16. desember

Mörgum þykir það ómissandi liður í jólaundirbúningnum að senda vinum og vandamönnum sínum nær og fær jólakveðjur. Algengt er að send séu jólakort en þó hefur það færst í aukana með nútímatækni að sendar séu rafrænar jólakveðjur, tölvupóstar, samfélagsmiðlakveðjur og smáskilaboð sérstaklega í tilefni jólanna.

Frá árinu 1932 hefur Ríkisútvarpið sent út jóla- og nýárskveðjur og hafa þær sannarlega slegið í gegn og eru nú lesnar á tveimur dögum.
Jólakveðjurnar voru fyrst ætlaðar hlustendum á Grænlandi og útlendingum búsettum á Íslandi. Í kringum 1940 nefnist þessi dagskrárliður „Jólakveðjur og ávörp til skipa á hafi úti og sveitabýla“. Árið 1943 heyrast jólakveðjurnar fyrst á Þorláksmessu. Árið 1956 er bryddað upp á þeirri nýbreytni að flytja kveðjur frá Íslendingum erlendis. Í dagskrá stendur: „Jólakveðjur frá Íslendingum í Stuttgart og e.t.v. víðar“. Þetta tíðkaðist um nokkurra ára skeið og var jafnan framkvæmt þannig að Íslendingar búsettir erlendis söfnuðust saman á heimili einhvers þeirra og lásu inn á segulband. Kveðjurnar voru síðan sendar með pósti til Íslands og útvarpað kl. 13.00 á jóladag. Ekki hefur varðveist nein upptaka af þessum toga. Eftir því sem árin liðu fór jólakveðjum Ríkisútvarpsins sífjölgandi, sérstaklega jukust þær á stríðsárunum þegar fólkið sem flykkst hafði úr sveitunum í atvinnuna “fyrir sunnan” , tók að senda kveðjur heim til sín. Þótti þá mörgum, sem heima sat, gott að heyra nafn sitt og heimilisfang hljóma á öldum ljósvakans og hefur það ekkert breyst í nútímanum. 

icon_05

Hvað heitir Dalvíkingurinn sem lengi hefur lesið jólakveðjur á RÚV ?

Sigmundur Jóhannsson
Sigvaldi Júlíusson
Sigurður Kaldalóns