Jólaminningar miðaldra Dalvíkings

Ég er uppalinn á þeim árum sem Dalvík er að breytast úr möl í malbik. 2-3 götur voru bikaðar á hverju sumri; spenntir sátum við um að sitja í hjá vörubílstjórum sem voru á vinnuskyrtum, með mismikinn plömmer á gallabuxunum. Strákar voru á hjóli: Fyrst Kopper, svo Grifter, svo DBS. Stelpum hafði ég ekkert vit á. Leðurgallaðir, mjóslegnir mótorhjólatöffarar voru við Shellið; minntu á lakkrísrör. Við skulfum fyrir eistnaskoðun í gömlu Gimli hjá Eggerti lækni Briem, þeim mikla ljúflingi og harmdauða. Þar var síðar tónlistarskólinn og æskulýðsmiðstöð, sumsé áður en Heiða náði í Bjarna til Grenivíkur. Dalbær var byggður, heilsugæslan (sem var kölluð læknamiðstöð) og Ráðhúsið (alltaf kallað stjórnsýslan). Kaupfélagið var opið 9-12 og 13-18, lokað í hádeginu. Eins var hjá Eika í Kjörbúðinni. Plötur fengust í Sollubúðinni, bakaríið var í Týról. Þar var líka bókasafnið þar sem gott var að hringa sig niður í rykmettuðu skoti og lesa meðan afi afgreiddi. Krakkager fór í Fallin spýtan við Bergó; veit ekki hvort nokkur hefur reynt þann leik í kringum raðhúsið sem þar stendur nú. Samherji var enn bara þrír menn og Guðsteinn. Sunnanáttin lagði minkabúsbrælu fyrir vit okkar; Fiskidagurinn mikli var miklu betri hugmynd hjá Steina. Tíkallaspil var í Shellinu; trompvinningurinn var 10 krónur, í krónupeningum. Gógó réði Hólnum; þar skiptust frændurnir Hákon og Örvar á að eiga metið í Ms. Pac-Man. Siggi Matt stökk hæð sína án atrennu í gamla íþróttahúsinu. Hávaxinn maður með auðþekkt göngulag arkaði um bæinn á gamlárskvöld í múnderingu sem á stóð Sprengja ´84 og blikkaði rauð ljósapera efst. 

Svo kom nútíminn ´85 með Svarfdælabúð og hádegisopnun. Farið var að sjónvarpa á fimmtudögum og í júlí. Að lokum var búið að malbika allt. Maður stækkaði, menntaðist, flutti burt, öðlaðist fjarlægð og víðari sýn. Aðrir tóku við…

Jólin voru ekki í huga manns fyrr en í lok nóvember. Þetta voru jú tímar sem einkenndust af skorti á svörtum fössurum og sæber monday og outlet og dömulegum dekurdögum. Hugmyndaflugi skransala voru enn einhver takmörk sett. Kaupfélagið var miðpunkturinn sem allt mannlíf hverfðist um, þar fékkst allt sem þorpsbúar þurftu og þar skiptist fólk á fréttum. Jólin urðu áþreifanleg þegar jólasveinninn kom í gluggann austan við hornið (ja, raunar er þetta nú afar rúnnað horn…) á kaupfélaginu. Blessaður karlinn stóð þar einn ár eftir ár og kinkaði kolli án afláts, já já já jólin eru að koma fannst mér hann segja. Stóreflis stjarna var sett upp á kaupfélagið og lýsti alla aðventuna. Þá voru jólin komin í seilingarfjarlægð. Svo komu jólasveinar og sungu lög á kaupfélagssvölunum. Þeir voru oft ansi líkir körlum í byggðarlaginu.

Í minningunni voru jólalög aldrei leikin fyrir fyrsta desember, hvorki í útvarpi né af hljómplötum heima fyrir. Jólaföndrið í Dalvíkurskóla kom manni í allgóðan jólagír; þar hljómuðu jólasöngvar af snældum einn laugardag á meðan maður draslaði saman einhverri ólögulegri jólahrúgu úr filti, pípuhreinsurum og glimmer. Vopnaður límstifti. 

