Jólasveinapóstur á Dalvík

Við, sem ólumst upp á Dalvík, munum alltaf eftir jólasveinapóstinum á aðfangadag. Eftirvæntingin var mikil að bíða eftir jólasveinunum, enda ekkert sjónvarp með barnaefni þá til að stytta okkur biðina eftir jólunum. Við systkinin lágum úti í gluggum og biðum spennt. Þeir komu þrír saman og drógu sleðann með póstinum í á eftir sér.  Svo þegar þeir komu var mikið fjör og sumir yngstu krakkarnir voru hálf hræddir við þessa karla. Þegar þeir höfðu afhent póstinn fengu þeir gjarnan epli eða appelsínu með sér í nesti. Þessi póstur, sem jólasveinarnir komu með, var og er jólakort og bögglar sem Dalvíkingar sendu sín á milli innanbæjar. Póstur og sími sá svo um þann póst sem kom lengra að og Raggi póstur bar hann út. 

Upphafið að þessu var að upp úr 1932 kom Ásgeir P. Sigurjónsson barnakennari á fót barnadeild innan Ungmennafélags Svarfdæla. Fyrir jólin 1938 kom hann því á að fá jólasvein til að bera út bréf og böggla á aðfangadag. Þetta vakti almennan fögnuð og á Þorláksdag var tekið við póstinum í skólanum, eins og gert er enn í dag, og hann borinn út á aðfangadag. Krakkar taka á móti póstinum og flokka hann í húsin. Til gamans má geta þess að fyrsti jólasveinninn, sem bar út jólapóstinn, var 13 ára strákur sem hét Friðjón Kristinsson. Hann var lengi póstafgreiðslumaður á Dalvík og hlaut viðurkenningu fyrir góðan frágang á póstinum og stimplarnir hans þóttu skírir og vel læsilegir.

Jólin 1982 voru jólasveinarnir orðnir 15 talsins. Þeir fóru oftast um gangandi eða á skíðum og notuðust við sleða og snjóþotur enda snjóþyngsli oft mikil. Síðar tóku þeir tæknina í sína þjónustu og draga nú sleðana á dráttarvélum og vélsleðum. Þeir fara um bæinn þrír og þrír saman og eru að allan daginn. Það tekur tímann sinn að útbúa alla þessa jólasveina og lengi hafði Steingrímur Þorsteinsson kennari yfirumsjón með því, en hann var einnig mjög virkur í Leikfélagi Dalvíkur. Hann málaði leiktjöld, sminkaði leikarana, lék og leikstýrði. Þar á meðal lék hann Skugga-Svein með tilþrifum. Elsti bróðir minn (hann Viggi), var jólasveinn upp úr 1970 . Það var gaman þegar hann kom heim í jólamatinn, útitekinn og allur í sminki í framan, með kassa af eplum og appelsínum, sem höfðu sankast að honum í „jólasveininum“ eins og Dalvíkingar segja. Það er notalegt að rifja þessar skemmtilegu minningar upp. Ég held að svona jólasveinapóstur sé hvergi á landinu nema á Dalvík. Vona ég að þessi siður lifi sem lengst.

Þessi grein birtist í Póstmannablaðinu 2006.

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar
Kammerkór Norðurlands

14. desember, 2023

Jólatónleikar Kammerkórs Norðurlands í Bergi laugardaginn 16. desember kl. 20 Stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is