt og allt meðlæti sem maður gat hugsað sér, alltaf var nóg til af mat og alltaf pláss fyrir alla.  Eftir matinn voru svo pakkarnir opnaðir, og það tók ansi langan tíma með allt þetta fólk.  Svo var sest niður og spilað og lesið, þangað til tími var kominn á kvöldkaffið með kökum og tertum.  

Ég hef því miður ekki smakkað mikið af norska jólamatnum, þar sem ég borða ekki svínakjöt.  En hérna borða flestir ribbe, sem er svínasteik, eins er fenalår (þurkað og saltað lambalæri) mjög vinsælt en það er ekki soðið eða neitt, bara borðað beint af beininu, og ekki getum við gleymt pinnekjötinu, sem er þurrkað og saltað lambakjöt, sem þarf að leggja í bleiti og sjóða svo í marga klst.  Og svo tók smá tíma að venjast því að hérna sjóða norðmenn rauðkálið, og bera það fram heitt.  Í dag  23. des, borða margir lutfisk, sem er saltaður og þurkaður þorskur sem er svo lagður í einhverja blöndu, og á endanum verður fiskurinn eins og gel, lyktar aðeins betur en skata, en ekki mikið.

Ég hef ekki haldið í margar hefðir frá Íslandi, en skórinn fer í glugga hvert ár, og strákarnir fá alltaf 1 bók í jólagjöf.  En það sem margir furða sig á hérna er að ég set aldrei jólatréið upp fyrr en 23. desember.  Hérna er ekki mikið um að fólk skreyti húsin að utan, (sakna þess mikið að keyra um og skoða skreytingarnar),en því meira inni.  

Við erum mjög afslöppuð með jólin, erum við yfirleitt í náttfötum allan daginn, og strákarnir fá að velja hvað er í matinn, í ár er það fyllt önd á aðfangadag, en í dag verða það SS pylsur frá afa Steina.  Ég hef svo þá hefð (sem strákunum finnst mjög skemmtileg) að ég fel jólapakkana hingað og þangað um húsin og þeir fá svo hint um hvar þeir eiga að leita, og getur þetta tekið allt kvöldið.  Við eyðum svo yfirleitt áramótunum með vinafjölskyldum, þar sem við komum öll saman, borðum kalkún og endum svo kvöldið með að skjóta upp flugeldum.  1. janúar byrjar svo með afmælisveislu fyrir yngsta gaurinn á heimilinu

Við óskum öllum gleðilega hátíð.

Kveðja frá Mehamn

Heiðdís (Steina Ben og Rikku frá Hrafnstöðum)

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is