Veðurklúbbur Dalbæjar 10. janúar 2024
Að þessu sinni var fundur klúbbsins haldinn óvenju seint eða 10. janúar. Fundurinn var haldinn í betri stofunni klukkan 10 og fundi lauk kl. 10:45. Fundarmenn voru 11 talsins.
Nýtt tungl kviknar 11. jan klukkan 09:54 í suðaustri. Nefnist tunglið Þorratungl, það er fæðing þess tunglmánaðar sem er tveim tunglmánuðum á undan páskatungli og er Góutungl þar á milli og kviknar þorratunglið oftast nærri upphafi Þorra.
Út frá tunglstöðu má leiða líkur á því að norðaustan áttir ráði ríkjum með tilheyrandi kulda og snjókomu það sem eftir er af janúar mánuði. Þetta kemur heim og saman við drauma nokkurra veðurklúbbsmeðlima t.a.m. dreymdi klúbbmeðlim ítrekað hey síðustu nætur og líklega boðar snjókomu. Fullt tungl verður 25. janúar kl. 17:54. Eftir spá og draumráðningar leiddist umræðan út í vonskuveður og hve fljótt veður getur breyst úr góðu í slæmt. Einn klúbbmeðlimur rifjaði upp þegar hún hélt upp á afmælið sitt. Um morguninn var var blíðskapar veður og ekki útlit fyrir að annað yrði upp á teningnum, svo brast hann á með beljandi stórhríð. Björgunarsveitin kom svo og þurfti að aðstoða veislugestina til síns heima.
Til er vísa þó ekki sé hún óbrigðul um hvernig hægt er að reikna út frá Þorratunglinu hvernig páskatunglið er og mögulega páskaveðrið.
Þá þorratunglið tínætt er
tel ég það lítinn háska
næsta sunnudag nefna ber
níu víkur til páska
Ljósmyndari: Friðjón Árni Sigurvinsson.