Lítil stemning var fyrir hátíðlegum jólalögum á mínu æskuheimili; það var Gáttaþefur sem gægðist fyrstur inn í barnssálina, svo Jólastjörnur Gunnars Þórðarsonar og auðvitað Ellý og Vilhjálmur. Þetta rúllar enn fyrir jólin og ekki séð að synir mínir hafi minna gaman af. 

Amma í Odda var músíkölsk og dillaði sér einkum við harmonikkuspil. Hún átti plötu sem ég skellti gjarnan á fóninn í litlu stofunni í Odda. Þar var Eddukórinn. Það er einhver sérkennilega þung og góð nostalgísk stemning yfir þessum kór, sem ég fann síðar að er alls ekki besti kór í heimi. En að heyra hann syngja um jólasveinana, kvæði Jóhannesar úr Kötlum, er hreinn unaður. Og enn í dag finn ég mér stað og stund í einrúmi og spila Á jólunum er gleði og gaman rétt fyrir jólin. Þá loka ég augunum og er staddur í Odda, í stólnum með skammelinu, rökkvað í stofunni en jólaljós í glugga.

Ég fékk aldrei í skóinn. Það var þó ekki fyrir það að jólasveinninn fyrirliti mig. Nei, ég fékk á strenginn. Strengurinn var krosssaumslengja með dagatali sem móðir mín blessuð hengdi á vegginn í herberginu mínu að kvöldi þrítugasta nóvember. Við hvern dag var plasthringur sem eitt stykki sælgæti hékk á að morgni frá og með fyrsta desember. Síríuslengja, Rjómatoffee, Bananastöng, Staur, Malta, Hraun, Conga, Ópalpakki eða Rommí. Ég hef mömmu grunaða um að hafa haft einhver afskipti af þessu. 

Annars var það mamma sem bar hitann og þungann af undirbúningi jóla. Henni á ég mest að þakka að aðventa og jól eru sveipuð notalegum vellíðunarljóma. Hún er mesta hamhleypa til verka og hefur lágan skítastuðul, vart merkjanlegan. Föt saumaði hún á okkur bræður fyrir jólin jafnan. Því næst var allt þrifið í hólf og gólf, skápar og loft skinu og önguðu af Ajax. Með salmíaki. 

Átján sortir söfnuðust í dunka, lagkökur og rúllutertur, perutertur, sherrytertur. 

Laufabrauð var skorið og steikt fyrstu eða aðra helgina í desember. Deigið var lengst af fengið hjá Rikka. Mamma og amma fóðruðu svo vöðvabólguna með því að fletja út eins og 250 stykki. Mér fannst mikið á liggja að hespa skurðinum af og skar jafnan flestar kökurnar. Með því hætti ég þó alltaf á að fá hornauga frá föður mínum og afa, sem handskáru og gaumgæfðu kvurt hnífsbragð. Þeir höfðu höndlað þann mikla sannleik: It´s the journey, not the destination. Mér fannst þeir hins vegar ætla að handskera laufabrauð langt fram á nýár og þóttist eiga mestan heiður af því að þetta hafðist alltaf á einum degi.

Jólaöl var fastur liður. Það var sótt upp í Ásveg til Jóhanns Tryggva, sem var eins manns útibú Sana á Dalvík. Þetta renndum við feðgar og var hátíðablær yfir, kannski ekki síst vegna þess að fátítt var að faðir minn gerði annað en að smíða fyrir bæjarbúa og slíkar samverustundir því dýrmætar. Til marks um þetta kom ósjaldan fyrir að hann svaraði: “Tréverk” þegar síminn hringdi heima. Og alltaf varð ég hissa þegar ég sá hann í hversdagsfötum. Þeir áttu það sameiginlegt, Andrés Önd og pabbi, að þurfa bara einn galla; Andrés matrósafötin en pabbi bláan Snickers. Munurinn er hins vegar sá að Andrés er fullkominn ónytjungur en faðir minn einhver duglegasti og traustasti maður sem ég veit.

