Jólastjarnan hefur verið valin frá árinu 2011 í tengslum við jólatónleika Björgvins Halldórssonar – Jólagestir Björgvins. 10 börn 14 ára og yngri eru valin úr hundruðum umsækjenda og einn hlýtur titilinn Jólastjarnan hvert ár. Börnin 10 taka svo öll þátt í tónleikunum.
Í ár kom sigurvegarinn frá Dalvík, í 10 manna hópnum í ár voru tvö börn úr Dalvíkurbyggð, sigurvegarinn Írena Rut Jónsdóttir: Foreldrar Elíngunn Rut Sævarsdóttir og Jón Sæmundsson og Óli Árni Haraldsson foreldrar Linda Geirdal og Haraldur Ólafsson. Þess má geta að Lea Dalstein frá Skeiði í Svarfðardal var einnig í hópnum árið 2022.
SIGURVEGARINN
Hin fjórtán ára Írena Rut Jónsdóttir er Jólastjarnan í ár. Írena Rut er frá Dalvík og segist hafa byrjað að syngja áður en hún lærði að tala. Hún er búin að vera í söngnámi frá því hún var fimm ára gömul og lærir nú við Tónlistarskólann á Tröllaskaga. „Þegar ég er á sviðinu er ég alveg örugg með mig af því að ég er orðin svolítið vön því,“ segir Írena Rut sem er þó alltaf örlítið stressuð áður en hún kemur fram. „Svo einhvern veginn fer það þegar ég er komin upp á svið og byrja að syngja.“
GEISLAÐI AF HENNI Á SVIÐINU
Dómarar voru tónlistarfólkið Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir og Logi Pedro Stefánsson og tónlistarstjóri Rásar 2, Sigurður Þorri Gunnarsson. Kynnar voru Katla Þórudóttir Njálsdóttir og Kristinn Óli S. Haraldsson.
Írena flutti lögin Ó helga nótt og Vetrarsól með glæsibrag og leið dómurum eins og þeir væru að horfa á stórstjörnu þegar hún kom fram. „Þegar maður lokaði augunum var eins og maður væri mættur á stórtónleika hjá einhverri dívu,“ sagði Logi Pedro. „Hún kom og það geislaði af henni,“ sagði Sigurður Þorri. „Þetta var líka tæknilega ótrúlega vel gert,“ bætti Guðrún Ýr við.
„Eitt sem er svo merkilegt, því hún er náttúrulega svo ung, en mér fannst ég trúa hverju orði. Sérstaklega í Vetrarsól. Það er þroski í röddinni og flutningnum,“ sagði Sigurður Þorri.
Lögin sem ÍRENA söng.