Í aðdraganda jóla 1965

Vinkonur tvær liggja í snjónum og búa til „engla“ með því að sveifla höndum og fótum  til hliðanna og  til baka nokkrum sinnum, rísa svo upp og dást að afrekinu, færa sig um set og búa til fleiri engla, marga engla.  Það eru koma jól.  Að lokum liggja þær kyrrar í einum englinum og horfa upp í stjörnubjartan himininn, þær þekkja báðar Fjósakonurnar og svo er tunglið líka þarna.  Þær sjá greinilega andlit karlsins í tunglinu, hann brosir til þeirra af velþóknun.  Þvílík undursamlega dýrð þarna á himninum og Jesúbarnið á bráðum afmæli á sjálfum jólunum. 

Þær eru á leið heim úr skólanum, eru lengi á leiðinni og koma við hjá Ingu Ásgeirs, kennara.  Það var alltaf svo gaman að koma í dyrnar hjá henni og spjalla aðeins um allt það skemmtilega sem Inga er að láta bekkinn föndra fyrir jólin og nú er verið að búa til jólatré, sem bekkurinn á saman.  Á litlu jólunum á svo að setja á það logandi kerti og silfurstjörnur og pakkana sem lagðir eru  í púkk.  Síðan verður teiknuð jólamynd á alla krítartöfluna og hengdir upp músastiganarnir sem höfðu verið fléttaðir úr marglitum kreppappír.

Þær rölta í rólegheitum út að Bárubúð og kíkja aðeins inn til að sjá öll leikföngin sem Bára hefur fengið fyrir jólin. Hillurnar eru fullar af fallegum brúðum og bílum og ýmsu dóti sem gaman er að horfa á og láta sig dreyma um. Það eru margir í búðinni í jólainnkaupum og Bára mælir efni úr stranga fyrir Öbbu, sem ætlar að sauma fallega jólakjóla á dætur sínar.  Já það eru sannarlega að koma jól.

Þær halda áfram för sinni og við blasir jólastjarnan á þaki Kaupfélagsins og fyrir framan það stendur jólatréð með marglitum ljósum, hátt og tignarlegt.  Í glugganum í vefnaðarvörudeildinni hneigir jólasveinninn höfuðið í sífellu.  Þetta þrennt er staðfastleg sönnun á jólakomunni á Dalvík. 

Vinkonurnar fara inn í búðina.  Á móti þeim stendur Dóri og afgreiðir í Skeifunni.  Jónas í Koti fær sér í nefið og þeir Dóri hlæja hátt að einhverju.  Í vefnaðarvörudeildinni eru Alla og Svanbjörg að stússast með tölur og tvinna, sokka og belti og bindi og fleira sem nauðsynlegt er að geta keypt fyrir jólin.  Á mörkum Skeifunnar og vefnaðarvörudeildar er leikfangadeildin.  Þar er nú aldeilis hægt að gleyma sér. Bollastell, eldavélar, upptrekktir bangsar og bílar, postulínshundar og líka pappírshattar fyrir áramótin.  Þarna er sannkallað gósenland fyrir unga huga.

En vinkonurnar hafa ekki mikil auraráð og skunda  því yfir í matvörudeildina, þar sem Rósa tekur broshýr á móti þeim, þrátt fyrir miklar annir við að vigta hveiti og sykur og vanillukex í poka fyrir Jónu Bjössa.  „Hvað viljið þið, stelpur mínar ?“  Rósa  horfir kankvís á þær.  Vinkonurnar vilja möndlur í poka fyrir tvær krónur á tíu aura stykkið.  Rósa tekur skeiðina og telur möndlurnar vandlega ofan í kramarhús, sem hún snýr upp á staðnum. Eplalyktin fylgir þeim út úr búðinni og þær vita að í kjöllurum flestra húsa munu verða stórir kassar fullir af eplum og appelsínum um jólin, sem heimilisfólk fær að gæða sér á til hátíðarbrigða.

Vinkonurnar eru nú komnar framhjá Barnum og Mjólkurbúðinni og stefna á Kjötbúðina til Kæju og Friðjóns.  Hangikjötið er komið á sinn stað við vesturgluggann og nú hafa einnig komið nokkrar tunnur af vínberjum, sem mun skipt nokkuð jafnt milli kaupenda á Dalvík.  Friðjón gefur stelpuskottunum tvö vínber hvorri að smakka.  Þvílíkur munaðurog unaðslegt bragð, þó smá korkur fylgi með úr tunnunni, sem bara eykur enn á framandleikann.

Þær ganga nú upp Lágina og önnur hverfur heim til sín í Höfn og hin trítlar inn til ömmu í Sælandi, sem stendur við eldavélina og er að hita kakó.  Á eldhúsborðinu er jóladúkur, voxdúkur, eins og amma segir.  Á dúknum eru myndir af jólaveinum og hreindýrum og fallegum jólapökkum.  Amma nær í smákökur og laufabrauð fram í búr og ber fyrir dótturdóttur sína, sem borðar af bestu lyst.  Það er svo gott að koma til ömmu og nú eru að koma jól.

Södd og sæl röltir hún upp Bárugötuna heim til mömmu.  Yngri systkinin eru hjá henni í eldhúsinu og ilmur af smákökubakstri umvefur allt.  Inni í stofu er annar ilmur, af tekkolíu og húsgagnabóni.  Mamma sér um það.  Nú mætti pabbi fara að koma heim af sjónum.  Það eru að koma jól.

8. desember 2013

Valgerður Gunnarsdóttir – Birt með leyfi Norðurslóðar

Júlíus Júlíusson

Júlíus Júlíusson er Dalvíkingur í húð og hár. Júlli hefur haldið úti Jólavef Júlla síðan 1999. Júlli er sælkeri og mataráhugamaður.

Tengdir Pistlar

Fleiri Pistlar

  • All Post
  • Jól

Nýir pistlar

Jólatréð sótt

23. desember, 2023/

Á hverju ári förum við saman tvær fjölskyldur til þess að sækja okkur lifandi jólatré í Hálsaskóg í Hörgárbyggð.…

Jólavefur Júlla

Jólin koma

Tilkynningar

  • All Post
  • Tilkynningar
Kammerkór Norðurlands

14. desember, 2023

Jólatónleikar Kammerkórs Norðurlands í Bergi laugardaginn 16. desember kl. 20 Stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson

Magasín vefurinn julli.is er lifandi vefur sem er til skemmtunar og fróðleiks. Hér má finna nánast allt sem tengist jólunum. Skrif um mat, uppskriftir, myndbönd, gagnrýni, hefðir og hugmyndir. Átthagavefur, fólkið, fréttir, fjöllin og fegurðin. Veður, Ráðgjöf, og fleira áhugavert. Fylgist með.

© 2024 Júlíus Júlíusson

Vefsíðugerð: webdew.is