Foreldrar mínir voru í seinna fallinu með skreytingar. Aldrei var skreytt fyrr en tveim dögum fyrir jól. Þá var maður nánast kominn með harðlífi af jólaspenningi. Gjafir voru farnar að safnast fyrir inni í geymslu; pinklar komu með póstinum frá fjarstöddum ættingjum. Við bræður fengum svo að raða herlegheitunum í kringum tréð á aðfangadag. Eru það einu skiptin sem ég hef haft verkstjórn yfir Degi bróður mínum.

Seríur voru settar í glugga að kveldi tuttugasta og annars. Þar var faðir minn millimetrasmiðurinn með fullkomna yfirsýn. Ekki skyldi flanað að neinu. Sama formið, sama sería, sami gluggi. Hjarta, tígull, kassi, hallamál og tommustokkur.

Jólatréð fór upp á Þollák og hengdar á það kúlurnar. Sami toppurinn var á trénu ár eftir ár, allt þar til aldurhnignum foreldrum mínum fæddist síðbúið barn sem braut hann árið 1991. Eða 92. Hann hefur stundum verið minntur á það síðan. Það er ónærgætið og ómaklegt, enda er hann vænsta skinn. Keyptur var annar toppur sem var bæði verri og ljótari.

Spariföt voru alger skylda á aðfangadag. Í minningunni var ég klæddur í stingandi ullarnærbol undir skyrtunni. Allir fóru í bað, pabbi var lengst. Hann komst svo sjaldan í bað því hann var alltaf að saga plötur fyrir menn niðrá Tréverk.

Alltaf var farið í kirkju á aðfangadag þótt annars væri ekki farið nema ferma þyrfti. Að vísu sungu foreldrar mínir báðir í kirkjukórnum hjá Gesti Hjörleifs og fóru því oftar. Ég held þau hafi ekki alltaf langað. Gestur kom á Willys, A 2702, og brúkaði ökuhanska. Ég hafði sæmilegt eyra fyrir músík og kom mér jafnan fyrir næst bassanum, þar sem pabbi söng. Þar drundu líka Árni Óskars og Dóri Jó. Þetta voru alvörumenn. Síðan kann ég bassann í öllum jólasálmunum. Stefán Snævarr þótti mér halda afskaplega langar ræður; held að Jón Helgi hafi verið sneggri að rusla guðsorðinu af. Afi heitinn sagði líka að hann væri verkhygginn og jarðarfarirnar væru snyrtilegar hjá honum. 

Aldrei tókst mér að átta mig á því hvers vegna sólin var songuð í Heims um ból. Ég gat bekennt að mærin væri signuð en songuð sól? Rugl var þetta. Setningin “frumglæði ljóssins en gjörvöll mannkind” er líka fullkomlega óskiljanleg þegar punktur er settur aftan við hana, eins og ég gerði alltaf. Enda ekki skrítið: Kirkjukórinn tók alltaf kúnstpásu á eftir mannkind og sleit þar með setninguna sundur. Og meinvillin…mér stóð alltaf stuggur af henni.

Talandi um gallsúra jólatexta: Fyrir allmörgum árum starfaði ég á Húsavík og var á vakt rétt fyrir jólin. Vaninn er að læknar stöðvarinnar hittist að morgni og vaktlæknir fari yfir helstu atburði liðinnar vaktar. Á fundi að morgni Þorláksmessu sagði ég þeim að í mig hefði hringt maður á miðjum aldri og haft áhyggjur af föður sínum. Hann væri orðinn gamall og einn, og því hefðu þeir bræðurnir, synir hans, ákveðið að koma saman allir sjö og vera með honum um jólin. Þeir höfðu svo setið að spjalli í stofunni allir saman þegar undarlegir atburðir tóku að gerast. Sá gamli stóð á fætur og lýsti því hátíðlega yfir að hann elskaði alla syni sína. Þeir tóku því vel og endurguldu ást hans í orði. En þá lagði karl hendur saman eins og fyrir bæn og hneigði sig í sífellu. Svo klappaði hann saman lófunum, stappaði niður fótum nokkrum sinnum, vaggaði mjöðmunum til og frá og sneri sér að því búnu einn hring.  Þetta endurtók hann tvívegis; hélt svo áfram spjallinu eins og ekkert hefði í skorist. Nefndi þó aftur að hann elskaði þá alla. Sonur mannsins vildi nú vita hvort ástæða væri til að læknir liti á hann. Gæti þetta verið heilablóðfall? Rugl vegna sýkingar? Bráð sturlun?

