Jólakortið sem hvarf – Hrakfallasaga frá Tjörn.

Það var til siðs heima á Tjörn að um hádegisbil á aðfangadag vorum við börnin á bænum jafnan send af stað á skíðum með jólakort á næstu bæi; Grund, Brekku, Jarðbrú, Laugahlíð, Húsabakka og Ingvarir. Þetta voru miklir leiðangrar og tóku oftast lungan úr aðfangadeginum. Auðvitað voru þetta, svona eftir á að hyggja, einskær klækindi af hálfu foreldra okkar til að skapa frið fyrir húsmóðurina að undirbúa kvöldið og draga úr spennumyndun á heimilinu. Ég hef sjálfur beitt þessu bragði á mín börn með góðum árangri. Það þurfti nú reyndar síst að hvetja okkur til fararinnar því þetta var alltaf sannkölluð lystireisa, fólk í jólaskapi á öllum bæjum að leggja síðustu hönd á jólaundirbúninginn áður en hátíðin gengi í garð og hvarvetna vorum við nestuð með sælgæti og smákökum og einu sinni man ég eftir því að Sigga gamla á Jarðbrú gaf mér nýprjónaða lopavettlinga því henni þóttu mínir heldur litlir.

Það var sem sagt í einni af þessum póstferðum á aðfangadag sem saga þessi gerist. Við bræður höfðum kjagað á milli bæjanna í skafrenningi og vorum búnir að skila af okkur öllum kortum suður á bæina. Það er orðið rokkið þegar við komum í hlað á Ingvörum en þá uppgötvum við okkur til skelfingar að jólakortið til Ingvarabónda er horfið. Líklega hafði það skoppað upp úr vasa á leiðinni og fokið út í buskann. Hefur ekkert til þess spurst síðan. Nú voru góð ráð dýr. Ekki þótti okkur sæmandi að laumast burt eins og þjófar að nóttu án þess að bera einhverja jólakveðju í bæinn. Eldri bræðurnir telja því Kristján á að banka upp á og bera Steingrími bónda jólakveðjuna munnlega. Kristján lætur til leiðast eftir dálitla eftirgangsmuni og loforð um vænan skerf af nestinu, fer upp tröppurnar og gengur beina leið inn í eldhús án þess að banka. Þar stillir hann sér upp í skíðaskónum á miðju eldhúsgólfinu og þylur: “Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár, þakka liðið, til fjölskyldunnar á Ingvörum frá fjölskyldunni á Tjörn” Án þess að hafa um það fleiri orð eða bíða eftir andsvörum heimamanna hraðar hann sér svo aftur út til okkar sem biðum og renndum við hið snarasta úr hlaði í hátíðarskapi og ánægðir með vel unnið verk.
Úr Jólablaði Norðurslóðar 2001. Hjörleifur Hjartarson – ( Birt með leyfi Norðurslóðar)

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir,…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024/

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir, snyrtistofur,…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is