Af Jólaföstusiðum á Jarðbrú

Fyrsti granni minn í höfuðborginni, sem fékk áþreifanlegan jólafiðring í ár, kveikti á jólaseríu í stofuglugganum hjá sér um miðjan nóvember. Það þótti mér nokkuð snemmt og varð hugsað til Jónsa afa á Jarðbrú. Hann hafði orð á því einu sinni að jólin kæmu snemma í Brekku þegar kveikt var á seríunni undir þakskegginu þar á bæ 21. desember en ekki á Þorláksmessu. Þannig stóð bara á helgi og Brekkubændum þótti viðeigandi að byrja jólin með fyrra fallinu. Því fögnuðum við Jarðbrúarbræður enda boðuðu ljós undir Brekkuþaki að bið eftir jólum væri senn á enda. Afi Jónsi gaf sig aldrei og hreyfði hvorki jólaskraut eða seríur fyrr en á Þorláksmessu, eftir að þulir Útvarpsins voru byrjaðir að senda kveðjur í sýslur og dali. Þá var loksins óhætt að príla upp á borð og stóla á Jarðbrú til að festa músastiga og alls kyns pappírsvafninga í loft og veggi með teiknibólum. Afi sá sjálfur um verkið framan af en gerðist verkstjóri okkar bræðra við jólaskreytingar þegar við uxum úr grasi. Hann hafði samt ævinlega á sinni könnu að festa kúlur neðan í ljósakrónuna í stofunni. Þær voru í fánalitunum, rauðar og bláar, óskaplega fínar en svo brothættar að ekki var fyrir hvern sem er að handleika þær. Svona fánalitakúlur hefi ég ekki séð annars staðar fyrr eða síðar og veit eiginlega ekki hvað um þær varð. Einhvern tíma spurðist ég fyrir um hvort kúlurnar hefðu verið lagðar í kistuna hans ásamt písknum en það var ólíklegt talið. Sennilegra er að okkur bræðrum hafi tekist að stúta þeim smám saman við upphengingar á Þorláksmessu eftir að verkstjórinn var horfinn yfir móðuna miklu.

Afi hafði þann starfa á jólaföstu að kippa ljósakúplum niður, týna úr þeim dauðar flugur og pússa glerið að innan. Þetta var vandaverk. Einu sinni sem oftar bar Tryggva í Brekkukoti að garði. Þeir afi fengu sér kaffi og tár út í og ætluðu svo að hjálpast að við að þrífa flugnaskít í Jarðbrúarljósum. Ömmu leist ekki á blikuna og taldi þá verða að velja um kaffi og kúpla eða kaffitár og enga kúpla. Þeir völdu kaffitár og síðan tárið eintómt en létu látnar flugur bíða um sinn. Alltaf voru flestar flugur í kúplinum á ganginum. Bræður veltu fyrir sér af hverju þær vildu frekar drepast á ganginum en t.d. í svefnherbergjum. Sú gáta er óleyst enn þann dag í dag.

Á fjölda heimila þessa lands er til siðs að rífa upp jólakortin strax og þau berast inn á heimilið með póstinum. Það hefði Jónsa afa þótt álíka guðlast og tendra jólaseríu í nóvember. Á Jarðbrú voru jólakortin geymd í lokuðum umslögum og opnuð við sérstaka athöfn seint á jólanótt, eftir pakkana og eftir biskupinn í Sjónvarpinu. Þetta fyrirkomulag var yfir alla umræðu hafið, svo sjálfsagt var það. Opnun jólakorta hefur alltaf verið sérstök athöfn á jólanótt á mínu heimili eftir að það varð til og frú Guðrún kann því vel. Hún þekkti hins vegar ekki annað heiman frá sér, og á heimilum ættingja og vina, en menn læsu jólakortin þegar þau duttu inn um bréfalúguna. Þannig lifir tiltekinn jólaarfur frá Jónsa á Jarðbrú í hátíðarvenjum afkomandans í Álftalandi 5 í Reykjavík. Okkur þykir hins vegar fullseint að bíða fram á Þorláksmessu með að setja upp seríur í glugga og á grindverk en það gerist samt aldrei fyrr en um miðjan desember. Það held ég að afi fyrirgefi fúslega, einkum og sér í lagi þegar fyrir liggur að jólakort heimilisins eru stimpluð trúnaðarmál þar til kl. 23 á aðfangadagskvöld.

Atli Rúnar Halldórsson frá Jarðbrú.

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir,…

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Hið árlega aðventurölt

4. desember, 2024/

Fimmtudaginn 5. desember 2024 milli kl 17 og 21 verðir hið árlega aðventurölt á Dalvík. Verslanir, gallery, markaðir, snyrtistofur,…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is