Félagar mínir höfðu setið með spekingssvip, albúnir að leggja mér lið með gáfulegum tillögum um uppvinnslu og áframhald. Svo könnuðust þeir við Adam.

Hvað er hann að sá? Og af hverju á jólunum? Og hver sáir svona bjánalega, með hendur í bænastellingu? Ég sættist við þá skýringu að þetta væri danska: Han saa de. Hann sumsé sá synina. Gott og vel. Mér hefur þó alltaf þótt eitthvað sjúklegt við þetta hátterni.

Í dag er glatt var uppáhalds. Af því að maður sá fílinginn hríslast um afa gamla þegar það fór í gang. Hann var held ég vita laglaus sjálfur, og aldrei heyrði ég hann syngja, en einhvern jólastreng snerti Mozart í honum. Þetta fallega lag er eitthvað svo dapurlegt en textinn einn allsherjar rífandi fagnaðarboðskapur. Sennilega er þetta þó á sinn hátt lýsandi fyrir lúterskt helgihald: Mikill fögnuður boðaður með hálfgerðum hundshaus.

Ég er alinn upp við reykt svín á aðfangadag. Svínakambur, bayonneskinka, hamborgarhryggur. Lengi vel át ég bert kjötið með rauðrófum en bætti svo öðru meðlæti við þegar bragðlaukar slitu barnsskónum. 

Pabbi skaut eitt sinn hálfa rjúpu þegar prófa átti villtara mataræði. Hún dugði skammt.

Á jóladag var arkað niður í Odda til afa og ömmu. Svona um hádegið; rétt eftir að maður opnaði augun, svínakets- og konfektþrútin. Þar var jólahangiketið snætt. Afi gerði skúrblönduna, kókblandað malt og appelsín. Hann notaði litlu glerflöskurnar, það voru réttu hlutföllin. Nafnið kom til vegna þess að hann fór með könnur út í skúr (bíslagið á Odda) og lokaði að sér. Síðan blanda ég alltaf kóki í malt og appelsín.

Svo liðu jólin í vellystingum og áhyggjuleysi þess sem ekki þarf að mæta í skólann fyrr en eftir áramót. Jólaböll fyrir krakka voru haldin í Víkurröst. Þau var ég tregur að sækja, enda feiminn og spéhræddur, alls ólíkur Búrfells-Skjóna langafa míns sem var “svifóttur í haga og gamansamur á mannamótum”.

Maður skalf af leiðindum yfir fréttaannálum á gamlárskvöld, bíðandi eftir Sirkus Billy Smart og skaupinu. Nú er Billy Smart löngu dauður, og öll dýrin af illri meðferð og trúðarnir úr sorg. Engar prúðbúnar þulur á skjánum með logandi jólakerti. Og fréttaannállinn það skemmtilegasta í dagskránni. Svona verður maður galinn með árunum.

Flugeldum var svo fýrað upp í kringum miðnættið; heldur var það hófsamara en nú. Ártalið í fjallinu var ómissandi. Það var brilliant framtak og mikill sjónarsviptir að því.

Eftir nýársdag hrökk mannlífið í sitt gamla horf, fólk skrapp í kaupfélagið, það var soðin ýsa og skyr og brauð á virkum dögum, lifur og gota á útmánuðum, það hríðaði, fraus og hlánaði og svo voraði og allt kom í ljós; sumarið með hafgolu og taktföstum, klingjandi skellum fánalínanna við flaggstangirnar. Og svo haustaði og skólaði og aftur nálguðust jólin…

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar
Kammerkór Norðurlands

14. desember, 2023

Jólatónleikar Kammerkórs Norðurlands í Bergi laugardaginn 16. desember kl. 20 Stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is