Það var til siðs heima á Tjörn að um hádegisbil á aðfangadag vorum við börnin á bænum jafnan send af stað á skíðum með jólakort á næstu bæi; Grund, Brekku, Jarðbrú, Laugahlíð, Húsabakka og Ingvarir. Þetta voru miklir leiðangrar og tóku oftast lungan úr aðfangadeginum. Auðvitað voru þetta, svona eftir á að hyggja, einskær klækindi af hálfu foreldra okkar til að skapa frið fyrir húsmóðurina að undirbúa kvöldið og draga úr spennumyndun á heimilinu. Ég hef sjálfur beitt þessu bragði á mín börn með góðum árangri. Það þurfti nú reyndar síst að hvetja okkur til fararinnar því þetta var alltaf sannkölluð lystireisa, fólk í jólaskapi á öllum bæjum að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn áður en hátíðin gengi í garð og hvarvetna vorum við nestuð með sælgæti og smákökum og einu sinni man ég eftir því að Sigga gamla á Jarðbrú gaf mér nýprjónaða lopavettlinga því henni þóttu mínir heldur litlir.
Það var sem sagt í einni af þessum póstferðum á aðfangadag sem saga þessi gerist. Við bræður höfðum kjagað á milli bæjanna í skafrenningi og vorum búnir að skila af okkur öllum kortum suður á bæina. Það er orðið rokkið þegar við komum í hlað á Ingvörum en þá uppgötvum við okkur til skelfingar að jólakortið til Ingvarabónda er horfið. Líklega hafði það skoppað upp úr vasa á leiðinni og fokið út í buskann. Hefur ekkert til þess spurst síðan. Nú voru góð ráð dýr. Ekki þótti okkur sæmandi að laumast burt eins og þjófar að nóttu án þess að bera einhverja jólakveðju í bæinn. Eldri bræðurnir telja því Kristján á að banka upp á og bera Steingrími bónda jólakveðjuna munnlega. Kristján lætur til leiðast eftir dálitla eftirgangsmuni og loforð um vænan skerf af nestinu, fer upp tröppurnar og gengur beina leið inn í eldhús án þess að banka. Þar stillir hann sér upp í skíðaskónum á miðju eldhúsgólfinu og þylur: “Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár, þakka liðið, til fjölskyldunnar á Ingvörum frá fjölskyldunni á Tjörn” Án þess að hafa um það fleiri orð eða bíða eftir andsvörum heimamanna hraðar hann sér svo aftur út til okkar sem biðum og renndum við hið snarasta úr hlaði í hátíðarskapi og ánægðir með vel unnið verk.
Úr Jólablaði Norðurslóðar 2001. Hjörleifur Hjartarson – ( Birt með leyfi Norðurslóðar)